Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Janúar

31.01.2014 07:25

Mótmæla boðuðum niðurskurði í landvörslu


Hrútavinir við Gullfoss.

 

Mótmæla boðuðum niðurskurði í landvörslu

 

Samtök ferðaþjónustunnar mótmæla boðuðum niðurskurði Umhverfisstofnunar í landvörslu.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

Aukinn fjöldi erlendra ferðamanna kallar á aukna þjónustu og er landvarsla engan vegin undanskilin þeirri ábyrgð. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu má reikna með að skatttekjur af ferðaþjónustu verði a.m.k. 27 milljarðar fyrir árið 2013, segir í tilkynningunni.

Samtökin fara fram á að stjórnvöld leggi aukið fjármagn í landvörslu og að fallið verði frá boðuðum niðurskurði. Að óbreyttu er séð fram á ófremdarástand á svæðum sem dæmd hafa verð í hættu af Umhverfisstofnun.

Af www.ferdamalastoma.is


Skráða f Menningar-Staður

31.01.2014 06:43

Merkir Íslendingar - Örn Snorrason

Örn Snorrason.

 

Merkir Íslendingar - Örn SnorrasonÖrn Snorrason, kennari og rithöfundur, fæddist á Dalvík 31. janúar 1912. Foreldrar hans voru Snorri Sigfússon, skólastjóri á Flateyri, og síðar námsstjóri Norðurlands með búsetu á Akureyri og k.h., Guðrún Jóhannesdóttir húsfreyja.

Snorri var sonur Sigfúsar Jónssonar, bónda á Brekku og Grund í Svarfaðardal og k.h., Önnu Sigríðar Björnsdóttur húsfreyju. Guðrún var dóttir Jóhannesar Jónssonar Reykjalín, bónda á Þönglabakka og Kussungsstöðum í Þorgeirsfirði, og k.h., Guðrúnar Sigríðar Hallgrímsdóttur húsfreyju.

Eiginkona Arnar var Ragnheiður Hjaltadóttir húsfreyja og eignuðust þau tvö börn, Hjalta og Guðrúnu.

Örn lauk stúdentsprófi frá MA 1933, las guðfræði við HÍ í tvö ár og lauk cand.phil.-prófi þaðan 1934, lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1936 og sótti kennaranámskeið í Askov.

Örn var lengst af kennari við Barnaskólann á Akureyri, á árunum 1937 til 1960, kennari við Gagnfræðaskóla Akureyrar 1960-66, Barnaskólann á Hellu á Rangárvöllum í eitt ár og loks við Álftamýrarskóla í Reykjavík 1967-70. Þá var hann prófarkalesari á Vísi og síðar á DV 1970-84. Hann kenndi einnig við MA og var prófdómari þar um árbil.

Örn orti töluvert á sínum yngri árum, oft hnyttin tækifæriskvæði, en sum kvæða hans eru enn sungin í Menntaskólanum á Akureyri. Hann notaði þá oftast dulnefnið Aquila sem merkir örn á latínu.

Örn sendi frá sér Nokkrar réttritunarreglur, Íslandssöguvísur og ýmsar barna- og drengjabækur. Auk þess birtust eftir hann smásögur, greinar og ljóð í blöðum og tímaritum. Þá var hann afkastamikill þýðandi, þýddi fjölda barnabóka og m.a. bækurnar um Paddington.

Örn var félagi í Kantötukór Akureyrar og í Karlakórnum Geysi á Akureyri og fór utan með utanfararkór Sambands íslenskra karlakóra 1946.

Örn Snorrason lést l. október1985.

Morgunblaðið 31. janúar 2014 - Merkir Íslendingar


Skráð af Menningar-Staður

31.01.2014 06:36

Fangi á Litla-Hrauni dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir að ráðast að fangavörðum

Litla-Hraun á Eyrarbakka.

 

Fangi á Litla-Hrauni dæmdur í tíu mánaða fangelsi

fyrir að ráðast að fangavörðum

 

Hæstiréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Suðurlands yfir karlmanni sem var dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni og eignaspjöll. Maðurinn er fangi á Litla-Hrauni.

Hann var dæmdur fyrir að hafa þriðjudaginn 12. mars 2013 í fangelsinu að Litla-Hrauni veist með ofbeldi að þremur fangavörðum sem voru við skyldustörf. Hann sló ítrekað í höfuð eins þeirra svo gleraugu hans fóru af, reif í hár annars og klóraði nef hans og sló þriðja fangavörðinn í enni og hnakka svo gleraugu hans fóru af.

Maðurinn játaði skýlaust sakargiftir.

Morgunblaðið föstudagurinn 31. janúar 2014

Skráð af Menningar-Staður

30.01.2014 06:47

Merkir Íslendingar - Sigfús Einarsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Sigfús Einarsson frá Eyrarbakka.
Draumalandið - 
http://www.youtube.com/watch?v=UHqzjNK5524

 

Merkir Íslendingar - Sigfús Einarsson

 

Sigfús Einarsson tónskáld fæddist á Eyrarbakka 30. janúar 1877. Foreldrar hans voru Einar Jónsson, kaupmaður á Eyrarbakka, og Guðrún Jónsdóttir frá Hafnarfirði.

 

Einar var af Bergsætt eins og frændur hans, þeir organistar, Bjarni, Jón og Ísólfur Pálssynir, synir Ísólfs, dr. Páll, tónskáld og dómorganisti, og Sigurður, organisti í Fríkirkjunni í Reykjavík, og sonur Bjarna, Friðrik, tónskáld og organisti í Hafnarfirði.

Eiginkona Sigfúsar var Valborg Inger Elisabeth Hellemann, dönsk söngkona og píanóleikari, en þau eignuðust tvö börn, Elsu Sigfúss söngkonu, og Einar Sigfússon, tónlistarkennara og fiðluleikara við sinfóníuhljómsveitina í Árósum.

 

Sigfús lauk stúdentsprófi frá Latínuskólanum 1898. Hann lærði söng í Kaupmannahöfn hjá Valdemar Lincke óperusöngvara og hljómfræði hjá August Enna, fékk styrk hjá Alþingi og hóf að kynna sér íslenzk þjóðlög og raddsetja þau.

Útsetningar á íslenskum þjóðlögum og hrífandi sönglög við ættjarðarljóð skáldanna voru þá veigamikill þáttur í þjóðfrelsisvakningu þessara ára en þá stemmingu má vel merkja í ýmsum lögum Sigfúsar, s.s. Þú álfu vorrar yngsta land og Rís þú unga Íslands merki. Síðan þekkja allir Íslendingar lagið Draumalandið eftir Sigfús.

Sigfús og Valborg giftu sig 1906 og settust þá að í Reykjavík. Þau lifðu fyrst á einkasöngkennslu, en Sigfús kenndi síðan söng við Kennraskólann frá stofnun, 1908, varð dómorganisti og söngkennari Menntaskólans 1913 og kenndi guðfræðistúdentum tón- og sálmasöng 1911-29. Auk þess stjórnaði Sigfús fjölda kóra um árabil og var skipaður söngmálastjóri fyrir Alþingishátíðina 1930. Hann stofnaði Hljómsveit Reykjavíkur, ásamt Jóni Laxdal, 1925 og stjórnaði henni fyrstu tvö árin. Þá endurskoðaði hann kirkjusöngsbók Jónasar Helgasonar og gaf út sína eigin, vann að útgáfu Sálmasöngsbókar og gaf út Íslenzkt sönglagasafn I og II svo fátt eitt sé nefnt.

Sigfús lést 10. maí 1939.

Morgunblaðið fimmtudagurinn 30. janúar 2014 - Merkir Íslendingar

 


Gönguhópur á ferð um Eyrarbakka og í bakgrunni er Einarshús kaupmanns á Eyrarbakka.

 

Skráð af Menningar-Staður

30.01.2014 06:26

Hart deilt um kosningu stjórnar RÚV

 

Hart deilt um kosningu stjórnar RÚV

• Meirihlutinn fékk sex fulltrúa en minnihlutinn þrjá • Eðlilegt að kosning stjórnar endurspegli niðurstöður þingkosninga, segir menntamálaráðherra • Spurðu um áætlanir meirihlutans varðandi RÚV

 

Kosið var í stjórn Ríkisútvarpsins á Alþingi í gær og fékk stjórnarmeirihlutinn sex fulltrúa kjörna en minnihlutinn þrjá. Kosið var um lista meirihlutans annars vegar og lista minnihlutans hinsvegar og fékk sá fyrri 38 atkvæði en sá seinni 25.

Nýja stjórn skipa Ingvi Hrafn Óskarsson, Magnús Stefánsson, Guðrún Nordal, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, Ásthildur Sturludóttir og Guðlaugur G. Sverrisson, fulltrúar meirihluta, og Margrét Frímannsdóttir, Björg Eva Erlendsdóttir og Friðrik Rafnsson, fulltrúar minnihluta. Varamenn eru Jón Hákon Magnússon, Árni Gunnarsson, Gabríela Friðriksdóttir, Katrín Sigurjónsdóttir, Jóhanna Pálsdóttir og Þuríður Bernódusdóttir, fulltrúar meirihluta, og Árni Gunnarsson, Hlynur Hallsson og Lilja Nótt Þórarinsdóttir, fulltrúar minnihluta.

Mikill hiti var í þingmönnum fyrir atkvæðagreiðsluna og m.a. gerð hróp að forsætisráðherra. Deilt var um fjölda fulltrúa meiri- og minnihluta í stjórninni og m.a. vísað í umdeilt samkomulag um skiptinguna; fimm á móti fjórum. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagði eðlilegt að stjórn RÚV endurspeglaði niðurstöður síðustu alþingiskosninga en Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, benti þá á að stjórnarflokkarnir hefðu fengið 51,1% atkvæða í kosningunum, sem samsvaraði fimm sætum.

 

Breidd innan hópsins?

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði að fjölgun stjórnarmanna úr sjö í níu hefði aldrei verið samþykkt ef legið hefði fyrir að meirihlutinn ætlaði sér báða viðbótarfulltrúana og Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingar, og Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, veltu upp þeirri spurningu hvaða áætlanir meirihlutinn hefði sem krefðust sex manna meirihluta.

Þá voru menn ekki á einu máli um að tekist hefði að auka breiddina í stjórn RÚV með því að fjölga í henni um tvo fulltrúa.

„Varðandi það að breikka í stjórn Ríkisútvarpsins þá veit ég ekki betur en að Ingvi Hrafn Óskarsson sé fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, veit ekki betur en að Magnús Stefánsson sé fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, ég veit ekki betur en að Úlfhildur Rögnvaldsdóttir sé fyrrverandi bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akureyri, ég veit ekki annað en Ásthildur Sturludóttir sé núverandi sveitarstjóri Sjálfstæðisflokksins og ég veit ekki annað en að Guðlaugur Geir Sverrisson sé fyrrverandi formaður Framsóknarfélagsins í Reykjavík, stjórnar Orkuveitunnar og frambjóðandi á vegum Framsóknarflokksins. Þetta er breiddin, hæstvirti menntamálaráðherra,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna.

Jón Þór Ólafsson, formaður Pírata, velti upp þeirri spurningu hvort almenningur ætti ekki að fá að kjósa þá fulltrúa sem skipuðu stjórn RÚV, þar sem um væri að ræða fjölmiðil í almannaþágu.

Morgunblaðið fimmtudagurinn 29. janúar 2014

Margrét Frímannsdóttir frá Stokkseyri og fangelsisstjóri á Litla-Hrauni á Eyrarbakka er í stjórn RUV.

.

Jón Hákon Magnússon í Norðurkoti á Eyrarbakka er í varstjórn RUV. Hér er hann til vinstri ásamt Siggeiri Ingólfssyni í spjalli á Stað.

 

Skráð af  Menningar-Staður

29.01.2014 22:58

Opinn fundur um bæjar- og menningarhátíðir 2014 í Árborg

Frá fundinum í gær.

 

Opinn fundur um bæjar- og menningarhátíðir 2014 í Árborg

 

í gær, þriðjudaginn 28. janúar 2014,  hélt  Íþrótta- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar opinn fund um bæjar- og menningarhátíðir í sveitarfélaginu á árinu 2014.

Kjartan Björnsson, formaður nefndarinnar stýrði fundinum en um 15 fulltrúar bæjar- og menningarhátiða mættu á fundinn.

Farið var yfir skipulag ársins og dagsetningar hátíða sem og var rætt um árið 2013. Hvernig hefði gengið, hvað mátti betur fara og hvað gekk vel. Í heildina gengu flestar hátíðarnar vel á síðasta ári en veður setti strik í reikningin á þeim flestum. Tækifærin eru mikil á þessu ári og miklu máli skiptir að vinna saman að heildar kynningu svæðisins. 

Fram kom að Sveitarfélagið Árborg muni styrkja hátíðarnar svipað og undanfarin ár sem og verður gefin út viðburða- og menningardagskrá í febrúar sem verði dreifti inn á öll heimili á Suðurlandi með vorinu.  

Af www.arborg.is

 

Skráð af Menningar-Staður
 

29.01.2014 06:24

29. janúar 1928 - Slysavarnafélag Íslands stofnað

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

 

29. janúar 1928 - Slysavarnafélag Íslands stofnað

 

Slysavarnafélag Íslands, SVFÍ, var stofnað. Fyrsti forseti þess var Guðmundur Björnsson landlæknir. Haustið 1999 var félagið sameinað Landsbjörg undir nafninu Slysavarnafélagið Landsbjörg.

Morgunblaðið miðvikudagurinn 29. janúar 2014 - Dagar Íslands - Jónas Ragnarsson

Skráð af Menningar-Staður

 

28.01.2014 19:04

Kynningarfundur um Íslenski bæinn / Turf house


Hannes Lárusson í Austur-Meðalholti við kynningu í Fjölheimum á Selfossi í dag.

 

Kynningarfundur um Íslenski bæinn / Turf house

Kynning – Upplegg – Framtíðarsýn

 

Í dag,  þriðjudaginn 28. janúar 2014,  var kynningarfundur í Fjölheimum á Selfossi um Íslenska torfbæinn og sérstaklega þá uppbyggingu sem verið hefur í Austur-Meðalholti í Flóahreppi.

 

Til fundarins voru boðaðir m. a. fulltrúar SASS, Markaðsstofu Suðurlands, Sveitarstjórnar Flóahrepps, Menningarráðs Suðurlands, Háskólafélags Suðurlands o. fl.

 

 Á fundinum kynntu fulltrúar og samstarfsaðilar Íslenska bæjarins þróunar- og vaxtarmöguleika hans. Voru þeir bæði í salnum og eins nokkrir í gegnum fjarfundarbúnað frá útlöndum

 

Hannes Lárusson í Austur-Meðalholti, myndlistarmaður og forstöðumaður ÍB/TH, var í leiðandi hlutverki á fundinum.

Menningar-Staður var á fyrsta hluta fundarins og færði til myndar.
Myndaalbúm er komið hér á Menningar-Stað


Smella á þessa slóð:http://menningarstadur.123.is/photoalbums/257141/

 

 

Nokkrar myndir hér:

.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

 

28.01.2014 07:07

Opinn fundur í dag um bæjarhátíðir í Sveitarfélaginu Árborg 2014

Frá Aldamótahátíð á Eyrarbakka.

F.v.: Margrét S. Kristinsdóttir, Rósa Marta Guðnadóttir, Vigdís Jónsdóttir, Sigríður Óskarsdóttir og Sigurlína Eiríksdóttir.

 

Opinn fundur í dag um bæjarhátíðir í Sveitarfélaginu Árborg 2014

 

Íþrótta- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar boðar til opins fundar um bæjarhátíðir og menningarviðburði í Árborg 2014.

Fundurinn verður haldinn í Ráðhúsi Árborgar, 3.hæð, þriðjudaginn 28.janúar nk. kl.18:15.

Hátíðarhaldarar sem og aðrir áhugasamir eru hvattir til að mæta. Mikil sóknarfæri eru í ferðamannaiðnaðinum og eru fjölbreyttir og líflegir menningarviðburðir hluti af því sem ferðamenn, innlendir sem erlendir vilja heimsækja.

 

 Íþrótta- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar

 

 

 

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

28.01.2014 06:53

28. janúar 1907 - Slárurfélag Suðurlands stofnað

Sláturfélag Suðurlands á Selfossi.

 

28. janúar 1907 - Sláturfélag Suðurlands stofnað

Sláturfélag Suðurlands, SS, var stofnað sem samvinnufélag bænda.

 

Um SS í dag:

Sláturfélag Suðurlands svf. er samvinnufélag, í eigu búvöruframleiðenda á félagssvæði sínu og almennra hluthafa. Félagið starfar á grundvelli laga um samvinnufélög nr. 22/1991.

Félagssvæði Sláturfélagsins skv. samþykktum er Vestur-Skaftafellssýsla, Austur- Skaftafellssýsla austur að Jökulsá á Breiðamerkursandi, Rangárvallasýsla, Árnessýsla, Kjósar- og Gullbringusýsla, Borgarfjarðarsýsla, Mýrarsýsla, Snæfells- og Hnappadalssýsla og Dalasýsla auk bæja og kaupstaða innan framangreindra svæða.

Tilgangur félagsins er skv. samþykktum, að annast slátrun, úrvinnslu og sölu á framleiðslu félagsmanna. Félagið flytur einnig inn vörur og stundar aðra verslun eftir því sem það styrkir sölu á framleiðslu félagsins.

Með hliðsjón af tilgangi félagsins og stöðu þess er höfuðmarkmið félagsins að vera leiðandi matvælafyrirtæki sem starfar á heildsölustigi og dreifir vörum á landsvísu. Félagið starfar á þremur sviðum, slátrun, kjötiðnaði og innflutningi.

Sláturfélag Suðurlands svf. er með höfuðstöðvar að Fosshálsi 1, Reykjavík. Að Fosshálsi eru auk skrifstofu, markaðs- og söludeildir.  Á Hvolsvelli er meginhluti kjötiðnaðar staðsettur ásamt frystihúsi og vörudreifingu kjötvara.  Sláturhús rekur félagið á Selfossi ásamt úrbeiningu á kjöti og pökkunarstöð.

Morgunblaðið þriðjudagurinn 28. janúar 2014 og fleira.Skráð af Menningar-Staður