Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Júlí

10.07.2014 14:25

Fyrirlestur Guðmundar G. um Lewis-taflmennina í Fischersetri 11. júlí 2014

Fischersetur

Fichersetrið við Austurveg á Selfossi.

 

Fyrirlestur Guðmundar G. um Lewis-taflmennina

í Fischersetri á Selfossi 11. júlí 2014

Föstudaginn 11. júlí 2014 verður Guðmundur G. Þórarinsson með fyrirlestur um Lewis taflmennina í Fischersetri kl. 16.00. En  Lewis taflmennirnir eru taldir elsta fyrirmynd nútíma taflmanna.  Þeir fundust á Lewis eyju við strönd Skotlands og taldir vera rúmlega 800 ára gamlir. Og álíta Bretar þá eina af sínum merkustu fornmunum.  Margar kenningar eru uppi um uppruna þeirra, en Guðmundur G. Þórarinsson hefur aflað þeirra gagna er renna styrkum stoðum undir þá kenningu að þeir séu upprunalega frá Íslandi.

Þá má geta þess að þessi dagur 11. júlí er jafnframt afmælisdagur Fischerseturs, en þá var það opnað fyrir ári síðan. 

Af þessu tilefni verður frítt inn í Fischersetrið þennan dag og á fyrirlesturinn.

 

Af  www.skak.is

Skráð af Menningar-Staður

10.07.2014 10:52

Hveragerði: - Bæjarstjórinn með 1,1 milljón á mánuði

image
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði.

 

Hveragerði: - Bæjarstjórinn með 1,1 milljón á mánuði

 

Meirihlutinn í bæjarráði Hveragerðisbæjar samþykkti á síðasta fundi sínum ráðningasamning við Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra, næstu fjögur árin.

Samkvæmt samningnum fær hún 1,1 milljón króna á mánuði og 1.300 kílómetra í bifreiðastyrk á  mánuði, sem eru rúmar 150 þúsund krónur miðað við 116 krónur á kílómetrann. Launin taka breytingum 1. janúar og 1. júlí ár hvert í samræmi við launavísitölu.

Nörður Sigurðsson, sem situr í minnihluta í bæjarráði fyrir Samfylkinguna, greiddi atkvæði á móti samningnum. Í breytingartillögu sem felld var á fundinum segir Njörður að launakjör bæjarstjórans í Hveragerði séu í hæsta lagi og yfir landsmeðaltali í svipað stórum sveitarfélögum.

Af www.sunnlenska.is

 

Skráð af Menningar-Staður

10.07.2014 08:23

Safnadagurinn 13. júlí 2014 - Söguganga og frír aðgangur

 

Safnadagurinn 13. júlí 2014 – Söguganga og frír aðgangur

 

Íslenski safnadagurinn er á sunnudaginn kemur, 13. júlí 2014,  en þá bjóða söfn landsins gesti sína sérlega velkomna. Dagurinn er haldinn til að vekja athygli á fjölbreytilegri starfsemi safna. 

Á Eyrarbakka leiðir sagnfræðingurinn Eyrún Ingadóttir sögugöngu um slóðir Þórdísar Símonardóttur ljósmóður og hefst gangan við Byggðasafn Árnesinga í Húsinu kl. 14.00. Sérsýningin Ljósan á Bakkanum er í borðstofu Hússins og byggir á bók Eyrúnar Ljósmóðirin.

Frítt verður í Byggðasafn Árnesinga og Sjóminjasafnið í tilefni dagsins. Í Húsinu er hægt enn hægt að skoða sýninguna Handriti alla leið heim sem unnin í samvinnu við Árnastofnun. Á Sjóminjasafninu er auk fastra sýninga  ljósmyndasýningin Vélbátar frá Eyrarbakka og sumarsýningin Blátt eins og hafið. Á þeirri sýningu ber að líta safn blárra gripa víðs vegar úr Árnessýslu sem voru veiddir uppúr geymslu safnsins.

Rjómabúið á Baugsstöðum verður opið líkt og aðrar helgar í júlí og ágúst kl. 13-18 og þar er aðgangseyrir 500 kr. Þuríðarbúð stendur ávallt opin öllum. Safnadagurinn ætti að vera ferðalöngum og heimafólki hvatning til að gefa söfnum sérstakan gaum.

Skráð af Menningar-Staður

09.07.2014 16:41

Ný stjórn SASS

Hin nýja stjórn SASS

 

Ný stjórn SASS

 

Ný stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) var kosin á aukaaðalfundi samtakanna á Hótel Selfossi miðvikudaginn 2. júlí 2014

Stjórnina skipa:

Gunnar Þorgeirsson, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps sem var endurkjörinn formaður og Elín Einarsdóttir, oddviti Mýrdalshrepps er nýr varaformaður samtakanna. Aðrir í nýju stjórninni eru; Páll  Marvin Jónsson Vestmannaeyjum, Sandra Dís Hafþórsdóttir  Árborg , Eggert Valur Guðmundsson Árborg , Sæmundur Helgason  Höfn í Hornafirði,  Anna Björg Níelsdóttir Sveitarfélaginu Ölfusi, Unnur Þormóðsdóttir  Hveragerðisbæ og  Ágúst Sigurðsson Rangárþingi ytra.

Á fundinum fór Gunnar Þorgeirsson, formaður stjórnar SASS yfir störf fráfarandi stjórnar og Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri SASS fór yfir ársreikning samtakanna fyrir árið 2013

af www.sass.is

 

Skráð af Menningar-Staður

09.07.2014 06:55

Aðalfundur Eyrarbakkasóknar verður 10. júlí 2014

 

Aðalfundur Eyrarbakkasóknar verður 10. júlí 2014

 

Aðalfundur Eyrarbakkasóknar verður haldinn í Eyrarbakkakirkju fimmtudagskvöldið 10. júlí 2014

 

Í Sóknarnefnd Eyrarbakka sóknar eru:

Þórunn Gunnarsdóttir - formaður                           

Guðmundur I Guðjónsson - gjaldkeri             

Íris Böðvarsdóttir - ritari     

Vilbergur Prebensson  

Elísabet Valdimarsdóttir

Júlíanna María Nielsen -  varamaður

 
Skráð af Menningar-Staður

09.07.2014 06:13

Merkir Íslendingar - Kristján Albertsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Kristján Albertsson

 

Merkir Íslendingar - Kristján Albertsson

 

Kristján Albertsson fæddist á Akranesi 9. júlí 1897. Foreldrar hans voru Albert Þórðarson, síðast aðalbókari Landsbanka Íslands, og kona hans, Steinunn Kristjánsdóttir, systir Margrétar Þorbjargar, eiginkonu Thors Jensen og móður Ólafs Thors forsætisráðherra.

Kristján lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1917. Hann var í námi í bókmenntasögu við Kaupmannahafnarháskóla 1917-21 og í Þýskalandi og Frakklandi 1921-24.

Hann var í hópi helstu andans manna og menningarrýna hér á landi fyrir síðari heimsstyrjöld, einn skarpasti pólitíski penni hægrimanna á Íslandi, ritfær, víðsýnn og fjölfróður, og lenti þá oft í hörðum ritdeilum við góðvini sína á skáldabekk vinstrimanna, s.s. Þórberg Þórðarson og Halldór Kiljan Laxness. Kristján samdi frægasta ritdóm á íslensku, fyrr og síðar, um Vefarann mikla frá Kasmír, en sá ritdómur hefst á þessa leið: „Loksins, loksins tilkomumikið skáldverk, sem rís eins og hamraborg upp úr flatneskju íslenzkrar ljóða- og sagnagerðar síðustu ára!“

Kristján var ritstjóri Varðar, þá útbreytts, borgaralegs tímarits um landsmál, 1924-27, leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1924-27 og formaður Leikfélagsins 1925-26, einn af ritstjórum Vöku 1927-29, dvaldist í Frakklandi á árunum 1928-31 en í Reykjavík 1931-35. Hann var lektor í íslensku í Berlínarháskóla 1935-43, var sendiráðsritari í íslenska sendiráðinu í París 1946-50 og sendiráðunautur 1950-67. Kristján sat í menntamálaráði 1933-36 og var formaður þess 1933-34 og sat í sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1951-55 og 1959-62.

Kristján samdi fjölda rita, meðal annars ævisögu Hannesar Hafstein, og kom töluvert að útgáfumálum. Jakob F. Ásgeirsson, ritstjóri Þjóðmála, skráði æviminningar Kristjáns, sem komu út í bókinni Kristján Albertsson – Margs er að minnast.

Kristján lést 31.1. 1989.

Morgunblaðið miðvikudagurinn 9. júlí 2014 - Merkir Íslendingar Kristján Albertsson


Hannes Hafstein.
Kristján Albertsson skráði ævisögu Hannesar.


 

Skráð af Menningar-Staður

08.07.2014 14:33

Hesthús á Eyrarbakka stórskemmt eftir bruna

Mikill eldur var í húsinu þegar slökkviliðið kom á vettvang. Ljósm.: sunnlenska.is/Guðmundur Karl.

 

Hesthús á Eyrarbakka stórskemmt eftir bruna

 

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu var kallað að hesthúsahverfinu við Eyrarbakka kl. 11 í morgun ( 8. júlí 2014) þar sem eldur hafði komið upp í hesthúsi.

Vegfarendur urðu eldsins varir rétt fyrir klukkan ellefu en að sögn sjónarvotta magnaðist hann mjög hratt upp og þegar slökkviliðið kom á vettvang, átta mínútum eftir útkall var syðri endi hússins alelda.

Engir hestar voru í húsinu en nágranna tókst að opna húsið og hleypa stærstum hluta af hænsnahópi sem var í húsinu út.

Slökkviliðsmönnum gekk vel að vinna á eldinum en ljóst er að tjónið á húsinu er töluvert. Eldsupptök eru ekki ljós en grunur leikur á um að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagni.

Af www.sunnlenska.is

 

Skráð af Menningar-Staður

08.07.2014 10:11

"Kraftmikið og dramatískt verk"

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Ingrid Karlsdóttir fiðluleikari og Bjarni Frímann Bjarnason píanóleikari leika verk eftir Shostakovitsj, Bach og Bill Evans í sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnestanga í kvöld.

 

„Kraftmikið og dramatískt verk“

• Næstu tónleikar í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í kvöld - 8. júlí 2014

 

Frá austri til vesturs er yfirskrift tónleika sem fram fara í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í kvöld kl. 20.30. Þar flytja Ingrid Karlsdóttir fiðluleikari og Bjarni Frímann Bjarnason píanóleikari Sónötu ópus 134 eftir Dmitri Shostakovitsj og Peace Piece eftir Bill Evans í útsetningu Hjartar Ingva Jóhannssonar fyrir fiðlu og píanó, auk þess sem Ingrid leikur fjóra kafla úr Partítu II BWV 1004 fyrir einleiksfiðlu eftir Johann Sebastian Bach.

 

Fyrsta dúótónleikarnir

„Þetta er í fyrsta sinn sem við höldum dúótónleika saman en við Bjarni erum búin að þekkjast lengi. Við vorum á sama tíma í Tónlistarskóla íslenska Suzukisambandsins sem krakkar og á svipuðum tíma í Listaháskóla Íslands áður en leiðir skildu,“ segir Ingrid Karlsdóttir, sem sjálf stundaði framhaldsnám í tónlist við Oberlin Conservatory í Ohio og útskrifaðist 2007. Bjarni hefur frá 2011 stundað nám í hljómsveitarstjórn við Tónlistarháskóla Hanns Eisler í Berlín.

Að sögn Ingrid hefur hana lengi dreymt um að leika ofangreint Shostakovitsj-verk. „Ég er mikill aðdáandi Shostakovitsj og hef lengi verið. Þetta tiltekna verk er mjög kraftmikið og dramatískt.“ Af öðrum verkum tónleikanna segir Ingrid að það hafi hentað vel með Shostakovitsj að spila Bach. „Sónötur Bach, sem eru sex talsins, eru eins og biblía fiðluleikarans, enda er maður alltaf að æfa þær. Lokaverk tónleikanna er útsetning Hjartar Ingva á lagi eftir djasspíanistann Bill Evans. Þetta lag er í miklu uppáhaldi hjá mér. Fyrst ég spila ekki á píanó og get ekki sjálf leikið það í upprunalegri mynd er gaman að fá tækifæri til að spila útsetningu lagsins fyrir píanó og fiðlu.“

 

Samstarf

Ingrid og Bjarni frumfluttu efni kvöldins á tónleikum í Reykjahlíðarkirkju um nýliðna helgi við góðar viðtökur. Aðspurð segir Ingrid það mikinn lúxus að fá tækifæri til að endurtaka efnið. „Yfirleitt gefst bara tækifæri til að flytja það einu sinni. Það er líka gaman að laga sig að ólíkum tónleikarýmum. Hér í Sigurjónssafni er frábær hljómburður og við hlökkum því mikið til kvöldsins.“

Spurð hvort framhald sé fyrirhugað á samstarfi þeirra Bjarna segir Ingrid það vissulega koma til greina. „En hann er búsettur í Berlín og ég verð meira á Íslandi frá og með haustinu, þar sem ég er að fara spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands,“ segir Ingrid, sem verið hefur með annan fótinn í Amsterdam síðustu misseri milli þess sem hún hefur ferðast um heiminn og leikið á tónleikum með hljómsveitinni Sigur Rós.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 8. júlí 2014.

 

Listasafn Sigurjons Ólafssonar

Sigurjón Ólafsson frá Eyrarbakka

 

Sigurjón Ólafsson myndhöggvari fæddist á Eyrarbakka 21. október 1908, sonur Ólafs J. Árnasonar, verkamanns í Einarshöfn á Eyrarbakka, og Guðrúnar Gísladóttur. Hann var bróðir Guðna apótekara í Reykjavík og Gísla bakarameistara, föður Erlings leikara, föður Benedikts, leikara, leikstjóra og leikritahöfundar.

Fyrri kona Sigurjóns var Tove Ólafsson myndhöggvari en seinni og eftirlifandi kona hans er Inga Birgitta Spur sem hafði veg og vanda af listasafni hans í Laugarnesinu.

Sigurjón lauk sveinsprófi í málaraiðn frá Iðnskólanum í Reykjavík 1927, stundaði nám hjá Ásgrími Jónssyni listmálara og síðar Einari Jónssyni myndhöggvara, nám í höggmyndalist hjá prófessor E. Utzon-Frank við Listaháskólann í Kaupmannahöfn 1928-35 og dvaldi við nám í Róm. Hann var búsettur í Kaupmannahöfn 1928-46 en síðan á Laugarnestanga við Reykjavík.

Sigurjón var í hópi brautryðjenda abstraktlistar á Íslandi og er meðal virtustu myndhöggvara þjóðarinnar. Standmyndir og veggskreytingar eftir hann má víða sjá í Reykjavík, s.s. líkön af Friðriki Friðrikssyni, Héðni Valdimarssyni og Ólafi Thors. Þá gerði hann brjóstmyndir af séra Bjarna Jónssyni dómkirkjupresti og Tómasi Guðmundssyni skáldi. Af öðrum verkum hans sem prýða höfuðborgina má nefna Klyfjahest sem fyrst var fyrir ofan Hlemm og síðar milli Miklubrautar og Suðurlandsbrautar; Öndvegissúlurnar sem settar voru upp við Höfða, og minnismerki um stofnun lýðveldis á Íslandi 1944 sem sett var upp við Hagatorg, að ógleymdri veggmynd á stöðvarhúsi Búrfellsvirkjunar. Hann gerði auk þess um tvö hundruð mannamyndir af ýmsum þekktum Íslendingum.

Sigurjón var sæmdur heiðurspeningi úr gulli af Listaháskólanum í Kaupmannahöfn og sæmdur hinum virta heiðurspeningi Eckersbergs. Verk hans er að finna á virtum listasöfnum víða um heim.

Sigurjón lést 20. desember 1982 og hvílir í kirkjugarðinum á Eyrarbakka

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

21. október 1988

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara í Laugarnesi var opnað, en þennan dag hefði hann orðið áttræður. 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Sigurjón Ólafsson myndhöggvari frá Eyrarbakka.

Skráð af Menningar-Staður

08.07.2014 07:02

25. sumarvertíð Sigga Björns á Bornholm að byrja

Siggi Björns á bryggjunni í Östre-Sömarken og bendir upp á bakkann þar sem veitingahúsið Bakkarögeriet stendur.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason

 

25. sumarvertíð Sigga Björns á Bornholm að byrja

 

Annað kvöld, miðvikudagskvöldið  10. Júlí 2014, byrjar  tónleikavertíðinni þetta árið hjá Sigga Björns á Borgundarhólmi (Bornholm) – dönsku sólskinseyjunni í Eystrasalti rétt sunnan við Svíþjóð.

Þar hefur hann leikið á sumrum samfellt í 24 ár og er þetta því 25. vertíðin sem  er að byrja.

Fyrstu árin lék hann á nokkrum stöðum á Bornholm en í rúman einn og hálfan áratug hefur hann leikið samfellt á Bakkarøgeriet í strandþorpinu Østre Sømark.   

Siggi Björns nýtur gríðarlegra vinsælda á Bornholm, bæði meðal sumargesta og ekki síður hjá heimamönnum. Honum er fagnað af hjartnæmum alþýðleika hvar sem hann fer um á Bornholm.

.

.

.

.

Hér eru ungir Eyrbekkingar og aðdáendur Sigga Björns á Bornholm sumarið 2012.
F.v.: Ólafur Bragason, Siggi Björns og Björn Ingi Bragason.


Skráða f Menningar-Staður

07.07.2014 07:39

Maður sem setti merkið hátt

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins
Nína Margrét Grímsdóttir.

• Doktorsritgerð Nínu Margrétar Grímsdóttur um Pál Ísólfsson kemur út á bók í Þýskalandi

 

Doktor og píanóleikari

Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1985, LGSM-prófi frá Guildhall School of Music and Drama, meistaraprófi frá City University í London, Professional Studies Diploma frá Mannes College of Music í New York og doktorsprófi í píanóleik frá City University of New York. Nína Margrét hefur komið fram á Íslandi, Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada, Japan og Kína sem einleikari, með hljómsveitum og í kammertónlist. Hún hefur hljóðritað fimm geisladiska fyrir Naxos, BIS, Acte Préalable og Skref.

Nína Margrét er aðjunkt við tónlistardeild Listaháskóla Íslands og starfar einnig við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún flytur reglulega fyrirlestra um tónlist og tónlistarrannsóknir hér á landi og erlendis. Nína Margrét hefur verið listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar Klassík í hádeginu í Gerðubergi frá upphafi.

 

Maður sem setti merkið hátt

 

Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari hefur gert útgáfusamning við LAP, Lambert Academic Publishing í Þýskalandi en fyrirtækið gefur út doktorsritgerð Nínu Margrétar í bók sem ber titilinn The Piano Works of Pall Isolfsson (1893-1974) A Diverse Collection. LAP er leiðandi fyrirtæki á sviði útgáfu akademískra bóka í Þýskalandi og gefur út um 10.000 titla árlega til alþjóðlegrar dreifingar.

„Ég er vitanlega afar ánægð með það að doktorsritgerð mín um Pál Ísólfsson komi út í bók hjá jafnvirtu forlagi,“ segir Nína Margrét. „Í doktorsritgerðinni fjalla ég um píanóverk Páls í víðu samhengi og Pál bæði sem tónskáld og manneskju. Ég set hann og verk hans í samhengi við íslensk samtímatónskáld hans og erlend samtímatónskáld í löndum sem standa okkur hvað næst, eins og Norðurlöndunum og Þýskalandi.

Ég byrjaði á verkinu árið 1999 og kveikjan að því er meistararitgerð sem ég skrifaði árið 1989 um íslenska píanótónlist. Sú ritgerð var frumrannsókn og í kjölfar þeirrar rannsóknar langaði mig að kanna rómantíska og síðrómantíska tímabilið í tónlist og skoða verk Páls Ísólfssonar, Sveinbjörns Sveinbjörnssonar og annarra kappa. Ég fékk tækifæri til þess í tengslum við doktorsnámið og þar kom aftur að frumrannsókn. Ég viðaði að mér gögnum og tók meðal annars viðtöl árið 1999 við samtímamenn Páls, fjölskyldu og kollega, sem mér finnst í dag að gefi rannsókninni meira gildi og geri hana meira lifandi en ef ég hefði byggt allt á prentuðum gögnum sem til voru. Á þessum tíma, 1999, var Páll Ísólfsson ekki áberandi í tónlistarumræðu, hvorki sem tónskáld né tónlistarmaður.“

 

Miðpunktur í tónlistarlífi

Hvað var það merkilegasta sem þetta fólk sagði þér?

„Ég setti saman spurningalista, sumar spurningar snerust um það hvernig viðkomandi mæti stöðu Páls í samtíð hans sem manneskja og tónlistarmaður, hvernig viðkomandi mæti hann sem tónskáld og verk hans, þar á meðal píanóverkin, starf hans sem organisti og hvaða áhrif störf hans hefðu haft á íslenskt tónlistarlif. Ég dró saman niðurstöðurnar úr þessum svörum.

Það sem mér fannst merkilegast var hversu mikill miðpunktur Páll var í uppbyggingu tónlistarlífs á Íslandi en á sama tíma og kannski út af því er einkennilegt hversu lítið vægi og athygli tónsmíðar hans fengu af hans samtíð, en þá undanskil ég sönglögin sem áttu auðvelt aðgengi til almennings og héldu nafni hans sem tónskáld á lofti. Að öðru leyti kom mér á óvart þegar ég fór að skoða tónsmíðar hans, sem eru virkilega glæsilegar, að samtíminn mat þær ekki sem skyldi.“

Hvernig myndir þú meta stöðu Páls í íslensku tónlistarlífi hans tíma?

„Hann gegndi lykilhlutverki í tónlistarlífi landsins á sínum tíma. Hann lagði grunninn að tónlistarmenntun með því að verða fyrsti skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík og setti gæðastimpil á þann skóla sem varð fyrir vikið leiðandi afl. Hann laðaði hingað erlent tónlistarfólk í gegnum tónlistarfélag sem var á heimsmælikvarða. Hann var afar góður organisti og fór utan í tónleikaferðir. Páll setti markið hátt og vildi að tónlistarlíf á Íslandi væri fyllilega sambærilegt við það sem best væri erlendis. Hann var veigamikill tónlistarmaður sem gerði það mesta úr því sem hann hafði fram að færa og skapaði með samtímamönnum sínum það tónlistarlandslag sem við horfum á í dag og lítum á sem nánast sjálfsagt.“

Er hann metinn að verðleikum í dag?

„Æ meir eftir því sem heilsteyptari mynd birtist ekki bara af honum heldur líka af samtíð hans. Það hefur t.a.m. verið mikil kynning á Jóni Leifs, bæði á persónu hans og lífsstarfi, og sömuleiðis talsverð á Sveinbirni Sveinbjörnssyni. Eftir því sem brot raðast inn í myndina af fyrstu frumkvöðlunum í íslensku tónlistarlífi hefur það jákvæð áhrif á matið á Páli Ísólfssyni.“

Eru verk Páls þekkt erlendis?

„Eftir að ég hljóðritaði árið 2001 geisladisk fyrir BIS með ýmsum verkum Páls, sem fékk mjög góða dóma í erlendum fagtímaritum, hef ég séð að erlendir píanistar hafa flutt eitt og eitt verk eftir hann. Ég held að smám saman muni píanóverk hans koma inn í alþjóðlega flóru af rómantískri og síðrómantískri tónlist en ýmis plötufyrirtæki leitast sérstaklega við að hljóðrita verk óþekktra en hæfileikaríkra tónskálda. Páll er ekki þekktur í dag en hann er heldur ekki alveg óþekktur þannig að verk mitt mun vonandi hjálpa til við að varpa ljósi á hann. Það hefur visst vægi að þessi bók er gefin út í Þýskalandi og tengist hinum germanska tónlistararfi sem er mjög vel sinnt þar í landi.“

 

Lítið til af heimildarefni

Sú spurning hlýtur að vakna hvort ekki þurfi að skrifa ævisögu Páls, hvað segir þú um það?

„Ævisaga hans hefur ekki verið skrifuð. Einn af okkar helstu tónlistarfræðingum er doktor Bjarki Sveinbjörnsson sem býr yfir mikilli þekkingu um þetta tímabil og Pál og væri alveg örugglega rétti maðurinn til að skrifa ævisögu Páls.“

Er til mikið af heimildum um Pál?

„Það kom mér á óvart í rannsókn minni hversu lítið er til af heimildarefni um Pál, til er ein heimildarmynd hjá Ríkissjónvarpinu og hljóðritanir með orgelleik hans en ég fann ekkert efni þar sem hann spilar einleiksverk sín á píanó en Ríkisútvarpið hljóðritaði flutning Jórunnar Viðar á píanóverkum hans fyrir Ríkisútvarpið á sjötta áratugnum og það var fengur að því. Útgangspunkturinn í rannsókn minni voru tvær samtalsbækur Matthíasar Johannesen við Pál. Þótt þær séu ekki markvisst framsettar gefa þær góða mynd af persónunni Páli. Mér virðist Páll hafa verið afskaplega næmur, hann hefur lesið fólk mjög vel og var fluggáfaður og músíkalskur. Hann lét hluti virka í kringum sig og það var mikið sóst eftir kröftum hans því fólk treysti hyggjuviti hans, reynslu og innsæi. Ef hann hann hefði ekki verið svo virkur félagslega hefði hann hugsanlega samið meira og ævistarfið orðið öðruvísi.

Ég velti því upp í ritinu hvað hefði gerst hefði Páll ákveðið að starfa fyrst og fremst erlendis eins og Sveinbjörn Sveinbjörnsson gerði meðvitað. Hefði Páll gert slíkt hið sama fimmtíu árum seinna hefði íslenskt tónlistarlíf þróast hægar, en í staðinn hefði Páll hugsanlega verið í meiri metum erlendis. Ég er ekki að segja að það hafi verið fórn af hans hálfu að starfa á Íslandi því hann átti gott líf og starfið veitti honum mikla lífsfyllingu. Hann valdi að helga íslensku tónlistarlífi krafta sína og íslenska þjóðin er ríkari fyrir vikið.

Morgunblaðið mánudagurinn 7. júlí 2014


___________________________________________________________________________________________________________

Brennið þið vitar í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri.Elfar Guðni Þórðarson og Brennið þið vitar. Elfar Guðni - Páll Ísólfsson og Davíð Stefánsson.

.

.

Skráð af Menningar-Staður