Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Apríl

22.04.2013 05:56

Horfi til baka með þakklæti

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Birgitta Spur.

Það er mjög sérstakt að vera gift manni sem lifir sig svo inn í vinnu sína og hugmyndir að hann leyfir engu öðru að komast að. Ég var og er mjög hrifin af list Sigurjóns.

 

• Birgitta Spur ræðir um Listasafn Sigurjóns Ólafssonar sem hún stofnaði árið 1984 en safnið er nú deild í Listasafni Íslands

 

Úr djúpunum

er sýning sem verður opnuð síðasta vetrardag, miðvikudaginn 24. apríl, í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í Laugarnesi. Titill sýningarinnar vísar til þeirra furðuskepna sem Sigurjón tók að fást við um og eftir 1960, og í verkum hans má meðal annars finna tengingar við hugmyndir listamanna þeirra tíma um súrrealisma og hið sjálfsprottna listform. Sýningin er sú fyrsta eftir sameiningu Listasafns Sigurjóns Ólafssonar og Listasafns Íslands sumarið 2012.

Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns, stofnaði Listasafni Sigurjóns Ólafssonar árið 1984 og var það rekið sem sjálfseignarstofnun til ársins 2012. Hún er spurð um ástæður þess að hún stofnaði safnið á sínum tíma. Hún segir: „Sigurjón lést árið 1982 og lét eftir sig mikið af verkum á vinnustofu sem var farin að láta svo mikið á sjá að verkin voru ekki óhult þar. Á þessum tíma var ég menntaskólakennari og það var ekki nokkur leið að ég gæti ráðist í stóra endurbyggingu á húsnæðinu. Mér var ráðlagt að stofna safn þannig að til yrði rammi utan um öll þessi verk. Árið 1984 var stofnað einkasafn og síðan var hafist handa við að afla fjármagns til endurbyggingar sem átti sér stað á árunum 1985-88. Þetta varð miklu stærra dæmi en mig hafði órað fyrir. Þetta tókst þó með aðstoð góðra manna því óhemjumargir sýndu málinu skilning og styrkir fengust frá ríki og borg. Heildarupphæðin við endurbyggingu var 40 milljónir á árunum 1985-1988 og með því að nýta framlög frá einstaklingum og fyrirtækjum og höfundargreiðslur fyrir afsteypum sem við seldum þá tókst okkur fjölskyldunni að fjármagna framkvæmdir að tveimur þriðju hluta. Safnið var opnað 21. október 1988 en þann dag hefði Sigurjón orðið áttræður og árið eftir var safnið gert að sjálfseignarstofnun með stjórn og 12 manna fulltrúaráð.

Mitt hlutverk hefur verið að halda utan um þessa stóru listaverkaeign og sjá um að safnið sé rekið samkvæmt lögum og reglum. Safnið er miðstöð rannsókna á list Sigurjóns. Við höfum haldið þemasýningar á verkum hans, haft tíðar gestasýningar með erlendum og innlendum listamönnum og gefið út fjölda rita og þar á meðal er heildarskrá yfir öll verk Sigurjóns sem er að því er ég best veit eina heildarskráin yfir verk íslensks listamanns sem hér hefur verið gefin út.“

 

Grundvöllur fyrir framtíðarstarf

Í fyrra gaf Listasafn Sigurjóns 181 verk eftir Sigurjón og allar eignir safnsins til Listasafns Íslands. Spurð um ástæðuna fyrir þeirri ákvörðun segir Birgitta: „Á þessum 25 árum frá því að safnið var opnað almenningi í bættum húsakynnum hefur margt gerst í íslensku samfélagi. Fólk sem upphaflega studdi við safnið er horfið, nýjar kynslóðir hafa áhuga á öðru og ég verð ekki yngri. Mig vantar orkuna til að ganga á milli manna og biðja um stuðning. Ég horfi til baka með miklu þakklæti til allra þeirra sem studdu mig og safnið, en það er ekkert launungarmál að óöryggið og áhyggjur um fjárhagsstöðu safnsins hafa tekið sinn toll. Ég er mjög glöð yfir því að samkomulag náðist um að safneignin rynni til Listasafns Íslands svo að framhald verði á 25 ára starfsemi í Sigurjónssafni.

Það er ekkert vafamál að Sigurjón vildi að listaverk sín færu á Listasafn Íslands. Selma Jónsdóttir, sem var lengi forstöðumaður safnsins, hafði strax frá upphafi auga fyrir verkum Sigurjóns og keypti meðal annars eftir hann stórar steinmyndir. Þannig að Listasafn Íslands átti þegar nokkur lykilverk eftir Sigurjón. Nú hafa fjölmörg bæst við og segja má að verk Sigurjóns séu komin þangað sem hann vildi að þau væru. Með þessari sameiningu myndast ákveðinn grundvöllur fyrir framtíðarstarfið og fleiri möguleikar á að rannsaka verk hans.“

 

Persónuleg og pólitísk verk

Hvað ætlar þú sjálf að gera núna?

„Það brennur á mér að skrá það sem ég veit um tilurð verka Sigurjóns og tengingar við samtímann. Mörg verka hans eru mjög persónuleg, jafnvel pólitísk.“

Hvernig var að búa með listamanni eins og Sigurjóni?

„Við Sigurjón vorum saman í meira en 25 ár, og ég var miklu yngri en hann, það voru 23 ár á milli okkar. Það er mjög sérstakt að vera gift manni sem lifir sig svo inn í vinnu sína og hugmyndir að hann leyfir engu öðru að komast að. Ég var og er mjög hrifin af list Sigurjóns. Sjálfur var hann mjög metnaðarfullur, vissi hvað hann vildi og var mjög fljótur að tileinka sér alla tækni og finna eigin form og stíl. Það er dýrt að gera höggmyndir, kostar líkamlega orku og tekur mikinn tíma. Sigurjón gat verið hálft ár eða lengur með eitt verk. Þrátt fyrir þetta lét hann eftir sig mikið safn listaverka. Hann var á vissan hátt harður húsbóndi þótt hann væri mikið ljúfmenni.

 

Morgunblaðið mánudagurinn 22. apríl 2013

 

Sigurjón Ólafsson myndhöggvari.

Eyrbekkingurinn Sigurjón Ólafsson

Fæddur 21. október 1908

Dáinn 20. desember 1982

 


Sigurjón lést í Reykjavík 20. desember 1982 og var jarðsettur 31. desember í Eyrarbakkakirkjugarði.

Atómið, eitt af verkum hans á legsteininum.

Krían austan við Eyrarbakka. Eitt af listaverkum Eyrbekkingsins Sigurjóns Ólafssonar.

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

22.04.2013 05:48

Opinn kosningafundur á Suðurland Fm 23. apríl kl. 21:00

Útvarpsstöðin Suðurland Fm, útvarp Sunnlendinga efnir til opins borgarafundar í Hvítahúsinu þriðjudaginn 23. apríl. Um er að ræða fund þar sem hægt er að spyrja frambjóðendur kjördæmisins spjörunum úr um hvaða áherslur þeir leggja á hin ýmsu málefni.

Umsjónar menn eru þau Valdimar Bragason frá Suðurland fm og Anna Krístín Kjartansdóttir frá Powertalk og verður fundinum útvarpað á Suðurland fm 96,3, 93,3 í Vestmannaeyjum og á heimasíðu stöðvarinnarwww.963.is.

Fundurinn hefst kl. 21.00. 

 

Valdimar Bragason.

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

21.04.2013 21:53

Mynd dagsins

Mynd dagsins á Menningar-Stað.

Frá Gónhól á Eyrarbakka á Jónsmessuhátíð 28. júní 2008. 

Meira síðar.

 

 

 

Vigfús Markússon afhjúpar örnefnakort við Gónhól.

 

 

 

 

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

21.04.2013 21:04

Gistinóttum fjölgar um 15% milli ára

Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi þar sem birtar eru niðurstöður í gistináttatalningu fyrir allar tegundir gististaða árið 2012.

Heildarfjöldi seldra gistinátta var rúmar 3,7 milljónir sem er aukning um 15,1% frá árinu 2011. Gistinætur erlendra ríkisborgara voru 77% af heildarfjölda gistinátta sem er 18% aukning frá árinu 2011. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 6% milli ára.

Eins og undanfarin ár gistu Þjóðverjar hér flestar nætur, þá Bretar og svo Bandaríkjamenn. Gistinóttum Kínverja fjölgaði hlutfallslega mest í samanburði við árið 2011 eða  um 72%.

Flestar gistinætur voru á hótelum og gistiheimilum eða 72%, á tjaldsvæðum um 14% og 14% á öðrum tegundum gististaða. Gistinóttum fjölgaði á öllum tegundum gististaða nema svefnpokagististöðum og í skálum í óbyggðum. Þá fjölgaði gistinóttum á öllum landsvæðum, hlutfallslega mest á höfuðborgarsvæðinu, Austurlandi og Vestfjörðum.

 

 

Gistiheimilið Kvöldstjarnan á Stokkseyri.

 

Af: Hagstofan greinir frá - http://hagstofa.is/Pages/95?NewsID=

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

21.04.2013 20:24

Dagskráin í Kaupmannahöfn

Dagskráin - fréttablað Suðurlands  berst öllum Sunnlendingum, og þar með Eyrbekkingum, með póstinum á hverjum fimmtudegi.

Eyrbekkingarnir eru víða um heim fjarri heimahögum og margir lesa Dagskrá hverrar viku á netinu.

 

Vitað er um Eyrbekkinga í Kaupmannahöfn sem fá Dagskrá fimmtudagsins eftir tvo daga þ.e. á hverjum laugardagsmorgni og er helgistund að opna umslagið með Dagskráinni og Sunnlenska fréttablaðinu og lesa síðan fréttirnar að heiman á pappír...

 

 

Dagskráin komin á borðið með kaffinu í Kaupmannahöfn í gær.

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

21.04.2013 07:02

Friðsæld í 110 daga

Sveitarfélagið Árborg hefur gert samkomulag við  Friðsæld ehf, fyrirtæki Siggeirs Ingólfssonar og Regínu Guðjónsdóttur  um að fyrirtækið sjái um daglegan rekstur á íþrótta- og félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka.

Samkomulagið gildir frá 1. janúar 2013 og er til tveggja ára og felur m.a. í sér að fyrirtækið sér um daglega umsjón yfir húsinu, þrif, minniháttar viðhald og móttöku pantana vegna útleigu.  

Eitt af markmiðum nýrra rekstraraðila er að auka nýtingu á húsinu. Í dag fer þar m.a. fram íþróttakennsla, æfingar á vegum Umf. Eyrarbakka og nokkrir reglulegir viðburðir auk annarrar útleigu. Er þar horft líka til þeirra fjölmörgu ferðamanna sem leggja leið sína á svæðið til að skoða ströndina.

 

Nánari upplýsingar og bókanir hjá Siggeiri Ingólfssyni, sími 898-4240 og siggeiri@simnet.is 

 

Í gærkvöldi fögnuðu Regína Guðjónsdóttir og Siggeir Ingólfsson því að hafa rekið Félagsheimilið Stað - Menningar-Stað í 110 daga og þeim mikla meðbyr sem þau finna fyrir í samfélaginu og vilja þakka. 

 

Samkoma var í Menningar-Sellu og drukkið límonaði.

 

 

Regína Guðjónsdóttir og Siggeir Ingólfsson í Menningar-Sellu.

 
 

Skálað var í límonaði.

 

 

Skráð af: Menningar-Staður

20.04.2013 21:19

Bandarísku sendiherrahjónin á Menningar-Stað

Bandarísku sendiherrahjónin, Luis E. Arreaga-Rhodas og frú, voru á ferð á Eyrarbakka í dag.

Leiðsögumaður þeirra var Jón Hákon Magnússon í Norðurkoti á Eyrarbakka.

Þau litu við m.a. í Félagsheimilinu Stað - Menningar-Stað hjá Siggeiri Ingólfssyni staðarhaldara.

 

Menningar-Staður færði til myndar.

 

 

F.v.: Siggeir Ingólfsson, Luis E. Arreaga, sendiherra og Jón Hákon Magnússon.

 

 

Bandarísku sendiherrahjónin.

 

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

20.04.2013 20:19

Saga bátanna á Eyrarbakka kemur út í sumar

Ný bók Vigfúsar Markússonar um bátana á Eyrarbakka

 

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

20.04.2013 06:48

20. apríl 1602 - Einokunarverslun Dana á Íslandi hófst

Einokunarverslun Dana á Íslandi hófst þann 20. apríl 1602 þegar konungur Danmerkur og Íslands veitti borgurum Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingjaeyrar einkaleyfi til að versla hér á landi.

Einokunin stóð til ársloka 1787

 

Mynd

 

Húsið á Eyrarbakka sem byggt var árið 1765 fyrir danska einokunarkaupmenn er í hópi elstu bygginga landsins og lengi vel merkt menningarsetur þar sem erlend áhrif gættu á margvíslegan hátt.

 

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

20.04.2013 05:59

20. apríl 1950 - Þjóðleikhúsið var vígt þann dag

Þjóðleikhúsið var vígt þann 20. apríl 1950 með frumsýningu á Nýársnóttinni eftir Indriða Einarsson.

Framkvæmdir við húsið hófust árið 1928 en lágu niðri um skeið vegna fjárskorts og hernámsins.

Menningarsjóður Þjóðleikhússins var stofnaður á vígsludaginn

.

Húsið hannaði og teiknaði Eyrbekkingurinn Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins.

Guðjón Samúelsson.png

Guðjón Samúelsson.

Fæddur á Eyrarbakka 16. apríl 1887

Dáinn 25. april 1950

 

Fyrsti þjóðleikhússtjórinn var Guðlaugur Rósinkranz frá Tröð í Önundarfirði.

 

Þjóðleikhússtjórar frá upphafi: 
.

1949-1972   Guðlaugur Rósinkranz

1972-1983   Sveinn Einarsson

1983-1991   Gísli Alfreðsson
1991-2005   Stefán Baldursson
2005-          Tinna Gunnlaugsdóttir

 

Hörður Bjarnason,  f.v. húsameistari ríkisins, er faðir Áslaugar Harðardóttir og tengdafaðir Jóns Hákonar Magnússonar í Norðurkoti á Eyrarbakka. Hörður teiknaði m.a. dómkirkjuna í Skálholti.

 

 

 

 

Skráð af: Menningar-Staður