Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Apríl

17.04.2013 07:18

Friðsæld ehf, fyrirtæki Siggeirs Ingólfssonar og Regínu Guðjónsdóttur

Sveitarfélagið Árborg hefur gert samkomulag við  Friðsæld ehf, fyrirtæki Siggeirs Ingólfssonar og Regínu Guðjónsdóttur  um að fyrirtækið sjái um daglegan rekstur á íþrótta- og félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka.

Samkomulagið tók gildi 1. janúar 2013 og er til tveggja ára og felur m.a. í sér að fyrirtækið sér um daglega umsjón yfir húsinu, þrif, minniháttar viðhald og móttöku pantana vegna útleigu.  

Eitt af markmiðum nýrra rekstraraðila er að auka nýtingu á húsinu. Í dag fer þar m.a. fram íþróttakennsla, æfingar á vegum Umf. Eyrarbakka og nokkrir reglulegir viðburðir auk annarrar útleigu. Er þar horft líka til þeirra fjölmörgu ferðamanna sem leggja leið sína á svæðið til að skoða ströndina.

 

Nánari upplýsingar og bókanir hjá Siggeiri Ingólfssyni, sími 898-4240 og siggeiri@simnet.is 

 

Mynd

 

Merki Friðsældar sem Ólafur Th. Ólafsson á Selfossi hannaði og teiknaði.

 

 

Skráð af: Menningar-Staður

17.04.2013 06:56

15 listar í framboði til Alþingis

Ellefu listar bjóða fram til Alþingis í öllum kjördæmum í komandi þingkosningum.

Alls verða fimmtán listar í boði, en listi Sturlu Jónssonar, Landsbyggðarflokkurinn og Alþýðufylkingin bjóða allir fram í einu kjördæmi og Húmanistaflokkurinn í tveimur.

 

 

 

Skráð af: Menningar-Staður

16.04.2013 20:04

16. apríl - afmælisdagur Margrétar Þórhildar Danadrottningar

image

Í dag þann 16. apríl, fagnar Margrét Þórhildur Danadrottning 73 ára afmæli sínu.

Mynd þessi er tekin við brottför þeirra Henriks prins frá Reykjavíkurhöfn eftir opinbera heimsókn á Íslandi árið 1973.

“Nokkrum dögum eftir að Þjóðverjar réðust inn i Danmörku, fæddist eldri dóttirin í Amalíuborg. Faðir hennar hélt henni sjálfur undir skírn og heitir hún Margrét að aðalnafni en auk þess margt annað, og þar á meðal Þórhildur. En dags daglega er hún bara kölluð Daisy, þvi að Margrétarnafnið þykir of þunglamalegt nema við hátíðleg tækifæri. Það er ekki útilokað að hún verði einhverntíma ný Danadrottning, en hinu eru minni horfur á að hún verði drottning Noregs og Svíþjóðar líka, eins og Margrét gamla Valdimarsdóttir á 14. öld.”

                                                                       —Fálkinn, 19. Apríl, 1946

Ljósmynd:  Bjarnleifur Bjarnleifsson

 

Ljósmynd vikunnar

Hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur.  

Í Ljósmyndasafni Reykjavikur eru meira en fimm milljón myndir úr sögu borgarinnar. 
Á hverjum þriðjudegi, stundum oftar, birtum við eina þeirra hér.

 

 

MARGRÉT Þórhildur Danadrottning og fylgdarlið hennar heimsóttu Eyrarbakka 15. maí 19878 eftir dagskrá heimsóknar hennar í Reykjavík.

Skoðuðu þau Eyrarbakkakirkju og sátu kvöldverðarboð forsætisráðherra í Húsinu á Eyrarbakka.

Í Eyrarbakkakirkju er altaristafla sem Lovísa, langalangamma drottningar, málaði árið 1891 og var sett upp í kirkjunni nokkru eftir vígslu hennar sem fram fór í desember 1890. Séra Jón Björnsson, sem var prestur í Stokkseyrarprestakalli 1875 til 1892, var mikill áhugamaður um byggingu kirkjunnar og fór til Kaupmannahafnar vegna undirbúnings hennar. Þar hitti hann Lefolii kaupmann sem kom honum á fund Kristjáns konungs 9. og leiddi það til þess að Lovísa gaf kirkjunni umrædda altaristöflu en hún málaði að minnsta kosti þrjár aðrar altaristöflur sem eru í dönskum kirkjum.

 

 

Í Eyrarbakkakirkju.

 

 

Skráð af: Menningar-Staður

16.04.2013 06:32

Skáldsöguferð í Berlín á slóðir Jójó og Fyrir Lísu eftir Steinunni Sigurðardóttur

Sögumenn: Steinunn Sigurðardóttir og Júlía Björnsdóttir

 

Gönguferð um hið heillandi fjöruga Kreuzberg hverfi í Berlín á söguslóðir skáldsagnanna Jójó og Fyrir Lísu eftir Steinunni Sigurðardóttur. 


Við göngum um vænt stykki úr Kreuzberg í Berlín, sem er heimavöllur söguhetjunnar Martins Montags geislalæknis. Berlín og Kreuzberg hverfið er einnig heimavöllur Steinunnar Sigurðardóttur og var höfundi mikil uppspretta við skrif skáldsagnanna. Í göngutúrnum veita Steinunn og Júlía vonandi þessari uppsprettu áfram til göngumanna. 

Fyrir Lísu kom út fyrir síðustu jól og er sjálfstætt framhald af Jójó sem kom út hjá Bjarti árið 2011. Bóksalar völdu Jójó bók ársins, hún hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og einróma lof gagnrýnenda. 
Jójó kemur út á þýsku síðar á árinu. 

Sögumenn: Steinunn Sigurðardóttir og Júlía Björnsdóttir

Sunnudaginn 21.apríl

Mæting kl. 12.00 á Südstern U-bahn (U7)

Göngu lýkur ca. kl.16.00 í grennd við U-Bahn Prinzenstraße. 
Einnig hægt að fara úr göngunni ca. kl.15.00 á U Bahn Mehringdamm eða Gneisenau.

Kaffistopp á fjörugum stað í Kreuzberg (ekki innifalið í verði). 

Verð: 15 € 
5 € gegn framvísun stúdentaskírteinis

Ath. að ekki þarf að hafa lesið Jójó eða Fyrir Lísu til að hafa gaman af göngunni. 

Ef hægt er að koma því við, þá tilkynnið gjarnan þátttöku hér: 

juliabjorns@gmail.com

 

Júlía Björnsdóttir Eyrbekkingur í Berlín

 

Steinunn Sigurðardóttir leiðir fólk um söguslóðir bókanna sinna í Berlín í vor. Ljósm.:: Þórir Ingvarsson.

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

15.04.2013 20:31

15. apríl - afmælisdagur Vigdísar Finnbogadóttur

Vigdís Finnbogadóttir

 

Fjórði forseti lýðveldisins, Vigdís Finnbogadóttir, er fædd 15. apríl 1930.

 

Vigdís var kjörin forseti 29. júní 1980, endurkjörin án atkvæðagreiðslu 1984, endurkjörin í kosningum 1988, aftur án atkvæðagreiðslu 1992 og lét af embætti 1996.

 

Vigdís varð stúdent árið 1949, stundaði nám í frönsku og frönskum bókmenntum í Grenoble og við Sorbonne-háskóla í París 1949-1953. Hún nam leiklistarsögu við Kaupmannahafnarháskóla 1957-1958, tók BA-próf í frönsku frá Háskóla Íslands og próf í uppeldis- og kennslufræðum 1968. Vigdís er heiðursdoktor og heiðursprófessor við marga háskóla og stofnanir víðs vegar um heiminn.

Hún hefur verið sæmd heiðursdoktorsnafnbót við eftirfarandi háskóla: Háskólinn í Grenoble, Frakklandi (1985), Háskólinn í Bordeaux, Frakklandi (1987), Smith College, Bandaríkjunum (1988), Luther College, Bandaríkjunum (1989), Háskólinn í Manitoba, Kanada (1989), Háskólinn í Nottingham, Bretlandi (1990), Háskólinn í Tampere, Finnlandi (1990), Háskólinn í Gautaborg, Svíþjóð (1990), Gashuin háskólinn í Tokyo, Japan (1991), Háskólinn í Miami, Bandaríkjunum (1993), St. Mary´s háskólinn í Halifax, Kanada (1996), Háskólinn í Leeds, Bretlandi (1996), Memorial University, St John, Nýfundnalandi, Kanada (1997) Háskólinn í Guelph, Kanada (1998) og Háskóli Íslands, 2000. 

Hún var blaðafulltrúi Þjóðleikhússins 1954-1957 og aftur 1961-1964, leiðsögumaður á sumrin um árabil, kennari við Menntaskólann í Reykjavík 1962-1967 og við Menntaskólann við Hamrahlíð 1967-1972. Hún kenndi um skeið við Háskóla Íslands og var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur 1972-1980. Vigdís Finnbogadóttir var fyrsta konan í heiminum sem kjörin var forseti í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

 

 

 

Frú Vigdís Finnbogadóttir tekur við embætti forseta Íslands 1. ágúst 1980.

 

.

 

 

Frú Vigdís Finnbogadóttir

 

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

15.04.2013 05:58

Nú er lag - Höldum upp á hundrað ára afmælið

Í síðustu tveim Dagskrám eru greinar tveggja kvenna um íþróttahúsið á Stokkseyri og lýsa þær því ekki fagurlega. Þessi skrif kvennanna urðu mér hvatning til að benda bæjarstjórn Árborgar og reyndar öðrum íbúum sveitarfélagsins á þörfina á að standa við fyrirheit um uppbyggingu skólans á Eyrarbakka. Nú er lag, segi ég, til að hefja undirbúning að endurreisn þessa gamla skólaseturs í tengslum við byggingu íþróttahúss á Bakkanum,sem þjónaði bæði Stokkseyri og Eyrarbakka. Í þeirri framkvæmd væri reyndar gætt þess jafnræðis að hafa sundlaug á Stokkseyri, sem reyndar er fyrir hendi, en byggja síðan veglegt íþróttahús á Eyrarbakka um leið og  þar yrði byggt frambúðar húsnæði fyrir skólann.

Á árinu 1913 var tekið í notkun nýtt skólahús á Eyrarbakka.  Þarna var um að ræða tvær kennslustofur, gang og litla geymslukompu. Ekki var þar gert ráð fyrir sérstöku afdrepi fyrir kennarana, né heldur salernis og annari hreinlætisaðstöðu. Þetta hús verður sem sé eitthundrað ára á sumri komanda,  þettya er miðhluti skólabyggingarinnar á Eyrarbakka. Vestasti hlutinn var byggður og tekinn í notkun árið 1952, á hundrað ára afmæli skólans. Eystri hlutinn er síðan frá 1981, traust bygging og gerð til að standast jarðskjálfta og aðra vá. Það væri reisn yfir Árborgurum, ef þeir gerðu það til að minnast þessa hundrað ára afmælis, að hefja undirbúning að myndarlegri lausn á húsnæðisvanda skólans, svo búið væri að hugsa málið til enda,þó framkvæmdir bíði síns tíma og betri fjárhags sveitarfélagsins.

Fyrir fáum árum, þegar rætt var um framtíð Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, var gert ráð fyrir því að hefja fyrst uppbyggingu skólahúsnæðisins á Eyrarbakka og síðan að því loknu að gera húsnæði skólans á Stokkseyri sömu skil, enda þar miklu yngra hús. Þetta breyttist á einni nóttu og skólahús byggt með hraða miklum á Stokkseyri, enda talið að skólahúsnæðið þar, sem tekið var í notkun árið 1951 væri stórhættulegt og ætti helst að rífa það niður. Nú er ákveðið að setja lyftu í þetta sama hús fyrir mikla peninga og þar hefur starfsemi verið aukin og á að auka frekar. Gaman væri fyrir okkur íbúa í Sveitarfélaginu Árborg að vita  hvernig þetta húsnæði hefur verið endurbætt svo að fylla megi það af börnum ? En svo ég komi aftur að upphafinu. Væri ekki ráð að hafa samband við Staðarhaldarann okkar á Bakkanum hann Sigurgeir Ingólfsson og athuga hvort ekki sé hægt að leysa íþróttahússþörfina á Stað, meðan varanleg lausn er ekki komin á þeim málum.

Ég sem þetta skrifa hóf kennsluferil minn í nýju og ófullgerðu skólahúsi á Stokkseyri haustið 1951 og bjó fyrstu mánuðina  í einu herbergi á efri hæð skólans . Á Stokkseyri var ég í sex ár, síðan var ég við kennslu og skólastjórn á Eyrarbakka til 1996, eða í 39 ár þykist svolítið þekkja fortíð þessara mála. Alla tíð hefur verið reiknað með að jafnræðis ætti að gæta með þessum byggðum hér á ströndinni og ég vona að svo verði áfram.

 

Óskar Magnússon, Eyrarbakka  -  Dagskráin fimmtudagurinn 11. apríl 2013

 

Óskar Magnússon, Eyrarbakka

 

 

 

Barnaskólinn á Eyrarbakka. Elsti hlutinn var byggður 1913. Hlutinn sem næst er var byggður 1952.

 

 

Skólastjórar við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri fyrr og nú sem voru viðstaddir á 150 ára afmælisdegi Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri 2012. Elsti starfandi barnaskóli á Íslandi og hóf starfsemi 1852.

F.v.: Önfirðingurinn Óskar Magnússon sem var kennari á Stokkseyri 1951 - 1957, kennari á Eyrarbakka 1957 - 1968 og skólastjóri á Eyrarbakka 1968 - 1996, Theódór Guðjónsson, f.v. skólastjóri á Stokkseyri, Barðstrendingurinn og f.v. skólastjóri, Arndís Harpa Einarsdóttir, Magnús J. Magnússon og f.v. skólastjóri Páll Léó Jónsson. Ljósm.: Árborg.is

 

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

15.04.2013 05:51

Þetta verður gott sumar

„Já, ég er bjartsýnn á gott sumar,“ segir Finnur Kristjánsson kaupmaður í Vesturbúð á Eyrarbakka aðspurður um horfur í verslun á Eyrarbakka. „Það er að kvikna líf.“

Finnur segist verða var við aukna umferð ferðamanna. „Ég er sannfærður um gildi Suðurstrandarvegarins enda finnum við fyrir því að hingað koma erlendir ferðamenn í auknum mæli beint af flugvellinum í Keflavík,“ segir hann. 

Utan hins hefðbundna viðskiptavinar úr þorpinu segir Finnur að fjölmargir Íslendingar stoppi í Vesturbúð, ekki síst í bíltúrnum á ferð um Suðurland, svo sem um helgar. Finnur segir það skipta máli að fólk hafi fleiri viðkomustaði og er ánægður með opnun upplýsingamiðstöðvar í þorpinu, og önnur jákvæð teikn séu á lofti um frekari verslun í sumar.

Og það er líka ýmislegt hægt að fá í verslun eins og Vesturbúð. Í vetur hófu þau að selja pizzur, bakaðar á staðnum. „Já, Rizzo pizzurnar renna út. Við byrjuðum að selja þær í desember, þetta var eiginlega jólamaturinn hérna,“ segir hann kankvís. Enda tekur það ekki nema um fjórar mínútur að afgreiða pizzurnar, eldheitar og eldbakaðar úr ofninum. 

 

Sunnlenska fréttablaðið greinir frá.

 

 

Finnur Kristjánsson kaupmaður í Vesturbúð á Eyrarbakka við pizzaofninn sem hann hefur komið upp í versluninni. Ljósm.: sunnlenska.is/Vignir Egill

 

Skráð af: Menningar-Staður

14.04.2013 19:41

Ritstjórnarfundur í Menningar-Sellu

Siggeir Ingólfsson, staðarhaldari í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka, mætti í kvöld til fundar í ritstjórn vefmiðilsins Menningar-Staður sem er mannlífs- og menningarmiðill þess sem þörf er á og tengist mannlífi og menningu svæðisins með einum eða öðrum hætti.

Síðasta vika og þessu helgi hefur verið fjölbreytt í starfsemi Félagsheimilisins Staðar -  Menningar-Staðar.

 

Margþætt stefnumótun fór fram.

 

Skagfirðingurinn og Eyrbekkingurinn í Hveragerði Kristján Runólfsson orti um fundinn:

 

Margt er að gerast til menningarauka,
mörg eru járnin í eldinum heit,
alltaf er Geiri í ýmsu að bauka,
ærna með visku í hugarins reit.

.

 

 

Siggeir Ingólfsson.

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

14.04.2013 14:33

Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps 125 ára

Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps er 125 ára í ár.

Í tilefni þessa hefur verið sett inn hér á Menningar-Stað albúm með 63 myndum frá því þegar Búnaðarfélagið tók í notkun og vígði nýja fjárrétt við Mýrahliðið afan við Brautartungu og Hoftún á Stokkseyri þann 28. ágúst 2010.

 

Smella á slóðina fyrir néðan:

http://menningarstadur.123.is/PhotoAlbums/245603/

 

 

 

Bjarkar Snorrason í Brattsholti með sterkt vígsluvatn.

 

 

 

Sævar Jóelsson í Brautartungu teygar vígsluvatnið.

 

 

Holtsfólk. F.v.: Björn Harðarson, Hörður Sigurgrímsson (nú látinn) og Anna Guðrún Bjarnardóttir.

 

 

Kjötsúpa fyrir alla.

 

 

 

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

 

 

 

14.04.2013 07:16

Vor í Árborg 2013

Menningar- og bæjarhátíðin „Vor í Árborg 2013″ verður haldin 9. – 12. maí nk.

Skipulag er á undirbúningsstigi og hvers kyns tillögur að dagskráratriðum og/eða hugmyndum um menningarviðburði eru vel þegnar. Hér með er óskað eftir þátttöku félaga og samtaka, einstaklinga og áhugahópa, fyrirtækja og stofnanna. 

Fjölskylduleikurinn, „Gaman- saman sem fjölskylda”– verður áfram hluti af hátíðarhöldunum. Sértakt vegabréf verður gefið út með dagskrá hátíðarinnar sem stimplað verður í eftir þátttöku í atburðum og heimsóknum á viðburði. Vegabréfinu er síðan skilað inn eftir hátíðina og eiga þátttakendur möguleika á veglegum vinningum. 

Áhugasamir hafi samband við Braga Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúa, netfang bragi@arborg.is eða í síma 480-1900.

Með von um góðar undirtektir

Af: www.arborg.is

 

Hér má sjá myndir frá opnun málverkasýningar í Húsinu á Eyrarbakka á Vori í Árborg 2006

 

 

F.v.:  Áslaug Harðardóttir, Jón Hákon Magnússon, Þórunn Vilbergsdóttir og Óskar Magnússon.

 

 

F.v.:  Áslaug Harðardóttir, Jón Hákon Magnússon, Hinrik Ólafsson og Sigurður Pálsson.

 

 

Stefán Þorleifsson.

 

 

Lýður Pálsson.

 

Skráð af: Menningar-Staður