Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Ágúst

30.08.2013 12:00

Bleikjueldi á Sogni

Litla-Hraun.

Frá bleikjueldinu á Sogni.

 

Bleikjueldi á Sogni

 

Hátt í fimmtíu fangar hjá Litla-Hrauni og Sogni vinna á hverjum degi. Störfin eru fjölbreytt, allt frá bleikjueldi yfir í að gera við gamlar ljósmyndir. Stærstur hluti fanga stundar þó nám. Þar af stunda sex fangar háskólanám.

 

"Við byrjuðum á þessu í fyrrasumar," segir Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður á Litla-Hrauni og Sogni, en í síðarnefnda fangelsinu er nú stundað bleikjueldi.

Síðasta uppskera var nokkuð góð að sögn Margrétar, eða um 400 kíló. Fiskurinn var nýttur í mat handa föngum á Sogni og Litla-Hrauni.

"Við keyptum bara seiði og hófum bleikjueldi í nærliggjandi læk," segir Margrét um tilurð verkefnisins en fangar hafa alfarið umsjón með eldinu. Þegar fangar sem hafa umsjón með verkefninu eru látnir lausir taka aðrir við keflinu.

"Við erum með nýja bleikju, og svo er húngrafin líka," segir Margrét, en verkefnið er vel heppnað að hennar mati.

 

Þá er stundaður fjölbreyttari búskapur í fangelsinu, meðal annars eru íslenskar hænur á Sogni.

"Og ef við værum með útihús, værum við líka með sauðfé," bætir Margrét við. Þess má geta að 350 fjár eru á Kvíabryggju.

Hún segir það kosta mikla vinnu að finna störf handa föngum. "Ég er alltaf að hringja og skoða hvað við getum gert," segir Margrét.

 

Eins og greint var frá í Fréttablaðinu í gær snarminnkuðu atvinnutækifærin fyrir fanga eftir hrun og er enga vinnu að hafa fyrir fanga á höfuðborgarsvæðinu aðra en nám. Margrét hefur þó verið iðin við að skapa tækifæri fyrir fanga á Suðurlandi. Meðal annars gerði hún samning við Vegagerðina um vinnu. "Ég var nú bara að keyra austur þegar ég sá gular stikur liggja úti í vegkanti," segir Margrét, sem hafði samband við Vegagerðina og kom á samningum við fyrirtækið.

 

Og verkefnin eru fjölbreyttari.  Átta fangar starfa við endurvinnslu í samstarfi við Íslenska gámafélagið. Þeir tína endurvinnanlega málma úr raftækjum. Svo starfa fangar einnig við að gera við og skanna inn gamlar myndir fyrir Landgræðslu ríkisins.

 

"En stærstur hluti hjá mér stundar nám," segir Margrét stolt, en 51 fangi er í skóla. Alls eru 45 fangar í vinnu, en þess má geta að sumir eru bæði í vinnu og skóla. Alls eru 96 fangar á Litla-Hrauni og Sogni. Í júní síðastliðnum stunduðu sex háskólanám við þrjá háskóla hérlendis og var einn sexmenninganna auk þess skráður í einn áfanga við FSu á Litla-Hrauni. Þess má geta að nemendur fá greitt fyrir að sækja skóla, en verða þó að sýna fram á árangur og verkefnaskil ætli þeir að fá útborgað að sögn Margrétar.

 

Fréttablaðið fimmtudagurinn 29. ágúst 2013.

Margrét Frímannsdóttir.

 

Litla-Hraun

 

Skráð af Menningar-Staður.

30.08.2013 11:13

Rut Magnúsdóttir - Fædd 18. apríl 1928 - Dáin 18. ágúst 2013 - Minning

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Rut Magnúsdóttir.

 

Rut Magnúsdóttir - Fædd 18. apríl 1928 - Dáin 18. ágúst 2013 - Minning

 

Rut Magnúsdóttir fæddist í München 14. apríl 1928. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Kumbaravogi 18. ágúst 2013.

Foreldrar Rutar voru Maximilliam Barbara Gröschl, bóndi og ráðunautur, f. 27. október 1897, d. 24. desember 1978, og Irma Maria Gröschl barnahjúkrunarkona, f. 20. mars 1900, d. 1. júní 1985.

Rut átti tvær systur, Juttu Gröschl, f. 3.1. 1930, d. 31.7. 1937, og Ulrike von Maltsahn, f. 13.3. 1945.

Rut giftist Níls Ólafssyni, f. 26.2. 1932, frá Austur-Ögðum, Noregi.

Börn þeirra eru: 1) Lísbet, f. 14.1. 1957, gift Ragnari Gíslasyni, f. 17.3. 1956, börn þeirra eru a) Linda Rut, f. 12.8. 1975, gift Eyþóri Björnssyni, f. 25. 11. 1972, börn þeirra eru Karítas Birna, f. 1.8. 1999, Ævar Kári, f. 5.12. 2005, og Aníta Ýrr, f. 13.3. 2009. b) Gísli Einar, f. 22.1. 1985. c) Jóna Þórunn, f. 16.10. 1986. 2) Ólafur, f. 16.6. 1958.

Rut ólst upp hjá foreldrum sínum, systrum og föðurömmu við bústörf í sveitinni Oberhof Hubertus í Würmdal í Bæjaralandi, þar sem faðir hennar ræktaði Haflinger-hesta. Tónlist var Rut í blóð borin og fékk hún snemma að æfa sig á orgel. Rut gekk í barnaskóla sem nunnurnar í dalnum ráku og frá 12 ára aldri gekk hún í menntaskóla í München. Eftir menntaskólanám vann Rut á garðyrkjustöð í Nörlingen, þá var hún einnig við nám í orgelleik hjá Georg Kemp. Hafði hún þar með höndum starf forfallaorganista í víðáttumikilli sveit með um þrjátíu kirkjum. Árið 1952 las Rut við háskólann í Göttingen, jafnframt stundaði hún nám í orgelleik í Hannover.

Vorið 1955 kom Rut til Íslands til vinnu í garðyrkjustöðinni Fagrahvammi í Hveragerði auk þess að safna íslenskum jurtum sem hún pressaði fyrir jurtasafn háskólans í Göttingen. Söfnunin byggðist á samfélagsfræði jurtanna (Pflanzensoziologie).

Haustið 1955 kynntist Rut tilvonandi eiginmanni sínum Níls, þar sem hann kom til starfa sem fjósameistari að Þórustöðum í Ölfusi. Þau bjuggu og unnu á Þórustöðum þar til þau keyptu jörðina Sólvang við Eyrarbakka árið 1963. Á Sólvangi bjuggu þau með blandaðan búskap í 38 ár eða til 1. júní 2001.

Rut hóf að syngja með kirkjukór Eyrarbakkakirkju árið 1963 og tók svo við organistastarfinu ári síðar. Hún var organisti og kórstjóri frá 1964-1993. Rut kom á fót stúlknakór við kirkjuna auk þess að taka þátt í öllu barnastarfi hennar. Rut kenndi við Tónlistarskóla Árnessýslu á Eyrarbakka og Stokkseyri, einnig kenndi hún tónlist og hljóðfæraleik á barnaheimilinu Kumbaravogi í nokkur ár.

Síðustu tólf árin bjuggu Rut og Níls í Fosstúni 23 á Selfossi, þar sem Rut ræktaði garðinn sinn.

Útför Rutar fórr fram frá Selfosskirkju miðvikudaginn 28. ágúst 2013.

 

Morgunblaðið miðvikudagurinn 26. ágúst 2013

 

Skráð af Menningar-Staður

29.08.2013 19:52

Hemmi Gunn í aðalhlutverki nýrrar bókar

 

Hemmi Gunn í aðalhlutverki nýrrar bókar

 

Annað hefti í nýjum flokki ritraðarinnar Mannlíf og saga fyrir vestan, kemur út um helgina. Það er Vestfirska forlagið sem gefur ritröðina út. Í fyrsta hefti ritraðarinnar voru 20 bækur.

Í nýjasta heftinu er Hermann heitinn Gunnarsson, eða Hemmi Gunn, aðal söguhetjan. „Hann dvaldi mikið hér fyrir vestan eins og mörgum er kunnugt. Enda átti hann vinum að mæta á ættarslóðum, með fóstru sína í fararbroddi. Að öðru leyti er þetta hefti stútfullt af allskonar efni. Bæði af léttara og alvarlegra tagi. Sem sagt: Vestfirðingar í blíðu og stríðu, lífs og liðnir,“ segir í bókalýsingu. 

Hallgrímur Sveinsson hjá forlaginu segir mikið í gangi hjá þeim þessa dagana og að sjálfsögðu verði forlagið með í jólabókaflóðinu sem ekki er langt í. 

Hermann Gunnarsson á heimaslóð í Haukadal í Dýrafirði.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

29.08.2013 18:26

Af -R- á Eyrarbakka

 

Hvar er R-ið á Eyrarbakka ?

 

Í gær var sett upp skilti við Barnaskólann á Eyrarbakka en þar er mjög klaufaleg villa, seinna R-ið vantar í nafn Eyrarbakka. 

Þessu hlýtur að verða kippt í liðinn, sem fyrst enda mjög klaufalegt að hafa svona skilti við elsta samfellt starfandi grunnskóla á Íslandi því hann hefur starfað óslitið frá 25. október árið 1852.

 

 

 

R-ið fundið

 

R-ið við Barnaskólann á Eyrarbakka er fundið og er nýtt skilti komið upp við skólann.

 

Af: www.dfs.is

 

Skráð af Menningar-Staður

 

28.08.2013 22:50

Ég vil eiga við ykkur samstarf

Ásmundur Friðriksson alþingismaður.

 

Ég vil eiga við ykkur samstarf

 

Ég vil þakka allar góðar kveðjur og óskir um velgengni í starfi frá fjölmörgum Sunnlendingum sl. vikur og mánuði. Það eru viðbrigði að vera orðinn þingmaður í stóru kjördæmi þar sem flóra atvinnu- og mannlífs er blómstrandi og stór. Ég legg mig fram um að ná nýjum tengingum í kjördæminu og virkja gömul og góð tengsl. Það er mér mikilvægt til að geta sinnt sem best þeim skyldum sem á mér hvíla fyrir kjördæmið að fólkið, forystumenn í atvinnulífi og sveitarstjórnum hafi við mig samband og haldi mér upplýstum.

Ég er að átta mig á hvernig ég held bestu sambandi við fólkið í kjördæminu og hef ákveðið að vera með fastan viðverutíma á Selfossi annan föstudag í hverjum mánuði. Til að byrja með verð ég á Hótel Selfoss meðan ég átta mig á þörfinni og verð mættur í morgunkaffi föstudaginn 13. september kl. 08.00.

Einstaklingar, sveitarstjórnarmenn og atvinnurekendur geta pantað viðtalstíma eða óskað eftir því að ég líti við hjá þeim innanbæjar eða í sveitunum. Ég er hreyfanlegur og hef gaman af því að ferðast og hitta fólkið hvar sem það býr og mun nýta tímann líka til heimsókna. Ég mun auglýsa viðveruna en hvet ykkur til að hafið samband þegar fólki hentar.

Það var ánægjuleg reynsla að setjast á þing og taka þátt í störfum þess. Glíman við ræðupúltið tók ekki verulega á mig en jómfrúarræða þingmanna er meira mál en ég ætlaði. Samþingmenn fagna þeim sem flytur sína fyrstu ræðu með hamingjuóskum og þeirri ræðu er aldrei svarað. Nokkrar ferðir í púltið tókust vel og best að fara rólega af stað og ræða mál sem maður gjörþekkir.

Ræðutíminn „Störf þingsins“ er tvisvar í viku og þá geta þingmenn rætt hvað sem þeim liggur á hjarta. Ég talaði tvisvar undir þessum lið, um 40 ára goslokaafmælið í Eyjum og um orku- og atvinnumál og svarta atvinnustarfsemi. Merkilegt hvað margir þingmenn ræddu um svarta atvinnustarfsemi sem segir sína sögu. Við þekkjum öll hvernig slík starfsemi grefur undan trúverðugleika atvinnulífsins og greinanna og mikilvægt að að uppræta slíka starfsemi sem hefur aukist í samfélaginu vegna hárra skatta. Þá ræddi ég og spurði iðnaðarráðherra um kostnað á orku og orkuflutningum fyrir orkusækin lítil og meðalstór fyrirtæki eins og ylræktina. Það er verkefni að koma til móts við þá mikilvægu atvinnustarfsemi með því að nýta ódýra endurnýjanlega orku til að efla þær greinar. Um það hafa verið sögð mörg orð en nú er komið að efndum, ég mun leggja mitt lóð á þá vogarskál.

Framundan eru mikilvægir tímar fyrir okkur öll. Atvinnulífið verður að koma fjárfestingum af stað í takt við lækkaða skatta og velviljað ríkisvald sem vill hleypa lífi í vinnumarkaðinn. Rísa undir loforðum um bætta stöðu heimila og lækka skuldir sem er eitt helsta kosningaloforðið. Forsætisráðherra lagði fram frumvarp á sumarþinginu í 10 liðum og verkefnið er komið af stað. Við bíðum öll og sjáum til hvað kemur út úr þeirri vinnu. Ég segi að mikilvægast er að staðið verði við dagsetningar í þeirri vinnu en henni á að ljúka í haust og byrjun nýs árs. Þá eiga mikilvæg skilaboð um stöðu heimilanna og lækkun kostnaðar fylgi fjárlagafrumvarpinu eins og afturkallanir skerðinga á  kjörum aldraða og öryrkja sem eiga að ganga til baka á kjörtímabilinu. Ég tel mjög mikilvægt að í upphafi nýs veiðiárs verði kvótinn aukinn og það verulega. Ég hef ekki farið dult með þá skoðun í þingflokknum, í Atvinnuveganefndinni og í samtölum við stjórnarsinna í þinginu.

Það hefur gefið mér fleiri tækifæri sem þingmaður að taka meiri þátt í lífi fólksins í sveitunum og bæjunum. Fjölmargar bæjarhátíðir eru vel sóttar og til fyrirmyndar hve vel er staðið að öllum hlutum. Þrátt fyrir góðan vilja og yfirferð næst ekki að mæta á öllum stöðum en stefnan er að hafa sótt allar hátíðir í kjördæminu á kjörtímabilinu.

Ég vil eiga við ykkur samstarf og reyni eftir megni að ferðast um kjördæmið en það virkar ekki bara aðra leiðina. Það er auðvelt að ná í mig og ég er alltaf tilbúinn að hlusta og sjá hvort við getum ekki leyst hnúta saman. Orð eru til alls fyrst og ég hlakka til samstarfsins með ykkur.

Með vinsemd
Ásmundur Friðriksson
asmundurf@althingi.is
sími 563 0500 - 894 3900

 

Ásmundur Friðriksson kemur oft við á Eyrarbakka

og hér eru nokkur dæmi þess færð til myndar:

 

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

 

28.08.2013 21:31

Ritstjórnarfundur í Menningar-Sellu

Á fundinum var drukkið Límonaði og Sinalco með Prins-Poló.

 

Ritstjórnarfundur í Menningar-Sellu

 

Siggeir Ingólfsson, staðarhaldari í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka, mætti í kvöld til fundar í ritstjórn vefmiðilsins Menningar-Staður sem er mannlífs- og menningarmiðill þess sem þörf er á og tengist mannlífi og menningu svæðisins með einum eða öðrum hætti.

 

Síðasta vika og þessu helgi hefur verið fjölbreytt í starfsemi Félagsheimilisins Staðar -  Menningar-Staðar.

 

Margþætt stefnumótun fór fram á fundinum

 

Skagfirðingurinn og Eyrbekkingurinn í Hveragerði Kristján Runólfsson hefur ort um þessa fundi:

 

Margt er að gerast til menningarauka,
mörg eru járnin í eldinum heit,
alltaf er Geiri í ýmsu að bauka,
ærna með visku í hugarins reit.

 

 

Fundurinn var fyrir luktum dyrum og sér Siggeir Ingólfsson til þess að svo væri

 

Skráð af Menningar-Staður

28.08.2013 20:42

Ingólfur og skriðdreki á Eyrarbakka

Húsið Ingólfur á Selfossi sem verður flutt til Eyrarbakka.

 

Ingólfur og skriðdreki á Eyrarbakka

 

Húsið Ingólfur á Selfossi, eitt allra merkilegasta hús bæjarins verður á næstunni flutti á Eyrarbakka tímabundið þar sem það verður notað við tökur á nýrri kvikmynd, sem tekin verður upp í þorpinu í september. 

Nokkur önnur hús í líkingu við Ingólf verða notaðar við tökurnar, auk skriðdreka.  

Saga Film er með verkefnið á sinni könnu. Þegar leitað var þangað til að fá upplýsingar um kvikmyndina fengust þær upplýsingar að ekki væri hægt að tjá sig um verkefnið að svo stöddu.  Við verðum því að bíða og sjá til hvað gerist spennandi á Eyrarbakka í september.

 

Af: www.dfs.is

 

 

Skráð af Menningar-Staður

28.08.2013 07:05

Myndir frá tónleikum Kiriyama Family á Eyrarbakka 25. ágúst 2013

 

 

Fjöldi og frábært kvöld hjá Kiriyama Family

 

Kiriyma Family voru með tónleika í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka sunnudaginn 25. ágúsr 2013

 

Fjöldi fólks og frábær stemmning.

 

Myndaalbúm eru komin hér á Menningar-Stað:

Smella á þessar slóðir:

http://menningarstadur.123.is/photoalbums/251854/

http://menningarstadur.123.is/photoalbums/251855/

http://menningarstadur.123.is/photoalbums/251856/

 

Nokkrar myndir hér:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

 

 

27.08.2013 18:11

Menningarforysta Vestfoldfylkis í Noregi á ferð um Suðurland og víðar

Elfar Guðni Þórðarson hefur hér tekið við gjöf frá Inger Line Birkeland frá Stokke í Vestfoldfylki í Noregi.

 

Menningarforysta Vestfoldfylkis í Noregi á ferð um Suðurland og víðar

 

27 manna hópur forystufólks frá Vestfoldfylki í Noregi, sem stýrir menningarmálum,  var á Íslandi um síðustu helgi.

Fyrir hópnum fór Per Eivind Johansen, forsætisráðherra (ordförer) Vestfoldfylkis og fyrrum bæjarstjóri í Stokke sem er vinabær Flateyrar.

 

Hópurinn kom á föstudegi og fór m.a. í Bláa lónið. Þau voru á Menningarnótt í Reykjavík á laugardegi og fram til hátíðarloka.

 

Norðmennirnir fóru um Suðurland á sunnudeginum;  komu á málverkasýningu Elfars Guðna Þórðarsonar á Stokkseyri, voru á tónleikum með hljómsveitinni Kiriyama Family í félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka og borðuðu á Rauða-Húsinu á Eyrarbakka um kvöldið.

 

Ferðin er að hluta til vegna hins margþætta sögu- og menningarsamstarfs Önfirðinga við Vestfoldfylki og staðið hefur í nær 20 ár og byggir á hvalveiðum Norðmanna hér við land 1883 - 1915.

Í þeim anda var síðasta atriðið í ferð Norðmannana hingað að fara í heimsókn í Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu 32 í Reykjavík að morgni mánudagsins. Þar tók Önfirðingurinn Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra á móti hópnum.

Norðmennirnir byrjuðu á að syngja afmælisbarninu Illuga Gunnarssyni afmælissöng að þeirra hætti við undrun og fögnuð ráðherrans.

Frábær stund í Ráðherrabústaðnum önfirska í gærmorgun og Norðmennirnir héldu heim  um miðjan dag í gær sælir og ánægðir.

 

Heimsókn Norðmanna hingað til lands skipulögðu Eyrbekkingarnir; Júlía Björnsdóttir, sögu- og menningarmiðlari í Berlín og Björn Ingi Bjarnason, forseti Hrútavinafélagsins Örvars.

 

Myndaalbúm frá heimsókninni til Elfras Guðna í Menningarverstöðina á Stokkseyri er komið hér á Menningar-Stað.

Smella á þessa slóð:  http://menningarstadur.123.is/PhotoAlbums/251834/

 

Nokkra myndir hér:

 

 

 

 

 

Með Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra í Ráðherrabústaðnum í Reykjavík.

Fremsta röð f.v.: Júlía Björnsdóttir, Björn Ingi Bjarnason, Illugi Gunnarsson og að baki hans t.h. er Per Eivind Johansen.

 

Skráð af Menningr-Staður

27.08.2013 15:12

Sundlaugin á Stokkseyri 20 ára fimmtudaginn 29. ágúst 2013

Hrútavinurinn Guðmundur Gestur Þórisson var umsjónarmaður Sundlaugar Stokkseyrar í nokkur ár.

 

 Sundlaugin á Stokkseyri 20 ára fimmtudaginn 29. ágúst 2013

 

Í tilefni af 20 ára afmæli sundlaugarinnar á Stokkseyri fimmtudaginn 29. ágúst nk. verður boðið upp á afmælisköku og tónlist í sundlauginni þennan daginn.

Sundlaugin er opin frá kl. 16:30 – 20:30 en frítt er í sund á Stokkseyri í tilefni afmælisins.

Fyrstu sundlaugaverðirnir í sundlaug Stokkseyrar mæta á svæðið og rifja upp gamla takta. Allir eru velkomnir.

Íþrótta- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar

 

 

Ýmsar upplýsingar frá Sundlaug Stokkseyrar um árið 2005 í tíð Guðmundar Gests Þórissonar.

 

Skráð af Menningar-Staður