Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Ágúst

27.08.2014 20:58

Ullarmesti hrútur heims fundinn?

 

Hrúturinn Shaun er mögulega ullarmesta kind heims.

Sjá myndband á þessari slóð:

https://www.youtube.com/watch?v=5Cpa1kDID4Q#t=30

 

Ullarmesti hrútur heims fundinn?

Tveir bændur á áströlsku eyjunni Tasmaníu hafa fundið sex ára gamlan hrút sem þeir vonast til að reynist ullarmesti hrútur heims.

Bóndinn Peter Hazell sagðist ekki hafa átt í vandræðum með að ná hrútnum á sunnudaginn þar sem sjón hans hafi verið verulega skert vegna mikillar ullar. 

„Hann sá ekkert sérlega vel vegna ullarinnar í andlitinu svo ég læddist upp að honum aftan frá og greip hann,“ segir Hazell í samtali við ABC News.

Hazell hefur gefið hrútnum nafnið Shaun, í höfuðið á hrútnum í þáttunum Shaun the Sheep, sem gengur undir nafninu Hrúturinn Hreinn á íslensku.

Eiginkona Peters, Nelly, segist áætla að um tuttugu kíló af ull leynist á Shaun. „Ég einfaldlega trúði þessu ekki. Ég trúði ekki að kind gæti verið með svo mikla ull,“ og segir Nelly og bætir við að ótrúlegt sé að Shaun hafi tekist að lifa af í náttúrunni svo lengi.

Nýsjálenski hrúturinn Shrek á nú með heimsmetið yfir mesta ull og vonast áströlsku bændurnir nú til að Shaun muni slá metið. Búist er við að Shaun verði rúinn einhvern næstu daga. „Það leynast þrjár eða fjórar peysur þarna,“ segir Nelly að lokum.

Af www.visir.is

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

26.08.2014 14:10

Skólastarfið í FSu að hefjast

 

 

Kiriyama Family við upphitun fyrir tónleikana í Iðu í morgun.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason

 

Skólastarfið í FSu að hefjast

 

Skólastarfið í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi er að hefjast þessa dagana.

Eins og margir muna voru  -busavígslur-  aflagðar í upphafi skólaárs árið 2012. Þess í stað var m.a. blásið til tónleika með hljómsveitinni Kiriyama Family í hátíðarsal FSu.

Kiriyama Family voru aftur kallaðir til tónleikahalds við upphaf skólaársins núna og léku þeir í íþróttasalnum í Iðu og var fjölmenni. Nýnemarnir sátu flötum beinum fremst við hljómsveitina.

Allir meðlimir Kiriyama Family eru fyrrum nemendur við FSu.

Hljómsveitin fagnar góðu gengi þessar vikurnar og hefur átt eitt vinsælasta lag landsins í sumar en það er lagið Apart.


 

Menningar-Staður færði tónleikana til myndar í Iðu í morgun:

 


.

 

.

.

.

.

 

Skráð af Menningar-Staður

26.08.2014 09:56

Stórkostlegur byggðastuðningur við Reykjavík

 

Byggðastuðningur við Reykjavík er stórkostlegur. Mynd: Mats Wibe Lund.

Byggðastuðningur við Reykjavík er stórkostlegur. Mynd: Mats Wibe Lund.

 

Stórkostlegur byggðastuðningur við Reykjavík

 

„Staðsetning starfa á vegum ríkisins er oft nefnd sem byggðamál en líklega sjaldan í samhengi við Reykjavík, sem þó hefur notið stórkostlegs byggðastuðnings stjórnvalda að þessu leyti,“ segir í frétt á vef Byggðastofnunar um staðsetningu starfa ríkisins. Reykjavík er aðsetur langflestra starfsþátta á vegum ríkisins eins og sést á þessari töflu, einkum þeirra sem hafa landið allt að vettvangi og marga starfsmenn. „Þetta er alkunna og niðurstaða í könnun á staðsetningu ríkisstarfa kemur ekki á óvart,“ segir á vef Byggðastofnunar. 

Af töflunni sést hve Reykjavík skarar fram úr sem þjónustustaður ríkisins og greina má að Akureyri skorar hátt í samanburði við aðra þéttbýlisstaði en Reykjavík, bæði hvað varðar þjónustu á landshluta- og landsstigi. Þá má einnig greina Ísafjörð, Sauðárkrók, Egilsstaði og Selfoss frá hinum og þá einkum með þjónustu á landshlutastigi. 

Athyglisvert er að staðsetning ríkisþjónustu dreifist meira á þéttbýlisstaði Vesturlands, Norðurlands vestra og Suðurlands en á þéttbýlisstaði Vestfjarða, Austurlands og Norðurlands eystra og þó sérstaklega höfuðborgarsvæðisins. 

Könnunin var gerð í samstarfi landshlutasamtaka sveitarfélaga og Byggðastofnunar árið 2013 sem uppfærsla á könnun sem Byggðastofnun gerði 1994 og var þá liður í undirbúningi fyrir stefnumótandi byggðaáætlun 1994-1997. Þessa uppfærslu jók Byggðastofnun við á árinu 2014 þannig að hún nær til allra stofnana ríkisins og hlutafélaga sem ríkið á að meirihluta. 

Könnunin er einn liður í greiningu á þjónustusvæðum og þjónustustöðum til undirbúnings stefnumótunar fyrir þjónustu ríkisins í byggðaáætlun. Fleiri þætti þarf að kanna í þessum undirbúningi, s.s. staðsetningu þjónustufyrirtækja. Þeirri könnun lýkur á haustdögum 2014. 

Á töflunni koma hvorki fram fjöldi stofnana né starfsmanna heldur aðeins hvar starfsemi ríkisins hefur aðsetur. T.d. eru fleiri en einn prestur í nokkrum þéttbýlisstöðum og margir í sumum og fleiri en einn framhaldsskóli og háskóli. Við sumar stofnanir og starfsþætti starfa margir en fáir við önnur, jafnvel aðeins einn. Ef enginn starfsmaður er á vegum félags eða stofnunar telst sú stofnun eða það félag ekki með. 

Sumar stofnanir eru klofnar eftir hefðbundnum verkefnum, s.s. Samgöngustofa í Vegagerðina og Siglingastofnun, og það talið gefa gleggri mynd. Þá eru þéttbýlisstaðir utan höfuðborgarsvæðisins teygðir yfir vinnusóknarsvæði þeirra því starfsemi og starfsfólk blandast inn í bæjarstarfsemina, t.d. starfsemi háskólanna að Bifröst og Hvanneyri í Borgarnes og Hólaskóla í Sauðárkrók. 

Sumir starfsþættir sem ríkið hafði áður með höndum eru nú í hlutafélögum sem ríkið á að fullu, s.s. Íslandspóstur og RARIK, eða sem ríkið á að meirihluta, s.s. tónlistarhúsið Harpa og Landsbankinn. Aðrir starfsþættir eru reknir samkvæmt þjónustusamningi, s.s. heilsugæslustöðin á Akureyri og Háskólasetur Vestfjarða. Hins vegar heyra rannsóknasetur Háskóla Íslands undir hann. Öll þessi rekstrarform eru talin sem starfsemi ríkisins á töflunni. 


Af www.bb.is  - fréttavefur Bæjarins besta á Ísafirði

 

Skráð af Menningar-Staður

 

26.08.2014 07:11

Óskar Hafsteinn Óskarsson skipaður í Hrunaprestakalli

 

Óskar Hafsteinn Óskarsson 

 

Óskar Hafsteinn Óskarsson skipaður í Hrunaprestakalli

 

Biskup Íslands hefur ákveðið að skipa séra Óskar Hafstein Óskarsson á Selfossi í embætti sóknarprests í Hrunaprestakalli, Suðurprófastsdæmi. Frestur til að sækja um embættið rann út 5. ágúst sl.

Biskup Íslands skipar í embættið til fimm ára að fenginni umsögn valnefndar. Valnefnd skipuðu níu fulltrúar prestakallsins ásamt prófasti. Embættið veitist frá 1. september 2014.

Af www.kirkjan.is

Hrunakirkja.

Skráð af Menningar-Staður

26.08.2014 06:55

Afdalabarn Guðrúnar væntanlegt í innbundinni útgáfu

 

 

Afdalabarn Guðrúnar væntanlegt í innbundinni útgáfu

 

Afdalabarn Guðrúnar frá Lundi trónir enn í efsta sæti á metsölulista Eymundsson. Fyrsta prentun er uppseld og önnur prentun á leið í verslanir. Bókin kom út í kilju en til stendur að hún komi einnig út í innbundinni útgáfu innan skamms. „Það er mikið spurt um innbundna útgáfu á bókinni,“ segir Bjarni Harðarson bóksali, sem er útgefandi bókarinnar. „Kiljur seljast venjulega betur en innbundnar bækur, en sumir bókakaupendur eru ekki sérstakir kiljuaðdáendur og finnst ekki gaman að eiga bókaskáp fullan af kiljum. Mér finnst sjálfsagt að þjóna þessu fólki og mun því gefa bókina út innbundna. Jólavertíðin nálgast og það segir sig sjálft að það er ekki sambærilegt að gefa Afdalabarn sem gjöf innbundna eða í kilju.“

Bjarni segir að það hafi komið sér á óvart hversu miklar vinsældir bókarinnar eru. „Ég hef fylgst með endurútgáfum á verkum íslenskra höfunda undanfarin ár og þær hafa ekki verið að seljast mjög mikið. Það er ekkert sjálfsagt að hægt sé að endurútgefa bækur höfunda sem eitt sinn voru vinsælir. Ég var samt nokkuð viss um að hægt væri að endurútgefa Guðrúnu og að útgáfan myndi standa undir sér, en mig grunaði ekki að undirtekir yrðu svona glæsilegar. Það er svo ekki verra að vera með jafn öflugan dreifingar- og markaðsstjóra á sínum snærum og Guðjón Ragnar Jónasson vinur minn er.“

Bjarni segist ekki geta sagt til um það að svo stöddu hvort hann muni endurútgefa fleiri verk Guðrúnar. „Það er ekki víst að þessar undirtektir eigi við um allar bækur Guðrúnar. Hún er vissulega öflugur og góður höfundur eins og þessar vinsældir Afdalabarns sýna en ekki má vanmeta það að hluti af þessari sprengju er gamlir og kærir endurfundir. Það er hálfur annar áratugur síðan verk eftir Guðrúnu var endurútgefið og nú er Afdalabarn komið á markað. Ég vona að það líði ekki alveg jafn langur tími þar til fleiri verk hennar verða endurútgefin.“

Morgunblaðið sunnudagurinn 24. ágúst 2014

F.v.: Siggeir Ingólfsson og Bjarni Harðarson í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi.

Skráð af Menningar-Staður

25.08.2014 08:52

Millj­óna­prest­ur í Dóm­kirkj­una

 

Sveinn Valgeirsson prestur (t.h.) og Haukur Jónsson útgerðarmaður á Eyrarbakka.

Sveinn Val­geirs­son prest­ur (t.h.) og Hauk­ur Jóns­son út­gerðarmaður á Eyr­ar­bakka. 

Ljósm.: mbl.is/?Sig­urður Bogi Sæv­ars­so

 

Millj­óna­prest­ur í Dóm­kirkj­una

 

„Þessi ár hér fyr­ir aust­an fjall hafa verið góð, en nú taka við ný og spenn­andi viðfangs­efni,“ seg­ir sr. Sveinn Val­geirs­son prest­ur á Eyr­ar­bakka. Hann tek­ur nú í sept­em­ber­byrj­un við embætti prests við Dóm­kirkj­una í Reykja­vík eft­ir að hafa þjónað eystra frá ár­inu 2008. Áður var hann sókn­ar­prest­ur vest­ur á fjörðum í tæp 13 ár, þjónaði þá Barðaströnd, Bíldu­dal og Tálknafirði og sat á síðast­nefnda staðnum.

Sjón­varps­stjarna

Sveinn varð þjóðkunn­ur árið 2002 þegar hann bar sig­ur úr být­um í spurn­inga­ein­víg­inu Viltu vinna millj­ón, fræg­um sjón­varpsþátt­um á Stöð 2. „Ein­hverj­ir virðast enn í dag muna vel eft­ir þess­um þátt­um og ég get illa vikist und­an því að hafa komið þar fram,“ seg­ir Sveinn og hlær. Sig­ur­sæl þátt­taka í þátt­un­um skilaði hon­um fimm millj­ón­um kr. inn á reikn­ing­inn, pen­ing­um sem var auðvelt að koma í lóg.

„Ríkið tók ein­hver ósköp í skatta, ég borgaði upp náms­lán­in mín, Tálkna­fjarðar­kirkja fékk smá­ræði og rest­ina gat fjöl­skyld­an notað til að gera sér dagamun.“

Gott og raun­sætt fólk

Í kalli Eyr­ar­bakka­prests eru þrjár kirkj­ur, það er Eyr­ar­bakki, Stokks­eyri og Gaul­verja­bær í Flóa. Sál­irn­ar á svæðinu eru ríf­lega 1.200 – um 500 manns í sínu hvoru þorp­inu og svo um 200 í sveit­inni.

„Hér býr gott fólk, raun­sætt með báða fæt­ur á jörðinni og með mik­inn metnað fyr­ir hönd síns byggðarlags enda vel meðvitað um þá ríku sögu sem er á þess­um stöðum. Það eru for­rétt­indi að hafa kynnst því,“ seg­ir Sveinn sem hef­ur messað þriðju til fjórðu hverja helgi í hverri kirkju. Ferm­ing­ar­börn hvers árs hafa gjarn­an verið 15–20 og fjöldi jarðarfara á svipuðu róli.

„Það sem hef­ur gert starfið hér skemmti­legt er ekki síst sam­neytið við fólkið. Flest­ir þekkj­ast og hér í búðinni og nú í fé­lags­heim­il­inu hafa verið nán­ast fast­ar sam­kom­ur á morgn­ana þar sem fólk lít­ur við og fer yfir mál­efni dags­ins. Það sam­fé­lag er öll­um mik­ils virði.“

Boðskap­ur legg­ur lín­ur

Vet­ur­inn 2012 til 2013 þjónaði sr. Sveinn í af­leys­ing­um við Dóm­kirkj­una í Reykja­vík og hef­ur því nokkra reynslu af því starfi, sem hann tek­ur form­lega við nú. „Dóm­kirkj­an er í senn sókn­ar­kirkja fólks­ins í 101, hún hef­ur ákveðið hlut­verk sem miðborg­ar­kirkja og er svo kirkja bisk­ups­ins yfir Íslandi og þar af leiðandi þjóðar­helgi­dóm­ur. Starfið helg­ast auðvitað nokkuð af því, en líka hinum al­mennu störf­um, svo sem messu­haldi, ferm­ing­ar­fræðslu, gift­ing­um og fleiru slíku. Þá leit­ar fólk mikið til kirkj­unn­ar þegar það er komið í öngstræti með sín mál – og hef­ur lítið dregið úr þeim þætti í starfi presta.“

Sveinn við að þrátt fyr­ir að marg­ir kjósi að standa utan krist­inna safnaða og sum­ir telji að áhrif krist­inn­ar trú­ar í sam­fé­lag­inu eigi að fara dvín­andi skipti kirkj­an fólkið miklu máli, ekki síst þegar á reyn­ir. Þá leggi boðskap­ur henn­ar lín­urn­ar og hafi haft mik­il áhrif á þá gerð þessa sam­fé­lags okk­ar.

Morgunblaðið greinir frá.


 

Skráð af Menningar-Staður

25.08.2014 07:57

Bókabæirnir austanfjalls taka á sig mynd

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Rannveig Anna Jónsdóttir, bókmennta- og menningarfræðingur, tilheyrir undirbúningshópi um bókabæina en sjálf rekur hún Konubókastofu á Eyrarbakka.

 

Bókabæirnir austanfjalls taka á sig mynd

 

Fyrsti bókabærinn í Evrópu var stofnaður í breska bænum Hay-on-Wye árið 1961, en sá bær er þekktur hjá bókaunnendum víða um heim sem „The Town of Books“ eða „Bókabærinn“. Þessi breski smábær er gott dæmi um hvernig hægt er að skapa bókum skemmtilegt umhverfi og laða þannig að bókaunnendur hvaðanæva að.

Rannveig Anna Jónsdóttir, eða Anna eins og hún er oftast kölluð, tilheyrir hópi fólks sem vinnur nú í því að gera Árborg, Flóann, Hveragerði og Selfoss að bókabæjum. Sjálf heldur hún utan um Konubókastofu á Eyrarbakka en auk Önnu tilheyra þessum undirbúningshópi þau Bjarni Harðarson, bókaútgefandi, rithöfundur og bóksali á Selfossi, Heiðrún Eyvindardóttir, forstöðukona bókasafns Árborgar, Dorothee Lubecki, menningarfulltrúi Suðurlands, Árný Leifsdóttir frá bókasafni Ölfuss og Hlín Arndal frá bókasafni Hveragerðis. Undirbúningurinn hófst síðastliðið sumar og fór hópurinn þá í ferðalag þar sem skoðaðir voru bókabæir í Englandi og Skotlandi auk þess sem alþjóðlegt bókabæjaþing var sótt í Noregi. Rætt var við fulltrúa hinna ýmsu bókabæja og segir Anna að eftir að það hafi hópnum orðið ljóst að ekki væri sérlega flókið í framkvæmd að koma íslenskum bókabæjum á kortið. Í það minnsta sé það ekki flókið þegar viljinn sé fyrir hendi.

„Við ætlum að leggja áherslu á bækur og bókmenningu á svæðinu,“ segir Anna og ætti þar að vera af nógu að taka.

 

Margt má gera úr bókum

Í kringum bókabæi hefur hugmyndaflug margra farið á fullt enda má gera margt við bækur þó að þær séu að mati margra fyrst og fremst til að lesa. „Hér er til dæmis mynd af borði og undirstöður þess eru gerðar úr notuðum bókum,“ segir Anna og vísar til myndar sem sjá má hér á síðunni. „Svo má koma fyrir bekkjum sem búið er að skrifa ljóð eða texta á,“ segir hún og við ræðum ótal hugmyndir sem hafa komið upp í undirbúningshópi bókabæjanna.

Rætt hefur verið við menntastofnanir á svæðinu og þær verið fengnar til að taka þátt í verkefninu með einum eða öðrum hætti eins og gert hefur verið erlendis.

„Til dæmis er bókmenntahátíð í september á hverju ári í bókabænum sem við heimsóttum í Skotlandi og þar eru unglingarnir látnir skipuleggja dagskrá frá A til Ö samhliða þeirri dagskrá sem er í gangi á hátíðinni. Önnur hugmynd sem okkur þótti skemmtileg er frá Noregi, en þar fer fram textasamkeppni grunnskóla og textarnir eru svo settir á heimasíðu bókabæjarins og í raun og veru er ímyndunaraflið það eina sem getur stoppað það hvað hægt er að gera,“ segir Anna.

Þeim í hópnum hefur dottið margt í hug og sennilega er langt í að hugarflug þeirra og hugmyndir séu á þrotum. Ein hugmyndin er að koma bókum fyrir á bifvélaverkstæðum, apótekum og fleiri stöðum þar sem fólk þarf að bíða.

„Svo gætu veitingastaðirnir gert bækur úr kökum, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Anna.

Bækur þurfa ekki endilega að vera úr pappír, í það minnsta ekki þegar þær eru notaðar í skraut. Gott dæmi um það er hönnun Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit, en húsið hönnuðu þeir Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Einn veggur Þórbergsseturs, sú hlið er snýr að þjóðveginum, lítur út eins og risastór bókahilla þar sem sjá má kilina á bókum rithöfundarins sjálfs, Þórbergs Þórðarsonar. Það er dæmi um hvernig nota má bækur til að lífga upp á bæjarfélögin. „Þetta krefst þess svolítið líka að íbúarnir, fyrirtækin og stofnanirnar taki þátt í þessu og komi með sínar útfærslur á því hvað þau langar að vera með,“ segir Anna.

 

Allir geta tekið þátt

Bókabæir eru í raun samstarfsverkefni margra og gefa íbúum tækifæri til að láta ljós sitt skína hvað ásýnd bæjanna snertir. Meðal annars vegna þess verður stofnfundur „Bókabæjanna austanfjalls“, eins og verkefnið hefur verið kallað, opinn öllum þeim sem áhuga hafa. Fundurinn verður þann 26. september í FSU, Fjölbrautaskóla Suðurlands, og á meðal þeirra sem þar verða er Richard Booth, stofnandi fyrsta bókabæjarins á Englandi.

„Á þessum fundi ætlum við að segja frá því hvað við erum að gera og ætlum að hafa þetta formlegt og skemmtilegt í senn,“ segir Anna, en þangað til mun undirbúningshópurinn hafa í mörgu að snúast því nauðsynlegt er að hitta bæjarstjórnirnar og kynna verkefnið. Alþjóðasamtök bókabæja hafa sýnt bókabæjunum austanfjalls mikinn áhuga og hyggjast gera undantekningu á tilskildum fjölda bókabúða sem almennt á að vera á hverju svæði vegna þeirrar einföldu ástæðu að málsvæði íslenskra bókabæja er eðli máls samkvæmt afar lítið. Yfirleitt er um fornbókabúðir að ræða sem oftast selja nýjar bækur í bland. Á Selfossi er sannarlega fornbókabúð því í Sunnlenska bókakaffinu við Austurveg er að finna alls kyns bækur, allt frá ævafornum til nýrra. Hvort önnur fornbókabúð verður opnuð í lágsveitum Árnessýslu verður ekki fullyrt nokkuð um hér en ekki væri verra ef þær væru fleiri en ein á svæðinu, þó að það sé ekki nauðsynlegt.

Þó svo að enginn asi hafi verið á undirbúningi hefur hann gengið vel og fram undan eru áhugaverðir tímar hjá bókelskum. Undirbúningsnefndin hefur fengið styrki til verksins frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Menningarráði Suðurlands og Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga.

Þess má geta að hópurinn hefur stofnað Facebook-síðu undir heitinu Bókabæirnir austanfjalls og þar má koma með hugmyndir og skoða hugmyndir annarra. Upplýsingar um bókabæi víðs vegar um heiminn er að finna á vefnum www.booktown.net.

Morgunblaðið mánudagurinn 25. ágúst 2014

Barni Harðarson og Elín Gunnlaugsdóttir í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi.Skráð af Menningar-Staður.

24.08.2014 07:29

Selfosskirkja sunnudaginn 17. ágúst 2014

 

Lýður Pálsson, safnstjóri á Eyrarbakka og séra Guðbjörg Arnardóttir í Odda.
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Selfosskirkja sunnudaginn 17. ágúst 2014

 

Kirkjuráð Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi sótti messu í Selfosskirkju sunnudaginn 17. ágúst 2014.

Þá messaði í Selfosskirkju séra Guðbjörg Arnardóttir í Odda. Hún sagði það gleði og mikinn heiður að hafa verið beðin að messa í sinni gömlu heimakirkjuu á Selfossi.

Menningar-Staður færði til myndar og 30 myndir eru komnar í albúm á Menningar-Stað.
Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/264480/


Nokkrar myndir hér:

.

.

.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

23.08.2014 22:14

Eyrarbakka-Flatir kl. 05:47 23. ágúst 2014

 


 

Eyrarbakka-Flatir kl. 05:47

                                    laugardaginn 23. ágúst 2014
 

Skráð af Menningar-Staður

23.08.2014 06:22

Fjalla Eyvindur í Gamla-bankanum á Selfossi

 

 

 Fjalla Eyvindur í Gamla-bankanum á Selfossi

 

Í tilefni af því að 300 ár eru liðin frá fæðingu Fjalla Eyvindar verður einleikur um hann sýndur í lofti Gamla-bankans á Selfossi, Austurvegi 21, föstudaginn 29. ágúst og sunnudaginn 31. ágúst n.k. kl. 20:00.  Sýningin er samin og leikin af leikaranum Elfari Loga Hannessyni. 

Á undan sýningunni verður Hjörtur Þórarinsson með kynningu á lífshlaupi Fjalla Eyvindar.

Miðaverðið er 2500 kr og þeir sem vilja tryggja sér miða geta gert það með því að hringja í síma 894-1275.  Húsið mun opna kl. 19:30.

 

 

Skráð af Menningar-Staður