Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Febrúar

24.02.2014 06:05

Ég trúi á handleiðslu

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Eyrbekkingurinn Haukur Guðlaugsson.

 

Ég trúi á handleiðslu

 

Haukur Guðlaugsson, fyrrverandi söngmálastjóri þjóðkirkjunnar og organisti, gaf nýlega út enska útgáfu á kennslubók í organleik auk þess að endurútgefa íslenska gerð bókarinnar. Í viðtali ræðir hann um fallegu æskuárin á Eyrarbakka, merka kennara sína og töfrana í orgelleiknum. Hann segir einnig frá starfi sínu sem söngmálastjóri. Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is

 

Haukur Guðlaugsson, fyrrverandi söngmálastjóri þjóðkirkjunnar og organisti, er 82 ára, lífsglaður og fer allra sinna ferða á hjóli. Hann gaf nýlega út enska útgáfu á kennslubók í organleik auk þess að endurútgefa íslenska gerð bókarinnar sem kom út í þremur heftum, það fyrsta 1998. Haukur hefur á liðnum áratugum verið óþreytandi við að kynna orgelleik fyrir þjóðinni, kennt hann og spilað, auk þess að semja kennslubækur um efnið og annað tengt kórsöng.

Haukur er fyrst spurður um ætt og uppruna og segir: „Ég ólst upp á Eyrarbakka og átti þar mjög skemmtilega og fallega æsku. Ég var þannig í eðli mínu að ég sofnaði snemma á kvöldin og fór snemma á fætur, fylgdist með kúnum koma austan götu og fór upp á mýri að tína blóm handa mömmu. Það voru 90 kýr á Eyrarbakka á þessum tíma, íbúar stunduðu margir smábúskap og faðir minn, Guðlaugur Pálsson, sem var kaupmaður á staðnum, fékk kartöflur, ull og gærur sem bændur lögðu inn og tóku síðan út vörur. Pabbi rak verslunina í yfir sjötíu og sjö ár og varð 97 ára gamall. Hann vann fram á síðasta dag, gekk þá upp á loft og dó.“

Hvenær vaknaði áhugi þinn á tónlist?

„Ég hafði mikla ánægju af tónlist sem snerti mig strax sem krakka. Eitt sinn var móðurbróðir minn, sem var kirkjuorganisti á staðnum, heima hjá foreldrum mínum og rætt var um tónlist. Það skrapp upp úr mér að mig langaði til að læra að spila á píanó. Ekki var það meira rætt. Þegar ég svo gekk austur götu daginn eftir stóð frændi minn fyrir utan hús sitt, kallaði í mig og spurði hvort mér væri alvara með því að vilja læra á píanó. Ég sagði að svo væri og hann fór að kenna mér. Síðan þróuðust mál þannig að ég fór í Tónlistarskólann í Reykjavík og eftir að hafa lokið þar burtfararprófi í píanóleik árið 1951 flutti ég til Siglufjarðar og var þar skólastjóri Tónlistarskólans og stjórnaði Karlakórnum Vísi. Ég hafði reyndar ekkert lært í kórstjórn, en útvegaði mér ágæta kennslubók, sem hafði orðið til á námskeiði hjá doktor Róbert A. Ottóssyni, og æfði mig dyggilega allan veturinn. Það má segja að ég hafi lært kórstjórn eins og í bréfaskóla.

En hugur minn stefndi í nám í orgelleik og árið 1955 fékk ég tækifæri til þess. Ég fór til Hamborgar og gerðist nemandi við Staatliche Hochschule für Musik. Ég var svo heppinn að vera nemandi Martins Günthers Förstemanns, sem var afburðakennari en blindur. Ég lærði hjá honum í fimm ár, frá 1955-1960. Bræður Förstemanns féllu í fyrra stríði en þar sem hann var blindur var ekki hægt að kalla hann til herþjónustu. Móðir hans kenndi honum tónverkin, las upp nóturnar og hann þurfti að fikra sig áfram með hvert einasta verk og læra það þannig utan að. Hann kunni nánast utan að öll verk sem við nemendurnir spiluðum.

Í Hamborg leigði ég herbergi hjá gamalli ekkju. Sonur hennar hafði týnst í stríðinu en hún bjóst alltaf við að hann myndi birtast einn daginn. Hann kom aldrei. Ég spurði hana hvort ég mætti leigja mér píanó og hafa hjá mér. Þá leiddi hún mig inn í stofuna og sýndi mér píanó, sem var píanó sonarins, og þar gat ég æft mig eins og ég vildi. Hún tók mér sem syni sínum. Smám saman fóru fleiri Íslendingar að leigja hjá þessari góðu konu og urðu alls þrjátíu og fimm áður en hún varð öll.“

Hvernig var einkalífið á þessum tíma?

„Ég hafði kvænst á Siglufirði, Svölu Einarsdóttur, og við eignuðumst eina dóttur, Svanhildi Ingibjörgu, en ég fór einn til náms í Þýskalandi og þar með flosnaði þetta fyrra hjónaband upp. Dóttir okkar fór á Eyrarbakka til pabba og mömmu og ólst þar upp og var mikil stoð og stytta pabba þegar hann var orðinn ekkjumaður. Í Þýskalandi kynntist ég svo konunni minni, Grímhildi Bragadóttur, sem var að læra tannlækningar en varð síðar framhaldsskólakennari á Akranesi og bókasafnsfræðingur og starfaði meðal annars á Landsbókasafninu. Við eigum tvo syni, Braga Leif og Guðlaug Inga. Það hefur alltaf verið gott samband hjá öllu þessu fólki. Þegar dóttir mín var fermd á Eyrarbakka var veisla hjá mömmu og pabba og þar voru fyrri konan mín með maka og Grímhildur kona mín. Þegar ein frænka mín fann hvað andrúmsloftið var gott í stofunni og allir voru vinir þá sagði hún: „Það er bara eins og ekkert hafi verið“ og bætti við: „Mikið eru þær fallegar báðar þessar konur þínar!“

 

Gefandi starf

Þú lærðir ekki bara í Þýskalandi heldur líka á Ítalíu.

„Já, eftir að ég kom frá námi í Þýskalandi flutti ég til Akraness með fjölskyldu minni og var skólstjóri þar, kenndi á píanó og orgel og var organisti og söngstjóri í Akraneskirkju og stjórnaði ennfremur karlakórnum Svönum til margra ára. Oft fór ég með nemendur út í kirkju og leyfði þeim að spila á kirkjuorgelið sem þeim fannst mjög spennandi, enda töfrandi hljóðfæri. Á þessum tíma dreymdi mig um að komast í framhaldsnám til hins fræga organista Fernandos Germanis í Róm, en það var eiginlega engin leið að komast í samband við hann. Svo kom nemandi hans til Akraness og hélt tónleika og ég sagði honum frá þessum draumi mínum. Hann var vinur Germanis og hafði samband við hann og ekki löngu seinna stóð ég með bréf í höndunum frá Germani. Það var eins og þessu væru stýrt, eins og mér hefur fundist með margt í lífi mínu. Síðan fórum við, konan mín og tveir synir, sá yngri sex mánaða og hinn sex ára, til Ítalíu. Germani tók mér afskaplega vel og ég kynntist nýjum aðferðum í orgelleik og það sem ég lærði hjá honum hef ég notað ásamt ýmsu öðru í kennslubókum mínum í orgelleik.“

Umfangsmesta starf þitt var sem söngmálastjóri þjóðkirkjunnar í tuttugu og sjö ár. Segðu mér frá því starfi.

„Það var mjög gefandi starf sem innihélt meðal annars skólastjórn Tónskóla þjóðkirkunnar. Einnig annaðist ég útgáfu á ýmsu kennsluefni fyrir kóra og organista, alls um 70 hefti og bækur. Ég ferðaðist um landið og kynntist organistunum og aðstoðaði þá og kirkjukórana. Ég hélt yfir tuttugu námskeið í Skálholti fyrir organista og kórfélaga ásamt mörgum góðum kennurum. Þetta voru fjölsótt námskeið, eitt sinn fór fjöldinn upp í 400 og þá var ansi þröngt á þingi í Skálholti. Ég kynntist afskaplega elskulegu fólki sem hafði brennandi áhuga á tónlist. Í lok vikunámskeiðs héldum við venjulega veraldlega skemmtun á laugardegi og messuðum á sunnudegi. Ég reyndi að haga því þannig að allir hefðu eitthvert hlutverk í guðsþjónustu sunnudagsins, spiluðu lag í messunni eða undir söngnum, lékju forspil eða stjórnuðu kórnum, sem var oft tvö til þrjú hundruð manns, það var alltaf hægt að finna eitthvað. Þetta hafði ég lært á Eyrarbakka því Guðmundur Daníelsson rithöfundur, sem þar kenndi, lét nemendur koma fram við skólaslit og þar fékk hver nemandi eitthvert hlutverk.“

 

Boðberar hreinnar gæsku

Hvað er svona skemmtilegt við að spila á orgel?

„Það er ýmislegt. Eitt af því er að það geta verið mikil blæbrigði í röddum orgelsins og miklir möguleikar á að finna alls konar liti. Þar eru styrkir hljómar og skærir tónar og öllu þessu getur maður blandað saman. Sumir telja, jafnvel organistar, að það sé afskaplega einfalt að raða röddunum saman í hljóma. Kennari minn í Róm leit öðruvísi á það og taldi að þessi þáttur í orgelleiknum væri eitt það flóknasta sem til væri í allri tónlistinni. Orgelspilið er, eins og allur annar hljóðfæraleikur, afskaplega krefjandi, en það er einmitt þetta hversu flókið orgelspil er sem gerir það skemmtilegt. Þegar maður spilar á orgel spilar maður bæði með höndum og fótum og það þarf mikla æfingu og einbeitingu til að halda öllu í horfinu og fara ekki út af laginu, en það er einmitt það sem margir organistar óttast. Þetta minnir mig á það sem Páll Ísólfsson sagði eitt sinn: Þegar ég sest við hljóðfærið á tónleikum biðst ég fyrir í huganum og er þá mjög lítill karl.“

Fórst þú með bæn áður en þú spilaðir opinberlega?

„Ég trúi á handleiðslu og hef alltaf reynt að hafa í huga frelsarann og almættið. Trúin hefur fylgt mér frá því ég var krakki. Þegar við tveir bræðurnir vorum sex og sjö ára fengum við berkla, en bæði barnakennarinn og bakarinn í þorpinu voru með smitandi berkla. Við bræðurnir þurftum aðeins að liggja í einar sex vikur þar til okkur batnaði. Ég man sérstaklega að þá settist móðir okkar, Ingibjörg Jónasdóttir, hjá okkur á kvöldin og lét okkur fara með bænir. Þegar ég svo gekk til spurninga hjá séra Árelíusi Níelssyni lét hann okkur læra sálm eftir Matthías Jochumsson, Þú Guð míns lífs, ég loka augum mínum... Hann lét okkur lofa sér því að fara með þennan bænarsálm á hverju kvöldi í viku en síðan þá hefur þessi sálmur verið mér í huga.“

Áttu þér önnur áhugamál en tónlistina?

„Ég hef mikinn áhuga á lestri á góðum bókum en hljóðfærin tefja mig, ég er bæði með orgel og píanó á heimilinu og spila talsvert hvern einasta dag, svo ég les ekki eins mikið og ég vildi. Ég á mér einnig áhugamál sem ég verð að fá að nefna sem er dýravernd. Mér finnst slæmt til þess að hugsa hvað við mennirnir sýnum dýrum oft mikið tillitsleysi. Mér fannst til mikillar fyrirmyndar í Bændaskólanum á Hvanneyri í sambandi við tamningaaðferðir sem Ingimar Sveinsson notaði og kenndi, þar sem hvorki mátti rykkja, slá eða sparka. Slíkir menn eru boðberar hreinnar gæsku. Ég átti góðan vin austur á Neskaupstað, Ágúst Ármann Þorláksson organista, sem nú er látinn, en hann vildi ekki láta temja hest sinn því honum líkaði ekki þær aðferðir sem voru notaðar. Í dag hafa orðið miklar breytingar í sambandi við meðferð á dýrum og margt þokast í góða átt hjá mörgum, en sumir aðrir eru eins og þeir þroskist hægar. Tökum svari dýranna, eins og ein þingkona gerði fyrir ári á Alþingi okkar.“

Morgunblaðið sunnudagurinn 23. febrúar 2014

 

Haukur Guðlaugsson.

Skráð af Menningar-Staður

 

23.02.2014 20:21

Aðalfundur Félags eldri borgara á Eyrarbakka var í dag

Frá fundinum í dag.

 

Aðalfundur Félags eldri borgara á Eyrarbakka var í dag

 

Aðalfundur Félags eldri borgara á Eyrarbakka var haldinn í dag, sunnudaginn 23. febrúar 2014, í kaffisal hinar fyrrum Alpan verksmiðju.

Félagið hefur haft þar aðstöðu til félagsstarfs.

 

Það mætu 22 félagar eða 33% félagsmanna.

Regína Guðjónsdóttir, formaður félagsins, og aðrir stjórnarmenn gerðu grein fyrir starfinu á síðasta ár.

Stjórn félagsins var öll endurkjörin.

 

Að loknum aðalfundi var síðan boðið uppá kaffi og kökur.

 

Menningar-Staður var á fundinum og færði til myndarSkráð af Menningar-Staður

23.02.2014 20:12

Byssusýning 2014 - Veiðisafnið - Stokkseyri

 

Byssusýning 2014 - Veiðisafnið – Stokkseyri

 

Árleg byssusýning Veiðisafnsins á Stokkseyri í samvinnu við verslunina Vesturröst verður haldinn laugardaginn 1. og sunnudaginn 2. mars 2014 frá kl. 11–18 í húsakynnum Veiðisafnsins, Eyrarbraut 49 Stokkseyri.

 

Verður þar fjölbreytt úrval skotvopna til sýnis svo sem haglabyssur, rifflar, skammbyssur, herrifflar ásamt ýmsu frá landskunnum söfnurum m.a úr einkasöfnum frá Sverri Scheving Thorsteinssyni, Sigurði Ásgeirssyni, Einari frá Þverá og Drífu-haglabyssur frá Jóni Björnssyni heitnum frá Dalvík.

Félagsmenn frá Skotfélaginu Ósmann á Sauðárkróki verða á staðnum og kynna sína starfsemi og sýna úrval af byssur frá sínum félagsmönnum.
Skotfélagið Ósmann var stofnað á Sauðárkróki þann 8. maí 1991 og er mikill fengur í því að fá þá norðanmenn í heimsókn. www.osmann.is 

 

Allt áhugafólk um skotvopn og veiðar er velkomið, aðgangseyrir er kr.1250 fl. og 650 kr. börn 6-12 ára.

Nánari upplýsingar á  www.veidisafnid.is og  www.vesturrost.is

Opnunartími

OPIÐ 11:00 – 18:00
-alla daga apríl - september
-eingöngu um helgar okt, nóv, feb og mars.
-lokað í desember og janúarSkráð af Menningar-Staður

23.02.2014 06:17

23. febrúar 2014 - "konudagur" - góa byrjar

 

23. febrúar 2014  -  “konudagur”-  góa byrjar

 

Mánuðurinn góa hefst nú sunnudag frá 18. til 24. febrúar, en 8. til 14. febrúar í gamla stíl fyrir 1700.

Nafnið, góa eða gói, er þekkt úr elstu heimildum og afbrigði þess í öðrum norrænum tungum. Gói er persónugerð sem vetrarvættur í gömlum sögnum, dóttir Þorra.

 

Orðið góiblót bendir til mannfagnaðar seint að vetri að fornu en um hann er ekkert vitað með vissu. Ljóst er hinsvegar af heimildum frá öndverðri 18. öld að fagna átti góu á svipaðan hátt og þorra. Skyldi það fremur vera húsbóndinn en húsfreyjan, en víst er að dagurinn var eignaður húsfreyjunni. Heimildir geta um tilhald í mat á síðari öldum en hvergi á við þorrakomu. Kann þar að ráða nokkru að góukoma lendir oftast á langaföstu.

 

Nokkuð var ort um Góu á 17. – 19. öld sem dóttur Þorra eða eiginkonu. Var þá stundum reynt í gamni að skjalla hana til að bæta veður. Svipaður kann að vera tilgangur þess góukomusiðar á norðaustanverðu landinu að Góu var færður rauður ullarlagður.

Heitið konudagur er kunnugt frá miðri 19. öld og er nú útbreitt. Sá siður að eiginmenn gefi konum sínum blóm á konudaginn hófst á sjötta áratug 20. aldar.

 

Í almennri þjóðtrú skipti góuveðrið máli. Átti sumarið að verða gott ef góa væri stormasöm og veður vont fyrstu góudaga.

 

Þessi vísa var húsgangur í Önundarfirði fram á 20. öld.

Góa kemur með gæðin sín

gefst þá nógur hitinn.

Fáir sakna þorri þín

þú hefur verið skitinn.

 

Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson.

 

.

.

 

Skráð af Menningar-Staður.

22.02.2014 23:07

Vefmyndavélin á Rauða húsinu á Eyrarbakka

 

Vefmyndavélin á Rauða - húsinu 

á Eyrarbakka
 

Skráð af Menningar-Staður

22.02.2014 21:38

Frá Félagi eldriborgara á Eyrarbakka

 

Frá Félagi eldriborgara á Eyrarbakka

 

Ágæti viðtakandi.

Við í stjórn félags eldri borgara á Eyrarbakka boðum til aðalfundar sunnudaginn 23. febrúar kl.14:00

að Búðarstíg 22 (Alpan kaffistofa).

 

Fundarefni:

                        Formaður setur fundinn

                        Síðasta fundargerð lesin

                        Skýsla stjórnar

                        Reikningar félagsins

                        Kosning stjórnar

                        Önnur mál         

Það eru allir velkomnir í félagið sem verða 60 ára á árinu og þeir sem eldri eru og búsettir eru í Sveitarfélaginu Árborg. Það er mikil reynsla sem þið hafið, og gaman er að hittast og rifja upp gamlar minningar. Allir félagar fá afsláttarkort og þjónustubók sem tilgreindur er afslátur og einnig fá félagar blaðið „Listin að lifa“

 

Með félagskveðju

Stjórnin

 

Ath: Góugleðin verður laugardaginn 15. mars.

 

Frá aðalfundi Félags eldriborgara á Eyrarbakka 2013

 

Skráð af Menningar-Staður

22.02.2014 20:54

Fjölskyldudagur í Listasafninu í Hveragerði á morgun - 23. feb. 2014

Listasafn Árnesinga í Hveragerði.Fjölskyldudagur í Listasafninu í Hveragerði á morgun - 23. feb. 2014

 

Á morgun sunnudaginn 23. febrúar verður boðið upp á leiðsögn og brugðið á leik á síðasta sýningardegi í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.

Björg Erlingsdóttir er einn þriggja sýningarstjóra sýningarinnar Samstíga-abstraktlist sem sýnd er í Listasafni Árnesinga, en hinir eru Sigríður Melrós Ólafsdóttir deildarstjóri sýningadeildar Listasafns Íslands og Inga Jónsdóttir safnstjóri Listasafns Árnesinga. 

Það var hugmynd Bjargar árið 2011 þegar hún var forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar að leita eftir samstarfi við Listasafn Íslands og Listsafn Árnesinga um gerð sýningaraðar þriggja sýninga til þess að efla almenna vitund um íslenskan myndlistararf og auðvelda skilning á samtímalist. Samstíga er önnur sýningin af þremur í þessu samstarfsverkefni og verkin á sýningunni eru valin með það í huga að skapa áhugaverða heild. Við gerð sýningarinnar nutu sýningarstjórarnir einnig góðs af Rakel Pétursdóttur deildarstjóra fræðsludeildar Listasafns Íslands. 

Markmið sýningarinnar er að veita innsýn í heim íslenskrar abstraktlistar um miðbik síðustu aldar og benda á tengsl við erlenda strauma. Verkefni sem geta vakið áhuga skólanemenda á viðfangsefninu voru útbúin, en þau geta ekki síður höfðað til hins almenna gests. Þau gefa tilefni til íhugunar en eru líka nothæf til að bregða á leik. 

Björg er þjóð- og safnafræðingur að mennt og starfaði við  safnadeild Listasafns Reykjavíkur 2002-2006 og sem forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar 2006-2013 en er nú sjálfstætt starfandi sérfræðingur. Í leiðsögninni mun Björg fjalla um hvernig listir endurspegla tíðaranda en eru ekki einangrað fyrirbæri í samfélaginu og hvernig þær mótast af því en hafa líka áhrif. Gestir eru hvattir til þess að spyrja og taka þátt í samræðunni og ekki er ólíklegt að Björg virki gesti í leik.

 

Listasafn Árnesinga býður gesti velkomna til þess að njóta leiðsagnar um sýninguna Samstíga-abstraktlist og skoða hvernig sú sýning kallast á við sýninguna Rósa Gísladóttir – skúlptúr en yfirheiti sýninganna er Hliðstæður og andstæður. Þetta er síðasti sýningardagur þessara sýninga.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

22.02.2014 07:01

Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi 15 ára

Merki Hrútavinafélagsins Örvars hannaði og teiknaði Hrútavinurinn og Önfirðingurinn Rafn Gíslason í Þorlákshöfn.

.

F.v.: Árni Benediktsson og Siggi Björns.

 

Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi 15 ára

 

Það bar til síðla í september árið 1999 að boð komu frá Bjarkari Snorrasyni, bónda á Tóftum í Stokkseyrarhreppi hinum forna, að til hrútasýningar væri boðað að Tóftum. Þangað skyldu sauðfjárbændur í hreppnum mæta með hrúta sína til mælinga og dóma hvað þeir gerðu allir með sóma.

Hrútasýningar hafa í gegn um tíðina verið hinar merkilegustu samkomur bæði út frá faglegum atriðum og ekki síður hin besta skemmtan með ýmsum hætti. Svo hefur vissulega verið á Tóftum og samkomurnar hafist með kjötsúpumáltíð að hætti Bjarkars bónda áður en haldið er til fagstarfa í fjárhúsinu. Vegna þessa hafa hrútasýningar að Tóftum verið fjölmennar um langa tíð.

 

Afdrifarík óvissuferð

Athafna- og félagsmálamaður vestan af fjörðum, Björn Ingi Bjarnason, hafði flutt til Stokkseyrar sumarið 1999 og var svo lánsamur að lenda í slagtogi við sauðfjárbændur í hreppnum. Svo heppilega vildi til að sama dag og hrútasýningin var á Tóftum að til Önfirðingsins komu þrír sveitungar hans í heimsókn. Þetta voru; Árni Benedikttsson, og bræðurnir Ingólfur Björnsson og Siggi Björns. Var strax ákveðið að fara með gestina í óvissuferð á hrútasýninguna. Þoka var yfir öllu og rigningarúði þegar haldið var af stað og gestirnir hlaðnir kvíða yfir því hvað væri í vændum enda höfðu þeir reynt nýbúann á Stokkseyri af ýmsu á fyrri tíð fyrir vestan.

Árni býr á Selfossi, Ingólfur í Noregi, Siggi Björns í Berlín í Þýskalandi og Björn Ingi býr á Eyrarbakka

 

Mikil upplifun

Ekki var að sökum að spyrja að þetta kvöld á Tóftum var mikil upplifun og góð skemmtun fyrir gestina að vestan því enginn þeirra hafði farið á hrútasýningu áður. Þarna var fastmælum bundið að að mæta árið eftir að Tóftum á hrútasýninguna og þá með nokkur skemmtiatriði sem og var gert.

 

Örvar

Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi var orðið til upp úr þessari óvissuferð að Tóftum haustið 1999. Hrútavinafélagið fagnar því í ár fimmtán ára afmæli og mun það verða gert með ýmsum hætti.

Hrútavinafélagið Örvar hefur komið að og haft frumkvæði til ýmissa mannlífs- og menningarmála á Suðurlandi og víðar. Verður það ekki rakið hér að þessu sinni en aðeins nefnd til Bryggjuhátíðin á Stokkseyri sem félagið  stóð fyrir með aðilum á staðnum og fleirum að koma í framkvæmd  sumarið  2004.

 

Þjóðlegt

Hrútavinafélagið vinnur í anda þess “Að viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita” og sýna verkin vissulega slíkt á margan hátt. Grunnur félagsins liggur í bændamenningunni í Flóanum og beitingaskúramenningunni fyrir vestan eins og sést á því hvernig félagið varð til.

Félagið hefur fengið góða svörun við starfinu sem sést best á því að samkomur og uppákomur þess eru mjög vel sóttar. Hrútavinafélaginu er gríðarlega kær einstök viðurkenning sem það fékk á samkomu í troðfullu félagsheimilinu Þjórsárveri erSigurður Sigurðarson f.v. yfirdýralæknir kvaddi sér hljóðs og veitti félaginu heilbrigðisvottorð vegna hins margþætta mannlífs og menningarstarfs Hrútavina.

 

Þakkir

Hrútavinafélagið hefur frá upphafi átt náið samstarf við “Búnaðarfélagið” í Stokkseyrarhreppi hinum forna sem fagnaði 125 ára afmæli á síðasta ári.

Hrútavinafélagið þakkar sérstaklega Búnaðarfélagi Stokkseyrarhrepps samstarfið þessi fimmtán ár og þakkar einnig öðrum sem félagið hefur sömuleiðis átt farsæla samleið með þessi ár.

 

Björn Ingi Bjarnason

Forseti

Hrútavinafélagsins Örvars

 

.

.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

 

22.02.2014 06:46

22. febrúar 2014 - þorraþrællinn

 

 

22. febrúar 2014 - þorraþrællinn

 

Mánuðurinn þorri hófst föstudaginn 24. janúar s.l. og er sá dagur kallaður “bóndadagur” og þá var miður vetur.

Í Orkneyingasögu og Flateyjarbók segir af Fornjóti konungi í Finnlandi og Kvenlandi. Fornjótur átti þrjá syni, Ægi, Loga og Kára. Kári var faðir Frosta (Jökull) er var faðir Snæs hins gamla. Hans sonur hét “Þorri” og dæturnar Fönn, Drífa og Mjöll. Þorri átti tvo syni og hét annar Nór en hinn Gór og dóttir hans hét “Góa.”

Þorri var blótmaður mikill og hafði blót á miðjum vetri er kölluð voru “Þorrablót.”

Síðasti dagur þorra er kallaður “þorraþræll” og er á sumun stöðum tileinkaður piparsveinum, mönnum í óvígðri sambúð, fráskildum mönnum, ellegar þeim sem átt höfðu barn í lausaleik eða tekið framhjá konu sinni.

Þorrablót eru haldin af miklum krafti um allt land og borðaður svokallaður “þorramatur” og frá slíkum samkomum er þessi bæn.

“Guð gefi, að ég væri kominn í rúmið, háttaður, sofnaður, vaknaður aftur og farinn að éta.”

Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson. 

 Skráð af Menningar-Staður

 

 

21.02.2014 20:22

Ari og Sandra á laugardagsfundi

Sandra Dís Hafþórsdóttir

 

Ari og Sandra á laugardagsfundi

 

Sjálfstæðisfélagið Óðinn á Selfossi og Sjálfstæðisfélögin í Árborg standa fyrir laugardagsfundum í Sjálfstæðishúsinu Austurvegi 38 klukkan 11 alla laugardaga.

 

Á morgun, laugardaginn 23. febrúar, verða gestir fundarins:


Ari B. Thorarensen  bæjarfulltrúi og formaður félagsmálanefndar og

Sandra Dís Hafþórsdóttir bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar.

 

Munu þau ræða bæjarmál almennt og þá málaflokka sem þau  sinna, það er félagsmál og fræðslumál og svara spurningum sem upp kunna að koma.

 

Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis og fríar kaffiveitingar á stuttum og snaggaralegum laugardagsfundi.

 

Ari Björn Thorarensen.

Skráð af Menningar-Staður