Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Júlí

31.07.2013 20:45

Vínsérfræðingarnir fá valkvíða á Rauða húsinu

Skúli Gíslason, yfirþjónn á Rauða-húsinu á Eyrarbakka og Sandra Ösp Stefánsdóttir þjónn þar.

 

Vínsérfræðingarnir fá valkvíða á Rauða húsinu

 

„Veðrið hefur alltaf einhver áhrif á aðsóknina. Um leið og góða veðrið kom í síðustu viku fylltist staðurinn hjá okkur. Annars hefur sumarið verið gott og nóg verið að gera“, sagði Skúli Gíslason, yfirþjónn á Rauða húsinu á Eyrarbakka. 

Hann sagði að hjá þeim væri lögð áhersla á afslappað andrúmsloft og fjölbreyttan matseðil. Margir höfuðborgarbúar nýttu sér það og mikið væri um að fólk gerði sér ferð  úr bænum og fengi sér að borða á Rauða húsinu. Annars væri álíka mikið af erlendum ferðamönnum og Íslendingum sem kæmu. Þegar talið barst að matseðlinum sagði Skúli að humarinn væri alltaf vinsæll, en veitingahúsin matreiða hann hvert með sínum hætti og virtist fólki líka það vel. Þá nefndi Skúli að þau væru með hrossalund sem væri pönnusteikt og grilluð í ofni og svo Mojitoskyr með ís og ferskum ávöxtum. Sagði hann að það væri eftirréttur sem fengist ekki annars staðar en hann væri búinn til eins og Mojito. Á matseðlinum er líka áhugaverður eftirréttur „Gamla góða Þjórsárhraunið“. Þar er um að ræða heita súkkulaðiköku með ís og ferskum ávöxtum. Af forréttum nefndi hann hreindýra carpaccio en það er þunnskorið hrátt hreindýrakjöt borið fram með klettasalati og parmesian.

Á Rauða húsinu er boðið upp á sérstakt þriggja rétta tilboð. Þar er hægt að velja um sjávarréttasúpu eða humarsúpu í forrétt, lambafillet eða fiskitvennu dagsins í aðalrétt og síðan er belgísk vaffla í eftirrétt. Tilboðið kostar 6.900 kr. á manninn. Skúli sagði síðan að vínlisti hússins væri sérstaklega flottur. „Vínsérfræðingarnir fá valkvíða þegar þeir sjá listann“, sagði Skúli að lokum.

Af: www.dfs.is

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

 

31.07.2013 06:00

31. júlí 1999 - Ólafur Helgi Kjartansson hitti Mick Jagger á götuhorni á Ísafirði

Ólafur Helgi Kjartansson syngur hér Rolling Stones-lög á Bryggju-Sviðinu á Stokkseyrarbryggju með hljómsveitinni Granít frá Vík í Mýrdal.

 

31. júlí 1999 - Ólafur Helgi Kjartansson

hitti Mick Jagger á götuhorni á Ísafirði

 

Mick Jagger birtist óvænt á Ísafirði, ferðaðist á snekkju um Hornstrandir og fór víðar.

„Af öllu ótrúlegu þá hefði mér fundist það ótrúlegast að eiga eftir að hitta Mick Jagger á götuhorni á Ísafirði,“ sagði Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður og aðdáandi Rolling Stones í 36 (50) ár í viðtali við Morgunblaðið.

 

Morgunblaðið miðvikudagurinn  31. júlí  2013

 

Ólafur Helgi Kjartansson og Granít frá Vík í Mýrdal á Hótel Selfossi.

 

Skráð af Menningar-Staður

31.07.2013 05:46

Færeysk stórhátíð á Stokkseyri um helgina

Stokkseyri. Ljósm.: Mats Wibe Lund

 

Færeysk stórhátíð á Stokkseyri um helgina

 

Á morgun hefjast Færeyskir fjölskyldudagar á Stokkseyri og standa þeir til 5. ágúst. Þar verður boðið upp á skemmtun að færeyskum sið; færeyskir tónlistarmenn koma fram, sagðar verða bæði nýjar og gamlar sögur frá Færeyjum og boðið verður upp á skerpikjöt.

Alla helgina verður hægt að fara á kajak á vatnasvæðinu í grennd við Stokkseyri og einnig verður boðið upp á að veiða í Hraunsá og á bryggjunni.

Þuríðarbúð verður opin og það sama gildir um söfn á svæðinu, en boðið er upp á tilboð séu fleiri söfn en eitt heimsótt. Þá verður rjómabúið við Stokkseyri opið, auk vinnustofa fjölmargra listamanna sem kynna störf sín og verk og dansleikir verða á Draugabarnum föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöld.

 

Morgunblaðið miðvikudagurinn 31. júlí 2013

 

Skráð af Menningar-Staður

30.07.2013 20:42

Myndir dagsins - Uppskeruhátíð Hrútavina í Hafinu bláa 24. september 2008

Karen Dröfn Hafþórsdóttir að syngja lagið  -Við gengum tvö-  með Hrútavinabandinu í Hafinu bláa 24. sept. 20008

Hér má sjá myndband: http://www.youtube.com/watch?v=2dgZd48O4XE

 

Uppskeru- og réttarhátíð Hrútavina í Hafinu bláa 24. september 2008

 

Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi hélt uppskeru- og réttarsamkomu miðvikudagskvöldið 24. september 2008

í einu af félagsheimilum sinna manna þ.e.í Veitingahúsinu Hafinu bláa við Ölfusárósa.

 

Þakkað var gott og gjöfult sumar til lands og sveita og fagnað upphafi vertíðar til sjávarins.

Á borðum var rammíslensk kjötsúpa og þjóðleg hausastappa úr þorskhausum.

 

Hljómsveit Hrútavina “Hrútvinabandið” kom fram með gestasöngvörum sem voru Karen Dröfn Hafþórsdóttir á Eyrarbakka

og Sigurður Torfi Guðmundsson á Selfossi.

 

Nýir meðlimir sem fluttu höfðu á Suðurlandið voru boðnir velkomnir að hætti Hrútavina svo sem “Maður orðsins” Guðbjartur Jónsson sem nýlega flutti til skáldabæjarins Hveragerðis vestan af fjörðum.

Þá voru orðuveitingar eins og ætíð á Hrútavinasamkomum og afhentar gjafir.

 

Sérstakir gestir á samkomunni voru Súluvinir frá Keflavík og Vestmannaeyjum en Hrútavinir og Súluvinir hafa á undanförnum árum átt gott og gleðiríkt mannlífs og menningarsamstarf sem varir enn.

 

Komið er myndalabúm frá Uppskeruhátíðinni hér á Menningar-Stað

Smella á þessa slóð:  http://menningarstadur.123.is/PhotoAlbums/250707/

 

Nokkrar myndir hér:

 

Hrútavinabandið. F.v.: Víðir Björnsson, Jóhann Vignir Vilbergsson, Karen Dröffn Hafþórsdóttir, Karl Magnús Bjarnarson og Guðmundur Einar Vilbergsson.

 

Hrútavinabandið. H.v.: Víðir Björnsson, Jóhann Vignir Vilbergsson, Karl Magnús Bjarnarson, Sigurður Torfi Guðmundsson og Guðmundur Einar Vilbergsson.

 

F.v.: Kristín Þuríður Sigurðardóttir, Þórhildur Ólafsdóttir, Jóna Guðrún Haraldsdóttir og Bjarkar Snorrason.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

30.07.2013 12:55

Gestir og gangandi að morgni 30. júlí 2013 í og við Félagsheimilið Stað * Menningar-Stað

Á sjóvargarðinum við Félagsheimilið Stað í morgun.

F.v.: Siggeir Ingólfsson, Erlingur Þór Erlingsson, Alda Guðjónsdóttir og Jón Gunnar Gíslason

 

Gestir og gangandi að morgni 30. júlí 2013

í og við Félagsheimilið Stað * Menningar-Stað

 

Fjöldi gesta og gangandi kom í morgun, þriðudaginn 30. júlí 2013,  í Félagsheimilið Stað á Eyrarbakka.

Flestir komu inn og allir fóru upp á sjóvarnagarðinn og margir voru myndaðir mað Atlantshafið í bakgrunni.

 

 

Menningar-Staður færði til myndar:

 

Siggeir Ingólfsson og Erlingur Þór Erlingsson.

 

 

Siggeir Ingólfsson og Erlingur Þór Erlingsson.

 

F.v.: Siggeir Ingólfsson og Finnur Kristjánsson.

 

Skráð af Menningar-Staður

_______________________________________________________________________________

   -Hornstrandir og Jökulfirðir - 2. bók komið út-

 

 

 

30.07.2013 10:58

Ljósan á Bakkanum í Húsinu á Eyrarbakka

 

Ljósan á Bakkanum í Húsinu á Eyrarbakka

 

Í Húsinu, Byggðasafni Árnesinga, á Eyrarbakka hefur frá því í lok maí staðið yfir sýningin Ljósan á Bakkanum. 

Sýningin fjallar um líf og störf Þórdísar Símonardóttur, ljósmóður á Eyrarbakka 1883–1926. Á sýningunni er sjónum beint að aðstæðum fæðandi kvenna á þessum tíma, starfsaðstæðum og kjörum ljósmæðra, sem flestar urðu að vinna önnur störf meðfram ljósmóðurstarfinu. Þórdís flutti á Eyrarbakka 1883 tæplega þrítug að aldri, bjó þar í hálfa öld og sinnti lengst af ljósmóðurstörfum. Ljósan á Bakkanum er samstarfsverkefni Byggðasafns Árnesinga, Brúarsmiðjunnar og Eyrúnar Ingadóttur sagnfræðings og höfundar bókarinnar Ljósmóðirin sem kom út á síðasta ári og fjallar um Þórdísi ljósmóður.

Þetta er áhugaverð sýning og ástæða til að hvetja fólk til að fá sér bíltúr og skoða Húsið á Eyrarbakka. Börnin hafa líka bæði gagn og gaman af að skoða gamla muni og spá aðeins í tilveruna eins og hún var í gamla daga. Sýningin er opin alla daga kl. 11-18 og henni lýkur 15. september.

 

Af: www.dfs.is

Kvenfélagskonur á Eyrarbakka skoðuðu sýninguna um Ljósuna á Bakkanum þann 19. júní s.l.

 

Nokkrar myndir:

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

30.07.2013 05:54

Merkir Íslendingar - Auður Sveinsdóttir Laxness frá Eyrarbakka

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Auður Sveinsdóttir Laxness frá Eyrarbakka.

 

Merkir Íslendingar - Auður Sveinsdóttir Laxness frá Eyrarbakka

 

Auður fæddist á Eyrarbakka 30. júlí 1918 og ólst þar upp til sjö ára aldurs. Foreldrar hennar voru Sveinn Guðmundsson járnsmiður og k.h., Halldóra Kristín Jónsdóttir.

Sveinn var sonur Guðmundar, b. á Nýjabæ Gíslasonar, og Margrétar, systur Hafliða, afa Ólafs K. Magnússonar ljósmyndara. Margrét var dóttir Jóns, b. á Álfsstöðum á Skeiðum, bróður Einars, afa Einars Magnússonar, rektors MR. Móðir Margrétar var Margrét Dóróthea, systir Guðmundar í Miðdal, langafa Vigdísar Finnbogadóttur og Errós.

Halldóra Kristín var systir Steinunnar Guðrúnar, móður Baldvins Halldórssonar leikara frá Arngerðareyri við Djúp, föður Páls bókmenntagagnrýnanda og Ingu Láru á Eyrarbakka, deildarstjóra Ljósmyndadeildar Þjóðminjasafns Íslands. Halldóra var dóttir Jóns, hreppstjóra á Skálmarnesmúla Þórðarsonar, b. á Þórisstöðum, bróður Þorsteins í Æðey, föður Péturs Thorsteinssonar útgerðarmanns. Móðir Jóns hreppstjóra var Guðrún, systir Jóns, föður Björns ráðherra og ritstjóra, föður Sveins forseta.

Auður lauk gagnfræðaprófi og prófum frá Handíða- og myndlistarskólanum 1946. Hún starfaði við röntgendeild Landspítalans í tólf ár, kenndi í Varmárskóla og starfaði við Þjóðminjasafnið í einn vetur.

Auður giftist á aðfangadag 1945, Halldóri Kiljan Laxness, rithöfundi og Nóbelsverðlaunahafa. Eftir það aðstoðaði hún eiginmann sinn heima og á ferðalögum, og stundaði húsmóðurstörf á hinu gestkvæma heimili þeirra að Gljúfrasteini. Hún var þar lengst af húsfreyja en flutti að Hlaðhömrum í Mosfellsbæ 2004.

Dætur Auðar og Halldórs eru Sigríður, kennari og húsfreyja, og Guðný, kvikmyndagerðarmaður.

Auður lést 29.október 2012

 

 

Morgunblaðið þriðjudagurinnn 30. júlí 2013 - Merkir Íslendingar

 

 

Skráð af Mennningar-Staður

29.07.2013 17:32

Eyrbekkingur í þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar

 

Gleðistund. Afmælisbarnið Viktoría Líf Þorleifsdóttir fór í óvænta heimsókn til Landhelgisgæslunnar í gær, heilsaði upp á þyrlusveitina og skoðaði björgunarþyrluna TF-LIF. Með henni eru þeir Magnús Örn Einarsson stýrimaður frá Gamla-Hrauni og býr á Eyrarbakka, Benóný Ásgrímsson flugstjóri og Tómas Vilhjálmsson flugvirki.

 

„Þetta er fallegasta nafn í heimi“

• Nýfæddu barni var bjargað með björgunarþyrlu fyrir 10 árum

• Barnið var skírt í höfuðið á þyrlunni

• Viktoría Líf heimsótti björgunarmenn og þyrluna á 10 ára afmælisdaginn

• Kraftaverk

 

Í gær voru 10 ár liðin frá því að þyrlan TF-LIF fór í útkall til Vestmannaeyja og sótti þangað nýfætt barn sem varð fyrir miklum súrefnisskorti í fæðingu. Stúlkan náði góðum bata eftir meðferð á vökudeild barnaspítalans og hlaut síðar nafnið Viktoría Líf í höfuðið á þyrlunni.

„Þetta er fallegasta nafn í heimi. Mér finnst alveg magnað að við vorum farin að ræða um þetta nafn áður en allt þetta gerðist,“ segir Eva Sveinsdóttir, móðir Viktoríu Lífar Þorleifsdóttur.

„Þetta var svakaleg lífsreynsla og ekki alveg eins og ég bjóst við,“ segir Eva en þetta var hennar fyrsta barn.

Fjölskylda Viktoríu Lífar kom henni á óvart í gær með bíltúr út á flugvöll þar sem þyrlan var skoðuð og spjallað við fjóra áhafnarmeðlimi sem voru á vakt þessa örlagaríku nótt fyrir 10 árum. Viktoría Líf hélt að hún væri á leiðinni í afmælið sitt í Skemmtigarðinn í Smáralind.

 

Var vart hugað líf

„Hún kom í heiminn klukkan sex mínútur yfir 7. Fæðingin var mjög erfið en hún hafði staðið yfir frá því klukkan 4 daginn áður,“ segir faðir stúlkunnar, Þorleifur Kjartan Jóhannsson.

Viktoríu Líf var vart hugað líf að sögn Kjartans því hún varð fyrir miklum súrefnisskorti í fæðingunni.

Þyrlan TF-LIF var ræst út í snatri og með henni kom barnalæknir og súrefniskassi því ekki var til hreyfanlegur kassi í Vestmannaeyjum.

„Okkur var strax gerð grein fyrir því að þetta væri mjög alvarlegt ástand. Þegar við komum á vökudeild barnaspítalans í Reykjavík var hún sett í öndunarvél og kæld niður til að koma í veg fyrir frumuskemmdir,“ segir Eva.

 

Lítið kraftaverk

„Í gleymi því aldrei þegar ég heyrði hana gráta á þriðja degi og það var ein besta stund lífs míns,“ segir Eva en dóttir hennar hafði varla gefið frá sér hljóð fram að því vegna þess að hún var svo sár eftir öndunarvélina.

Foreldrarnir telja augljóst að þyrlan bjargaði lífi Viktoríu Lífar og segja að hún væri a.m.k. ekki heilbrigð í dag ef þyrlan Líf hefði ekki verið kölluð út.

„Þessi þekking, aðstaða og tæki eru ekki til staðar í Vestmannaeyjum og sem betur fer erum við með þessa þyrlu og allt þetta frábæra starfsfólk og maður þakkar bara guði fyrir það,“ segir Kjartan.

Meðferðin á vökudeild barnaspítalans gekk mjög vel en læknarnir ætluðu engu að síður að fylgjast vel með Viktoríu Líf næstu árin þar sem hún varð fyrir miklum súrefnisskorti.

„Þeir hættu bara að fylgjast með henni þegar hún var eins árs. Þeir sögðu að það þyrfti ekki að fylgjast með þessu barni því allt gekk svo vel og hún var svo dugleg,“ segir Eva. „Læknarnir sögðu að hún væri lítið kraftaverk.“

Viktoría Líf nýtur lífsins í dag eins og flestir aðrir jafnaldrar hennar. Hún gengur í skóla ásamt því að leggja stund á fimleika.

Hún fær alltaf að heyra fæðingarsöguna sína á afmælisdaginn sinn enda er hún ansi sérstök.

ÞYRLUSVEIT LANDHELGISGÆSLUNNAR KALLAR EFTIR LAUSN Í MÁLEFNUM ÞYRLULÆKNA

Frábært framtak og gott að allt fór vel að lokum

„Það er alveg frábært framtak hjá þeim að mæta í heimsókn til okkar og við kunnum virkilega að meta það,“ segir Magnús Örn Einarsson á Eyrarbakka, stýri- og svigmaður hjá Landhelgisgæslunni.

„Það er virkilega gott að heyra að allt fór vel að þessu tilviki því maður sinnir bara sinni vinnu og fer svo heim að sofa þegar vaktin er búin. Oft veit maður lítið sem ekkert um hvað gerist í framhaldinu,“ segir Tómas Vilhjálmsson, flugvirki og spilmaður, en þeir voru báðir í áhöfninni sem bjargaði Viktoríu Líf fyrir 10 árum.

Þeir gagnrýna ástandið sem ríkir um stöðu þyrlulækna hjá Landhelgisgæslunni en mikil óvissa er til staðar um fjárhagslegan grundvöll fyrir þeirra störf.

Vanalega eru tveir flugmenn, stýrimaður, læknir og flugvirki í þyrluáhöfn TF-LIF og þessa sterka liðsheild skiptir miklu máli að þeirra mati. „Snögg viðbrögð lækna skipta oft sköpum og þeir meta þörfina fyrir hjálpina hverju sinni,“ segir Magnús.

Þeir skora á stjórnvöld að tryggja það að læknar séu ávallt um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar við sjúkra- og björgunarflug hér á landi.

 

Lengst til vinstri er Magnús Örn Einarsson á Eyrarbakka.

 

Morgunblaðið mánudagurinn 29. júlí 2013

 

Skráð af Menningar-Staður

29.07.2013 11:56

Aldamótahátið á Eyrarbakka laugardaginn 10. ágúst 2013

 

Aldamótahátið á Eyrarbakka

laugardaginn 10. ágúst 2013

Dagskrá:

08.30 Flöggun.


11.00 Skrúðganga fyrir menn, dýr, fornbíla og tæki. Lagt af stað frá Barnaskóla Eyrarbakka. Lúðrasveit Selfoss og Siggeir Ingólfsson skrúðgöngustjóri leiða hópinn að kjötkötlunum þar sem íbúar og fyrirtæki á Eyrarbakka bjóða uppá ekta íslenska kjötsúpu fyrir alla þá sem mæta með bollann sinn eða skálina. Slökkvibílinn verður á ferðinni. Bændur af Bakkanum koma dýrunum fyrir á kaupmannstúninu. Söluborð, skottmarkaðir og markaðstorg um allt þorp. Fornbílaklúbbur Íslands og Bifreiðaklúbbur Suðurlands bjóða lekkerum dömum og hattklæddum heldri mönnum á rúntinn. Heyvagninn verður á ferðinni og býður salibunu í mjúkri töðunni. Bakkablesa ber okkar um með vagninn sinn. 
Byggðasafnið býður uppá Aldamótaafslátt. 
Rauða húsið verður með aldamótatilboð á mat og drykk.


11.30 Setning 
Sr. Sveinn Valgeirsson sóknarprestur blessar lýðinn, kynnir dagskrána og býður fólki að gjöra vo vel.


13.00 Pútnahúsið opnar í Gónhól.
Félag áhugafólks um haughænur býður ykkur velkomin að sjá allt það fegursta í hænsfuglaheiminum. Afhentir verða kjörseðlar fyrir fegurðarsamkeppni hænsnfugla sem fram fer síðdegis.

13-18 Hallur Karl Hinriksson myndlistarmaður með opið hús á Litlu-Háeyri.
www.facebook.com/hallurkarl - 892 1976.


14.00 Aldamótaleikar. Aldamótaleikar, íþróttakeppni í anda Aldamótanna hefst á kaupmannstúninu við Húsið.


16.00 Kappsláttur á Miðmundakotstúninu. Keppendur skrái sig í síma 898 4240 og mæti minnst 30 mínútum fyrr með amboð. Brýni er á staðnum og kaupakonur raka ljá. Fimasti sláttumaðurinn og knáasta kaupakonan valin. Bundin verður sáta.
Getraun í gangi: Hvað heita handföngin á orfinu?
Vegleg verðlaun frá Gallerí Regínu.
Engjakaffi í boði Másbakarís í Þorlákshöfn og Kvenfélags Eyrarbakka.


17.00 – 18.00 Bakkaspjall á palli.
Gestrisnir Eyrbekkingar bjóða í pallaspjall. Hallur Karl Hinriksson myndlistarmaður. Sviðaveisla hjá Helgu og Arnari á Nesbrú 4. Regína með pönnukökur á pallinum í Ásheimum. (Gallerí Regína).


17.00 Pútnahúsið blæs til brúðkaups á Gónhól.
Gefin verða saman í hjónaband sigurvegarar í fegurðarsamkeppni hænsfugla sem fram fer á sama stað. Hreppstjórinn á Eyrarbakka gefur þau saman í borgaralegt hjónaband.


18.00 Brúðkaupsveislan herleg hefst á Stað. Opið grill fyrir alla þar sem grillaður verður hestur, kanínur og fleira góðgæti.


22.00 – 02.00 Aldamótadansleikur í Rauða Húsinu. Hljómsveitin Síðasti séns leikur ljúfar ballöður fram eftir nóttu.

 

Sjá nánari dagskrá og viðburðatilkynningar á: 
www.menningarstadur.123.is 
www.husid.com 
www.raudahusid.is 
www.eyrarbakki.is

 

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður