Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Mars

26.03.2013 19:20

Garðaþjónusta Friðsældar

Friðsæld ehf. á Eyrarbakka býður upp á alhliða garðaþjónustu. 

Það er Siggeir Ingólfsson sem stendur að fyrirtækinu en hann býr yfir mikilli þekkingu og langri reynslu í garðyrkju- og tengdum málum. Hann er útskrifaður frá Landbúnaðarháskóla Ísland, skrúðgarða- og garðyrkjudeild. Þá var hann um árabil yfirverksdtjóri Umhverfisdeildar hjá Sveitarfélaginu Árborg.

Allar nánari upplýsingar hjá Siggeiri í síma: 898-4240

Siggeir Ingólfsson var að störfum í nokkrum görðum á Eyrarbakka í dag.

 

Menningar-Staður var á ferðinni og færði til myndar og í lokin var tekin stefnumótun í Menningar-Sellu.

 

 

Við Norðurkot.

 

 

 

 

 

Við Kirkjubæ.

 

 

 

Við Ránargrund.

 

 

 

 

 

Siggeir Ingólfsson við stefnumótun í Menningar-Sellu.

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

 

26.03.2013 08:36

Einmánuður byrjar í dag 26. mars 2013 - Góuþrællinn var í gær

Einmánuður, síðasti mánuður vetrar, hefst nú á þriðjudegi  20. til 26. mars en 10. mars til 16. mars í gamla stíl fyrir 1700. 

Fyrsti dagur einmánaðar er nefndur í elstu heimildum í tengslum við hreppssamkomu þar sem meðal annars var skipt fátækratíund. Síðar varð þessi dagur að heitdegi í Skagafirði, Eyjafirði og að nokkru í Þingeyjarsýslum. Samkomur, heitgjafir og helgihald héldust fyrsta dag einmánaðar þar til konungur bannaði heittdaginn 1744. Urðu embættismenn að ítreka það bann fram á 19. öld. 

Einmánuður er helgaður piltum og harpa stúlkum á sama hátt og húsbændur og húsfreyjur áttu þorra og góu. Fyrsti dagur einmánaðar hefur verið kallaður  “yngismannadagur”  á síðustu öldum, og áttu stúlkur að fagna honum. Sagt er að votur einmánuður boði gott vor. 

Þessi kviðlingur um einmánuð var allkunnur á Vestfjörðum: 

Einmánuður minn, minn
gakk þú í bæinn.
Vertu ekki úti í vindinum
vorlangan daginn. 


Til þess að vorið yrði gott þótti þetta besta veðráttan á útmánuðum eins og segir í eftirfarandi kviðlingi: 

Þurr skyldi þorri
þeysin góa
votur einmánuður
þá mun vel vora.

 

Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson. 

 

 

 

"Yngismannadagur" - allavega yngismenn í anda - drekka hér "menningarkakó"

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

26.03.2013 06:48

Galskapurinn með flugvöllinn og fangelsið á Hólmsheiði

„Hún óx um tíu alda bil,

naut alls, sem þjóðin hafði til,“

sagði skáldið Einar Benediktsson um Reykjavík. Allir landsmenn eiga hlutdeild í höfuðborginni hún er hjartastaður landsins, hefur upp á svo margt að bjóða sem getur bara verið þar í okkar litla landi. Alveg eins eiga höfuðborgarbúar sveitina með okkur, þar er margt svo yndislegt sem hvergi er annars staðar. Óvinir höfuðborgarinnar eru þeir sem alltaf eru að staglast á því að flugvöllurinn eigi að fara burt úr borginni, þar þurfi endilega að byggja blokkir.

Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er mikilvægur staður, honum fylgir mikið líf. Reykvíkingar geta á innan við klukkutíma flogið á fjarlæga staði í sínu landi. Á Ísafjörð, Akureyri, Egilsstaði, Hornafjörð og Vestmannaeyjar og gagnkvæmt, landsbyggðarmenn á sama tíma komist til Reykjavíkur. Svo er beint flug til höfuðborga Færeyja og Grænlands með vaxandi þjónustu hér á landi. Svo tala þessir áróðursmenn um Hólmsheiði sem flugvallarstað sem liggur í eitt hundrað og þrjátíu metra hæð utan borgarinnar, fjarri allri þjónustu. Flugmenn segja mér að Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni sé öryggisflugvöllur Íslands fyrir flugið í landinu öllu. Fari hann þaðan sé innanlandsflugið sem slíkt búið. Ekki hef ég vit á því en þeim treysti ég og veit að þeir eru að segja satt. Bara eitt: Hvað skyldi þokan og verri veðrátta vindur ofl. oft umlykja Hólmsheiðina, meðan Vatnsmýrin er yfirleitt alltaf fær í flugi?

 

 

Skoðaði Hólmsheiði

Ég gerði mér ferð upp á Hólmsheiði til að skoða flugvallarstæðið og hvar fangelsið á að rísa, sem er önnur della. Ég verð að segja, það duttu af mér „allar dauðar lýs,“ staðurinn langt utan borgarinnar, fjarri allri þjónustu þar sem ekkert er og kostar milljarða að taka byggingarlandið í gagnið. Fara með flugvöll upp á öræfi Reykvíkinga til að leika sér að hættunni í fluginu og eyða milljörðum af peningum að gamni sínu í tukthús sem hægt væri að byggja fyrir tiltölulega lítinn pening niðri á Hlemmi við lögreglustöðina. Hvað gengur að fólki sem lætur svona? Eyrarbakki er orðinn í seilingarfjarlægð, þar hafa höfuðstöðvar fangelsismála verið byggðar upp. Ég er hinsvegar ekkert að efast um að hér í Reykjavík þurfi að vera lítið gæsluvarðhaldsfangelsi. En þessi leikur er sóun á almannafé, peningum sem ekki eru til.

 

Liggur eitthvað við? Já, líf liggur við

Í þessum tveimur miklu áformuðu verkum liggja margir milljarðar sem hægt er að spara, peningar sem ekki eru til í dag. Flugvöllur allra landsmanna er á réttum stað í Vatnsmýrinni. Fangelsisbygging þarna upp frá er sóun á almannafé og undarleg þráhyggja. Enn er hægt að hætta við bæði þessi áform á þessum stað og peningunum er betur varið til að gera það sem gera þarf í brýnustu málum Landspítalans og heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Sparnaðinum ætti að verja til að endurnýja ónýt tæki og koma í veg fyrir að heilbrigðiskerfið hrynji í hausinn á okkur öllum með þeim fórnum sem því fylgja. Þarna stendur hnífurinn í kúnni, í dag. Þarna liggur okkar bráðasti vandi. Eitt besta heilbrigðiskerfi á Norðurlöndum sem var er nú að hruni komið. Íslenska heilbrigðiskerfið. Líf liggur við að endurreisa það.

 

Guðni Ágústsson  -  Höfundur er fyrrv. landbúnaðarráðherra  -  Morgunblaðið þriðjudagurinn 26. mars 2013

 

 

Guðni Ágústsson við prédikun í Strandarkirkju fyrir nokkrum árum. -  

Þegar Guðni Ágústsson talar - þá er hlustað.

 

 

 

Litla-Hraun og Eyrarbakki.  Ljósm.: Mats Wibe Lund.

 

 

 

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

26.03.2013 06:34

Skóflustunga á Hólmsheiði

Tímamót verða í sögu fangelsisbygginga hinn 4. apríl nk. þegar tekin verður fyrsta skóflustunga að nýju fangelsi á Hólmsheiði.

Í rúma hálfa öld hafa menn velt fyrir sér hvar best væri að reisa nýtt fangelsi og hvernig það skyldi búið. Föngum fjölgar í takt við fjölgun íbúa og af þeim sökum hafa fangelsin verið þéttsetin. Sum fangelsanna uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru til slíkra húsa í nútímanum.

Í umræðu um ný fangelsi hefur stundum verið bent á „einfaldar“ lausnir og „ódýrar“ eins og auða og yfirgefna skóla á ýmsum landshornum, fangaskip, gáma o.fl. í þeim dúr en þá hefur gleymst að fangelsi eru fyrir fólk sem nýtur mannréttinda enda þótt það hafi brotið af sér. Fangelsisbyggingar hafa verið teiknaðar og hannaðar en þær hafa ekki risið. Lengst komst þó fangelsisbyggingin við Tunguháls í Reykjavík á sínum tíma. Grunnur var steyptur en síðar var mokað yfir hann. Lengra náði ekki sú saga.

Nú er horft til þess að nýtt fangelsi verði risið á Hólmsheiði 2015. Öll undirbúningsvinna er komin það langt á veg að trauðla verður aftur snúið. Skóflustungan á Hólmsheiði í aprílbyrjun verður vonandi órækt merki um að verkið muni hafast.

Þarflaust er að taka fram að mikil undirbúningsvinna hefur farið fram og margir komið að því verki. Í nútímanum er ekki eins auðvelt og margur heldur að teikna og reisa fangelsi enda verður að uppfylla ýmsa alþjóðlega staðla og taka tillit til mannréttinda þeirra sem hljóta fangelsisdóma.

Fyrirhugað fangelsi á Hólmsheiði verður lágreist bygging, hógvær en þó festuleg þar sem hún hvílir í kyrrð heiðarinnar. Hún er í útjaðri borgarinnar eins og Hegningarhúsið var á sínum tíma að áliti margra. Nú er það gamla og virðulega hús í hringiðu borgarinnar og aldrei að vita nema sömu örlög bíði Hólmsheiðarfangelsisins en það er nú önnur saga.

Með nýju fangelsi á Hólmsheiði verður stigið tímamótaskref í byggingarsögu fangelsa hér á landi. Stefnt er að því að bæta skilyrði til afplánunar fangelsisrefsinga frá því sem nú er. Kvenfangar verða vistaðir í Hólmsheiðarfangelsinu og Kvennafangelsið í Kópavogi lagt niður. Kvenfangar hafa búið við lakari skilyrði til afplánunar en karlar; núverandi húsakynni kvennafangelsisins eru þröng og aðstaða til útivistar óviðunandi. Karlfangar eru iðulega vistaðir meðal kvenfanga og gengur stundum vel og stundum miður. Í nýja fangelsinu munu þær ekki afplána á sömu fangelsisdeildum og karlar heldur vistast sér – rými verður fyrir átta til tíu konur. Sameiginlegt rými á kvennadeild fangelsisins verður vel búið enda haft í huga að þar þurfi sumar konur að afplána langa dóma. Útivistarsvæði kvenna verður um 400 m². Þá verður og Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg 9 lokað en í nýja fangelsinu verður móttökudeild – og gæsluvarðhald. Aðstaða fanga til vinnu og náms verður stórefld. Boðið verður upp á afþreyingu og æfingaaðstöðu í útivistartíma fanga. Þá verður sérstök íbúð, heimsóknaríbúð, sem ætluð er til heimsókna maka með börn og möguleiki á að geta dvalist þar næturlangt með fanganum. Þetta fyrirkomulag er mikilvægt og mun efla tengsl fanga og barna þeirra. Börn fanga eru nefnilega ósýnilegur hópur sem þarf að gefa sérstakan gaum, styðja og vernda.

Það á að vera eitt höfuðmarkmið fangelsa nútímans að auka möguleika fanga til farsæls og heiðarlegs lífs. Á það skal bent að góður aðbúnaður í fangelsi, fjölbreyttir möguleikar til náms og starfa ásamt andlegri og líkamlegri uppbyggingu, er líklegri til að skila jákvæðum árangri heldur en ella og stuðla að hamingju. Fangavist má ekki vera innihaldslaus – vistin má ekki vera án dagskrár eða jafnvel einhvers konar tímabundið dagskrárhlé.

Lýðræðissamfélög nútímans hafa í hávegum virðingu fyrir manngildi og réttlæti. Þau mótast af raunsærri bjartsýni á manneskjuna og búa yfir miklum sveigjanleika sem tekur þó af festu á lögbrotum og lýsir yfir vanþóknun á þeim. Mannúð, virðing og velferð allra eru einkunnarorðin. Sú virðing tekur til fangans sem manneskju enda þótt hann hafi með brotum sínum hvorki sýnt virðingu né tillitssemi. Þau sem í fangelsi eru hafa hrasað á vegi lífsins og gjalda fyrir það. En samfélagið á ekki að gjalda fyrir það að fólk sitji í fangelsi og fari þaðan jafnvel verra en það kom. Fangarnir eiga ekki heldur að gjalda fyrir það að vera í fangelsi og verða fórnarlömb vistar þar sem tilgangsleysi svífur yfir vötnum, iðjuleysi og doði.

Fangelsið á Hólmsheiði verður nútímalegt fangelsi þar sem tekið er tillit til öryggis borgaranna. Einnig mun það renna traustum stoðum undir nýtt og farsælt líf þeirra sem þar vistast um lengri eða skemmri tíma. Það er allra hagur að vel sé búið að föngum og að þeir fái möguleika til að fóta sig úti í samfélaginu sem heilar og góðar manneskjur. Til þess er meðal annars nýtt fangelsi reist.

 

Hreinn S. Hákonarson   -  Höfundur er fangaprestur þjóðkirkjunnar  -  Morgunblaðið þriðjudagurinn 26. mars 2013

 

 

 

Hreinn S. Hákonarson.

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

 

 

25.03.2013 23:12

Reynslumiklum formönnum á Eyrarbakka þökkuð góð störf

Aðalfundur Björgunarsveitarinnar Bjargar Eyrarbakka var haldinn síðastliðinn laugardag. Á fundinum bar hæst að eftir 22 ára setu í formannsstól ákvað Guðjón Guðmundsson að hætta sem formaður og Hlöðver Þorsteinsson að hætta sem varaformaður eftir 8 ára setu sem slíkur.

Nýja stórn sveitarinnar skipa Víglundur Guðmundsson formaður, Jóhann Jónsson varaformaður, Helga Kristín Böðvarsdóttir ritari, Hafdís Óladóttir gjaldkeri og Gunnar Ingi Friðriksson meðstjórnandi. 

Þeir Guðjón og Hlöðver fengu afhent blóm í þakklætisskyni fyrir sitt mikla framlag til starfa fyrir sveitina.

Mikið starf er í þessari 85 ára, gamalgrónu sveit um þessar mundir og margt að gerast. Verið er að velta fyrir sér endurnýjun tækja, viðbyggingu við húsnæði sveitarinnar og hafin er bygging á þjónustuhúsi á taldsvæðinu sem björgunarsveitin rekur.

 

(F.v.) Helga Kristín, Hlöðver, Guðjón, Víglundur og Gunnar Ingi. Helga og Gunnar sitja áfram í stjórn ásamt Víglundi, nýjum formanni.

Af: www.sunnlenska.is

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

25.03.2013 19:37

25. mars 2013 - góuþrællinn

Góuþræll er nefndur síðasti dagur góu og var í gamansemi að ánafna hann þeim konum sem með einhverjum hætti þóttu hafa gert sig berar að lauslæti. 

Áður og fyrr höfðu menn illan bifur á góuþrælnum vegna veðurfars, einkum á Suðurlandi.  Annálar á 17. öld minnast oftsinnis á illviðri og mannskaða á góuþræl. 

Mjög slæmt þótti að góuþrællinn færi saman við boðunardag Maríu 25. mars enda orti Bólu-Hjálmar: 

Vottur er það varla góðs 
veðurátt mun kælin 
þá boðunarhátíð besta fljóðs 
ber á góuþrælinn.

 

Gríðarlegt blíðviðri var á Suðurlandi í dag á góuþrælnum og fóru nokkrir Eyrbekkingar í vorferð um Flóann.

Menninngar-Staður færði til myndar.

 

 

Við skógræktina í Timburhólum.

 

 

 

Minnisvarði um hjónin í Vorsabæ

 

 

 

Komið var við í Holti hjá Önnu Guðrúnu Bjarnardóttir t.h. sem tekið hefur Gróu Björnsdóttur frá Flateyri upp á arminn.

 

Í gestabókaina í Holti var skrifað í dag:

 

Góuþræll á góðum hvar

Gróu var að keyra.

Anna Guðrún okkur bar

ánægju og fleira.

 

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

25.03.2013 13:55

Leikarar fagna

Fyrirspurn kom um þessa mynd.
 

Myndin er tekin eftir sýningu á  -Let it be-  sem Fjölbrautaskóli Suðurlands sýndi í Menningarsalnum í Lista- og menningaversdtöðinni Hólmaröst á Stokkseyri vorið 2006. 

 

Á myndinni eru afinn, Baldvin Halldórsson leikari og afastrákurinn, Baldvin Karel Magnússon sem lék í söngleiknum frábæra.

 

 

F.v.: Baldvin Halldórsson og Baldvin Karel Magnússon.

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

25.03.2013 07:16

Mynd dagsins

Hrútavinabandið og Karen Dröfn Hafþórsdóttir í 120 ára afmælisfagnaði Búnaðarfélags Stokkseyrarhrepps hins forna sem haldinn var í Hafinu bláa  við Ölfusá síðsumars 2008.

 

Myndband: Hrútaviunabandið og Karen Dröfn

 

 

 

F.v.: Víðir Björnsson, Jóhann Vignir Vilbergsson, Karen Dröfn Hafþórsdóttir, Karl Magnús Bjarnarson og Guðmundur Einar Vilbergsson.

 

Skráð af: Menningar-Staður

24.03.2013 22:01

Mynd dagsins

Mynd dagsins á Menningar-Stað

Hrútavinabandið og Sigurður Torfi Guðmundsson í 120 ára afmælisfagnaði Búnaðarfélags Stokkseyrarhrepps hins forna sem haldinn var í Hafinu bláa  við Ölfusá síðsumars 2008.

 

 

F.v.: Jóhann Vignir Vilbergsson, Víðir Björnsson, Karl Magnús Bjarnarson, Sigurður Torfi Guðmundsson og Guðmundur Einar Vilbergsson.

 

Skráð af: Menningar-Staður

24.03.2013 06:57

Skaftfellingar í undanúrslitin Spurningakeppni átthagafélaganna

Átta liða úrslit í spurningakeppni átthagafélaganna fóru fram í fimmtudagskvöldið 21. m,ars sl. í Breiðfirðingabúð í Reykjavík. Skaftfellingar eru komnir í undanúrslitin en Árnesingar féllu úr leik.

Lið Árnesingafélagsins laut í lægra haldi fyrir öflugu liði Breiðfirðingafélagsins, 19-8, en Breiðfirðingar voru reyndar á heimavelli. Jón M. Ívarsson frá Vorsabæjarhóli í Gaulverjabæjarhreppi kom nú inn í liðið í stað Sigmundar Stefánssonar.

Skaftfellingar náðu hins vegar að slá út Ólaf Helga Kjartansson, sýslumann Árnesinga og félaga hans í liði Áttahagfélags Sléttuhrepps, 14-12, í spennandi viðureign.

Lið Dýrfirðinga og Norðfirðinga komust einnig í undanúrslit og munu eigast þar við en Skaftfellingar keppa þar við Breiðfirðinga. Undanúrslit verða 11. apríl.

 

 

 

Lið Skaftfellingafélagsins.

 

 

Lið Átthagafélags Sléttuhrepps með Ólaf Helga Kjartansson sýslumann á Selfossi í miðju.

 

 

Lið Dýrfirðingafélagsins með Torfa Sigurðsson á Selfossi lengst til vinstri.

 

 

Lið Árnesingafélagsins.

 

Af: www.sunnlenska.is

 

Hér skráð af: Menningar-Staður