Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Mars

22.03.2014 07:22

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Árborg er í dag - laugardaginn 22. mars 2014

Mynd

 

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Árborg er í dag

- laugardaginn 22. mars 2014

 

Frambjóðendurnir eru:

 

Ari Björn Thorarensen, fangavörður og bæjarfulltrúi

Axel Ingi Viðarsson, framkvæmdastjóri

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Svf. Árborgar

Gunnar Egilsson, framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi

Helga Þórey Rúnarsdóttir, leikskólakennari

Kjartan Björnsson, rakari og bæjarfulltrúi

Magnús Gíslason, sölustjóri

Ragnheiður Guðmundsdóttir, verslunarmaður

Sandra Dís Hafþórsdóttir, fjármálastjóri og bæjarfulltrúi
 


Á Eyrarbakka er kosningin í Félagsheimilinu Stað  kl. 10 - 15

 

 

Skráð af Menningar-Staður

22.03.2014 07:12

Gísli Þ. Sigurðsson - Fæddur 30. júní 1939 - Dáinn 10. mars 2014 - Minning

Gísli Þ. Sigurðsson

 

Gísli Þ. Sigurðsson - Fæddur 30. júní 1939

- Dáinn 10. mars 2014 - Minning

 

Gísli Þ. Sigurðsson fæddist á Eyrarbakka 30. júní 1939. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 10. mars 2014.

Foreldrar hans voru Guðbjörg Jóna Þorgrímsdóttir, f. á Grímsstöðum á Eyrarbakka 6. janúar 1905, d. á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 22. nóvember 1988, og Sigurður Ingvarsson, sjómaður og bílstjóri, f. 14. október 1892, d. 22. júní 1971.

Gísli starfaði sem vörubílstjóri lengst af ásamt því að vinna við netafellingar og línubeitningar. Síðustu árin starfaði hann sem bílstjóri hjá Fóðurstöðinni á Selfossi, Hann starfaði lengi í Björgunarsveitinni Björg á Eyrarbakka og var um tíma formaður hennar. Einnig var hann í slökkviliðinu á Bakkanum og slökkviliðsstjóri um tíma.

Gísli var ókvæntur og barnlaus og bjó á Eyrarbakka alla sína tíð.

Útför Gísla fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, laugardaginn 22. mars 2014, kl. 14.

____________________________________________________________________

Minningarorð Magnúsar B. Sigurðssonar

Í dag er til moldar borinn frændi minn og vinur, Gísli Þ. Sigurðsson á Hópi, Eyrarbakka, en hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands þann 10. mars síðastliðinn eftir erfið veikindi. Hugurinn leitar aftur til þess tíma er ég hitti þennan frænda minn í fyrsta skipti árið 1959, ég þá 10 ára gamall og hann 19 ára. Á þessum árum er þetta mikill aldursmunur og ég man hve mikið ég leit upp til hans, hann átti flottan vörubíl ásamt föður sínum, Sigurði Ingvarssyni og keyrði fjörusand til Reykjavíkur. Ég átti hinsvegar bara gamalt reiðhjól, var horaður, rauðhærður og freknóttur, en hann stór og kraftalegur. Í upphafi þótti honum lítið til þessa litla og pervisna frænda síns koma en með tímanum tók hann þann stutta í sátt og áttum við góðar stundir saman. Hann var viljugur við að fræða mig um alla hluti á Bakkanum, hvað mátti gera og hvað ekki. Gísli ók vörubílnum sínum, hlöðnum fjörusandi, til Reykjavíkur, stundum tvisvar á dag og allt mokað á með höndunum. Ég fór oft með honum í fjöruna til að moka á bílinn og þóttist moka á við hann en mín skófla var lítil en hans var stór, og minn hlutur því lítill miðað við hans. En það var ekki alltaf verið að moka sandi og stundum fórum við til veiða í Ölfusá og þá frá Bakkaengjunum svonefndu.

Oft veiddum við vel, það er að segja Gísli, en hann hafði ekki orð á því þó minn hlutur væri rýr, aðeins að við hefðum fengið góðan afla. Gísli vann sem vörubílstjóri lengst af, en einnig stundaði hann aðra vinnu svo sem netafellingar og línubeitningar. Á síðari árum var hann svo bílstjóri hjá Fóðurstöðinni á Selfossi. Hann var mjög duglegur að ferðast um landið sitt, til að byrja með var hann með tjald en síðan eignaðist hann húsbíl og fór víða á honum. Ég hugsa að hann hafi heimsótt flestar ef ekki allar sveitir landsins og sumar margoft.

Hann hafði einnig mikinn áhuga á trjárækt og á seinni árum var hann búin að planta trjám í töluverðu magni í jarðarpart sem hann átti fyrir ofan Bakkann. Gísli var hlédrægur maður og tranaði sér ekki fram en hann unni Bakkanum sínum og vildi veg hans sem mestan, Hann tók virkan þátt í störfum Björgunarsveitarinnar Bjargar á Eyrarbakka og var um tíma formaður hennar. Hann var einnig í slökkviliðinu á Bakkanum og um tíma slökkviliðsstjóri. Gísli lét sér líka annt um atvinnumál á Bakkanum. Ég gæti haldið áfram að telja upp fleira og fleira sem Gísli kom að en læt staðar numið hér, hann var ekki mikið fyrir orðskrúð hann frændi minn.

 

Ég horfi upp í himininn

Hann er grár og úfinn.

Honum líkist hugur minn

Harmi og trega búinn.

(Lára S. Sigurðardóttir)

 

Elsku frændi og vinur. Takk fyrir samfylgdina.

Magnús B. Sigurðsson.
 Skráð af Menningar-Staður

 

 

22.03.2014 06:51

Jónas Ingimundarson með tónleika í Selfosskirkju i dag - 22. mars 2014

Jónas Ingimundarson ásamt Ragnheiði Steindórsdóttur og Auði Gunnarsdóttur.

 

Jónas Ingimundarson með tónleika í Selfosskirkju 

í dag - 22. mars 2014

 

Jónas Ingimundarson heldur upp á hálfrar aldar afmæli sitt „Við slaghörpuna“ í Selfosskirkju í dag, laugardaginn 22. mars 2014 kl. 16.

Með honum verða sópransöngkonan Auður Gunnarsdóttir og Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona sem flytur öll ljóðin, sem sungin eru, þau erlendu í þýðingum Reynis Axelssonar.

 

Tónleikar þessir verða með heimilislegu sniði þar sem Jónas kynnir allt sem flutt er á sinn sérstaka hátt, gjarnan með tóndæmum. Þetta form tónleika hefur gefist vel í gegnum árin. 

Auður Gunnarsdóttir er í hópi okkar bestu söngvara og á að baki starf um árabil í Þýskalandi. Hún er dótturdóttir Guðmundar Daníelssonar og því tengd Eyrarbakka og Selfossi með vissum hætti líkt og Jónas, sem dvaldi þar í bernsku en hann bjó einnig á Selfossi ásamt fjölskyldu sinni á árunum 1970-74 og var þá drifkraftur í tónlistarlífi staðarins. Hann á góðar minningar frá staðnum. Ragnheiður Steindórsdóttir á glæstan feril sem leikari í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Sjónvarpi, Útvarpi og víðar.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

21.03.2014 21:45

Alþjóðlegur dagur skóga - 21. mars

Birki.

Birki.

Alþjóðlegur dagur skóga - 21. mars

 

Alþjóðlegur dagur skóga er í dag, 21. mars en deginum er ætlað að vekja athygli á mikilvægi skóga og trjágróðurs.

Skógar þekja um þriðjung lands á jörðinni og veita lífsnauðsynlega þjónustu um alla veröld. Um 1,6 milljarðar manna og yfir 2000 menningarsamfélög frumbyggja reiða sig á skóga til lífsviðurværis.

Skógar eru fjölbreyttasta vistkerfi sem til er á landi og hýsa yfir 80% þeirra tegunda dýra, plantna og skordýra sem lifa á yfirborði jarðar. Þeir sjá einnig fólki sem býr í skógunum fyrir skjóli, störfum og öryggi.

Þá gegna skógar lykilhlutverki í baráttu mannkyns gegn loftslagsbreytingum með því að stuðla að jafnvægi súrefnis, koltvíoxíðs og raka í loftinu. Skógar verja einnig um 75% vatnsbóla í heiminum.

Þrátt fyrir alla þessa lífnauðsynlegu þjónustu sem skógar veita mönnum ganga þeir stöðugt meira á þá. Skóghögg nemur nú um 13 milljónum hektara árlega og orsakar 12 til 20 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda sem stuðla að loftslagsbreytingum.

Á Íslandi nær ógróið eða illa gróið land á láglendi yfir um tólf prósent landsins, eða um 12.400 ferkílómetra. Skógrækt hefur hins vegar mikla möguleika á Íslandi enda er nær ótakmarkað land til skógræktar og lengi hægt að rækta skóg án þess að slíkt komi niður á annars konar landnotkun. Með skógrækt á melum og söndum víða um landið hefur verið sýnt fram á að nytjaskógrækt eða timburskógrækt er möguleg á gjörsnauðu landi. Með slíku starfi má endurheimta landgæði, draga úr jarðvegstapi, búa til skjól, öflug og sjálfbær vistkerfi og ekki síst umtalsverð verðmæti fyrir komandi kynslóðir. 

Af www.stjornarrad.is


Skráð af Menningar-Staður

21.03.2014 20:26

Jógabókin mín í heilsuleikskólunum Brimveri á Eyrarbakka og Æskukoti á Stokkseyri

froskur

 

Jógabókin mín í heilsuleikskólunum Brimveri á Eyrarbakka

og Æskukoti á Stokkseyri

 

Í heilsuleikskólunum Brimveri á Eyrarbakka og Æskukoti á Stokkseyri fer fram markviss íþrótta- og jógakennsla í umsjá Tinnu Bjargar Kristinsdóttur íþróttakennara. Börnin stunda hreyfinguna í aldursskiptum hópum og fer kennslan fram tvisvar í viku á báðum stöðum auk annars hvers föstudags.

Þetta fyrirkomulag hófst haustið 2013 og hefur gengið afskaplega vel. Börnin eru áhugasöm og dugleg í tímum sem skilar sér í stöðugum framförum og jákvæðu andrúmslofti.  Jógastundirnar hafa slegið í gegn hjá bæði börnum, foreldrum og starfsfólki þar sem lagt er upp með að hafa þá eins áhugaverða og fjölbreytta og kostur er. Börnin hafa tekið auknum framförum þegar kemur að jafnvægi, liðleika og styrk, og má með sanni segja að þau séu orðnir algjörir jógasnillingar. Einnig hefur  andleg líðan og hugarfar breyst til hins betra og læra börnin að lifa í ró, sátt og samlindi.

Leikskólarnir hafa verið duglegir í að virkja foreldra barnanna til þátttöku í jóga með börnunum með ýmsum hætti. Til að mynda buðu þeir upp á fjölskyldustund í jóga nú fyrir áramót, og mættu þá foreldrar og systkini með börnunum í jógatíma í leikskólunum. Hugsunin var að leyfa fjölskyldunni að kynnast jógastarfinu okkar og um leið fá að sjá börnin í leik og starfi. Þetta lukkaðist mjög vel og voru börn, foreldrar og kennarar í skýjunum með hvernig til tókst. Síðan þá höfum við heyrt um mörg dæmi þar sem foreldrar barnanna nýta sér  hinar ýmsu jógastöður og slökunaraðferðir til að skapa notalegar og skemmtilegar fjölskyldustundir, annað hvort í lok dags eða um helgar.

Nú í mars fóru leikskólarnir af stað með samvinnuverkefni í jóga á milli heimila barnanna og leikskólanna. Verkefnið gengur út á það að annan hvern föstudag fá börnin með sér heim bók sem kallast „Jógabókin mín“. Í henni eru fjölbreyttar jógastöður sem þá aðallega líkjast dýrum eða öðrum náttúrufyrirbærum, og eiga börnin að framkvæma þær heima með foreldrum sínum.  Að því loknu eiga þau að teikna jógastöðurnar – líkt og þau túlka þær – í bókina. Til dæmis ef jógastaðan sem um ræðir er „froskur“ þá teiknar barnið frosk við hliðina á myndinni af jógastöðunni. Einnig er í boði að klippa út myndir, t.d. ef að barnið finnur mynd af froski í dagblaði, tímariti eða í tölvunni, og líma þær svo í bókina.  Öll börn á aldrinum 1 árs til 6 ára taka þátt í þessu verkefni. Börnin vinna eina opnu í senn yfir helgi og skila síðan bókinni aftur þegar komið er til baka í leikskólann á mánudegi. Fyrir hverja opnu sem unnin er fá börnin stjörnu. Þetta hefur gengið vonum framar og hafa bæði börn og foreldrar sýnt verkefninu mikinn áhuga.

Leikskólarnir leggja mikinn metnað í heilsustarfsemi sína og vilja þeir meðal annars hlúa að henni með því að auka þekkingu starfsmanna sinna. Það gleður okkur því mjög að Tinna Björg íþróttakennari mun vera að fara á jógakennaranámskeið í barna- og fjölskyldujóga í Denver, Colorado í september 2014. Með því vonumst við til þess að auka fjölbreytni okkar í starfi enn frekar.

 

Fh. Brimvers og Æskukots,
M. Sigríður Jakobsdóttir, leikskólastjóri.

 

Af www.arborg.is

 

Skráð af Menningar-Staður

21.03.2014 05:49

Hvernig bæjarfulltrúa má bjóða þér?

alt

Guðrún Álfheiður Thorarensen.

 

Hvernig bæjarfulltrúa má bjóða þér?

 

Laugardaginn 22. mars 2014 fer fram prófkjör Sjálfstæðismanna í Árborg og þar gefst þér lesandi góður tækifæri til þess að hafa áhrif á framtíðina í sveitarfélaginu.

 

Níu frambærilegir einstaklingar gefa kost á sér að þessu sinni. Þau hafa lýst því yfir að þau eru til þjónustu reiðubúin til þess að vinna að því að gera Árborg að enn betri stað og er það þakkarvert. Ég segi þakkarvert því það að starfa í sveitarstjórnarmálum getur verið snúið og sumar ákvarðanir verið erfiðar. Hún getur verið skrýtin tík þessi pólitík. En ýmsu er líka hægt að áorka með samstilltu átaki. Margt er til eftirbreytni í Árborg og margt má betur fara. Markmiðin eiga að vera há, hér eiga ungir jafnt sem gamlir að geta dafnað.

Faðir minn, Ari Björn Thorarensen, hefur síðastliðin fjögur ár sýnt að hann hefur styrkinn, eljuna og kraftinn til þess að standa í þessu. Þrátt fyrir viðstöðulausar símhringingar, snatt og fundarhöld þá skín það í gegn að hann hefur gaman af þessu starfi og stendur undir þeirri ábyrgð sem honum hefur verið veitt. Hann hefur kjark og þor og stendur við orð sín. Hann er gífurlega vinnusamur þreytist ekki þótt á móti blási heldur eflist ef eitthvað er. Ari sækist eftir því að vinna áfram að betra samfélagi í Árborg og sækist eftir öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna. Láttu sjá þig á kjörstað og hafðu áhrif á uppröðun listans.

 

Guðrún Álfheiður Thorarensen

 

Ari Björn Thorarensen talar á framboðsfundi á Eyrarbakka vegna prófkjörs Sjálfstæðismanna.

.

Skráð af Menningar-Staður

20.03.2014 17:20

Ný heimasíða - sudurland.is

Kristín Bára Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri upplýsingagáttar Suðurlands, sem heldur utan um nýju síðu SASS.

 

Ný heimasíða – sudurland.is

 

Nú í vikunni fer ný glæsileg heimasíða í loftið á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga með léninu www.sudurland.is

Síðan er hugsuð fyrir okkur heimafólkið á Suðurlandi, þar sem við getum nálgast víðtækar upplýsingar um landshlutann okkar og að sjálfsögðu er hún líka fyrir aðra landsmenn. Þannig verður hún sameiginlegt andlit landshlutans út á við og inn á við.

Með upplýsingasíðunni á að vera auðveldara fyrir notandann að finna hvaða afþreying og viðburðir eru í boði á Suðurlandi, hvar eru bókasöfn, sundlaugar, önnur söfn, hvar er hægt að borða og gista? Einnig er að finna upplýsingar um styrki og ráðgjöf sem er í boði í  fyrir atvinnu- og menningarlíf á Suðurlandi.

Verkefnið er hluti af Sóknaráætlun Suðurlands sem m.a. felst í því að markaðssetja Suðurland sem góðan kost í staðsetningu fyrirtækja og stofnana, og kynna fólki  Suðurland sem góðan búsetukost jafnframt því  að koma á framfæri öflugu menningarlífi á á Suðurlandi bæði fyrir íbúa og gesti.

 

Af www.sass.is


Skráð af Menningar-Staður
 

20.03.2014 17:12

Samningur við björgunarsveitina á Eyrarbakka

.Á myndinni má sjá Víglund Guðmundsson, formann Bjargar, og Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Árborgar.

 

 Samningur við björgunarsveitina á Eyrarbakka

 

Sveitarfélagið Árborg og  Björgunarsveitin Björg  á Eyrarbakka hafa endurnýjað samstarfssamning sinn.

Samningurinn er gerður til 3ja ára og tekur m.a. til barna- og unglingastarfs sem björgunarsveitin sinnir, þátttöku sveitarinnar í viðburðum og hátíðum og umsjónar með sjómannadeginum á Eyrarbakka. 

 

Á myndinni má sjá Víglund Guðmundsson, formann Bjargar, og Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Árborgar, handsala samninginn.

Af www.arborg.is

 

Skráð af Menningar-Staður

20.03.2014 10:15

Bakkafossar frá Menningar-Stað við vorjafndægur 2014

.

.

Bakkafossar frá Menningar-Stað við vorjafndægur 2014

Menningar-Staður færði  Bakkafossa  til myndar í morgun, við vorjafndægur 20. mars 2014, af útsýnispallinum við Félagsheimilið Staðm á Eyrarbakka.

Myndaalbúm er komið hér á Menningar-Stað.
Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/258921/


Nokkrar myndir hér:

 

.

.

 

Skráð af Menningar-Staður

20.03.2014 08:17

20. mars 2014 - Vorjafndægur - Einmánuður byrjar 25. mars 2014

 

 20. mars 2014 - Vorjafndægur - Einmánuður byrjar 25. mars 2014

 

Þennan dag eru þrír mánuðir liðnir frá vetrarsólhvörf og þrír mánuðir í sumarsólstöður.

Segja má að dagur og nótt séu jafnlöng en upp frá þessum degi fer birtan að hafa yfirhöndina.

 

Góuþræll verður 24. mars og er síðasti dagur góu. Var í gamansemi að ánafna hann þeim konum sem með einhverjum hætti þóttu hafa gert sig berar að lauslæti.

Áður og fyrr höfðu menn illan bifur á góuþrælnum vegna veðurfars, einkum á Suðurlandi. Annálar á 17. öld minnast oftsinnis á illviðri og mannskaða á góuþræl.

Mjög slæmt þótti að góuþrællinn færi saman við boðunardag Maríu 25. mars enda orti Bólu-Hjálmar:

Vottur er það varla góðs
veðurátt mun kælin
þá boðunarhátíð besta fljóðs
ber á góuþrælinn.

 

Einmánuður er helgaður piltum og harpa stúlkum á sama hátt og húsbændur og húsfreyjur áttu þorra og góu. Fyrsti dagur einmánaðar hefur verið kallaður “yngismannadagur” á síðustu öldum, og áttu stúlkur að fagna honum. Sagt er að votur einmánuður boði gott vor. 

Þessi kviðlingur um einmánuð var allkunnur á Vestfjörðum: 

Einmánuður minn, minn
gakk þú í bæinn.
Vertu ekki úti í vindinum
vorlangan daginn. 


Til þess að vorið yrði gott þótti þetta besta veðráttan á útmánuðum eins og segir í eftirfarandi kviðlingi: 

Þurr skyldi þorri
þeysin góa
votur einmánuður
þá mun vel vora.