Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Febrúar

08.02.2014 07:33

Hannesarholt eins árs

010
Hannesarholt að Grundarstíg 10 í Reykjavík.

Hannesarholt eins árs

 

Í dag, laugardaginn 8.febrúar 2014,  er eitt ár liðið frá því að Hannesarholt að Grundarstíg 10 í Reykjavík var formlega opnað. Af því tilefni verður efnt til afmælishátíðar í Hljóðbergi kl.16-17.Dagskrá:


1. Ávarp: Ragnheiður Jóna Jónsdóttir stofnandi og forstöðumaður býður gesti velkomna.
2. Ljóðaflutningur: Systurnar Ragnheiður Elín og Þórunn Erna Clausen flytja ljóð Hannesar Hafstein langafa síns til Ragnheiðar Hafstein.
3. Bronsmynd af Ragnheiði Hafstein boðin velkomin aftur í húsið.
4. Tónlistarflutningur: Schola Cantorum syngur nokkur lög í tilefni dagsins.
5. Pistill um Hannes Hafstein: Guðmundur Andri Thorsson flytur.

Léttar veitingar.


Velunnarar velkomnir. Enginn aðgangseyrir!

BORÐSTOFAN í Hannesarholti er opin kl. 11-18 á afmælisdaginn og tilvalið að njóta þar góðra veitinga fyrir eða eftir afmælishátíðina :)

 Skráð af Menningar-Staður

 

08.02.2014 05:04

Merkir Íslendingar - Tryggvi Þórhallsson

Tryggvi Þórhallsson.Merkir Íslendingar - Tryggvi Þórhallsson

 

Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra fæddist í Reykjavík 9. febrúar 1889. Hann var sonur Þórhalls Bjarnarsonar biskups og k.h., Valgerðar Jónsdóttur húsfreyju. Foreldrar Þórhalls voru Björn Halldórsson, prófastur í Laufási, og Sigríður Einarsdóttir húsfreyja, en Valgerður var fósturdóttir Tryggva Gunnarssonar bankastjóra.

 

Systir Tryggva Þórhallssonar var Dóra, síðar forsetafrú. Meðal barna Tryggva og konu hans, Önnu Guðrúnar Klemensdóttur, má nefna Klemens hagstofustjóra og bankastjórana Þórhall og Björn.

 

Tryggvi lauk embættisprófi í guðfræði og var prestur á Hesti í Borgarfirði frá 1913. Hann varð ritstjóri Tímans 1917, alþm. Strandasýslu 1923 og formaður Framsóknarflokksins 1927.

 

Tryggvi og Jónas frá Hriflu héldu uppi harðri stjórnarandstöðu við íhaldsstjórn Jóns Þorlákssonar, skipulögðu kosningafundi og riðu til þeirra um fjallvegi og vegleysur.

 

Framsókn sigraði kosningarnar 1927 og Tryggvi varð forsætisráðherra og Jónas dómsmálaráðherra í fyrstu vinstristjórninni.

 

Stjórnin var athafnasöm í góðærinu en haustið 1930 skall kreppan á af fullum þunga. Stjórnin missti stuðning Alþýðuflokksins vegna ágreinings um kjördæmamál og Tryggvi rauf þá þing sem frægt varð, 1931. Í kosningunum sem fylgdu í kjölfarið fékk Framsóknarflokkurinn meirihluta þingsæta með aðeins 35% kjörfylgi. Stjórn Tryggva sat fram á vor 1932 en ári síðar sagði Tryggvi sig úr Framsóknarflokknum ásamt fleirum og stofnaði Bændaflokkinn. Hann fékk þrjá þingmenn í kosningunum 1934 en sjálfur féll Tryggvi í Strandasýslu fyrir Hermanni Jónassyni. Hann dró sig þá í hlé frá stjórnmálum, enda orðinn heilsuveill, og var bankastjóri Búnaðarbankans frá 1932 og til æviloka.

 

Tryggvi var fríður sýnum, drenglundaður, glaðsinna og gætinn. Hann naut almennra vinsælda og virðingar mótherja sinna.

 

Tryggvi lést 31. júlí 1935.


Morgunblaðið laugardagurinn 8. febrúar 2014 - Merkir Íslendingar

 

 

Skráð af Menningar-Staður

08.02.2014 04:47

Rauða húsið á Eryrarbakka og norðurljósin

 

Rauða húsið á Eyrarbakka og norðurljósin

 

Frábær norðurljós í gærkvöldi

fyrir ofan við Rauða Húsið 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

08.02.2014 04:30

Kristján Runólfsson: - Brýning til ungra Framsóknarmanna

Kristján Runólfsson.Kristján Runólfsson: - Brýning til ungra Framsóknarmanna

 

Hrútavinurin; Skagfirðingurinn og Eyrbekkingurinn Kristján Runólfsson í Hveragerði, var fenginn til að yrkja brýningu handa ungum Framsóknarmönnum.

 

Hún varð svona:

 

Framsókn.

 

Unga fólk! Í frjálsu landi,

framsókn vakin er.

Standið þétt sem stuðlabergið,

stríða og iðja ber.

 

Undan merkjum má ei víkja,

manndóms rækið störf.

Beitið afli anda og handar,

eygið hvar er þörf.

 

Allir skulu þörfum þjóna,

þjóðar eflið sál.

Standið undir manndóms merki,

mjög þótt braut sé hál.

 

Virðið landið elds og ísa,

upp með kraft og þor,

Haldið ætíð hugsjón skærri,

hrein séu ykkar spor.

 

Alltaf skal á verði vaka,

velta steini úr leið,

Ætlið þeim er eftir ganga,

ætíð sporin greið.

 

Kristján Runólfsson.

 

Skráð af Menningar-Staður

 

08.02.2014 04:13

25 milljónum ráðstafað í ár

Fimm milljónum verður varið í sökkul undir Ingólf á Selfossi. Hér er hann á ferðinni á Eyrarbakka í fyrra. sunnlenska.is/BIB

 

25 milljónum ráðstafað í ár

 

Minjastofnun Íslands hefur í samráði við forsætisráðuneytið ákveðið að ráðast í átaksverkefni sem felur í sér atvinnuskapandi húsafriðunarverkefni um land allt.

Á Suðurlandi verður ráðist í nokkur verkefni sem lengi hafa beðið en gert er ráð fyrir að alls um 25 milljónum króna verði varið til þessara verkefna á þessu ári.

Tíu milljónum króna verður varið til að hefja endurbyggingu Múlakots í Fljótshlíð. Tíu milljónum króna varið til Íslenska bæjarins að Meðalholti í Flóa en þar er einn af fáum varðveittum torfbæjum landsins. Í þriðja lagi verður fimm milljónum króna varið í að gera sökkul undir húsið Ingólf á Selfossi og flytja það. 

Heildarumfang átaksins um land allt er 205 milljónir króna á þessu ári.

Nánar í Sunnlenska fréttablaðinu í þessari viku

Af www.sunnlenska.is

 

Skráð af Menningar-Staður

07.02.2014 22:34

Fjórðungi fleiri ferðir til útlanda

Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Miðnesheiði við Keflavík.

Fimm flugfélög bjóða upp á reglulegt áætlunarflug héðan allt árið um kring. Mynd: Isavia

 

Fjórðungi fleiri ferðir til útlanda

Í janúar jókst umferð um Keflavíkurflugvell töluvert og vægi flugfélaganna hefur breyst síðastliðið ár.

 

Áætlunarferðum frá Keflavík fjölgaði um nærri fimm á dag í síðasta mánuði í samanburði við janúar 2012. Þá stóð Icelandair fyrir meira en átta af hverjum tíu brottförum en nú er hlutfallið rúmlega sjötíu prósent.

Ástæðan fyrir þessum breytingum er sú að Wow Air og Easy Jet hafa bætt verulega við framboð sitt. Íslenska félagið flaug nærri því tvisvar sinnum oftar í janúar en á sama tíma í fyrra. Ferðum þess síðarnefnda fjölgaði úr 13 í 46 samkvæmt talningu Túrista.

Vægi flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli í janúar 2014, í brottförum talið:

  1. Icelandair: 72,1%
  2. Wow air: 17,5%
  3. Easy Jet: 6,8%
  4. Norwegian: 2,1%
  5. SAS: 1,5%

Af www.turisti.is

 

Skráð af MenningarStaður

07.02.2014 20:38

40% fjölgun ferðamanna í janúar 2014

Ánægðir erlendir gestir við Stað á Eyrarbakka snemma sumnars 2013.

 

40% fjölgun ferðamanna í janúar 2014

 

Um 46 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í janúar í ár samkvæmt talningum Ferðamálastofu eða um 13.400 fleiri en í janúar á síðasta ári. Um er að ræða 40,1% fjölgun ferðamanna í janúar milli ára.

Helmingur frá Bretlandi og Bandaríkjunum

Ferðamenn janúar 2014 - 10 fjölmennustu þjóðerni

Bretar voru langfjölmennastir eða 35,5% af heildarfjölda en í öðru sæti voru Bandaríkjamenn, 14,5% af heild. Þar á eftir komu Þjóðverjar (5,0%), Norðmenn (4,2%), Frakkar (4,2%), Danir (4,1%), Japanir (3,8%), Svíar (3,8%), Kínverjar (2,9%) og Kanadamenn (2,2%). Samtals voru þessar tíu þjóðir áttatíu prósent ferðamanna í janúar.
Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum langmest milli ára en 6.545 fleiri Bretar komu í janúar í ár en í fyrra. Bandaríkjamenn voru 1.716 fleiri, Kanadamenn 616 fleiri og Frakkar 600 fleiri.

Þróun á tímabilinu 2003-2014

Frá því Ferðamálastofa hóf talningar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir þrettán árum hefur verið stöðug fjölgun ferðamanna til landsins. Janúarmánuður er þar enginn eftirbátur en árleg aukning í janúar hefur verið að jafnaði 13,7% frá árinu 2003.

Mismunandi aukning eftir markaðssvæðum

Ferðamenn eftir markaðssvæðum

Mismikil fjölgun eða fækkun hefur átt sér stað, bæði milli ára og eftir því hvaða markaðssvæði á í hlut eins og sjá má af töflunni hér að neðan. Ferðamönnum hefur fjölgað hlutfallslega meira í janúar síðastliðin fjögur ár en árin á undan. Mest áberandi er aukning Breta sem eru nú orðnir ríflega þriðjungur ferðamanna í janúar. Norður Ameríkönum hefur ennfremur fjölgað umtalsvert síðastliðin fjögur ár. Sama má segja um ferðamenn frá Mið- og S-Evrópu og öðrum markaðssvæðum þó svo greina megi jafnari aukningu þessara markaðssvæða þegar til lengri tíma er litið. Það vekur hins vegar athygli að Norðurlandabúar sem voru framan af stærsta markaðssvæðið í janúar hafa ekki séð sambærilega aukningu og önnur markaðssvæði.

Bretar fimmfaldast

Það er ljóst að fjölgun ferðamanna í janúar hefur verið umtalsverð á síðastliðnum tólf árum. Þannig hafa ferðamenn frá Bretlandi meira en fimmfaldast frá 2003, ferðamenn sem flokkast undir önnur markaðssvæði meira en fjórfaldast, ferðamenn frá Mið- og S-Evrópu ríflega þrefaldast, ferðamenn frá N-Ameríku þrefaldast og ferðamenn frá Norðurlöndunum tvöfaldast.

Ferðamenn jan 2003-2014 tafla

Ferðir Íslendinga utan

Um 25.500 Íslendingar fóru utan í janúar eða um 2.300 fleiri en í fyrra. Um er að ræða 9,9% fleiri brottfarir en í janúar 2013.

Af www.ferdamalastofa.is

Skráð af Menningar-Staður

07.02.2014 20:19

Magnús Hlynur til liðs við Sunnlenska fréttablaðið

Magnu´s Hlynur Hreiðarsson, fre´tta- og blaðamaður sestur við ritsto¨rfin a´ skrifstofu Sunnlenska.

 

Magnús Hlynur til liðs við Sunnlenska fréttablaðið

 

Magnús Hlynur Hreiðarsson hefur verið ráðinn til starfa hjá Sunnlenska fréttablaðinu. Þar mun hann sjá um fréttaskrif og önnur tilfallandi verkefni í hlutastarfi á ritstjórn blaðsins, jafnhliða því að starfa sem fréttamaður fyrir 365 miðla á Suðurlandi.

Magnús Hlynur er Suðurnesjamaður, fæddur og uppalinn í Vogum í Vatnsleysustrandarhreppi en hefur búið á Selfossi í rúm 20 ár. Hann lærði fjölmiðlun, er búfræðingur frá Hvanneyri og garðyrkjufræðingur frá Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi.

„Það er fengur í Magnúsi, sem þekkir bæði menn og málefni hér á Suðurlandi út og inn, og allir þekkja jú Magnús. Við væntum því mikils af honum,“ segir Sigmundur Sigurgeirsson, ritstjóri Sunnlenska.

Af www.sunnlenska.is

 

Skráð af Menningar-Staður

07.02.2014 20:11

Kynningarátakið Leyndardómar Suðurlands

Magnús Hlynur Hreiðarsson, kynningarfulltrúi „Leyndardóma Suðurlands“ tók formleg til starfa mánudaginn 3. febrúar og mun sinna verkefninu í hálfu starfi til 6. apríl. Hér býður Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri SASS hann formlega velkomin til starfa. Á milli þeirra stendur Þórarinn Egill Sveinsson, verkefnisstjóri.

 

Kynningarátakið Leyndardómar Suðurlands

 

Framundan er umfangsmikið kynningarátak á Suðurlandi þar sem ferðaþjónustufyrirtækjum, matvælaframleiðendum, félögum, fyrirtækjum, stofnunum, einstaklingum og öllum öðrum áhugasömum er boðið að taka þátt. 

 

Átakið kallast „Leyndadómar Suðurlands“ og mun standa yfir frá miðvikudeginum 26. mars til sunnudagsins 6. apríl nk. Það eru Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og Markaðsstofa Suðurlands, sem standa fyrir verkefninu.

Markmiðið er að kynna sem mest af Suðurlandi og fá sem flesta gesti til að heimsækja Suðurland. Megininntakið í átakinu er Matur – Saga – Menning. Hér er kærkomið tækifæri, til að lengja ferðamannatímabilið og koma öllum leyndardómum Suðurlands á framfæri. Markhópurinn eru allir Íslendingar.

Á Suðurlandi eru mörg leyndarmál, sem eru vel þess virði að deila, en leyndarmál” - er einmitt boðskapur ársins í herferð Íslandsstofu, Ísland allt árið”. Með því að blása í herlúðra Sunnlendinga samtímis er mögulegt að ná samlegð milli verkefna. Dæmi um atburði þessa daga gætu verið tilboð á veitingastöðum, tveir fyrir einn í gistingu, ókeypis í sund, listsýningar, tónleikar, skemmtanir, tilboð á sunnlenskum vörum, lengdur opnunartími verslana, ókeypis í strætó, tilboð í afþreyingu, opin hús víða í fjórðungunum og fleira og fleira.

Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins á heimasíðu SASS, www.sudurland.is og á fésbókarsíðu þess, „Leyndardómar Suðurlands“. Hafi fólk einhverjar góðar hugmyndir um „leyndardóma“, sem hægt væri að koma á framfæri er best að setja sig í samband við kynningarfulltrúa verkefnisins, Magnús Hlyn Hreiðarsson, í netfangið mhh@sudurland.is eða í síma 480-8200 eða Þórarinn Egil Sveinsson, verkefnisstjóra í netfangið thorarinn@sudurland.is og í síma 480-8200.

Af www.dfs.is

Skráð af Menningar-Staður

07.02.2014 06:35

Merkir Íslendingar - Ragnar í Smára

Ragnar í Smára

 

Merkir Íslendingar - Ragnar í Smára

 

Ragnar í Smára fæddist í Mundakoti á Eyrarbakka 7. febrúar 1904. Hann var sonur Jóns Einarssonar hreppstjóra þar og Guðrúnar Jóhannsdóttur.

 

Jón var sonur Einars Bjarnasonar, bónda á Heiði á Síðu, og Ragnhildar Jónsdóttur, systur Jóns, langafa Jóns Helgasonar, fyrrv. ráðherra. Systir Ragnhildar var Guðlaug, amma Ástu, ömmu Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins. Guðrún var dóttir Jóhanns Þorkelssonar, verslunarmanns í Mundakoti, bróður Guðmundar, afa Guðna Jónssonar prófessors. Móðir Guðrúnar var Elín Símonardóttir.

 

Ragnar flutti sextán ára til Reykjavíkur, lauk verslunarprófi 1922, stundaði afurðasölu fyrir bændur um skeið, varð forstjóri og, ásamt Þorvaldi Thoroddsen, annar aðaleigenda smjörlíkisgerðarinnar Smára, Austurbæjarbíós og sápugerðarinnar Mána (síðar Frigg). Hann var stór eignaraðili í smjörlíkisgerðinni Sól og starfrækti Víkingsprent og Helgafell, sem varð eitt stærsta bókaforlag landsins.

 

Ævistarf Ragnars fólst í því að styrkja og hvetja unga rithöfunda og listamenn. Hann kynntist Þórbergi Þórðarsyni og Halldóri Laxness hjá Erlendi í Unuhúsi og gaf út verk þeirra, auk verka Gunnars Gunnarssonar, Tómasar Guðmundssonar, Steins Steinarr og Davíðs Stefánssonar. Þá var hann fyrsti útgefandi flestra þekktustu skálda af næstu kynslóð, styrkti fjölda íslenskra myndlistarmanna, var hvatamaður að stofnun Tónlistarskólans og stofnaði, ásamt Þorvaldi Thoroddsen, Ólafi Þorgrímssyni og fleirum, Tónlistarfélagið, sem fékk fjölda heimsþekktra tónlistarmanna til að halda tónleika hér á landi.

 

Ragnar var upphaflega vinstrisinnaður en umpólaðist og var sjálfstæðismaður upp frá því. Hann beitti sér gegn bandaríska herstöðvarsjónvarpinu og fyrir forsetakjöri Kristjáns Eldjárns 1968.

 

Bókin Mynd af Ragnari í Smára, eftir Jón Karl Helgason, kom út 2009. Ragnar lést 11. júlí 1984.

 

Morgunblaðið föstudagurinn 7. fefrúar 2014

 

Afabarn Ragnars í Smára, Ragnar Gestsson kennari, býr nú á Eyrarbakka ásamt fjölskyldu. Hann er sonur Ernu Ragnarsdóttur og Gests Ólafssonar frá Mosvöllum í Önundarfirði

Á myndinni er Ragnar K. Gestsson með nemendum í 4. bekk Barnaskólabs á Eyrarbakka og Stokkseyri við upphaf kennslustundar í handmennt þann 10. maí 2011.

 

Skráð af Menningar-Staður