Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Mars

02.03.2014 07:21

Tónleikar í Stofunni á Nýjabæ á Eyrarbakka 2. mars 2014

Arnfríður Einarsdóttir og Stefán Hermannsson í Nýjabæ á Eyrarbakka.

 

Tónleikar í Stofunni á Nýjabæ á Eyrarbakka 2. mars 2014

 

Í dag – sunnudaginn 2.  mars 2014 kl. 16:00- verða tónleikar í Stofunni í Nýjabæ að Eyrargötu 8b á Eyrarbakka hjá hjónunum Stefáni Hermannssyni myndlistarmanni og Arnþrúði Einarsdóttur handverkskonu.

 

Á þessum fyrstu tónleikum í Stofunni í Nýjabæ mun hljómsveitin SadOwlBrothers flytja frumsamda raftónlist.

Í Stofunni verður líka myndlistarsýning meðan á tónleikunum stendur.

Allir hjartanlega velkomnir.

 Skráð af Menningar-Staður

02.03.2014 06:25

Veirurnar í kvöldmessu í Selfosskirkju

Selfosskirkja.Veirurnar í kvöldmessu í Selfosskirkju 2. mars 2014

 

Kvöldmessa verður í Selfosskirkju kl. 20 í kvöld -sunnudaginn 2. mars 2014- með Veirunum.

 

Hinn góðglaði sönghópur Veirurnar flytur sálma og dægurlög af ýmsu tagi


Allir hjartanlega velkomnir.

Selfosskirkja

 

Sönghópururinn Veirurnar á tónleikum í Menningarsalnum í Hólmarastarhúsinu á Stokkseyri fyrir nokkrum árum.

Skráð af Menningar-Staður


 

02.03.2014 06:06

Áttu forngrip í fórum þínum?

Þjóðminjasafnið við Suðurgötu í Reykjavík.

 

Áttu forngrip í fórum þínum? 

 

Í dag - sunnudaginn 2. mars  kl. 14-16 -   er almenningi boðið að koma með eigin gripi í greiningu til sérfræðinga Þjóðminjasafnsins. Vinsamlegast takið númer í afgreiðslusafnsins en aðeins 40 gestir komast að og fólk beðið að hafa einungis 1-2 gripi til greiningar.


Hinir svokölluðu greiningardagar safnsins hafa verið mjög vel sóttir og margt fróðlegt komið í ljós. Greiningar á gripum í einkaeign eru ekki aðeins fróðlegir fyrir eigendur gripanna heldur gefst sérfræðingum safnsins einnig einstakt tækifæri til að sjá þá mörgu áhugaverðu og skemmtilegu gripi sem til eru á heimilum landsmanna. Eigendur taka að sjálfsögðu gripina með sér aftur að greiningu og myndatöku lokinni en greiningin snýst um  aldur, efni og uppruna gripanna en ekki verðgildi þeirra.

 
Skráð af Menningar-Staður

01.03.2014 18:36

Markaðsstemmning að Stað

Regína Guðjónsdóttir og Anna Gunnarsdóttir.

.

Ríkharður  Gústafsson.

 

Markaðsstemmning að Stað

Fjöldi fólks og fín stemmninga var í dag í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka en þar var handverksmarkaður og ýmsilegt fleira fallegt til sölu.

Menningar-Staður leit við og færði til myndar.

Myndaalbúm komið hér á Menningar-Stað
Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/258146/


Nokkrar myndir hér:

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

 

01.03.2014 16:56

Alþjóðlegi hrósdagurinn

Ingrid Kuhlman

 

Alþjóðlegi hrósdagurinn

 

Laugardaginn 1. mars er alþjóðlegi hrósdagurinn. Okkur Íslendingum er ekki gjarnt að hrósa. Það hefur ekki verið hluti af þjóðarsálinni – í gamla daga var því jafnvel haldið fram að ekki væri ráðlegt að hrósa börnunum því þau yrðu bara montin. Maður átti bara að vera lítillátur, ljúfur og kátur og láta ekki mikið bera á sér. Margir kunna ekki að hrósa og enn fleiri eiga erfitt með að taka við hrósi. Við skiptum um umræðuefni eða verðum vandræðaleg. Eða við gerum lítið úr hrósinu með því að segja hluti eins og: „Ég gerði nú ekki mikið, þetta er bara hluti af mínu starfi“, eða „Æ, þetta er bara gömul drusla sem ég keypti í útsölunni fyrir nokkrum árum.“ Sumir virðast efast um ásetning þess sem hrósar með því að spyrja: „Vantar þig eitthvað?“. Þegar við bregðumst svona við gerum við lítið úr þeim sem hrósar okkur. Hrós ætti að færa okkur þá upplifun að við séum einstök og laða fram bros. Það ætti jafnframt að færa þeim sem hrósar okkur tilfinninguna að við metum hrósið af öllu hjarta og treystum dómgreind hans.

 

Hér fyrir neðan eru nokkur ráð til að taka hrósi með sæmd:

·         Mikilvægast er að gangast við hrósinu og sýna þakklæti. Orðin „Takk fyrir“ eða „Virkilega gaman að heyra“ skipta miklu máli og gefa þeim sem hrósar tilfinninguna að þú hafir tekið við hrósinu og kunnir að meta það.

·         Æfðu þig í að segja „Takk fyrir“ með brosi á vör, t.d. fyrir framan spegilinn.

·         Haltu augnsambandi þegar þér er hrósað.

·         Ekki skipta um umræðuefnið þegar þú færð hrós; það gæti virkað sem ókurteisi.

·         Ekki þræta við þann sem hrósar þér um réttmæti hróssins („Æ, ég hef aldrei fílað þessa peysu“) eða bera þig saman við aðra („Sigga er nú miklu færari en ég“). Þannig eykur þú ekki líkurnar á að fá hrós í framtíðinni.

·         Láttu ekki freistast til að monta þig af eigin frammistöðu eftir að þú hefur tekið við hrósinu.

·         Ekki vanmeta sjálfa(n) þig með því að koma með neikvæða athugasemd þegar þú færð hrós fyrir góða frammistöðu.

·         Ekki er nauðsynlegt að endurgjalda með hrósi nema ef þér finnist viðkomandi eiga það skilið.

·         Líttu á hrós sem æfingu í sjálfsstyrk. Einstaklingur með sjálfstraust veit hvers virði hann er og metur þá viðurkenningu sem hann fær, en hvorki leitar hana uppi né hafnar henni. Áræðin viðbrögð sýna að þú ert hróssins verð(ur).

·         Komdu hrósinu áleiðis til þeirra sem eiga skilið að fá það en voru ekki viðstödd þegar hrósið var veitt.

 

Það er fátt sem yljar manni eins um hjartarætur og einlægt hrós. Allir hafa efni á að hrósa og allir græða á því. Það er ekkert sem gleður meira, gefur meiri orku og gerir fólk ánægðara en hrós sem er sett fram af einlægni. Hrósum makanum, börnum okkar, foreldrum, samstarfsfélögum, systkinum, frænkum og frændum og öllum sem við þekkjum og gerum 1. mars að jákvæðasta degi ársins.

Af www.pressan.is


Skráð af Menningar-Staður

01.03.2014 16:06

Hrós kostar ekki krónu

Ingrid Kuhlman

 

Hrós kostar ekki krónu

 

Hrósum í dag - Ingrid Kuhlman hjá Þekkingarmiðlun segir hrós ekki hluta af íslenskri þjóðarsál. Ekki veiti þó af hrósi í samfélaginu um þessar mundir og það kosti ekki neitt. Alþjóðlegi hrósdagurinn er í dag.

 

Ég sendi áminningu á alla alþingismenn um að taka þátt í þessum degi, ekki veitir af," segir Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunarog upphafsmanneskja hrósdagsins á Íslandi en Alþjóðlegi hrósdagurinn er í dag.

Ingrid segir reyndar allt samfélagið hafa gott af meira hrósi því neikvæðni einkenni alla umræðu í dag. Hrós hafi hins vegar ekki verið hluti af íslenskri þjóðarsál en þó horfi til batnaðar.

 

"Gunnar á Hlíðarenda hrósaði engum en við erum að bæta okkur. Maður sér mun milli kynslóða. Eldra fólk kann síður að taka hrósi og dregur um leið úr því: "Æ, þetta var ekkert," og "láttu ekki svona," segir það meðan krakkarnir segja bara: "Já takk ég veit," þegar þeim er hrósað. Ef við kunnum ekki að taka hrósi aukum við ekki líkurnar á að fá aftur hrós. Það er ekkert gaman að hrósa fólki sem hafnar því."

 

Hrósdagurinn var fyrst haldinn í Hollandi fyrir ellefu árum og á vefsíðunni: www.worldcomplimentday.com er að finna upplýsingar um daginn. Ingrid hrinti hrósdeginum á Íslandi af stað fyrir tveimur árum og stofnaði Facebook-síðu kringum hann. Þar setja um 2.500 manns reglulega inn hrós.

 

"Fólk er að hrósa öllu mögulegu, til dæmis þegar það fær góða þjónustu í verslun eða þegar eitthvað skemmtilegt er að gerast í sveitarfélaginu. Það er mjög gaman að sjá fólk pósta jákvæðum hlutum, sérstaklega núna," segir Ingrid.

"Það verður engin uppákoma tengd deginum í ár heldur er dagurinn vitundarvakning. Auðvitað eigum við að hrósa alla daga ársins en dagurinn í dag á að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi þess að hrósa. Hrós kostar ekki neitt en afraksturinn er mikill. Það veitir mikla gleði og ánægju og

öllum þykir okkur vænt um að fá klapp á bakið."

 

Ingrid er framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar sem annast ráðgjöf á ýmsum sviðum fyrir fyrirtæki og heldur námskeið um samskipti og vellíðan á vinnustöðum. Hún segir lítið hrós vandamál á vinnustöðum.

"Það er eitt af því sem kemur í ljós í starfsánægjukönnunum, það vantar viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Því er um að gera að draga það jákvæða fram og segja eitthvað fallegt. Það skiptir miklu máli. Ég vonast til að allir landsmenn taki þátt.

Fréttablaðið laugardagurinn 1. mars 2014


 

Skráð af Menningar-Staður

01.03.2014 12:57

Markaður að Stað á Eyrarbakka, í dag laugardaginn, - 1. mars 2014

,

 

Markaður að Stað á Eyrarbakka, í dag - laugardaginn, - 1. mars 2014

 

 

MARKAÐur í Samkomuhúsinu Stað Eyrarbakka, í dag- laugardaginn 1. mars -  frá kl 13-17

 

Handverki og ýmsar aðrar vörur 

 

Allir hjartanlega velkomnir

 

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður


 

01.03.2014 12:47

Af draumförum Kristjáns Runólfssonar

Skagfirðingurinn og Eyrbekkingurinn Kristján Runólfsson í Hveragerði.Af draumförum Kristjáns Runólfssonar

 

Ég hafði draumfarir allsnarpar í nótt.

Þótti mér Guðni Ágústsson sigla á víkingaskipi búinn alvæpni með óræðan svip og ábúðarfullan. 

Þótti mér hann krjúpa í stafni og vóg hann á báðar hendur allt það er á vegi hans varð. Skipið var velbúið með fagurlituð segl, og marglitir skildir voru í röðum á bæði borð.
Aftan við Guðna stóðu 4 kýr vel pattaralegar og mjaltakonur sátu við hverja þeirra á hrosshausum og mjólkuðu þær. Aftan við þær voru svo 2 konur er strokkuðu smjör í ákafa, þar aftan við sat grúi manna undir vopnum en höfðust lítt að, en sátu með hendur í skauti. Til þeirra skrafaði Guðni á gullaldarmáli annað slagið og reyndi að eggja þá til verka, en n lítt dugði.


Guðni Ágústs oft mun duga,
en ætlaði mig hreint að buga.
Ekki er gott ef ærifluga,
yfirtekur sál og huga.

Ljótan draum fyrir litlu efni,
lifði í nótt, er kraup í stefni,
frægur Guðni, fleira ei nefni,
en feginn hrökk ég upp af svefni.


Kristján Runólfsson

 Skráð af Menningar-Staður
 

01.03.2014 08:20

Uppátækjasamur og bráðfjörugur Eyjapeyi

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Glæsileg hjón Árni Johnsen og Halldóra Filippusdóttir.

 

Uppátækjasamur og bráðfjörugur Eyjapeyi

Árni Johnsen, fyrrv. blaðamaður og alþingismaður – 70 ára

 

Árni fæddist í Vestmannaeyjum 1. mars 1944 og ólst þar upp. Hann lauk kennaraprófi frá KÍ 1967.

Árni var kennari í Vestmannaeyjum 1964-65 og í Reykjavík 1966-67. Hann var starfsmaður Surtseyjarfélagsins með aðsetur í Surtsey sumar og haust 1966 og 1967, blaðamaður við Morgunblaðið 1967-83 og 1987-91, dagskrárgerðarmaður við Ríkisútvarpið um árabil frá 1965 og við Sjónvarpið frá stofnun og um langt árabil.

 

Árni var varaþm. Suðurlandskjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1988, 1989, 1990 og 1991, alþm. Suðurlandskjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1983-87 og 1991-2001, og alþm. Suðurkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn 2007-2013.

Árni er félagi í Bjargveiðimannafélagi Vestmannaeyja, var kynnir á Þjóðhátíð Vestmannaeyja í rúma þrjá áratugi og jafnframt stjórnandi Brekkusöngsins í tæp 40 ár, var formaður tóbaksvarnanefndar 1984-88, var formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins 1990-2001, sat í stjórn Grænlandssjóðs frá 1987, í stjórn Norrænu stofnunarinnar á Grænlandi, NAPA, um árabil, sat í Flugráði 1987-2001 og var stjórnarformaður Sjóminjasafns Íslands um árabil frá 1987.

Árni sat í fjárveitinganefnd Alþingis 1983-87, í fjárlaganefnd 1983-87 og 1991-2001, í samgöngunefnd 1991-2001 og 2007-2013 og var formaður hennar 1999- 2001, sat í menntamálanefnd 1991-2001, í félagsmálanefnd 2007-2013, sat í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 1994-2001 og 2007-2013 og var formaður nefndarinnar 1996-2001 og varaformaður frá 2007.

 

Árni hefur haft frumkvæði að og stýrt framkvæmdum fjölmargra verkefna á sviði sögu og menningar, s.s. byggingu bæjar Eiríks rauða og Þjóðhildarkirkju á Grænlandi, Stafkirkjunnar í Vestmannaeyjum, Herjólfsbæjarins í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum og Þorláksbúðar í Skálholti, svo eitthvað sé nefnt.

 

Út hafa komið eftirtaldar bækur eftir Árna: Eldar í Heimaey, 1973; Kvistir í lífstrénu, samtalsþættir, 1982; Kristinn í Björgun, 1986; Fleiri kvistir, samtalsþættir, 1987; Þá hló þingheimur, ásamt Sigmund, 1990; Enn hlær þingheimur, 1991, Lífsins melódí, 2004 og Kristinn á Berg, 2005. Auk þess hefur hann ritað fjölda bókarkafla og mörg hundruð greinar í innlend og erlend blöð og tímarit og gjarnan birt eigin ljósmyndir með þeim en hann á 50.000 mynda ljósmyndasafn.

Út hafa komið eftirfarandi hljómplötur með Árna: Eyjaliðið; Milli lands og Eyja; Þú veist hvað ég meina; Ég skal vaka (lög Árna og fleiri við ljóð Halldórs Laxness); Vinir og kunningjar; Stórhöfðasvítan; Gaman að vera til I og II, og Fullfermi af sjómannalögum I og II. Hann hefur samið nær hundrað sönglög og texta, tvær svítur fyrir sinfóníuhljómsveit, Stórhöfðasvítuna og Sólarsvítuna og er nú að ljúka upptöku á plötum með 130 barnalögum, flestum þeim þekktustu sl. hálfa öld. Þá hefur hann gert tugi myndverka í grjót, stál og fleiri efni.

Í tilefni afmælisins heldur Árni upptökutónleika í Salnum í Kópavogi með landsþekktum tónlistarmönnum. Þar verða leikin og sungin 40 gullfalleg íslensk sönglög með undirtektum salarins en textum verður varpað á tjald.

Fyrir tónleikana verður boðið upp á gúllassúpu og frumsýnd Sólarsvítan sem Sinfóníuhljómsveit Úkraínu tók upp í sumar.

 

Fjölskylda

Eiginkona Árna er Halldóra Filippusdóttir, f. 17.2. 1941, flugfreyja. Hún er dóttir Filippusar Tómassonar trésmíðameistara og Lilju Jónsdóttur húsfreyju en þau eru bæði látin.

Sonur Árna og Halldóru er Breki, f. 10.5. 1977, atvinnuflugmaður, búsettur í Vestmannaeyjum en sonur hans er Eldar Máni.

Dætur Árna frá fyrra hjónabandi með Margréti Oddsdóttur eru Helga Brá, f. 25.8. 1966, starfsmaður við HÍ, búsett í Reykjavík en maður hennar er Jón Gunnar Þorsteinsson og eru dætur þeirra Margrét Lára og Þórunn Helena; Þórunn Dögg, f. 15.1. 1968, kennari og starfar við ferðaþjónustu, búsett í Hafnarfirði en maður hennar er Jón Erling Ragnarsson og eru dætur þeirra Una, Andrea og Telma.

Stjúpsonur Árna er Haukur A. Clausen, f. 9.10. 1959, tölvuforritari, búsettur í Reykjavík.

Hálfsystkin Árna, sammæðra, eru Margrét Áslaug Bjarnhéðinsdóttir, f. 3.1. 1950, kaupkona; Þröstur Bjarnhéðinsson, f. 13.5. 1957, stundar veitinga- og hótelrekstur; Elías Bjarnhéðinsson, f. 6.7. 1964, tölvufræðingur.

Foreldrar Árna voru Ingibjörg Á. Johnsen, f. 1.7. 1922, d. 21.7. 2006, kaupmaður í Vestmannaeyjum, og Poul C. Kanélas, nú látinn, var búsettur í Detroit í Bandaríkjunum, af grískum ættum. Stjúpfaðir Árna var Bjarnhéðinn Elíasson, f. 27.8. 1921, d. 8.10. 1992, skipstjóri og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum.

 

Morgunblaðið laugardagurinn 1. mars 2014

.

.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður