Félag Eldri borgara á Eyrarbakka stóð fyrir sinni árlegu Góugleði í samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka laugardagskvöldið 8. mars sl.(2008) Að venju var góð þátttaka og sóttu samkomuna eldri borgarar úr Árborg og víðar af Suðurlandi. Guðfinna Sveinsdóttir, Garðafelli, formaður félagsins setti hátíðina og fól síðan Jóni Bjarnasyni veislustjórn og kynningu skemmtiatriði sem nær öll voru af Eyrarbakka.
Hann sá jafnframt um danstónlist að borðhaldi loknu og var mikil þátttaka í dansinum og svifið létt um gólf í virðulegum glæsileika. Ræðumaður kvöldsins var Björn Ingi Bjarnason á Ránargrund. Minni karla og kvenna fluttu hjónin Íris Böðvarsdóttir og Karl Hreggviðsson á Óseyri. Þá léku hjónin Oddhildur Guðbjörnsdóttir og Sigurður G. Sigurðsson í Heiðmörk nokkur lög á harmoniku og gítar. Þá fluttu fjórir félagar í Leikfélagi Selfoss kafla úr Gullna hliðinu eftir Davíð Stefánsson.