Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Apríl

22.04.2014 07:04

Sigurður dýralæknir - afmælisrit

Sigurður Sigurðarson (með hið fínasta Hrútavinabindi) og Kristján Runólfsson.

 

Sigurður dýralæknir - afmælisrit

 

Vísindamaðurinn, sagnamaðurinn og gleðimaðurinn, í góðri merkingu þess orðs, Sigurður Sigurðarson, dýralæknir frá Keldum, verður 75 ára þann 2. október næstkomandi.  

 

Af því tilefni kemur út hjá Bókaútgáfunni Hólum seinni bindið af æviminningum Sigurðar og er það jafnframt afmælisrit hans.  Þar segir hann frá lífshlaupi sínu, allt frá dýralæknanáminu í Noregi til þessa dags, og dregur fram í dagsljósið ógrynni sagna af skemmtilegu fólki og skemmtilegum viðburðum, þótt vissulega hafi hann fengið sinn skerf af mótlæti og meðal annars verið hótað lífláti. Þá er vísum vitaskuld varpað fram, enda liggur kveðskapur honum létt á tungu og yrkir hann næstum jafnhratt og aðrir menn tala.

 

Í fyrrnefndum afmælisriti verður að sjálfsögðu heillaóskaskrá – Tabula gratulatoria – og býður útgefandi öllum þeim sem sýna vilja Sigurði sóma að skrá nafn sitt þar og eignast um leið bókina.

Verð hennar verður kr. 6.480- m/sendingargjaldi og er tekið við áskrifendum í netfanginu brynjar@holabok.is og í síma 698-6919.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

22.04.2014 05:31

Mörður í Njálu birtist á ný í skáldsögu

Bjarni Harðarson.

Mörður í Njálu birtist á ný í skáldsögu

 

Bjarni Harðarson bóksali mun á félagsfundi Ættfræðifélagsins 24. apríl, sumardaginn fyrsta, fjalla um Mörð Valgarðsson sem jafnan er kallaður illræmdasta persóna í Njálssögu en Íslendingar kusu hana vinsælustu bók sína. Fyrirlesturinn nefnist Ættarerjur, Mörður Valgarðsson og forleikurinn að Njálu.

Bjarni gefur á næstunni út skáldsögu um Mörð Valgarðsson.

Fundurinn verður haldinn á 3. hæð Þjóðskjalasafnsins við Laugaveg 162.

Morgunblaðið þriðjudagurinn 22. apríl 2014

 

Í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi

 

Skráð af Menningar-Staður
 

21.04.2014 23:20

Kjördæmasambandið styður Guðna

Guðni Ágústsson í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka sumarið 2013.

 

Kjördæmasambandið styður Guðna

 

Kjördæmasamband Framsóknarflokksins í Reykjavík vill að Guðni Ágústsson leiði framboðslista flokksins í borginni fyrir kosningarnar sem fara fram í næsta mánuði.

Guðni hefur notað páskana til að taka ákvörðun og hyggst tilkynna hana á sumardaginn fyrsta, að því er sagði í kvöldfréttum RÚV.

Eins og Morgunblaðið greindi frá á laugardaginn hafa þeir Guðni og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra rætt saman um hugsanlegt framboð Guðna.

Sigmundur Davíð segir að það sé alfarið hlutverk kjördæmasambandsins að raða niður á listann, en ekki formanns flokksins.

Óskar Bergsson ákvað að draga sig í hlé sem oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík í byrjun mánaðarins.

Guðni Ágústsson, heiðursforseti Hrútavinafélagsins Örvars.

21.04.2014 23:13

Bjartsýn á verslunarrekstur á Bakkanum

Eggert Valur Guðmundsson og Eygló Har Sigríðardóttir, verslunarmenn á Eyrarbakka. Ljósm.: sunnlenska.is/Guðmundur Karl

 

Bjartsýn á verslunarrekstur á Bakkanum

 

Hjónin Eggert Valur Guðmundsson og Eygló Har Sigríðardóttir hafa tekið við verslunarrekstri á Eyrarbakka en þau opnuðu Verslunina Bakkann þar á dögunum.

Þau segjast bjartsýn á reksturinn og þegar tækifærið hafi gefist þá ákváðu þau að stökkva til. „Þetta er fimmhundruð manna þorp og ég trúi ekki öðru en það sé mögulegt að reka hér verslun. Viðtökurnar hafa verið frábærar frá því við opnuðum og við heyrum að það er almenn ánægja með þetta meðal íbúanna,“ sagði Eggert Valur í samtali við sunnlenska.is.

Rúmur mánuður er síðan verslunin Vesturbúð lokaði í þessu sama húsnæði en húsið er í eigu Olís sem leigir út reksturinn. Í versluninni má kaupa allar helstu nauðsynjavörur fyrir heimilið og bílavörur frá Olís. 

Þau Eggert og Eygló hafa verið að dytta að húsinu síðustu daga en þau segja að litlar breytingar verði á rekstrinum í fyrstu. „Við viljum sjá hvernig þetta fer af stað, það má segja að þetta sé tilraunaverkefni en við stefnum þó á einhverjar breytingar í framtíðinni, t.d. viljum við geta boðið upp á grillaða hamborgara og ís úr vél.“

Af www.sunnlenska.is

 

Skráð af Menningar-Staður

21.04.2014 22:18

1. maí um land allt eftir 10 daga

Björn Kristján Hafberg og Guðmundur Jón Sigurðsson f.v. formenn Skjaldar á Flateyri.

 

1. maí um land allt eftir 10 daga

 

Þrír fyrrverandi leiðtogar úr Verkalýðsfélaginu Skildi á Flateyri; þeir Björn Kristján Hafberg, Guðmundur Jón Sigurðsson og Björn  Ingi Bjarnason hittust og funduðu til stefnumótunar, í Menningar-Sellu ritstjórnar Menningar-Staðar, vegna hátíðisdags verkalýðsins sem verður um allt land hinn 1. maí 2014.

Ákveðið var að boða alla fyrrverandi formenn og varaformenn Skjaldar til hátíðarkaffis í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka hinn 1. maí n.k.

Sami háttur var á þann 1. maí 2013 og á eftir hátíðarkaffinu þá var  fundur með fyrrum verkalýðsleiðtogum á Eyrarbakka og Óskari Magnússyni f.v. skólastjóra á Eyrarbakka sem ættaður er frá Flateyri.

 


Björn Kristján Hafberg og Björn Ingi Bjarnason f.v. formenn Skjaldar á Flateyri.

 

Skráð af Menningar-Staður.

21.04.2014 21:06

Dagskrá Vors í Árborg 2014 komin á netið

Elfar Guðni Þórðarson á Stokkseyri var fyrsti bæjarlistamaður Árborgar og var það árið 2003.
Inga Lára Baldvinsdóttir er hér að framkvæma útnefninguna í Menningarverstöðinni Hólmarsöt á Stokkseyri.

 

Dagskrá Vors í Árborg 2014 komin á netið

 

Dagskrá fyrir Vor í Árborg er komin á netið en hátíðin verður haldin dagana 24. – 27.apríl nk.

Fimmtudaginn 24. apríl er sumardagurinn fyrsti og mun Skátafélagið Fossbúar stjórna sérstakri hátíðardagskrá í tilefni dagsins. Opnunarhátíð Vors í Árborg verður síðan á Hótel Selfoss kl. 17:00 en þar kemur fram Barna- og unglingakór Selfosskirkju, Gísli Stefánsson ásamt undirleikara sem og verður afhent menningarviðurkenning Árborgar 2014. 

Stórir tónleikar verða á Eyrarbakka lau. 26. apríl með Guðrúnu Gunnars, Kareni Dröfn og Valgeiri Guðjónssyni og síðan sun. 27. apríl á Stokkseyri með Karlakór Hreppamanna og Kristjönu Stefáns.

Fjölskylduleikurinn “Gaman Saman“ verður á sínum stað en það er stimpilleikur þar sem börn geta fengið stimpil fyrir þátttöku í ákveðnum viðburðum og átt möguleika á flottum vinningum. Dagsránna má nálgast hér að neðan eða undir hnappnum Vor í Árborg vinstra megin á þessari síðu.

Vor í Árborg dagskrá 2014 – heild 

Af www.arborg.is

vor_i_arborg

Skráð af Menningar-Staður

 

21.04.2014 16:06

Tíu hektarar undir hvönn á Eyrarbakka

Eyrarbakki. Ljósm.: Mats Wibe Lund.

 

Tíu hektarar undir hvönn á Eyrarbakka

 

Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt að leigja Þresti Þorsteinssyni tæplega 10 hektara land á Eyrarbakka til ræktunar á hvönn.

Þröstur ætlar að selja Saga Medica hvönnina til notkunar við gerð náttúrulyfja.

 

Segir Þröstur auðvelt að halda hvönninni í skefjum þannig að hún breiðist ekki út, t.d. með sauðfjárbeit.

Plantað verður í nokkra hektara í vor.

 

Af www.sunnlenska.is

 

Skráð af Menningar-Staður

 

21.04.2014 12:51

Grímur Sæmundsen nýr formaður Samtaka ferðaþjónustunnar

Þórir Garðarsson og Grímur Sæmundsen t.h.

 

Grímur Sæmundsen nýr formaður Samtaka ferðaþjónustunnar

 

Grímur Sæmundssen, forstjóri Bláa lónsins, er nýr formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, en hann hlaut 55% atkvæða á aðalfundi samtakanna sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík fimmtudaginn 10. apríl 2014.

Í fyrsta sinn í sögu SAF var kjörið á milli tveggja aðila um formann samtakanna. Metþátttaka var á fundinum, en um 300 manns tóku þátt í fundarstörfum í dag.

Kjörið var með hlutfallskosningu og féllu atkvæði þannig að Grímur hlaut 55% atkvæða og Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Iceland Excursions-Allrahanda ehf. hlaut 45%.

 

Stjórn SAF 2014-2015

Eftirtaldir aðilar voru kosnir í stjórn fyrir næsta starfsár samtakanna:

  • Bergþór Karlsson, framkvæmdastjóri Hölds / Bílaleigu Akureyrar
  • Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia
  • Eva María Þórarinsdóttir Lange, framkvæmdastýra Pink Iceland
  • Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela
  • Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Hvalaskoðunar Reykjavíkur
  • Anna G. Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri AGMOS ehf.

Skráð af Menningar-Staður

21.04.2014 08:59

Hótelprísarnir í Kaupmannahöfn í hæstu hæðum vegna Söngvakeppninnar

Í Kaupmannahöfn. Nær er Óperan en fjær eru skipasmíðastöðvar BogW þar sem Söngvakeppnin fer fram í maí 2014.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2014 verður haldin í B&W Hallerne í Kaupmannahöfn eftir að Emmelie de Forest vann keppnina 2013 með lagið „Only Teardrops”. Undankeppnirnar tvær verða haldnar 6. maí og 8. maí, og aðalkeppnin verður haldin 10 maí. Þetta er í þriðja skiptið sem Danmörk hefur hýst keppnina, eftir að hafa hýst hana síðast árið 2001. Ljósm.: BIB

 

Hótelprísarnir í Kaupmannahöfn í hæstu hæðum vegna Söngvakeppninnar

 

Dagana 5. til 10. maí verður þriðjungi dýrara að búa á hóteli í Kaupmannahöfn en gerist og gengur. Ástæðan er sú að þá daga fer Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fram í borginni, eða Melodi Grand Prix eins og heimamenn kalla þessa samkomu.

Í frétt Politiken vilja hótelstjórar borgarinnar þó ekki viðurkenna að þeir séu að verðleggja gistinguna alltof hátt. Benda þeir á að maí sé háannatíma í ferðaþjónustu í Danmörku og að tónleikar Justin Timberlake á Parken fari fram þessa sömu viku. Eftirspurn eftir gistingu sé því mikil og líkt og í fluggeiranum þá hækki verðin  við þannig aðstæður.

Afsláttur fyrir lesendur

Búist er við að sextíu og fimm þúsund gestir muni koma til Kaupmannahafnar eftir mánuð til að fylgjast með Söngvakeppninni og samkvæmt Politiken er ennþá hægt að finna laus herbergi. Á Hotel Kong Frederik við Ráðhústorgið fá lesendur Túrista 15% afslátt af gistingunni og þar er laust en verðið er þó í hærri kantinum.

B&W-hallerne på Refshaleøen bliver rammen om tre de Melodi Grand Prix shows, finalen den 10. maj 2014, og to semifinaler den 6. og 8. maj.

Af www.turisti.is

Skráð af Menningar-Staður.

 

 

21.04.2014 07:34

Keldnakver komið út

Keldur.

Keldnakver komið út

 

Nýlega kom út Keldnakver, skrifað af Sigurði Sigurðarsyni dýralækni, sem átti þar heima um skeið og á ættir að rekja þangað.

Kverið heitir: Keldur á Rangárvöllum - Ágrip af sögu staðar og ábúenda.

 

Sagt er frá upphafi byggðar á Keldum, fyrstu ábúendum, frá átökum á Sturlungaöld, sem snertu Keldur. Sagt er frá jörðinni og baráttunni við sandfokið sem bjargaði staðnum frá því að verða blásinn hraunhóll og frá eyðibýlunum 18 í Keldnalandi. Sagt er frá Skálanum og gömlu húsunum, leynigöngunum og Maríubrunni, sem vígður var til lækninga af Guðmundi Arasyni hinum góða. Þar segir frá ábúendum síðustu aldir þar á meðal Guðmundi Brynjólfssyni sem átti líklega 28 börn og Skúla Guðmundssyni, sem hvor um sig bjó á Keldum í 50 ár. Sagt er frá afkomendum þeirra og útgáfu Víkingslæknjarættar og hvernig þau mál hafa strandað. Leiðsögn er um gamla bæinn, útihúsin, umhverið og sagt frá lífinu í gamla bænum fyrrum. Sagt er frá kirkjunni og munum hennar, sem sumir hafa horfið. 

Teikningar af húsum og munum eftir Kristínu Skúladóttur frá Keldum prýða ritið, ennfremur ljósmynd af stórmerkilegum sjálfvirkum sandvarnargarði og á baksíðu er loftmynd er sýnir sandvarnargarða, sem umlykja staðinn, sem er eins og vin í eyðimörk. Aftast í ritinu, sem er 28 innsíður er útdráttur á ensku.

Keldnakver var sett upp og prentað hjá Prentmeti Suðurlands. Ritið verður til sölu í Sunnlenska bókakaffinu, Þjóðminjasafni og Skógasafni og auk þess sem hægt er að fá það keypt hjá höfundi, Sigurði Sigurðarsyni, Suðurengi 31, Selfossi, sími 892 1644, 482 2220, sigsig@hi.is.

 

Sigurður Sigurðarson í pontu í Félagsheimilinu Stað á  Eyrarbakka sumarið 2013.

 

Skráð af Menningar-Staður