Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Ágúst

02.08.2013 05:58

Fangar vilja umboðsmann

Litla-Hraun

 

Fangar vilja umboðsmann

• Viðurkenna brot en aðhafast ekkert • Kvartanir kæfðar í reglugerðum

 

„Íslenska fanga vantar óháðan utanaðkomandi aðila til að gefa föngum rödd gegn Fangelsismálastofnun,“ segir fangi sem titlar sig sem talsmann Stoða en það er hagsmunafélags fanga á Litla-Hrauni.

Hann gagnrýnir núverandi kerfi harðlega og telur að kvörtunarmál fanga séu kæfð í reglugerðum innan opinbera kerfisins.

Samkvæmt núverandi lögum verða fangar að tæma svokallaðar lögbundnar kæruleiðir áður en umboðsmaður Alþingis getur tekið mál þeirra til skoðunar. Fangi þarf fyrst að leita til Fangelsismálastofnunar, síðan til innanríkisráðuneytisins og þegar ráðuneytið hefur kveðið upp úrskurð sinn getur umboðsmaður Alþingis skoðað málið.

„Núverandi kerfi er einfaldlega ekki nægilega gott. Kvartanir okkar eru kæfðar í stjórnsýslurugli í marga mánuði og flestir fangar eru komnir út úr fangelsinu áður en málið er loksins tekið fyrir,“ segir talsmaðurinn. Hann telur að ekkert muni breytast til batnaðar á meðan slíkar brotalamir eru til staðar.

 

Alltaf sömu stöðluðu svörin

Talsmaðurinn las upp svar sem honum barst frá umboðsmanni Alþingis varðandi kvörtun: „Umboðsmaður Alþingis telur rétt að brotin hafi verið stjórnsýslulög við ákvörðun þessa máls en þar sem of langt er um liðið frá umræddu atviki sér umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu.“

Hann segist þekkja mörg sambærileg dæmi þar sem fangar fá sömu stöðluðu svörin frá hinu opinbera eftir langa bið. „Það er fráleitt að yfirvöld viðurkenna brotið en aldrei gerist neitt því málið er búið að velkjast svo lengi um í kerfinu sem þeir bjóða sjálfir upp á.“

Hann telur miðstýringu Fangelsismálastofnunar vera of mikla og kallar eftir óháðum aðila sem getur staðið á sínu gagnvart stofnuninni „Þarna er á ferð eftirlitslaus bolti sem gerir það sem honum hentar. Það á enginn að hafa eftirlit með sjálfum sér eins og staðan er nú.“

Umræðuvettvangur

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur man ekki í fljótu bragði eftir umboðsmanni fanga hjá öðrum þjóðum en bendir á að þar eru stundum óháðar nefndir til staðar. Hann nefnir Noreg sérstaklega í þessu tilliti en þar hittast fulltrúi fanga, fræðimenn og fulltrúar úr kerfinu árlega og fara yfir málin. Ekkert slíkt umræðuferli er til staðar hér á landi.

Helgi skilur upplifun fanga og telur marga þeirra líta svo á að ráðuneytið sé ekki óháður aðili gagnvart Fangelsismálastofnun. Hann telur hins vegar stofnun nýs embættis umboðsmanns fanga vera of dýrt þar sem þörfin fyrir fjármagn er meiri annars staðar innan fangakerfisins.

Heimsótti Litla-Hraun

„Ég skil afstöðu fanga og tel mikilvægt að skoða málið heildstætt enda getur oft verið erfitt fyrir frelsissvipta einstaklinga að koma skoðunum sínum á framfæri,“ segir Róbert Spanó, settur umboðsmaður Alþingis.

Hann tók upp á því að eigin frumkvæði að heimsækja Litla-Hraun fyrir stuttu og spjalla þar við fanga augliti til auglitis. „Heimsóknin gekk vel og nú erum við að vinna upp úr þessum gögnum,“ segir Róbert.

Hann telur mikilvægt að stjórnvöld efli slíkar frumkvæðisathuganir hjá umboðsmanni Alþingis en stofnunin ræður ekki við slíkar athuganir vegna mikilla anna. Árlega berast yfir 500 kvörtunarmál til umboðsmanns Alþingis.

„Ef embætti okkar yrði eflt gætum við haft betra eftirlit með þeim opinberu stofnunum sem sjá um frelsissvipta einstaklinga. Með þessum hætti gæti umboðsmaður Alþingis skoðað mál fanga með almennum hætti.“

 
Motgunblaðið föstudagurinn 2. ágúst 2013
 
 
Skráð af Menningar-Staður
 

 

 

01.08.2013 22:16

Vefmyndavélin við Rauða-húsið á Eyrarbakka

Eyrarbakki

 

Vefmyndavélin við Rauða-Húsið á Eyrarbakka

01.08.2013 05:38

Henti sér af Eyrarbakkabryggju á eftir hundinum

Gyða Sigurðardóttir á Eyrarbakka er hér ásamt chihuahua-hundinum Ísól. Hvorugri varð meint af volkinu í sjónum. Gyða nýtti sér sundreynslu sína frá Ísafirði og beit á jaxlinn og komst skrámug í land eftir nokkurn barning.

 

Henti sér af Eyrarbakkabryggju á eftir hundinum

• Gyða Sigurðardóttir bjargaði smáhundi úr sjó

 

Hin 69 ára gamla Gyða Sigurðardóttir hugsaði sig ekki tvisvar um þegar tíkin hennar, Ísól Rós Mattadóttir, féll fram af bryggjunni á Eyrarbakka og henti sér umhugsunarlaust á eftir henni. Eftir barning í sjónum náði hún til hundsins og komst í land. „Þetta gerðist þegar við systir mín fórum í göngutúr með þrjá hunda síðasta laugardag. Þegar við komum á bryggjuna leit ég af hundinum en heyrði skvamp, eins og þegar eitthvað dettur í vatn. Þegar ég leit við var litli chihuahua-hund-urinn minn búinn að steypa sér fram af bryggjunni. Ég hugsaði ekki neitt heldur reytti það sem var lauslegt af mér, nema gleraugun sem ég mun aldrei sjá aftur, og henti mér út í,“ segir Gyða.

 

Beit á jaxlinn og komst í land

Þegar í kaldan sjóinn var komið veitti Gyða því athygli að Ísól hafði rekið undir bryggjuna og náði hún ekki til hennar þar sem of þröngt var á milli bryggjustöplanna. „Ég kallaði á hana og hún náði að synda til mín og þegar við náðum saman „klíndi“ hún sig við hálsinn á mér og ríghélt,“ segir Gyða. Aðspurð segist hún ekki hafa verið skelkuð. „Ég er svo til alin upp í sundlaug á Ísafirði og vel synd. En þetta var mjög erfitt því hún var á hálsinum á mér.“

Gyða fikraði sig á milli staura í átt að landi þar sem grynningar tóku við. „Þegar ég var komin hálfa leið var ég ekki viss um að ég myndi hafa þetta, en ég beit á jaxlinn,“ segir Gyða. Hún segir að hún hafi ekki hugmynd um hversu lengi hún var í sjónum. „Það var maður uppi á bryggjunni sem var að stappa í mig stálinu og hann segir við mig: „Ertu synd? Og ég svara: „Er ég synd?! Pabbi minn var nú ólympíufari í sundi og ég ólst upp í sundlauginni á Ísafirði,““ segir Gyða hlæjandi og áttar sig á því nú að þessar upplýsingar voru kannski óþarfar í þeim aðstæðum sem þarna voru.

Hún segir að hún hafi upplifað bryggjuna sem þrisvar til fjórum sinnum lengri en hún var í raun og veru. Á endanum náði hún þó fótfestu og kom sér í land blóðug á hálsi, handlegg og fótum. Aðspurð hvort henni hafi ekki verið kalt segir hún svo ekki vera. „Guði sé lof þá fannst mér sjórinn volgur,“ segir Gyða. Hún segir að hún sé eilítið andstutt eftir þessa lífsreynslu en að öðru leyti hafi henni ekki orðið meint af. Ísól fékk hita um nóttina en jafnaði sig fljótt.

Faðir Gyðu sundgarpur mikill

Faðir Gyðu er sundmaðurinn Sigurður Jónsson sem synti undir merkjum KR og var fyrstur Íslendinga til þess að synda í úrslitum á alþjóðlegu sundmóti á Evrópumótinu í Mónakó árið 1947. Þá keppti hann einnig á sumarólympíuleikunum í London árið 1948. Sigurður setti sitt fyrsta Íslandsmet árið 1940 og háði um árabil mikla keppni við nafna sinn Sigurð Þór Jónsson Þingeying.

Í viðtali við Morgunblaðið 24. janúar sl. segir hinn níræði Sigurður að hann sé hættur að synda vegna veiki sem hrjáir hann: „Fyrir nokkrum árum spurði heimilislæknirinn minn hvort ég synti ekki enn. „Nei,“ svaraði ég. „Ég er með veiki.“ Þá spurði hann grafalvarlegur hvaða veiki það væri. „Það er leti,“ svaraði Sigurður.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 1. ágúst 2013

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

01.08.2013 05:22

Steinunn Jóhannesdóttir: - Skálholt í sögu og samtíð

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Steinunn Jóhannesdóttir

 

Steinunn Jóhannesdóttir: - Skálholt í sögu og samtíð

 

Í sumar eru 50 ár liðin frá vígslu Skálholtsdómkirkju hinnar nýju og af því tilefni var haldin vegleg hátíð á þessum forna höfuðstað þjóðarinnar. Auk afmælis kirkjunnar var þess minnst að á vígsludaginn afhenti þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra þjóðkirkjunni Skálholtsstað til eignar og ríkið lagði staðnum til fjárstuðning til vaxtar og viðhalds. Frá árinu 1952 höfðu verið tekin ákveðin skref af hálfu löggjafans til endurreisnar Skálholts því „sæmd söguþjóðarinnar beinlínis krafðist þess að vegur þessa fornhelga staðar yrði efldur að nýju með einhverjum hætti“, segir í bók séra Sveins Víkings um Skálholtshátíðina 1956. Sú hátíð var haldin í níu alda minningu biskupsdóms á Íslandi og í hornstein nýju kirkjunnar var m.a. skráð: „Guðshús þetta er reist fyrir fé íslensku þjóðarinnar og samkvæmt ályktunum Alþingis.“

Enginn fulltrúi þess Alþingis sem nú situr sá ástæðu til að sækja hátíðarsamkomuna 21. júlí í ár né nokkur ráðherra nýrrar ríkisstjórnar sem þó hefur skrifað í stefnuskrá sína að hún hyggist efla og styðja íslenska þjóðmenningu.

 

Ábyrgð þings og þjóðar

Fjarvist núverandi valdhafa á Skálholtshátíð leysir hvorki þing né þjóð undan þeirri ábyrgð sem á henni hvílir gagnvart arfi kynslóðanna. Margt hefur verið vel gert á hinum endurreista Skálholtsstað. Kirkjan sjálf er undrafögur utan sem innan og laðar að sér gesti til staðarins hvaðanæva að, einkum að sumarlagi þegar hún nýtist sem eitt besta tónlistarhús landsins þar til þjóðin eignaðist Hörpu. Skólabyggingin er einnig fögur smíð, þótt ekki hafi tekist að halda lífi í hinni upphaflegu hugmynd um lýðháskóla að norrænni fyrirmynd. Hún hefur um árabil einkum þjónað sem gististaður fyrir aðstandendur og gesti Sumartónleikanna í Skálholti, guðfræðistúdenta, fornleifafræðinga, pílagríma, fermingarbörn og þátttakendur á málþingum og Kyrrðardögum. Aðrar byggingar á staðnum eru umdeilanlegri bæði hvað varðar útlit og staðsetningu og er skemmst að minnast mikilla deilna sem hafa orðið um „tilgátuhúsið“ sem byggt var á fornum veggjatóftum við hlið kirkjunnar. Húsið er þó að dómi undirritaðrar fallegt í sjálfu sér með sitt fagurgræna torfþak og gulbrúnu timburþil undir bláum sumarhimni. Það minnir á liðna tíð og húsakynni þeirra sem fyrr byggðu staðinn.

 

Helgir menn og syndarar

Það eru ekki aðeins helgir menn og dýrlingar sem hafa gengið um stéttir í Skálholti, heldur allar gerðir af fólki, þótt vissulega væri það stundum undir strangara siðferðislegu eftirliti en þorri manna. Þannig varð Skálholt vettvangur einnar lífseigustu og harmþrungnustu ástarsögu 17. aldar milli Ragnheiðar Brynjólfsdóttur og Daða Halldórssonar og dramatískra átaka föður og dóttur. Skálholt er eitt helsta sögusvið Íslandsklukkunnar, þar sem Halldór Laxness lætur handritasafnarann Arnas Arneus og Snæfríði Íslandssól eiga endurtekna ástarfundi. Í Skálholti var barist til úrslita þegar lútherskan tók við af katólskunni og Jón Arason og synir hans tveir voru teknir af lífi án dóms og laga, eins og hinn aldni leikari Gunnar Eyjólfsson minnti kirkjugesti á 21. júlí.

 

Æðstur staður og dýrligastur á Íslandi

Um Skálholt segir í fornu riti: „Þar er æðstur staður og dýrligastur á Íslandi.“ Slík fullyrðing leggur skyldur á herðar núlifandi Íslendingum að viðhalda reisn og virðingu staðarins sem biskupsseturs, en þar þarf einnig að efla fræðasetur og búa í haginn fyrir iðkendur bókmennta og lista, fornleifa og sögu. Í Skálholti bjó löngum fjölmenni á fyrri tíðar mælikvarða, fjöldi ferðalanga, innlendra sem erlendra, átti að auki leið þar um. Það voru erlendir ferðamenn sem máluðu fyrstu myndir sem til eru af staðnum, það voru erlendir vinir Skálholts sem gáfu nýju kirkjunni orgelið og klukkurnar, skírnarfont, þakviði og gólfflísar og kostuðu uppsetningu Kristsmyndarinnar yfir altarinu og steindu glugganna eftir listakonurnar Nínu Tryggvadóttur og Gerði Helgadóttur. Skálholt þarf stöðugt á nýjum hollvinum að halda, innan lands sem utan. Það mun því framvegis sem hingað til heyra undir hlutverk og skyldur Skálholtsstaðar að taka vel á móti gestum og gangandi.

 

Höfundur er rithöfundur og félagi í Skálholtsfélagi hinu nýja.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 1. ágúst 2013

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður