Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Janúar

08.01.2014 07:39

Metár hjá Icelandair

 

Metár hjá Icelandair

 

Í desember flutti Icelandair 141 þúsund farþega í millilandaflugi og voru þeir 18% fleiri en í desember á síðasta ári. Framboðsaukning á milli ára nam 15% og sætanýting var 76,2% samanborið við 72,6% á sama tíma í fyrra.

Farþegar í millilandaflugi félagsins hafa aldrei verið fleiri en á árinu 2013. Þeir voru alls 2.257.305 og fjölgaði um 12% frá árinu 2012

Árleg aukning undanfarin ár hefur numið 12-18% og eru farþegar félagsins nú orðnir einni milljón fleiri en árið 2009.

Þetta kemur fram á mbl.is.

Skráð af Menningar-Staður

 

07.01.2014 23:03

Vitafélagið - fræðslu- og skemmtikvöld 8. janúar

viti

 

Vitafélagið - fræðslu- og skemmtikvöld 8. janúar 2014

 

Íslenska vitafélagið – félag um íslenska strandmenningu heldur fræðslu- og skemmtikvöld á morgun, miðvikudagskvöldið 8. janúar 2014. í Víkinni, Sjóminjasafni Reykjavíkur á Grandagarði. Dagskráin hefst kl. 20:00.

Rósa Margrét Húnadóttir þjóðfræðingur fjallar um hin sígildu íslensku sjómannalög og greinir þau og samfélagið sem þessi dægurtónlist sprettur upp úr. Blómaskeið hennar var sjötti og sjöundi áratugur síðustu aldar en upp úr því varð breyting á umfjöllun slíkra laga um sjómannslífið.

Svanhildur Jakobsdóttir söngkona og dagskrárgerðarmaður spilar þekkt, vinsæl og eldhress sjómannalög úr ýmsum áttum.

Dagskráin er ókeypisog allir velkomnir!Elfar Guðni við listaverkið Brennið þið vitar í Hólmarastarhúsinu á Stokkseyri.

Skráð af Menningar-Staður

 

07.01.2014 06:42

Vægi Icelandair minnkar þrátt fyrir fleiri ferðir

Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Fimm flugfélög bjóða upp á reglulegt áætlunarflug héðan allt árið um kring.

 

Vægi Icelandair minnkar þrátt fyrir fleiri ferðir

 

Flugumferð á Keflavíkurflugvelli jókst um fjórðung í desember síðastliðnum í samanburði við árið á undan. Öll þau fimm flugfélög, sem fljúga héðan allt árið um kring, bættu við ferðum í samanburði við sama tíma í hittifyrra samkvæmt talningum Túrista.

Icelandair og Wow Air fjölguðu hvort um sig brottförum sínum um fimmtíu talsins og nemur það aukningu um tíund hjá Icelandair. Þetta er hins vegar nærri því tvöföldun á umsvifum Wow Air á milli ára. Easy Jet fór úr tíu brottförum í 45 en viðbótin hjá Norwegian og SAS er mun minni.

Með þessari auknu flugumferð í desember þá hefur vægi félaganna breyst milli ára. Í desember árið 2012 stóð Icelandair fyrir fimm af hverjum sex brottförum frá Keflavík en núna er hlutfallið tæp 74 prósent. Vægi Wow Air fer úr tíu prósentum upp í fimmtán og hlutdeild Easy Jet af ferðunum fer í 6,5 prósent en var tæp tvö prósent í hittifyrra.

Í vetur er boðið upp á beint flug til 33 áfangastaða frá Keflavík.

Vægi flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli í desember 2013, í brottförum talið:

  1. Icelandair: 73,7%
  2. Wow air: 15,3%
  3. Easy Jet: 6,5%
  4. SAS: 2,6%
  5. Norwegian: 1,9%

    Af www.turisti.is

Skráð af Menningar-Staður

06.01.2014 23:00

Vinningshafi Rauða hússins á Eyrarbakka


Hjónin Sigríður Birna Birgisdóttir frá Merkisteini á Eyrarbakka og Marteinn Arilíussson.

Vinningashafi Rauða hússins á Eyrarbakka

 

Þá höfum við dregið úr leiknum okkar og var það  Marteinn Arilíusson á  Stokkseyri sem vann að þessu sinni!

Til hamingju með það Marteinn!

Marteinn hefur unnið sér inn gjafabréf fyrir tvo á fjögura rétta nýársmatseðilinn hjá okkur!

Nýársmatseðill 1. janúar 2014

Forréttur:
Rjómalöguð humarsúpa að hætti Rauða Hússins.

Milliréttur:
Villibráðapaté með rauðlaukssósu.

Aðalréttur:
Val um annað hvort Lambafille m/róspiparsósu og gratinkartöflum eða þá Hrossalund m/soðsósu og gratinkartöflum.

Eftirréttur:
Val um annað hvort Gamla góða Þjórsárhraunið m/ís eða innbakaður Baileys-ís í marengs. Kaffi eða Te.

Tilboðsverð 6.900 kr

Tilboð á borðvínum

Panta er hægt í síma 483-3330 eða á maili raudahusid@raudahusid.is

Rauða húsið á Eyrarbakka greinir frá á Facebook síðu sinni.

 Skráð af Menningar-Staður
 

06.01.2014 21:52

Af hverju lækkum við fasteignaskattinn?


Eyþór Arnalds er formaður bæjarráðs Árborgar.

 

Af hverju lækkum við fasteignaskattinn?

 

Sveitarfélögin í landinu leggja útsvarsskatt á laun, en jafnframt leggja þau á annan skatt sem leggst á alla þá sem hafa komið sér upp eigin íbúðarhúsnæði. Á Íslandi er hlutfall þeirra sem búa í eigin húsnæði eitt það hæsta á Vesturlöndum og hefur farið hátt í 80%. Á sama tíma er hlutfall leigjenda mun lægra en í nágrannalöndum okkar. Fasteignaskatturinn leggst á íbúðareign fólks óháð skuldsetningu eignanna og óháð tekjum. Fjölskyldur með neikvætt eigið fé greiða jafn mikið og fjölskyldur sem hafa hreina eign. Ekki er heimilt að draga neinn kostnað frá skattstofninum þó heimilt sé að gefa takmarkaðan afslátt til eldri borgara. Skatturinn leggst þannig á barnafjölskyldur og eldri borgara án tillits til skuldakostnaðar. Ríkið og sveitarfélögin greiða leigubætur til þeirra sem eru með leigusamning en hins vegar eru fasteignaskattar lagðir á þá sem hafa lagt í stærstu fjárfestingu ævi sinnar: heimilið sitt. Þegar gengi krónunnar féll á árinu 2008 hækkuðu skuldir heimilanna verulega, bæði erlend lán og verðtryggð krónulán. Þó nú sé unnið að mikilvægri leiðréttingu af hálfu ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins eru íslensk heimili ennþá allt of skuldsett. Má segja að skuldabagginn standi eðlilegum vexti íslensks þjóðfélags fyrir þrifum. Það er því varla á það bætandi að fasteignaskattur sé íþyngjandi á sama tíma.

 

Stefnubreyting í Árborg

Árið 2010 voru fasteignagjöld í sveitarfélaginu Árborg hæst á landinu samkvæmt samantekt Byggðastofnunar. Þrátt fyrir þessi háu gjöld voru skuldir að aukast og mikið tap var á rekstrinum. Með samstilltu átaki hefur tekist þrennt; skila afgangi, lækka skuldir og lækka fasteignaskatta. Gerð var þriggja ára áætlun fyrir árin 2012-2014 þar sem fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði var lækkaður úr 0,35% í 0,275%. Þessi lækkun er fimmtungslækkun á þremur árum. En til hvers erum við að þessu burtséð frá því að þetta komi heimilunum almennt vel? Í fyrsta lagi er mikilvægt fyrir vaxtarsamfélag eins og sveitarfélagið Árborg að vera samkeppnisfært. Lægra húsnæðisverð hefur um árabil verið aðdráttarafl þeirra sem hafa viljað fá stærra íbúðarhúsnæði fyrir lægra verð en fæst á höfuðborgarsvæðinu. Með því að lækka fasteignaskattinn og þar með fasteignagjöldin erum við betur samkeppnishæf. Hingað kemur þá frekar fólk sem vill búa og hefur þá frekar úr einhverju að spila. Í öðru lagi eru sérstakar aðstæður í íslensku samfélagi þar sem skuldsetning heimilanna er enn of mikil. – Lægri fasteignaskattar létta byrðarnar. Í þriðja lagi er ört stækkandi hópur eldri borgara sem kýs að búa í eigin húsnæði. Það er bæði manneskjulegt og oft eina úrræðið á tímum þar sem biðlistar eftir sérhönnuðu húsnæði og dvalarrýmum aukast. Eldri borgarar geta í einhverjum tilfellum fengið afslátt af fasteignagjöldum, en best er að einfalda kerfið og lækka skattinn á alla. Þannig er ekki verið að refsa með jaðarsköttum þeim eldri borgurum sem eru færir um að afla sér tekna á efri árum. Íslendingar verða einna langlífastir og ná á langri ævi að koma upp heimili í meira mæli en flestar aðrar þjóðir. Þetta fyrirkomulag er í eðli sínu heilbrigt og gott og það ber að vernda.

 

Búum til jákvæða hvata

Við verðum að gæta þess að eyðileggja ekki heilbrigða hvata í samfélaginu með því að refsa þeim sem hafa náð að spara eigið fé í eigin húsnæði. Þvert á móti á að létta byrðarnar á þeim sem hafa sýnt ráðdeild og dugnað. Með þessu litla lóði okkar á vogarskálar heimilanna viljum við stuðla að heilbrigðara samfélagi. Vonandi getum við haldið áfram að lækka álögur á íbúana og gert gott samfélag enn betra.

 

Eyþór Arnalds

Höfundur er formaður bæjarráðs Árborgar.

 
Morgunblaðið mánudagurinn 6. janúar 2014

Skráð af Menningar-Staður

06.01.2014 21:42

Merkir Íslendingar - Vigfús Sigurgeirsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins
Vigfús Sigurgeirsson.

 

Merkir Íslendingar - Vigfús Sigurgeirsson

 

Vigfús Sigurgeirsson, ljósmyndari og kvikmyndatökumaður, fæddist á Stóruvöllum í Bárðardal 6. janúar 1900. Hann var sonur Sigurgeirs Jónssonar, bónda á Stóruvöllum, síðar organleikara og söngstjóra á Akureyri, og Júlíönu Friðriku Tómasdóttur húsfreyju.

Systkini Vigfúsar: Páll, kaupmaður á Akureyri; Gunnar, píanókennari í Reykjavík; Hermína, tónlistarkennari við Tónlistarskóla Reykjavíkur; Jón, skólastjóri Iðnskólans á Akureyri; Agnes sem lést á unglingsárum; Hörður, ljósmyndari í Vestmannaeyjum, Haraldur, skrifstofumaður hjá Akureyrarbæ, og Eðvarð, ljósmyndari og kvikmyndatökumaður á Akureyri, faðir Egils Eðvarðssonar kvikmyndatökumanns.

Fyrri kona Vigfúsar var Bertha Þórhallsdóttir sem lést 1932 en seinni kona hans var Valgerður Magnúsdóttir og eru börn þeirra Gunnar Geir ljósmyndari og Bertha húsfreyja.

Vigfús stundaði nám við Gagnfræðaskóla Akureyrar, sótti einkatíma í tungumálum og teikningu, lærði ljósmyndun hjá Hallgrími Einarssyni á Akureyri, kynnti sér nýjungar í ljósmyndun í Danmörku og Þýskalandi, sótti námskeið í litljósmyndun, var við tónlistarnám við Tónlistarskóla Akureyrar og stundaði framhaldsanám hjá Emil Thoroddsen og Páli Ísólfssyni og kynnti sér kvikmyndagerð í Þýskalandi.

Vigfús var ljósmyndari á Akureyri frá 1923, starfrækti eigin ljósmyndastofu þar 1927-36 og starfrækti síðan umsvifamikla ljósmyndastofu í Reykjavík. Hann var sérlegur ljósmyndari ráðuneyta og forseta Íslands frá upphafi. Hann tók kvikmyndir í öllum opinberum ferðum forsetanna Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar, innanlands sem utan, gerði kvikmyndirnar Stofnun lýðveldis á Íslandi og Í jöklanna skjóli og kvikmyndir af atvinnuháttum Íslendinga og þjóðlífi frá 1937. Hann var auk þess píanóleikari og lék undir fyrir kóra og einsöngvara á Akureyri í mörg ár.

Vigfús lést 16. júní 1984.

Morgunblaðið mánudagurinn 6. janúar 2014

Skráð af Menningar-Staður

06.01.2014 20:15

Þrettándinn - síðasti dagur jóla

 

Þrettándinn - síðasti dagur jóla

 

Þrettándinn er 6. janúar og er stytting á þrettándi dagur jóla og er almennt kallaður síðasti dagur jóla. Upphaflega hét hann opinberunarhátíð meðal Rómarkirkjunnar og hefur verið tengdur ýmsum kristnum trúaratburðum.

 

Hann var talinn fæðingardagur Krists, áður en sú trú fluttist yfir á 25. desember. Á 4. og 5. öld fór að tíðkast að minnast fæðingarinnar hinn 25. desember en skírnar Krists og Austurlandavitringanna 6. janúar. Formlega var það fyrirkomulag ákveðið árið 567 á 2. kirkjuþinginu sem haldið var í Tours í Frakklandi.

 

Fram til ársins 1770 hvíldi á þrettándanum helgi og var hann almennur frídagur en það ár var hann afhelgaður, sem og þriðji í jólum sem einnig hafði verið helgi- og frídagur og við það minnkaði mikið allt tilstand á þessum degi. Hérlendis hefur þrettándinn öðru fremur verið lokadagur

jóla en eftir tímatalsbreytinguna árið 1700 munaði ekki miklu að hann bæri upp á sama dag og jólin hefðu annars byrjað samkvæmt gamla tímatalinu.

 

Algengt var að gera sér dagamun í lok jóla og einnig var þrettándinn eins konar varadagur fyrir útiskemmtanir ef veður brást um

áramót. En nær eini siðurinn sem tengist þrettándanum í dag eru útiskemmtanir með brennu, dansi og söng. Þar koma fram álfar, tröll, jólasveinar og aðrir slíkir. Fólk kemur saman við brennuna með kyndla, skýtur upp síðustu flugeldunum frá áramótunum og syngur saman áramóta- og álfasöngva.

Fréttablaðið 6. janúar 2014Skráð af Menningar-Staður

05.01.2014 15:24

Dagný Brynjars og Björgvin Karl íþróttamenn ársins á Suðurlandi fm 963

Dagný Brynjarsdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson frá Stokkseyri.

 

Dagný Brynjars og Björgvin Karl íþróttamenn ársins

á Suðurlandi fm 963

 

Í upphafi árs 2014 stóð Sportþátturinn á útvarpsstöðinni Suðurland fm 963 fyrir vali á íþróttakonu og íþróttakarli ársins 2013 á Suðurlandi á meðal hlustenda. Gátu hlustendur sent inn skilaboð á Facebook með athugasemdum aða sent tölvupóst á stjórnanda þáttarins gest Einarsson frá Hæli. Fimm efstu í vali hlustenda urðu eftirfarandi:

 

Íþróttakona ársins 2013 á Suðurlandi:
1. Dagný Brynjarsdóttir, knattspyrnukona
2. Guðmunda Brynja Óladóttir, knattspyrnukona
3. Marín Laufey Davíðsdóttir, körfubolta- og glímukona
4. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, handknattleiks- og fimleikakona
5. Fjóla Signý Hannesdóttir frjálsar

Íþróttamaður ársins 2013 á Suðurlandi:
1. Björgvin Karl Guðmundsson, crossfitmaður
2. Ragnar Nathanaelsson, körfuknattleiksmaður
3. Eiður Aron Sigurbjörnsson, knattspyrnumaður
4. Þórir Ólafsson, handknattleiksmaður

5. Ólafur Guðmundsson, frjálsíþróttamaður

Af www.dfs.is


 

Skráð af Menningar-Staður
 

05.01.2014 12:05

Sunnlensku jólablöðin 2013

 

Sunnlenska fréttablaðið og Dagskráin

 

Sunnlensku jólablöðin 2013

 

Meðal efnis í hinu mikla prentflóði fyrir hver jól eru jólablöð hérðasfréttablaða og jólablöð stjórnmálaflokka og samtaka.

 

Hér á Suðurlandi eru 4 jólablöð sem komu út fyrir þessi jól.

 

Það eru jólablöð héraðsfréttablaðanna tveggja, sem annars koma út reglulega í hverri viku allt árið þ.e; Sunnlenska fréttablaðið og Dagskráin. Bæði jólablöð þeirra voru vegleg að vanda og hlaðin margvíslegu efni og jólakveðjum.

Þá komu einnig út jólablöð Suðurlands sem er málgagn Sjálfstæðismanna á Suðurlandi og Þjóðólfs sem er málgagn Framsóknarmanna á Suðurlandi.

Bæði þessi blöð voru ágæt að innihaldi og eins og vera ber með sterkan tón útgefenda sinna í efnistökum. Blöðin bæði voru hlaðin auglýsingum og jólakveðjum sem er nauðsynleg tekjuöflun fyrir kosningasjóði þegar kosningar eru að voru eins og nú verður hinn 31. maí n.k.  er kosið verður til sveitarstjórna.

Nokkra athygli vekur að hvorki Samfylkingin né Vinstri grænir á Suðurlandi gáfu út blöð fyrir þessi jól né fyrir jólin 2012.

 
 
 

Suðurland og Þjóðólfur

.
 

 

.
Þá kom einnig út jólablað Selfoss-Suðurland blaðsins sem kemur reglulega út aðra hverja viku

 

Skaráð af Menningar-Staður

05.01.2014 10:36

Óskabarn þjóðarinnar 100 ára 17. janúar 2014

 

Selfoss kemur að bryggju á Flateyri við Önundarfjörð á áttunda áratug síðustu aldar.

 

Óskabarn þjóðarinnar 100 ára 17. janúar 2014

 

Eimskipafélag Íslands fagnar 100 ára afmæli sínu á árinu og verður mikið um að vera af því tilefni. Ólafur William Hand, forstöðumaður markaðs-og kynningardeildar Eimskips segir skemmtilegt og spennandi ár framundan auk þess sem slegið verði upp hátíð á sjálfan afmælisdaginn, 17. janúar næstkomandi.

„Það er skemmtilegt og spennandi ár framundan og haldið verður upp á afmælið með ýmsum viðburðum, stórum sem smáum. Sjálfur afmælisdagurinn er 17. janúar og þá verður mikil og glæsileg afmælishátíð haldin í Hörpunni,“ segir Ólafur.

Íslensk dægurtónlist í bland við sögu félagsins verður flutt á afmælisdaginn í Eldborgarsal Hörpunnar þar sem fram koma meðal annars Björn Jörundur, Valdimar, KK, Bubbi Morthens, Sigríður Thorlacius, Egill Ólafsson, Magnús Eiríksson, Unnsteinn Manuel, Eyþór Ingi og Pálmi Gunnarsson.

„Eimskipafélag Íslands var stofnað þann 17. janúar 1914, þar sem á fimmta hundrað manns komu saman í Fríkirkjunni í Reykjavík. Félagið var nefnt Óskabarn þjóðarinnar í fjölmiðlum landsins og en með stofnun þess var talið að stigið væri eitt mesta heillaspor í sögu þjóðarinnar og sjálfstæðisbaráttu.

Saga Eimskips er samofin þjóðarsögu 20. aldar, langt umfram það sem gerist og gengur með fyrirtæki. Eimskip er elsta skipafélag Íslands og hefur félagið frá upphafi lagt höfuðáherslu á skipaflutninga til og frá landinu en í dag býður Eimskip upp á alhliða flutningsþjónustu um allan heim,“ segir Ólafur.

Eimskip rekur nú skrifstofur í 19 löndum og hefur umboðsmenn í fjölmörgum öðrum þar að auki. 

Af www.mbl.is -viðskifti

 
 

Goðafoss við bryggju á Flateyri.

Skráð af Menningar-Staður