Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Febrúar

14.02.2014 22:46

Vilhjálmur, Kjartan og Bragi mæta á laugardagsfund á morgun - 15. feb. 2014

Fv.: Siggeir Ingólfsson og Kjartan BJörnsson á góðri stund á Stað þann 20. okt. 2013.

 

Vilhjálmur, Kjartan og Bragi mæta á laugardagsfund

á morgun 15. feb. 2014

 

Sjálfstæðisfélagið Óðinn á Selfossi og Sjálfstæðisfélögin í Árborg hafa í vetur líkt og undanfarin ár staðið fyrir laugardagsfundum í Sjálfstæðishúsinu að Austurvegi 38 á Selfossi. 

Laugardaginn 15. febrúar nk. kl. 11.00 verða gestir fundarins þeir Vilhjálmur Árnason, þingmaður, sem mun m.a. ræða löggæslumálin, Kjartan Björnsson, bæjarfulltrúi og formaður Íþrótta- og menningarnefndar og Bragi Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúi Árborgar. Kjartan mun ræða bæjarmálin almennt og þá málaflokka sem hann sinnir, þ.e. íþrótta- og menningarmál. Bragi mun ræða íþrótta-, menningar- og frístundamál ásamt fleiru og svara fyrirspurnum.

 

Allir eru velkomnir.

Aðgangur er ókeypis og fríar kaffiveitingar á stuttum og snaggaralegum laugardagsfundi.

Fréttatilkynning


Vilhjálmur Árnason, alþingismaður,  heilsar Kristjáni Runólfssyni á samkomunni að Stað þann 20. okt. 2013
Nokkrir fylgjast með. F.v.: Þórarinn Ólafsson, Siggeir Ingólfsson, Kjartan BJörnsson og Vigdís Hjartardóttir.Skráð af Menningar-Staður

14.02.2014 12:23

Vísa dagsins eftir Kristján Runólfsson

Kristján Runólfsson

 

Vísa dagsins eftir Kristján Runólfsson

 

Tilvera okkar menn telja að sé,

tilgangslaus leit eftir hljómi,

en lífið er efalaust örlítið hlé,

á eilífðardauða í tómi.

 

Kristján Runólfsson

Skagfirðingur og Eyrbekkingur í Hveragerði

 

Skráð af Menningar-Staður 

14.02.2014 07:40

Leikverkið "Unglingurinn" sýnt um allt Suðurland

unglingurinn

 

Leikverkið „Unglingurinn“ sýnt um allt Suðurland

 

Gaflaraleikhúsið sýnir nú leikritið Unglinginn eftir Arnór Björnsson og Óla Gunnar Gunnarsson um allt Suðurland. Leikstjóri er Björk Jakobsdóttir. Verkið hefur fengið frábærar viðtökur hjá bæði áhorfendum og gagnrýnendum. Verkið er einstakt fyrir það að það er skrifað af unglingum fyrir unglinga og veitir því skýra og skemmtilega mynd af daglegu lífi unglinga, samskiptum við foreldra, kennara, jafnaldra og hitt kynið.  Leikritið er ætlað unglingum en mælt er með því að foreldrar, kennarar og aðrir sem umgangast unglinga sjái einnig verkið því fátt er betra en að hlæja saman í leikhúsinu og fá á sama tíma foreldrafræðslu í unglingísku. Verkið er fyrir alla á aldrinum 8 – 108 ára.

 

Sýningarnar á Suðurlandi eru eftirfarandi:

Laugardagurinn 15. feb. – Laugaland í Holtum kl. 17:00

Laugardagurinn 22. feb. – Leikskálar í Vík kl. 17:00

Mánudagurinn 24. feb. – Leikfélag Vestmannaeyja kl. 20:00

Laugardagurinn 1. mars – Sindrabær á Höfn í Hornafirði kl. 17:00

Laugardagurinn 15. mars – Hólmaröst á Stokkseyri kl. 17:00

Laugardagurinn 22. mars – Aratunga í Reykholti kl. 17:00

 

Miðinn kostar 1750 kr. ef að keypt er viku fyrir sýningu eða fyrr (almennt miðaverð er 2500 kr.) miðasala fer fram á www.midi.is.

 

Hólmarastarhúsið á Stokkseyri

 

Skráð af Menningar-Staður

13.02.2014 20:39

Lyftingafólk fer í smíðastofuna á Stokkseyri

Stokkseyri. Ljósm.: Mats Wibe Lund

 

Lyftingafólk fer í smíðastofuna á Stokkseyri

 

Ungmennafélag Stokkseyrar mun fá afnot af Eyrarbraut 57 á Stokkseyri þar sem smíðastofa grunnskólans er nú til húsa.

Ungmennafélagið vill flytja úr gamla skólahúsnæðinu í húsnæðið að Eyrarbraut 57, þar sem rýmið í skólanum er heldur lítið fyrir starfsemina og einnig eru takmarkanir á því hvenær dagsins heimilt er að nýta þá aðstöðu.

Bæjarráð Árborgar samþykkti í morgun að gerður verði samningur við ungmennafélagið um afnotin og viðhald húsnæðisins, en þörf er á að mála það bæði að utan og innan. 

www.sunnlenska greinir frá

Skráð af Menningar-Staður

13.02.2014 07:08

Spurningakeppni átthagafélaga í kvöld 13. feb. 2014


Suðureyri við Súgandafjörð. Næst er fjallið Göltur.

 

Spurningakeppni átthagafélaga í kvöld 13. feb. 2014

 

Í kvöld, fimmtudagskvöldið 13. febrúar 2014, verður annar undanriðill í Spurningakeppni átthagafélaganna. Það má búast við æsispennandi og skemmtilegri keppni milli Félags Álftfirðinga og Seyðfirðinga vestra, Súgfirðingafélagsins og
Átthagafélags Héraðsmanna

Sem fyrr fer keppnin fer fram í Breiðfirðingabúð, Faxafeni 14, meira miðsvæðis í Reykjavík getur það varla verið!


Við hvetjum ykkur til að mæta og hvetja ykkar fólk sérstaklega en allir eru velkomnir öll kvöldin. Aðgangseyrir verður 750 krónur, 16 ára og yngri greiða ekki aðgangseyri. Húsið opnar kl. 19:30 og keppni hefst kl. 20:00Skráð af Menningar-Staður

13.02.2014 06:44

Súpufundur SAF um framtíðarsýn á fjölda ferðamanna

 

Súpufundur SAF um framtíðarsýn á fjölda ferðamanna

12:00 13. febrúar 2014 - 13:30 13. febrúar 2014

Ferðaskrifstofunefnd SAF mun standa fyrir súpufundi fimmtudaginn 13. febrúar kl. 12.00 um þróun á fjölda erlendra ferðamanna og fer fundurinn fram á Icelandair Hotel Reykjavík Natura.

Á fundinum mun Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs Icelandair fara yfir áætlanir Icelandair um framboð og væntanlegan fjölda erlendra ferðamanna. Einnig mun Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar fara yfir áætlanir FLE um móttöku ferðamanna og þá þjónustu sem veitt er í og við flugstöðina.

Verð fyrir súpu, brauð, kaffi og konfekt er 2.100,-. Húsið opnar 11:45.

Skráning fer fram á saf@saf.is

 

Skráð af Menningar-Staður

12.02.2014 06:47

Menningarráð Suðurlands auglýsir eftir umsóknum um verkefnastyrki

Dorothee Lubecki, menningarfulltrúi Suðurlands en hún býr á Eyrarbakka.

 

Menningarráð Suðurlands auglýsir eftir umsóknum um verkefnastyrki

 

Einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Suðurlandi geta sótt um styrki en skilyrði er að umsækjendur sýni fram á mótframlag. Heimilt er að sækja um styrk til verkefna sem umsækjandi er þegar byrjaður að vinna í.

 

Menningarráð Suðurlands hefur ákveðið að árið 2014 hafi þau verkefni forgang sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða:

1. Samstarf milli tveggja eða fleiri aðila, byggðarlaga eða listgreina og uppsetning viðburða á fleiri en einum stað.

2. Verkefni sem efla nýsköpun tengd menningu.

3. Verkefni sem stuðla beint að fjölgun atvinnutækifæra.

4. Verkefni sem styðja við menningartengda ferðaþjónustu.

5. Verkefni sem draga fram staðbundin eða svæðisbundin menningareinkenni eða menningararf.

 

Menningarráðið mun ekki veita endurbótastyrki. Ekki verður heldur styrkt skráning á menningarminjum, starfsemi íþróttafélaga, bæjarhátíðir, almennar samkomur, safnaðarstarf og hefðbundið menningarstarf innan skóla.

 

Menningarráð Suðurlands auglýsir stofn- og rekstrarstyrki til menningarmála

(styrkir sem Alþingi veitti áður)

 

Tilgangur styrkjanna er að stuðla að því að efla starfsemi á sviði lista, safna og menningararfs. Styrkveitingarnar miðast við árið 2014.

 

Umsóknarfrestur í báðum flokkum er til og með 20. febrúar 2014.

 

Umsóknum skal skilað rafrænt í gegnum eyðublöð á heimasiðu Menningarráðs Suðurlands www.sunnanmenning.is.

Allar nánari upplýsingar veitir Dorothee Lubecki, menningarfulltrúi Suðurlands, í síma 480-8207, 896-7511 eða með tölvupósti menning@sudurland.is.

 

Frá úthlutun mennimngarstyrkja í maí 2012

 

Skráð af Menningar-Staður
 

12.02.2014 06:30

Merkir Íslendingar - Lárus Pálsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Lárus Pálsson

 

Merkir Íslendingar - Lárus Pálsson

 

Lárus Pálsson leikari fæddist í Reykjavík 12. febrúar 1914. Hann var sonur Óskars Lárussonar, trésmíðameistara í Reykjavík, og k.h., Jóhönnu Þorgrímsdóttur húsfreyju.

Eiginkona Lárusar var Mathilde Marie, f. 1912, dóttir Othars Peter Ellingsen, kaupmanns í Reykjavík.

 

Lárus lauk stúdentsprófi frá MR 1934, stundaði nám við leiklistarskóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan 1937. Hann var leikari við Konunglega leikhúsið 1937-39 og á Ridderasalnum undir stjórn Sams Besekow, eins fremsta leikstjóra Dana, 1939-40.

Lárus kom heim í Petsamo-förinni frægu, 1940, síðustu skipaferð frá meginlandi Evrópu áður en styrjaldarátökin tóku fyrir slíkar samgöngur. Hann var leikari og leikstjóri við Leikfélag Reykjavíkur 1940-50 og við Þjóðleikhúsið frá stofnun þess 1950 og til starfsloka. Auk þess starfaði hann mikið að leiklistarmálum ríkisútvarpsins. Þá stofnaði Lárus fyrsta leiklistarskólann hér á landi 1940 og starfrækti hann til 1954.

Lárus er almennt talinn einn mesti áhrifavaldur íslenskrar leikhússögu. Hann var vel menntaður leikari, hafði komist til umtalsverðra metorða í Kaupmannahöfn, var fyrstur íslenskra leikara til að starfa eingöngu að leiklist, var afburða leikari og leikstjóri og áhrifaríkur kennari flestra helstu leikara þjóðarinnar sem hösluðu sér völl um og upp úr miðri síðustu öld. Hann færði íslensku leikhúslífi áður óþekktar víddir og átti, ásamt Haraldi Björnssyni og Indriða Waage, mestan þátt í því að koma á leikhúsi fagfólks hér á landi.

Þorvaldur Kristinsson skrifaði ævisögu Lárusar sem út kom árið 2008. Bókin er listavel skrifuð og hvort tveggja í senn, ævisaga listamanns og heimild um hluta leiklistarsögunnar á síðustu öld. Bókin hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita og bóka almenns efnis árið 2008.

Lárus lést 12. apríl 1968.

Morgunbkaðið miðvikudagurinn 12. febrúar 2014 - Merkir Íslendingar

Skráð af Menningar-Staður

12.02.2014 06:23

12. febrúar 1919 - Skjaldarmerki Íslands

 

12. febrúar 1919 - Skjaldarmerki Íslands

Konungsúrskurður um skjaldarmerki Íslands var gefinn út. Það átti að vera „krýndur skjöldur og á hann markaður fáni Íslands,“ og skjaldberar voru landvættirnar fjórar, dreki, gammur, uxi og risi. Merkinu var breytt 17. júní 1944.

 

 

Morgunblaðið miðvikudagurinn 12. febrúar 2014 - dagar Íslands Jónas Ragnarsson

 

Skráð af Menningar-Staður

12.02.2014 06:21

Fjölga þarf hjúkrunarrýmum á Suðurlandi

Ásta Stefánsdóttir.

 

Fjölga þarf hjúkrunarrýmum á Suðurlandi

 

Sveitarfélögin í Árnessýslu hafa látið taka saman yfirlit yfir hvaða leiðir séu færar til að fjölga hjúkrunarrýmum í sýslunni. Mikil þörf er fyrir fjölgun slíkra rýma þar sem að jafnaði eru um 25-30 manns á biðlista eftir hjúkrunarrýmum á svæðinu. Brýnt er að móta stefnu um uppbyggingu hjúkrunarheimila á Suðurlandi til lengri tíma litið. Landshlutinn hefur ekki notið þeirrar uppbyggingar sem átt hefur sér stað í málaflokknum á síðustu árum og er uppsafnaður vandi því nokkur. Velferðarráðuneytið hefur boðað að þegar ný framkvæmdaáætlun verði unnin verði hugmyndir um uppbyggingu á svæðinu skoðaðar. Telja verður að ekkert sé að vanbúnaði að hefja vinnu við framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma og er mikilvægt að hafist verði handa við þá vinnu sem fyrst.

Þar sem ríkið gerir ekki ráð fyrir fjármagni til framkvæmda í fjárlögum eða langtímaáætlun um útgjöld ríkissjóðs er ljóst að brúa þarf bilið. Bent hefur verið á leiðir til að fjölga hjúkrunarrýmum án þess að ráðast í nýbyggingar. Annars vegar er hægt að nýta betur það húspláss sem fyrir hendi er í dag og hins vegar er hægt að breyta dvalarrýmum í hjúkrunarrými. Dæmi eru um að dvalar- og hjúkrunarheimili hafi ónýtt húspláss á sama tíma og önnur heimili fullnýta ekki sínar heimildir vegna plássleysis. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu er hafin vinna við að skoða nýtingu rýma á landinu öllu og er brýnt að niðurstöður þeirrar vinnu og áætlun um úrbætur liggi fyrir sem fyrst, enda óviðunandi að það húsrými sem til er sé ekki fullnýtt þegar þörf fyrir rými er jafnbrýn og raun ber vitni.

Sveitarfélögin á þéttbýlli svæðum Árnessýslu hafa komið á kvöld- og helgarvakt í félagslegri heimaþjónustu. Sú þjónusta, samhliða heimahjúkrun á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, gerir fólki kleift að dvelja lengur á eigin heimili og hefur því dregið úr þörf fyrir dvalarrými fyrir íbúa í þéttbýli. Dæmi eru því um að lítil eftirspurn sé eftir dvalarrýmum á svæðinu og mætti breyta hluta dvalarrýma í hjúkrunarrými. Í nokkrum tilvikum hafa heimilin fengið heimildir til að skipta tveimur dvalarrýmum fyrir eitt hjúkrunarrými. Á þeim svæðum þar sem biðlistar eru langir væri eðlilegt að heimila skipti á einu dvalarrými á móti einu hjúkrunarrými, gegn því að hjúkrunarþjónusta væri aukin til samræmis við það. Hluta af rekstrarvanda margra hjúkrunar- og dvalarheimila má rekja til þess að einstaklingum sem hafa verið teknir inn í dvalarrými hefur hrakað heilsufarslega og hafa því í reynd þörf fyrir að vera í hjúkrunarrými. Þannig bíða margir inniliggjandi í dvalarrými eftir að hjúkrunarpláss losni. Heimilin sinna þessum einstaklingum eins og þarfir þeirra krefjast og veita þeim hjúkrunarþjónustu án þess að fá greitt fyrir það, en verulegur munur er á framlögum vegna dvalar- og hjúkrunarrýma.

Með framangreindum breytingum næðist betri nýting á því húsnæði sem þegar er fyrir hendi, stytta mætti biðlista og draga úr flutningum fólks á hjúkrunarheimili langt frá heimili sínu, eins og fjölmörg dæmi eru um í dag. Slíkt finnst mörgum erfitt og er það vel skiljanlegt.

Eðlilega ræðst kostnaður við uppbyggingu hjúkrunarrýma af stærð þess húsnæðis sem byggja þarf. Í þeim samningum sem ríkið hefur gert við sveitarfélög um uppbyggingu hjúkrunarrýma á síðustu árum hefur verið gerð krafa um að hvert rými sé 75 fermetrar, inni í þeirri tölu eru einkarými íbúa, stoðrými, sameiginlegt rými í hverri einingu og aðstaða starfsfólks. Miðað er við að heimilin séu byggð upp sem litlar einingar fyrir 6-10 íbúa með rúmgóðu einkarými (ígildi stúdíóíbúðar) og er það rými gjarnan 32-35 fermetrar. Stærðarviðmið þetta er hvergi lögfest, heldur er miðað við skilgreiningar sem félags- og tryggingamálaráðuneytið gaf út árið 2008. Velta má upp þeirri spurningu hvort rýmin mættu ekki vera aðeins minni, ef með því tækist að byggja upp fleiri rými fyrir sambærilegt fjármagn. Nauðsynlegt er að nýta fjármagn með skynsamlegum hætti, nýta sem best það húsnæði sem fyrir hendi er og skapa með því möguleika á að sinna fleiri einstaklingum sem þurfa nauðsynlega á þjónustu að halda.

Höfundur er framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.

Morgunblaðið þriðjudagurinnn 11. febrúar 2014

 

Skráð af Menningar-Staður