Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Ágúst

09.08.2013 21:58

Ný söguskilti vígð á morgun, laugardaginn 10. ágúst 2013, á Eyrarbakka og Selfossi

 

 

Söguskiltin við Félagsheimilið Stað á Eyrarbakka. Ljósm.: Ingvar Magnússon.

 

 

 

Ný söguskilti vígð á morgun, laugardaginn 10. ágúst 2013,

á Eyrarbakka og Selfossi

 

Sveitarfélagið Árborg í samstarfi við Héraðsskjalasafn Árnesinga hafa gert ný söguskilti sem fara upp í mibæjargarðinn á Selfossi á móts við Ölfusárbrú sem og við Félagsheimilið Stað á Eyrarbakka.

Formleg opnun skiltanna verður á Selfossi kl.10:30 á morgun laugardaginn 10. ágúst og á Eyrarbakka kl.13:00 við Stað.

Áhugasamir eru hvattir til að mæta og kynna sér skiltinn en þau segja öll hluta af merkri sögu svæðisins.

Af: www.arborg.is

 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

09.08.2013 21:34

Gestir af Reykjanesi á Menningar-Stað á Eyrarbakka í gær, 8. ágúst 2013

Steingrímur Jónasson og Ásmundur Friðriksson.

 

Gestir af Reykjanesi á Menningar-Stað á Eyrarbakka í gær, 8. ágúst 2013

 

Meðal þeirra fjölmörgu gesta sem komu við í Félagsheimilinu Stað, Menningar-Stað á Eyrarbakka í gær, fimmtudaginn 8. ágúst, voru rúmlega 30 gestir af Suðurnesjum.  

Þetta var skemmtiferð vistmanna og starfsfólks Bjargarinnar, sem er Geðræktarstöð Suðurnesja, og var farið víða um  Suðurlandsundirlendi.

Skemmtiferðin var í boði Skötumessunnar í Garði sem haldin var nú í júlí til styrktar þessari stofnun. Farastjórar voru  Ásmundur Friðriksson og Theódór Guðbergsson skötumeistarar.

Hópurinn var boðinn í mat á Sólheimum í hádeginu. Þaðan var farið í ferðamannafjósið í Efsta Dal.

Komið við á Menningar-Stað á Eyrarbakka í kaffi og kleinur.

Kvöldmatur var borðaður á Svarta-Sauðnum í Þorlákshöfn.

Síðan ekið um Suðurstrandaveginn á Reykjanesið með Sævari Baldurssyni rútubílstjóra.

 

Myndaalbúm frá viðkomunni á Menningar-Stað er komið í albúm hér á síðunni.

Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/251196/

 

Nokkrar myndir hér:

F.h.: Siggeir Ingólfsson og Theódór Guðbergsson.

 

 

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

09.08.2013 06:39

Gengið um slóðir ljósmóður á Eyrarbakka

Heyannir við Húsið á Eyrarbakka.

 

Gengið um slóðir ljósmóður á Eyrarbakka

 

Ljósmóðirin Þórdís Símonardóttir hefur löngum vakið athygli margra enda saga hennar einkar merkileg.

Söguganga um slóðir hennar verður því farin frá Húsinu á Eyrarbakka, sem reist var árið 1765, næstkomandi laugardag, 10. ágúst 2013, klukkan 15. Lagt er upp með að hafa gönguna létta og skemmtilega en hún mun að öllum líkindum taka um klukkustund.

Það er sagnfræðingurinn Eyrún Ingadóttir, höfundur bókarinnar Ljósmóðurinnar, sögulegrar skáldsögu um Þórdísi Símonardóttur, sem mun rölta með föruneyti um Bakkann og segja frá húsum og fólki sem tengdist lífi ljósmóðurinnar. Svæðið er mettað af sögu en Húsið var til að mynda íbúðarhús kaupmanna í nær tvær aldir og eitt helsta menningarsetur landsins þann tíma.

Öllum er velkomnið að slást í för með henni og er aðgangur ókeypis.

 

Morgunblaðið föstudagurinn 9. ágúst 2013 

 

Eyrarbakkakirkja og séð að Húsinu.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

09.08.2013 06:17

9. ágúst 1851 - "Vér mótmælum allir"

Jón Sigurðsson.

 

9. ágúst 1851 - "Vér mótmælum allir"

 

Þegar fulltrúi konungs sleit Þjóðfundinum, sem staðið hafði í Reykjavík í rúman mánuð, reis Jón Sigurðsson upp og mótmælti því „í nafni konungs og þjóðarinnar“.

Þá sögðu flestir þingmenn í einu hljóði: „Vér mótmælum allir!“

Einni öld síðar var afhjúpuð minningartafla um fundinn í hátíðarsal Menntaskólans í Reykjavík, þar sem fundurinn var haldinn.

 

Morgunblaðið föstudagurinn 9. ágúst 2013 - Dagar Íslands - Jónas Ragnarsson.

 

Hrafnseyri við Arnarfjörð en þar var Jón Sigurðsson fæddur þann 17. júní 1811.

 

 

Skráð af menningar-Staður
 

08.08.2013 22:31

Aldamótahátíð á Eyrarbakka laugardaginn 10. ágúst 2013

F.v.: Margrét S. Kristinsdóttir, Rósa Marta Guðnadóttir, Vigdís Jónsdóttir, Sigríður Óskarsdóttir og Sigurlína Eiríksdóttir.

 

Aldamótahátíð á Eyrarbakka laugardaginn 10. ágúst  2013  

 

Dagskrá:

08:30 Flöggun

11:00 Skrúðganga fyrir menn, dýr, fornbíla og tæki

Lagt af stað frá Barnaskólanum á Eyrarbakka. Lúðrasveit Selfoss og Siggeir Ingólfsson skrúðgöngustjóri leiða hópinn að kjötkötlunum þar sem íbúar og fyrirtæki á Eyrarbakka bjóða upp á ekta íslenska kjötsúpu fyrir alla þá sem mæta með bollann sinn eða skálina.

Slökkvibíllinn verður á ferðinni. Bændur af Bakkanum koma dýrunum fyrir á Kaupmannstúninu. Söluborð, skottmarkaðir og markaðstorg um allt þorp.

Fornbílaklúbbur Íslands og Bifreiðaklúbbur Suðurlands bjóða lekkerum dömum og hattklæddum heldri mönnum á rúntinn. Heyvagninn verður á ferðinni og býður salibunu í mjúkri töðunni. Bakkablesa ber okkar um með vagninn sinn.

Byggðasafnið býður uppá aldamótaafslátt.

Rauða húsið verður með aldamótatilboð á mat og drykk.

11:30 Setning

Sr. Sveinn Valgeirsson sóknarprestur blessar lýðinn, kynnir dagskrána og býður fólki að gjöra vo vel.

13:00 Pútnahúsið opnar í Gónhól

Félag áhugafólks um haughænur býður ykkur velkomin að sjá allt það fegursta í hænsfuglaheiminum. Afhentir verða kjörseðlar fyrir fegurðarsamkeppni hænsnfugla sem fram fer síðdegis.

13:00–18:00 Hallur Karl Hinriksson myndlistarmaður með opið hús á Litlu-Háeyri

www.facebook.com/hallurkarl - 892 1976.

14:00 Aldamótaleikar

Aldamótaleikar, íþróttakeppni í anda aldamótanna hefst á kaupmannstúninu við Húsið.

15:00 Söguganga um slóðir Þórdísar ljósmóður.

Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur röltir um Bakkann og segir frá húsum og fólkinu sem tengdist lífi Þórdísar Símonardóttur. Gangan hefst við Húsið.

16:00 Kappsláttur á Miðmundakotstúninu

Keppendur skrái sig í síma 898 4240 og mæti minnst 30 mínútum fyrr með amboð. Brýni er á staðnum og kaupakonur raka ljá. Fimasti sláttumaðurinn og knáasta kaupakonan valin.

Bundin verður sáta.

Getraun í gangi: Hvað heita handföngin á orfinu?

Vegleg verðlaun frá Gallerí Regínu.

Engjakaffi í boði Másbakarís í Þorlákshöfn og Kvenfélags Eyrarbakka.

17:00–18:00 Bakkaspjall á palli

Gestrisnir Eyrbekkingar bjóða í pallaspjall. Hallur Karl Hinriksson myndlistarmaður. Sviðaveisla hjá Helgu og Arnari á Nesbrú 4. Regína með pönnukökur á pallinum í Ásheimum. (Gallerí Regína).

17:00 Pútnahúsið blæs til brúðkaups á Gónhól

Gefin verða saman í hjónaband sigurvegarar í fegurðarsamkeppni hænsfugla sem fram fer á sama stað. Hreppstjórinn á Eyrarbakka gefur þau saman í borgaralegt hjónaband.

18:00 Brúðkaupsveislan herleg hefst á Stað

Opið grill fyrir alla þar sem grillaður verður hestur, kanínur og fleira góðgæti.

22:00–02:00 Aldamótadansleikur í Rauða Húsinu. Hljómsveitin Síðasti séns leikur ljúfar ballöður fram eftir nóttu.

 

Ólafur Bragason í Kaupmannahöfn á Aldamótahátíð á Eyrarbakka 1999.

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

08.08.2013 18:30

Stefnumótun á Menningar-Stað

F.v.: Þórður Árnason og Siggeir Ingólfsson við stefnumótun. Hugsmíðum lýst með handahreyfingum

 

Stefnumótun á Menningar-Stað

 

Framkvæmdir við útsýnispallinn á sjóvarnargarðinum við Félagsheimilið Stað, Menningar-Stað ganga mjög vel.

 

Vinna við undirstöður skábrautarinnar upp á útsýnispallinn er langt komin og fljótlega verður hægt að klæða brautina og milli-pallana tvo sem þarna verða.

Þórður Árnason, húsasmíðameistari, kom á svæðið í morgun og tók þátt í stefnumótun varðandi tröppurnar sem verða byggðar upp á útsýnispallinn Þær koma í stað þeirra sem nú eru upp á sjóvarnargarðinn og eru komnar á tíma.

 

Vaxnadi skilnigur er við þetta mikilvæga verkefni sem drifið er áfram af Siggeiri Ingólfssyni, staðarhaldara á Stað, með stuðningi og aðstoð góðra manna.

 

F.v.: Þórður Árnason og Siggeir Ingólfsson sem lýsir í handahreyfingum hvað höfuðtólið er að vinna - stefnumótun.

 

F.v.: Þórður Árnason, Siggeir Ingólfsson, Haukur Jónsson og Jóhann Jóhannsson.

 

Skráð af Menningar-Staður

08.08.2013 13:26

Vitringahittingur í Vesturbúðinni á Eyrarbakka

 

Vitringahittingur í Vesturbúðinni á Eyrarbakka

 

Vitringar komu saman til morgunspjalls samkvæmt venju i Vesturbúðinni á Eyrarbakka í morgun.

 

Menningar-Staður leit við og færði eitt augnablikið til myndar.

 

Á myndinni.
F.v.: Siggeir Ingólfsson, Finnur Kristjánsson, Steinunn Birna Guðjónsdóttir, Arnþór Björgvinsson og Jón Vigfússon.


Skráð af Menningar-Staður

08.08.2013 08:02

Kristján Runólfsson yrkir um Geira á Bakkanum

Siggeir Ingólfsson - Geiri á Bakkanum

 

Skagfirðingurinn og Eyrbekkingurinn Kristján Runólfsson í Hveragerði

orti á Eyrarbakka á dögunum:

 

Hér er eins og brotið blað,

býsna margt er Geira að þakka,

gefur mönnum stund og Stað,

að stoppa við á Eyrarbakka.

 

 

 
Kristján Runólfsson Vísan er betri svona.

Hér er eins og brotið blað,
býsna margt er Geira að þakka,
gefur mönnum stund og Stað,
að staldra við á Eyrarbakka.

 

Kristján Runólfsson skáld í Hveragerði.

 

Skráð af Menningar-Staður

 

08.08.2013 07:06

Sumar á Selfossi - Dagskrá fimmtudagurinn 8. ágúst 2013

Hljósveitin RetRoBot. Meðal meðlima sveitarinnar er Guðmundur Einar Vilbergsson á Eyrarbakka. Hann er annar frá hægri.

 

 

Sumar á Selfossi - Dagskrá fimmtudagurinn 8. ágúst 2013

 

Fjörugur fimmtudagur 8. ágúst

10:00 - 00:00 Kaffi krús

Frábær matseðill og lifandi tónlist á pallinum ef veður leyfir.

10:00 - 17:30 Ljósmyndasamkeppni

Samtök verslunar og þjónustu í Árborg standa fyrir ljósmyndasamkeppni þar sem þemað er “Sumar á Selfossi”. Sendið myndir til prentunar á filmverk@filmverk.is með “Ljósmyndasamkeppni” í subject. Hægt er að kjósa sína uppáhaldsmynd við Filmverk í Miðgarði.

13:00-16:00 Fischersetrið

Fischersetrið í Gamla bankanum að Austurvegi 21 opið. Fróðleg sýning um stórmeistarann Bobby Fischer. Aðgangseyrir 500 krónur en frítt inn fyrir 12 ára og yngri.

19:15 - 21:00 Selfoss - FH

Stórleikur í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu þar sem Selfyssingar taka á móti FH á Selfossvelli. Þetta verður spennandi . Áfram Selfoss!

20:00 – 23:00 Gömlu dansarnir

Dansleikur með danshljómsveitinni Klassik í betri stofunni á veitingastaðnum Eldhúsið við Tryggvagötu 40. Þema kvöldsins er gömludansarnir ásamt vinsælum lögum fyrri tíma. Klassik er mörgum af góðu kunn en hún spilar fyrir félag eldiborgara í Reykjavík og hina ýmsu dansklúbba. Hljómsveitina skipa Smári Eggertsson og Haukur Ingibergsson . Húsið opnar kl. 19:30 og ballið byrjar kl. 20:00. Dansað verður til 21:30 en þá verður boðið uppá kaffi og kökur. Aðgangseyrir er 1.499 kr á mann.

20:30 – 23:00 DJ Devil í Zelsíuz

DJ Devil þeytir skífum á balli fyrir 8.-10. bekk í félagsmiðstöðinni Zelsíuz. Húsið opnar kl. 20:30 og það kostar 200 krónur inn. Allir að mæta í ztuði!

21:00 Tryggvaskáli

Harmónikkuball í Tryggvaskála. Færustu harmónikkuspilarar Suðurlands koma saman og slá upp dansleik. Láttu þig ekki vanta á einn skemmtilegasta viðburð hátíðarinnar.

20:00 - 23:00 Suðurlandsskjálfti 2013

Sonus viðburðir í samvinnu við Vodafone og Sumar á Selfossi standa fyrir underground tónleikum í stóra tjaldinu. Margar af efnilegustu hljómsveitum landsins munu spila á tónleikunum í bæjargarðinum. Hljómsveitirnar The Vintage Caravan, Dimma, Grísalappalísa, RetRoBot, Glundroði og Vídalín munu trylla lýðinn. Í fyrra mættu 300 manns á svakalega tónleika. Tónleikarnir hefjast kl 20:00. Húsið opnar kl 19:00. Ókeypis aðgangur og veitingasala á staðnum. Láttu þig ekki vanta!

22:00 Pöbbarölt. Góð stemmning á veitingastöðum bæjarins. Happy hour kl 21-23 á 800BAR Café-Bistro. Lifandi tónlist á Fróni. Kaffi Krús í góðum gír.

 

Skráð af Menningar-Staður

08.08.2013 06:28

Merkir Íslendingar - Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.

 

Merkir Íslendingar - Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir

 

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir fæddist á Efri-Steinsmýri í Meðallandi 8. ágúst 1921. Foreldrar hennar voru Bjarnfreður Ingimundarson, bóndi á Efri-Steinsmýri, og k.h., Ingibjörg Sigurbergsdóttir húsfreyja.

Bjarnfreður var sonur Ingimundar Árnasonar og Sigurveigar Vigfúsdóttur. Móðursystir Aðalheiðar var Gíslrún, móðir Sigurbjörns Einarssonar biskups.

Meðal 19 systkina Aðalheiðar var Magnús Bjarnfreðsson, fréttamaður og dagskrárgerðarmaður.

Fyrri maður Aðalheiðar var Anton Júlíus Ólafsson, sjómaður og smiður í Vestmannaeyjum og eignuðust þau fimm börn. Seinni maður hennar var Guðsteinn Þorsteinsson, verkamaður í Reykjavík

Aðalheiður ólst upp við fátækt og naut barnaskólafræðslu í Meðallandi í einungis fjögur ár. Hún var vinnukona í Reykjavík, fiskvinnslukona í Vestmannaeyjum á stríðsárunum, vann á sjúkrahúsinu í Eyjum 1944-49, var verkakona í Reykjavík 1958-59, bréfberi í Reykjavík 1960-63, húsfreyja í Köldukinn í Holtum 1963-74 og verkakona í Reykjavík 1974-76.

Lífið var ekki dans á rósum fyrir Aðalheiði. Hún missti barn úr berklum, varð sjálf berklaveik um nokkurra ára skeið og missti hús sitt í bruna. Engu að síður varð hún skeleggur málsvari verkakvenna og barðist fyrir ýmsum réttindamálum. Hún var formaður Verkakvennafélagsins Snótar í Vestmannaeyjum 1945-49, formaður Starfsmannafélagsins Sóknar 1976-87, sat í stjórn ASÍ og var alþingismaður Reykvíkinga fyrir Borgaraflokkinn 1987-91. Þá átti hún sæti í ýmsum nefndum og sat í stjórn atvinnuleysistrygginga og í bankaráði Búnaðarbankans.

Eftir Aðalheiði er skáldsagan Myndir úr raunveruleikanum, 1979, og ævisaga hennar,Lífssaga baráttukonu, var skráð af Ingu Huld Hákonardóttur 1985. Aðalheiður var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1.1. 1980.

Aðalheiður lést 26. apríl 1994.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 8. ágúst 2013 - Merkir Íslendingar.

 

Skráð af Menningar-Staður.