Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Júlí

16.07.2013 06:16

Merkir Íslendingar - Sigurður Thoroddsen

Sigurður Thoroddsen.

 

Merkir Íslendingar - Sigurður Thoroddsen

 

Sigurður Thoroddsen, fyrsti verkfræðingur landsins, fæddist að Leirá í Borgarfirði 16. júlí 1863. Foreldrar hans voru Jón sýslumaður og skáld Thoroddsen og Kristín Ólína Þorvaldsdóttir, umboðsmaður Sívertsen í Hrappsey. Jón lést 1868 og fluttist þá Kristín til Reykjavíkur og kom sonum sínum til mennta og urðu þeir allir þjóðkunnir menn. Má þar nefna Þorvald prófessor og Skúla, bæjarfógeta og ritstjóra.

Sigurður varð stúdent frá Lærða skólanum 1882 og fór í nám til Kaupmannahafnar í verkfræði og útskrifaðist úr því fagi árið 1891.

Eftir útskrift starfaði Sigurður sem verkfræðingur í vegagerð í eitt ár í Kaupmannahöfn. Hann fór svo til Noregs til að kynna sér vegaframkvæmdir því talið var að aðstæður þar væru líkari þeim sem voru á Íslandi, og hlaut til þess styrk frá Alþingi. Þegar hann kom heim var hann skipaður landsverkfræðingur. Lítið hafði verið um verklegar framkvæmdir þegar Sigurður hóf störf, nær engir vegir voru hér og ein stór brú, hengibrúin yfir Ölfusá.

Gangskör var gerð að því að leggja vegi og byggja brýr og á starfsárum Sigurðar voru byggðar stórbrýr svo sem yfir Blöndu, Þjórsá, Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá í Axarfirði. Það er þó ætíð erfitt að vera brautryðjandi, starfsskilyrði voru slæm og margir verkstjórar treystu frekar á brjóstvitið en einhver fræði utan úr heimi. Svo fór að Sigurður sagði stöðu sinni lausri eftir tólf ára starf og gerðist kennari í stærðfræði við Menntaskólann í Reykjavík. Hann varð síðan yfirkennari þar, en sinnti einnig verkfræðistörfum og gegndi stöðu bæjarverkfræðings í Reykjavík um tíma.

Eiginkona Sigurðar var María Kristín, f. 25. apríl 1880, dóttir Valgarðs Claessen kaupmanns og síðar landsféhirðis. Meðal barna þeirra var Gunnar forsætisráðherra.

Sigurður Thoroddsen lést 29. september 1955. Öll börn Sigurðar eru látin en 22 barnabörn ásamt mökum og fleira ættfólki ætla að koma saman í dag og minnast Sigurðar.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 16. júlí 2013

 

Skráð af Menningar-Staður

15.07.2013 18:43

Stokkseyrarfeðgin sigursæl í golfinu

Sigurvegararnir Alexandra Eir Grétarsdóttir og Hlynur Geir Hjartarson.

 

Stokkseyrarfeðgin sigursæl í golfinu

 

Meistaramót -GOS- Golfklúbbs Selfoss lauk á laugardaginn 13.júlí.  Ekki er hægt að segja að veðrið hafi leikið við keppendur.

En veðrið var gott fimmtudag og föstudag.

 

Metþátttaka var í mótinu er 77 keppendur voru skráðir til leiks með börnum og unglingum.

Hlynur Geir Hjartarson sigraði meistaraflokk og var um leið klúbbmeistari karla, Alexandra Eir Grétarsdóttir á Stokkseyri sigraði 1.flokk kvenna og var klúbbmeistari kvenna.

Faðir Alexöndru, Grétar H. Sigurgíslason á Stokkseyri sigraði í 2. flokki karla og má því tala um  -sigursælu feðginin frá Stokkseyri-

Mikil fjölgun var í kvennaflokkum í meistaramótinu og ekki hafa verið svona margar konur í mótinu í mörg ár.

Hægt er að sjá margar myndir af lokahófi GOS inn á facebook síðu Golfklúbb Selfoss.

Golfklúbbur Selfoss óskar öllum verðlaunahöfum til hamingju með verðlaunin og einnig öllum þeim sem voru að keppa í sínu fyrsta meistaramóti.

 

Verðlaunahafar.

 

Lengst til vinstri er Grétar H. Sigurgíslason.

 

Skráð af Menningar-Staður

15.07.2013 12:56

Myndaalbúm frá Hafliðadeginum 16. júlí 2012

Bjarni Harðarson fer hér á kostum á Hafliðadeginum í fyrra.

 

Myndaalbúm frá Hafliðadeginum 16. júlí 2012

 

Hafliðadagurinn verður í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi á morgun, þriðjudaginn 16. júlí 2013.

 

Hefð er  komin fyrir því að Vestfirðingar og Sunnlendingar úr vinahópi Hafliða Magnússonar hittist á fæðingardegi hans. 

Á morgun eru 78 ár frá fæðingu hans og byrjar samkoma kl. 16:00 í Sunnlenska bókakaffinu þar sem heiðruð verður minning Hafliða sem lést 25. júní 2011.Allir hjartanlega velkomnir

 

Hér á menningar-Stað er komið albúm frá Hafliðadeginum í fyrra - 16. júlí 2012.

Smella á þessa slóð hér:  http://menningarstadur.123.is/PhotoAlbums/249895/

 

Nokkrar myndir hér:

 

 

 

 

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

15.07.2013 07:44

50 ára afmælishátíð Skálholtsdómkirkju- dagskrá

Skálholtsdómkirkja er teiknuð af Herði Bjarnasyni f.v. húsameistara ríkisins,

föður Áslaugar Harðardóttur í Norðurkoti á Eyrarbakka en hennar maður er Jón Hákon Magnússon.

 

50 ára afmælishátíð Skálholtsdómkirkju- dagskrá

 

Dagskrá Skálholtshátíðar 18. – 21. júlí 2013

50 ár frá vígslu Skálholtskirkju og  afhendingu Skálholtsstaðar  til þjóðkirkjunnar

 

Fimmtudagur 18. júlí

20.00 Tónleikar í Skálholtskirkju á vegum Sumartónleika í Skálholtskirkju

Skálholtskvartettinn flytur strengjakvintetta eftir L. Boccerini, Mozart,

Bruckner og strengjatríó eftir Schubert.

Skálholtskvartettinn skipa: Jaap Schröder, fiðla, Rut Ingólfsdóttir fiðla,

Svava Bernharðsdóttir víóla, Sigurður Halldórsson selló,

Hildigunnur Halldórsdóttir, víóla.

Föstudagur 19. júlí

09.00 Morgunbænir

18.00 Kvöldbænir

18.30 Kvöldverður (til sölu í Skálholtsskóla)

20.00 Samsöngur. Kórar úr uppsveitum syngja. Þorbjörg Jóhannsdóttir og Jón Bjarnason stjórna.

22.00 Næturbænir

Laugardagur 20. júlí  – Þorláksmessa á sumari –

09.00 Skálholtskirkja Morgunbænir

09.00  Þingvallakirkja Fararblessun og ferðabæn með pílagrímum á leið í Skálholt.

12.00 Skálholtshátíð sett,

Safnast er saman á kirkjutröppum á hádegi.  Klukknahringing og bæn. Gengið að Þorlákssæti.

12.05 Messa við Þorlákssæti á Þorláksmessu á sumar, ef veður leyfir. Geri úrhelli er messan í Skálholtskirkju. sr. Kristján Valur Ingólfsson prédikar og annast altarisþjónustu ásamt séra Agli Hallgrímssyni sóknarpresti í Skálholti. Forsöngvari Jón Bjarnason organisti.

Hádegisverður er til sölu í Skálholtsskóla.

13.15 Opnun sýningar í Skálholtsskóla „Hálfrar aldar hátíð“ Sýningin fjallar um aðdraganda byggingar dómkirkjunnar og afhendingu Skálholtsstaðar til þjóðkirkjunnar úr hendi ríkisins. Vígsluhátíðinni 1963 verða gerð góð skil. Fjallað verður um Skálholtsskóla og sumarbúðirnar. Sýndir verða gripir sem kirkjunni hafa verið gefnir og bækur úr bókasafni Skálholts. Hálfrar aldar gömul hátíðamessan mun óma um sýninguna. – Umsjón Skúli Sæland sagnfræðingur.

13.30 Skákmót í Skálholtsskóla Teflt verður með eftirgerð af hinum fornu sögualdartaflmönnum frá Ljóðhúsum á Suðureyjum – The Lewis Chessmen – en þeir eru taldir hafa verið gerðir af Margréti hinni oddhögu í Skálholti á dögum Páls biskups Jónssonar. Guðmundur G. Þórarinsson flytur inngangsorð um líklegan íslenskan uppruna þeirra.

13.30 Útidagskrá

• Söguganga. Leiðsögn: Þórey Anna Matthíasdóttir, viðburðastjórnandi.
• Fuglaganga. Leiðsögn: Gunnar Tómasson.
• Skólaganga. Leiðsögn: séra Axel Árnason Njarðvík, héraðsprestur.
• Urtaganga. Leiðsögn: K. Hulda Guðmundsdóttir, skógarbóndi á Fitjum.
• Fornleifafræðsla. Umsjón Mjöll Snæsdóttir, fornleifafræðingur.
• Gamlir barnaleikir endurvaktir. Umsjón Hjörtur Freyr Skúlason og fleiri.,
• Fornleifarannsókn barnanna. Umsjón Mjöll Snæsdóttir, fornleifafræðingur.
• Útimarkaður með grænmeti og aðrar góðar afurðir sveitarinnar.

15.00 Tónleikar í kirkjunni í samvinnu við Sumartónleika í Skálholti.

Kór Breiðholtskirkju flytur verkið „Rennur upp um nótt“ eftir Hróðmar Inga Sigurbjörnsson, og Mótettuna „Jesu meine Freude“ eftir J.S. Bach. Marta G. Halldórsdóttir, sópran. Hafsteinn Þórólfsson, baritón. Stjórnandi Örn Magnússon.

15.30 – 16.30 Kaffisala í Skálholtsskóla

18.00 Kvöldbænir

20.00 Tónleikar í Skálholtskirkju „Dagrenning að kvöldi“. Skálholtskvartettinn flytur kvartett nr. 4 (sem hefur gælunafnið Sólarupprás, eða Dagrenning) og nr. 5 op. 76 eftir Josep Haydn. Skálholtskvartettinn er skipaður tónlistarmönnum sem hafa í mörg ár tekið þátt í starfi Bachsveitarinnar í Skálholti og Sumartónleika í Skálholtskirkju. Skálholtskvartettinn skipa Jaap Schröder, fiðluleikari, Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari, Svava Bernharðsdóttir víóluleikari og Sigurður Halldórsson sellóleikari.

Næturbænir að loknum tónleikum.

Kvöldbænir í Skálholtsbúðum með pílagrímum sem þar dvelja.

Sunnudagur 21. júlí

09.00 Morgunbænir

09.15 Morgunverður

11.00 Orgeltónleikar. Jón Bjarnason, organisti í Skálholti, leikur eftirtalin orgelverk:

J. S. Bach Toccata og fúga í d-moll BWV 565
J. S. Bach Prelúdía og fúga í D-dúr BWV 532
J. S. Bach Prelúdía og fúga í a-moll BWV 543
J. S. Bach/Vivaldi Konsert í a-moll BWV 593
J. S. Bach Prelúdía og fúga í G-dúr BWV 541
W. A. Mozart Fantasía í f-moll K 608

Hádegisverður er til sölu í Skálholtsskóla

12.15  Skálholtskirkja: Stofnfundur Skálholtsfélags hins nýja

13.30 Lúðraþytur og klukknahringing

13.40 Skálholtskór og hljómlistarmenn ganga til kirkju

13.45 Pílagrímar koma á staðinn. Klukkum hringt.

13.50 Pílagrímar ganga til kirkju. Skálholtskór og söfnuður syngja við inngöngu pílagrímanna sálminn sb. 96 Fögur er foldin.

13.55 Hempuklæddir prestar ganga til kirkju

14.00 Hátíðarmessa

Kirkjukaffi í Skálholtsskóla

16.15 Hátíðarsamkoma í kirkjunni

Sr. Karl Sigurbjörnsson, biskup, prédikar. Fyrir altari þjóna séra Egill Hallgrímsson, sóknarprestur Skálholti, séra Jón Ragnarsson, sóknarprestur Hveragerði, séra Halldóra Þorvarðardóttir, prófastur Fellsmúla, og biskuparnir séra Solveig Lára Guðmundsdóttir á Hólum, séra Kristján Valur Ingólfsson í Skálholti og séra Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Skálholtskórinn syngur. Forsöngvari Bragi Þorsteinsson. Einsöngvari Benedikt Kristjánsson. Trompetleikarar Jóhann Stefánsson og Jóhann Már Nardeau. Organisti og kórstjóri Jón Bjarnason. Meðhjálpari Guttormur Bjarnason.

Kirkjukaffi í Skálholtsskóla

Hátíðarsamkoma í Skálholtskirkju kl. 16.15

Upphafsorð. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup.

Tónlist. G. F. Händel: Eternal source of light divine. Úr afmæliskantötu fyrir Önnu drottningu, árið 1713, HWV 74. Skálholtskvartettinn. Jóhann Nardeau, trompet. Einsöngur: Benedikt Kristjánsson.

Ávarp.

Tónlist. Skálholtskórinn. Stjórnandi Jón Bjarnason, organisti

Hátíðarræða. Pétur Kr. Hafstein, fv. forseti kirkjuþings.

Hátíðarljóð. Skálholtskirkja 1963. Hátíðarljóð eftir Matthías Johannessen.

Gunnar Eyjólfsson, leikari flytur ljóðið.

Ávörp gesta.

Tónlist. J. S. Bach, Bleibt ihr Engel, bleibt bei mir. Aría úr kantötu nr. 19.

Benedikt Kristjánsson, tenór, Jóhann Nardeau, trompet.

Skálholtskvartettinn: Jaap Schröder, fiðla, Rut Ingólfsdóttir, fiðla, Svava Bernharðsdóttir, víóla, Sigurður Halldórsson, selló. Jón Bjarnason, orgel.

Lokaorð. Bæn og blessun. Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Orgelleikur. J. S. Bach. Prelúdía í Es dúr. BWV 552.

Jón Bjarnason, organisti í Skálholti.

____________________________________________________________________

18.00 Kvöldbænir. Te Deum.

20.00 Tónleikar – í samvinnu við Sumartónleikana í Skálholti.

Hljómsveitin Long Island Youth Orchestra flytur verk eftir Brahms og ýmis 20. aldar tónskáld frá Bandaríkjunum, undir stjórn Martin Dreiwitz

 

Hrútavinir í Skálholti. F.v.: Margrét Hauksdóttir, Guðni Ágústsson og Hannes Sigurðsson.
 

 Skráð af Menningar-Staður

 

14.07.2013 22:34

Skötumessa í Garði miðvikudaginn 17. júlí 2013

Hrútavinir eru upphafsmenn að skötuáti á reglulegum mannfögnuðum á Þorláksmessu að sumri. Frá Skötumessu í Garðinum á Reykjanesi. Næst eru Hrútavinirnir Guðni Ágústsson og frú og Hendrik Tausen og frú. Að baki má sjá Stokkseyringana og Hrútavinina; Hörð Jóelsson, Grétar Zóphoníasson og Elfar Guðna Þórðarson.

 

Skötumessa í Garði miðvikudaginn 17. júlí 2013

 

Skötumessan 2013 verður haldin í Gerðaskóla miðvikudagskvöldið 17. júlí en auk góðs matar verða fjölbreytt skemmtiatriði að venju á þessu sérstaka styrktarkvöldi fyrir fatlaða.

Borðhald hefst kl. 19:00 og þá verður borðað til góðs eins og sagt er á Skötumessu. Að venju er skata í hávegum höfð en einnig verður boðið upp á saltfisk, plokkfisk og meðlæti.


Skemmtiatriði verða ekki af lakara taginu, þjóðlagasveitin Hálft í hvoru, Gísli Helgason, Eyjólfur Kristjánsson, Ingi Gunnar, Páll Rúnar Pálsson bassasöngvari frá Heiði í Mýrdal, Bestu vinir í bænum, Sigurður Valur Valsson eftirherma og fleiri.

Helstu stuðningsaðilar Skötumessunnar eru Fiskmarkaður Suðurnesja, Skólamatur ehf., H. Pétursson, Sveitarfélagið Garður og fleiri.

Ásmundur Friðriksson hefur staðið í framlínunni í Skötumessunni og vonast eftir fullu húsi eins og undanfarin ár.

 

Ásmundur Friðriksson.

 

Skráð af Menningar-Staður

13.07.2013 22:21

Hafliðadagurinn í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi 16. júlí 2013

Hafliði Magnússon framan við Sunnlenska bókakaffið á Selfossi.

 

Hafliðadagurinn í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi 16. júlí 2013

 

Hafliði Þórður Magnússon, listamaður frá Bíldudal, fæddist í Hergilsey á Breiðafirði þann 16. júlí 1935.

Hann lést þann 25. júní 2011 á heimili sínu á Selfossi.

 

Vinir Hafliða Magnússonar; Vestfirðingar og Sunnlendingar, Hrútavinafélagið Örvar og Sunnlenska bókakaffið, boða til Hafliðadags í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi á 78. afmælisdegi hans hinn 16. júlí n.k. kl. 16:00

Þar verður drukkið "menningarkakó" eins og venja var til í vinahópi Hafliða. Hans verður minnst í bundnu og óbundnumáli í léttleika í anda Hafliða.

Allir eru hjartanlega velkomnir.

 

Frá Hergilsey fluttist Hafliði sex ára í Arnarfjörð þar sem fjölskyldan bjó á ýmsum stöðum en lengst af átti hann heima á Bíldudal. Hafliði bjó einnig um tíma í Reykjavík.

 

Hafliði starfaði m.a. sem sjómaður og þá mest á síðutogurum, við fiskvinnslu, og einnig kenndi hann sjóvinnu. Þá vann hann við uppbyggingu Mjólkárvirkjunar og endurgerð fæðingarbæjar Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð.

 

Frá árinu 1998 bjó Hafliði á Selfossi ásamt sambýliskonu sinni, Evu Þórarinsdóttur frá Suðureyri við Súgandafjörð. Á Selfossi vann hann ýmis störf, síðast hjá SG við trésmíðar þar sem hann lauk hefðbundinni starfsævi árið 2002.

 

En Hafliði Magnússon var fyrst og fremst rithöfundur, ljóðskáld, söngleikjahöfundur og málari. Hann var svo sannarlega margþættur listamaður og þeim störfum helgaði hann sig alfarið eftir að hann hætti störfum hjá SG húsum. Hafliði Magnússon var alla tíð einn af máttarstólpum Vestfirska forlagsins á Þingeyri, hinnar kröftugu menningarveitu Vestfirðinga.

 

Hafliði Magnússon fer á kostum við upplestur í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi í desember 2008.

 

Skráð af Menningar-Staður

 

13.07.2013 21:24

Mynd dagsins á Menningar-Stað

Siggeir Ingólfsson og Guðmundur Jón Sigurðsson.

 

Mynd dagsins á Menningar-Stað

 

Mynd dagsins á Menningar-Stað er frá stefnumótun í Menningar-Sellu hvar ritstjórn Menningar-Staðar hefur aðstöðu.

 

Fréttir og fróðleikur á Menningar-Stað er kokkaður með einum eða öðrum hætti í Menningar-Sellunni.

 

Guðmundur Jón Sigurðsson.

 

F.v.: Siggeir Ingólfsson, Guðmundur Jón Sigurðsson og Björn Ingi Bjarnason.


Skráð af Menningar-Staður

13.07.2013 09:53

Bryggjuhátíðin á Stokkseyri haldin í dag

 

Í dag, 13. júlí 2013, fer hin árlega Bryggjuhátíð fram á Stokkseyri.

 

Hápunktur hátíðarinnar er bryggjusöngur og brenna kl. 20 í kvöld.

 

Hátíðin verður sett kl. 12 í dag en þá verður í boði skemmtigarður frá Sprell leiktækjum fyrir börnin, fornbílasýning, vatnaboltar og fleira.

 

Bærinn hefur verið skreyttur í hverfalitum og mun skarta sýnu fegursta í dag.

 

Kl. 20:00 er síðan bryggjusöngur og brenna þar sem Hulda Kristín og Tómas Smári spila.

 

Harmonikkuball verður í íþróttahúsinu kl.21:00

 

Í Draugasetrinu verður slegið upp balli síðar um kvöldið.

 

Þetta er tíunda árið sem Bryggjuhátíðin fer fram og er það ósk hátíðarhaldara að allir njóti og skemmti sér vel. 

 

 

 

 

13.07.2013 06:49

Hestarnir drógu mig heim

Hlín Pétursdóttir á góðri stund með Hrútavinum á Stokkseyri.

 

Hestarnir drógu mig heim

 

Hlín Pétursdóttir Behrens ætlar að fagna Bastilludeginum með stofutónleikum á Gljúfrasteini á morgun, sunnudaginn 14. júlí 2013. Hún hefur þó aldrei búið í Frakklandi en bjó lengi í Þýskalandi þar sem hún söng við ýmis óperuhús þar til heimþráin og þráin eftir hestunum dró hana heim.

 

Ef íslenskir söngvarar ætla sér að lifa af því að syngja er óhjákvæmilegt að vera með annan fótinn í útlöndum," segir Hlín Pétursdóttir Behrens sem starfaði sem óperusöngkona í Þýskalandi í tíu ár, en flutti heim 2004. "Ég fékk heimþrá, mér fannst ég vera stöðnuð og alltaf vera að gera það sama. Svo hittist þannig á að ég fékk vinnu við kennslu á Íslandi og hafði hugsað mér að vera heima í eitt ár. Það vatt upp á sig, ég fór að syngja meira hér heima og ég er ekkert á leiðinni að flytja til útlanda en það er alltaf gaman að fara út að syngja og ég mun syngja á tónleikum í Ósló í lok mánaðarins og í Þýskalandi í desember."

 

Ein aðalástæða þess að Hlín flutti heim var þó hvorki tengd söng né kennslu. Hún er mikil hestakona og segist hafa saknað hestanna mikið á árunum í Þýskalandi. "Ég er nánast alin upp á hestbaki. Móðir mín, Ragnheiður Sigurgrímsdóttir, var einn fyrsti menntaði reiðkennarinn á Íslandi og fyrsta íslenska konan sem kom fram á Evrópumóti íslenska hestsins árið 1975. Og pabbi, Pétur Behrens, er einn af stofnendum Félags tamningamanna og Eiðfaxa. Það þótti meira að segja frekar skrítið til að byrja með að ég skyldi ætla að verða söngkona en ekki hestakona. Hestamennskan var eitt af því sem dró mig sterkast heim, enda er hestabakterían ekkert grín. Maður losnar aldrei við hana."

 

Eiginmaður Hlínar, Einar Jón Einarsson, deilir ekki hestadellunni en er hins vegar ástríðufullur stangveiðimaður og þau hjónin hafa gert með sér samkomulag. "Díllinn hjá okkur er sá að ef ég kem honum á hestbak sér hann mig fyrir sér úti í á að veiða. Ég fékk meira að segja flugustöngina í jólagjöf og er búin að rækta hinn fullkomna hest handa honum, sem er í tamningu núna. Þannig að það styttist í þetta hjá okkur."

 

Þú ætlar að syngja franska söngva annað kvöld í tilefni Bastilludagsins. Hefurðu verið mikið í Frakklandi? "Nei, þetta var nú eiginlega tilviljun. Ég fékk

úthlutað þessum degi og það vildi svo skemmtilega til að ég hafði ætlað mér að syngja lög eftir frönsk tónskáld svo þetta passaði. Ég hef auðvitað oft verið í París og æfði þar um tíma með alþjóðlegum hópi, en ég hef aldrei búið í Frakklandi."

 

Undirleikari Hlínar á tónleikunum er Gerrit Schuil píanóleikari, en þau hafa starfað saman af og til árum saman. "Hann er einn af þessum flottu píanistum sem hafa sérhæft sig í að starfa með söngvurum og það eru fáir sem hafa jafnmikla reynslu og innsýn í ljóðatónlist," segir Hlín. "Auk frönsku tónlistarinnar munum við líka flytja lög við ljóð Halldórs Laxness. Þannig að fólk á von á góðu á Gljúfrasteini á morgun."

 

Tónleikarnir hefjast kl. 16.00 og aðgangseyrir eru 1000 krónur. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.

 

Fréttablaðið laugardagurinn 13. júlí 2013

 

Hlín Pétursdóttir í Samkomuhúsinu Gimli á Stokkseyri

 

Jónas Þórir og Hlín Pétursdóttir eftir tónleika í Samkomuhúsinu Gimli á Stokkseyri þann 16. júlí 2011. Þá var haldið upp á 90 ára afmæli Gimlis að frumkvæði Hrútavina.

 

Skráð af Menningar-Staður

 

12.07.2013 22:34

Englar og menn í Selvogi, tónlistarhátíð í Strandarkirkju

LOKA_strandarkirkja_plakat_vefur (2)

 

Englar og menn í Selvogi, tónlistarhátíð í Strandarkirkju

 

Strandarkirkja í Selvogi mun óma af fagurri tónlist sjö sunnudaga í sumar, en þar hefst tónlistarhátíðin „Englar og menn“ sunnudaginn 14. júlí. Markmið hátíðarinnar er að bjóða upp á lifandi og vandaða tónlistarviðburði á hinum sögufræga stað og auðga um leið tónlistarlíf á Suðurlandi.

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona er listrænn stjórnandi hátíðarinnar og kemur nú að tónlistarflutningi í kirkjunni áttunda sumarið í röð, en eiginleg tónlistarhátíð í Strandarkirkju var fyrst haldin á síðasta ári og stóð þá yfir tvær helgar. Að þessu sinni eins og svo oft áður er messu og tónleikum fléttað saman. Fjóra af sunnudögunum sjö verður guðsþjónusta og þá verður tónlistin samofin athöfninni – og í hin þrjú skiptin verða tónleikar eingöngu.

Hátíðin hefst með guðsþjónustu 14. júlí kl. 14. Prestur verður séra Anna Sigríður Pálsdóttir. Um tónlistarflutning sér Tríó-Suð, skipað þeim Margréti Stefánsdóttur sópransöngkonu, Jóhanni Stefánssyni trompetleikara og Hilmari Erni Agnarssyni organista. Sérlegur gestur tríósins verður Hjörleifur Valsson fiðluleikari.

Ýmsir aðrir tónlistarmenn taka þátt í hátíðinni í sumar; söngvararnir Anna Sigríður Helgadóttir, Bára Grímsdóttir, Benedikt Kristjánsson, Björg Þórhallsdóttir og Hrólfur Sæmundsson, organistarnir Aðalheiður Þorsteinsdóttir og Hannes Baldursson, fiðluleikarinn Hulda Jónsdóttir, gítarleikarinn Chris Foster, harmonikku-, harmóníum, mandólín- og gítarleikarinn Bjarni Frímann Bjarnason og Kór Þorlákskirkju, að ógleymdri Elísabetu Waage hörpuleikara, sem hefur tekið þátt í tónleikahaldi í Strandarkirkju ásamt Björgu allt frá sumrinu 2006.

Séra Jón Ragnarsson í Hveragerði þjónar nú Strandarkirkju og messar þar 28. júlí, séra Kristinn Ág. Friðfinnsson sér um guðsþjónustu 4. ágúst og séra Svavar Stefánsson 18. ágúst.   Strandarkirkja er þekkt áheitakirkja og þykir þar vera sérstakur kraftur til hjálpar og bænheyrslu. Yfirskrift hátíðarinnar vísar til helgisagnarinnar um fyrstu kirkjuna þar á staðnum, um ljósengilinn sem birtist sæförum í sjávarháska og þeir hétu á í örvæntingu sinni. Hann vísaði þeim að landi og þeir reistu þar kirkju í þakklætisskyni.

Í Selvoginum var fyrr á öldum blómleg byggð með útgerð og landbúnaði en nú er þar orðið strjálbýlt. Fjölmargir ferðamenn heimsækja Selvoginn og þar má njóta útivistar á fallegum gönguleiðum. Með tilkomu nýja Suðurstrandarvegarins hafa samgöngur stórbatnað og ferðamöguleikar orðið fjölbreyttari. Að tónleikum loknum er svo upplagt að fá sér hressingu hjá heimamönnum í kaffihúsinu T-bæ eða Pylsuvagninum.

Tónlistarhátíðin Englar og menn stendur eins og áður sagði sjö sunnudaga í sumar; frá 14. júlí til 25. ágúst og hefst dagskráin kl. 14 alla dagana. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir. Hátíðin nýtur stuðnings frá Menningarráði Suðurlands, Tónlistarsjóði og Strandarkirkju. Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar er að finna á vef Strandarkirkju; http://kirkjan.is/strandarkirkja/, og á Facebooksíðu hátíðarinnar.

Nánari upplýsingar veitir: Björg Þórhallsdóttir, listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar Englar og menn, í síma 898 4016

.Skráð af Menningar-Staður