Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Október

01.10.2013 05:37

Merkir Íslendingar - Þórarinn Olgeirsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Þórarinn Olgeirsson

 

Merkir Íslendingar - Þórarinn Olgeirsson

 

Þórarinn Olgeirsson útgerðarmaður fæddist á Valdastöðum í Árnessýslu 1. október 1883. Foreldrar hans voru þau Olgeir Þorsteinsson og k.h., Steinunn Einarsdóttir, en þau bjuggu á Valdastöðum.

Með fyrri eiginkonu sinni, Nancy Little, dóttur Joes Little skipstjóra, átti Þórarinn þrjú börn og eitt með seinni eiginkonu sinni, Guðrúnu Zoëga.

Þórarinn hóf ungur sjómennsku á skútuöldinni. Hann var ráðinn háseti á skútuna Agnesi frá Reykjavik árið 1899 og var síðan á ýmsum bátum og skútum víða um land.

Árið 1909 útskrifaöist Þórarinn úr Stýrimannaskólanum í Reykjavík og var þá orðinn skipstjóri hjá Eldeyjar-Hjalta. Hann varð síðan einn þekktasti skipstjóri og útgerðarmaður Íslendinga á árum fyrstu botnvörpunganna og fram að seinni heimsstyrjöld.

Þórarinn var fyrst skipstjóri á Marz frá Reykjavík, síðan á Great Admiral frá Grimsby, þá á Jarlinum frá Ísafirði. Hann var skipstjóri á eigin togurum, Belgaum frá Reykjavík 1918-25 og Júpiter í þrjú ár, þá með Vensus í sex ár og loks var hann með King Sol, einn stærsta togara Breta fyrir seinni heimsstyrjöldina, frá 1936-39, er skipið var þjóðnýtt til hernaraðgerðar.

Þórarinn var lengst af búsettur í Bretlandi og var umboðsmaður íslenskra skipstjóra og útgerðarmanna þar um árabil. Auk þess kom Þórarinn að gerð nýsköpunartogaranna. Hann varð vararæðismaður Íslands í Bretlandi árið 1948 og ræðismaður árið 1954.

Þórarinn þótti alla tíð farsæll og dugandi skipstjóri, mikill aflamaður og dugnaðarforkur við öll sín störf fram á elliár. Hann leiðbeindi oft öðrum á góð aflamið og bjargaði eitt sinn á þriðja tug sjómanna á þremur áraskipum í aftakaveðri á Breiðafirði í ársbyrjun 1925.

Þórarinn var sæmdur riddarakrossi árið 1948 og stórriddarakrossi árið 1953 enda störf hans í þágu íslensks sjávarútvegs ómetanleg.

Þórarinn lést 5. ágúst 1969.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 1. október 2013 - Merkir Íslendingar

 

File:Togarinn Marz RE 114 liggur við bryggju, 1915 - 1916.jpg

Togarinn Marz við bryggju í Reykjavík árið 1915

 

Skráð af Menningar-Staður

01.10.2013 05:22

Fleiri eftirlitsmyndavélar í Árborg

Eyrarbakki.

 

Fleiri eftirlitsmyndavélar í Árborg

 

Bæjarráð Árborgar samþykkti í síðustu viku að vísa tillögu um að setja upp eftirlitsmyndavélar við innkomuleiðir allra þéttbýliskjarna í sveitarfélaginu til fjárhagsáætlunargerðar fyrir næsta ár.

 

Í byrjun þessa árs samþykkti sveitarfélagið að setja upp fjórar slíkar myndavélar á Selfossi og er ein þeirra þegar komin upp við Ölfusárbrúna. Þrjár aðrar vélar verða settar upp í haust við innkomuleiðir í bæinn.

 

Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, lagði tillöguna fram en hann segir að hún sé rökrétt framhald af því að setja eftirlitsvélarnar upp á Selfossi.

 

Eftir eigi að útfæra hvar vélunum yrði komið fyrir en hugmyndin sé að þær verði við þéttbýliskjarnana Eyrarbakka, Stokkseyri og Tjarnabyggð. Það verði væntanlega gert í samráði við lögregluna.

 

Kostnaður við að setja upp vélarnar hefur ekki enn verið áætlaður en Eggert segir að það verði gert í framhaldinu. Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, segir að mikil umræða hafi verið um skort á löggæslu.

 

Ekki njósnir um íbúana

 

»Þetta er okkar viðleitni til þess að styrkja hana með nútímatækni. Vélarnar hafa líka fælingarmátt. Við teljum að menn hegði sér ósjálfrátt betur þegar svona vélar eru settar upp, bæði varðandi akstur og umgengni,« segir Eyþór.

 

Efni úr eftirlitsvélinni við Ölfusárbrú hefur ekki verið vistað hingað til og því hefur það ekki nýst lögreglu við rannsókn sakamála þó að hún hafi aðgang að vélinni, að sögn Eyþórs. Byrjað verði á því nú í haust þegar hinar vélarnar þrjár verða teknar í notkun.

 

Hann leggur áherslu á að vélunum sé ekki ætlað að hafa eftirlit með íbúum sveitarfélagsins. »Vélarnar beinast ekki að heimilum fólks heldur aðeins að umferðaræðum. Þetta er þessi fína lína sem þarf að passa, að gæta öryggis en einnig friðhelgi heimilisins og vera ekki að njósna um fólk,« segir Eyþór.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 1. október 2013

 

Eyrarbakki fyrir allnokkrum árum.

 

Eggert Valur Guðmundsson. 

Eyþór Arnalds.

 

Skráð af Menningar-Staður