Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Október

15.10.2013 06:20

Merkir Íslendingar - Jóhannes Sveinsson Kjarval

Jóhannes Kjarval.

 

Merkir Íslendingar - Jóhannes Sveinsson Kjarval

 

Jóhannes Sveinsson Kjarval fæddist á Efri-Ey í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu hinn 15. október 1885, sonur Sveins Ingimundarsonar, bónda þar, og k.h., Karitasar Þorsteinsdóttur húsfreyju. Hann ólst upp frá fjögurra ára aldri hjá hálfbróður móður sinnar, Jóhannesi Jónssyni í Geitavík í Borgarfirði eystra.

Kjarval stundaði sjómennsku til 1911 en hélt þá utan, fyrst til Lundúna en síðan til Kaupmannahafnar þar sem hann lauk prófi í málaralist frá Konunglega listaháskólanum

1918. Þá dvaldi hann á Ítalíu 1920 og í París 1928 en var lengst af búsettur í Reykjavík frá 1922.

Kjarval var meðal frumherja íslenskrar myndlistar og einn virtasti listamaður þjóðarinnar á 20. öld. Verk hans bera með sér expressjónísk og impressjónísk stílbrigði, en þau eru auk þess rammíslensk, oft hlaðin táknum er vísa til íslenskra þjóðsagna, ævintýra og skáldskapar, auk þess sem meginviðfangsefni hans sem listmálara var íslenskt landslag, einkum á Þingvöllum. Þar stóð hann í hrauninu dögum saman og festi landið á striga. Allar skilgreiningar á list Kjarvals með hliðsjón af straumum og stefnum ber svo að taka með þeim fyrirvara að hann var afar persónulegur og frumlegur listamaður.

Kjarval var auk þess mikill teiknari, samanber teikningar hans af íslensku alþýðufólki. Hann myndskreytti ýmis rit og skrifaði sjálfur ýmis rit, s.s. Grjót, 1930; Meira grjót, 1937; Leikur, 1938; Ljóðagrjót, og Hvalsagan frá átján hundruð níutíu og sjö, 1956.

Margt hefur verið skrifað um Kjarval og list hans, s.s. ævisaga hans eftir Indriða G. Þorsteinsson; samtalsbók eftir Matthías Johannessen; Kjarval, eftir Thor Vilhjálmsson, og Kjarval – málari lands og vætta, eftir Aðalstein Ingólfsson.

Árið sem Kjarval lést voru Kjarvalsstaðir í Reykjavík opnaðir en þar eru verk hans höfð til sýnis, skráð og rannsökuð. Kjarval lést 13. apríl 1972.

Morgunblaðið þriðjudagurinn 15. október 2013 - Merkir  Íslendingar

Jóhannes Kjarval

 

Skráð af Menningar-Staður

 

14.10.2013 07:12

Flaggað allan sólarhringinn?

Lagt hefur verið til að heimilt sé að flagga íslenska fánanum allan sólarhringinn yfir sumartímann.

.

 

 

Flaggað allan sólarhringinn?

 

Tíu þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram frumvarp um breytingu á fánalögum, þar sem lagt er til að heimilt verði að hafa fána að húni allan sólarhringinn frá 15. maí til 15. ágúst. Einnig verði heimilt að hafa fána uppi allan sólarhringinn sé hann flóðlýstur.

Samkvæmt núgildandi reglum má ekki draga fána að hún fyrr en klukkan sjö að morgni, en ekki vera uppi lengur en til sólarlags, og aldrei lengur en til miðnættis. 

 

Markmið breytinganna er að auka almenna notkun íslenska fánans, þar sem með þessu þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að brjóta fánalög með því að gleyma fánanum uppi. Hluta þess tíma sem um ræðir er sólarlag eftir miðnætti á suðurlandi, en tvær vikur líða milli sólrisu og sólseturs yfir hásumarið á Ísafirði. 


Búast má við að breyting af þessu tagi mælist vel fyrir meðal landeigenda í eyðibyggðum nyrst á Vestfjörðum, en þar er hefð fyrir því að hafa fána við hún til marks um að dvalið sé í húsum. 

 

Af www.bb.is

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

14.10.2013 05:54

Merkir Íslendingar - Bjarni Þorsteimsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Bjarni Þorsteinsson

 

Merkir Íslendingar - Bjarni Þorsteinsson

 

Bjarni Þorsteinsson, prestur á Siglufirði og þjóðlagasafnari, fæddist á Mel í Hraunhreppi á Mýrum 14. október 1861. Hann var sonur Þorsteins Helgasonar, bónda á Mel og í Skutulsey, síðast í Bakkabúð í Reykjavík, og Guðnýjar Bjarnadóttur í Straumfirði Einarssonar.

Bjarni lauk stúdentsprófum frá Lærða skólanum 1883 og embættisprófi í guðfræði frá Prestaskólanum í Reykjavík 1888. Meðfram námi var Bjarni bæjarfógetaritari, stundakennari við Latínuskólann og heimiliskennari og sýsluskrifari hjá síðar tengdaföður sínum, Lárusi Blöndal, sýslumanni og alþingismanni á Kornsá.

Bjarni var settur sóknarprestur í Hvanneyrarprestakalli í Siglufirði 1888, var veitt brauðið ári síðar og var þar prestur til 1935. Auk þess var hann lengi kennari við Barnaskólann á Siglufirði og hélt, ásamt konu sinni, Sigríði Lárusdóttur Blöndal, uppi miklu söng- og tónlistarlífi á Siglufirði. Þá samdi hann fjölda sönglaga en fjörutíu þeirra hafa verið gefin út. Þar má nefna lög á borð við „Sveitin mín“, „Íslandsvísur“ og „Kirkjuhvoll“ og hann samdi einnig textann við „Það liggur svo makalaust“ sem er sungið á góðri stundu af Siglfirðingum nútímans.

Það sem helst heldur nafni Bjarna á lofti eru rannsóknir hans og söfnun á íslenskum þjóðlögum. Á því sviði vann hann ómetanlegt starf, en þjóðlagasafn hans, Íslenzk þjóðlög, kom fyrst út á árunum 1906-1909.

Bjarni hefur oft verið nefndur höfundur Siglufjarðar en hann skipulagði þar hverfi og teiknaði götur. Stofnað var Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði 2006 til heiðurs honum.

Í eftirmælum um Bjarna í Þjóðviljanum segir: „Bjarni var heillaður af töfrum tónlistarinnar, og þeir, sem þekktu hann, vissu, að hann hafði hug á að helga sig þeim einum. Fjárskortur hindraði, að svo mætti fara, og Bjarni valdi sér annað æfistarf.“

Bjarni Þorsteinsson lést á Landakotsspítala 2. ágúst 1938.

 

Morgunblaðið mánudagurinn 14. október 2013

 

Skráð af Menningar-Staður

13.10.2013 06:38

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða auglýsir eftir umsóknum um styrki

Frá Þingvöllum að morgni 8. október 2013. Gestirnir frá Borgundarhólmi sem voru í menningarheimsókn á Eyrarbakka og víðar á Íslandi þeir Jens Hansen og Ole Simonsen og Eyrbekkingurinn sem býr í Berlín Júlía B. Björnsdóttir.

 

 

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða auglýsir eftir umsóknum um styrki

 

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða auglýsir eftir umsóknum um styrki vegna uppbyggingar á ferðamannastöðum til úthlutunar í desember 2013. Sérstök athygli er vakin á námskeiðum sem umsækjendum standa til boða. Umsóknarfrestur er til og með 5. nóvember.

Verkefni verða að uppfylla amk. eitt af eftirfarandi skilyrðum

  1. Verkefnið er til uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum í eigu opinberra aðila eða á náttúruverndarsvæðum.
  2. Verkefnið er til framkvæmda sem varða öryggi ferðamanna og verndun náttúru á ferðamannastöðum í eigu opinberra aðila jafnt sem einkaaðila.
  3. Verkefnið er til undirbúnings- og hönnunarvinnu sem er nauðsynleg vegna framkvæmda á ferðamannastöðum eða á náttúruverndarsvæðum.

Áherslur og ábendingar til umsækjenda

  1. Framkvæmdasjóðurinn leggur sérstaka áherslu á verkefni þar sem horft er til heildarmyndar ferðamannastaða og ferðamannaleiða.
  2. Framlög til einkaaðila eru háð því skilyrði að um sé að ræða ferðamannastaði sem eru opnir almenningi.
  3. Að jafnaði getur styrkur ekki numið hærri upphæð en 50% af kostnaði.
  4. Við yfirferð umsókna er tekið mið af gæðum og trúverðugleika umsókna, mikilvægi verkefnis m.t.t. markmiða Framkvæmdasjóðsins og Ferðamálaáætlunar 2011-2020, sjálfbærnisjónarmiða, nýnæmis ofl

Áður en sótt er um:

Áður en ráðist er í gerð styrkumsókna er nauðsynlegt að kynna sér neðangreint efni:

Allar umsóknir skulu innihalda:

a. Verkefnislýsingu sem lýsir hugmyndinni með rökstuddum og skýrum hætti.
b. Kostnaðar- og verkáætlun
c. Ef sótt er um styrk fyrir byggingu mannvirkja eða til annarra framkvæmda þá verður deiliskipulag,
fullnaðarhönnun og framkvæmdaleyfi að liggja fyrir.
d. Ef sótt er um styrk til skipulags- og hönnunarvinnu eða undirbúningsrannsókna þá verður að fylgja
skriflegt samþykki sveitarstjórnar og/eða skipulagsfulltrúa viðkomandi sveitarfélags.
e. Skriflegt samþykki allra landeigenda og/eða umsjónaraðila.

Námskeið fyrir umsækjendur

Sérstaklega er vert að vekja athygli umsækjenda á því að nú er í fyrsta sinn boðið upp á námskeið sem hafa að markmiði að leiðbeina umsækjendum í gegnum umsóknarferlið. Námskeiðin verða haldin hjá Ferðamálastofu, Geirsgötu 9 í Reykjavík og Strandgötu 29 Akureyri.

  • Reykjavík 24. október kl. 13-15
  • Akureyri 25. október kl. 13-15

Umsóknarferlið

Umsóknir um styrki í sjóðinn fara í gegnum umsóknakerfi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Þegar umsækjendur hafa skráð sig inn eru þeir leiddir í gegnum umsóknarferlið.

Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestur er til og með 5. nóvember 2013 og umsóknir sem berast eftir það eru ekki teknar gildar.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Björn Jóhannsson umhverfisstjóri Ferðamálastofu í síma 535-5500 eða með vefpósti bjorn@ferdamalastofa.is

Af www.ferdamalastofa.is

Við Gullfoss í Hvítá.

 

Skráð af Menningar-Staður

13.10.2013 06:23

Kattasamsæri til styrktar Kattholti

Á meðfylgjandi mynd frá afhendingu eru Ósk Óskarsdóttir stjórnarmaður í Kattavinafélaginu, Eygló Guðjónsdóttir gjaldkeri, Halldóra Snorradóttir stjórnarmaður,  Eyrbekkingurinn Guðmundur S. Brynjólfsson rithöfundur sem afhenti styrkinn, Halldóra B. Ragnarsdóttir formaður Kattavinafélagsins og bókaútgefandinn Bjarni Harðarson, sem bjó um árabil á Eyrarbakka, með einn af fastagestum Hótel Kattholts í fanginu.

 

Kattasamsæri til styrktar Kattholti

 

Kattavinafélag Íslands í Kattholti veitti í gær viðtöku framlagi bókaútgáfunnar Sæmundar á Selfossi. Um er að ræða tíund sem bókaútgáfan hefur greitt af sölu bókarinnar Kattasamsærið eftir Guðmund S. Brynjólfsson.

 

Auk fjárframlags sem samtals nemur nú 100 þúsund krónum færði útgáfan Kattholti tuttugu eintök af bókinni.

 

Kattasamsærið kom út fyrir síðustu jól en hún er bráðskemmtileg barnabók um vandamál katta í samfélagi mannanna. Aðalpersóna er Petra Pott sem á í stöðugri baráttu fyrir tilvist sinni og þar koma vinir hennar til aðstoðar. Ofurkötturinn Hamlet hefur ráð undir rifi hverju og honum til aðstoðar eru m.a. hundurinn Lúsíus og þau Elinóra og Hrólfur sem eru allavega ekki kindur.

 

Bókina má fá í öllum betri bókaverslunum og tíund af hverri seldri bók rennur til Kattholts.

 

Af www.sunnlenska.is

 

Skráð af Menningar-Staður

12.10.2013 22:27

Styttan af Páli Ísólfssyni komin á nýjan stað

Anna Sigríður og Kjartan afhjúpa styttuna. Ljósmynd/arborg.is

 

Styttan af Páli Ísólfssyni komin á nýjan stað

 

Í dag var fyrsti menningarviðburðurinn í menningarmánuðinum október, sem skipulagður er af íþrótta- og menningarnefnd Árborgar, haldinn á Stokkseyri.

 

Dagurinn í dag er afmælisdagur tónskáldsins Páls Ísólfssonar, sem fæddist á Stokkseyri fyrir 120 árum, og var af því tilefni afhjúpuð stytta af Páli á nýjum stað á Stokkseyri. Styttan hefur staðið við Ísólfsskála síðastliðin 40 ár en núna er hún kominn á fallegan teig á móts við Þuríðarbúð í hjarta þorpsins.

Það var séra Anna Sigríður Pálsdóttir, dóttir skáldsins og Kjartan Björnsson, formaður ÍMÁ sem afhjúpuðu styttuna í sameiningu.

 

Að þeirri athöfn lokinn var boðið til kaffisopa í Svartakletti, galleríi Elfars Guðna áður en Kristjana Stefáns ásamt kvartett stigu á svið í Stokkseyrarkirkju og spiluðu lög eftir Pál.

Góð mæting var í kirkjuna en rúmlega 70 manns sátu á tónleikunum.

 

 

 

 

Af www.sunnlenska.is og www.arborg.is

 

Skráð af Menningar-Staður

12.10.2013 06:08

120 ár frá fæðingu Páls Ísólfssonar 12. október 1893

Páll Ísólfsson

Páll Ísólfsson.

 

120 ár frá fæðingu Páls Ísólfssonar 12. október 1893

 

Páll Ísólfsson var fæddur í Símonarhúsi á Stokkseyri 12. okt. 1893. Foreldrar hans voru Ísólfur Pálsson og kona hans Þuríður Bjarnadóttir. Páll er af hinni kunnu Bergsætt, en í þeirri ætt eru þjóðkunnir tónlistarmenn, þar á meðal tónskáldin Sigfús Einarsson og Friðrik Bjarnason. 

Árið 1912 lærði Ísólfur tónstillingar og hljóðfærasmíði í Kaupmannahöfn og stundaði hvortveggja eftir það í Reykjavík.

Árið 1934 kom út eftir hann sönglagasafnið „Fjóla“ með 34 sönglögum. Alkunnasta lagið er „Í birkilaut hvíldi ég bakkanum á“. Sönglög hans eru traust og laus við alla tilgerð og mörg hafa náð vinsældum hjá þjóðinni. Í Sálmasöngsbókinni frá 1936 og Viðbætinum frá 1946 eru sálmalög eftir hann. Ísólfur andaðist í Reykjavík 17. febrúar 1941.

Páll Ísólfsson kom til Reykjavíkur 1908 og lærði að leika á harmonium hjá Sigfúsi Einarssyni, frænda sínum. Um skólalærdóm var ekki að ræða, því unglingurinn var látinn vinna fyrir sér, eins og, hann best gat, síðast í Östlundsprentsmiðju - Það stóð til, að hann yrði nótnaprentari. Það nám varð þó endasleppt, því að markið var sett hærra. Jón Pálsson, föðurbróðir Páls, sá hvað í frænda sínum bjó og styrkti hann til tónlistarnáms í Leipzig. Jón Pálsson var lengi aðalgjaldkeri Landsbankans. Hann var organisti Fríkirkjunnar í Reykjavík 1903-1916 og mikill áhugamaður um kirkjusöng.

Páll var í tónlistarskólanum í Leipzig 1913-1919. Hann lærði orgelleik sem aðalfag hjá Karl Straube og píanóleik sem aukafag hjá Robert Teichmüller, sem var frægur kennari og góður uppeldisfræðingur. Þess skal getið, að meðal nemenda Teichmüllers á þessum árum voru einnig Annie og Jón Leifs. Af öðrum kennurum Páls skal nefna Hans Grisch, sem kenndi hljómfræði. Um hann segir Páll: „Tímarnir hjá honum voru skemmtistundir. Betri kennara hefi ég ekki haft um ævina.“

Karl Straube (1873-1950) var einn af fremstu orgelsnillingum heimsins og mikilsmetinn tónlistarmaður. Hann var organisti við Tómasarkirkjuna í Leipzig 1902-1918 og síðan kantor til 1940. Þessu embætti gegndi Bach í 27 ár (1723-1750) og hefur síðan verið vandað mjög val eftirmanna hans í stöðuna.

Straube valdi Pál úr nemendum sínum sem aðstoðar organleikara og staðgöngumann sinn við kirkjuna. Páll minnist á þetta í bókinni „Hundaþúfan og hafið“ og segir þar m. a.: „Um þetta leyti var auðvitað ekki um auðugan garð að gresja í Þýzkalandi, þegar leitað var að organista, sem gæti tekið að sér starf við stóra kirkju, því þeir voru flestir á vígstöðvunum.“ Síðan segir hann: „Ég gat ekki orðið fastur organisti við kirkjuna, því ég var útlendingur.“

Frásögn Páls er hógvær, en öllum er ljóst, hvílíkt traust Straube hefur haft á hinum íslenzka nemanda sínum.

Í lok heimsstyrjaldarinnar var Straube skipaður kantor við kirkjuna, en Þjóðverjinn Günther Ramin (1898-1956) organisti. Ramin var náinn vinur Páls og samtíma honum lærisveinn hjá Straube. Ramin gegndi organistastarfinu til 1940, en þá var hann skipaður kantor við kirkjuna. Ramin var talinn einn af mestu orgelsnillingum heimsins um sína daga. 

Eftir að Páll var kominn heim til Reykjavíkur að námi loknu, hélt hann orgeltónleika og var við tónlistarstörf. Straube hafði á sínum tíma hvatt hann til að fara til Frakklands og kynnast hinum franska orgelstíl. Hann sagði, að orgelskóli Frakka væri strangur og í flestu ólíkur þeim þýzka, og Frakkar hefðu nánari tilfinningu fyrir formi og stíl. Páll dvaldi í París nokkra vetrarmánuði 1924-1925 við framhaldsnám hjá Joseph Bonnet (1884-1944), víðfrægum orgelsnillingi og tónskáldi, sem sérstaklega var frægur fyrir meðferð sína á orgelverkum Bachs og César Franck. Um námið segir Páll m. a.: „Í tímum hjá Bonnet kynntist ég franska orgelstílnum og nýr heimur laukst upp fyrir mér, ferskur og heillandi og ógleymanlegur. Frakkar telja sig leika Bach stílhreinna en Þjóðverjar og meira í anda meistarana. Þeir elska Bach og dýrka hann.“

Páll efndi ungur að aldri til hljómleika víðsvegar um Evrópu, m.a. í Leipzig, Berlín, München, Kaupmannahöfn og Bæheimi og hvarvetna viðurkenndur mikill orgelsnillingur. Hér í Reykjavík hélt hann í fyrsta sinn sjálfstæða orgeltónleika árið 1916, meðan hann var við nám. Eftir að hann var seztur að aftur í Reykjavík eftir dvölina í Leipzig, hélt hann framan af næstum árlega orgeltónleika, en er frá leið urðu þeir strjálari, enda þá orðinn margskonar störfum hlaðinn.

Páll er orgelsnillingur í fremstu röð og er list hans stórbrotin. Að sjálfsögðu hefur hann leikið mikið tónsmíðar eftir Bach og er hann ágætur Bachspilari. Ennfremur hefur hann leikið oft tónsmíðar eftir Buxtehude og aðra meistara barokktímabilsins. Þá hefur hann leikið orgelverk Regers , sem var einn af kennurum hans í Leipzig. Eftir framhaldsnámið í París hafa tónsmíðar eftir César Franck verið honum hugstæð viðfangsefni. 

Páll kom fyrst fram opinberlega í sönglífi Reykjavíkur á aldarafmæli Péturs Guðjóhnsens 29. nóv. 1912. Þá var samsöngur haldinn í Dómkirkjunni undir stjórn Sigfúsar Einarssonar og m. a. sungið hið fagra lag Sigfúsar fyrir einsöng, og kór með orgelundirleik við kvæði Guðmundar Guðmundssonar um hinn merka brautryðjanda í íslenzkri tónlist. Páll lék á orgelið.

Páll Ísólfsson er orgelsnillingur par exellence. Sem slíkur hefur hann óumdeilanlega yfirburði. En hann hefur einnig sem píanóleikari, söngstjóri og hljómsveitarstjóri margoft komið opinberlega fram í tónlistarlífinu, eins og tekið var fram í upphafi þessarar greinar. Hann var fastur stjórnandi Lúðrasveitar Reykjavíkur í 12 ár (1924-1936) með föstum launum úr bæjarsjóði Reykjavíkur. Hann stjórnaði kóruppfærslum - aðallega kirkjuhljómleikum - á árunum 1923-1930, og nokkrum sinnum eftir það, t.d. „Sköpuninni“ eftir Haydn í desember 1939, „Reqiuem“ eftir Cherubini í október 1941, að ógleymdri Alþingishátíðarkantötunni eftir sjálfan hann á fimmtugsafmæli hans árið 1943. Ennfremur hefur hann stjórnað sinfóníutónleikum og sem píanóleikari hefur hann margoft 1eikið undir hjá söngvurum okkar og söngkonum. 

Af hinum mörgu störfum Páls um ævina mun organleikarastarfið hafa verið honum hugfólgnast. Hann var organisti Fríkirkjunnar í Reykjavík 1926-1939. Hann leysti þá af hólmi Kjartan Jóhannesson, hinn mætasta mann, sem gegnt hafði starfinu með prýði. Þegar Páll var tekinn við, þótti ekki annað hæfa en að sett yrði nýtt pípuorgel í kirkjuna og var það gert strax sama árið. Þegar Sigfús Einarsson féll frá um vorið 1939 var Páll skipaður eftirmaður hans við dómkirkjuna í Reykjavík. Dómkirkjuorganistastarfinu gegndi Páll 1939-1967, orðinn 74 ára, er hann lét af því starfi. Tók þá Ragnar Björnsson, lærisveinn hans, 
við starfinu. 


Merkilegt verk unnu þeir frændur Páll og Sigfús, er þeir undirbjuggu til prentunar Sálmasöngsbókina 1936. Í formálanum segja þeir: „Það er kunnugt, að hin gömlu sálmalög frá 15. og 16. öld, hafa tekið allmiklum breytingum á síðari tímum, með því að laglínurnar hafa afbakast, en þó einkum hrynjandi. Þá hefur og raddsetning þessara laga færst í það horf, sem nú er af mörgum talið í ósamræmi við lögin sjálf og jafnvel ókirkjuleg. Fyrir því hafa menn tekið sér fyrir hendur að færa hinn gamla gullaldarsálmasöng í upprunanlegan búning, svo hann geti hljómað á ný með fornri prýði.“ Síðan segja þeir: „hjá oss getur tæplega verið um að ræða snöggar og róttækar breytingar í slíkum efnum, enda eru hin gömlu alkunnu lög óbreytt hér frá því, sem verið hefur í hinum nýrri kirkjusöngsbókum vorum, bæði laglína og hljóðfall.“ 

Þeir hafa þó að nokkru leyti tekið tillit til hinnar nýju stefnu og birt fáein af hinum gömlu sálmalögum í tveim myndum, þ.e. þeirri, sem algeng er á síðari tímum og þeirri upprunalega, „rythmisku“.

Hér að framan hefur verið minnst á forystumanninn og orgelsnillinginn, en nú verður minnst á tónskáldið.

 

Páll hefur samið tónsmíðar fyrir píanó, einsöng, kór, orgel og hljómsveit, stórar og smáar í sniðum, og margar fyrir löngu orðnar þjóðkunnar. List hans á sér rætur í hinum rómantíska-klassíska menningararfi, en er persónulega mótuð - lögin bera svip höfundarins. Jón Þórarinsson tónskáld hefur lýst höfundareinkennum hans þannig og hygg ég, að sú lýsing sé rétt: „Stíllinn í tónverkum hans ber talsverð merki hins þýzka skóla frá fyrstu áratugum aldarinnar. Þau eru rómantísk að yfirbragði og hljómbyggingu, en klassísk að formi. Svipur þeirra er norrænn og karlmannlegur, og mörg þeirra eru stór í sniðum, tilþrifamikil og

hugmyndaauðug, og stundum - ekki sízt í síðari verkunum gætir sterkra áhrifa íslenskra þjóðlaga.“

Af prentuðum verkum eru píanóhefti („Glettur“ o.fl.), 12 forspil fyrir orgel eða harmonium og þrjú sönglaga hefti. Ennfremur sönglögin úr „Gullna hliðinu“ og lög úr Alþingishátíðarkantötunni 1930.

Af sönglögunum hefur þjóðin sérstaklega mætur á „Í dag skein sól“, „Nú læðist nótt um lönd og sæ“, „Sáuð þið hana systur mína“, „Blítt er undir björkunum“ („Ég beið þín lengi, lengi“) úr „Gullna hliðinu“ og fleiri lögum, sem hér verða ekki talin. Í þessum lögum er 1jóðræn fegurð. Þá hefur sálmalagið „Víst ert þú, Jesús, kóngur klár“ náð miklum vinsældum; lagið er gamalt íslenzkt passíusálmalag, en endurvakið til lífsins í raddasetningu Páls. Af kórlögunum er „Brennið þið vitar“ þekktast.  

Af meiriháttar söngverkum Páls ber fyrst að nefna Alþingishátíðarkantötuna 1930 og Skálholtskantötuna, hvorttveggja verðlaunaverk.

Alþingishátíðarkantatan 1930 er stórbrotið verk. Verkið rís hæst í inngangskórnum („Lofsöngnum“), en þekktasti kaflinn er „Brennið þið vitar“ Þá er einnig tilþrifamikill kaflinn „Þér norrænu hetjur af konungakyni.“

„Chaconne“ er orgelverk byggt á upphafstöktunum í Þorlákstíðum. Er þetta mikil og vönduð tónsmíð, samin vegna orgelleikaramóts í Stokkhólmi, en þangað fór Páll sem fulltrúi Íslands og þurfti þá að flytja íslenzkt orgelverk.

„Inngangur og Passacaglia“ er einnig samið fyrir orgel, en síðar fært í hljómsveitarbúning. Er þetta einnig mikil og vönduð tónsmíð. Verkið er samið í tilefni af norrænni tónlistarhátíð árið 1938. 

Af öðrum hljómsveitarverkum skal nefna Hátíðarforleik við vígslu Þjóðleikhússins 1950 og Hátíðarmars frá 1961, helgaður 50 ára afmæli Háskóla Íslands og vígslu Háskólabíós, hvortveggja tækifærisverk. 

Ennfremur eru lögin eftir hann úr leikritum tækifærisverk , samin af því að á þeim þurfti að halda, en leikritin eru þessi: „Gullna hliðið“ (Davíð Stefánsson) „Veizlan á Sólhaugum“ (Ibsen) og „Myndabók Jónasar“ (Tekin saman af Halldóri Kiljan Laxnes).

Páll hefur verið sæmdur stórkrossi Fálkaorðunnar og erlendum heiðursmerkjum. Hann var gerður að heiðursdoktor Oslóarháskóla 1946.

Páll er tvíkvæntur. Fyrri konan, Kristín Norðmann, andaðist fyrir aldur fram. Dóttir þeirra er söngkonan Þuríður Pálsdóttir. Kristín Norðmann var systir Jóns Norðmans, píanóleikara, sem lært hafði við músíkháskólann í Berlín og þótti mjög efnilegur píanóleikari. Síðari konan er Sigrún Eiríksdóttir, Ormssonar, eiganda og framkvæmdarstjóra firmans „Bræðurnir Ormsson h.f.“. Bjarni Jónsson, vígslubiskup, segir í Morgunblaðinu (12. okt. 1963) um Pál sjötugan: „Heima hjá Páli og Sigrúnu“. Það væri efni í fagra ritgerð. Þar er gestrisnin í heiðri höfð, hvort heldur hér eða í Ísólfsskála“ - Páll er höfðingi heim að sækja, allra manna skemmtilegastur, gæddur kímnigáfu og frábærri frásagnarlist. Dóttir Páls og Sigrúnar er séra Anna Sigríður Pálsdóttir.

Í sömu grein segir séra Bjarni ennfremur: „Það er sagt um Pál postula: „Hann er allur í orðinu“. Ég segi um Pál Ísólfsson: „Hann er allur í listinni“ Þar er ekki ritardando, seinkandi eða hikandi, því að hann er semper ardens, brennandi í andanum og aldrei hálfvolgur í áhuganum.“ 

Matthías Johannessen ritstjóri hefur ritað tvær samtalsbækur um Pál Ísólfsson: „Hundaþúfan og hafið“ (1961 ) og „Í dag skein sól“ (1964 ). Bækurnar eru góð heimild um tónskáldið, manninn sjálfan, líf hans og störf. 

 

Páll Ísólfsson lést árið 1974.

 

Úr Tónlistarsögu Reykjavíkur

Páll Ísólfsson.

Elfar Guðni Þórðarson og listaverkið "Brennið þið vitar" með ljós á öllum vitum.

Listaverkið er í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri og var vígt þann 12. október 2002 á afmælisdegi Páls Ísólfssonar 109 ára.

 

Brennið þið vitar -

Smella á þessa slóð - http://www.youtube.com/watch?v=S4e8rQA0OKM

 

Skráð af Menningar-Staður

11.10.2013 19:06

Hellulögnin við Stað langt komin

Siggeir Ingólfsson og Hlöðver Þorsteinsson

 

 

Hellulögnin við Stað langt komin

 

Góður gangur var í dag við hellulögnina við útsýnispallinn á sjóavarnargarðinum við Félagsheimilið Stað á Eyrarbakka – Menningar-Stað-

 

Það voru þeir;  Siggeir Ingólfsson, Hlöðver Þorsteinnsson og Finn  Magnús Nilsen sem voru að störfum í dag.

 

Menningar-Staður færði Siggeir og Hlöðver til myndar er vinnu lauk í dag.

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

11.10.2013 18:44

Björgvin G. Sigurðsson ráðinn umsjónarmaður Menningarpressunnar

Björgvin G. Sigurðsson og dóttir.

 

Björgvin G. Sigurðsson ráðinn umsjónarmaður Menningarpressunnar

 

Björgvin G. Sigurðsson hefur verið ráðinn umsjónarmaður Menningarpressunnar. Hefur hann yfirumsjón með umfjöllun um menningu og listir á Pressunni, en ætlunin er að stórauka menningarumfjöllun á næstunni, segir Björn Ingi Hrafnsson ritstjóri Pressunnar.

„Ég tel spurn eftir vandaðri umfjöllun um það sem er helst að gerast í íslensku menningarlífi og bað Björgvin að taka þetta verkefni að sér. Ég er mjög ánægður með að hann hafi tekið þeirri áskorun,“ segir Björn Ingi.

Björgvin segist vera gamalreyndur blaðamaður og hann hlakki til að takast á við ný verkefni. „Framundan er mikil vertíð í margvíslegri útgáfu og því verður örugglega nóg að gera,“ segir hann. „Ég hef lengi haft mikinn áhuga á listum og menningu hverskonar og hlakka því sérstaklega til að geta helgað mig umfjöllun um menninguna í allri sinni breidd.“

Björgvin er fæddur árið 1970. Að loknu stúdentaprófi frá  Fjölbrautaskóla Suðurlands lauk hann BA-prófi í sögu og heimspeki HÍ 1997 og stundaði svo meistaranám í heimspeki. Hann var blaðamaður á Vikublaðinu 1996-1997, ritstjóri Stúdentablaðsins 1997-1998, framkvæmdastjóri Reykvískrar útgáfu 1999 og framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar og þingflokks Samfylkingarinnar 1999-2002.

Björgvin var alþingismaður fyrir Samfylkinguna árin 2003-2013 og viðskiptaráðherra 2007-2009. Hann var jafnframt samstarfsráðherra Norðurlanda 2008-2009. Hann var formaður þingflokks Samfylkingarinnar 2009-2010 og formaður fjölmargra þingnefnda á þingferli sínum. Hann er nú varaþingmaður fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi.

Björgvin er í sambúð með Maríu Rögnu Lúðvígsdóttur og eiga þau sex börn.

 

Af www.pressan.is

 

Björgvin G. Sigurððson við menningarstörf í réttarsúpuhátíð haust.

Hann er að veita Sigurjóni Erlingssyni verðlaun í vísnakeppninni að Skarði.

Skráð af Menningar-Staður

 

 

11.10.2013 18:37

Styttan af Páli Ísólfssyni færð á Stokkseyri - tónleikar lau. 12.okt kl. 16:00

 

 Styttan af Páli Ísólfssyni færð á Stokkseyri – tónleikar lau. 12.okt kl. 16:00

 

Í sl. viku var styttan af Páli Ísólfssyni sem staðsett var við Ísólfsskála á Stokkseyri flutt af starfsmönnum Sveitarfélagsins Árborgar og JÁ verks á nýjan stað við Þuríðarbúð á Stokkseyri.

Þetta er gert í tilefni af 120 ára afmæli skáldsins en styttan verður afhjúpuð formlega á nýja staðnum á morgun laugardaginn 12. okt. sem er afmælisdagur Páls.

Athöfnin verður kl. 15:00 en að henni lokinni geta gestir fengið sér kaffisopa í Lista- og menningarverstöðinni hjá Elfari Guðna áður en tónleikar hefjast í Stokkseyrarkirkju kl. 16:00. 

Á tónleikunum mun Kristjana Stefáns ásamt kvartett spila allar helstu perlur Páls og má búast við flottum tónleikum. Frítt er á tónleikana í boði sveitarfélagsins en þeir eru hluti af menningarmánuðinum október.  

 

Af www.arborg.is

 

Skráð af Menningar-Staður