Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Desember

10.12.2013 06:13

Merkir Íslendingar - Jón Guðmundsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Jón Guðmundsson.

 

Merkir Íslendingar - Jón Guðmundsson

 

Jón Guðmundsson, ritstjóri Þjóðólfs, fæddist í Melshúsum í Reykjavík 10. desember 1807. Foreldrar hans voru Guðmundur Bernharðsson í Melshúsum og Ingunn Guðmundsdóttir.

Eiginkona Jóns var Hólmfríður, systir Þuríðar, langömmu Vigdísar Finnbogadóttur og Önnu, móður Matthíasar Johannessen skálds.

Jón lærði fyrst hjá séra Þorvaldi Böðvarssyni, prófasti og skáldi í Holti í Önundarfirði og síðar Holti undir Eyjafjöllum er síðar varð tengdafaðir hans. Hann fór í Bessastaðaskóla 1824, ári á eftir Jónas Hallgrímssyni, jafnaldra sínum, en missti tvö ár úr skóla vegna veikinda og var haltur síðan. Hann lauk stúdentsprófi 1832.

Jón var skrifari hjá landfógeta og settur til að gegna embætti hans um hríð 1836, var umboðsmaður Kirkjubæjarklaustursjarða 1837-47 og bjó þar, var settur sýslumaður í Skaftafellssýslu 1849 en fór utan til laganáms 1850 og lauk því ári síðar.

Jón hafði verið fulltrúi Íslands á stjórnlagaþingi Dana 1848-49. Hann var fulltrúi á Þjóðfundinum í Reykjavík 1851 og var þar í forystu, ásamt Jóni Sigurðssyni, þar sem barist var fyrir landsréttindum Íslendinga. Hann fór utan það ár, ásamt nafna sínum, í erindum Þjóðfundarins, en í banni stiftamtmanns. Við það missti hann sýslumannsembættið og von um frekari embættisveitingar.

Jón var ásamt nafna sínum einn helsti leiðtogi sjálfstæðisbaráttunnar um og eftir þjóðfundinn 1851. Hann eignaðist blaðið Þjóðólf í Reykjavík 1852 og ritstýrði því til 1874 en blaðið kallaði hann „blað lýðsins og þjóðernisflokksins – oppositionsblað“. Hann var alþm. Skaftfellinga 1845-58, Vestur-Skaftfellinga 1858-69 og kosinn alþm. Vestmannaeyja 1874 og bæjarfulltrúi í Reykjavík 1856-68. Þá var hann málflutningsmaður við landsyfirréttinn frá 1858 til æviloka. Einar Laxness ritaði ævisögu Jóns Guðmundssonar, sem gefin var út af Sögufélagi og Ísafold 1960, og annaðist einnig útgáfu bréfa Jóns ritstjóra til Jóns forseta 1845-1855.

Jón lést 31. maí 1875

Morgunblaðið þriðjudagurinn 10. desember 2013 - Merkir Íslendingar

Þjóðfundarmálverk Gunnlaugs Blöndal, fullgert 1956. Hangir í Alþingishúsinu.

 

Skráð af Menningar-Staður

 

09.12.2013 21:44

Séra Sveinn Valgeirsson á Eyrarbakka: - Fyrsta starfið

Séra Sveinn Valgeirsson í Eyrarbakkakirkju.

 

Séra Sveinn Valgeirsson á Eyrarbakka: - Fyrsta starfið


Ég byrjaði að selja Dagblaðið tíu ára gamall. Tónaði „Dag-blað-ið“ niður alla Hverfisgötu.

Seinna, þegar ég var kominn í guðfræðina og farinn að læra litúrgísk söngfræði, þá lærði ég að Kristur er upprisinn er nákvæmlega eins tónsett.

Tilviljun?

 

Morgunblaðið sunnudagurinn 8. Desember 2013

Séra Sveinn Valgeirsson og gestir úr Dómkirkjusöfnuðinum í Eyrarbakkakirkju.

 

Skráð af Menningar-Staður

09.12.2013 07:09

Jón Sigurðsson kvaddur eftir rúm 41 ár á Litla-Hrauni

Jón Sigurðsson og Margrét Frímannsdóttir.

 

Jón Sigurðsson kvaddur eftir rúm 41 ár á Litla-HrauniJón Sigurðsson, deildarstjóri og staðgengill forstðumanns á Litla-Hrauni, lét af störfum í haust eftir rúm 41 ár í starfi þar.

Jón Sigurðsson er fæddur og uppalinn á Eyrarbakka. Kona hans er Sigríður Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur og búa þau nú í Hafnarfirði þangað sem þau fluttu frá Eyrarbakka fyrir nokkrum árum.


Fangaverðir og strafsfólk á Litla-Hrauni áttu starfslokastund með Jóni Sigurðssyni á Hótel Selfossi þann 6. desember sl. við upphaf jólahlaðborðs starfsmanna.

Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður á Litla-Hrauni, ávarpaði  Jón og þakkaði farsæl störf hans á Litla-Hrauni og hið ljúfa viðmót alla tíð.

Myndaalbúm komið hér á Menningar-Stað
Smella á þessa slóð:http://menningarstadur.123.is/photoalbums/255589/


 

Nokkrar myndir hér:

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

09.12.2013 06:35

Merkir Íslendingar - Hemmi Gunn

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Hermann Gunnarsson.

 

Merkir Íslendingar - Hemmi Gunn

 

Hermann Gunnarsson fæddist á Bárugötunni í Reykjavík  9. desember 1946. Foreldrar hans voru Björg Sigríður Hermannsdóttir húsfreyja og Gunnar Gíslason vélstjóri. Gunnar var bróðir Jóhanns lögfræðings og Guðmundar forstjóra B&L, föður Gísla, fyrrv. forstjóra B&L, föður Ernu, forstjóra BL. Björg Sigríður var systir hins gamalkunna markvarðar, Hermanns í Val, og systir Kristbjargar, móður Kolbeins, landsliðsmanns í körfuknattleik, og Vigdísar, landsliðskonu í handknattleik Pálsbarna.

Hermann átti þrjú systkini.

Börn Hermanns: Sigrún, f. 1971; Þórður Norðfjörð, f. 1973; Hendrik Björn, f. 1975; Björg Sigríður, f. 1983; Edda, f. 1986, og Eva Laufey Kjaran, f. 1989.

Hermann lauk prófum frá Verslunarskólanum. Hann var einn fremsti knattspyrnumaður hér á landi á sjöunda áratugnum, varð fjórum sinnum Íslandsmeistari með Val, þrisvar bikarmeistari, var kosinn Knattspyrnumaður ársins 1968, lék með Eisenstadt í Austurríki 1969, varð þrisvar markakóngur og lék 20 A-landsleiki. Auk þess var hann landsliðsmaður í handbolta.

Hermann var blaðamaður og auglýsingastjóri Vísis 1967-69, skrifstofumaður á Skattstofu Reykjavíkur 1972-77, frétta- og íþróttafréttamaður á RÚV 1977-85, dagskrárgerðarmaður á Bylgjunni 1986-87 og hjá Sjónvarpinu frá 1987 þar sem hann stjórnaði vinsælasta íslenska sjónvarpsskemmtiþætti fyrr og síðar, Á tali hjá Hemma Gunn. Auk þess var hann fararstjóri hjá Útsýn og Veröld um skeið og skemmti með Sumargleðinni.

Vorið 2005 hóf göngu sína nýr tónlistargetraunaþáttur undir stjórns Hermanns, Það var lagið, sem sýndur var á Stöð 2. Þá stjórnaði hann þættinum Í sjöunda himni á Stöð 2 veturinn 2006-2007.

Hermann var einstaklega elskulegur, opinn og skemmtilegur en átti ekki alltaf sjö dagana sæla í oft einmanalegu einkalífi. Hann varð bráðkvaddur í Taílandi 4. júní 2013.

Morgunblaðið mánudagurinn 10. desember 2013 - Merkir Íslendingar.

Hermann Gunnarsson á upprunslóð í Dýrafirði þar sem hann dvaldi oft.Skráð af Menningar-Staður

08.12.2013 21:37

Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku

Ásgeir Margeirsson verður forstjóri HS Orku frá 1. jan. 2014.

 

Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku

 

Ásgeir Margeirsson mun taka við starfi forstjóra HS Orku hf. af Júlíusi Jónssyni sem hefur gegnt starfi forstjóra fyrirtækisins og forverans, Hitaveitu Suðurnesja hf, frá 1992 og starfi fjármálastjóra Hitaveitu Suðurnesja frá 1982. Júlíus verður áfram forsjóri HS Veitna hf.

Ásgeir Margeirsson hefur setið í stjórn HS Orku og Hitaveitu Suðurnesja frá 2007 og verið stjórnarformaður HS Orku frá 2010. Ásgeir er 52 ára, menntaður byggingarverkfræðingur frá Háskóla Íslands og Tækniháskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hann lauk framhaldsskólanámi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Ásgeir vann m.a. sem verkfræðingur við byggingu brúarinnar við Ölfusárósa við Eyrarbakka.

Ásgeir hefur starfað í orkuiðnaði í yfir 20 ár og komið að fjölmörgum verkefnum á Íslandi og erlendis. Ásgeir er kvæntur Sveinbjörgu Einarsdóttur, hjúkrunarfræðingi og eiga þau þrjá syni á þrítugsaldri.


Þann 1. janúar 2014 taka gildi lög nr. 58/2008 um aðskilnað orkufyrirtækja í einkaleyfisrekstur og sérleyfisrekstur. Vegna þessarar lagasetningar var Hitaveitu Suðurnesja hf skipt upp 1. desember 2008 í HS Orku hf. og HS Veitur hf. Júlíus Jónsson hafði gegnt starfi forstjóra Hitaveitu Suðurnesja frá 1. júlí 1992 og hafði þá frá 1982 verið fjármálastjóri fyrirtækisins. Eftir uppskiptinguna varð hann forstjóri HS Orku en gegndi í samræmi við verksamning milli HS Orku og HS Veitur einnig starfi forstjóra HS Veitna. Við gilditöku laganna hefur verið ákveðið að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að fyrirtækin hafi hvort sinn forstjóra frá 1. janúar 2014 að telja.

Víkurfréttir greina frá

Skráða f Menningar-Staður

08.12.2013 21:15

Lægsta tilboð í nýja fangelsið á Hólmsheiði liðlega 1,8 milljarðar

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins
Á Hólmsheiðinni.  Vinningstillaga Arkís gerði ráð fyrir að fangelsið yrði klætt stáli.

 

Lægsta tilboð í nýja fangelsið á Hólmsheiði liðlega 1,8 milljarðar

 

Aðeins munaði 2,5 milljónum á lægsta tilboði og því næstlægsta í smíði fangelsis og gerð fangelsislóðar á Hólmsheiði.

Þegar tilboð voru opnuð hjá Ríkiskaupum á fimmtudag kom í ljós að Íslenskir aðalverktakar hf. höfðu boðið rúmlega 1,8 milljarða í verkið, samtals 1.819.963.591 kr., svo allrar nákvæmni sé gætt. Jáverk ehf. bauð á hinn bóginn 1.822.496.000 kr. sem er 2,5 milljónum hærra, nánar tiltekið er munurinn 2.532.409 krónur. Munurinn er aðeins 0,13% af kostnaðaráætlun fyrir fangelsið sem var rúmlega 1,9 milljarðar.

 

97,4 millj. undir áætlun

Lægsta tilboð var 97,4 milljónum undir kostnaðaráætlun en það jafngildir 5,1%. Þrjú tilboð bárust og átti Ístak hf. hæsta boðið, upp á ríflega tvo milljarða, um 127,6 milljónum yfir kostnaðaráætlun. Framkvæmdasýsla ríkisins fer nú yfir tilboðin.

Nokkuð er síðan vinnu við jarðvinnu og heimlagnir innan lóðar lauk. Vinnu við heimlagnir utan lóðar er nýlega lokið.

Smíði fangelsisins á að vera lokið í síðasta lagi 1. desember 2015.

Fangelsið verður 3.700 fermetrar að stærð og í því verður rými fyrir 56 fanga. Það á að koma í staðinn fyrir Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og kvennafangelsið í Kópavogi. Einnig er gert ráð fyrir að gæsluvarðhaldsdeild á Litla-Hrauni, þar sem eru sex klefar, verði lögð niður og klefarnir nýttir fyrir afplánun.

Morgunblaðið laugardagurinn 7. desember 2013

 

Skráð af Menningar-Staður

07.12.2013 23:35

Fjölmenni á bókaupplestri í Húsinu 7. desember 2013

Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir og Guðni Ágústsson í Húsinu í dag.


Nokkrar myndir hér:

.

.

.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður 

07.12.2013 09:34

Hrafnseyrarbræðurnir og upphaf skólahalds á Eyrarbakka

Jens SigurðssonJón Sigurðsson

Hrafnseyrarbræðurnir:

T.v.: Jens Sigurðsson fæddur 6. júlí 1813 á Hrafnseyri við Arnarfjörð - dáinn 2. nóvember 1872
T.h.: Jón Sigurðsson forseti fæddur 17. júní 1811 á Hrafnseyri við Arnarfjörð - dáinn 7. desember 1879 
Foreldrar þeirra voru séra Sigurður Jónssonn, prestur á Hrafnseyri og kona hans Þórdís Jónsdóttir, prstsdóttir frá Holti í Önundarfirði.

 

Hrafnseyrarbræðurnir og upphaf skólahalds á Eyrarbakka

 

Í dag, 7. desmeber 2013, þegar minnt er á dánardag Jóns Sigurðssonar forseta þann 7. desember 1879, er ekki úr vegi að rifja upp aðkomu þeirra Hrafnseyrarbræðra Jóns og Jens Sigurðssona að upphafi skólahalds á Eyrarbakka 1852.

Því er birtur hér kafli úr Tímaritinu Menntamál  25. árgangur  -maí 1952

 

Barnaskólinn á Eyrarbakka hundrað ára.

 

Haustið 1852 tók barnaskóli til starfa á Eyrarbakka, og hefur sú stofnun eigi lagzt niður síðan. Þetta er elzti barnaskóli landsins, sem á sér óslitna starfssögu. Að vísu höfðu barnaskólar risið hér á legg áður (í Vestmannaeyjum, á Hausastöðum og í Reykjavík), en þeir lögðust allir niður.

Af tilefni þessa afmælis hitti ritstjóri Menntamála séra Árelíus Níelsson að máli. Er hann fróðastur manna um sögu þessa skóla, enda hefur hann sett saman bók um hana. Mun hún koma út á næsta hausti.

 

Það, sem hér fer á eftir, er haft eftir séra Árelíusi.

 

Undirbúningur undir stofnun skólans stóð um þriggja ára skeið. Sá, sem fyrstur kom fram með þá hugmynd að stofna þarna skóla, virðist hafa verið Jens Sigurðsson, síðar rektor Lærðaskóans í Reykjavík og bróðir Jóns forseta. Var Jens  um þær mundir  (1845-1846) kennari í „Húsinu" (þ. e. hjá Thorgrímsen). Stofnendur skólans voru þrír, þeir Guðmundur Thorgrímsen verzlunarstjóri, séra Páll Ingimundarson og Þorleifur ríki Kolbeinsson á Háeyri.

 

— Stórgjafir voru gefnar í þessu skyni. Mest gáfu þeir Einar Sigurðsson í Eyvakoti og Adólf Petersen í

Steinakoti. Gjafir bárust víða að af landinu og jafnvel erlendis frá, t. d. sendi Jón Sigurðsson forseti í Kaupmannahöfn  skólanum 10 ríkisdali.

 

En stofnendurnir áttu ekki eintómri vinsemd og skilningi að mæta. Um 40 búendur í grenndinni rituðu

undir mótmælaskjal, þar sem því var haldið fram, að byggðarlaginu mundi ofviða að standast straum af kostnaðinum af slíkri stofnun.

Fyrsti skólastjórinn var Jón Bjarnason, síðar prestur. Hann var þar aðeins eitt ár. Svo var lengi vel um hina biðu eftir brauði. Einna þekktastur þeirra var Magnús Helgason, síðar skólastjóri Kennaraskólans. Hann var skólastjóri á Eyrarbakka um 1880. Var þá uppi sú ráðagerð að stofna þar gagnfræðaskóla. Þegar hann fluttist þaðan, féll niður allt umtal um það.

— Lengst allra hefur Pétur Guðmundsson verið skólastjóri þessa skóla, eða rúman aldarfjórðung. Nú er þar skólastjóri Guðmundur Daníelsson rithöfundur.

 

Sameiginlegt skólahald fyrir Eyrarbakka og Stokkseyri hélzt til 1897. Fyrsta skólahúsið var reist, um leið og skólinn var stofnaður. Það stóð á Háeyri. Þar var kennt fram að 1880. Var þá það hús selt, en nýtt og mikið skólahús reist að Skúmsstöðum. Var kennt þar til 1913. Var þá reist það hús, sem enn er í notkun. Hefur það nú verið stækkað um þriðjung, og verður hin nýja viðbót vígð á hausti komanda.

Á Stokkseyri hefur einnig verið reist nýtt skólahús, mikið og vandað. Verður það einnig vígt í haust. Á báðum þessum stöðum hafa einnig verið reistar vandaðar skólastjóraíbúðir.

 

Fyrir kom það fyrr á árum, að lítið sem ekkert var hægt að kenna í skólahúsinu sakir eldsneytisskorts, en alla þessa hundrað vetur hefur einhver kennsla farið fram á vegum skólans, svo að þráðurinn hef ur aldrei slitnað í sögu hans.

 

Vilja Menntamál færa Eyrbekkingum og Stokkseyringum beztu árnaðaróskir af tilefni þessa afmælis. Er þessu  byggðarlagi mikill sómi að -því að hafa rutt þannig brautina í menningarmálum þjóðarinnar.

Menntamál  25. árgangur  - maí 1952


Skólahúsið á Eyrarbakka sem byggt var 1913.Skráð af Menningar-Staður

07.12.2013 06:45

Lilja Inga Jónatansdóttir - Fædd 24. janúar 1956 - Dáin 26. nóvember 2013 - Minning

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Lilja Inga Jónatansdóttir.

 

Lilja Inga Jónatansdóttir - Fædd 24. janúar 1956 -

Dáin 26. nóvember 2013 - Minning

 

Lilja Inga Jónatansdóttir fæddist á Eyrarbakka 24. janúar 1956. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 26. nóvember 2013.

Foreldrar Lilju Ingu voru Jónatan Jónsson, f. 3. desember 1921, d. 28. mars 2006 og Sigrún Ingjaldsdóttir, f. 10. nóvember 1932. Lilja var næstelst í hópi sex systkina. Systkini Lilju eru Bjarni Þór, f. 18. desember 1950, Guðrún, f. 19. júní 1957, Ólöf, f. 20. apríl 1959, Gíslína Sólrún, f. 24. mars 1962 og Eyrún, f. 5. október 1966.

Lilja giftist þann 15. ágúst 1981 eftirlifandi eiginmanni sínum, Guðmundi Helga Guðnasyni, f. 4. nóvember 1951. Hann er sonur hjónanna Guðna Guðmundssonar, f. 19. febrúar 1925, d. 8. júlí 2004 og Katrínar Ólafsdóttur, f. 30. september 1927, d. 27. febrúar 1994 .

Synir Lilju og Guðmundar eru: 1) Guðni, f. 9. desember 1980. Dóttir Guðna og Berglindar Sigurðardóttur er Emilía Hlín, f. 11. mars 2004. 2) Sigurður Tómas, f. 19. október 1982.

Lilja ólst upp á Eyrarbakka en hélt til náms til Reykjavíkur og tók stúdentspróf frá Menntaskólanum við Tjörnina árið 1975. Hún lauk námi í meinatækni frá Tækniskóla Íslands árið 1978 og starfaði lengstan hluta starfsævinnar sem meinatæknir á Landspítalanum, eða í um 30 ár, þar til hún lét af störfum vegna veikinda.

Lilja bjó lengst af með fjölskyldunni í Reykjavík en flutti ásamt eiginmanni sínum að Ásabergi á Eyrarbakka árið 2007.

Útför Lilju Ingu fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, 7. desember 2013, og hefst athöfnin kl. 14

______________________________________________________________________

Minningarorð Eyrúnar systur

Það er þyngra en tárum taki að kveðja í dag elskulega systur sem var næstelst í systkinahópnum og elst okkar systra. Hún var lengst af í forystusveit í fjölskyldunni og leysti þau verkefni sem þurfti að leysa af snarræði og með bros á vör og gjarnan var leitað til hennar eftir áliti og aðgerðum í flestum málum. Létt og glaðvær lund, jafnaðargeð og góð kímnigáfa voru hennar aðalsmerki. Lilja var fljóthuga og snör í snúningum í lífi og starfi, bæði þegar hún í starfi sínu þeyttist um ganga Landspítalans og heima fyrir. Hún var fljót að snara fram veislu þegar við átti og var höfðingi heim að sækja. Lilja var áhugasöm um fjölskylduna og systkinabörnin og fengu dætur mínar ómælt að njóta elsku hennar og umhyggju. Aldrei man ég eftir að okkur hafi orðið sundurorða. Greiðvikni var Lilju í blóð borin og þegar aðstoðar var þörf voru Lilja og Gummi gjarnan fyrst á staðinn. Síðustu árin glímdi Lilja við heilsuleysi og þó að krabbameinið hafi ekki greinst fyrr en fyrir rúmu ári hafði Lilju lengi grunað hvers kyns væri en þrátt fyrir ótal ferðir til lækna fannst meinið ekki fyrr en allt of seint. Lilja hafði ótrúlega jákvætt viðhorf, ómælt baráttuþrek og lífsvilja, en allt kom fyrir ekki og varð hún að lokum að lúta í lægra haldi fyrir þessum illvíga sjúkdómi. Ekki er það í fyrsta sinn sem upplifunin er að ekki hafi verið rétt gefið við útdeilingu lífsins gæða en ekki þýðir að deila við dómarann. Ég vil að leiðarlokum þakka Lilju ljúfa samfylgd í gegnum árin og votta ástvinum öllum dýpstu samúð. Megi góðar minningar um frábæra konu verða okkur styrkur og ljós í lífinu.

Drottinn þig blessi, lýsi leiðir,

létt í spori heldur þú á braut.

Frelsarinn brosir, faðm út breiðir,

fjarri þá ertu kvöl og þraut.

Vakandi syrgir viðkvæm lundin,

varirnar þakkir flytja hljótt.

Kærleika vafin kveðjustundin

komin og býður góða nótt.

(Hörður Zóphaníasson)

 

Þín systir

Eyrún.

 

Morgunblaðið laugardagurinn 7. desember 2013

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

07.12.2013 06:21

7. desember 1879 - Jón Sigurðsson lést í Kaupmannahöfn

Jón Sigurðsson forseti.

 

7. desember 1879 - Jón Sigurðsson lést í Kaupmannahöfn

 

Jón Sigurðsson forseti lést í Kaupmannahöfn, 68 ára. 

Hann var jarðsettur í Reykjavík 4. maí 1880 ásamt Ingibjörgu Einarsdóttur konu sinni, sem lést 16. desember 1879.

 

Morgunblaðið laugardagurinn 7. desember 2013 - Dagar Íslands - Jónas Ragnarsson.

 

Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir.

.

Jón Sigurðsson var fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð þann 17. júní árið 1811.

.

 

Skráð af Menningar-Staður