Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Febrúar

18.02.2014 06:08

Ævintýri hjá Mána II ÁR frá Eyrarbakka

 

Ævintýri hjá Mána II ÁR frá Eyrarbakka

 

Núna í febrúar þá hefur heldur betur fiskast vel á Mána II ÁR frá Eyrarbakka

 

400 kíló á bala

Einn róðurinn af þessum var ansi góður, því landað var úr Mána II ÁR 12,3 tonnum sem fengust á aðeins 30 bala.  það gerir yfir 400 kíló á bala sem er algert mok.   Máni kom með 37 tonn að landi í 3 róðrum.

 

Tveir menn eru á Mána II ÁR.  hásetinn Kjartan Helgasson og skipstjórinn Ragnar Emilsson. Hafa þeir verið að að veiðum suðaustur af Þorlákshöfn í um klukkutíma löngu stími frá Þorlákshöfn.  Línan hefur verið lögð á um 40 faðma dýpi og á linum botni.

 

Að sögn Hauks Jónssonar, útgerðarmanns Mána II, þá sá ekki á Mána II ÁR þegar hann kom til hafnar með þessi 12 tonn, enda er báturinn nokkuð stór og breiður og ber þetta mikin afla ansi vel.  

Þeir eru með smá verkun sjálfir og taka alla ýsa og hluta af þorskinum til sín og setja restina á markað.  

 

 

 Já heldur betur flottur árangur hjá Mána II ÁR sem er orðin 27 ára gamall bátur og er ekkert að gefa nýrri bátunum eftir.

 

Af:  http://www.aflafrettir.is/

Skráð af Menningar-Staður

18.02.2014 05:28

Merkir Íslendingar - Auður Auðns

Auður Auðns.

 

Merkir Íslendingar - Auður Auðuns

 

Auður Auðuns, borgarstjóri, alþm. og ráðherra, fæddist á Ísafirði 18. febrúar 1911. Hún var dóttir Jóns Auðuns Jónssonar, útgerðarmanns og alþm. á Ísafirði, og Margrétar Guðrúnar Jónsdóttur húsfreyju. Bróðir Auðar var Jón Auðuns, dómkirkjuprestur, dómprófastur og forseti Sálarrannsóknarfélagsins um árabil.

Auður var Vestfirðingur í báðar ættir, skyld Alþýðuflokksformönnunum Jóni Baldvinssyni og feðgunum Hannibal og Jóni Baldvini.

Eiginmaður Auðar var Hermann Jónsson, hæstaréttarlögmaður og fulltrúi tollstjórans í Reykjavík, og eignuðust þau fjögur börn.

Auður lauk stúdentsprófi frá MR 1929 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1935. Hún var lögfræðingur Mæðrastyrksnefndar í tuttugu ár, bæjar- og síðar borgarfulltrúi í Reykjavík fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1946-70, forseti bæjar- og borgarstjórnar 1954-59 og 1960-70, borgarstjóri, ásamt Geir Hallgrímssyni 1959-60, alþm. 1959-74 og dóms- og kirkjumálaráðherra 1970-71.

Þegar Auður var dóms- og kirkjumálaráðherra var kvenréttindabaráttan að vakna af dvala eftir að hafa legið í láginni um langt árabil. Rauðsokkuhreyfingin sá dagsins ljós 1. maí 1970, Kvennaframboð bauð fram í sveitarstjórnarkosningum 1982 og fékk tvo fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur og í bæjarstjórn Akureyrar og Kvennalistinn var stofnaður 1983.

Auður átti fátt sameiginlegt með róttækum kvenréttindakonum þessara ára. Hún var íhaldssöm og borgaraleg í hugsun.

Engu síður er nafn hennar skráð skýrum stöfum í sögu íslenskrar kvenréttindabaráttu, því hún varð fyrst íslenskra kvenna til að ljúka emkbættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands, fyrsta konan sem varð borgarstjóri og fyrsti kvenráðherrann.

Auður sat á Allsherjarþingi SÞ 1967 og var formaður sendinefndar Íslands á Kvennaráðstefnu SÞ í Mexíkóborg 1975.

Auður lést 19.október 1999

Morgunblaðið þriðjudagurinn 18. febrúar 2014 - Merkir Íslendingar

Skráð af Menningar-Staður

17.02.2014 23:06

Menning og myndir og síðan aðalfundur Upplits 18. feb. 2014

Dorothee Lubecki  menningarfulltrúi Suðurlands

Menning og myndir og síðan

aðalfundur Upplits 18. feb. 2014

 

Fyrsti viðburður Upplits á þessu ári verður haldinn á morgun þriðjudaginn 18. febrúar kl. 20:00 í Ferðaþjónustubýlinu í Efsta-Dal. Gestir kvöldsins verða þau Dorothee Lubecki menningarfulltrúi og Þorsteinn Tryggvi Másson héraðsskjalavörður.

Dorothee mun kynna Menningarráð Suðurlands, hlutverk þess í sunnlenskri menningu, starf menningarfulltrúa og verkefna- og stofnstyrki sem hægt er að sækja um hjá Menningarráði (http://sunnanmenning.is).

Þorsteinn Tryggvi kynnir ljósmyndavef Héraðsskjalasafns Árnesinga (http://myndasetur.is), sýnir myndir úr ljósmyndasafninu og þar á meðal myndir úr Uppsveitum.

Aðalfundur Upplits verður svo í beinu framhaldi.

Léttar kaffiveitingar verða í boði Upplits.

Þorsteinn Tryggvi Másson héraðsskjalavörður.Skráð af Menningar-Staður

17.02.2014 22:49

Frá Félagi eldriborgara á Eyrarbakka

 
 

 

Frá Félagi eldriborgara á Eyrarbakka

 

Ágæti viðtakandi.

Við í stjórn félags eldri borgara á Eyrarbakka boðum til aðalfundar sunnudaginn 23. febrúar kl.14:00

að Búðarstíg 22 (Alpan kaffistofa).

 

Fundarefni:

                        Formaður setur fundinn

                        Síðasta fundargerð lesin

                        Skýsla stjórnar

                        Reikningar félagsins

                        Kosning stjórnar

                        Önnur mál         

Það eru allir velkomnir í félagið sem verða 60 ára á árinu og þeir sem eldri eru og búsettir eru í Sveitarfélaginu Árborg. Það er mikil reynsla sem þið hafið, og gaman er að hittast og rifja upp gamlar minningar. Allir félagar fá afsláttarkort og þjónustubók sem tilgreindur er afslátur og einnig fá félagar blaðið „Listin að lifa“

 

Með félagskveðju

Stjórnin

 

Ath: Góugleðin verður laugardaginn 15. mars.

 

Frá aðalfundi Félags eldriborgara á Eyrarbakka 2013

 

17.02.2014 06:37

Ólæknandi pólitískur vírus

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins
Eyþór Arnalds.

 

Ólæknandi pólitískur vírus

 

Eyþór Arnalds hyggst hætta í bæjarstjórn Árborgar og býður sig ekki fram í næstu bæjarstjórnarkosningum. Undanfarin fjögur ár hefur hann verið formaður bæjarráðs og setið í átta ár í bæjarstjórn sem oddviti D-lista. Áður hafði hann verið í fjögur ár í borgarstjórn í Reykjavík.

„Einhvern tíma verða allir menn að kveðja sviðið og ég er svo heppinn að geta valið tímann sjálfur,“ segir Eyþór. „Ég fékk draumatækifæri ásamt góðu fólki til að vinna að uppbyggingarstarfi í Árborg. Við fengum meirihluta atkvæða í síðustu kosningum og skýrt umboð kjósenda. Við lögðum höfuðáherslu á fjármál og skipulagsmál og höfum náð að laga öll aðalatriðin í báðum málaflokkum. Í fjármálunum skárum við niður í stjórnkerfinu, lækkuðum fasteignaskatta og skuldir. Í skipulagsmálum hefur mikið áunnist þar sem horfið var frá umdeildum áformum og leitað í grunninn og söguna. Bærinn átti ekki miðbæjarreitinn á Selfossi en í kreppunni keyptum við hann á hagstæðu verði og höfum unnið að því að gera hann sem manneskjulegastan.“

Hvaða verkefni taka við nú þegar þú kveður stjórnmálin?

„Meðfram starfinu í bæjarstjórn hef ég öll árin unnið í atvinnuuppbyggingu og mun nú snúa mér alfarið að þeim störfum, auk þess að sinna fjölskyldunni. Ég mun áfram vinna hjá Strokki sem hefur staðið að verkefnum eins og Becromal í Eyjafirði, sem er orðið eitt helsta útflutningsfyrirtæki landsins og framleiðir hátæknivörur úr áli. Strokkur hefur unnið að uppbyggingu GMR-stálverksmiðju á Grundartanga sem sinnir álverunum og endurvinnur stál. Af öðrum verkefnum má nefna kísilmálmverksmiðju ThorSil í Helguvík.“

 

Hörð en holl lexía

Finnst þér að þú hafir náð því fram sem þú vildir á þínum stjórnmálaferli og af hverju viltu ekki stefna hærra á þeim vettvangi?

„Í Árborg var ég búinn að gera það sem ég ætlaði mér. Ég held að ég hefði bætt litlu við það sem ég var búinn að gera þar með því að halda áfram. Ég hefði farið að endurtaka mig og þá er betra að hætta sáttur og hleypa öðrum að.

Ég tel að viðhorfið til stjórnmálanna sé breytt. Áður ríkti þar eins konar tröppugangur og menn biðu eftir að komast hærra í metorðastiganum, dálítið eins og í embættismannakerfinu. Í dag er meiri hreyfing á bæði kjósendum og stjórnmálamönnum.“

Ef ég spyrði þig um erfiðasta tímann þinn í pólitík þá geri ég ráð fyrir að þú myndir nefna atvikið þegar þú varst tekinn fyrir ölvunarakstur.

„Já, það var aðfaranótt 14. maí 2006. Í slíkri stöðu er um tvennt að velja; að kenna öðru um eða læra af mistökunum. Á þessum tíma var of mikill hraði á mér og ég var of hrokafullur. Það er sagt að maður læri af reynslunni og stundum þarf hún að vera erfið. Þetta mál reyndi á þá sem voru í kringum mig. Sjálfstæðismenn í Árborg reyndust mér á vel erfiðum tímum og fjölskylda mín sérstaklega. Og það gerði mér gott að horfast í augu við galla mína.“

Var áfengi vandamál í þínu lífi á þessu tímabili?

„Sá maður sem sest undir stýri og ekur drukkinn á við áfengisvandamál að stríða. Hann verður að taka á sínum málum og ég gerði það.“

Þetta mál var í kastljósi fjölmiðla. Þér hlýtur að hafa fundist það erfitt.

„Það eru ekki allir sem upplifa það að mistök í einkalífinu komist í kastljósið. En þeir sem eru í kastljósinu verða líka að svara fyrir allt í kastljósinu. Lexían var því hörð en holl.“

 

Aðalatriðið hvað gert er

Þú talaðir fyrr í viðtalinu um að það væri hreyfing á kjósendum og stjórnmálamönnum. Þessi hreyfing kjósenda virðist hafa áhrif á Sjálfstæðisflokkinn sem er ekki lengur sá 40 prósenta flokkur sem áður var talið svo sjálfsagt að hann væri.

„Það er ljóst að á árinu 2008 lenti Sjálfstæðisflokkurinn í tilvistarkreppu og glataði bæði trausti og fylgi og þó að flokkurinn hafi náð hluta fylgisins til baka hefur hann ekki gert það að fullu. Ástæðurnar eru ýmiskonar og staðan er ekki eins alls staðar á landinu. Í Árborg fórum við úr 24 prósentum í 40 prósent 2006 og úr 40 prósentum yfir í 50 prósent eftir hið fræga hrun. Meðan verið var að berja á Sjálfstæðisflokknum á landsvísu fékk hann lélega kosningu í Reykjavík og galt afhroð á Akureyri en hlaut mjög góða kosningu víða í Suðurkjördæmi.

En þetta er líka spurning um það fyrir hvað Sjálfstæðisflokkurinn stendur. Flokkar sem eru lengi við völd þurfa að minna sig á fyrir hvað þeir standa. Að mínu mati stukku Píratar inn í ákveðið tómarúm. Þeir tala fyrir einstaklingsfrelsi og persónuvernd sem borgaralegur flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum staðið vörð um, en af einhverjum ástæðum sáu kjósendur ekki þessar áherslur Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn þarf að vera með trúverðuga sýn á það fyrir hvað hann stendur. Í Reykjavík hefur til dæmis ekki verið ljóst fyrir hvað flokkurinn stendur þegar kemur að skipulagsmálum, skattamálum og fjármálum.“

Heldurðu að umræðustjórnmálin hafi kannski átt þátt í því að flokkurinn var með of mikla málamiðlun við pólitíska andstæðinga?

„Alveg örugglega. Umræða er góð en aðalatriðið er hvað gert er en ekki hvað rætt er. Kjósendur eiga að geta treyst því að flokkar svíki ekki helstu stefnumál sín. Vinstri-grænir eru gott dæmi um þetta. Þeir sendu kjósendum þau skilaboð að þegar kæmi að andstöðu við inngöngu í Evrópusambandið væru þeir eini flokkurinn sem treystandi væri, en þeir stóðu svo sjálfir með Samfylkingunni í því að sækja um inngöngu í sambandið. Um leið myndast trúnaðarbrestur milli kjósenda flokksins og stjórnmálamannanna.“

 

Skrýtin forgangsröðun

Náttúrverndarmál verða örugglega áberandi í þjóðfélagsumræðunni næstu árin en Sjálfstæðisflokkurinn er ekkert sérstaklega kenndur við náttúruverndarsjónarmið.

„Ég er mikill náttúruunnandi og náttúruverndarsinni og ég veit að það sama á við um fjölmarga sjálfstæðismenn. En það er eins og flokkurinn hafi ekki haldið þessu sjónarmiði nógu vel fram. Hitaveita Reykjavíkur varð að veruleika undir stjórn Sjálfstæðisflokksins og sjálfbær nýting auðlinda á Íslandi hefur vakið athygli um allan heim. Nú er stefnt að olíuvinnslu á Drekasvæðinu en það var hreinræktaða vinstristjórnin sem beitti sér fyrir fyrstu leyfunum í olíunni en setti rammaáætlun með vistvæna vatnsaflskosti í uppnám og biðstöðu. Það var skrýtin forgangsröðun. Við eigum að ljúka við rammaáætlun og nýta vistvæna vatnsaflskosti. Við höfum þekkingu á vatnsafli og að einhverju leyti á gufuafli. Fjölmargir útlendingar sjá Ísland sem grænt land og við ættum að einbeita okkur að því að efla þá ímynd.“

Hvernig finnst þér ríkisstjórnarsamstarfið hafa tekist fram að þessu?

„Mér finnst margt hafa verið mjög vel gert. Það er eðlilega óþolinmæði í fólki, til dæmis vegna úrlausna í skuldamálum, en mér finnst ríkisstjórnin hafa farið rétta leið í því að leiðrétta húsnæðislánin. Ef sá sem skuldar í húsinu sínu getur notað skattkerfið til að borga niður höfuðstólinn þá er það heilbrigður hvati. Við erum með of marga mjög óheilbrigða hvata í kerfinu. Vaxtabætur eru til dæmis verðlaun fyrir að skulda en menn fá fasteignaskatt fyrir að eiga. Það er miklu heilbrigðara að fólk sem leggur sig fram við að vinna fái umbun frekar en fólk fái greitt fyrir að skulda. Þannig getur fólk eignast á nýjan leik.

Síðan held ég að sú ákvörðun að afnema undanþáguna fyrir fjármálafyrirtæki í slitameðferð hafi verið mjög mikilvæg. Bankakerfið er alltof stórt og skapar ekki verðmæti í sjálfu sér heldur er milliliður. Ríkisstjórnin hefur svo sýnt metnað í að bæta Landspítalann og gera betur við aldraða. Hún á hins vegar eftir að taka á kerfinu og skera niður. Vonandi gerir hún það. Reynsla okkar í Árborg sýnir að það er hægt.“

Hvernig heldurðu að þér gangi að lifa án stjórnmálanna sem hafa verið svo stór þáttur í lífi þínu?

„Það er ekki víst að ég læknist af pólitíska vírusnum. Ég þekki enga lækningu. Það er sennilega hægt að halda þessum sjúkdómi niðri, en það er ekki hægt að lækna hann.“

Þannig að endurkoma þín í stjórnmálin einhvern tímann í framtíðinni er ekki óhugsandi?

„Það er ekkert útilokað í því sambandi.“

Morgunblaðið sunnudagurinn 16. febrúar 2014

 

Eyþór Arnalds í Hrútavinapontunni góðu.

Hrútavinir áhrifavaldar um hinn hreina meirihluta D-lista þetta kjörtímabil í Árborg.Skráð af Menningar-Staður

17.02.2014 06:26

Áhöfnin á Húna hlaut Eyrarrósina

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

.

.

 

Áhöfnin á Húna hlaut Eyrarrósina

 

Eyrarrósin, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarstarfsemi á starfssvæði Byggðastofnunar, var afhent í Skaftfelli á Seyðisfirði á laugardag að viðstöddum forseta Íslands og forsetafrú. Að þessu inni hlaut verkefnið Áhöfnin á Húna viðurkenninguna.

Aðstandendur Eyrarrósarinnar eru Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Flugfélag Íslands, en hún var fyrst afhent í janúar 2005 og þvi veitt í tíunda sinn. Þrjú menningarverkefni voru tilnefnd til Eyrarrósarinnar í ár, Verksmiðjan á Hjalteyri, Skrímslasetrið á Bíldudal og Áhöfnin á Húna.

Dorrit Moussaief forsetafrú er verndari Eyrarrósarinnar og hún afhenti viðurkenninguna í Skaftfelli á Seyðisfirði en Skaftfell hlaut Eyrarrósina á síðasta ári.

Tinna Guðmundsdóttir, forstöðukona Skaftfells – miðstöð myndlistar á Austurlandi, sagði Eyrraósina hafa skipt menningarstofnunina miklu.

Áhöfnin á Húna, sem er samstarfsverkefni tónlistarmanna og Hollvina Húna II, hlaut Eyrarrósina að þessu sinni, en auk viðurkenningarinnar sjálfrar fær hún 1.650.000 krónur og flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Verksmiðjan og Skrímslasetrið hlutu hvort um sig 300.000 krónur og flugferðir innanlands frá Flugfélagi Íslands.

Áhöfnin á Húna vakti mikla athygli í sumar þegar Húni II sigldi hringinn í kringum landið. Haldnir voru 16 tónleikar í sjávarbyggðum landsins og voru margir tónleikanna í beinni útsendingu í útvarpi, auk þess þem gerðir voru sjónvarpsþættir um verkefnið.

Morgunblaðið mánudagurinn 17. febrúar 2014.

.

.Skráð af Menningar-Staður

16.02.2014 12:13

Mynd dagsins 16. febrúar 2014

.

.

 

Mynd dagsins 16. febrúar 2014

 

Í Eyrarbakkakirkju fyrir stundu:

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

16.02.2014 09:09

Fjölskylduleiðsögn stofnanda í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar


Listasafn Sigurjóns Ólafsasonar í Laugarnesi í Reykjavík.

Sigurjón Ólafsson fæddist á Eyrarbakka árið 1908 og lést í Reykjavík 1982 og hvílir í kirkjugarðinum á Eyrarbakka.

Hann vann jafnhliða abstrakt- og raunsæis­verk og er talinn einn fremsti portrettlistamaður sinnar samtíðar

Veggmynd Börn að leik sem Sigurjón Ólafsson gerði árið 1938.

Veggmynd  -Börn að leik-  sem Sigurjón Ólafsson gerði árið 1938.

 

Fjölskylduleiðsögn stofnanda í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar

 

Birgitta Spur, stofnandi Listasafns Sigurjóns Ólafssonar, verður með leiðsögn ætlaða börnum um sýninguna Börn að leik í dag, sunnudaginn 16. febrúar 2014,  kl. 14.30 í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnestanga.

„Heiti sýningarinnar vísar bæði í veggmynd Sigurjóns frá árinu 1938 og einnig önnur verk þar sem hann leyfði barnslegum léttleika að ráða ferðinni og gætu vakið áhuga barna og unglinga á myndlist Sigurjóns,“ segir m.a. í tilkynningu frá safninu. Safnið er opið um helgar, þ.e. laugardaga og sunnudaga milli kl. 14 og 17 og er kaffistofa safnsins opin á sama tíma.

Morgunblaðið greinir frá.


Sigurjón

Eyrbekkingurinn Sigurjón Ólafsson myndhöggvari

Skráð af Menningar-Staður

16.02.2014 08:09

Messa í Eyrarbakkakirkju kl. 11:00

.

.

 

Messa í Eyrarbakkakirkju kl. 11:00

 

Messa verður í Eyrarbakkakirkju í dag, sunnudaginn 16. febrúar 2014 kl. 11:00

Barnakór syngur undir stjórn Kolbrúnar Huldu Tryggvadótur.

Organisti er Haukur Gíslason.
 

Allir velkomnir

 

Sóknarprestur

séra Sveinn Valgeirsson

 

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

15.02.2014 06:20

Sviðið orðið að dansgólfi

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Kiriyama Family frá Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfossi var ein sveitanna sem komu fram í Flóa.

Blaðamaður segir Hörpu hafa breyst í næturklúbb.

 

Sviðið orðið að dansgólfi

 

Það veit á gott ef meistarinn Ryuichi Sakamoto er fyrstur til að stíga á svið en hann opnaði dagskrá Sónar þetta árið ásamt Taylor Deupree. Sakamoto hefur víða drepið niður fæti en auk þess að hafa unnið til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina í kvikmyndinniThe Last Emperor hefur hann unnið með tónlistarmönnum á borð við David Bowie, David Byrne og Iggy Pop. Tvíeykið fór rólega af stað en jók smám saman kraftinn. Tilraunakenndir tónarnir fylltu Silfurberg, sem var því miður fremur tómlegt til að byrja með. Dágóður hópur tók upp á því að setjast á gólfið og myndaði það sérkennilega stemningu sem fór þó vel við draumkennd tónverk þeirra Sakamotos og Deuprees. Það var gott að viðburðurinn var sá fyrsti á hátíðinni því hann hefði eflaust ekkert komið sérstaklega vel út á milli hústónleika.

 

Danski trapparinn

Salurinn var þó heldur þéttari í Sónarflóanum þar sem Introbeats hélt uppi stuði með hústónlist sem bar keim af tíunda áratug síðustu aldar. Kappinn hefur verið viðriðinn rappsenuna hérna heima í nokkuð langan tíma og reynslan skein af honum. Það var í raun engan bilbug á honum að finna og allir virtust skemmta sér konunglega.

Í Silfurbergi tók síðan danski taktsmiðurinn Eloq við keflinu. Það má segja að taktarnir hjá honum hafi verið ansi þykkir og á köflum var ekki um neitt annað en hreinræktaða trap-tónlist að ræða. Framan af voru tónleikarnir mjög góðir og bassinn hefur eflaust hljómað alla leið upp í Breiðholt. Þegar komið var fram í mitt settið tók hann sitt besta lag, „Klonux“, en eftir það fóru gæðin að dala. Ekki nóg með að hann hafi blandað Kanye West og Jay-Z saman við settið heldur talaði hann í gríð og erg við tónleikagesti ofan í tónlistina. Dönsk enska fer ekkert sérlega vel saman við sveitta stemningu, hvað þá ef viðkomandi er væminn í orðavali.

 

Dansað og setið

Það ríkti mikil eftirvænting í loftinu þegar meðlimir GusGus hófu að tínast inn á sviðið hver á fætur öðrum. Þrátt fyrir allan þann reyk sem fylgdi sveitinni mátti sjá kynþokkafull dansspor Daníels Ágústs. Með honum á sviðinu var síðan Högni Egilsson sem hafði einmitt stigið á pall fyrr um kvöldið undir yfirheitinu HE. Tekin voru lög af plötunni Arabian Horse í bland við nýrri tóna, salurinn var troðfullur og stemningin eftir því.

Hápunktur kvöldsins var þó í Kaldalóni. Upp úr miðnætti stigu þar á svið frændsystkinin Tanya & Marlon, sem bæði hafa verið nokkuð áberandi í neðanjarðarsenunni í Reykjavík um þónokkurt skeið. Í Kaldalóni er setið og margur hefði eflaust haldið að salurinn væri betur fallinn til kvikmyndasýninga eða fyrirlestra en raftónleika. Tanya & Marlon afsönnuðu það en tónlist þeirra, í bland við myndbandsverk sem varpað var á flötinn fyrir aftan þau, kom einstaklega vel út. Það leið ekki á löngu þar til helmingur tónleikagesta var risinn úr sætum og farinn að stíga trylltan dans á sviðinu. Öryggisverðir staðarins þurftu að hafa sig alla við að passa upp á að engar snúrur eða tæki færu úr sambandi og smeygðu sér lipurlega á milli dansþyrstra gesta. Tvíeykið virtist ánægt með framtakssemi áheyrenda og hélt uppteknum hætti. Taktar sem kenna má við gamla skólann hljómuðu í bland við nýrri strauma. Sviðið var orðið að dansgólfi og þeir sem þreyttir voru í fótum gátu setið úti í sal og horft á herlegheitin.

 

Vel skipulagt

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af Hörpu sem skemmtistað. Stemningin hefur oft horfið út í tómið í stórum sölunum og hámenningarlegt umhverfið þurrkað upp það sveitta andrúmsloft sem leitað er eftir. Það verður þó að segjast að fyrirkomulagið á Sónar heppnaðist greinilega mjög vel. Hægt er að flakka á milli staða án þess að stíga út í nístingskuldann og andrúmsloftið í allri byggingunni er mjög gott. Umgjörð, ljósadýrð og tónar kvöldsins gerðu það að verkum að Harpa varð að stórum næturklúbbi. Því má bæta við að þar sem undirritaður er mikill dýravinur þótti honum einstaklega gaman að sjá alla hundana sem saman voru komnir í Hörpu. Þeir hafa eflaust þefað einhver gleðiefni uppi þetta kvöldið.

Morgunblaðið laugardagurinn 15. febrúar 2014

Kiriyama Family

 

 

Skráð af Menningar-Staður