Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Ágúst

27.08.2013 14:49

27 milljarða skatttekjur af ferðamönnum 2013

Heimsókn frá Norðurbryggju í Kaupmannahöfn til Eyrarbakka í sumar.

 

27 milljarða skatttekjur af ferðamönnum 2013

 

Í nýlegri skýrslu Ferðamálastofu um fjármögnun uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða sem verkfræðistofan ALTA vann fyrir skömmu kemur í ljós að skatttekjur af ferðamönnum eru sagðar verða u.þ.b. 27 milljarðar króna á þessu ári auk alls kyns sérgjalda, vörugjalda og tolla. 

Á sama tíma sitja innviðir ferðaþjónustunnar á hakanum.  Viðhaldi ferðamannastaða hefur ekki verið sinnt sem skyldi, víða hefur skipulagi í sveitarfélögum ekki verið lokið og hamlar það uppbyggingu ferðamannastaða, ferðamannavegir fá lítið viðhald og lítið fé er til uppbyggingar á forsendum ferðaþjónustunnar.  

Ferðaþjónustan fær innan við 1% af öllu rannsóknarfé atvinnuveganna og svo mætti lengi telja.   Gríðarlegur vöxtur í ferðaþjónustunni, sem er ein stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins, kallar á vöxt nauðsynlegra innviða.   "Samtök ferðaþjónustunnar hvetja stjórnvöld til að skoða hversu lítið brot af þessari háu skattgreiðslu þarf til þess að koma þessum málum í lag", segir í fréttatilkynningu um málið.

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

 

 

27.08.2013 08:58

Stefnumótun á Menningar-Stað og fundur í Hjallastefnunni hinni nýju

Fundur í "Hjallastefnunni"  F.v.: Reynir Jóhannsson og Siggeir Ingólfsson og Gorbi fylgist með.

 

Stefnumótun á Menningar-Stað og fundur í Hjallastefnunni hinni nýju

 

Siggeir Ingólfsson var kominn á vaktina í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka,  Menningar-Stað við fyrsta hanagal á Bakkanum vel fyrir kl. 6 í morgun.

 

Nokkrir; gangandi, hjólandi og bílandi heimamenn,  litu við og var veruleg stefnumótun í gangi.

 

Þegar Reynir Jóhannsson, húsasmíðameistari, kom á svæðið var blásið til fundar í  „Hjallastefnunni“  en mikil stefnumótun virkra meðlima í Hjallastefnunni hefur verið í gangi síðustu vikurnar.

 

Upphaf fundarins var fært til myndar:

 

F.v.: Reynir Jóhannsson, Gorbi og Siggeir Ingólfsson.

 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

27.08.2013 06:58

Ísland allt árið - fundir um land allt

Í Upplýsingamiðstöðinni í Félagsheimilinu Stað,  Menningar-Stað á Eyrarbakka.

 

Ísland allt árið – fundir um land allt

 

Undirbúningur fyrir þriðja og síðasta veturinn í átakinu Ísland allt árið stendur nú yfir. Í september verða haldnir fundir um allt land þar sem markaðsáherslur veturinn 2013-2014 verða kynntar.

Á fundunum munu fulltrúar Íslandsstofu kynna markaðsaðgerðirnar en fulltrúar SAF á munu enn fremur fara yfir helstu hagsmunamál.

Öllum opnir

Skráning á fundina fer fram hjá viðkomandi markaðsstofu landshlutanna. Fundirnir eru öllum opnir sem hafa áhuga á erlendri markaðssetningu og hagsmunamálum ferðaþjónustunnar. .

Reykjavík 11. september kl. 15
Akureyri/Hof 12. septemberkl. 12.00-13.30
Ísafjörður/Hótel Ísafjörður 13. septemberkl. 12.00-13.30
Egilsstaðir/Hótel Hérað 16. september kl. 09.30-11.00
Höfn/ Hótel Höfn 16. september kl. 17.00-18.30
Kirkjubæjarklaustur/ Hótel Laki 17. september kl. 12.00-13.30
Skeiða- og Gnúpverjahreppur/Hótel Hekla 17. september kl. 17.00–18.30
Borgarnes/ Hótel Hamar 18. septemberkl. 10.00-11.30
Grundarfjörður/ Hótel Framnes 18. septemberkl. 14.00-15.30

Af:  http://www.ferdamalastofa.is/

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

26.08.2013 21:39

Frá framkvæmdum við útsýnispallinn hjá Menningar-Stað á Eyrarbakka

Finn M. Nilssen í smá kaffi- og kleinupásu í dag.

 

Frá framkvæmdum við útsýnispallinn hjá Menningar-Stað á Eyrarbakka

 

Framkvæmdir ganga vel við útsýnispallinn á sjóvarnargarðinum við Félagsheimilið Stað,  Menningar-Stað á Eyrarbakka.

 

Það er Siggeir Ingólfsson, staðarhaldari við Félagsheimilið Stað, sem stendur fyrir þessum miklu framkvæmdum með aðstoð góðra manna.

 

Hluti framkvæmdarinnar margþættu er að byggja skábraut upp á útsýnispallinn fyrir hreyfihamlaða og verður því auðvelt að fara upp á sjóvarnargarðinn í hjólastólum. Þessi þáttur er langt kominn; búið að bora niður allt dekkið og verið að vinna í handriði þar og á pallinn sjálfan.

 

Í morgun, 26. ágúst 2013, var Finn M. Nilssen á Eyrarbakka að hlaða grjótvegg úr hraungrjóti. Veggurin verður frá rampinum og vestur með bílaplaninu þangað sem gamli grjótveggurinn tekur við aftur.

 

Menningar-Staður færði til myndar:

 

 

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

26.08.2013 17:50

Fór á fyllerí með David Grohl í tíunda bekk

Nilfisk drengir.

NilFisk fyrir framan Laugardalshöllina þann 26. ágúst 2013.

F.v.: Sigurjón Dan Vilhjálmsson, Víðir BJörnsson, Jóhann Vignir Vilbergsson og Sveinn Ásgeir Jónsson. 

 

Fór á fyllerí með David Grohl í tíunda bekk

Viðtal:  http://www.visir.is/article/2013130829381

 

Frosti Logason skrifar:

Eins og margir vita er hljómsveitin Kiriyama Family aðalhljómsveitin á Stór-Eyrarbakka og Stokkseyrarsvæðinu. Það vita það hinsvegar ekki jafnmargir að sú hljómsveit var reist á grunni hins goðsagnakennda bílskúrsbands Nilfisk.


Nilfisk urðu frægir á einni nóttu þegar hljómsveitin Foo Fighters, með Dave Grohl í fararbroddi, birtist alveg óvænt í æfingarhúsnæði sveitarinnar í félagsheimilinu á Stokkseyri. Þetta var þann 25. ágúst árið 2003 fyrir sléttum 10 árum síðan, en strákarnir muna þetta eins og gerst hafi í gær.


Harmageddon spjallaði við Víði Björnsson, gítarleikara Nilfisk og Kiriyama Family, í þættinum í morgun. Viðtalið er í spilara hér að ofan.


Strákarnir voru í tíunda bekk á þessum tíma og fólk getur rétt ímyndað sér hverslags upplifun þetta hefur verið. Foo Fighters djömmuðu með þeim í æfingarhúsnæðinu og buðu þeim svo á Brennivíns fyllerí á eftir. Einum degi síðar stóðu svo Nilfisk drengir á sviðinu í Laugardalshöll fyrir framan sex þúsund manns. Fyrstu tónleikar hljómsveitarinnar voru upphitunargigg fyrir Foo Fighters sem er ein stærsta rokksveit samtímans.

Tveimur árum síðar komu Foo Fighters svo aftur í heimsókn á Stokkseyri og tóku þá með sér vini sína í Queens of the Stone Age.

 

„Ég mun aldrei gleyma þessu. Sérstaklega ekki hvað ég var vandræðalegur daginn eftir. Ég var nefnilega bara fimmtán ára og þoldi ekkert mikið af Brennivíni. Ég hafði verið að borða bláber með David Grohl, og síðan fór ég að æla þarna fyrir framan hann svona fjólubláu gubbi. Ég hef aldrei séð mann hlæja jafn mikið og hann hló að mér þarna. Honum fannst þetta snilld.“ sagði Viddi sem tók það samt fram í viðtalinu að hann vildi alls ekki að mamma sín vissi af þessu. 

 

 

Kiriyama Family í tónleikunum í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka í gær.

F.v.: Jóhann Vignir Vilbergsson, Víður Björnsson, Bassi Ólafsson, Björn Kristinsson, Karl Magnús Bjarnarson og Guðmundur Geir Jónsson.

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

26.08.2013 17:30

Merkir Íslendingar - Ingi T. Lárusson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Ingi T. Lárusson.

 

Merkir Íslendingar - Ingi T. Lárusson

 

Ingi T. Lárusson tónskáld fæddist á Seyðisfirði 26. ágúst 1892. Hann var sonur hjónanna Lárusar Tómassonar, skólastjóra, bókavarðar og sparisjóðsgjaldkera á Seyðisfirði, og k.h., Þórunnar H. Gísladóttur Wium.

Ingi kvæntist 1921 Kristinu Ágústu Blöndal frá Seyðisfirði en þau skildu árið 1935. Dóttir þeirra var Inga Lára, f. 1927, d. 2009.

Ingi stundaði nám við VÍ 1911-13, starfaði við Hinar sameinuðu íslensku verslanir á Vestdalseyri, var símstöðvarstjóri á Norðfirði og á Vopnafirði og starfaði við Kaupfélag Héraðsbúa á Reyðarfirði.

Ingi T. ólst upp við fjölbreytt tónlistarlíf á Seyðisfirði, lærði á píanó hjá Guðrúnu Blöndal og á fiðlu hjá Helga Valtýssyni og Theodóri Árnasyni. Hann var eitt ástsælasta tónskáld þjóðarinnar á síðustu öld og bjó yfir snilligáfu á því sviði.

Ingi gekk snemma í kór, var farinn að stjórna honum 15 ára og tók við stjórn kórsins af Kristjáni Kristjánssyni lækni árið 1914.

Öll sín frægustu lög, svo sem Í svanalíki, Ég bið að heilsa, Litla skáld á grænni grein og Til fánans, samdi hann sem barn og unglingur. Lagið Ó, blessuð vertu sumarsól, samdi hann sjö ára að aldri.

Ingi missti heilsuna á besta aldri, lést 24. mars 1946 og hvílir í kirkjugarðinum við Suðurgötu í Reykjavík.

Minnisvarði um Inga T., unninn af Sigurjóni Ólafssyni myndhöggvara frá Eyrarbakka, var afhjúpaður á Seyðisfirði 1976.

Minnisvarðinn vísar til þessara gullfallegu eftirmæla um Inga, eftir tónskáldið og ljóðsnillinginn Þorstein Valdimarsson:

 

Svanur ber undir bringudúni banasár.

Tærir berast úr tjarnarsefi tónar um fjöll.

Heiðin töfrast og hlustar öll.

 

Sumir kveðja og síðan ekki söguna meir,

aðrir með söng, er aldrei deyr.

 

Svanur ber undir bringudúni banasár.

Þetta er ævintýrið um Inga Lár.

 

.

 

.

 

Morgunblaðið mánudagurinn 26. ágúst 2013 - Merkir Íslendingar

.

Skráð af Menningar-Staður

25.08.2013 22:46

Fjöldi og frábært kvöld hjá Kiriyama Family

Kiriyama Family á Sviðinu

 

 

 

Fjöldi og frábært kvöld hjá Kiriyama Family

 

Kiriyma Family voru með tónleika í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka síðdegis í dag.

 

Fjöldi fólks og frábær stemmning.

 

 

Nokkrar myndir hér og fleiri síðar:

 

 

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

25.08.2013 07:17

Þegar Nilfisk kærði NilFisk

Hljómsveitin NilFisk að halda í tónleikaferð til Danmerkur árið 2006 og kvöddu Ólaf Helga Kjartansson við brottför.

F.v.: Víðir Björnsson, Jóhann Vignir Vilbergsson, Sigurjón Dan Vilhjálmsson, Sveinn Ásgeir Jónsson og Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi.

 

Þegar Nilfisk kærði NilFisk

 

Viðskiptablaðið 14. júlí 2006

 

Hljómsveitin NilFisk frá Stokkseyri, sem helst hefur getið sér það til frægðar að hafa verið uppgötvuð af Dave Grohl forsprakka Foo Fighters og hitaði í kjölfarið upp fyrir stórsveitina á tónleikum í Laugardagshöll í ágúst 2003, stendur í stórræðum þessa dagana.

Ryksuguframleiðandinn Nilfisk sem að hljómsveitin dregur nafn sitt af hefur gert athugasemdir við notkun hljómsveitarinnar á Nilfisk nafninu. Aðdragandi málsins er sá að hljómsveitin hélt tónleika í Kaupmannahöfn í vor og í tengslum við þá tónleika var ákveðið að senda ryksuguframleiðandanum danska eintak af plötu sveitarinnar sem kom út um síðustu jól af góðum hug.

Að sögn Jóhanns Vignis Vilbergssonar, eins af liðsmönnum sveitarinnar, var ákveðið að senda fyrirtækinu eintak þar sem samstarf við Nilfisk umboðið á Íslandi hafði alltaf verið gott. Hann segir að oft hafi hljómsveitin í samstarfi við umboðið gert samninga um auglýsingar og kynningu af ýmsu tagi, báðum aðilum til framdráttar.

Svarið við sendingunni lét ekki á sér standa, þrátt fyrir að móttökurnar hafi verið með öðrum hætti en liðsmenn sveitarinnar bjuggust við. Í pósti kom bréf frá lögfræðingi Nilfisk ryksuguframleiðandans þar sem gerðar voru athugasemdir við notkun sveitarinnar á nafninu og þess krafist að allur varningur merktur Nilfisk, svo sem bolir, geisladiskar og annað slíkt yrði gerður upptækur.

Einnig var þess krafist að vefléninu www.nilfisk.valnir.com, sem sveitin notar, yrði lokað ef hljómsveitin vildi forðast lagalegar aðgerðir að hálfu Nilfisk ryksuguframleiðandans. Lögfræðingur Nilfisk óskaði jafnframt eftir svarbréfi innan tveggja vikna þar sem fram kæmu ítarlegar upplýsingar um hljómsveitina, hvar hún hefði komið fram og hversu oft, hversu margar hljómplötur hefðu verið seldar, hverjir skipuðu sveitina og þar fram eftir götum.

Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Selfossi og sérlegur vinur sveitarinnar aðstoðaði NilFisk hljómsveitina við að skrifa lögfræðingnum svarbréf. Í samtali við Viðskiptablaðið vildi Ólafur Helgi sem minnst tala um málið en sagðist þó hafa aðstoðað hljómsveitina við að svara bréfinu. Þar hefðu verið lagðar fram þær upplýsingar sem beðið var um auk þess sem lögfræðingi Nilfisk ryksuguframleiðandans var tjáð að stafsetning á nafni sveitarinnar væri með öðru sniði en fyrirtækisins -- NilFisk væri stafað með stórum staf í miðju orði, en nafn ryksuguframleiðandans væri Nilfisk Advance.

Auk þess var í svarbréfinu greint frá því að haft hefði verið við samband við Nilfisk ryksuguframleiðandann á Íslandi og að hann hefði sagt að notkun sveitarinnar á nafninu hefði ekki gert fyrirtækinu neinn skaða, heldur þvert á móti hefði sala á Nilfisk ryksugum aukist eftir að hljómsveitin komst í sviðsljósið.

Að lokum er í svarbréfinu óskað eftir að hljómsveitin fái að nota nafnið áfram og að einungis sé um að ræða tiltölulega lítið þekkta hljómsveit frá litlu sjávarþorpi á Íslandi skipaða fjórum 17 og 18 ára drengjum sem séu í engri fjárhagslegri aðstöðu til að svara fyrir sig í réttarsal eða sækja rétt sinn til að halda í nafnið með neinum hætti.

Auk þess var það getið að hljómsveitin hefði eingöngu selt 230 hljómplötur á ferli sínum og haldið 83 tónleika sem oftast nær færu fram í litlum sjávarþorpum á Íslandi. Ólafur Helgi sagðist jafnframt telja það skyldu sína að hjálpa drengjunum þar sem um væri að ræða sannkallað Davíð gegn Golíat mál og að Stokkseyrarbandið mætti sín lítils gegn lagalegum aðgerðum alþjóðlegs stórfyrirtækis tæki það þá ákvörðun að ganga af hörku í málið.

Enn hefur ekkert svarbréf borist frá lögfræðingi Nilfisk í Danmörku annað en tilkynning um að svarið hafi borist og að samband verði haft við sveitina von bráðar. Að sögn Jóhanns Vignis Vilbergssonar bíða NilFisk-menn bjartsýnir eftir svarbréfi og vonast til að fá að nota nafnið áfram, en eru þó tilbúnir að skipta um nafn ef ryksuguframleiðandinn ætlar að aðhafast frekar í málinu. Jóhann Vignir sagði jafnframt að auðvitað væri það fúlt að þurfa að skipta um nafn og byrja þannig upp á nýtt, en hljómsveitin tæki því sem að höndum bæri með jafnaðargeði.

 

 

Hljómsveitin NilFisk í góðum gír á götu í Kaupmannahöfn árið 2006

 

Viðskiptablaðið 14. júlí 2006

 

 

Skaráð af Menningar-Staður

24.08.2013 06:54

Tíu ár liðin frá sögufrægum tónleikum

Hljómsveitin NilFisk ver á ferð og flugi allan sinn starfstíma 2003 - 2008. Þeir héldu tónleika um allt Ísland og fóru tónleikaferðir til Danmerkur. Hér eru þeir á Akureyrarflugvelli. F.v.: Víðir Björnsson, Sveinn ÁSgeir Jónsson, Jóhann Vignir Vilbergsson og Sigurjón Dan Vilhjálmsson.

 

Tíu ár liðin frá sögufrægum tónleikum

 

Á morgun, 25. ágúst, verða tíu ár liðin frá því bandaríska hljómsveitin Foo Fighters hitti hina íslensku NilFisk í samkomuhúsinu Gimli á Stokkseyri og tók með henni lagið en degi síðar héldu hljómsveitirnar tónleika í Laugardalshöll.

Þessa viðburðar verður minnst á morgun kl. 17 í tali, tónum og myndum á hátíðartónleikum hljómsveitarinnar Kiriyama Family í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka. Menningarráð Hrútavinafélagsins Örvars stendur fyrir samkomunni og samstarfsaðilar eru Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps hins forna og Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri, en liðsmenn NilFisk stunduðu nám í þeim skóla. NilFisk lék aftur og óvænt með Foo Fighters, á Draugabarnum á Stokkseyri hinn 4. júlí árið 2005 en Foo Fighters var þá hingað komin vegna tónleika sem hún hélt í Egilshöll tveimur dögum síðar.

Þykir þetta samstarf hljómsveitanna heyra til merkisviðburða í íslenskri poppsögu. Hljómsveitin Kiriyama Family spratt fram á sjónarsviðið árið 2008, reist á grunni NilFisk.

 

Á ljósmyndinni, sem tekin var á tónleikunum í Laugardalshöll, sést Jóhann í NilFisk kynna Foo Fighters til leiks.

Dave Grohl og Jóhann VIgnir Vilbergsson í Laugardalshöll 26. ágúst 2003. Ljósm.: Morgunblaðið/Sverrir

 

Morgunblaðið laugardagurinn 24. ágúst 2013.

 

Skráð af Menningar-Staður.

24.08.2013 06:31

Merkir Íslendingar - Árni Jónsson frá Múla

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Árni Jónsson.

 

Merkir Íslendingar - Árni Jónsson frá Múla

 

Árni Jónsson, alþingismaður frá Múla, fæddist á Reykjum í Reykjahverfi 24. ágúst 1891. Hann var af Reykjahlíðarætt og Skútustaðaætt, sonur Jóns Jónssonar, alþm. í Múla, og Valgerðar, dóttur Jóns Jónssonar, þjóðf.m. á Lundarbrekku.

Eiginkona Árna var Ragnheiður Jónasdóttir og eignuðust þau þrjár dætur og synina Jón Múla, tónskáld og útvarpsmann, og Jónas, alþm. og rithöfund. Eiginkona Jóns Múla var Ragnheiður Ásta Pétursdóttir sem á rætur á Eyrarbakka.

Árni lauk stúdentsprófi frá MR 1911, var við verslunarstörf í Hull á Englandi 1912-15 og náði þar góðum tökum á enskri tungu. Hann var verslunarmaður á Seyðisfirði 1916, verslunarstjóri á Vopnafirði 1917-24, forstjóri Brunabótafélags Íslands 1924-28, ritstjóri í Reykjavík 1928-30, ritstýrði og gaf síðan út Austfirðing á Seyðisfirði en gerðist starfsmaður Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda í Reykjavík 1933.

Árni var ritstjóri Varðar, stjórnmálaritstjóri Vísis til 1942, ritstjóri Þjóðólfs og síðan Íslands 1942-44. Hann stundaði síðan ritstörf í Reykjavík til æviloka. Þá sat hann í bæjarstjórn Reykjavíkur 1942-44 og var um tíma í útvarpsráði.

Árni var alþm. Borgaraflokksins eldri og Íhaldsflokksins 1923-27 og Sjálfstæðisflokksins 1937-42. Þá skildu leiðir með honum og sjálfstæðismönnum, einkum vegna herverndarsamningsins við Bandaríkin, sumarið 1941.

Þegar Þjóðviljaritstjórarnir Einar Olgeirsson, Sigfús Sigurhjartarson og Sigurður Guðmundsson sátu í haldi í Bretlandi var Árna og fleiri blaðamönnum boðið til Bretlands. Þar heimsótti Árni þá Þjóðviljamenn í fangelsið og talaði skörulega þeirra máli. Í sömu ferð hélt hann glimrandi ræðu í BBC sem mæltist vel fyrir, en bresku gestgjafarnir kölluðu hann „Personality number one“.

Árna var gleðimaður og hrókur alls fagnaðar í góðra vina hópi. Hann var heimsborgari, fyrirmannlegur á velli, ágætur söngmaður, flugmælskur, beittur penni og drengur góður.

Árni lést 2. apríl 1947.

 

Morgunblaðið laugardagurinn 24. ágúst 2013

 

 

Skráð af Menningar-Staður