Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Júní

13.06.2013 06:10

Margt að finna á Suðurlandi

Siggeir Ingólfsson - Geiri á Bakkanum- fræðir fólk í sögugöngu.

 

Margt að finna á Suðurlandi

 

• Fjölbreyttir og áhugaverðir áfangastaðir fyrir ævintýraþyrsta ferðalanga víðsvegar á Suðurlandi

• Sögu- og menningartengd ferðaþjónusta nýtur vaxandi vinsælda

• Ágæt veðurspá sunnanlands

 

Eflaust verða margir á faraldsfæti um helgina. Veðurspáin er einna best á Suðurlandi en þar má finna ógrynni af skemmtilegum stöðum þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Af því tilefni fékk Morgunblaðið Davíð Samúelsson, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Suðurlands, til að nefna örfáa af hinum fjölmörgu skemmtilegu áfangastöðum sem Suðurland hefur upp á að bjóða.

Nú er tækifæri til að heimsækja Jökulsárlón áður en hánnatíminn byrjar og fara í siglingu um þessa einstöku náttúruperlu sem Ferðaþjónustan Jökulsárslóni stendur fyrir. Um er að ræða siglingar á Zodiac-bátum í Jökulsárlóni að ógleymdum siglingum með hjólabát.

Í upplýsingamiðstöðinni á Kirkjubæjarklaustri má sjá sýningu um Eldmessuna og byggðasöguna. Stutt er að fara í Fjaðurárgljúfur sem er upp af Kirkjubæjarklaustri. Davíð tekur fram að þar sé um um áhugaverða og skemmtilega gönguleið að ræða. Auk þess sé leiðin upplifun fyrir alla fjölskylduna og þangað sé hægt að komast án mikillar fyrirhafnar.

Í Brydebúð í Vík í Mýrdal er að finna bæði upplýsingamiðstöð og kaffihús. Frá Brydebúð eru skipulagðar gönguferðir um bæinn sem henta innlendum sem erlendum ferðamönnum. Í göngunum eru heimamenn sóttir heim og farið í gegnum sögu staðarins.

 

Hestar í Rangárþingi

Að mati Davíðs er Skógasafnið sígildur áfangastaður fyrir ferðalanga. Þar er stórt útisýningarsvæði þar sem sjá má hvernig fólk bjó fyrr á öldum og torfbærinn er eflaust eitthvað sem heillar unga sem aldna. Þar má einnig sjá hvernig dæmigerðar skólabyggingar í sveitum voru í upphafi 20. aldarinnar.

Í Rangárþingi er fjölbreytt úrval ferðaþjónustufyrirtækja sem bjóða upp á hestatengda afþreyingu. Davíð bendir á hestabúgarðinn Skeiðvelli sem dæmi í því sambandi en þar er búið að opna Heimsóknarmiðstöð íslenska hestsins. Í sumar verður boðið upp á sýningu á Skeiðvöllum þar sem gefst m.a. færi á að fá innsýn í daglegt amstur á hestabúgarði.

Af nógu er að taka á Laugarvatni. Þar eru sundlaugar við allra hæfi, bæði er hægt að slaka á í baðaðstöðunni sem boðið er upp á í Fontana en fyrir fjölskyldufólk í leit að meiri ærslagangi er heppilegt að fara í sundlaugina á Laugarvatni. Frá Laugarvatni er hægt að halda áfram áleiðis og koma við í nýju og skemmtilegu ferðamannafjósi í Efsta-Dal, þar sem er að finna veitingastað, kaffihús, ísbúð og mjólkurvinnslu.

 

Gönguferðir í Reykjadal

Í Hveragerði býður Iceland Activities upp á göngu- og hjólaferðir um næsta nágrenni. Boðið er upp á margskonar skemmtilega afþreyingu og nefnir Davíð t.a.m. göngu upp í Reykjadal auk þess að benda á Dalakaffi, skemmtilegt kaffihús við rætur Reykjadals.

Í Þorlákshöfn er kaffi- og handverkshúsið Hendur í Höfn. Davíð útskýrir að þangað geti fjölskyldur á ferðalagi komið og búið til sitt eigið handverk og átt huggulega stund.  Að lokum er minnt á sögugöngu frá Eyrarbakka yfir á Stokkseyri með Geira á Bakkanum.

Vert er að nefna að hugmyndir að áfangastöðum sem hér hafa verið nefndar eru hvergi nærri tæmandi upptalning á þeim fjölmörgu áhugaverðu stöðum sem finna má á Suðurlandi. Áhugasömum er bent á vef Markaðsstofu Suðurlands, South.is, þar má finna margskonar upplýsingar um afþreyingu í boði. Þá er vert að nefna að víðsvegar á Suðurlandinu er að finna upplýsingamiðstöðvar þar sem hægt er að fá upplýsingar um hvers kyns afþreyingu og þjónustu í grenndinni.

Góð tjaldstæði í boði

Davíð segir að mikið sé um að fjölskyldur sem séu í sumarbústöðum, fellihýsum og tjöldum geri út frá viðverustað sínum og ferðist um Suðurlandið. Nefnir hann að búið sé að leggja töluvert í að útbúa góð tjaldstæði fyrir landsmenn. Bendir Davíð á að mörg tjaldstæði í Skaftafellssýslunum séu með þeim betri á landinu. Davíð segir að mikil þróun hafi orðið í ferðaþjónstu og bætir við að sögu- og menningartengd ferðaþjónusta njóti sívaxandi vinsælda.

 

 

 

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Davíð Samúelsson

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 13. júní 2013

 

Skráð af Menningar-Staður

13.06.2013 05:56

Við skólalok

Sandar Dís Hafþórsdóttir á Eyrarbakka

Við skólalok

Ég skrifaði stutta grein í héraðsblöðin sl. haust, þá var skólaárið að hefjast og hauströkkrið að skella á með öllum sínum sjarma.  Mér finnst eins og þetta hafi verið í gær en staðreyndin er víst sú að skólaárið er liðið og í síðustu viku voru skólaslit í grunnskólum sveitarfélagsins.  Nemendur og starfsfólk halda nú út í sumarið og fljótlega hefst einnig sumarfrí hjá leikskólunum okkar hér í Árborg.

Veturinn hefur verið viðburðarríkur með mörgum og fjölbreyttum verkefnum.  Leikskólarnir hafa nær allir verið fullsetnir í vetur og hefur starfsemi þeirra gengið vel.  Þeir starfa eftir mismunandi stefnum og hafa því tekist á við ólík verkefni til viðbótar við hin hefðbundnu daglegu störf.  Innleiðing á nýrri aðalnámskrá, Grænfáninn, samstarfsverkefnið Gullin í grenndinni og þróunarverkefni tengt lýðræði eru dæmi um þau fjölbreyttu viðfangsefni sem leikskólarnir hafa tekist á við og það er virkilega gaman að sjá hversu mikið og gott starf er unnið á leikskólunum okkar.  Það kom líka berlega í ljós í foreldrakönnun sem framkvæmd var á liðnum vetri hversu mikil ánægja er meðal foreldra leikskólabarna með starfsemi leikskólanna en  98% þeirra sem svöruðu töldu að barninu sínu liði vel í leikskóla og 93% svarenda voru ánægð með leikskólana þegar á heildina var litið.  Sl. vetur var í fyrsta skipti haldinn sameiginlegur fundur með leikskólastjórum, fulltrúum leikskólakennara í hverjum leikskóla, fræðslustjóra, sérkennsluráðgjafa leikskóla og formanni fræðslunefndar.  Þetta var gríðarlega góður fundur þar sem margt gagnlegt kom fram og það er von mín að áframhald verði á slíkum fundum á komandi vetri.

Í grunnskólunum, eins og í leikskólunum, hefur farið fram fjölbreytt og gott starf í vetur og nemendur og starfsfólk hafa tekið þátt í ýmsum verkefnum utan hefðbundinnar kennslu, má þar t.d. nefna  Barnabæ, Þjóðleik, veglegar árshátíðir, Stóru upplestrarkeppnina,Skólahreysti, skólaþing og smákökubakstur.  Einnig hefur verið unnið mikið í innleiðingu á nýrri aðalnámskrá.  Ný aðalnámskrá býður upp á mikla möguleika og fjölbreytt skólaumhverfi og það er von mín að skólasamfélaginu öllu takist að nýta hana og framfylgja með þeim hætti að skólaumhverfi okkar verði enn betra og eftirsóknarverðara.

Hugmyndafræði og inntak aðalnámskráa leik -og grunnskóla má einmitt glöggt sjá í nýútkominni skólastefnu sveitarfélagsins.  Sl. haust hófst vinna við nýja skólastefnu og ég leyfi mér að fullyrða að engin stefna á vegum sveitarfélagsins hafi verið unnin  með jafn lýðræðislegum hætti og þessi.  Að henni kom í raun allt samfélagið, haldnir voru opnir hugarflugsfundir, umræðufundir meðal starfsfólks, nemenda og foreldrafélaga, opnaður var ábendingavefur ásamt því sem fræðslunefnd fjallaði reglulega um málið.  Vinnunni stýrði þriggja manna hópur sem fundaði reglulega í allan vetur og á vordögum leit loks skólastefnan ljós en hana má nálgast á vef sveitarfélagsins www.arborg.is

Framundan eru spennandi tímar í skólunum okkar.  Um næstu áramót mun Sveitarfélagið Árborg hefja rekstur sérfræðiþjónustu fyrir skólana og er það gríðarlega stórt og mikið verkefni sem við bindum miklar vonir við.  Lagt er upp með gott samstarf við skólana sjálfa og hefur fræðslustjóri fundað með kennurum í öllum skólunum sl.vikur og farið yfir helstu áhersluatriði þeirra varðandi sérfræðiþjónustu  og aðra þjónustu við börn. Spjaldtölvuvæðingin er að fara í gang og munu áhugasamir kennarar og nemendur í  Vallaskóla líklega ríða á vaðið næsta vetur í innleiðingu á þeirri tækni.  Aðrir skólar munu svo væntanlega fylgja í kjölfarið.  Á fundi fræðslunefndar í maí var einnig ákveðið að stofna starfshóp um notkun upplýsingatækni í skólastarfi sveitarfélagsins.

Það er öllum ljóst að undanfarin ár hafa verið þung í rekstri skólanna, niðurskurður hefur verið mikill og eiga stjórnendur og starfsfólk hrós skilið fyrir það starf sem þeir hafa lagt af mörkum við erfiðar aðstæður oft á tíðum.  Þrátt fyrir það er mikilvægt að horfa björtum augum til framtíðar og setja okkur háleit markmið, skipum skólunum okkar í fremstu röð.

Sandra Dís Hafþórsdóttir, formaður fræðslunefndar Svf. Árborgar

 

Frá skólaslitum Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri á dögunum í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka.

Frá skólaslitum Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri á dögunum í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka.

Frá skólaslitum Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri á dögunum í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

12.06.2013 17:25

Félag eldri borgara á Akranesi í heimsókn á Eyrarbakka í morgun 12. júní

 

Sumarferð Félags eldri borgara á Akranesi og nágrenni um Suðurland hófst í morgun kl. 8 þegar lagt var upp frá Akranesi. Þátttakendiur í ferðinni eru um 50.

Fyrsti viðkomustaðurinn var Eyrarbakki þar sem Regína Guðjónsdóttir, formaður félags eldri borgara á Eyrarbakka og Siggeir Ingólfsson, staðrhaldari í Félagsheimilinu Stað tóku þar á móti getum með kaffi.

Síðan var farið í Eyrarbakkakirkju þar sem Siggeir Ingólfsson sagði frá ýmsu í sögu kirkju og svæðis.

 

Menningar-Staður var á staðnum og færði til myundar.

Myndalabúm er komið hér á Menningar-Stað.

Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/PhotoAlbums/248530/

 

Nokkrar myndir eru hér.

 

Búðarstígurinn á Eyrarbakka var í morgun sem göngugata í stórborg.

Margir Akurnesingar og fjöldi útlendinga á svæðinu.

 

 

 

 

 

 

Fararstjórinn Anna Bjarnadóttir og Siggeir Ingólfsson.

 

F.v.: Fararstjórinn Anna Bjarnadóttir, Ásdís Jónína Halldórsdóttir, nýr starfsmaður í Upplýsingamiðstöðinni á Stað og Regína Guðjónsdóttir, formaður félags eldri borgara á Eyrarbakka.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

12.06.2013 12:48

Guðmundur S. Brynjólfsson sækir um starf djákna í Bessastaðasókn

Guðmundur S. Brynjólfsson á Eyrarbakka.

 

Guðmundur S. Brynjólfsson sækir um starf djákna í Bessastaðasókn

 

 

Átta umsækjendur eru um störf djákna í Bústaðakirkju og Bessastaðasókn. Umsóknarfrestur um stöðurnar rann út í lok maí. Fjórir umsækjendur eru um hvora stöðu fyrir sig.

Um starf djákna í Bústaðakirkju sóttu:

 • Elísabet Gísladóttir, djáknakandídat
 • Guðbjörg Ágústsdóttir, djákni
 • Hólmfríður Ólafsdóttir, djáknakandídat
 • Ingigerður Anna Konráðsdóttir, djáknakandída

Um starf djákna í Bessastaðasókn sóttu

 • Guðmundur S. Brynjólfsson, djákni.
 • Ingigerður Anna Konráðsdóttir, djáknakandídat
 • Linda Jóhannsdóttir, djáknakandídat
 • Margrét Gunnarsdóttir, djáknakandídat

Sóknarnefndir í hvorri sókn fyrir sig taka ákvörðun um hver skuli ráðinn. Djáknar starfa á grundvelli laga um stöðu stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 og skv. starfsreglum þjóðkirkjunnar um djákna nr. 738/1998.

 

Bessastaðir.

 

Af: www.kirkjan.is

 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

12.06.2013 05:47

Opnuðu gallerí í ganginum heima

 

 

Berlínarpar. Þórir og Júlía í stofunni heima í íbúðinni sinni í Berlín, þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja.

 

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Gallerí heima.

Frá opnun sýningar Elísabetar Olku og Guðrúnar Olsen í 13m. F.v. Elísabet Olka, myndlistarkona í Kaupmannahöfn, Birta Fróðadóttir sýningarstjóri, Júlía, Þórir, Guðrún Olsen myndlistarkona.

 

Opnuðu gallerí í ganginum heima

 

Berlínarparið Júlía og Þórir gerðu sér lítið fyrir og opnuðu listagallerí heima hjá sér, í stórum gangi í miðri íbúð þar sem þau búa í Moabit-hverfinu. Þórir er í námi en Júlía fer m.a um Berlín með Íslendinga ásamt Steinunni Sigurðardóttur.

 

Þetta kom þannig til að þegar við vorum nýflutt hingað þá kom vinkona okkar, Birta Fróðadóttir arkitekt, í heimsókn og hún hrópaði upp yfir sig um leið og hún kom inn og við blasti þessi stóri gangur: „Hvað er þetta? Sjúkrahús?“ Svo stikaði hún ganginn og bætti við: „Þetta eru þrettán metrar! Hvernig getum við nýtt þetta rými?“ Okkur datt öllum í hug listagallerí. Svo við ákváðum að gera ganginn að vettvangi fyrir listafólk til að sýna verk sín,“ segja þau Júlía Björnsdóttir og Þórir Ingvarsson sem búsett eru í Berlín og reka heima hjá sér galleríið 13m. „Við höfum almennt mjög gaman af því að fá gesti, þannig að við njótum þess að taka á móti gestum í galleríið og það truflar okkur ekkert að fólk sé um leið inni á okkar heimili. Auk þess höfum við mjög gaman af og mikinn áhuga á myndlist, þannig að þetta hentar okkur vel,“ segir Þórir og bætir við að það sé gaman að stefna saman ólíku fólki og skapa umræðu í ganginum heima. „Hér hafa verið fjórar sýningar með listamönnum sem allir búa og eða starfa tímabundið í Berlín. Tvær sýningar með íslenskum listamönnum, þeim Elísabetu Olka og Guðrúnu Olsen, og tvær með erlendum listamönnum, þeim Joseph Marzolla frá Frakklandi og Dylan Taylor frá Nýja-Sjálandi.“ Nú stendur yfir sýning á verkum Kristínar S. Garðarsdóttur í galleríi 13m. Næsta sýning verður opnuð í júlí, þá mun japanski listamaðurinn Hoji Tsuchiya sýna vídeóverk og teikningar.

 

Efnafræði, listasaga og handavinna í forvörslunni

Júlía og Þórir hafa búið í Berlín frá því haustið 2011, eða í tæp tvö ár. „Við fluttum hingað frá Kaupmannahöfn, þar sem við höfðum búið í nokkur ár, en ég fékk inn í skóla hér í námi í forvörslu ljósmynda og kvikmynda, sem er eini skólinn í Evrópu sem býður upp á slíkt nám,“ segir Þórir sem var í ljósmyndaskóla í Danmörku. „Ég heillaðist fyrst af forvörslu á ljósmyndavörukynningu í Köln fyrir nokkrum árum og í framhaldi af því fór ég að vinna í því að komast inn í forvörsluskólann í Berlín.“ Hluti af þeim undirbúningi var starfsmenntun í eitt ár hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. „Forvarslan felst í viðgerðum og varðveislu á ljósmyndum, kvikmyndum og hljóðupptökum. Þetta er mjög skemmtilegt nám og fjölbreytt, mikil efnafræði, listasaga og handavinna.“

Júlía fór til Danmerkur árið 2003 í skiptinám í stjórnmálafræði og ætlaði að vera í ár, en þau urðu átta. „Kaupmannahöfn er skemmtileg borg og það er auðvelt að festast þar. Ég fór í meistaranám í stjórnun skapandi greina, nám sem gekk út á að tengja brú á milli listamanna og kaupsýslumanna. Ég vann í menningarhúsi Íslands, Grænlands og Færeyja á Norðurbryggju og ég vann líka í viðburðastjórnun á tónleikastað fyrir heimstónlist. Frá því ég kom til Berlínar hef ég verið að vinna í lausamennsku í viðburðastjórnun og fengið ýmis verkefni, oftast tengd Íslandi, nú síðast Tölt-sýninguna í íslenska sendiráðinu.“

 

Kajak og hvalveiðislóðir

Í vetur hefur Júlía verið með gönguferðir í Berlín með Steinunni Sigurðardóttur rithöfundi, þar sem þær fara á söguslóðir bóka hennar, Jójó og Fyrir Elísu. „Við Steinunn kynntumst í Kaupmannahöfn á bókmenntahátíð sem ég tók þátt í að skipuleggja og svo hittumst við aftur hér í Berlín í fyrra og ég fór með henni og nokkrum vinum hennar á þessar söguslóðir. Í framhaldinu fengum við þá hugmynd að bjóða upp á slíkar gönguferðir fyrir íslenska gesti hér í borg. Steinunn er alveg í essinu sínu í þessum göngum og næsta skref verður að bjóða upp á þetta fyrir Þjóðverja því Jójó kemur út á þýsku í haust og Steinunn er mjög vinsæll höfundur í Þýskalandi.“ Júlía segir að Steinunn hafi kveikt í leiðsögumannapúkanum sem blundaði í henni. „Ég vann sem kajakleiðsögumaður á Stokkseyri og ég tók á móti Norðmönnum á Vestfjörðum og fór með þá á hvalveiðislóðir,“ segir Júlía og bætir við að Eirik Sördal hafi tekið hana í læri, en hann hefur starfað sem leiðsögumaður meðfram lögfræði- og heimspekistörfum um langan tíma í Berlín. „Við höfum verið í samstarfi og farið í gönguferðir, rútuferðir og hjólaferðir með Íslendinga hér úti.“

 

Byrjaði níu ára í saltfiski

Þórir og Júlía kynntust í Danmörku fyrir sex árum. „Þá var ég einmitt á leiðinni til Kanada til að dvelja þar í sex mánuði, sem var hluti af náminu mínu, en tilhugalífið var á heitu frumstigi, svo Þórir kom með mér. Ég held það hafi verið ágætis prófsteinn fyrir okkur að byrja sambandið á því að vera tvö ein í Kanada, við höfðum ekkert nema hvort annað,“ segir Júlía sem er Vestfirðingur, fædd og uppalin á Flateyri til sex ára aldurs, en þá flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. „En við áttum áfram heimili á Flateyri og fórum alltaf þangað um jól og áramót og dvöldum þar líka á sumrin, en bæði móður- og föðurfjölskylda mín eru frá Flateyri. Ég byrjaði níu ára að vinna í saltfiski í Hólmaröst, sem var fiskvinnslufyrirtæki foreldra minna, staðsett í Reykjavík. Seinna fluttu þau fyrirtækið og heimili sitt til Stokkseyrar en þau ráku fyrirtækið í rúm tuttugu ár með góðum árangri, þrátt fyrir að eiga ekki kvóta, sem ég held að sé einstakt. Þegar dró saman í saltfiskinum breyttu þau húsnæðinu í menningarverstöð, þar er nú Draugasetur, vinnustofur fyrir listamenn, sýningarsalir og fleira.“ Júlía og Þórir eru ekkert á leiðinni að flytja heim, þeim líður vel í Berlín og eru með ótímabundinn leigusamning á íbúðinni rúmgóðu með galleríinu á ganginum.

 

Um söguslóðir bóka, Jójó og Fyrir Lísu

Sögumenn: Steinunn Sigurðardóttir og Júlía Björnsdóttir. Í göngunum er fléttaður saman fróðleikur um Berlín, um viðkomustaðina í Kreuzberg sérstaklega, og um skáldsögurnar Jójó og Fyrir Lísu, auk þess sem höfundur les stutta kafla úr bókunum. Í hverri göngu hafa nýir fróðleiksmolar frá þátttakendum bæst við, sem ekki er að finna í hefðbundnum leiðsögubókum, og halda Steinunn og Júlía þeim að sjálfsögðu upphátt til haga, um leið og þær vonast eftir nýjum fróðleik. Aðalvettvangur göngunnar er Kreuzberg-hverfið í Berlín, heimavöllur söguhetjunnar Martins Montag, og heimavöllur Steinunnar Sigurðardóttur, sem flutti til Berlínar fyrir nokkrum árum. Hverfið er sérlega fjölbreytt og skrautlegt, og hefur á síðustu árum orðið eitt hið vinsælasta í Berlín. Gangan hefst við Südstern, þar sem leiði Sommer og Luft, ímyndaðra kjörforeldra Martins Montags, eru skoðuð. Meðal viðkomustaða er hinn sögufrægi Tempelhof-flugvöllur, sem lagður var niður fyrir fáeinum árum og gerður að útivistarflæmi. Enn er hægt að valsa um upprunalega flugvallarmynd, með flugbrautum og merkingum, og er ekki úr vegi að nota tækifærið, áður en jarðýtur taka til starfa. Kaffi- og bjórhlé er gert í Marheineke-Markthalle við Bergmannstrasse. Á því markaðstorgi er hægt að fá margra þjóða snarl og bakkelsi. Undurfallegur Viktoriapark er þá skammt undan, og svo bjórgarðurinn Brachvogel, þar sem gangan endar, en það er sá staður þar sem vinirnir Martin læknir og Martin franski, fyrrum sjúklingur hans og fyrrum róni, hittast til þess að skvaldra á laugardögum.

Fyrir Lísu kom út hjá Bjarti árið 2012 og er sjálfstætt framhald af Jójó sem kom út 2011. Bóksalar völdu Jójó bók ársins, hún hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og einróma lof gagnrýnenda.

Næsta ganga: Laugardaginn 15. júní kl. 13.

Gallerí: www.13m-moabit.com Þeir sem hafa áhuga á að koma til að kíkja á sýningu, geta haft samband á: juliabjorns@gmail.com Ljósmyndasíða Þóris: www.thoriri.com
 
 
Morgunblaðið miðvikudagurinn 12. júní 2013  - Kristín Heiða Kristinsdóttir
 
Skráð af Menningar-Staður

11.06.2013 20:14

Guðni safnar saman sögum í bók

Guðni Ágústsson í 5 ára afmæli Hrútavinafélagsins Örvars.

 

Guðni safnar saman sögum í bók
Guðni Ágústsson segir sögur af sjálfum sér og öðrum í væntanlegum sagnabálki.
 

"Það eru ýmsir búnir að nefna þetta við mig í nokkur ár. Ég hef auðvitað verið sagnamaður á ýmsum skemmtunum og kann margar sögur um marga snjalla. Í þeim liggur bæði skemmtun og fróðleikur," segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

 

Í haust er væntanleg á vegum Veraldar sagnabálkur þar sem Guðni segir sögur af sjálfum sér og öðrum, sögur af forvitnilegu fólki sem hann hefur mætt á lífsleiðinni, óþekktum bændum í Flóanum jafnt sem þjóðkunnum stjórnmálamönnum.

 

"Ég hef orðið við því að reyna að safna þessu saman og gefa út þessa vonandi

skemmtilegu bók. Það er mikilvægt fyrir þessa þjóð að fara að hlæja og vera glöð. Vonandi leggur maður sitt lóð á þær vogarskálar. En það er eitt að segja sögur og annað að skrifa þær niður, þannig að þetta er vandaverk."

 

Veröld ætlar einnig að safna saman skemmtilegum sögum um Guðna á meðal almennings til að nota í bókinni og hvetur fólk til að senda sér sögur á netfangið Gudnasogur@verold.is.

 

Guðni Ágústsson í 10 ára afmæli Hrútavinafélagsins Örvars.

 

Fréttablaðið þriðjudagurinn  11. júní 2013

 

Skráð af menningar-Staður

 

11.06.2013 15:40

Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka um aðra helgi

Frá Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka 2012

 

Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka um aðra helgi

 

Viðburða- og menningardagskrá Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2013 er á heimasíðu bæjarins  -  sjá HÉR

Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka um aðra helgi er næsta stórhátíðin á Sveitarfélaginu Árborg að frátaldri þjóðhátíðinní 17. júní.

Landsmót UMFÍ ber hæst í júlí og síðar í mánuðinum verður Bryggjuhátíð á Stokkseyri.

Hátíðin Sumar á Selfossi verður í ágúst

Þá verða Aldamótahátíð á Eyrarbakka og alþjóðleg Hátíð alþýðutónlistar á Eyrarbakka sem báðar verða í ágúst.

Þessi dagskrá er ekki tæmandi, en henni verða gerð skil eftir því sem að atburðum dregur.

Dagskrána, eins og hún er nú, má sjá HÉR

 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

 

 

 

11.06.2013 07:01

Berlín - Ganga 15. júní um söguslóðir Jójó og Fyrir Lísu

Næsta gönguferðir um hið heillandi fjöruga Kreuzberg hverfi í Berlín á söguslóðir skáldsagnanna Jójó og Fyrir Lísu eftir Steinunni Sigurðardóttur verður laugardaginn 15. júní kl. 13:00

Í göngunni verður fléttaður saman fróðleikur um Berlín, um viðkomustaðina í Kreuzberg sérstaklega, og um skáldsögurnar Jójó og Fyrir Lísu, auk þess sem höfundur les stutta kafla úr bókunum. 

Fyrir Lísu kom út hjá Bjarti árið 2012 og er sjálfstætt framhald af Jójó sem kom út 2011. Bóksalar völdu Jójó bók ársins, hún hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og einróma lof gagnrýnenda. 
Jójó kemur út á þýsku síðar á árinu. 

Sögumenn: Steinunn Sigurðardóttir og Júlía Björnsdóttir frá Eyrarbakka.

Mæting: Südstern U-bahn (U7) 

Verð: 15 € 
5 € gegn framvísun stúdentaskírteinis

Ath. að ekki þarf að hafa lesið Jójó eða Fyrir Lísu til að hafa gaman af göngunni. 

 

Frá göngu um söguslóðina í Berlin í haust.

Stokkseyringarnir; Ingis Ingason og frú eru önnur og þriðji f.v.

Þriðja frá hægri er Eyrbekkingurinn Júlía Björnsdóttir. Önnur frá hægri er Steinunn Sigurðardóttir.

Lengst til hægri er Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Þýskalandi með búsetu í Berlín.

 

Ljósm.: Þórir Ingvarsson.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

11.06.2013 06:32

Hljóðritar Sólarsvítu í Kiev

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Árni Johnsen

 

Hljóðritar Sólarsvítu í Kiev

• Þjóðarsinfónía Úkraínu leikur verk eftir Árna Johnsen

 

Árni Johnsen er á förum til Kiev í Úkraínu síðar í vikunni. Þar mun Þjóðarsinfóníuhljómsveit Úkraínu, sem er ein helsta sinfóníuhljómsveit landsins og talin ein fremsta sinfóníuhljómsveit í heimi, hljóðrita Sólarsvítuna eftir Árna hinn 16. júní næstkomandi. Stjórnandi er Volodymyr Sirenko, aðalstjórnandi hljómsveitarinnar. Verkið byggist á tónverkum Árna.

„Svítan er fjórtán kaflar, allt lög sem ég hef gert við ljóð ýmissa þekktra ljóðskálda á borð við Matthías Johannessen, Stein Steinarr, Indriða G. Þorsteinsson, Jónas Guðlaugsson, Jóhannes úr Kötlum, Tómas Guðmundsson, Halldór Laxness og Torfa Ólafsson og eins þrjú ljóð sem ég gerði,“ sagði Árni. „Þeir sjá bæði um tónlistarflutninginn og um upptökuna. Þeir vildu gera þetta allt og höfðu á orði að það væri ekki á hverjum degi sem einhver maður utan úr bæ bæði hljómsveitina að taka verk eftir sig!“

Breski tónlistarmaðurinn Ed Wells útsetti Sólarsvítuna. Hann annaðist einnig útsetningu Stórhöfðasvítunnar sem kom út árið 1998 og er hann einn aðalútsetjari breska ríkisútvarpsins BBC, að sögn Árna.

En stendur til að gefa Sólarsvítuna út? „Við sjáum bara til,“ sagði Árni léttur í bragði.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 11. júní 2013

 

 

Árni Johnsen á Hrútavinasviðinu á Stokkseyrarbryggju og sól í vestri.

 

Skráð af menningr-Staður

10.06.2013 23:42

Leiðbeiningarit fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva

 

Ferðamálastofa hefur gefið út ritið "Upplýsingamiðstöðvar - Leiðbeiningarit fyrir starfsfólk". Um er að ræða 13. útgáfu í endurbættri mynd.

Ritinu er ætlað að gera þeim sem reka upplýsingamiðstöðvar og starfsfólki þeirra auðveldara að skipuleggja starfið og bæta á ýmsa lund. Þótt aðstæður á hverjum stað séu mismunandi þá er áríðandi að allar upplýsingamiðstöðvar starfi eftir sömu grundvallarreglum. Það gerir þær trúverðugri og eykur tiltrú ferðamannsins og hagsmunaaðilanna á þeim.

Hlutverk upplýsingamiðstöðva er að auka gæði þjónustu við innlenda og erlenda ferðamenn og veita þeim þær upplýsingar sem þeir þarfnast til að auðvelda sér ferðalagið. Upplýsingamiðstöðvar eru mikilvægar fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu um allan heim.

 • Með betri upplýsingum er líklegra að ferðamaðurinn veiti sér eitthvað sem hann hefði annars farið á mis við og er því oft um beinan fjárhagslegan ávinning að ræða.
 • Hlutverk upplýsingamiðstöðva er einnig að auðvelda hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu að koma vöru sinni og þjónustu á framfæri.
 • Með auknum upplýsingum til ferðamanna aukast líkurnar á vel heppnuðu fríi en kannanir sýna að ánægður ferðamaður er okkur mikilvæg auglýsing.
 • Upplýsingamiðstöðvar gegna mikilvægu hlutverki varðandi öryggi ferðamanna.
 • Einnig er mikilvægt að stuðla að aukinni dreifingu þeirra um landið. Þannig njóta fleiri tekna af ferðamönnum og álagið á viðkvæma náttúru landsins dreifist.
 • Með aukinni kynningu á upplýsingamiðstöðvum fjölgar þeim sem notfæra sér stöðvarnar á sínum heimaslóðum. Fólk getur þannig skipulagt ferðir sínar betur áður en lagt er af stað.

Ritið í heild má nálgast hér að neðan.

Upplýsingamiðstöðvar - Leiðbeiningarit (Vefútgáfa)

Upplýsingamiðstöðvar - Leiðbeiningarit (PDF)

 

Af: www.ferdamalastofa.is

 

Skráð af Menningar-Staður