Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Júlí

12.07.2013 06:22

90 þúsund ferðamenn í júní

Ánægðir ferðamenn frá Tékklandi við Félagsheimilið Stað á Eyrarbakka.

 

90 þúsund ferðamenn í júní

 

Um 9þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í júnímánuði eða um 15.500 fleiri en í júní 2012. Um er að ræða 20,9% aukningu milli ára.

Nærri þreföld aukning á 12 ára tímabili

Þegar litið er til fjölda ferðamanna í júní mánuði á því tólf ára tímabili (2002-21013) sem Ferðamálastofa hefur haldið úti talningum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar má sjá umtalsverða aukningu ferðamanna en þeim hefur fjölgað úr 32 þús. árið 2002 í 90 þús. árið 2013 eða um 59 þús. ferðamenn. Aukningin milli ára hefur verið að jafnaði 10,1% en sveiflur milli ára  hafa verið miklar. 

Þriðjungur ferðamanna frá Bandaríkjunum og Þýskalandi

Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í júní frá Bandaríkjunum (19,6%) og Þýskalandi (13,5%). Þar á eftir komu Bretar (7,8%), Norðmenn (7,1%), Frakkar (7,0%), Svíar (5,0%), Danir (4,8%) og Kanadamenn (3,7%). Samtals voru þessar átta þjóðir um tveir þriðju (68,5%) ferðamanna í júní.

Af einstaka þjóðum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Þjóðverjum, Frökkum og Bretum mest milli ára í júní. Þannig komu 3.323 fleiri Bandaríkjamenn en í júní í fyrra, 2.480 fleiri Þjóðverjar, 1.856 fleiri Frakkar og 1.091 fleiri Bretar.

Aukning frá öllum markaðssvæðum í júní

Þegar aukning milli ára er skoðuð eftir einstaka markaðssvæðum má sjá 28,6% aukningu Breta í júní, 23,3% aukningu N-Ameríkana, 18,6% aukningu Breta og 23,9% aukningu þeirra sem koma frá löndum sem flokkuð eru undir annað. Aukning Norðurlandabúa er hins vegar nokkuð minni eða 6,6%.

Um 311 þúsund ferðamenn frá áramótum

Frá áramótum hafa 311.409 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 66 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 27,2% milli ára. 47,4% fleiri Bretar hafa heimsótt landið, 29,8% fleiri N-Ameríkanar, 26,5% fleiri Mið- og S-Evrópubúar og 28,6% fleiri ferðamenn frá löndum sem flokkast undir ,,annað“. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað minna eða um 8,7%.

Utanferðir Íslendinga

Um 36 þúsund Íslendingar fóru utan í júní eða þrjú þúsund færri en í júní í fyrra. Frá áramótum hafa um 170 þúsund Íslendingar farið utan, um 500 færri en á sama tímabili árið 2012. Fækkunin nemur 0,3% milli ára.

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Frá Ferðamálastoifu.

Smellið á myndina til að sjá hana stærri.

 

Fjöldi ferðamanna í júní

 

Siggeir Ingólfsson, Staðarhaldari að Stað, kveður ánægða ferðamenn með virðuleika.

 

Skráð af Menningar-Staður

11.07.2013 21:29

Frá framkvæmdum við Félagsheimilið Stað

Siggeir Ingólfsson að störfum við ústsýnispallin hjá Stað.

 

Frá framkvæmdum við Félagsheimilið Stað

 

Framkvæmdir eru nú í fullum gangi við útsýnispallinn á sjóvarnargaðinum við Félagsheimilið Stað  á Eyrarbakka – Menningar-Stað.

 

Í kvöld, í blíðunni á Bakkanum, var Siggeir Ingólfsson staðarhaldari á Stað,  við störf á sjóvarnargarðinum. Búið er að koma fyrir og festa dregurum og þverbönd komin þar ofan á. Efni til klæðningar er komið á staðinn.

 

Menningar-Staður færði kvöldverkin til myndar.

 

Siggeir Ingólfsson.

 

Björn Ingi Bjarnason og Siggeir Ingólfsson við markvissa stefnumótun.


Skráð af Menningar-Staður

 

 

10.07.2013 07:50

Bryggjuhátíðin á Stokkeyri laugardaginn 13. júlí nk.

 

 Bryggjuhátíðin á Stokkeyri laugardaginn 13. júlí nk.

 

Laugardaginn 13. júlí fer hin árlega Bryggjuhátíð fram á Stokkseyri. Þetta árið fer dagskráin fram á laugardeginum en þá verður skemmtigarður frá Sprell leiktækjum í boði fyrir börnin, fornbílasýning, vatnaboltar ofl. Bærinn verður skreyttur í hverfalitum og mun skarta sýnu fegursta þennan daginn. Kl. 20:00 er síðan bryggjusöngur og brenna þar sem Hulda Kristín og Tómas Smári spila. Harmonikkuball verður í íþróttahúsinu kl.21:00 og í Draugasetrinum verður slegið upp balli síðar um kvöldið. Þetta er tíunda árið sem Bryggjuhátíðin fer fram og er það ósk hátíðarhaldara að allir njóti og skemmti sér vel. Nánari dagskrá má sjá hér að neðan:

Bryggjuhátíð á Stokkseyri 2013 – dagskrá

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

10.07.2013 07:03

200 ár frá fæðingu fyrsta kennarans á Eyrarbakka.

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Tveggja alda minning Jens Sigurðsson, rektor Lærða skólans, ásamt konu sinni Ólöfu Björnsdóttur og yngsta syni þeirra, Þórði Jenssyni.

 

200 ár frá fæðingu fyrsta kennarans á Eyrarbakka.

 

„Hann var tignarlegur á velli og fríður ásýndum; ennið var hátt, augun dökk og skarpleg, nefið var beint og fremur hátt, munnurinn samsvaraði andlitinu.“ Svo lýsti Gestur Pálsson Jens Sigurðssyni, rektor Lærða skólans, en 200 ár voru þann 6. júlí s.l. frá fæðingu hans. Jens var lýst sem góðum kennara sem hefði þó verið þurr og alvörugefinn, jafnvel strangur. Sagði Gestur til dæmis að í viðmóti hefði Jens verið fremur fálátur en þó blíður þegar nemendur leituðu til hans og sóttu ráð. Bætti Gestur við: „Kennara má telja hann meðal skólans bestu, og hafði hann einkar gott lag á að gjöra lærisveina sína sterka í vísindagreinum þeim sem hann kenndi, og að þeir týndu því eigi niður, sem á undan var komið, og er það ávallt talið merki góðs kennara.“

 

Fleygðu öllu lauslegu til Lizt

Jens fæddist 6. júlí 1813 á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Foreldrar hans voru sr. Sigurður Jónsson og Þórdís Jónsdóttir. Eldri bróðir Jens var Jón Sigurðsson, forseti Bókmenntafélagsins og helsti foringi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni gegn Dönum. 19 ára að aldri var Jens tekinn inn í Bessastaðaskóla þaðan sem hann útskrifaðist með mjög góðum vitnisburði fimm árum síðar. Jens lærði guðfræði við Hafnarháskóla og lauk hann því námi með 1. einkunn í ársbyrjun 1845. Hafði hann með námsferlinum sannað sig sem mjög hæfan námsmann og skapað sér verulegt forskot til embætta. Meðan á námsárunum stóð í Kaupmannahöfn urðu þeir bræður Jón og Jens nánir og skrifuðust oft á. Í einu bréfi Jens lýsti hann tónleikum sem austurríska tónskáldið Franz Lizt hafði haldið, þar sem „kvenfólkið fleygði öllu sem laust var við það til hans“ af hrifningu.

 

Við Lærða skólann

Þegar Jens sneri heim úr námi fékk hann stöðu við nýjan barnaskóla á Eyrarbakka og kenndi þar einn vetur. Haustið eftir hóf Jens að kenna við Lærða skólann sem þá var kominn til Reykjavíkur. Staðan var þó hvorki örugg né ábatasöm og hóf Jens því að sækjast eftir prestsembættum. Fékk hann og álitlegar stöður en hafnaði þeim þar sem hann fékk þá adjunktsembætti við skólann. Spilaði þar einnig inn í að Jens og Ólöf áttu miklu barnaláni að fagna en börnin gerðu þeim erfiðara um vik að flytjast búferlum. Árið 1861 var í síðasta sinn áformað að þiggja brauð þegar Jens fékk Kolfreyjustað. Hann hafnaði því og varð ári síðar yfirkennari við Lærða skólann.

Fyrstu árin við skólann kenndi Jens dönsku, þýsku og hebresku en hóf svo að kenna trúfræði, sögu og landafræði. Sem nánasti samverkamaður Sveinbjörns Egilssonar varð Jens Sigurðsson einnig skotspónn skólapiltanna sem stóðu fyrir pereatinu 1850 og hugðust þeir einnig afhrópa Jens. Arnljótur Ólafsson, foringi piltanna náði þó að afstýra því. Eftir að Bjarni Jónsson, sem jafnframt var mágur Jens, varð rektor varð Jens staðgengill hans þegar Bjarni dvaldi erlendis. Gegndi Jens því stöðu rektors árin 1854-5 og 1860-1 og einnig eftir að Bjarni lést erlendis 1868-9. Var Jens skipaður rektor 1869 og gegndi þeirri stöðu til dánardags, 2. febrúar 1872.

 

Góðir fjölskylduhagir

Jens kvæntist Ólöfu Björnsdóttur 28. september 1848. Bjuggu þau í Aðalstræti 10 eða í skólahúsi Lærða skólans. Eignuðust þau saman níu börn sem uxu öll upp úr grasi, fjórar stelpur og fimm stráka. Bræðurnir gengu allir í Lærða skólann og tóku þaðan stúdentspróf en systurnar höfðu ekki inntökurétt í skólann. Systkinin komu þó öll ár sinni vel fyrir borð og eru afkomendur þeirra Jens og Ólafar nú fjölmargir.

 

Jens Sigurðsson rektor

» Fæddur 6. júlí 1813  á Hrafnseyri við Arnarfjörð, sonur sr. Sigurðar Jónssonar á Hrafnseyri og Þórdísar Jónsdóttur, prestsdóttur frá Holti í Önundarfirði.

» Systkini Jens voru Jón, skjalavörður og forseti Bókmenntafélagsins, fæddur 17. júní 1811, og Margrét, fædd 1815.

» Eiginkona Sigurðar var Ólöf Björnsdóttir, fædd 22. febrúar 1830. Þau áttu saman níu börn sem öll komust á legg: Þórdísi, Guðlaugu, Björn, Sigurð, Jón, Bjarna, Ragnheiði, Ingibjörgu og Þórð Jensbörn.

» Jens lauk prófi í guðfræði árið 1845 og kenndi um veturinn við nýjan barnaskóla á Eyrarbakka. Ári síðar var hann ráðinn sem kennari við Lærða skólann, þar sem hann starfaði síðan.

» Jens lést 2. febrúar 1872. Hann og Ólöf eru grafin í Hólavallagarði við Suðurgötu.

 

Kaupmannahafnarháskóli. Jens Sigurðsson lauk þar guðfræðiprófi árið1845 og kom þaðan beint til kennslu á Eyrarbakka.

 

Hrafnseyri við Arnarfjörð

 

 

Morgunblaðið laugardagurinn 6. júlí 2013

 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

09.07.2013 22:29

Ísland - alveg milljón! - Skipulag, fyrirhyggja og framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu

Frá Landmannalaugum. Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson

Frá Landmannalaugum. Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson

 

Ísland - alveg milljón!

- Skipulag, fyrirhyggja og framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu

 

Ísland - alveg milljón! - Skipulag, fyrirhyggja og framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu er yfirskrift ferðamálaþings 2013. Það verður að þessu sinni haldið á Selfossi dagana 2.-3. október í samvinnu Ferðamálastofu og Skipulagsstofnunar.

Megin þemað, líkt og yfirskriftin ber með sér, verða skipulagsmál og ferðaþjónusta. Dagskrá þingsins er í vinnslu en það mun standa yfir í tvo daga og vert fyrir alla sem áhuga hafa á þessu mikilvæga máli að taka þessa daga strax frá.

Frá Ferðamálastofu.

 

 


Skráð af menningar-Staður

Frá LandmannaFrá Landmannalaugum. Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðssolaugum. Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsso

08.07.2013 07:03

Verða að eiga velþóknun Björns Inga forseta

Hápunktur þessarar miklu hátíðar var ræða Guðna Ágústssonar hvar hann rifjaði upp 10 ára gamla ræðu sína á Flateyri og framdi við hana leiðréttingar. Þegar ræðu hans lauk voru gestir sumir hverjir orðnir veikir af hlátri.

Verða að eiga velþóknun Björns Inga forseta

„Það þekkja allir kraftinn og hugmyndaflugið í honum Birni Inga. Hann gerir hersdagslegu hlutina að hátíð og fólk þyrpist að og nýtur hverrar hátíðar. Bryggjuhátíðin á Stokkseyri er gott dæmi um það sem hann hefur áorkað á þessu svæði. Þá er Hrútavinafélagið Örvar eitthvað það merkilegasta sem til er á Suðurlandi. Það er ótrúlegt afl í því félagi og þeir sem ætla sér völd í samfélaginu verða að eiga velþóknun Björns Inga forseta Hrútavinafélagsins. Það fer ekki vel hjá mönnum sem eiga andstöðu þessa félags yfir höfði sér,“ sagði Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins í hreint magnaðri ræðu á hátíð Hrútavinafélagsins þar sem fagnað var sextugs afmælis Björns Inga Bjarnasonar forseta Hrútavina. En Guðni gegnir þar embætti heiðursforseta.

 

Fjöldi manns var samankominn til að hefja gleðina til lofs og vegsemdar í samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka. Þrjár hljómsveitir voru á svæðinu, Granít frá Vík í Mýrdal, Æfing frá Flateyri og Kiryama Family af gjörvöllu Suðurlandi.

 

Stiklað var á stóru um lífshlaup afmælisbarnsins þar sem fór saman 60 ára afmælið og 40 ára félagsmálaafmæli kappans, sem gerir 100 ára afmæli. Smátt og smátt tíndist sitt lítið af hverju til þannig að fyrir klukkan tíu hafði hálf öld bæst við til að halda uppá.

 

Boðið var uppá matarmikla og þjóðlega kjötsúpu sem Siggeir Ingólfsson kjötsúpumeistari, strandvörður og Staðarhaldari bruggaði eftir uppskrift sem slær út met kóka kóla. Hún er bæði eldri og leyndardómsfyllri. Hann var sérlega ánægður með hátíðina. „Þetta var einstakur menningarviðburður sem færir gleði í þorpið, svona veislur þarf að halda oftar.“sagði Siggeir strandvörður.

 

Eftir að fólk hafði nært líkama og sál með mat og meiningum í garð gamla mannsins, Björns Inga, var slegið upp dansleik þar sem Granít töfraði fram danstóna og Æfing tók netta rispu með þeim á sviðinu enda veitti ekkert af tveimur hljómsveitum til að fullnægja þörfum dansþyrstra manna og kvenna í gleðiham.

 

Hljómsveitin Æfing færði stormandi lukku og stemmningu í skemmtunina, en gestir tóku eftir og höfðu á orði að það vantaði Halldór Gunnar töframann tónanna. Hann var því miður upptekinn við að skemmta með hinum einstöku Fjallabræðrum.

 

Gleði á sviðinu þegar Sigurdór Sigurðsson og Siggi Björns afhenda Birni Inga heillagripi úr Gullkistunni á Þorfinninum, einkennisfjalli Önfirðinga. Sigurdór fór sérferð á fjallið til að ná þessum gripum forsetanum til ævarandi lukku.

 

Siggi Björns í fánalitunum, blá skyrta, hvítur bolur og rauður gítar sem vígður var í afmælinu og heitir nú forsetagítar. Ringo Starr á afmæli samdægra birni og því þótti eitt Ringo lag við hæfi.

 

Hljómsveitin Granít úr Vík í Mýrdal ásamt sigga Björns og Árna Benediktssyni úr Æfingu frá Flateyri.

 

Fleiri myndir síðar:

 

 

Skráð af Menningar-Staður

07.07.2013 19:19

Björn Ingi Bjarnason - 100 ára afmæli

Gleði á sviðinu þegar Sigurdór Sigurðsson og Siggi Björns afhenda Birni Inga heillagripi úr Gullkistunni á Þorfinninum. Sigurdór gerði sérferð á fjallið til að ná þessum gfripum forsetanum til ævarandi lukki.

 Björn Ingi Bjarnason - 100 ára afmæli

Hundrað ára afmæli, var í gær laugardaginn 6. júlí n.k.  í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka þar sem haldið var uppá líf og leik Björns Inga Bjarnasonar, félagsmálafrömuðar, sem er sextugur  7. júlí. Þar mættu vinir hans og gerðu sér glaða nótt.

Viðtal úr Sunnlenska fréttablaðinu 3. júlí 2013:

 

Björn Ingi er fæddur á Sjúkraskýlinu á Flateyri og uppalinn í þorpinu þar sem lífið snerist öðru fremur um hafið, fjöruna og fjöllin.

„Það var gott að alast upp á Flateyri, þar var ég ofdekraður strax frá fyrsta degi, sérstaklega af konum. Evrópskar rannsóknir hafa sýnt að eitt það versta sem karlmenn lenda í er að vera ofdekraðir af konum. En ég mótmæli því harðlega.

Móðir mín var komin yfir fertugt þegar ég fæddist og leit á mig sem einstakan gullmola og happafeng og ég var meðhöndlaður eftir því. Hulda systir var kominn yfir tvítugt þegar ég kom í heiminn og auðvitað var ég dekraður af henni líka. Í næsta húsi bjó Lilja Guðmundsdóttir sem ævinlega var kölluð Lilja skó eftir iðn föður síns. Hún var mér sem önnur móðir og dekraði mig ekki minna en hinar tvær.

Og þetta er bara fyrsti kaflinn í ofdekri kvenna. Næsti kafli kvenlegs ofdekurs tók við þegar við Jóna  Guðrún byrjuðum að vera saman. Þá bættust hún og tengdamamma við með enn og meira dekur. Gróa Björns er engin venjulegur dekrari, þar er sko hreint ofdekur.

Og nú síðast eru dæturnar farnar að dekra við mig þannig það er ekki gott að segja hvar þetta endar en ég kann þessu vel nýt fram í fingurgóma beggja handa“  segir Björn Ingi.

Kveikt í fjalli

Flateyri fyrri ára var heill ævintýraheimur fyrir unga drengi sem margt þurftu að prófa, bátar og bryggjur, fjörurnar og heillandi hafið. Það var gnótt tækifæri fyrir drengi að fá hugmyndaflugi sínu útrás og furðu fátt sem var bannað.

„Fjaran og hlíðin voru mitt svæði þegar ég var barn. Við púkarnir dunduðum okkur heilu sumrin við að hlaða kofa úr grjóti og torfi í hlíðinni ofan við Ástarbrautina sem nú er horfin undir varnargarða. Ég var vel búinn í ferðalög mjög snemma því Lilja skó gaf mér reiðhjól strax þegar ég varð sex ára. Eftir það passaði hún vel upp á að ég væri vel settur með farskjóta. Síðasta hjólið gaf hún mér í fermingargjöf, dýrindis BSA hjól sem var glansandi flott og bar af öðrum hjólum á eyrinni enda bónað og þrifið reglulega.

Sinubrunar voru líka heillandi, þá var alsiða að kveikja í sinu um allt. Siggi Björns, alheimstrúbador,  var heimagangur hjá okkur á Ránargötunni og við brölluðum ýmislegt. Við náðum til dæmis áður óþekktum afköstum við að kveikja sinu. Við bundum gott band í strigapoka með einhverju eldfimu í, svo var kveikt í pokanum og hlaupið um hlíðina, það urðu mjög virðulegir sinubrunar úr þessu hjá okkur. Það bókstaflega brann allt fjallið. En við gættum þess að brenna bara á vorin á meðan það var leyfilegt.“

Sólbakkadellan

Annað öflugt leiksvæði voru verksmiðjuhúsin á Sólbakka, þar undi Björn sér löngum stundum við ýmsar rannsóknir. Það er því óhætt að segja að Sólbakkadella Björns Inga hafi byrjað snemma og enn sér ekki fyrir endann á henni.

„Verksmiðjuhúsin og þrærnar voru full af spennandi vélum og tækjum. Þarna voru vélar með stórum hjólum sem við spreyttum okkur á að snúa og urðu þá til hin undarlegustu hljóð.

Í Sólbakkahúsinu,  sem stóð þar sem nú stendur hið virðulega Mannlífs- og menningarsetur Önfirðingafélagsins, var til dæmis fullkomin rannsóknarstofa með fullt af allskyns tilraunaglösum sem spennandi var að heyra hljóðið í þegar þau brotnuðu. Ég veit að strákarnir voru eitthvað að prófa þetta. Svo var þarna efniviður til ýmissa hluta, til dæmis var gnótt af timbri til að smíða báta og fleka því allir vildu púkarnir komast til hafs enda ætlan flestra að verða skipstjórar þegar fram liðu stundir.

Það var stubbur eftir af bryggjunni og þar lékum við ýmis glæfraleg ævintýr en bryggjur eru fyrst og fremst til að leggja frá landi og byrja siglingu. Við fórum á flekunum okkar frá Sólbakkabryggjunni og reyndum að fara eins langt út og hver þorði. Það kom fyrir að það þurfti að koma á trillum að sækja okkur fram á leguna. Man eftir einu sinni að vindurinn var auðvitað alveg þvert á það sem við vildum og bar okkur langt út á höfnina. Þá vorum við alveg ósjálfbjarga en karlarnir komu á trillu og björguðu okkur í land.

Þetta umhverfi varð til þess að foreldrar hugðu mjög að öryggismálum og sendu börnin á sundnámskeið. Fyrsta námskeiðið mitt var í gömlu sundlauginni á Flateyri en síðan var bara kennt á Núpi og þangað fóru allir að læra sund.“

Fleiri konur

Björn Ingi byrjaði ungur að vinna og þrátt fyrir að hugurinn stæði til skipstjórnar þegar hann var lítill lá leiðin fyrst í frystihúsið þar sem hann steig sín fyrstu atvinnu spor. Þar komst hann enn og aftur í kvenlegt dekur þar sem hann keyrði á borðin sem kallað var. Þá var bökkum með fiski raðað á trillu sem færði fiskinn til kvennanna í salnum sem snyrtu og pökkuðu.

„Ég náði góðu sambandi við konurnar, þær voru skemmtilegar og með góðan húmor. Þær fyrirgáfu mér líka með brosi á vör í hvert skipti sem ég lenti með trillunni á fætur þeirra. Skömmuðust aldrei þó þetta væri greinilega mjög vont.

Sumarið sem ég varð 15 ára fór ég á skak með Leifi Björnssyni og Helga Sigurðssyni á Þorsteini NK 79. Þar tapaði ég fullkomlega öllum áhuga á sjómennsku, var drullusjóveikur og leist ekkert á þetta. Síðan hef ég  verið í landi fyrir utan eitt sumar í útgerð með Friðriki Hafberg og Þorsteini Guðbjartssyni og skamman tíma á Gylli eftir að hann kom.

Beitningin varð mitt starf, fyrst sumarvinna með skóla og svo fullt starf í nær hálfan annan áratug.

Fjölskyldan flytur

Sumarið 1984 fluttum við suður þar sem ég fór í Fiskvinnsluskólann. Eftir að skólanum lauk fór ég til starfa hjá Vinnumálasambandi Samvinnufélaga og síðan SÍF, Sölusambandi íslenskra fiskframleiðanda. Þar var miðstöð allrar saltfisksölu úr landinu ásamt öflugri tilraunavinnslu til að bæta vinnsluna og auka fjölbreytni.“

Þar kom að Björn Ingi stofnaði sitt eigið fyrirtæki sem hann rak með miklum brag ásamt félaga sínum Einari S. Einarssyni í 20 ár.

Hólmaröst ehf. starfaði fyrst í Reykjavík, fyrirtækið sérhæfði sig í kolavinnslu fyrir Hollandsmarkað ásamt því að vinna hefðbundinn saltfisk. Vörur þeirra félaga fengu góðar móttökur á mörkuðum ytra og reksturinn gekk vel.

Við byrjuðum á Grandanum 1988 en fluttum okkur á Stokkseyri 1999, þar var ónotað stórt og mikið frystihús sem við náðum okkur í. Þar var fyrirtækið til ársins 2007, nú er þar orðin Menningarverstöð og vinnslan okkar löngu komin á skrá sögunnar. Þegar mest var umleikis hjá okkur vorum við með 120 manns í vinnu þannig að við þurftum töluvert hráefni. Það kom að því að ekki var lengur hægt að treysta á hráefni og því var þetta sjálfhætt. Ég sneri mér að allt öðru og hef verið fangavörður á Litla-Hrauni frá árinu 2007.“

Félagsmál í fjörtíu ár

Samhliða því að halda upp á sextugsafmæli sitt mun Björn halda upp á 40 ára félagsmálaafmæli. Það er frá þeim tíma að hann tók forystu í félagsmálum sem enn sér ekki fyrir endann á. Í dag er hann eitt helsta  félagsmálatröll Suðurlands hvar hann veitir forystu hinu margundarlega en áhrifamikla Hrútavinafélagi.

„Ég byrjaði félagsmálavafstrið í Íþróttafélaginu Gretti á Flateyri undir öruggri handleiðslu félagsmálaleiðtogans Hendrik Tausens og tók við formennsku af honum 1974. Í framhaldi af því fylgdi ég honum yfir í Verkalýðsfélagið Skjöld þar sem ég byrjaði í stjórn 1977. Formaður varð ég þar 1981 og til ársins 1985.“

Á formannstíma  Björns Inga var haldin stórkostleg afmælishátíð þar sem félagið varð 50 ára 1983, glæsileg veisla var haldin í matsal Hjálms hf. Hljómsveitin Hálft í hvoru kom og söng verkalýðssöngva auk þess sem farið var yfir sögu félagsins og flutt gamanmál. Kvöldið endaði svo með dansleik í Samkomuhúsinu á Flateyri. Eftir lifir sérlega umfangsmikið afmælisrit sem er mikið að efni og burðum.

Ofurefli lagt að velli

„Stærsti atburðurinn á mínum ferli í verkalýðsfélaginu er samningurinn um að orlofsfé launafólks á Flateyri yrði greitt inná reikninga þeirra í Sparisjóði  Önundarfjarðar og því ávaxtast í heimabyggð í stað þess að geymast vaxtalítið hjá Póstgíróstofunni eins og verið hafði.

Þetta var gömul hugmynd frá stjórnarárum Hendriks en hafði ekki komist í framkvæmd. Það var ekki einfalt að landa þessu. Atvinnurekendur á staðnum sem og sparisjóðurinn voru undir gríðarlega miklum þrýstingi að sunnan um að gefa sig ekki.

Þarna sýndi Einar Oddur Kristjánsson þann kjark sem til þurfti og hann taldi skynsamlegast fyrir fólkið; fyrirtækið og byggðina. Það var þessi kjarkur sem gerði þjóðarsáttasamningana að veruleika. Hann bugaðist ekki undan pressu valdamikilla aðila.

Ægir E. Hafberg sparisjóðsstjóri, sem nú stýrir Landsbankanum í Þorlákshöfn, lét bankakerfið heldur ekki buga sig þrátt fyrir mikla pressu.

Það er stærsta og sælasta stund félagslífs míns þegar skrifað var undir þennan samning í stofunni heima hjá Ægi Hafberg sparisjóðsstjóra. Í fyrstu var Hjálmur hf. eina fyrirtækið, enda stærsta og öflugasta fyrirtæki staðarins, en hin komu öll á eftir þannig að þetta baráttumál félagsins fékk farsælan endi.“

Lengsta samfellda félagsmálavertíð Björns Inga  er forysta hans í Önfirðingafélaginu sem er félag brottfluttra Önfirðinga. Í 20 ár var hann formaður félagsins, það voru gerðir alveg hreint ótrúlegir hlutir á þessum árum. Gefin hafa verið út dagatöl og fréttabréf í miklum upplögum allt að átta blöðum á ári og umfangsmest urðu þau nærri 200 síður, prentað á glanspappír. Það má því segja að nokkur glans hafi verið á yfirbragði félagsins.

„Það má skipta þessu í tvö tímabil, fyrri tíu árunum og svo þeim síðari. Fyrri 10 árin héldum við margar hátíðir þar sem minnst var merkra atburða og ekki síður merkilegs fólks að fornu og nýju.

Mikið starf var hjá félaginu eftir snjóflóðið mikla á Flateyri 1995, þá höfðum við opið hús í marga mánuði til að fólk gæti komið saman og hist. Það var erfitt en gefandi fyrir okkur öll sem að þessu komu.

Breyttar áherslur

Smátt og smátt færðust áherslur félagstarfsins nær uppruna þróunar á Flateyri þar sem Sólbakki varð þungamiðja starfsins. En þar starfaði stærsta hvalveiðiverksmiðja sem risið hefur í Norðurhöfum. Við helguðum Sólbakka að mestu síðustu tíu árum starfsins. Hús Önfirðingafélagsins stendur sem fyrr segir á grunni gamla Sólbakkahússins sem rifið var 1968 og er nú vélageymsla að Hvilft, næsta bæ innan Sólbakka.

Félagið hefur haldið úti umfangsmikilli mannlífs- og menningarstarfsemi í tengslum við Sólbakkahúsið sitt. Þar hafa tengslin við hvalinn verið í forgrunni. Mikil samskipti hafa verið við norsk yfirvöld af svæði hinna gömlu hvalfangara og nú síðast á dögunum kom hópur stjórnmálamanna  að ræða málið og fleiri hafa boðað komu sína með haustinu. Við í Orlofsnefnd Önfirðingafélagsins bindum vonir við að hægt verði að treysta grundvöll Sólbakka með þessu samstarfi.

Tengslin sem ræktuð hafa verið við afkomendur hvalveiðimannanna og stjórnmálamenn á svæðinu eru sterk og þar er mikill velvilji í garð Önfirðinga.

Rokkað á Sólbakka

Uppáhaldið nú síðustu ár hefur verið hin öfluga tónlistartenging sem  Sólbakkasetrið stóð fyrir í samstarfi við Önund Pálsson í Tankanum á Sólbakka sem var frumlegasta hljóðver á landinu. Þetta leiddi af sér plötuútgáfu þriggja hljómsveita. Það eru Granít í Vík í Mýrdal, Kiriyma Family frá Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfossi og nú síðast en ekki síst Æfing frá Flateyri sem sló í plötu á 45 ára afmæli bandsins. Það verður hlutverk allra Önfirðinga að koma sem flestum lögum Æfingar á vinsældarlista. Lögin eru öll sögur að vestan og kveikja minningar og á stundum jafnvel söknuð. Allar hafa þessar hljómsveitir haldið tónleika og skemmtanir fyrir vestan í tengslum við útgáfuna. Nú síðast Æfing sem hélt heila Hvítasunnugleði nú í vor þar sem fjöldi brottfluttra Önfirðinga kom að upplifa.

Ég lét af formennsku í Önfirðingafélaginu í árslok 2012 og vil þakka sérstaklega félögum og samstarfsfólki fyrir þennan skemmtilega tíma.“

Toppurinn á ferlinum

Toppurinn á félagsmálaferli Björns Inga  hlýtur að teljast Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi. Félagið var stofnað 1999. Hrútavinafélagið er eitthvað merkilegasta fyrirbærið í íslenskri félagsmálasögu. Forseti félagsins frá upphafi hefur verið Björn Ingi Bjarnason.

Félag þetta er fyrirmyndin að hinu nýja Íslandi því í félaginu ríkir hreint forsetaræði líkt og nú er verið að koma á hjá þjóðinni. Fyrirmyndin er augljós.

Stundum heldur forseti félagsins að hann sé í sambandi við grasrót hrútavina með ósýnilegri og ósnertanlegri taug,  þannig að þetta er sama módelið.

Félagið á sér margar deildir og því í stakk búið að takast á við allt það sem gerst getur í lífi landsmanna.

Lýðræðið leiðrétt

„Við höfum tekið starf Hrútavinafélagsins mjög alvarlega og þegar stjórnmálaflokkar hafa reynt að slá þingmenn af hér í kjördæminu höfum við snúist til varnar og til þessa hafa flokksformenn þurft að lúta í gras. Afl þessa félags er gríðarlegt enda margt sem við höfum lagt gjörva hönd á hér á svæðinu. Við höfum staðið hér fyrir margvíslegum skemmtunum og uppákomum auk þess að leiðrétta lýðræðið hjá nokkrum stjórnmálaflokkum“  

Elliheimilisbjarmi

Björn Ingi horfir björtum augum til framtíðarinnar og telur engu að kvíða þó aldurinn sæki hraðar á en áður og af fasi hans skín einhverskonar rósrauður elliheimilislöngunarbjarmi.

„Tímamótin leggjast vel î mig og ég er þakklátur fyrir það sem lífið hefur gefið mér til þessa og því einskis nema góðs að vænta î framtíðinni. Ég er fullur tilhlökkunar, það verða sem fyrr næg verkefni við að fást.

100 ára afmæli

Það verður vegleg veisla hér á Eyrarbakka sem Menningarráð Hrútavinafélagsins stendur fyrir þar sem haldið verður þetta 100 ára afmæli, altso mitt afmæli og félagsmálaafmælið. Síðast þegar ég hélt afmæli var það hálfrar aldar afmæli og því rétt að hafa heila öld núna. Þar munu fara með stjórn þeir félagar Hendrik Tausen og Guðmundur Jón Sigurðsson sem ásamt mér hafa myndað félagsmála þrenningu í 40 ár.“

Selt inn á afmælið

Haldið verður uppá afmælin í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka með mjög þjóðlegum hætti. Skemmtunin byrjar klukkan átta, þar verður boðið uppá rammíslenska kjötsúpu, ræður, tónlist og skemmtun. Á eftir verður svo flöskuball. Það verður hver að koma með sína vökvun og síðast enn ekki síst verða vinir sigtaðir frá viðhlæjendum með því að hafa 2500 króna aðgangseyri. Afmælisbarnið afþakkar afmælisgjafir.

Fjölskyldan :

 

Foreldrar:           Bjarni Þórarinn Alexandersson  1914 – 1998

 

                               Júlía Ágústa Björnsdóttir  1912 – 1983

 

Maki:                    Jóna Guðrún Haraldsdóttir 1956

 

Hennar foreldrar: Haraldur Jónsson  1924 - 1988

 

                                  Gróa Guðmunda Björnsdóttir  1926

 

Börn:                    Júlía Bjarney  1979

 

                            Maki, Þórir Ingvarsson

 

                               Inga Rún  1980

 

                            Maki, Bragi Ólafsson

 

                             Barnabörn: Ólafur 2009 og Björn Ingi 2011

 

                               Víðir  1988

 

Kjötsúpumeistarinn Siggeir Ingólfsson - Strandvörðurinn og Staðarhaldarinn áStað.

 

Skráð af Menningar-Staður

07.07.2013 15:59

Menningarferð um fuglafriðlandið í kvöld, sunnudaginn 7. júlí 2013

Íþrótta- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar í samstarfi við Fuglavernd býður til menningarferðar um Fuglafriðlandið í Flóa í kvöld, sunnudaginn 7. júlí  2013 kl. 20.

Félagar frá Fuglavernd munu leiða gesti um svæðið en gangan mun taka c.a. einn og hálfan tíma. Lagt verður af stað frá fuglaskoðunarskýlinu. Gott er að vera í góðum skóm eða stígvélum því blautt getur verið á svæðinu og svo er sniðugt að hafa meðferðis sjónauka og fuglahandbók.

Ókeypis er í ferðina og eru allir velkomnir en lagt verður af stað á bílum frá Ráðhúsi Árborgar kl. 19:40 fyrir þá sem ekki eru kunnugir.  Einnig er hægt að mæta beint að fuglaskoðunarskýlinu við bílastæðin.

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

06.07.2013 06:13

100 ár afmælishátíð á Stað

Félagsheimilið Staður á  Eyrarbakka.

 

Hrútavinafélagið Örvar gjörir kunnugt:

100 ára afmælishátíð á Stað
 

Björn Ingi Bjarnason á Eyrarbakka fyllir 60 lífárin 7. júlí 2013

Hann hefur verið í félagsmála-forystu í  40 ár. Fyrst á Flateyri til 1984,

síðan í Hafnarfirði  og svo í þorpunum Stokkseyri og Eyrarbakka

og víðar frá 1999. Vegna þessara 100 ára heldur Hrútavinafélagið Örvar

og fleiri samstarfsmenn Björns Inga afmælissamkomu,

laugardagskvöldið 6. júlí  2013 kl. 20:00

í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka,

þar sem þessum áföngum verður fagnað í tali og tónum.

Fram koma m.a. hljómsveitirnar; Æfing og Siggi Björns frá Flateyri,

Granít frá Vík í Mýrdal og Kiriyama Family frá Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfossi.  

Á borðum verður þjóðleg  kjötsúpa með öllu tilheyrandi

að hætti Hrútavina ásamt límonaði og lageröli.

Veislustjórar verða Guðmundur Jón Sigurðsson og Hendrik Tausen

sem átt hafa margþætta félagsmálasamleið með afmælisbarninu í þessi 40 ár

Síðan verður pokaball með hljómsveitinni Granít fram á nótt.

Afmælisbarnið afþakkar allar gjafir en framlög

í Menningarsjóð Hrútavina er kr. 2.500 sem aðgangseyrir.

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður