Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Nóvember

13.11.2013 06:07

Merkir Íslendingar - Árni Magnússon

Árni Magnússon

 

Merkir Íslendingar - Árni Magnússon

 

Í dag eru 350 ár frá fæðingu Árna Magnússonar handritasafnara. Hann fæddist á Kvennabrekku í Dölum þann 13. nóvember 1663, sonur Magnúsar Jónssonar, prests á Kvennabrekku og síðar lögsagnara, og Guðrúnar, dóttur Ketils Jörundssonar, prests í Hvammi.

Árni ólst upp hjá Katli, afa sínum, og síðan móðurbróður, Páli, prófasti í Hvammi og síðar á Staðarstað.

Árni lauk stúdentsprófi frá Skálholtsskóla 1683, guðfræðiprófi við Kaupmannahafnarháskóla, varð aðstoðarmaður fornfræðingsins Tómasar Bartholins, bókavörður M. Moths, yfirsekretera í kanzellíinu, varð prófessor 1694, ritari við hið konunglega leyndarskjalasafn í Kaupmannahöfn 1697 og í raun yfirstjórnandi safnsins frá 1725.

Samkvæmt konungsboði var Árna og Páli Vídalín falið jarðamat, manntal og ýmsar aðrar rannsóknir á Íslandi 1702 og stóð verkið yfir af hálfu Árna til 1712. Úr varð hin fræga Jarðabók Árna og Páls sem er ómetanleg heimild um hagi Íslendinga í byrjun 18. aldar.

Árni fór í rannsókna- og bókakaupsferðir til Noregs og Þýskalands, en er þekktastur fyrir bókfells- og handritasöfnun sína hér á landi og fyrir flutning á þeim handritum til Kaupmannahafnar þar sem þau voru rannsökuð, skrifuð upp og sum hver búin til prentunar.

Í brunanum mikla í Kaupmannahöfn 20. október 1728 brann þar bókasafn háskólans og hluti af bókasafni Árna, þrátt fyrir þrotlaust björgunarstarf. Talið er að þar hafi glatast ýmis mikilvæg íslensk handrit.

Árni var umbótasinnaður húmanisti. Það eina sem birtist á prenti eftir hann var skýrsla um síðustu galdramálin í Danmörku þar sem hann sýnir fram á fáránleika þeirra.

Árni og Þórdís Jónsdóttir, biskups á Hólum Vigfússonar (Snæfríður Íslandssól), eru gerð að aðalsögupersónum ástarsögunnar í Íslandsklukku Halldórs Laxness.

Við Árna eru kenndar Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og Den Arnamagnæanske Samling í Danmörku. Árni lést 7. janúar 1730.

 

Morgunblaðið miðvikudagurinn 13. nóvember 2013

Við Kaupmannahafnarháskóla.

 

Skráð af Menningar-Staður

12.11.2013 22:38

Frá ferðaþjónustuklasa Flóahrepps

Félagslundur í Flóahreppi.

 

Frá ferðaþjónustuklasa Flóahrepps

 

Ferðaþjónustuklasi Flóahrepps vinnur að því að efla heimasíðu Flóahrepps með því að bæta inn á síðuna upplýsingum um sögu svæðisins, áhugaverða staði, ferðaþjónstufyrirtæki, menningu og viðburði sem er í gangi hverju sinni.

Auk þess er áhugi fyrir því að hafa lið á síðunni sem bæri heitið atvinnulíf þar sem verða upplýsingar um alla þá aðila sem eru með rekstur í sveitarfélaginu. Rekstaraðilar í Flóahreppi eru hvattir til að skrá sig með því að senda póst á netfangiðidunnyrasgeirsdottir@gmail.com eða í síma 865-1454. Einnig er hægt að hafa samband við skrifstofu Flóahrepps í síma 480-4370.

 

Fyrir hönd ferðaþjónustuklasa Flóahrepps

Iðunn Ýr Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri ferðaþjónustuklasa.

Af www.floahreppur.is

Félagslundur í Flóahreppi

Skráð af Menningar-Staður

12.11.2013 21:10

Kveikt á jólaljósunum við Bókasafnið á Selfossi fim. 14. nóv. kl. 17:40

Við Ráðhús Árborgar og Bókasafnið á Selfossi.

 

Kveikt á jólaljósunum við Bókasafnið á Selfossi

fimmmtudaginn 14. nóv. kl. 17:40

 

Fimmtudaginn 14. nóvember nk. kl. 18:00 verður kveikt á jólaljósunum fyrir framan Bókasafnið á Selfossi.

Dagskráin hefst kl. 17:40 með ávarpi  Eyþórs Arnalds.

Yngri barnakór Selfosskirkju syngur undir stjórn Edit Molnár og nokkrir ungir tónlistarmenn úr félagsmiðstöðinni Zelsíuz syngja.

 

Á slaginu 18:00 kveikir svo yngsta afmælisbarnið sem búsett er í sveitarfélaginu á jólaljósunum ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins.  Skátafélagið Fossbúar býður upp á kakó fyrir gesti og gangandi og verslanir verða með opið lengur þetta kvöldið. 

 

Öllum er velkomið að mæta og taka þátt í upphafi Jóla í Árborg 2013. 

Af www.arborg.is

 

Skráð af Menningar-Staður
 

12.11.2013 20:45

Veiða fjórðung humarkvótans

Humarkóngar

Ásgeir Ingvi og Jón Páll með gaddfrosinn humar. Humarinn er frystur með fljótandi köfnunarefni.

 

Veiða fjórðung humarkvótans

Rammi er ein stærsta humarútgerð á landinu

 

Rammi hf. er sjávarútvegsfyrirtæki sem meðal annars er með vinnslu og útgerð í Þorlákshöfn. Í vinnslu hjá fyrirtækinu starfa ríflega 40 manns að jafnaði, en Rammi gerir út tvö skip frá Þorlákshöfn, þannig að heildarstarfsmannafjöldi þar er á bilinu 60 til 70 manns.

Rammi er ein stærsta humarútgerð landsins, með rúmlega fjórðung kvótans, en um átta mánuði á ári veiða skip fyrirtækisins humar auk annars meðafla. Humarinn er allur flokkaður eftir kúnstarinnar reglum. Því stærri sem hann er, því verðmætari er hann. Humar sem ekki er hægt að selja heilan er slitinn í sundur. Halar, klær og hausar eru seld til mismunandi kaupenda.

Ásgeir Ingvi Jónsson, verkstjóri hjá Ramma, segir humarvinnslu aðallega ganga út á að stærðar- og gæðaflokka, því útlitið skipti lykilmáli.

»Við veiðum humarinn meðfram allri suðurströndinni. Núna er hann mest vesturfrá við Reykjanesið,« sagði rekstrarstjórinn Jón Páll Kristófersson.

»Hann veiðist alveg frá Hornafirði vestur í Jökuldjúp,« bætti Ásgeir við. Jón Páll sagði heila humarinn lengi vel aðallega hafa verið seldan á Spánarmarkað, en í ljósi efnahagsþrenginga þar hefði eftirspurn eftir dýrri vöru eins og humri minnkað og verð lækkað. Aukin sala á aðra markaði í Evrópu, Kanada og til Kínahafi hins vegar vegið það að nokkru leyti upp.

Morgunblaðið þriðjudagurinn 12. nóvember 2013

 

Rammaskipinn Fróði II og Jón á Hofi við bryggju í Þorlákshöfn

 

Skráð af Menningar-Staður

12.11.2013 07:17

Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember

 

Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember

 

Að tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur menntamála- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.

 

Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg og efndu til viðburða af þessu tilefni. Má þar nefna fjölmiðla, skóla, stofnanir og félög. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar. Íslandsbanki veitti verðlaunaféð og hefur gert síðan. Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur með svipuðu sniði og sífellt fleiri aðilar taka virkan þátt í honum með ýmsu móti.

 

Íslendingar hafa verið hvattir til að draga íslenska fánann að húni á degi íslenskrar tungu.

 

Skráð af Menningar-Staður

12.11.2013 06:20

Nýir rekstraraðilar á veitingastaðnum Rauða húsið

Rauða-húsið á Eyrarbakka.

 

Nýir rekstraraðilar á veitingastaðnum Rauða húsið

 

Nýir rekstraraðilar hafa tekið við fyrir nokkru í hinu rómaða Rauða húsi á Eyrarbakka, en það eru þeir Stefán Kristjánsson og Stefán Ólafsson. 

Nýr mat-, og vínseðill, áhersla á ferskt hráefni úr matarkistu Suðurlands.

 

Stefán Kristjánsson er 51 árs matreiðslumaður, en hann lærði fræðin sín á Hótel Esju á árunum 1979 til 1983 ásamt því að læra bakarameistarann árið 1988 í Smárabakaríi og Kondidorí í Danmörku árið 1991.  Stefán hefur unnið til margra viðurkenninga og verðlauna á starfsferlinum sínum og er meðlimur í Klúbbi Matreiðslumeistara.  Stefán hefur Starfað óslitið við þessa iðn frá því að námið hófst 1979 bæði erlendis og heima. Stefán hefur verið mikið í eigin rekstri í bland við störf hjá öðrum. Síðast var Stefán vaktstjóri á Hótel Rangá.

 

Stefán Ólafsson er 40 ára barþjónn og lærði þau fræði í Hannover í Þýskalandi árið 1997.  Vann til margra verðlauna bæði á sviði kokkteil gerðar og sem viskí sérfræðingur.  Stefán vann við fagið í Þýskalandi til ársins 2005 þegar hann hélt aftur til Íslands og fór að vinna á Radisson SAS 1919 hóteli,  Hilton Nordica Reykjavík og sem yfirþjónn á Hótel Rangá.  Stefán er meðlimur í Barþjónasamtökum Íslands sem og Barþjónasamtökum Þýskalands. 

 

Af - http://veitingageirinn.is/nyir-rekstraradilar-a-veitingastadnum-rauda-husid/

 

.

Skráð af Menningar-Staður

 

Skráð af Menningar-Staður

 

11.11.2013 23:17

Opið fyrir umsóknir um Eyrarrósina

Skálholtsdómkirkja.

 

Opið fyrir umsóknir um Eyrarrósina

 

Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík veita viðurkenningu til framúrskarandi menningarverkefna í tíunda sinn.Umsóknarfrestur er til 15. nóvember. 

Sótt er um rafrænt á eyrarros@artfest.is og nánari upplýsingar er að finna hér

Eyrarrósin, viðurkenning til framúrskarandi menningarverkefna á starfssvæði Byggðastofnunar, verður veitt í tíunda sinn í febrúar 2014. Það eru Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík sem staðið hafa saman að verðlaununum frá upphafi.

Handhafi Eyrarrósarinnar hlýtur 1.650.000 krónur og flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Aðrir tilnefndir hljóta 300.000 krónur auk flugferða. Umsækjendur  um Eyrarrósina geta meðal annars verið stofnun, tímabundið verkefni, safn eða menningarhátíð. Valnefnd tilnefnir þrjú verkefni og hlýtur eitt þeirra Ey Eyrarrósin beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Viðurkenningin er mikilvæg enda um veglega upphæð að ræða, og tilnefning til Eyrarrósar er einnig mikilsverður gæðastimpill fyrir þau afburða menningarverkefni sem hana hljóta.

Fyrri Eyrarrósarhafar eru:

Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi, Safnasafnið á Svalbarðsströnd, Sumartónleikar í Skálholtskirkju, Bræðslan, Landnámssetrið í Borgarnesi, Aldrei fór ég suður, Strandagaldur á Hólmavík, LungA, listahátíð ungs fólks á Austurlandi og Þjóðlagahátíðin á Siglufirði.

 

Umsóknarfrestur um Eyrarrósina 2013 er til 15. nóvember 2013.

Nánari upplýsingar eru á vef Listahátíðar í Reykjavík, www.listahatid.is.

 

Í Skálholtsdómkirkju.

 

Skráð af Menningar-Staður

11.11.2013 21:47

Viðurkenning á degi gegn einelti 2013

Þorláki Helgasyni framkvæmdastjóra Olweusarverkefnisins var veitt viðurkenning fyrir ötult starf í baráttunni gegn einelti í skólum

Þorláki Helgasyni á Selfossi, framkvæmdastjóra Olweusarverkefnisins,

var veitt viðurkenning þann 8. nóvember sl. fyrir ötult starf í baráttunni gegn einelti í skólum.

 

Viðurkenning á degi gegn einelti 2013

8. nóvember 2013 er árlegur baráttudagur gegn einelti.

Í tilefni dagsins ákvað  verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti að veita Þorláki Helgasyni framkvæmdastjóra Olweusarverkefnisins gegn einelti viðurkenningu  fyrir ötult starf í baráttunni gegn einelti í skólasamfélaginu.

Viðurkenning fyrir starf gegn einelti var veitt í fyrsta skipti í fyrra þegar kvennalandsliðið í knattspyrnu fékk hana fyrir skilaboð gegn einelti og mikilvægi þess að fagna fjölbreytileikanum.


Olweusaráætlunin gegn einelti hefur verið virk á Íslandi í rúman áratug eða frá árinu 2002. Hún teygir sig inn í allt skólasamfélagið, hefur í mörgum skólum gjörbreytt vinnulagi og lagt drjúgan skerf til skólaþróunar í landinu.  Yfir  80 skólar hafa verið hluti af áætluninni  og samtals yfir 100 þúsund nemendur hafa tekið þátt í könnunum sem lagðar eru fyrir í skólunum á hverju ári. Um 80 verkefnastjórar hafa verið menntaðir til að verða faglegir leiðbeinendur í skólunum, styðja við innleiðingu Olweusaráætlunarinnar og til að halda kerfinu við. Mikilvæg þekking, reynsla og hæfni hefur orðið til í skólasamfélaginu með verkefninu. Reynsla kennara og annarra starfsmanna hefur einnig færst milli skóla sem ekki teljast sérstaklega Olweusarskólar.

Þorlákur Helgason hefur verið umsjónarmaður Olweusaráætlunarinnar hér á landi frá upphafi og sat áður í starfshópi á vegum menntamálaráðuneytisins um mótun aðgerða gegn einelti í skólum. Verkefnið var í fyrstu rekið sem tilraunaverkefni í samstarfi ýmissa aðila en undanfarin ár hefur Þorlákur verið sjálfstæður framkvæmdastjóri Olweusarverkefnisins og hefur notið stuðnings stjórnvalda og annarra aðila til að halda verkefninu gangandi. Sem umsjónarmaður Olweusaráætlunarinnar hefur hann tengst ýmsum þáttum skólastarfs, ekki síst þeim sem beint eða óbeint varða velferð nemenda og
allra aðila í skólasamfélaginu. Hann hefur miðlað þekkingu og reynslu vítt og breitt innanlands og veitir þátttökuskólunum stuðning við innleiðingu og ráðgjöf um eineltismál og skólabrag. Hann hefur sýnt mikla þrautseigju og úthald við að halda Olweusaráætluninni gangandi og unnið að ýmsum þróunarverkefnum til að bæta verkefnið enn frekar. Einnig sér hann um framkvæmd árlegrar könnunar á umfangi eineltis í þátttökuskólunum og sér um kynningu á niðurstöðum og veitir ráðgjöf um úrbætur. Þorlákur hefur haft óbilandi trú á Olweusaráætluninni og lagt mikið á sig við að stuðla að útbreiðslu hennar, vexti og viðgangi. Í þeim skólum sem hafa unnið markvisst að innleiðingu áætlunarinnar hefur umtalsverður viðvarandi árangur náðst í því að draga úr einelti og bæta skólabrag og jafnframt mótast verklag þar sem brugðist er markvisst við einelti sem upp kemur.

 

Af www.stjornarrad.is

Skráð af Menning-Staður

11.11.2013 06:26

Sígildar sögur Guðna

Guðni Ágústsson.

 

Sígildar sögur Guðna

• Guðni Ágústsson sendir frá sér nýja bók 

• Hann útilokar ekki að hann eigi eftir að skrifa skáldsögu

 

Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur sent frá sér bókina Guðni - Léttur í lund, og fagnar útkomu hennar á morgun, þriðjudaginn 12. nóvember, með útgáfuteiti í Hannesarholti í Reykjavík sem hefst klukkan 17. Í þessari nýju bók segir Guðni sögur af fólki sem hann hefur mætt á lífsleiðinni.

 

„Þetta eru sígildar sögur, bæði nýjar og gamlar, sumar hef ég flutt á ýmsum samkomum og þær hafa alltaf fallið í jafn góðan farveg,“ segir Guðni. „Ég er að halda utan um minningar um skemmtilega samferðamenn sem mér þykir vænt um og ég vona að enginn reiðist eða móðgist. Þarna eru sögur og skemmtilegar vísur, ekki síst eftir samferðamenn mína á þingi sem settu svip á Alþingi. Svo eru líka í bókinni sögur sem ýmsir vinir segja af samskiptum við mig. Ég skrifaði þessa bók á rigningasumri og þá var auðvelt að sitja inni og skrifa.

Bókin á erindi við bæði unga og aldna og ég hlakka til að ferðast um og lesa upp úr henni. Þegar við Sigmundur Ernir gáfum út ævisögu mína ferðuðumst við um landið og ég las upp úr henni og áritaði. Það var ákaflega skemmtilegt. Nú þegar hef ég fengið góð viðbrögð við þessari nýju bók. Ég er að lesa bókina inn á hljóðbók með minni sérstæðu rödd. Svonefndar Guðnasögur, innsendar sögur sem fjalla um mig og samskipti annarra við mig, les ég hins vegar ekki sjálfur því mér fannst það ekki passa. Þannig að ég fékk vin minn, Pál Magnússon útvarpsstjóra, til að lesa þær. Það er gott að fá þá fallegu rödd inn á hljóðbókina.“

Heldurðu að þú eigir eftir að skrifa fleiri bækur?

„Það vona ég. Ég er með nóg af hugmyndum og það væri gaman að skrifa skáldsögu. Við sjáum bara til. Ég les mikið af skáldsögum og það væri gaman að spreyta sig á því að skrifa eins og eina.“

Held að ég hafi bjargað flokknum

Saknarðu þess stundum að vera ekki lengur í pólitík?

„Ég held að það sé vakað yfir mér. Á örlagastundu hætti ég, ekki bara sem formaður Framsóknarflokksins heldur lét einnig af þingmennskunni og krafði grasrótina um að velja sér nýjan forystumann. Sigurmundur Davíð Gunnlaugsson var valinn, kom nánast óþekktur maður inn í pólitík, og er nú forsætisráðherra og á alla möguleika, ef hann vill, að beita oddinum fast og bjarga landinu og þessari þjóð.

Ég get sagt þér alveg eins og er að ég hef ekki eitt einasta augnablik séð eftir þeirri ákvörðun minni að hætta í pólitík. Hún kom eins og elding ofan í hausinn á mér eftir átakafund. Ég var umdeildur stjórnmálamaður, ekki síst í mínum flokki og þar voru viðvarandi átök ríkjandi um stefnu og Evrópumálin. Framsóknarflokkurinn hafði þróast þannig þá að hann hafði fjarlægst sína grundvallarstefnu og var töluvert umbreyttur flokkur, en hefur nú rétt kúrsinn af á ný.

Ég held að ég hafi bjargað flokknum og kallað fram nýja forystu sem var mikilvægt eftir hrunið. Ég var á móti því að við gengjum í Evrópusambandið og hef haldið vel utan um allt það sem íslenskt er. Ég ann þessu landi og þessari þjóð.

Ég held að ég hefði orðið vitlaus ef ég hefði verið áfram í þinginu, minn tími var kominn að hætta. Lífið hefur eins og alltaf leikið við mig eftir að ég hætti í pólitík. Ég á góðar minningar og hef bara kynnst góðu fólki. Mér líður vel innan um fólk og er alls staðar vel tekið. Ég er alsæll.“

Verðum að nenna að vinna

Jón Gnarr vill ekki lengur vera borgarstjóri, hvað finnst þér um það?

„Jón Gnarr kom utan úr geimnum, eins og furðuvera, og hefur sjálfsagt staðið sig vel á margan hátt. En þeir geta ekki vikið sér undan því, hann og Dagur B. Eggertsson, að fjárhagslega hefur borgin farið illa á kjörtímabilinu.

Jón Gnarr ruglaði spilin í pólitíkinni og hefur verið einvaldur þetta kjörtímabil og engin stjórnarandstaða í Reykjavík hefur verið til. Það eru miklir möguleikar eftir að svæði Jóns Gnarr stendur autt – en ekki fyrir sams konar mann og hann því þannig maður finnst aldrei – heldur fyrir alvörufólk sem vinnur ötullega að málefnum Reykjavíkur. Borgin hefur verið á röngu róli undir stjórn Jóns Gnarr, eins og í flugvallarmálinu því flugvöllurinn á að vera í Vatnsmýrinni.“

Nú hrynur fylgið af þínum flokki, Framsóknarflokknum. Hvað segirðu um það?

„Þetta gerist þegar menn hafa stuttan tíma til að vinna sín kraftaverk. Stóra réttlætismálið er að fella að hluta til niður skuldir heimilanna, eins og Sigmundur og Framsóknarflokkurinn lofuðu. Það þýðir ekkert hjá íhaldinu að berjast gegn því. Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti í stjórnarsáttmála að þetta væri leið sem ríkisstjórnin myndi fara og ber orðið jafn mikla ábyrgð á því fyrirheiti og Framsóknarflokkurinn. Lausn á þessum málum þarf að liggja fyrir núna um jólin. Þá hættir Framsóknarflokkurinn að minnka og ætti frekar að stækka.

Það er áróður í gangi þar sem fullyrt er að Framsóknarflokkurinn ætli að svíkja þetta kosningaloforð sitt. Ég trúi því ekki. Verði þetta mikilvæga mál að veruleika munum við sjá breytingar varðandi lífsgleði í landinu og um leið bjargast ríkisstjórnin. Ef þetta klúðrast og verður svikið, sem ég trúi ekki, er ríkisstjórnin dauð. Þá bjargast hún ekki.

Þegar landið fer svo að rísa undir forsæti Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar þá breytist pólitíkin og Alþingi mun vaxa að virðingu og vinsældum. Svo verðum við Íslendingar líka að vekja upp allt það besta sem í okkur býr og nenna að vinna. Burt með atvinnuleysi og landflótta. Það er vinnan sem gerir okkur að fólki.

Við þurfum einnig að klára uppgjörið við hrunið. Viðskiptajöfrar fóru illa með okkur og eru margir útlagar í huga fólksins. Sjálfur var ég svo heppinn að mennirnir sem settu Ísland á hliðina fundu alltaf fjósalyktina af mér. Þeir vissu að ég væri sveitamaður en það jafngildir líka heiðarleika. Þeir kalla það að vera gamaldags.

En við sem þjóð megum ekki endalaust lifa í harmi heldur horfa björtum augum fram á veginn í landi sem getur orðið eitt framsæknasta ríki veraldar.“

Morgunblaðið mánudagurinn 11. nóvember 2013

 

Mynd Kæru vinir!

Allir velkomnir að gleðjast með okkur Guðna.

 

Skráð af Menningar-Staður

11.11.2013 06:09

Merkir Íslendingar - Matthías Jochumsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Matthías Jochumsson.

 

Merkir Íslendingar - Matthías Jochumsson

 

Matthías Jochumsson, prestur og skáld, fæddist á Skógum í Þorskafirði, A-Barð þann 11. nóvember 1835. Foreldrar hans voru Jochum Magnússon, bóndi á Skógum, og k.h. Þóra Einarsdóttir í Skáleyjum Ólafssonar.

 

Matthías fór út í Flatey sextán ára gamall þar sem hann var við verslunarstörf og fór til Kaupmannahafnar veturinn 1856-57 í verslunarnám. Hann gekk síðan í Latínuskólann 1859, varð stúdent 1863 og lauk prestsnámi 1865.

Matthías fékk Kjalarnesþing, 1866, síðan Hjaltabakka 1870 og var prestur þar til 1873 þegar hann fékk lausn frá prestskap. Hann hafði orðið fyrir miklum áföllum í einkalífi sínu. Hann hafði kvænst tvisvar en fyrri kona hans lést eftir tvö ár í búskap en sú seinni lést eftir tæpt eitt ár í hjónabandi.

Matthías ferðaðist til Evrópu, m.a. til Bretlands þar sem hann samdi Lofsöng, sem varð síðan þjóðsöngur Íslendinga, veturinn 1873-74. Hann varð ritstjóri Þjóðólfs 1874-1880. Matthías varð síðan prestur í Odda í sex ár, sótti þá um Akureyrarbrauð og var prestur á Akureyri þar til undir aldamótin þegar hann fékk skáldalaun frá Alþingi. Matthías varð heiðursdoktor í guðfræði í Háskóla Íslands 1920 og heiðursborgari Akureyrarbæjar sama ár.

Ljóðmæli Matthíasar voru fyrst gefin út 1884, og eftir hann liggja mörg ritverk og kvæði. Hann fékkst við leikritun og naut skólaverk hans um Skugga-Svein mikilla vinsælda en það kom út 1864. Af öðrum leikritum má nefna Helga magra og Jón Arason. Hann gaf út ferðabækur, m.a. Chicagóför mín, Frá Danmörku og Ferð um fornar slóðir. Matthías var einnig mikilvirkur þýðandi; hann þýddi nokkur leikverka Williams Shakespeares, og verk eftir Byron lávarð og Henrik Ibsen. Hann gaf út endurminningar sínar, Sögukaflar af sjálfum mér.

Þriðja kona Matthíasar var Guðrún Runólfsdóttir, en hún lifði Matthías, f. 7.6. 1851, d. 6.11. 1923. Þau áttu ellefu börn.

Matthías lést 18. nóvember 1920

 

Morgunblaðið mánudagurinn 11. nóvember 2013 - Merkir Íslendingar

 

Minnisvarði um Matthías Jochumsson í Þorskafirði.

 

Skráð af Menningar-Staður