Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Nóvember

07.11.2013 07:02

Bara kellingabækur, engar kallabækur

Mikill dýrgripur.  Rannveig Anna með Handavinnubókina frá árinu 1886. Undirtitill hennar er: »Leiðarvísir til að nema ýmsar kvenlegar hannyrðir.

 

Bara kellingabækur, engar kallabækur

 

»Þegar ég var að læra bókmenntafræði var mikið talað um hversu mikið hefði farið forgörðum af bókum eftir íslenskar konur. Þetta sat alltaf í undirmeðvitundinni hjá mér. Löngu síðar rakst ég á safn með bókum eftir breskar konur þegar ég fór til Englands og í framhaldinu ákvað ég að gera þetta,« segir Rannveig Anna Jónsdóttir, bókmennta- og menningarfræðingur, sem veitir Konubókastofunni á Eyrarbakka forstöðu.

 

Bókastofan opnaði í vor og þar eru bækur eftir íslenskar konur og bækur sem hafa verið skrifaðar um konur auk fjölda tímarita sem fjalla um málefni kvenna. Til stendur að þar verði safn þar sem hægt verði að fræðast um íslenska kvenrithöfunda og skoða verk þeirra.

 

Kellinga- og kallabækur

Á hvaða hátt fóru bækur eftir konur forgörðum?  »Í fyrsta lagi var litið niður á þær og varðveislugildi þeirra því ekki metið jafn mikið og annarra bóka. Lengi vel voru konur nánast útilokaðar frá bókmenntasögunni. Orð eins og kellingabækur voru gjarnan notuð um ritstörf kvenna, en það er ekki til neitt sem heitir kallabækur,« segir Rannveig Anna.

Safnkosturinn kemur víða að, flest hefur fengist gefins úr einkasöfnum og frá bókaútgefendum og telur safnið nú yfir 1.400 bækur, auk fjölmargra blaða og tímarita. Á safninu kennir ýmissa grasa; þar eru ljóðabækur, skáldsögur, barnabækur, ýmsar handbækur og fræðibækur.

Er munur á skrifum karla og kvenna?  »Já, ég verð að segja það. Kannski sérstaklega hérna áður fyrr. T.d. er allt annað að lesa bækurnar eftir Guðrúnu frá Lundi heldur en bækur karlanna sem voru að skrifa á sama tíma.

Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að konur höfðu almennt ekki sama svigrúm til að helga sig ritstörfum og karlar, þær voru t.d. mikið að skrifa á nóttunni, sem var kannski eini tíminn sem þær höfðu til þess. Nema reyndar Torfhildur Hólm, hún er fyrsta íslenska konan sem vitað er til að hafi haft ritstörf að ævistarfi.«

 

Ekkert safn skáldkonu

Rannveig Anna segir skjóta skökku við að ekkert safn á Íslandi sé tileinkað skáldkonu, en þó nokkur fjöldi safna sé um karlkyns rithöfunda.

Safn um hvaða skáldkonu myndir þú helst vilja sjá?  »Þessu get ég ekki svarað, ég gæti aldrei gert upp á milli þeirra.«

Rannveig Anna segir að á safnið hafi komið nokkuð af erlendum ferðamönnum sem sæki Eyrarbakka heim eftir að hafa lesið bækur Kristínar Marju Baldursdóttur um listakonuna Karítas.

»Þetta er algerlega óplægður akur í móttöku ferðamanna og ekki gengur þetta á náttúruperlur landsins.«

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 7. nóvember 2013

 

.

.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

__________________________________________________________________

 

07.11.2013 06:51

Úrvalsviður aldamóta

Þjóðhagar. Bræðurnir Gísli Ragnar, til vinstri, og Guðmundur fyrir utan húsið Stígprýði á Eyrarbakka. Endurgerð þess er tekin í nokkrum áföngum og vandað til verka, sem er nauðsynlegt þegar breyta á og bæta gömul hús.

 

Úrvalsviður aldamóta

Bræðurnir Gísli Ragnar og Guðmundur Kristjánssynir vinna við að endurbæta gömlu húsin á Eyrarbakka  Tugir bygginga frá um 1900 standa enn  Í upprunalegt horf

 

»Endurbótasmiðir hafa góðan efnivið hér á Eyrarbakka. Á blómatíma byggðarlagsins, það er frá aldamótunum 1900 og fram yfir 1920, voru hér byggðir tugir íbúðarhúsa og vandað til verka. Gjarnan eru þetta hús sem eru kannski 50-70 fermetrar að flatarmáli og eru kjallari hæð og ris. Nokkur slík höfum við gert upp á undan förnum árum sem hefur verið afar ánægjulegt að glíma við,« segir Gísli Ragnar Kristjánsson á Eyrarbakka.

 

Eignaðist hús nítján ára

 

Bræðurnir Gísli Ragnar og Guðmundur Kristjánssynir hafa starfað saman um langt árabil sem húsasmiðir. Þeir einbeita sér að viðhaldi og endurbótum og hafa komið að slíkum verkefnum á Eyrarbakka og víðar.

 

»Áhugi minn á endurgerð gamalla húsa vaknaði strax þegar ég var á unglingsaldri. Ég var nítján ára, árið 1991, þegar við bræður keyptum húsið Hallanda, sem er í Skúmsstaðahverfinu hér vestast á Eyrarbakka. Það er dæmigert lítið alþýðuhús sem byggt er snemma á 20. öldinni,« segir Gísli. Þeir bræður eiga nokkur eldri hús á Bakkanum sem þeir hafa endurbyggt nánast frá grunni og gert þannig úr garði að eftirtekt vekur.

 

Úrvalstimbur og vinnubrögð til fyrirmyndar

 

Um þessar mundir vinna Gísli og Guðmundur að endurbótum á húsinu Stígprýði sem er við Eyrargötu. Þetta er lítið timburhús, byggt árið 1915, og fengu nýir eigendur bræðurna þjóðhögu til að annast endurbætur. »Okkur miðar vel áfram, nú á að taka tvær hliðar á húsinu í gegn sem er um mánaðar verkefni,« segir Gísli Ragnar.

 

»Oft hefur vakið athygli mína úr hve góðu timbri húsin hér á Eyrarbakka, sem eru byggð í upphafi 20. aldarinnar, eru,« segir Gísli Ragnar.

 

»Vinnubrögðin hafa líka verið til fyrirmyndar; stoðvirki er tappað saman, burðarbitar trénegldir. Svo slaknar á þessu þegar kemur nær nútímanum. Upp úr 1930 og eftir það var í ríkari mæli farið að nota til dæmis kassafjalir eða afgangstimbur í til dæmis milliveggi og viðbyggingar. En auðvitað endurspeglar þetta tíðarandann, kreppu, heimsstyrjöld og seinna haftatímabilið þegar innflutningur á byggingaefni og öðru var ströngum skilyrðum háður.«

 

Húsið er staðarprýði

 

Meðal minnisstæðra verkefna í áranna rás nefnir Gísli aðkomu þeirra bræðra að endurbótum á Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík. Einnig Húsinu á Eyrarbakka, þar sem Byggðasafn Árnesinga er nú. Að því verkefni unnu bræðurnir á árunum 1993 til 1995. Húsið, sem kom tilhöggvið til landsins árið 1765, var íbúðarhús dönsku kaupmannanna á staðnum en var síðar íbúðarhús um árabil.

 

»Húsið er staðarprýði. Í starfi okkar njótum við líka nábýlisins við byggðasafnið. Getum leitað til safnstjórans, Lýðs Pálssonar, en í ranni hans eru til þúsundir mynda af gömlum húsum. Þær eru mikilvægar heimildir því við endurbyggingu er markmiðið alltaf að færa hlutina að nýju í upprunalegt horf,« segir Gísli.

 

Viðhalda gömlu þorpsmyndinni

 

Eyrarbakki og mannlífið þar hefur breyst mikið á undan förnum árum. Áður var þorpið verslunar- og útgerðarstaður en nú hefur sú starfsemi að mestu lagst af. Í dag er ferðaþjónusta snar þáttur í atvinnulífi staðarins og í gömlum húsum eru veitingastaðir, gisting og fleira slíkt.

 

»Við Eyrbekkingar höfum borið gæfu til að viðhalda gömlu þorpsmyndinni hér. Hér í þorpinu er heilleg götumynd, lík því sem var í byrjun 20. aldarinnar. Þetta skapar staðnum sérstöðu og aðdráttarafl og það er segin saga að þegar gömul hús bjóðast eru þau seld innan skamms og yfirleitt er hafist handa um endurbætur strax í kjölfarið,« segir Gísli Ragnar Kristjánsson, smiður á Eyrarbakka, að síðustu.

Morgunblaðið fimmtudagurinn 7. nóvember 2013

.

.

 

Skráð af Menningar-Staður

07.11.2013 06:39

Hver einasti bátur frá Bakkanum

Sjómaður.  Málverk af Bakkavík ÁR sem fórst við Eyrarbakka 1983 og með honum tveir bræður Vigfúsar Markússonar, sem einn bjargaðist.

 

Hver einasti bátur frá Bakkanum

 

Fyrir skemmstu kom út bókin  Saga bátanna - Vélbátar smíðaðir eða gerðir út frá Eyrarbakka . Bókin er eftir Vigfús Markússon skipstjóra sem þar birtir upplýsingar og myndir um hvern einasta vélbát sem gerður var út frá Eyrarbakka, en þar var stunduð vélbátaútgerð frá því um 1920 fram undir 1970. »Lengi var sjávarútvegur það sem allt snérist um hér. Nú eru breyttir tímar, segir Vigfús sem er fæddur og uppalinn á Eyrarbakka en býr nú í Hafnarfirði.

 

Grunnurinn í bókinni góðu er punktar frá Vigfúsi heitnum Jónssyni, sem var oddviti á Eyrarbakka. Hann var í áratugi forystumaður byggðarlagsins.

 

»Grunnurinn var til staðar, en með því að fara í gamlar skrár, sjómannaalmanakið, leita á vefnum og tala við fólk sem þekkir til var hægt að fylla inn í eyðurnar. Alls eru bátarnir í bókinni um 100. Blómatíminn var um 1970, þá voru Bakkabátarnir alls ellefu og ársaflinn 4.800 tonn. Meðan á eldgosinu í Vestmannaejum stóð lögðu raunar fjölmargir bátar þaðan hér upp afla sinn og líklega voru umsvifin aldrei meiri en þá,« segir Vigfús, sem er í áhöfn Grindarvíkurbátsins Tómasar Þorvaldssonar GK. Notaði Vigfús gjarnan frívaktina á sjónum til skrifta og heimildaöflunar og útkoman er bókin sem fengið hefur góðar viðtökur og dóma lesenda, jafnt til sjós og lands.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 7. nóvember 2013

.

.

.

.

.

.

 

Skráð af Menningar-Staður

 

07.11.2013 06:29

Konungleg altaristafla

Altaristaflan. Hún var máluð af Lovísu Danadrottningu og sýnir Jesú á tali við samversku konuna.

 

Konungleg altaristafla

 

Eyrarbakkakirkju prýðir altaris tafla sem máluð var af Lovísu Danadrottningu sem var drottning Kristjáns IX sem ríkti í Danmörku 1863 til 1906.

 

Kirkjuna teiknaði Jóhann Fr. Jónsson trésmiður, hún var vígð árið 1890 og fyrsti prestur kirkjunnar var Jón Björnsson.

 

Hann sigldi til Kaupmannahafnar til að útvega við til byggingar kirkjunnar og fór þar á fund konungshjónanna. Vel fór á með þeim og í framhaldi af þeim fundi gaf Lovísa kirkjunni altaristöfluna. Auk altaristöflunnar á Eyrarbakkamálaði hún a.m.k. þrjár aðrar sem finna má í kirkjum í Danmörku.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 7. móvember 2013

 

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

07.11.2013 06:20

Með frítt spil og fisk í matinn

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Þorskur, ýsa, viskí og bjór hjá Stefáni í Rauða húsinu.

 

Með frítt spil og fisk í matinn

 

„Það er gaman að starfa á veitingahúsi og hafa að flestu leyti frítt spil til að móta nýjar áherslur,“ segir Stefán Ólafsson þjónn. Með nafna sínum Kristjánssyni tók hann sl. vor við rekstri veitingastaðarins Rauða hússins á Eyrarbakka. Þeir félagar hyggjast á næstunni brydda upp á ýmsu nýju þar, svo sem kynningum á eðalviskíi og úrvalsbjór með veitingum sem hæfa. Þar er Stefán Ólafsson á heimavelli en hann starfaði í mörg ár í Þýskalandi, en óvíða er bjórmenning jafn sterk og þar í landi.

 

„Rauða húsið hefur sérstöðu. Fiskur er áberandi á matseðli hér, svo sem þorskur og ýsa sem hægt er að matbúa á ýmsa vegu. Og þá voru Eyrbekkingar fyrir um sextíu árum fyrstir manna til að veiða og vinna humar, sem við höfum einnig í öndvegi,“ segir Stefán. Hann bætir við að þeir félagar séu nú að undirbúa jólahlaðborð Rauða hússins sem verður blanda danskra og íslenskra hefða.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 7. nóvember 2013

 

 

Skráð af Menningar-Staður

06.11.2013 22:43

Staður sem er ólíkur öllum öðrum stöðum

Við þurfum að gæta ákveðins jafnvægis í samfélaginu,«

segir Eyrbekkingurinn Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima.

 

Staður sem er ólíkur öllum öðrum stöðum

Á Sólheimum er fjölbreytilegt menningar- og atvinnulíf

 

Engu máli virðist skipta á hvaða árstíma komið er að Sólheimum í Grímsnesi eða hvernig viðrar; þar er alltaf bjart og hlýtt. Í þorpinu í kvosinni blómstrar samfélag fatlaðra og ófatlaðra. Einstakt fyrir margra hluta sakir og þar búa nú um eitt hundrað manns á ýmsum aldri sem flestir starfa á staðnum. Á Sólheimum er fjölbreytt menningar- og atvinnustarfsemi, þar eru ræktuð mörg tonn af grænmeti á hverju ári og framleiðsla á snyrtivörum og ýmsu öðru þar verður sífellt umfangsmeiri.

 

Sólheimar eru sjálfseignar stofnun sem á langflestar byggingarnar á svæðinu. Þar er rekið eitt sambýli, en annars búa flestir íbúar þorpsins sjálfstætt. »Hér býr t.d. ófatlað fólk sem líkar vel að búa á svona stað en sækir vinnu annars staðar,« segir Eyrbekkingurinn Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima. Hann segir að nokkuð sé um íbúa sem hafa alist upp í þorpinu. »Við berum ríkar skyldur gagnvart þeim. Þau hafa borið staðinn uppi og við höfum verið að byggja hér upp búsetuúrræði sem er sérstaklega ætlað öldruðum. Við viljum auðvitað stækka byggðina okkar og höfum líka gert það á undanförnum árum. En við þurfum að gæta ákveðins jafnvægis í samfélaginu sem samanstendur af mörgum mjög ólíkum hópum.«

 

Sólheimar eru að mestu leyti sjálfbært samfélag og þar var farið að huga að lífrænni ræktun fyrir áratugum. »Lífræna ræktunin hófst strax í upphafi, árið 1930 og við vorum fyrst til að rækta á þennan hátt á Norðurlöndunum,« segir Guðmundur. Garðyrkja í gróðurhúsum Sólheima hefur tvöfaldast á undan förnum árum og nú eru þar árlega ræktuð meira en tíu tonn af tómötum, nær fimm tonn af gúrkum auk talsverðs af grænkáli, papriku og ýmsum kryddjurtum.

 

En margvísleg önnur starfsemi er á Sólheimum. Þar er skógræktarstöð, gistiheimili, kertagerð, jurtastofa þar sem m.a. eru framleiddar snyrtivörur, leirgerð, vefstofa, kaffihús, verslun, matvælaframleiðsla, smíðastofa, listhús og vefstofa. Einnig er fjölbreytt menningar-, fræðslu- og listastarfsemi á staðnum.

 

Þetta er allt mjög gott

Brekkukot sinnir rekstri bakarís og matvælavinnslu, þar sem m.a. eru búnar til kryddolíur og sultur. Þar eru líka bökuð brauð og kökur undir vörumerkinu Nærandi og öll framleiðslan er lífrænt vottuð og m.a. seld í verslun og kaffihúsi Sólheima og í nokkrum verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Einn þeirra sem þar starfa er Sigurður Gíslason. »Ég er að vinna hér við kökur og brauð,« segir Sigurður þegar blaðamaður spyr hann um starfssvið hans.  Það er ekki slæm vinna.  »Nei,« svarar Sigurður kátur og segir allt bakkelsið bragðast jafn vel. »Þetta er allt mjög gott.«

 

Í leirgerð Sólheima var hópur fólks önnum kafið við að renna, brenna og mála nýtt matar- og kaffistell fyrir Grænu könnuna, kaffihús staðarins. Þar starfa að jafnaði 4-6 manns og auk þess að framleiða borðbúnað fyrir kaffihúsið eru listmunir frá leirgerðinni seldir í versluninni Völu. Allir leirmunir eru búnir til frá grunni og eftirspurnin eftir þeim er mikil, því allt selst jafnharðan upp.

 

Þolinmóður Lego-meistari

Árni Alexandersson og Dísa Sigurðardóttir voru í kertasmiðjunni þegar Morgunblaðið bar að garði. Dísa var að hreinsa kertastubba, sem verða bræddir og verða að nýjum kertum en Árni segist að mestu vera hættur störfum. »En ég er mikið að teikna myndir. Svo er ég Lego-meistari Íslands og það er mitt aðaláhugamál.« Hvernig verður maður Lego-meistari?  »Ég er svo þolin móður, ég geri pínulítið á hverjum degi.« Árni hefur verið búsettur á Sólheimum í 64 ár, þangað flutti hann í september 1949, þá átta ára gamall. »Mér líkar mjög vel að vera hérna,« segir hann.

 

Alls staðar, í öllum húsum Sólheima, er verið að vinna, skapa, njóta. Hugmyndir verða að veruleika og sumar þeirra lenda á hillum Völu, sem er verslun staðarins. Þar lendir t.d. afrakstur prjónaskapar Ármanns Eggertssonar, sem var önnum kafinn við að prjóna trefil sem mun að lokum hlýja einhverjum heppnum viðskiptavini Völu. »Ég prjóna og er stundum að vefa mottur sem ég sel í búðinni. Á morgnana er ég í kertagerðinni,« segir Ármann.

 

Snyrtivörur frá Sólheimum

Í Jurtastofu Sólheima eru m.a. framleiddar sápur, krem og ýmsar snyrtivörur. Að sögn Guðmundar Ármanns eru snyrtivörurnar seldar víða, m.a. í heilsuvöruverslunum, í Hagkaupi og Fríhöfninni. Framleiðslan og salan hefur aukist verulega undanfarin ár og nú eru á ári hverju framleiddar um 7.000 sölueiningar af baðsalti, handsápu, varasalva og ýmsum kremum, eins og t.d. andlitskremum. Allt er þetta handunnið og lögð er áhersla á að sækja sem mest af hráefninu í land Sólheima.

 

Margt er að gerast á Sólheimum. Fjölbreytt framleiðsla, sambúð ólíkra hópa og öflugur vinnustaður. Hvernig samfélag eru Sólheimar?  »Við höfum byggt hér upp stað sem er ólíkur öllum öðrum stöðum og hyggjumst halda í þessa sérstöðu,« segir Eyrbekkingurinn Guðmundur Ármann.

Sólheimar.  Á Sólheimum hefur einstakt samfélag fatlaðra og ófatlaðra blómstrað frá árinu 1930.

Sólheimar voru stofnaðir af Sesselju Hreindísi Sigmundsdóttur árið 1930. Þá var Sesselja 28 ára gömul og hafði stundað nám í Danmörku, Þýskalandi og Sviss, en hún var fyrsti Íslendingurinn sem lærði umönnun þroskahamlaðra. Sólheimar voru stofnaðir sem barnaheimili, aðallega fyrir börn sem bjuggu við erfiðar heimilisaðstæður eða höfðu misst foreldra sína. Skömmu eftir stofnun Sólheima kom þangað fyrsta þroskahamlaða barnið, en á þessum tíma voru engin úrræði hér á landi fyrir þroskahamlaða. Sesselja lagði alla tíð áherslu á að Sólheimar væru heimili en ekki stofnun og að fatlaðir og ófatlaðir deildu þar lífskjörum.

Hún var brautryðjandi í uppeldismálum þroskahamlaðra hér á landi og ól upp fjölmörg fósturbörn. Þá var hún frumkvöðull í lífrænni ræktun, ekki bara hér á landi heldur líka á Norðurlöndunum og hefur verið kölluð fyrsti íslenski umhverfisverndarsinninn. Hún átti oft á brattann að sækja varðandi rekstur Sólheima, oft skorti á skilning á aðstæðum þeirra sem minna máttu sín og fjárveitingar hins opinbera til starfseminnar voru takmarkaðar, en flestar byggingar á svæðinu hafa verið byggðar fyrir gjafa- eða söfnunarfé. Sesselja lést árið 1972Morgunblaðið miðvikudagurinn 6. nóvember 2013

 

Skráð af Menningar-Staður

 

06.11.2013 21:01

Fyrsti fimmtudagslesturinn á Sunnlenska bókakaffinu

Vigdís Grímsdóttir.                                   Þórður Tómasson

 

Fyrsti fimmtudagslesturinn á Sunnlenska bókakaffinu

 

Vigdís Grímsdóttir, Þórður í Skógum og höfundar að tröllasögunni Tröllin í Esjufjalli mæta til leiks í fyrsta fimmtudagslestri Bókakaffisins á Selfossi þetta haustið og verður annað kvöld 7. nóv. 2013
Húsið verður opnað kl. 20:00 og upplestur hefst um kl. 20:30.
Vigdís Grímsdóttir sendi nýlega frá sér skáldævisöguna Dísusögu. Þórður Tómasson kynnir á þessu hausti sína 20. bók, stórglæsilegt rit um safnmuni í Skógasafni, sögu þeirra og hlutverk.
Þriðja bókin sem kynnt verður á fimmtudaginn er svo nýútkomin barnabók þeirra Katrínar Óskarsdóttur og Lilju Halldórsdóttur sem heitir Tröllin í Esjufjalli.
 
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

06.11.2013 05:46

Jólabasar Kvenfélags Eyrarbakka

Kaffinefnd Kvenfélags Eyrarbakka þann 1. maí 2013.

 

Jólabasar Kvenfélags Eyrarbakka

 

Hinn árlegi jólabasar Kvenfélags Eyrarbakka verður haldinn að Stað á Eyrarbakka sunnudaginn 1. desember kl. 14:00

Hlutavelta og kaffisala

 

Kvenfélagskonur þiggja muni sem hægt yrði að selja bæði sem basarvörur og sem hluti á tombólu.

 

Allur ágóði rennur til góðgerðarstarfsemi

 

Vinsamlegast komið munum til:

Nínu 841-9290

Stínu 483-1199

Þóreyjar 895-9992

 

Kvenfélag Eyrarbakka 

 

Skráð af Menningar-Staður

06.11.2013 05:26

Rólegan æsing

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Þórir Garðarsson.

 

Rólegan æsing

Eftir Þóri Garðarsson

 

Engin ástæða er til að taka einhverjar skyndiákvarðanir um gjaldtöku af ferðamönnum til að fjármagna viðhald vinsælla áfangastaða. Orðið náttúrupassi, eins fallegt og það nú hljómar, má ekki blinda sýn á viðfangsefnið.

Til að byrja með liggur ekkert fyrir um hversu mikla fjármuni þarf til að vernda vinsæla ferðamannastaði. Í skýrslu Umhverfisstofnunar um ástand friðlýstra svæða, sem kom út á þessu ári, segir að sex svæði séu í verulegri hættu að tapa verndargildi sínu eða hafi tapað því að hluta til. Umhverfisstofnun telur mikilvægt að hafa landverði á þessum svæðum eða fjölga þeim. Stofnunin leggur einnig til að verndaráætlun sé gerð, merkingar og aðstæður bættar og hugað að takmörkun á fjölda ferðamanna.

Hvað kostar einn landvörður?

Áður en öll ferðaþjónustan verður sett í uppnám vegna fyrirætlana um að mjólka ferðamenn til að ráðast í þessar umbætur væri ágætt að fá kostnaðinn á hreint. Hvað kostar að hafa landverði að störfum á eftirsóttustu svæðunum yfir sumartímann? Hvað kostar að bæta merkingar og aðstöðu? Eru þetta slíkar upphæðir að setja þurfi á sérstakan skatt til að bera kostnaðinn?

Ferðaþjónustan skilar nú þegar miklu

En umfram allt þarf að svara því hvort yfirleitt sé ástæða til að setja upp dýrt innheimtu- og eftirlitskerfi fyrir náttúrupassa í þessum tilgangi. Efnahagsleg áhrif ferðaþjónustunnar voru 324 milljarðar króna á síðasta ári samkvæmt skýrslu Gekon um virðisauka greinarinnar. Gjaldeyristekjur námu 178 milljörðum króna og beinar tekjur ríkisins af ferðaþjónustunni voru 30 milljarðar króna. Er ofrausn að lítill hluti af þessum tekjum fari til viðhalds og verndar á þeim náttúruperlum sem helst draga ferðamenn til landsins?

 

Varnaðarorð Alta

Ekki er minni ástæða til að benda á varnaðarorð í afar vandaðri skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Alta setti saman fyrir Ferðamálastofu um fjármögnun uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða. Alta bendir á að miðað við önnur lönd ráðstafi tiltölulega margir erlendir ferðamenn, sem hingað koma, fé í einu lagi fyrir allt þrennt: langt flug, gistingu til fremur langs tíma og fyrir önnur útgjöld meðan á ferðinni stendur. Af því leiðir meiri víxláhrif verðteygni milli ólíkra þjónustuþátta. Hækkun á verði á einum stað hafi áhrif á eftirspurn eftir þáttunum öllum, jafnvel álíka mikil.

 

Tekjurnar gætu lækkað

Með öðrum orðum, það skiptir ekki máli hvar eða hvernig hækkun á útgjöldum ferðamannsins verður, með greiðslu fyrir náttúrupassa eða eitthvað annað, hún hefur alltaf áhrif á ákvörðun hans um að koma hingað til lands. Innheimta náttúruskatts gæti því leitt til fækkunar ferðamanna. Tekjur ríkissjóðs lækka um 600 milljónir króna ef ferðamönnum fækkar um 2% frá því sem nú er.

 

Bitnar á landsbyggðinni

En ef yfirleitt á að taka upp nýjan skatt á ferðamenn, þá verður hann að gilda fyrir alla ferðamenn, ekki bara þá sem ætla út fyrir höfuðborgina til að skoða náttúruperlur. Annars er hætta á að landsbyggðin verði af heimsóknum ferðamanna sem vilja spara sér þessa skattgreiðslu.

 

Höfundur er sölu- og markaðsstjóri Iceland Excursions Allrahanda ehf.

 

Frá Eyrarbakka þangað sem koma margir erlendir ferðamenn.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

06.11.2013 05:15

Reiðileg símtöl að næturlagi

Guðni Ágústsson.

 

Reiðileg símtöl að næturlagi

Eini ráðherrann sem naut svefnfriðar um helgar

 

Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, segir frá því í nýrri bók sinni, "Guðni- léttur í lund"  að þegar hann var í ríkisstjórn hafi oft verið hringt í ráðherrana um nætur og þeim jafnvel hótað. Guðni kannaðist ekki við slíkt og sagði samráðherrum sínum að hann fengi að sofa vært án truflana og hótana.

 

„Nokkru síðar hitti ég mann sem heitir Guðni Ágústsson og býr á Brúnastöðum 36 í Reykjavík. Segir hann mér farir sínar ekki sléttar, hann sé oft vakinn upp um nætur af reiðu fólki sem vilji tala við landbúnaðaráðherrann... Ég þakkaði nafna mínum þessa miklu vakt sem gæfi mér, einum allra ráðherra, svefnfrið um helgar,“ skrifar landbúnaðarráðherrann fyrrverandi í bók sinni.

 

Morgunblaðið miðvikudagurinn 6. nóvember 2013

 

Skráð af Menningar-Staður