Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Júní

15.06.2014 23:00

Guðni og Gorbi

 

 

Guðni og Gorbi

 

Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, situr ekki auðum höndum þótt pólitíkin sé að baki eftir u-beygjuna fyrir sveitarstjórnarkosningar.

Á fundi Hrútavinafélagsins á Eyrarbakka á dögunum hélt Guðni leiftrandi ræðu og boðaði þar landsreisu á haustmánuðum þar sem hann mun fara um landið ásamt hópi manna til heiðurs sauðkindinni og sauðfjárbændum.

Með í för verður hrúturinn Gorbatsjov. Mikil leynd hvílir yfir áformum hópsins en víst er að ferðin og tilgangurinn mun vekja þjóðarathygli.

DV - Sandkorn

 

.

.

.

.

 

Skráð af Menningar-Staður
 

15.06.2014 21:12

17. júní 2014 á Eyrarbakka

Frá 17. júní á Eyarrbakka árið 2010

 

17. júní 2014 á Eyrarbakka

 

Hátíðarhöldin 17.  júni 2014  verða haldin á Stað Eyrarbakka og hefjast  kl. 14.00

 

Dagskrá:

1.  Ávarp fjallkonunnar

2.  Hátíðarræða: Íris Böðvarsdóttir á Óseyri  flytur

3.  Leikfélag Hveragerðis bregður á leik með Mjallhvíti og dvergunum sjö

4.  Hafsteinn Þórólfsson syngur

5.  Leynigestur: Sandra Dís stýrir

6.  Afhending verðlauna fyrir Hópshlaupið 2013

 

Kaffiveitingar og hressing fyrir börnin.

Andlitsmálun í boði.

Glæsilegar gasblöðrur verða til sölu á 300 kr.

 

Verið öll hjartanlega velkominn.

Kvenfélag Eyrarbakka

 

Hátíðarhöldin eru styrkt af Sveitarfélaginu Árborg.

 

Myndir frá 17. júní árið 2010 eru komnar í myndaalbúm hér á Menningar-Stað.

Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/PhotoAlbums/248596/

 

Nokkrar myndir hér:

.
.
.
.
.
Skráð af Menningar-Staður

14.06.2014 21:58

Byggðasafn Árnesinga á Eyrarbakka - Opnunartími og gestafjöldi 2013

 

Byggðasafn  Árnesinga á Eyrarbakka -

- Opnunartími og gestafjöldi 2013 

 

Opið var á söfnunum á Eyrarbakka alla daga frá 15. maí til 15. september kl. 11-18. Einnig var safnið opnað á safnahelgi í nóvember og einn dag á jólaföstu. Jafnframt var opnað fyrir skólum og hópum á öðrum tímum.

Aðgangseyrir var kr. 800.

Fjöldi gesta í Húsið árið 2013 varð 4.693 , þar af 1.636 erlendir gestir og uþb. 130 í skólahópum.

Fjöldi gesta í Húsið árið 2012 varð 4.297, þar af 1.057 erlendir og uþb. 100 í skólahópum.

Fjöldi gesta í Húsið árið 2011 varð 3.721, þar af 651 erlendir og 360 í skólahópum.

Fjöldi gesta í Húsið árið 2010 varð 3.725, þar af 380 erlendir og 101 í skólahópum.

Mælitæki við skráningu gesta er nákvæm og áræðanleg talning starfsmanna. Mælingar sýna að um 80% af gestum Hússins koma jafnframt í Sjóminjasafnið á Eyrarbakka.

Í þjónustuhúsi Byggðasafns Árnesinga að Hafnarbrú 3 á Eyrarbakka skrifuðu 154 gestir í gestabók. Gestir komu í margvíslegum erindagjörðum. Árið 2012 skrifuðu 103 í gestabókina.Upplýsingar úr Ársskýrslu Byggðasafns Árnesinga  árið 2013

 

Meðal gesta á árinu 2013 voru Kvenfélag Eyrarbakka þann 19. Júní 2013

Menningar-Staður var þá á staðnum og færði til myndar.
Myndaalbúm er hér á Menningar-Stað

Smella á þessa slóða: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/248862/

Nokkrar myndir hér:

 

.

.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

14.06.2014 07:16

Sumarhátíð í Heiðarblóma

Grillaðar verða pylsur og harmonikuleikarar mæta á svæðið. Vilhjálmur Magnússon að grillstörfum.

 

Sumarhátíð í Heiðarblóma

 

Sumarhátíð gróðrarstöðvarinnar Heiðarblóma á Stokkseyri verður haldin í dag, laugardaginn 14. júní 2014.

Allir eru velkomnir en hátíðin stendur frá kl. 14 til 17.

 

Grillaðar verða pylsur, harmonikuleikarar mæta á svæðið og er öllum harmonikuleikurum sem búsettir eru í nágrenninu eða eru á ferðinni velkomið að koma og taka lagið á nikkuna, og ekki er verra ef fólk syngur saman og tekur jafnvel nokkur dansspor.

 

Gróðrarstöðin Heiðarblómi hefur verið starfandi síðan á níunda áratug síðustu aldar, gróðrarstöðina stofnuðu hjónin Viktoría Þorvaldsdóttir og Magnús Sigurjónsson. Í dag sinnir Magnús ýmsum störfum í gróðrarstöðinni, en Viktoría lést 2007.

 

Margrét Magnúsdóttir garðyrkjufræðingur sér nú um ræktun og dagleg störf í gróðrarstöðinni, einnig munu tvær stúlkur aðstoða við afgreiðslu og almenn garðyrkjustörf í sumar, þær Elísabet og Natalía Líf. Moldarvinnsla er í gróðrarstöðinni og sér Vilhjálmur Magnússon um hana, hægt er að fá mokað á kerru eða heimkeyrt.

 

 

F.v.: Magnús Sigurjónsson, Viktoría Þorvaldsdóttir og Margrét Magnúsdóttir.

Skráð af Menningar-Staður

14.06.2014 05:26

15 þúsund konur hlaupa um land allt

Eyrarbakki:

Hlaupið frá Rauða húsinu kl. 11:00. Vegalengdir í boði 3 km og 5 km. 
 Frítt í sund á Stokkseyri eftir hlaup gegn framvísun kvennahlaupspenings.

 

15 þúsund konur hlaupa um land allt

 

Í dag, laugardaginn 14. júní 2014, fer hið árlega Sjóvár-kvennahlaup ÍSÍ fram. Hlaupið verður á 85 stöðum á Íslandi og 25 stöðum erlendis í ár, en fjölmargar íslenskar konur, búsettar eða staddar erlendis, taka þátt í hlaupinu á þeim stöðum erlendis þar sem hlaupið er, meðal annars í Danmörku, Noregi, Tenerife og Bandaríkjunum.

Kvennahlaupið hér á Íslandi var haldið í fyrsta skipti árið 1990, og tóku þá um 2.500 konur þátt í hlaupinu á átta stöðum á landinu. Þátttakendum og hlaupastöðum hefur fjölgað jafnt og þétt síðan þá, en undanfarin ár hafa um 15 þúsund konur tekið þátt í því.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

14.06.2014 05:08

Mörður var ekki endilega illmenni

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Bóksalinn, bókaútgefandinn og rithöfundurinn Bjarni Harðarson á Selfossi gerði sér lítið fyrir og brá sér til Vestur-Afríku, nánar tiltekið til Senegal, og einbeitti sér að ritstörfum. Á nokkrum góðum vikum, innan um líflegt og skemmtilegt fólk í framandi umhverfi, öðlaðist Bjarni innsýn í líf Marðar nokkurs Valgarðssonar, einnar af höfuðpersónum Njálu. Senegal var góður staður til að kynnast Merði.

 

Mörður var ekki endilega illmenni

 

Nöfnin Mörður og Loki tengja margir án umhugsunar við undirferli og lygar vegna þess hvernig þeir eru kynntir í okkar elstu bókmenntum. Hér er vissulega átt við Njálu annars vegar og norrænu goðafræðina hins vegar. Hvort þeir voru raunverulegar persónur eða ekki skiptir kannski ekki höfuðmáli en ljóst er að tengingin við lygar og svik er sterk í hugum margra.

Bjarni Harðarson hefur löngum haft dálæti á fornsögunum og hefur töluvert velt því fyrir sér hvernig sögupersónan Mörður Valgarðsson hefur verið raunverulegur hjá þjóðinni, hvort sem hann var einhvern tíma til eður ei. Mörður var Bjarna það hugleikinn að hann skrifaði bókina Mörður sem nú er komin út hjá bókaútgáfunni Sæmundi.

 

Átök þjóðarbrota

Þegar Bjarni skrifar bækur finnst honum best að vera innan um fólk en ekki einn með sjálfum sér í sumarbústað. Það á ekki við hann. Hann fer því gjarnan til útlanda til að sinna ritstörfum og oftar en ekki á framandi slóðir eins og Senegal hlýtur að vera fyrir Íslending. „Mér finnst mikilvægt að sjá fólk. Þó að ég sé nú öðrum þræði sveitamaður gæti ég illa hugsað mér að setjast að einn í einhverjum sumarbústað og sjá varla nokkra veru. Lönd eins og Senegal eru sérlega góð því þar get ég ekki talað við nokkurn mann, sem er auðvitað ákveðin einsemd, en ég er samt á meðal fólks sem býður mér góðan dag, býr til te handa mér og ég get brosað til,“ útskýrir Bjarni. Spyrja má hvernig það gangi að sjá Fljótshlíðina og söguslóðir Njálu fyrir sér úti í Senegal. Það er nefnilega ekki eins ólíkt og maður skyldi ætla. „Ég held að það sé nokkuð gott að nálgast þessa gömlu veröld á Íslandi út frá þessum dýnamísku löndum þar sem enn eru þessi grimmu átök þjóðarbrota því í mínum huga er enginn vafi á að landnámssamfélagið sem Íslendingasögurnar segja okkur frá er samfélag þjóðarbrota,“ útskýrir hann.

„Það er ekki samfélag einnar heildstæðrar þjóðar, þó svo að þeir sem skrifa Íslendingasögurnar láti á yfirborðinu eins og svo sé. Og svo kemur rómantíski tíminn og gerir enn meira úr því að hér hafi verið eins konar gullaldarsamfélag norrænna konunga. Við sem erum alin upp við þetta könnumst við þá mynd og þetta er mjög heillandi mynd ef við hugsum um að þessir stoltu og frjálsu konungar í Noregi komi hingað og stofni eins konar fyrirmyndarríki.“

Sú mynd sem Bjarni dregur hér upp er að hans sögn sönn upp að vissu marki en ekki megi gleyma því að hér var önnur þjóð fyrir. „Það er auðvitað ekki óumdeilt hvað allt landið varðar en á þessum slóðum er óumdeilt að svo hafi verið. Það sjáum við meðal annars af miðaldaheimildum og fornleifarannsóknum,“ segir Bjarni og minnist um leið á þúsund ára baráttu okkar við að gera okkur gildandi í samnorrænu samfélagi sem kynhrein norræn þjóð. Með því að hugsa um Njálu sem sögu um átök þjóðarbrota er komið áhugavert sjónarhorn á atburðarásina.

 

Sagan á bak við söguna

Upphaflega langaði Bjarna til að skrifa sögu ættar Marðar. Landnámsmennina sem settust að á Einhyrningsstöðum, svonefnda Einhyrninga. „Saga þessara manna, eins og þeir birtast okkur í örfáum orðum í Landnámu og aðeins í Njálu, er mjög mögnuð og einkennist af átökum þessarar norrænu ættar Einhyrninganna, afkomenda Sigmundar rauða, við írskar ættir eins og ætt Gunnars Baugssonar, afa Gunnars á Hlíðarenda, og ég held að Njála sé öðrum þræði að segja okkur frá átökum þjóða. Það sé dulin saga á bak við söguna,“ segir Bjarni, sem heillaðist af ráðgátunni sem hann sá þarna. Þess vegna fór hann að skrifa um Mörð.

„Af hverju gerir maðurinn það sem hann gerir? Af hverju etur hann öllum saman? Hann er valdur að því að Njáll er brenndur inni og að vissu leyti að því að Gunnar á Hlíðarenda er drepinn, en af hverju? Er þetta svona einfalt eins og Njála segir, að hann hafi bara verið illmenni?“

 

Hvorki fantur né fúlmenni

Sjálfur hallast Bjarni að því að Mörður hafi hreint ekki verið illmenni. „Við sjáum það að sá Mörður sem Njála segir frá elskar konuna sína eins og augun í sér og það er ekki sjálfgefið í þessu samfélagi þar sem margir af þessum höfðingjum elskuðu konur sínar ekki meira en svo að þeir héldu frillur á fjölda bæja. Þegar maður fer að fletta ofan af þessu öllu saman, það er að segja samkvæmt minni túlkun, þá er Mörður bara að verja ákveðna hagsmuni og ákveðna þjóð. Hann er að verja yfirstéttina og er í raun varðmaður þessa norræna aðals sem hefur lagt undir sig landið og telur sig eiga það. Við verðum svolítið að sjá Mörð út frá því,“ segir rithöfundurinn og bókaútgefandinn Bjarni Harðarson um nýjasta verk sitt um hinn margræða Mörð Valgarðsson, sem ef til vill hefur verið hafður fyrir rangri sök í túlkun manna gegnum tíðina. Hvernig sem það nú er má sannarlega velta fyrir sér hinum ýmsu hliðum sögunnar og er bók Bjarna býsna gott og vandað verk um þessa eftirminnilegu persónu, Mörð.

 

 

Lesin með opnum huga

Njála er saga sem er afar mörgum Íslendingum kær sem og áhugafólki um Íslendingasögurnar. Flestir sem hana hafa lesið hafa á henni skoðun og sitt sýnist hverjum. Það skemmtilegasta er þó að hana má lesa með nýju hugarfari aftur og aftur. Til dæmis er ekki annað hægt eftir lestur bókar Bjarna um Mörð en að lesa hana með öðru hugarfari.

Morgunblaðið laugardagurinn 14. júní 2014


.

.

 

Skráð af Menningar-Staður

13.06.2014 21:11

Eyrarbakka Valgeir í Sólheimakirkju

image

Valgeir Guðjónsson

 

Eyrarbakka Valgeir í Sólheimakirkju

 

Það var mikið fjölmenni á Menningarveislunni á Sólheimum um síðustu helgi í bongóblíðu og vöktu sýningarnar verðskuldaða athygli.

Sýningarnar verða að sjálfsögðu opnar í allt sumar ásamt kaffihúsinu og versluninni Völu sem eru opin alla daga frá kl. 12 -18. 

 

Í Sólheimakirkju á morgun, laugardaginn 14. júní 2014,  kl. 14 mætir enginn annar en Stuðmaðurinn Valgeir Guðjónsson á Eyrarbakkaog flytur lög sem flest allir þekkja og á milli laga flytur hann gamanmál.

 

Skráð af Menningar-Staður

13.06.2014 06:32

Lítið í -Safna-bókina-

Húsið á Eyrarbakka.

 

Lítið í -Safna-bókina-

 

Í Safnabókinni sem komin er út má finna upplýsingar um rúmlega 160 söfn, setur, sýningar, þjóðgarða og kirkjur um allt Ísland. Menningarlandslagið er kortlagt í bókinni og er henni dreift ókeypis. Hún er hugsuð sem leiðarvísir fyrir ferðalanga og hefur verið skipt eftir landshlutum þar sem finna má helstu upplýsingar um afgreiðslutíma og verðskrá safnanna.

Bókina má fá endurgjaldslaust á upplýsingamiðstöðvum ferðamanna, á söfnunum sjálfum og í verslunum Nettó, Samkaupa-Strax og Úrval.

Morgunblaðið föstudagurinn 13. júní 2014

 

 

Skráð af Menningar-Staður

12.06.2014 18:05

Bókamessa við upphaf Kótelettu

 

 

Bókamessa við upphaf Kótelettu

 

Fjórir rithöfundar kynna splunkunýjar bækur sínar við upphaf Kótelettu sem er bæjarhátíð á Selfossi um komandi helgi. Þeir sem lesa eru Ari Jóhannesson, Óttar Guðmundsson, Guðmundur Brynjólfsson og Bjarni Harðarson. Kynningin fer fram í Bókakaffinu á Austurvegi 22, fimmtudagskvöldið 12. júní og hefst klukkan 20:30. Húsið verður opnað klukkan 20.

 

Ari Jóhannesson læknir les úr sinni fyrstu skáldsögu Lífsmörk, en hún kom út nú í vor. Ari hlaut árið 2007 Tómasar Guðmundssonar verðlaunin fyrir ljóðabókina Öskudaga.

Óttar Guðmundsson geðlæknir og rithöfundur hefur sent frá sér bókina Þarf ég að deyja ef ég vil ekki lifa en bók þessi fjallar um sjálfsvíg, bæði sögulega og frá sjónarhóli læknis.

Gosbrunnurinn nefnist skáldsaga Guðmundar S. Brynjólfssonar rithöfundar á Eyrarbakka sem hefur áður skrifað leikrit og barnabækur sem hlotið hafa afar góða dóma og verðlaun.

Bókin Mörður er fjórða skáldsaga Bjarna Harðarsonar bóksala en bókin kemur úr prentun nú í vikunni. Þar hefur orðið sú persóna í Njálssögu sem hlotið hefur heldur illa dóma með þjóðinni í þúsund ár. 

Það eru Sunnlenska bókakaffið og Undirbúningshópur um Bókabæina Austanfjalls sem standa að kynningunni.

 


 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

12.06.2014 05:57

Úthlutun verkefnastyrkja frá Menningarráði Suðurlands 2014

Listasafn Árnesinga í Hveragerði.

Úthlutunarhátíð Menningarráðs Suðurlands verður haldin í Listasafni Árnesinga í Hveragerði, föstudaginn 20. júní 2014 kl. 15:00.

Kaffiveitingar í boði Hveragerðisbæjar. Þess er vænst að fulltrúi/fulltrúar styrkhafa sem hljóta samanlagt 300.000 kr. í styrk

og hærra sjái sér fært að mæta.   Allir hinir sem eiga heimagengt eru hjartanlega velkomin.

Athygli vekur að þeir 66 aðilar sem ekki fengu styrki að þessu sinni eru ekki boðnir á úthlutunarhátíðina.

 

 

Úthlutun verkefnastyrkja frá Menningarráði Suðurlands 2014

 

Í janúar sl. auglýsti Menningarráð Suðurlands eftir umsóknum um verkefnastyrki til eflingar menningarlífs á Suðurlandi.

Alls bárust 176 umsóknir og var sótt um u.þ.b. 80 milljónir kr. samtals.

Á fundi ráðsins sem haldinn var 9. júní 2014., var samþykkt að veita 110 verkefnum styrki, samtals 26,6 milljónir kr.

 

Úthlutunarhátíð verður haldin í Listasafn Árnesinga í Hveragerði, föstudaginn 20. júní 2014

kl. 15:00.

Kaffiveitingar í boði Hveragerðisbæjar.

Þess er vænst að fulltrúi/fulltrúar styrkhafa sem hljóta samanlagt 300.000 kr. í styrk

og hærra sjái sér fært að mæta.   

Allir hinir sem eiga heimagengt eru hjartanlega velkomin.

Svo segir í tilkynningu frá Menningarráði Suðurlands.Skráð af Menningar-Staður