Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Apríl

19.04.2013 21:42

VORGÖNGUR UM SÖGUSVIÐ -JÓJÓ- OG -FYRIR LÍSU- Í BERLÍN

Steinunn Sigurðardóttir. Ljósm.: Þórir Ingvarsson.

 

 - VORGÖNGUR UM SÖGUSVIÐ JÓJÓ OG FYRIR LÍSU Í BERLÍN

 

Vorgöngurnar:

sunnudaginn 21. apríl kl. 12 

miðvikudaginn 24. apríl kl. 12 

Mæting við Südstern í Kreuzberg. 

 

Nú þegar vorið er komið í Berlín, eftir kaldasta vetur í 130 ár, taka stallsysturnar Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur og Júlía Björnsdóttir fjölfræðingur upp þráðinn þar sem frá var horfið í haust og ganga um söguslóðir nýjustu skáldsagna Steinunnar, Jójó og Fyrir Lísu.

 

Vorið í Berlín er aðalárstíð bókanna, töfratíminn þegar líf og litir spretta fram úr hverju borgarhorni, eins og hendi sé veifað, og fólkið kemur fram úr vetrarfylgsninu og spókar sig undir blómstrandi trjánum.  Þessi árstíð rímar við umturnaðan huga söguhetjunnar, Martins Montags, geislalæknis, þegar hann ber kennsl á sjúkling sinn, Jójómanninn sem sat fyrir honum í Viktoriapark þegar hann var átta ára að koma heim úr skólanum.

Aðalvettvangur göngunnar er Kreuzberg, heimavöllur söguhetjunnar Martins Montag, og heimavöllur höfundar, sem flutti til Berlínar fyrir nokkrum árum.  Hverfið er sérlega fjölbreytt og skrautlegt, og hefur á síðustu árum orðið eitt hið vinsælasta í Berlín.  Gangan hefst við Sudstern, þar sem leiði Sommer og Luft, ímyndaðra kjörforeldra Martins Montags, eru skoðuð.  Meðal viðkomustaða er Tempelhof-flugvöllurinn, sem lagður var niður og gerður að útivistarflæmi.  Enn er hægt að valsa um upprunalega mynd, með flugbrautum og merkingum, áður en jarðýturnar taka til starfa.  

Kaffi- og bjórhlé er gert í Marheineke-Markthalle við Bergmannstrasse.  Á því markaðstorgi er hægt að fá margra þjóða snarl og bakkelsi.  

Undurfallegur Viktoriapark er þá skammt undan, og svo bjórgarðurinn Brachvogel, þar sem gangan endar, en það er sá staður þar sem vinirnir Martin læknir og Martin franski, fyrrum sjúklingur hans og fyrrum róni, hittast til þess að skvaldra á laugardögum.  

Í göngunum er fléttaður saman fróðleikur um Berlín, um viðkomustaði og um skáldsögurnar Jójó og Fyrir Lísu, og höfundur les tvo stutta kafla úr bókunum.  Í hverri göngu hafa nýir fróðleiksmolar frá þátttakendum bæst við, sem erfitt væri að finna í hefðbundnum leiðsögubókum, og halda Steinunn og Júlía þeim að sjálfsögðu upphátt til haga, um leið og þær vonast eftir meiri fróðleik.  

 

Vorgöngurnar:

sunnudaginn 21. apríl kl. 12 

miðvikudaginn 24. apríl kl. 12 

Mæting við Südstern í Kreuzberg. 

 

Í Berlín. F.v.: Júlía  Björnsdóttir og Steinunn Sigurðardóttir.

Frá göngu um söguslóðina í Berlin í haust.

Stokkseyringarnir; Ingis Ingason og frú eru önnur og þriðji f.v.

Þriðja frá hægri er Eyrbekkingurinn Júlía Björnsdóttir. Önnur frá hægri er Steinunn Sigurðardóttir.

Lengst til hægri er Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Þýskalandi með búsetu í Berlín.

Ljósm.: Þórir Ingvarsson.

 

Sráð af:  Menngar-Staður

19.04.2013 20:11

Þjóðleikur á Stokkseyri um helgina

Lokahátíð Þjóðleiks, leiklistarhátíðar ungmenna fer fram á Stokkseyri í dag og á morgun. Er þetta í fyrsta sinn sem hátíð þessi er haldin á Suðurlandi.

Þjóðleikur felst í því að nokkrir leikhópar ungs fólks á aldrinum 13 til 18 ára koma saman og setja á svið þrjú leikrit sem samin hafa verið fyrir þetta tilefni. Það eru leikskáldin Hallgrímur Helgason, Hlín Agnarsdóttir og Salka sem samið hafa stutt leikrit fyrir leikhópana. 

Verkefnið er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins, menningarráðs, menningarmiðstöðva og fleiri aðila og hefur undirbúningur staðið yfir um nokkurt skeið. Tilgangur verkefnisins er að efla leiklistaráhuga ungs fólks en sjö hópar hafa skráð sig til leiks að þessu sinni, tveir úr Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi, einn frá Hellu, frá Vallaskóla, grunnskólanum í Hveragerði, Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri og Flóaskóla.

Æfingar hafa staðið yfir hjá hópunum og nú þegar hefur leikhópur Fjölbrautaskólans sýnt tvö verkanna. Aðrir hópar eru þessa dagana að undirbúa sýningar, hver á sínu svæði.

Um tuttugu manns eru í hverjum hópi og mun hver og einn hópur sýna sitt verk á lokahátíðinni á Stokkseyri og einnig geta fylgst með uppsetningu annarra hópa á sama verki.

Í hópunum eru ekki eingöngu leikarar heldur einnig aðstoðarfólk, ljósamenn, förðunarfólk og fleira þessháttar, sem til þarf til að setja á svið leiksýningu. Sýnt verður á þremur sviðum, tveimur í Menningarverstöðinni Hólmaröst og einnig í Samkomuhúsinu Gimli. 

Hóparnir hittast í dag og fylgja þar ákveðinni dagskrá. Almenningi er einnig boðið að fylgjast með og getur fólk keypt aðgang að öllum sýningum. Að sögn forsvarsmanna hátíðarinnar þykir mjög gott að ná sjö hópum á fyrsta ári Þjóðleiks og ljóst þykir að hátíðin fari fram aftur að ári, en samkvæmt reynslu frá öðrum landshlutum fjölgar mjög þátttakendum á milli ára.

 

Fulltrúar úr stjórn Þjóðleiks á Suðurlandi; Magnús J. Magnússon, Jóna Sigurbjartsdóttir og Dorothee Lubecki, sem er starfsmaður hópsins.

 

Skráð af: Menningar-Staður

19.04.2013 07:18

Labbað um gömlu höfuðborgina

Söguperlur  -  Þorpin Eyrarbakki og Stokkseyri eru samofin verslunar- og útgerðarsögu þjóðarinnar. Nú er boðið upp á leiðsögn um svæðið.

Eyrarbakki og nágrenni hafa löngum verið vinsælir viðkomustaðir innlendra og erlendra ferðamanna. Þorpið skipar stóran sess í verslunarsögu þjóðarinnar, stendur við fallega fjöru og býður upp á fjölda merkilegra safna. Nýlega opnaði Siggeir Ingólfsson ferðamiðstöð í Stað, félagsheimili Bakkans, þar sem fást upplýsingar og ferðabæklingar fyrir ferðamenn og sögulegar leiðbeiningar um "Stokkseyrarbakka". Siggeir býr yfir mikilli þekkingu á sögu svæðisins og leiðist aldrei að segja ferðamönnum skemmtilegar sögur frá því markverðasta sem tengist því. "Ég er fæddur og uppalinn á þessum slóðum og þekki þær eins og handarbakið á mér. Einnig varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að hitta mikið af gömlu fólki í æsku minni sem sagði mér sögur. Ég er minnugur maður og miðla þeim nú til gesta sem heimsækja okkur."

Siggeir hefur um nokkurt skeið leiðbeint ferðamönnum um Eyrarbakka, Stokkseyri og nærliggjandi svæði. "Gömlu kotin í Skúmsstaðahverfi frá seinni hluta nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu eru óendanlegt sögu- og myndefni fyrir ferðamenn og kvikmyndagerðarfólk. Ekki má gleyma Húsinu, elsta timburhúsi landsins, eða Eyrarbakkakirkju. Verslunarsaga Eyrarbakka er mjög merkileg en frá 1890 til 1910 var þorpið eiginlega höfuðborg Íslands. Hingað komu kaupskipin og verslun fór fram á vorin og haustin. Stokkseyri á sér síðan mikla útgerðarsögu sem gaman er að segja frá."

Siggeir hefur opnað upplýsingamiðstöð í gamla félagsheimilinu þar sem mjög góð aðstaða verður fyrir ferðamenn.

"Ég mun vera með reglulegar ferðir hér í allt sumar þar sem ég mun meðal annars bjóða upp á göngur um þorpin tvö. Boðið verður upp á þrjár mismunandi og mislangar skoðunarferðir sem ættu að hæfa öllum aldurshópum. Fólk klæðir sig eftir veðri og við löbbum um þorpin, meðfram sjónum og eftir ýmsum sögufrægum slóðum."

 

Fréttablaðið föstudagurinn 19. apríl 2013.

 

 

 

 

 

 

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

18.04.2013 20:43

SASS kynnti starfsemina á súpufundi á Eyrarbakka

SASS - Samnband sunnlenska sveitarfélags, hefur nú síðustu tvær vikurnar verið með kynningar á starfseminni á súpufundum víða um Suðurland.

Í dag var fundað í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka og síðasti súpufundurinn verðu svo í Þorlákshöfn á morgun.

Fundarboðendur og gestir voru ánægðir með funndinn á Eyrarbakka í dag.

 

Menningar-Staður færði til myndar við upphaf fundarins í hádeginu í dag.

 

 

Við upphaf súpufundarins í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka í dag.

 

 

 

F.v.: Dorothee Lubecki á Eyrarbakka, menningarfulltrúi Suðurlands og Siggeir Ingólfsson.

 

 

F.v.: Finnur Kristjánsson, Einar Ingi Magnússon, Hreinn Hjartarson og Kristján Runólfsson.

 

 

Sktáð af: Menningar-Staður

 

 

 

18.04.2013 06:57

576 milljónum úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í ár

 

Allar úthlutnar ársins 2013.

Úthlutanir ársins 2013.

 

576 milljónum úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í ár

 

Í gær var tilkynnt um úthlutun 278 milljóna króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Þetta er þriðja úthlutun ársins og hefur þá alls rúmum 576 milljónum króna verið úthlutað úr sjóðnum á árinu.

Sjóðurinn stórefldur

Framkvæmdasjóður Ferðamannastaða er fjármagnaður með 3/5 hlutum gistináttagjalds en að auki var sjóðurinn stórefldur með fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar og ákveðið að hann fái árlega 500 milljónir króna aukalega arin 2013-2015 til að hraða úrbótum á fjölsóttum ferðamannastöðum og byggja upp nýja, allt með sérstakri áherslu á vernd umhverfis. Sömu ár renna 250 milljónir árlega úr fjárfestingaáætlun til þjóðgarða og friðlýstra svæða.

Verið að lyfta grettistaki

„Í ár stefnir í enn eitt metið í íslenskri ferðaþjónustu og því mun álagið á ferðamannastaði í landinu enn aukast. Á okkur hvílir sú skylda að náttúran beri ekki skaða af og með því að stórefla Framkvæmdasjóð ferðamannastaða er verið að lyfta grettistaki í fjölgun ferðamannastaða og um leið hlúð að náttúru viðkvæmra svæða. Við erum að leggja grunn að því að íslensk náttúra og ferðaþjónusta geti blómstrað hlið við hlið og þetta er lang stærsta átak sem nokkru sinni hefur verið ráðist í af þessu tagi“ segir Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra“.

Úthlutað til 75 verkefna

Auglýst var eftir umsóknum 2. febrúar 2013 en umsóknarfrestur var til 1. mars. Alls bárust 96 umsóknir og var heildarupphæð styrkumsókna um 445 miljónir króna. Að þessu sinni er úthlutað styrkjum til 75 umsækjenda, samtals að upphæð tæpar 279 miljónir króna. Hæstu styrkir eru 25 og 30 milljónir króna.

Skipting styrkja

Úthlutun styrkja að þessu sinni má skipta í eftirfarandi þrjá flokka:

25 verkefni tilbúin til framkvæmda 119,3 m.kr.
23 verkefni til skipulags og hönnunar 58,5 m.kr.
27 verkefni v/gönguleiða, aðkomu og öryggis          100,9 m.kr.
Samtals:  278,8 m.kr.


Áhersla á að dreifa álaginu

Eitt af markmiðunum með stofnun sjóðsins er að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði. Slíkt er sérstaklega mikilvægt nú þegar ferðamönnum hefur haldið áfram að fjölga og stefnir í enn eitt metsumarið í komum þeirra hingað til lands. Því er ánægjulegt að allmörg þeirra verkefna sem fá úthlutun nú, geta talist nýir ferðamannastaðir og eru styrkir til þeirra rúmlega þriðjungur af heildarupphæð. 

Stjórn Framkvæmdasjóðsins gerir tillögur til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sem tekur ákvörðun um úthlutun. Sérstök áhersla er lögð á heildstæð verkefni þar sem horft er til heildarmyndar ferðamannastaða og ferðamannaleiða.

Fylgiskjöl:

 

Skipulag og hönnun við Húsið á Eyrarbakka og Eyrarbakkakirkju fengu kr. 3.150.000-

 

Nánari upplýsingar

Sveinn Rúnar Traustason, umhverfisstjóri Ferðamálastofu og starfsmaður Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða
sveinn@ferdamalastofa.is - Sími: 535-5500 

 

Skráð af: Menningar-Staður

18.04.2013 05:59

Frumkvöðlafundur um ferðaþjónustu í Árborg haldinn á Hótel Selfoss

Sveitarfélagið Árborg í samstarfi við Markaðsstofu Suðurlands stóð fyrir frumkvöðlafundi á Hótel Selfoss í dag, miðvikudaginn 17.apríl undir yfirskriftinni „ERT ÞÚ FRUMKVÖÐULL?“. 

Markmið fundarins var að kynna tækifæri fyrir einstaklingum sem hafa áhuga á að koma á fót smáfyrirtæki í tengslum við ferðaþjónustu á svæðinu. Vöntun er á afþreyingu eins og gönguferðum með leiðsögn, hjólaferðum eða leigu, styttri ferðum á þær náttúruperlur sem eru í sveitarfélaginu eða eitthvað tengt íslenska hestinum fyrir gesti á Árborgarsvæðinu.

Mjög ánægjulegt var að sjá hversu margir sýndu fundinum áhuga en greinilega eru til einstaklingar á svæðinu sem langar til að koma á fót afþreyingu fyrir ferðamenn íslenska sem erlenda. Þeir sem ekki komust á fundinn en hafa áhuga á að taka þátt í uppbyggingu og fjölgun afþreyingarmöguleika á Árborgarsvæðinu eru hvattir til að hafa samband við Braga Bjarnason menningar- og frístundafulltrúa í tölvupósti á bragi@arborg.is en stefnt er á vinnufund með áhugasömum strax í næstu viku.

Fyrirlesarar á fundinum í dag voru Davíð Samúelsson, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, Hannes Ottósson, verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Andrés Úlfarsson frá Iceland Activites í Hveragerði. Kjartan Björnsson, bæjarfulltrúi stýrði fundinum og umræðum á eftir.

 

Kjartan opnar fundinn

Frá fundinum á Hótel Selfossi.

 

 

Rúmlega 100 manns voru í sögu- og heilsugöngu á helginni milli Stokkseyrar og Eyrarbakka sem skipulögð var af Menningar-Stað.

 

 

Af: www.arborg.is

 

Hér skráð af: Menningar-Staður

18.04.2013 05:36

Mikil gróska í menningarmálum um allt land

Yfir hundrað fulltrúar frá öllum landshlutum sóttu ráðstefnuna  Menningarlandið 2013,  sem fór fram á Kirkjubæjarklaustri 11. og 12. apríl sl. Haldin voru fjölmörg erindi um reynsluna af menningarsamningunum, áætlanir og framtíðarsýn ýmissa aðila í landshlutunum og fleira. Ráðstefnugestir voru sammála um mikilvægi farsæls samstarfs ríkis og landshlutasamtaka sveitarfélaganna í menningarmálum. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra tók þátt í ráðstefnunni og í máli hennar kom eftirfarandi m.a. fram:

„Vaxandi áhugi landsmanna á menningarmálum er greinilegur á Íslandi á undanförnum árum og einnig skilningur á að þessi málaflokkur getur skapað atvinnu líkt og aðrar atvinnugreinar, - haft bein og óbein áhrif í því sambandi. Kortlagning hagrænna áhrifa í skapandi greinum hefur opnað augu margra fyrir þessum þætti um leið og menningarleg rök fyrir markvissum stuðningi eru almennt viðurkennd. Fyrst og síðast byggist þó frumsköpun og fagmennska í menningarlífinu á þeim fjölmörgu sem leggja lóð á vogarskálarnar í þessu sambandi og fyrir það ber að þakka.“ 

Mennta- og menningarmálaráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Menningarráð Suðurlands í samstarfi við önnur menningarráð landsbyggðarinnar stóðu að ráðstefnunni. Megintilgangur hennar var að ræða framkvæmd og framtíð menningarsamninga ríkis og sveitarfélaga, sem og samstarf ríkis og sveitarfélaga við menningarráðin, sem stofnuð hafa verið um land allt á undanförnum árum í kjölfar menningarsamninganna.

Samningarnir, sem eru sjö talsins í jafnmörgum landshlutum, fela í sér markvissan stuðning ríkissjóðs við menningarstarf og menningarferðaþjónustu gegn mótframlagi sveitarfélaga og einkaaðila í héraði. Menningarsamningarnir renna allir út á þessu ári og því var efnt til ráðstefnunnar til að meta reynsluna af þeim og gera áætlanir um framhaldið, m.a. með tilliti til sóknaráætlana landshluta.

Mikil ánægja með ráðstefnuna Menningarlandið, sem fór fram á Kirkjubæjarklaustri.

 

Katrín Jakobsdóttir, mennta og menningarmálaráðherra.

 

Af: www.stjornarrad.is

 

Skráð af: Menningar-Staður

17.04.2013 22:59

Mynd dagsins á Menningar-Stað

Mynd dagsins:

Mynd dagsins er tekin á Bryggjuhátíð á Stokkseyri fyrir nokkrum árum og þar er Ólafur Auðunsson á Stokkseyri í hópi Eyrarbakkakvenna sem komu til hátíðarinnar eins og fjöldi fólks gerði.

 

 

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

17.04.2013 22:49

SASS með kynningarfund í Félagsheimilinu Stað á morgun 18. apríl kl. 12:00

SASS – Samtök sunnlenskra sveitarfélaga kynnir starfsemi sína á fundum á Suðurlandi á næstu vikum.

Kynnt verður þjónusta sem SASS veitir einstaklingum, fyrirtækjum, sveitarfélögum og félagasamtökum. Einnig verður kynnt næsta styrkúthlutun SASS sem auglýst verður nú í apríl. Fundur verður haldinn á Selfossi 16.apríl nk. í fundarsalnum á 3. hæð að Austurvegi 56 á Selfossi milli 12:00 – 13:00. Boðið upp á súpu. 

Fundarstaðir og tími:

8. apríl Vík – Halldórskaffi súpufundur kl. 12:00 – 13:00

8. apríl Klaustur – Systrakaffi kl. 16:00 – 17:00 (kaffi og með því)

9. apríl Hella – Safnaðarheimili Oddakirkju súpufundur kl. 12:00 – 13:00

10. apríl Vestmannaeyjar –  Hótel Vestmannaeyjar súpufundur kl. 12:00 – 13:00

15. apríl Flúðir – Hótel Flúðir súpufundur kl. 12:00 – 13:00

16. apríl Selfoss – fundarsalur Austurvegi 56, 3j hæð, súpufundur kl. 12:00 – 13:00

17. apríl Hveragerði – Hótel Hveragerði súpufundur kl. 12:00 – 13:00

18. apríl Eyrarbakki – Félagsheimlið Staður súpufundur kl. 12:00 -13:00

19. apríl Þorlákshöfn – Svarti sauðurinn súpufundur kl. 11:00 – 12:00

Allir velkomnir

 

 

 

18. apríl Eyrarbakki – Félagsheimlið Staður súpufundur kl. 12:00 -13:00

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

17.04.2013 14:29

Tugir milljóna í uppbyggingu á Suðurlandi

Í dag var tilkynnt um úthlutun 278 milljóna króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Rúmum 63 milljónum króna er úthlutað til verkefna á Suðurlandi.

Stærsta styrkinn í dag fengu Vinir Þórsmerkur, alls 30 milljónir króna, til 3. áfanga byggingar göngubrúar yfir Markarfljót við Húsadal.

Rangárþing eystra fékk samtals 9,6 milljónir króna til þriggja verkefna; gönguleiðar yfir Fimmvörðuháls, deiliskipulag á Þórsmerkursvæðinu og bætt aðgengi og aðstöðu á áhugaverðum stöðum í sveitarfélaginu.

Sveitarfélagið Árborg fékk úthlutað tæpum 5,5 milljónum króna til verkefna á Eyrarbakka og Stokkseyri; endurbyggingar Þuríðarbúðar, umhverfishönnun við listaverkið Kríuna og skipulag og hönun við Húsið á Eyrarbakka og Eyrarbakkakirkju.

Kötlusetur ses fékk samtals 4,1 milljón króna til verkefna í Reynisfjöru og vegna DC-3 vélarinnar á Sólheimasandi. Þá fékk Fannborg ehf styrki til tveggja verkefna sem tengjast vatnslögn og fráveitu í Kerlingafjöllum, samtals tæpar 2,5 milljónir króna.

Minjavörður Suðurlands fékk 4 milljónir króna vegna Vígðulaugar á Laugarvatni, Skógræktarfélag Íslands 2 milljónir vegna verkefnisins Opinn skógur í Skógum undir Eyjafjöllum og Arkitektar Hjördís & Dennis ehf. 1,8 milljón króna vegna verkefnisins Vistvænir fjallaskálar í Ríki Vatnajökuls.

Fleiri styrkir fóru í Skaftárhrepp og á Vatnajökulssvæðið; Almenna verkfræðistofan fékk 1,5 milljón króna styrk vegna vinnu í Hólaskjóli, Landvernd tæpar 1,2 milljónir vegna skiltagerðar á háhitasvæðum í Vatnajökulsþjóðgarði og í Kerlingarfjöllum. 

Þá fékk Ferðafélagið Útivist eina milljón króna í styrk til þess að koma upp salernisaðstöðu við Strútslaug norðan Mýrdalsjökuls.

Þetta er þriðja úthlutun ársins og hefur þá alls rúmum 576 milljónum króna verið úthlutað úr sjóðnum á landsvísu á árinu.

Framkvæmdasjóður Ferðamannastaða er fjármagnaður með 3/5 hlutum gistináttagjalds en að auki var sjóðurinn stórefldur með fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar og ákveðið að hann fái árlega 500 milljónir króna aukalega arin 2013-2015 til að hraða úrbótum á fjölsóttum ferðamannastöðum og byggja upp nýja, allt með sérstakri áherslu á vernd umhverfis.

 

 

 

Húsið á Eyrarbakka og Eyrarbakkakirkja.

 

 

 

 

Skráð af: Menningar-Staður