Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Desember

04.12.2013 06:10

Merkir Íslendingar - Sigurður Ólafsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Sigurður Ólafsson.

 

Merkir Íslendingar - Sigurður Ólafsson

 

Sigurður Jón Ólafsson, söngvari og hestamaður, fæddist í Reykjavík 4. desember 1916. Hann var ættaður af Snæfellsnesi, sonur Ólafs Jónatanssonar, verkamanns í Reykjavík, og k.h., Þuríðar Jónsdóttur frá Elliða í Staðarsveit.

Ólafur var sonur Jónatans, b. á Kolbeinsstöðum, bróður Páls, langafa Megasar. Þuríður var systir Vigfúsar, föður Erlings söngvara. Systir Þuríðar var Stefanía, móðir Oddfríðar skáldkonu, móður Guðmundar Ingólfssonar djasspíanistasnillings.

Bræður Sigurðar voru Erling Ólafsson söngvari og Jónatan Ólafsson, píanóleikari, hljómsveitarstjóri og tónskáld, afi Jónatans Garðarssonar, dagskrárgerðarmanns, tónlistarútgáfustjóra og fyrrv. formanns Jazzvakningar.

Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Inga Valfríður Einarsdóttur frá Miðdal (Snúlla) f. 1918, og eignuðust þau sex börn, Valgerði, f. 1937, Erling, f. 1942, Ævar, f. 1944, Þuríði, f. 1949, söngkonu, Ólaf, f. 1950, og Gunnþór, f. 1960, en dóttir Sigurðar frá því fyrir hjónaband er Elsa.

Sigurður var bílstjóri á sínum yngri árum, rannsóknarmaður á Rannsóknarstofu HÍ og á Keldum, gærumatsmaður hjá SÍS, kjötmatsmaður hjá yfirdýralækni og sá um talningu búfjár í borgarlandinu.

Sigurður sótti ungur söngtíma til Sigurðar Birkis og Guðmundar Jónssonar, söng með Karlakór Reykjavíkur og síðar með eldri félögum kórsins. Hann söng í Rigolettó, fyrstu óperunni sem hér var færð upp, í óperettunum Leðurblökunni og Bláu kápunni og lék og söng í fjölda leikrita. Hann hélt fjölda tónleika, var söngvari með ýmsum danshljómsveitum og söng dægurlög inn á fjölda hljómplatna.

Þá var Sigurður landsþekktur hestamaður, stundaði hestamennsku frá fermingaraldri og átti fjölda hrossa. Þekktasta skeiðhross hans var Gletta sem átti Íslandsmet í skeiði í 28 ár.

Sigurður lést 13. júlí 1993.

Morgunblaðið miðvikudagurinn 4. desember 2013

 

Hér má heyra Sigurð Ólafsson og Sigurveigu Hjaltested syngja - Blikandi haf-

http://www.youtube.com/watch?v=cS1j3duSesU

 

Skráð af Menningr-Staður

04.12.2013 05:40

Ný bók að vestan

Sagan mín, æviminningar Sigrúnar Sigurðardóttur frá Möðruvöllum í Hörgárdal í Eyjafirði.

 

Ný bók að vestan

 

Hjá Vestfirska forlaginu á Þingeyri er komin út bókin  -Sagan mín- æviminningar Sigrúnar Sigurðardóttur frá Möðruvöllum í Hörgárdal í Eyjafirði.
 

Sigrún Sigurðardóttir fæddist 1929 og voru foreldrar hennar Sigurður Stefánsson, prestur og síðar vígslubiskup, og María Ágústsdóttir cand. phil. Vestfirska forlagið hefur gefið út bækur eftir marga höfunda sem aldrei áður hafa fengist við bókaskrif. Sigrún er í þeim hópi. Frásögnin, byggð á dagbókum hennar, er öfgalaus og hlý þó að greint sé hispurslaust frá erfiðu ölduróti á lífsleiðinni.

 

Sigrún skrifar svo:

 

Ég veit ekki hvort ég hef nokkurn tíma orðið virkilega fullorðin kona, ég hef alla tíð þurft mikla athygli og aðdáun og hef að sama skapi verið dugleg að ná mér í hana. Það hefur verið mér meira virði en flest annað. Er ekki magnað hvað karlmaður getur framkallað hjá konu með því einu að horfa á hana með aðdáun? Það framkallar á augabragði að konan verður fallegri, fær allt í einu nokkurs konar æskuútlit, roða í kinnar og ástleitna ásjónu. Það er þetta sem ég meina, þetta er eins konar næring sem gerir konur aldurslausar. Þær halda bara áfram að geta beitt töfrabrögðum sínum, halda áfram að vera þess umkomnar að geta heillað menn fram eftir öllum aldri. Ég tala af sérlegri reynslu eins og við er að búast.

Skráð af Menningar-Staður

 

04.12.2013 05:36

Góðu ári fagnað

Uppskeruhátíðin heppnaðist mjög vel og skemmtu gestir sér fram eftir kvöldi.

 

Góðu ári fagnað

 

Á dögunum var góðu ári í ferðaþjónustunni fagnað á Uppskeruhátíð Markaðsstofu Suðurlands sem haldin var á Hótel Örk í Hveragerði.

Dagskrá hátíðarinnar var glæsileg þar sem fram komu Ari Eldjárn, Sigmundur G. Einarsson og kona hans Unnur Ólafsdóttir, auk þess heiðraði ráðherra ferðamála, Ragnheiður Elín Árnadóttir gesti með nærveru sinni og ávarpaði hún gesti hátíðarinnar.

Þetta var fjórða Uppskeruhátíð Markaðsstofu Suðurlands og verður hún stærri og veglegri ár hvert. 

Dagskráin hófst með því að gestum hátíðarinnar var boðið í kynningarferð um Hveragerði sem Ferðamálasamtök Hveragerðis skipulögðu. Á meðal þess sem gert var í kynningarferðinni var komið við í Hamarshöllinni, bragðað á hveraglöggi og sjávarréttasúpu hjá Frost og Funa, smakkað hverabakað rúgbrauð í Hveragarðinum, litið inn hjá Gistiheimilinu Frumskógum og komið við á Listasafni Árnesinga þar sem gestir gæddu sér á kræsingum frá Kjöt og Kúnst. 

Að lokinni kynningarferð var svo sjálf uppskeruhátíðin í Hótel Örk. Markaðsstofa Suðurlands bauð gestum í fordrykk og svo var haldið til borðhalds. Létt var yfir gestum og stjórnaði Sigurður Sólmundarson hátíðinni í bland við glæsilega dagskrá kvöldsins. Uppskeruhátíðin heppnaðist mjög vel og skemmtu gestir sér fram eftir kvöldi við undirleik Hljómsveitarinnar PASS áður en hátíðinni lauk.

2671

 

Skráð af Menningar-Staður

03.12.2013 20:38

Bókaupplestur og jólasýning í Húsinu

Jolaupplestur_husinuJolaupplestur_husinu_1

Þór - Þórunn - Sigríður - Guðni

 

Bókaupplestur og jólasýning í Húsinu

 

Bókaupplestur verður í Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn 7. desember og hefst kl. 16 í stássstofunni.

 

Fjórir rithöfundar lesa úr verkum sínum:

 Þór Magnússon fyrrv. þjóðminjavörður segir frá ritinu Íslenzk silfursmíð.

Sigríður Jónsdóttir í Arnarholti les úr ljóðabók sinni Undir ósýnilegu tré.

Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir kynnir og les úr skáldsögunni Stúlka með maga.

Guðni Ágústsson kynnir bók sína Léttur í lund og segir skemmtilegar sögur af sjálfum sér og öðrum. 

 

Jólasýning Byggðasafns Árnesinga í Húsinu  Eyrarbakka verður opin sama dag frá kl 13.00 til 16.00.

 

Jólakaffi verður á boðstólunum.

 

Húsið á Eyrarbakka.

 

Skráð af menningar-Staður

03.12.2013 18:47

Vel sóttir tónleikar í Útskálakirkju í Garði

Í Útskálakirkju í Garði. Ljósm.: Hilmar Bragi.

 

Vel sóttir tónleikar í Útskálakirkju í Garði

 

Jólatónleikar þeirra Svavars Knúts, Röggu Gröndal og Kristjönu Stefánsdóttur í Útskálakirkju í gærkvöldi voru vel sóttir. Tónleikarnir voru haldnir í tilefni af útgáfu jóladisksins „Eitthvað fallegt“.

Það var íbúi í Garði, Kristín Júlla Kristjánsdóttir, sem fékk tónlistarfólkið til að koma í Garðinn og halda umrædda tónleika á aðventunni. Kristín hafði upphaflega ætlað að halda stofutónleika heima hjá sér fyrir jólin sem síðan þróuðust yfir í þessa vel sóttu tónleika í kirkjunni í gærkvöldi.

 

 

Víkurfréttir greina frá  - www.vf.is

 

Skráð af Menningar-Staður

03.12.2013 15:58

Merkir Íslendingar - Thor Jensen

Thor Jensen


Merkir Íslendingar - Thor Jensen

 

Thor Jensen fæddist í Kaupmannahöfn fyrir hundrað og fimmtíu árum - þann 3. desember 1863.  Sonur Jens Christians Jensens byggingameistara, og Andreu Louise Jensens, f. Martens, húsfreyju.

Thor átti 11 systkini og fjórar hálfsystur. Hann var níu ára er hann missti föður sinn, fór í heimavistarskóla fyrir verðandi verslunarsveina og var síðan sendur til Borðeyrar um fermingaraldur.

Thor lærði íslenskuna hratt og drakk í sig Íslendingasögurnar. Á Borðeyri kynntist hann Margréti Þorbjörgu Kristjánsdóttur, sem var eiginkona hans í rúm 60 ár en þau eignuðust 12 börn.

Thor stundaði verslunarrekstur í Borgarnesi og síðan á Akranesi en eftir að skip með vörum hans fórust í hafi varð hann gjaldþrota. Hann flutti þá með fjölskyldu sína til Hafnarfjarðar, gerði ítarlega verðkönnun á ýmsum útgerðarvörum, stofnaði Godthaabs verslun og kom aftur undir sig fótunum með hjálp tveggja gildra útvegsbænda, Guðmundar Einarssonar í Nesi og Þórðar Jónassonar í Ráðagerði. Á örfáum árum varð Thor einn ríkasti maður á Íslandi, byggði sér glæsilegt íbúðarhús að Fríkirkjuvegi 11 við Tjörnina, kom að stofnun Milljónafélagsins 1907, sá um kaup á Jóni forseta, fyrsta togara Íslendinga og var einn af forystumönnum um stofnun Eimskipafélags Íslands.

Thor stofnaði útgerðarfyrirtækið Kveldúlf 1912 sem bar höfuð og herðar yfir önnur útgerðarfyrirtæki á millistríðsárunum. Á efri árum reisti Thor stærsta mjólkurbú á Íslandi að Korpúlfsstöðum, og það fullkomnasta á Norðurlöndum.

Afkomendur Thors urðu margir landsfrægir, s.s. synir hans Ólafur forsætisráðherra, Richard, forstjóri Kveldúlfs og Thor sendiherra. Thor Vilhjálmsson rithöfundur var dóttursonur Thors og Björgólfur Thor athafnamaður er langafabarn hans.

Valtýr Stefánsson ritstjóri skrifaði ævisögu Thors og Guðmundur Magnússon sendi frá sér bókina Thorsararnir, auður, völd, örlög, árið 2005. Thor lést 12. september 1947.

 

Fríkirkjuvegur 11 í Reykjavík

Skráð af Menningar-Staður

03.12.2013 13:34

Jóladagskrá Bókasafnsins í Hveragerði og Listasafns Árnesinga verður í kvöld kl. 20

Ein af sýningum safnsins þessa dagana er sýning á skúlptúrum Rósu Gísladóttur.

 

 Jóladagskrá Bókasafnsins í Hveragerði og Listasafns Árnesinga

verður haldin í kvöld kl. 20

 

Árleg jóladagskrá Bókasafnsins í Hveragerði og Listasafns Árnesinga verður haldin í listasafninu í kvöld, þriðjudaginn 3. desember 2013  kl. 20.

Rithöfundarnir Guðmundur Andri Thorsson, Óskar Árni Óskarsson, Sigrún Pálsdóttir, Sjón og Vigdís Grímsdóttir lesa úr nýjum höfundaverkum sínum.


Jazzkvartet Vigdísar Ásgeirsdóttur flytur nokkur lög. 

 

Í listasafninu eru þrjár sýningar í gangi; Jólasýning, Samstíga og Skúlptúrar Rósu Gísladóttur.  

 

Flytjendur munu einnig gera lítilega grein fyrir því hver var uppspretta hugmyndanna sem leiddi til gerðar þessara verka. Þetta er liður í stærra verkefni sem nýtur stuðnings Menningarráðs Suðurlands.

 

 Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á kaffi og piparkökur.

 

Listasafn Árnesinga í Hveragerði

 

Skráð af  Menningar-Staður

03.12.2013 11:51

Stórstjörnur á Sunnlenska bókakaffinu fimmtudaginn 5. des.

Yrsa Sigurðardóttir.

Stórstjörnur á Sunnlenska bókakaffinu fimmtudaginn 5. desember 2013

 

Stórstjörnur íslenskra bókmennta mæta í vikulegan upplestur Sunnlenska bókakaffisins á fimmtudagskvöldið kemur, þann 5. desember.

Þá verða þar Yrsa Sigurðardóttir glæpasagnadrottning Íslands, ljóðaþýðandinn Óskar Árni Árnason og rithöfundarnir Jón Kalmann Stefánsson og Eiríkur Guðmundsson en báðir hlutu um helgina tilnefninu til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Yfir vötnunum svífur svo andi Jochums Eggertssonar, en Anna Lea Friðriksdóttir frá Lesstofunni kynnir endurútgáfu á galdraskræðu Jochums sem skrifaði undir skáldaheitinu Skuggi og þykir fremstur íslenskra utangarðshöfunda.

 

Húsið verður opnað kl. 20 og lestur hefst um klukkan 20:30.

 

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. 

 


Skráð af Menningar-Staður

03.12.2013 06:38

Hrútavinir í Menningarkakói í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi

Kristján Runólfsson flytur drápu sína.

 

Hrútavinir í Menningarkakói í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi

 

Nokkrir Hrútavinir komu saman í gær,  mánudaginn 2. desember , eins og þeirra er taktföst venja, í Sunnlenska bókakaffinu við Austurveg á Selfossi  til mannblöndunar og drekka menningarkakó.

Þetta voru Skagfirðingurinn í Hveragerði, Kristján Runólfsson frá Káragerði á Eyrarbakka, Jóhann Páll Helgason á Selfossi, frá Brennu II á Eyrarbakka, Björn Ingi Bjarnason frá Ránargrund á Eyrarbakka.

 

Venja er á þessum fundum að taka á móti gestum í menningarspjlall og var svo einnig að þessu sinnu.

Þeir sem komu í gestaspjall voru:

Vernharður Stefánsson frá Túni í Hraungerðishreppi hinum forna og nú búandi á Selfossi.

Ingi Heiðmar Jónsson kórstjóri og  organisti við nokkrar Flóakirkjur og nú um stundir einnig á Blönduósi.

 

Kristján Runólfsson flutti drápu:

 

Adamsdiktur

 

Ég hugleiði mikið um hérvistarkvöl,

og höfundinn inni ég svara.

Hvers vegna er allt þetta blóðuga böl?

Bíddu við! hvert ertu að fara?

 

Eflaust var brotið í upphafi synd

sem Adam í gáleysi framdi,

en allt þarf að vera í einhverri mynd,

og alfaðir lögmáli samdi.

 

Og lögmálið sagði að lífið er valt,

ef læturðu syndina ráða.

Um gervalla ævina ganga þú skalt

með guðsorð á vörum til náða.

 

Eva á kostum var komin á skrið,

og kunni við syndina að dveljast,

Adam var heppinn en aumingja við,

öll þurfum síðan að kveljast.

 

Hvenær er búið að greiða þau gjöld,

sem gerði hann Adam víst sekan.

Auðvelt er þeim sem að öll hefur völd,

í eitt skipti að setja undir lekann.

 

Daglangt ég hamast að hugsa um það,

uns hringlar í vanbúnum kvörnum.

Hvers konar réttlæti ræður því að

refsa skal saklausum börnum?

 

Sköpunarverkið er skelfilegt klór,

og skammt mun það fullkomið renna,

Allt sem í veröldu úrskeiðis fór,

öðrum var strax um að kenna.

 

Drottinn í skyndi upp Djöfulinn fann,

drjúgur með uppfinning slíka.

Efalaust hefði ég alveg eins og hann,

að endingu gert þetta líka.

 

Ég hefði Adam í upphafi gert,

eilífan hérna á jörðu,

óvæginn kvalið og endalaust hert,

örlögin grimmu og hörðu.

 

Kristján Runólfsson

 

Kristján Runólfsson rifjar upp fyrir Vernharð Stefánsson:
"Þarna er ég að rifja það upp, að þegar ég var unglingur, fannst mér það hálfgerð fötlun að hafa ekki lent í slagsmálum. Þarna rifjaði ég upp tilburði mína til að lenda í slagsmálum við Bjössa í Klöpp úr Vestmannaeyjum, tilraunin mistókst, þannig að ég bý enn að þessari fötlun. Er feginn að hafa slíka fötlun."

.

F.v.: Kristján Runólfsson, Elín Gunnlaugsdóttir og Vernharður Stefánsson.

.

Kristján Runólfsson og Ingi Heiðmar Jónsson.

.Ingi Heiðmar brosir breitt,
að bögunni minni góðu,

aðrir sögðu ekki neitt,
alveg á gapi stóðu.

.Kristján Runólfsson

Ingi Heiðmar Jónsson færði sig um set í Sunnlenska bókakaffinu og fræðir hér konur um Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi.
.
Skráð af Menningar-Staður

 

03.12.2013 06:08

Tilboð í fangelsi opnuð í vikunni

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Hólmsheiði.  Fangelsislóðin er tilbúin fyrir byggingarframkvæmdir.

 

Tilboð í fangelsi opnuð í vikunni

 

Tilboð í byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði verða opnuð hjá Ríkiskaupum á fimmtudaginn kemur, 5. desember, klukkan 11.00.

Útboð húseignarinnar og frágangs lóðarinnar var auglýst 17. ágúst sl. Verkinu á að vera að fullu lokið í síðasta lagi 1. desember 2015. Örn Baldursson, verkefnisstjóri hjá Framkvæmdasýslu ríkisins, segir að eftir að verktakinn hefur skilað húsinu af sér fari fram virkni- og viðtökuprófanir, en þá eru m.a. prófuð ýmis kerfi nýja fangelsisins. Afhending til verkkaupa, innanríkisráðuneytisins, er áætluð 1. mars 2016.

Jarðvegsframkvæmdir á Hólmsheiði voru boðnar út 9. mars 2013. Nokkuð er síðan vinnu við jarðvinnu og heimlagnir innan lóðar lauk. Vinnu við heimlagnir utan lóðar er nýlega lokið.

 

Rými fyrir 56 fanga

Húsið verður steinsteypt og klætt að hluta. Verktakinn á að ganga frá húsinu að utan og innan og einnig frá lóð þess. Helstu magntölur í útboðinu eru: Mótafletir 17.200 fermetrar, steinsteypa 3.300 rúmmetrar, þakflötur 3.500 fermetrar, málun 21.900 fermetrar og gólfdúkur 2.500 fermetrar.

Verkefnið og saga þess eru kynnt á heimasíðu Framkvæmdasýslu ríkisins (www.fsr.is) sem hefur umsjón með verkefninu. Þar kemur m.a. fram að í fangelsinu verði rými fyrir 56 fanga og að það verði um 3.700 fermetrar að stærð. Fangelsið á Hólmsheiði á að koma í staðinn fyrir Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og kvennafangelsið í Kópavogi. Einnig er gert ráð fyrir að gæsluvarðhaldsdeild á Litla-Hrauni, þar sem eru sex klefar, verði lögð niður og klefarnir nýttir fyrir afplánun.

Efnt var til samkeppni um hönnun nýja fangelsisins. Niðurstöður hennar voru kynntar 5. júní 2012. Fyrstu verðlaun fékk tillagan frá arkitektastofunni Arkís, höfundar Björn Guðbrandsson og Arnar Þór Jónsson arkitektar. Samið var við vinningshafana um hönnun fangelsisins á grundvelli vinningstillögunnar. Hún gerir ráð fyrir að byggingin verði að mestu leyti einangruð að utan og klædd viðhaldsfríu Corten-stáli. Stjórnunarálma, innigarðar og afmarkaðir veggfletir við útivistarsvæði fá sjónsteypuyfirborð og þakfletir verða lagðir gróðurþekju.

Morgunblaðið þriðjudagurinn 3. desember 2013.

 

Skráð af Menningar-Staður.