Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Október

17.10.2013 17:52

Húsið og Eyrarbakki

Guðmundur Ármann Pétursson

Guðmundur Ármann Pétursson.

 

Húsið og Eyrarbakki

 

Eftir rétt um eitt ár verður Húsið á Eyrarbakka 250 ára gamalt. Við Íslendingar eigum mjög fá hús sem eru svo gömul, en Húsið á Eyrarbakka er í senn eitt elsta og merkilegasta húsið á Íslandi.

Húsið var byggt árið 1765 og var heimili faktora og verslunarstjóra Eyrarbakkaverslunarinnar fram á 20. öldina. Eyrarbakki var miðstöð verslunar og menningar á Suðurlandi. Íbúar Hússins voru þeir sem mest létu til sín taka í menntun, menningarlífi og verslun.

Verslunarhús dönsku kaupmannanna voru rétt vestan við Húsið og voru ávallt kölluð Vesturbúð. Þessi miklu og fallegu hús stóðu þar sem íslenskir bændur fóru með vörur sínar og sóttu sér aðföng í rétt um 200 ár. Sú ömurlega ákvörðun var tekin árið 1950 að verslunarhúsin yrðu rifin. Við þetta voru Eyrbekkingar mjög ósáttir, mótmæltu og kröfðust þess að húsin yrðu ekki rifin. Við þessa sorglegu ákvörðun var staðið og Vesturbúðin var tekin niður.

Eyrbekkingar hafa á síðustu árum gert sér æ betur grein fyrir sinni merku sögu og fallegu húsum. Stöðugt fleiri hús eru endurbyggð og færð til síns upprunalega horfs. Byggingarstíll gömlu húsanna er einstakur og þó svo meira beri á fallegum timburhúsum þá er mörg af elstu steinsteyptu húsum Íslendinga að finna á Eyrarbakka.

Götumyndin á Eyrarbakka er einstök og var mjög ánægjulegt að sjá þegar sveitarfélagið hóf að laga gangstéttir og lýsingu með þeim hætti sem hentar vel hinni gömlu og fallegu götumynd.

Frystihúsið er orðið að menningarmiðstöðinni Gónhóli. Ungt fólk stendur reglulega fyrir tónleikum heima hjá sér og býður heim. Laugabúð hefur verið endurgerð og félagsheimilið Staður býður fólk velkomið. Miklagarði var bjargað og þar er í dag einstaklega gott veitingahús, Rauða húsið. Jónsmessuhátíð og aldamótahátíð sameina Eyrbekkinga og gesti.

Byggðasafn Árnesinga er í Húsinu og Assistentahúsinu. Sjóminjasafnið er með áraskipið Farsæl og fjölda merkilegra muna sem tengjast sjósókn. Byggðasafnið eflist stöðugt og fleiri munir bætast við.

Álíka margir ferðamenn sækja Eyrarbakka heim og fara til Vestmannaeyja. Það er fyrst og fremst að þakka Húsinu og þeirri alúð sem Eyrbekkingar hafa sjálfir sett í uppbyggingu á þorpinu sínu.

Það á að sýna stórhug árið 2015 þegar Húsið á Eyrarbakka verður 250 ára gamalt. Því verður mestur sómi sýndur ef frá því verður gengið að Vesturbúðin verði endurbyggð.

Þetta er verkefni sem á að vera samstarfsverkefni Íslendinga og Dana. Segja þarf sögu dönsku einokunarverslunarinnar og sögu Íslendinganna sem áttu ekki val um annað. Það er hvergi jafn viðeigandi og á Eyrarbakka að þessi saga verði sögð.

Bæjarfulltrúar Árborgar, sveitarstjórnarmenn, þingmenn en fyrst og fremst Eyrbekkingar þurfa að standa saman að þessari framkvæmd og vinna henni brautargengi.

 

GUÐMUNDUR ÁRMANN PÉTURSSON

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 17. október 2013

 

Húsið á Eyrarbakka.

 

Skráð af Menningar-Staður

17.10.2013 12:43

Hvað varð til þess að Elfar Guðni byrjaði að mála myndir

Elfar Guðni Þórðarson með nokkrar Önundarfjarðarmyndir frá fyrri ferðum vestur.

Elfar Guðni og Helga Jónasdóttir eiginkona hans dvelja þessa dagana vestur að Sólbakka á Flateyri.

 

Hvað varð til þess að Elfar Guðni byrjaði að mála myndir?

 

Elfar Guðni svarar:

Hvað varð til þess að ég byrjaði að mála myndir ? 

Það er nú saga að segja frá því.  Kannski var þetta undirliggjandi, ég bara gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en upp úr 1972.  Þá kom hann Steingrímur í Roðgúl á Stokkseyri. 

En áður en ég segi frá Steingrími í Roðgúl þá verð ég að minnast á hann Gunnar Gestsson í Sandvík á Stokkseyri.  Ég kenni hann við Sandvík því þar átti hann heima í mörg ár.  Þangað fór maður að láta klippa sig, Gunnar var klippari góður og gríðarlega flinkur málari og málaði mjög fallegar myndir.  Maður fékk að berja þær augum þegar maður fór að láta klippa sig.  Þá sýndi Gunnar mér það sem hann var að mála í það og það skiptið.  Alltaf fundust mér myndirnar vera fallegar og maður skildi ekki alveg hvernig það væri hægt að gera svona myndir.  Kannski langaði mig að prófa en lagði ekki í það, því að svona myndir gæti maður aldrei málað.  Samt man ég eftir að hafa prófað að mála með vatnslitum en það var mjög lítið og ræfilslegt.  Ég man líka eftir því ef maður kafar djúpt í hugann að ég gerði myndir úr trjáberki þar hreyfst ég að frænda mínum honum Arthúri Ólafssyni eða Grími myndlistarmanni eins og hann kallaði sig, en hann bjó í Svíþjóð í mörg ár.  Hefði ég gjarnan viljað kynnast honum meira en hann lést fyrir nokkrum árum.  Það var til lítil mynd eftir Arthús á mínu heimili gerð úr tré og vatnslitum og notað silfurberg með.  Ég held að áhrifin frá þessari mynd hafi komið fram í myndunum sem ég gerði úr trjáberkinum og eitthvað held ég að ég hafi málað með vatnslitum líka en allt var þetta frekar máttlaust og ég hélt bara áfram á sjónum. 

En aftur að Steingrími St. Th. Sigurðssyni í Roðgúl, hann kom eins og stormsveipur inn í frekar rólegt samfélag sem Stokkseyri var.  Ég var á þessum tíma að vinna við smíðar í frystihúsinu, og einn daginn sá ég þennan nýja mann í Roðgúl vera að mála úti og það gekk mikið á.  Ég var nú frekar feiminn og heimóttarlegur en eitthvað gaf ég mig að honum því mig langaði að sjá hvað hann væri að gera, og hvernig myndir hann málaði.  Það er skemmst frá því að segja að þetta fannst mér eitthvað skrítið, mikið af litum út um allt og allt var þetta gert með tilþrifum.  Kannski fannst mér þetta ekki nógu gott eða flott og akkúrat á þessum tímapunkti ákvað ég að prófa að mála mynd.  Ég fór til Steingríms og spurði hann hvaða liti hann notaði og sagðist hann nota acryl liti sem væri hægt að blanda með vatni.  Ég bögglaðist til að skrifa heitið á litunum á lokið á smíðatösku sem ég var með ACRYL.  Og svo fór ég til Reykjavíkur og keypti liti og upp frá því var ekki aftur snúið. 

Áður en ég segi meira frá því þá verður það að koma skýrt fram að á þessum tímapunkti skynjaði ég ekki þetta litaflæði og tilfinninguna sem Steingrímur lagði í sínar myndir.  Þegar ég fór að átta mig á þessu öllu saman þá sá ég að þarna voru margar stórkostlegar myndir sem voru gerðar með tilþrifum og tilfinningu og voru myndirnar svolítið eins og Steingrímur sjálfur miklar tilfinningar og kraftur.

 

Fulltrúar úr Öldungaráði Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurland mættu fyrir ári, þann 17. okt.  2012 þegar Elfar Guðni varð 69 ára, til hans á vinnustofuna og sýningarsalinn í Svartakletti og afhentu honum formlega fánastöng sem Tæknideild Hrútavinafélagsins voru búnir að koma fyrir í eystri garðinum við Sjólyst. Hrútavinafélagið er eins og kunnugt er skilgetið félagslegt afkvæmi félagsstarfs Önfirðinga og Vestfirðinga á Suðurlandi og fer hróður þess víða.

Eftir kaffi og með því var haldið að Sjólyst og fáni af stærstu gerð var dreginn að húni á hinni veglegu fánastöng sem er gjöf frá Hrútavinafélaginu Örvari hvar Elfar Guðni hefur verið virkur félagi alla tíð.

 

Lundin hans er prúð og pen,

pennslum otar hljóður.

Liggur í honum listagen,

lífsins málar gróður.

 

Kristján Runólfsson

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

17.10.2013 10:45

Menningarkvöld um KÁ smiðjurnar

Guðni Ágústsson og hrúturinn Gorbasjev

sem hann átti sem lamb á Brúnastöðum.

 

Menningarkvöld um KÁ smiðjurnar

 

Þriðji menningarviðburður íþrótta- og menningarnefndar verður í kvöld fimmtudaginn 17. október kl. 20:00 í Hótel Selfoss.

 

Saga KÁ smiðjanna eða Verkstæðis KÁ rifjuð upp í máli og myndum.

 

Guðni Ágústsson mun stýra kvöldinu, en auk sögulegrar yfirverðar bræðranna Þorsteins Tryggva og Más Mássona verða tónlistaratriði og sýnd myndbönd með viðtölum við gamla starfsmenn smiðjanna sem og myndir frá tímum smiðjanna.

 

Húsið opnar kl. 19:30

 

Frítt er inn á viðburðinn í boði Sveitarfélagsins Árborgar.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

17.10.2013 05:44

Elfar Guðni Þórðarson listmámlari á Stokkseyri er 70 ára í dag 17. okt. 2013

 

Elfar Guðni Þórðarson með listaverk úr hvalbeini frá hvalveiðistöðinni á Sólbakka á Flateyri.

Elfar Guðni og Helga eiginkona hans dvelja nú í Mannlífs- og menningarsetri Önfirðinga á Sólbakka.

.

Elfar Guðni og fjallið Þorfinnur handan Flateyrar.

 

Elfar Guðni Þórðarson listmálari á Stokkseyri er 70 ára í dag 17. okt. 2013

 

Elfar Guðni hélt sína fyrstu málverkasýningu í Félagsheimilinu Gimli á Stokkseyri um hvítasunnu árið 1976 en hann sýndi þar árlega allt til í byrjunar þessar aldar.

Þá kom hann sér upp vinnustofu og glæsilegum sýningarsal í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri og nefnir Svarta-klett. Elfar Guðni hefur verið með sýningar þar nokkrum sinnum á ári hverju.

Elfar Guðni og Hega eiginkona hans dvelja nú vestur á Flateyri í Mannlífs- og menningarsetri Önfirðinga að Sólbakka. Þetta er í fimmta sinn sem þau dvelja þar enda segir Elfar Guðni að krafturinn í önfirskri og vestfirskri náttúru vera gríðarlegan.

 

Elfar Guðni í gömlu vinnustofu sinni í Götuhúsum sem hann setti upp í sýningarsalnum í Svarta kletti.

 

Skráð af Menningar-Staður

 

16.10.2013 23:18

Guðni fram á ritvöllinn

F.v.: Margrét Hauksdóttir, Björn Ingi Bjarnason og Guðni Ágústsson í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka þann 7. júlí 2013.

 

Guðni fram á ritvöllinn

 

Fyrir nokkrum árum skrifaði Sigmundur Ernir Rúnarsson rómaða ævisögu Guðna Ágústssonar, fyrrum Framsóknarforingja. Nú skundar Guðni sjálfur í fyrsta sinn fram á völlinn með bók; Guðni – léttur í lund. Auðvelt er að ímynda sér að þar fari ein af söluhæstu bókum komandi jóla, enda Guðni með afbrigðum vinsæll tækifærisræðumaður og hefur um árabil skemmt í veislum um land allt.

Í bókinni segir Guðni með sínum kjarnyrta hætti sögur af forvitnilegu fólki sem hann hefur mætt á lífsleiðinni – og sjálfum sér. Í samtali við Menningarpressuna segist Guðni hafa safnað sögunum víða.

,,Ýmsir sendu mér eftirminnilegar sögur og safnaðist mikið magn í sarpinn við bókarskrifin," segir Guðni. ,,Þetta eru skemmtilegar sögur, ekki settar fram til að lítillækka neinn eða meiða. Engin þeirra er með þeim hætti. Maður er manns gaman og hér set ég fram sögur af því sem ég hef skemmtilegast heyrt og lifað í gegnum ævina," bætir Guðni við þar sem ritari hitti hann glaðbeittan í hesthúsahverfinu í Fjárborgum í Reykjavík.

Samkvæmt upplýsingum frá Bjarti, útgáfu Guðna kennir í bókinni margra grasa; hér stíga fram á sviðið óþekktir bændur úr Flóanum jafnt semþjóðkunnir stjórnmálamenn af öllum stærðum og gerðum. Í bókinni eru sögur afkynlegum kvistum og vammlausum embættismönnum, skagfirskum indíána, mögnuðum draugagangi, flótta út um þakglugga, manndrápsferð til Kína, afdrifaríku fallhlífarstökki og eftirminnilegar vísur – svo eitthvað sé nefnt. Þá segja ýmsir þjóðþekktir menn litríkar sögur af Guðna.

 

Hér má sjá fólk hlæja undir ræðu Guðna Ágústssonar á 100 ár afmælishátið Björns Inga Bjarnasonar og Hrútavinafélagsins Örvar í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka þann 7. júlí 2013.

.

.

.

.

.

.

 

Af www.menningarpressan.is

 

Sklráð af Menningar-Staður

16.10.2013 20:05

Sögur af Bakkanum á Stað á Eyrarbakka

 

Sögur af Bakkanum á Stað á Eyrarbakka

Menningarmánuðurinn október 2013

20. október kl. 15:00

Dagskrá:

kl. 15:00 Vígsla skábrautarinnar og útsýnispallsins á sjóvarnargarðinum við Félagsheimilið Stað. Siggeir Ingólfsson býður alla velkomna og ávarpar.

Guðlaug Jónsdóttir sem er bundin við hjólastól og er íbúi á Eyrarbakka klippir á borðann og séra Sveinn Valgeirsson blessar pallinn. 

Kl. 15:20 Kaffiveitingar hefjast í boði Sveitarfélagsins Árborgar og hljómsveit hússins spilar í salnum.

Kl. 15:35 Dagskrá hefst á sviði

Siggeir Ingólfsson,(( Geiri á Bakkanum)) kynnir dagskrá


1. Kjartan Björnsson, formaður ÍMÁ (5-10 mín)
2. Óskar Magnússon, fyrrv. skólastjóri BES (10 mín)
3. Kristján Runólfsson, uppalinn Eyrbekkingur (10 mín)
4. Sverrir Björnsson fulltrúi yngri kynslóðarinnar (10 mín
5. Ásmundur Friðriksson, alþingsimaður (5-10 mín)
6. Kirkjukórinn með tvö lög (10 mín)


Hljómsveit hússins, spilar í upphafi og yfir kaffinu

 

Siggeir Ingólfsson

 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

16.10.2013 12:25

Þyrla á Vesturbúðarhólnum

Á Vesturbúðarhólnum í morgun.

Elías Ívarsson færði til myndar.

 

Þyrla á Vesturbúðarhólnum

 

Í morgun settist  þyrla á Vesturbúðarhólinn á Eyrarbakka.

 

Menningar-Staður og fleiri voru á í stefnumótun á Menningar-Stað og færðu til myndar:

 

Flugveður eins og best gerist.

 

Skráð af Menningar-Staður

16.10.2013 06:08

Kostnaður á hvern fanga 7,1 milljón

Litla-Hraun á Eyrarbakka.

 

Kostnaður á hvern fanga 7,1 milljón

 

Meðaltalskostnaður á hvern fanga í fangelsum ríkisins árið 2012 nam tæplega 7,1 milljón króna en kostnaður við hvern og einn fanga er mismunandi eftir fangelsi.

Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Silju Daggar Gunnarsdóttur um rafrænt eftirlit með föngum. Þar kemur einnig fram að meðaltalskostnaður á hvern fanga í rafrænu eftirliti séu tæpar 2 milljónir króna á ári.

„Samkvæmt gildandi lögum er hægt að heimila ákveðnum hópi fanga að ljúka afplánun með rafrænu eftirliti. Þeim föngum sem uppfylla skilyrði laga um fullnustu refsinga er gefinn kostur á því að ljúka afplánun undir rafænu eftirliti,“ segir í svari ráðherra. Þar segir einnig að 31. ágúst síðastliðinn hafi 463 dómþolar beðið afplánunar.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 15. október 2013.

 

Skráð af Menningar-Staður.

16.10.2013 06:02

Merkir Íslendingar - Steán frá Hvítadal

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Stefán frá Hvítadal.

 

Merkir Íslendingar - Stefán frá Hvítadal

 

Stefán fæddist á Hólmavík 16. október 1887, sonur Sigurðar Sigurðssonar, kirkjusmiðs á Hólmavík og víðar, og k.h., Guðrúnar Jónsdóttur. Hann ólst upp á Stóra-Fjarðarhorni og hjá frænda sínum í Hvítadal í Saurbæ.

 

Stefán lærði prentiðn en fékk berkla, missti við það annan fótinn við ökkla og gekk eftir það við staurfót. Hann var í síldarsöltun á Akureyri sumarið 1912, með Þórbergi Þórðarsyni, sem gerði það sumar ódauðlegt í Íslenskum aðli. Þá um haustið sigldi Stefán til Noregs, vann við skipasmíðar, veiktist af lungnaberklum og lá á heilsuhæli. Hann sneri heim 1915, fársjúkur, og átti um skeið athvarf í Unuhúsi.

Í Sjömeistarasögu greinir Halldór Laxness frá því hvernig Stefán hjarnaði þar við, vorið 1918, heyrði í svönum fljúga yfir bæinn, reis þá upp við dogg og orti Vorsól sem hefst á eftirfarandi erindi:

 

Svanir fljúga hratt til heiða,

huga minn til fjalla seiða.

Vill mér nokkur götu greiða?

Glóir sól um höf og lönd.

Viltu ekki, löngun, leiða

litla barnið þér við hönd?

 

Eiginkona Stefáns frá 1919 var Sigríður Jónsdóttir frá Ballará á Skarðsströnd. Þau bjuggu lengst af á Bessatungu í Saurbæ frá 1925 og eignuðust tíu börn. Stefán gerðist kaþólskur árið 1923 og átti stóran þátt í því að koma vini sínum, Steini Steinarr, í kaþólska söfnuðinn.

 

Ljóðabækur Stefáns: Söngvar förumannsins, 1918; Óður einyrkjans, 1921; Heilög kirkja, 1924; Helsingjar, 1927, og Anno Domini, 1930. Söngvar förumannsins er langbesta ljóðabók Stefáns og tímamótaverk. Hún gerir hann að einu fremsta skáldi nýrómantísku stefnunnar og ásamt Davíð Stefánssyni (Svartar fjaðrir, 1919) að helsta boðbera hinnar lífsglöðu, kraftmiklu og rómantísku aldamótakynslóðar.

 

Tómas Guðmundsson gaf út heildarljóðasafn Stefáns, Þórbergur skrifaði um hann, Halldór Laxness í bókinni Af skáldum og Hannes Pétursson í Eimreiðina 1972.

 

Stefán andaðist 7. mars 1933.

 

Morgunblaðið miðvikudagurinn 16. október 2013

 

 

Skráð af Menningar-Staður

15.10.2013 21:59

Fjöldi ferðamanna skoðar norðurljósin

Við ósa Ölfusár í gærkveldi og séð upp að Ingólfsfjalli og Selfossi. Ljósm.: Halldór Páll Kjartansson á Eyrarbakka.

 

Fjöldi ferðamanna skoðar norðurljósin

 

Milli 200 og 400 manns hafa farið með Iceland Excursions að skoða norðurljósin á hverju kvöldi sem þau sýna sig, að sögn Sigurdórs Sigurðssonar, framkvæmdastjóra. Hann sagði þetta eingöngu vera erlenda ferðamenn og þeim væri alltaf að fjölga.

 

„Þetta vill safnast upp því það eru ekki norðurljós öll kvöld. Við reynum að meta hvort það er öruggt að fólkið sjái norðurljósin og förum kannski að jafnaði annað til þriðja hvert kvöld,“ sagði Sigurdór. Svo geta komið lengri tímabil þegar ekki sést til himins. Ef svo illa fer að ekki sést til norðurljósa þá fá farþegarnir fría ferð kvöldið eftir.

 

Staðan er metin síðdegis hvern dag og ákveðið hvert skal haldið. Ferðirnar taka 3-5 tíma eftir því hvað þarf að fara langt frá Reykjavík. Samkvæmt norðurljósaspá Veðurstofu Íslands var talsverð norðurljósavirkni í gærkvöldi en draga átti úr virkni eftir því sem liði á vikuna.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 15. október 2013.

Frá Eyrarbakkafjöru og séð til Þorlákshafnar.  Ljósm.: Halldór Páll Kjartansson á Eyrarbakka.

 

Skráð af Menningar-Staður