Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 September

30.09.2014 06:58

Merkir Íslendingar - Jón Borgfirðingur

 

Jón Borgfirðingur.

Merkir Íslendingar - Jón Borgfirðingur

 

Jón Borgfirðingur fæddist á Hvanneyri í Borgarfirði 30. september 1826. Foreldrar hans voru Jón Bachmann Hallgrímsson, prestur í Hestaþingum í Borgarfirði og síðast í Klausturhólum, og Guðríður Jónsdóttir, vinnukona á Hvanneyri.

Eiginkona Jóns var Anna Guðrún Eiríksdóttir, ættuð úr Eyjafirði og voru börn þeirra Guðrún Borgfjörð; Finnur, prófessor í Kaupmannahöfn; Klemens, landritari og ráðherra í Reykjavík; Guðný, sýslumannsfrú á Sauðafelli í Dölum; Vilhjálmur Borgfjörð, cand. phil. og póstmeistari í Reykjavík, og Ingólfur skrifstofumaður. Dóttir Jóns og Sigurlaugar Þórðardóttur var Sigurjóna, húsfreyja á Kvíabekk.

Jón ólst upp hjá fátækum hjónum í Svíra við Hvanneyri. Hann lærði að lesa og skrifa en hafði engin ráð á skólanámi þó hann væri bráðskarpur og afa bókhneigður. Hann var vinnumaður á Hvanneyri og víðar en flutti til Reykjavíkur 1852 og fékkst einkum við farandbóksölu. Hann kenndi sér sjálfur dönsku, flutti til Akureyrar 1854, lærði þar bókband og stundaði þar bókbandsiðn, bókaútgáfu og bókasölu.

Jón flutti aftur til Reykjavíkur 1865 og var þar lögregluþjónn í 23 ár. Jafnframt sinnti hann rit- og fræðistörfum. Hann tók m.a. saman lista fyrir British Museum yfir allar bækur sem prentaðar höfðu verið í Reykjavík og á Akureyri frá upphafi, og í framhaldi af því ýmsa aðra lista yfir íslensk rit fyrir ýmis erlend bókasöfn. Þá var hann umboðsmaður British Museum hér á landi. Jón var mikill bóka- og handritasafnari en skorti þó æði oft fé til að festa kaup á þeim bókum og handritum sem hugurinn stóð til. Hann ánafnaði síðan Bókmenntafélaginu safn sitt og þar á meðal ýmis fágæt rit og skjöl, enda kjörinn heiðursfélagi þess.

Þrátt fyrir fátækt og menntunarskort tókst þeim Jóni og Önnu Guðrúnu að koma öllum börnum sínum til mennta og urðu tveir sona þeirra landskunnir fræðimenn.

Jón lést 20. október 1912.

Morgunblaðið þriðjudagurinn 30. september 2014 - Merkir Íslendingar


Hvanneyri í Borgarfirði.

Skráð af Menningar-Staður

30.09.2014 05:56

Opnunarfagnaður Landbúnaðarsafns á fimmtudaginn 2. okt. kl. 16

Halldórsfjós á Hvanneyri

Fjósið á Hvanneyri er teiknað af Guðjóni Samúelssyni frá Eyrarbakka og var byggt á árunum 1928-1929. Það var byggt fyrir 80 gripi og þótti stórt og vandað á sínum tíma. Á fjósloftinu var íbúð og þar var einnig efnarannsóknastofa skólans um 40 ára skeið.

 

Opnunarfagnaður Landbúnaðarsafns á fimmtudaginn 2. okt. kl. 16

 

Tilkynnum flutning Landbúnaðarsafnsins og Ullarselsins á Hvanneyri í Borgarfirði svo og opnun nýrrar sýningar Landbúnaðarsafnsins á fimmtudaginn 2. október 2014  kl. 16.

 

Allir velkomnir svo lengi sem plássið leyfir.

 

Klæðið ykkur vel (hlýlega)!

 

http://www.landbunadarsafn.is/Files/Skra_0068627.pdf

 

Hrútavinafélagið verður á Hvanneyri um hádegisbil fimmtudaginn 2. október 2014 á leið sinni á Hrútadaginn á Raufarhöfn og mun skoða Landbúnaðarsafnið á hinum nýja stað í Halldórsfjósi á Hvanneyri. 

 

Skráð af Menningar-Staður

29.09.2014 07:27

29. september 1922 - Norræna félagið var stofnað á Íslandi

 

Norræn ásýnd er aftar en ekki sterk á Eyrarbakka.

 

29. september 1922 - Norræna félagið var stofnað á Íslandi

 

Norræna félagið var stofnað í Reykjavík þennan dag árið 1922 með það að markmiði að efla tengsl fólks innan Norðurlandanna og þar með norræna samvinnu.

Slíkt félag var fyrst stofnað í Svíþjóð árið 1917 en á fundi í Kaupmannahöfn árið eftir var ákveðið að slíkt félag þyrfti að vera með deildir á öllum Norðurlöndunum. Árið 1919 voru þær stofnaðar í Noregi og Danmörku og 1924 í Finnlandi. Síðar bættust Færeyjar, Álandseyjar og Grænland í hópinn.

Fréttablaðið mánudagurinn 29. september 2014

 

Skráð af Menningar-Staður

29.09.2014 06:57

29. september 1949 - "Nýtt söngvasafn handa skólum og almenningi" kom út

 

Friðrik Bjarnason.

 

29. september 1949 - 

„Nýtt söngvasafn handa skólum og almenningi“ kom út

 

„Nýtt söngvasafn handa skólum og almenningi“ kom út.  Friðrik Bjarnason tónskáld frá Stokkseyri og Páll Halldórsson bjuggu það til prentunar. Þar voru 225 lög við vinsæl ljóð. Sum laganna birtust þar í fyrsta sinn, t.d. Jólasveinar ganga um gólf.

Morgunblaðið mánudagurinn 29. september 2014


 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

29.09.2014 06:51

Merkir Íslendingar - Bergur Guðnason

 

Bergur Guðnason.

Merkir Íslendingar - Bergur Guðnason

 

Bergur fæddist í Reykjavík 29. september 1941. Foreldrar hans voru Guðni Jónsson prófessor og k.h., Sigríður Hjördís Einarsdóttir húsfreyja.

Guðni var sonur Jóns, formanns á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka Guðmundssonar, formanns þar Þorkelssonar, bróður Jóhanns, afa Ragnars í Smára.

Sigríður Hjördís var systir Guðmundar frá Miðdal, föður Errós og Ara Trausta. Sigríður var dóttir Einars, b. í Miðdal, bróður Eiríks, afa Vigdísar Finnbogadóttur. Meðal hálfsystkina Bergs eru prófessorarnir Jón og Bjarni Guðnasynir.

Eiginkona Bergs var Hjördís Böðvarsdóttir sem lést 2012 og eru börn þeirra Guðni, lögfræðingur og fyrrv. landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu; Sigríður fjölmiðlafræðingur og sölumennirnir Böðvar og Bergur Þór. Sonur Bergs frá því áður er Þorsteinn, bóndi og þýðandi.

Bergur lauk stúdentsprófi frá MR 1960 og embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1968. Hann stjórnaði þættinum Lög unga fólksins í ríkisútvarpinu, sem þá var eina íslenska útvarpsstöðin, og þýddi einn vinsælasta sjónvarpsþáttinn á fyrstu árum ríkissjónvarpsins, Dýrlinginn.

Bergur var lögfræðingur hjá skattstjóranum í Reykjavík til 1977 og starfrækti síðan eigin lögmannsstofu í Reykjavík. Hann sérhæfði sig í skattamálum og var m.a. stundakennari í skattarétti við HÍ á árunum 1974-79. Auk þess sinnti hann almennum málflutningsstörfum og fasteignaviðskiptum.

Bergur keppti í knattspyrnu og handbolta með Val um árabil og var landsliðsmaður í handbolta, en Bjarni, hálfbróðir hans, var einnig landsliðsmaður í knattspyrnu. Bergur sneri sér síðan að golfi hjá Golfklúbbi Reykjavíkur, lék golf af miklum áhuga í marga áratugi og keppti á mótum. Hann var formaður Vals 1977-81, sat í stjórn Handknattleikssambands Íslands og átti sæti í íþróttadómstól ÍSÍ um langa hríð.

Bergur hlaut heiðursmerki fyrir störf sín fyrir Val og íþróttahreyfinguna.

Bergur lést 5. nóvember 2009.

Morgunblaðið mánudagurinn 29. september 2014 - Merkir Íslendingar

Skráð af Menningar-Staður

 

 

27.09.2014 20:24

Hrútavinir á ferð til Raufarhafnar

 

 

F.v.: Níels Árni Lund og Guðni Ágústsson við undirbúning Raufarhafnarferðarinnar.

 

 

Hrútavinir á ferð til Raufarhafnar

 

Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi efnir til rútuferðar á Hrútadaginn mikla á Raufarhöfn sem er hátíðlegur haldinn laugardaginn 4. október 2014.  Ferðin í heild verða 4 dagar  2. okt – 5. okt.

Með í för verður sauðurinn Gorbi frá Brúnastöðum sem mun setjast að á forystufjársafninu á Svalbarði í Þistilfirði. Góð þátttaka er í ferðina og lagt verður upp frá Stað á Eyrarbakka fimmtudaginn 2. okt. n.k. klukkan 8 að morgni með rútu frá Allrahanda.

Komið verður við á Höfða í höfuðborginni. Síðan á höfuðstöðum héraðanna á leiðinni og blásið til umræðu og hátíðahalda um sauðkindina og vitsmuni forystufjárins . Þar á meðal; Hvanneyri, Bifröst,  Staðarskála í Hrútafirði, Hvammstanga, Blönduósi, Sauðárkróki, Hólum í Hjaltadal, Hofi á Akureyri, Laufási, Húsavík, Kópaskeri, Raufarhöfn og Svalbarði í Þistilfirði og víðar.

Góðir leiðsögumenn verða með í ferðinni og margt gert sér til skemmtunar með fólkinu í landinu.

Fararstjórar verða:
Guðni Ágústsson, Níels Árni Lund og Björn Ingi Bjarnason  

 

Björn Ingi Bjarnarson, forseti hrútavinafélagsins Örvars

Guðni Ágústsson fyrrv. landbúnaðarráðh. og heiðursforseti Örvars
 

 

F.v.: Guðni Ágústsson og Björn Ingi Bjarnason við undirbúning Raufarhafnarferðarinnar.

 


Skráð af Menningar-Staður

27.09.2014 19:30

Dagskrá Menningardaga á Raufarhöfn sem enda á hrútadegi 4. okt 2014

 

Uppboðshaldarinn Níels Árni Lund fer á kostum þegar hinir miklu kynbótahrútar eru boðnir upp og þeim valinn framtiðar fjárhópur til að annast. Ljósm.: Guðmundur J. Sigurðsson.

 

Dagskrá Menningardaga á Raufarhöfn sem enda á hrútadegi 4. okt 2014

 

Laugardagur 27. sept.
Spurningakeppni fyrirtækjanna á Raufarhöfn í Félagsheimilinu Hnitbjörgum kl. 21. Hver verður gáfnaljósið á Raufarhöfn?
Allir hjartanlega velkomnir að fylgjast með og styðja sitt lið.

Sunnudagur 28. sept.
Ganga hjá ferðafélaginu Norðurslóð kl. 13
Léttmessa kl. 15 
Glæsilegt kaffihlaðborð kvenfélagsins Freyju verður kl. 16
Heilsutríóið frá Húsavík verður með tónleika í Raufarhafnarkirkju kl. 20

Mánudagur 29. sept.
Fjölskyldu pub-quiz kl. 18

Þriðjudagur 30. sept.
Bíókvöld kl. 17 fyrir börnin og kl. 20 fyrir fullorðna

Miðvikudagur 1. okt.
Spilakvöld kl. 19.

Fimmtudagur 2. okt.
Skrínukostur kl. 18:30 Allir koma með eitthvað á hlaðborð, horft verður á myndklippur frá gömlum þorrablótum. Mönnum er velkomið að koma með skemmtiatriði. 

Föstudagur 3. okt.
Pókerkvöld í félagsheimilinu Hnitbjörgum kl.21.


Laugardagur – Hrútadagurinn 4. okt.
Opið hús í Hreiðrinu, kynning á Rannsóknarstöðinni Rifi kl.12-15.
Hrútadagsdagskrá í Faxahöll hefst kl. 15 til um það bil 17.
Meðal gesta verða Guðni Ágústsson, ásamt Hrútavinafélaginu. Kótilettufélagið mætir á svæðið. Sölubásar, kjötsúpa og margt fl.
Hápunktur dagsins er síðan sala á hrútum sem gæti endað með uppboði. 
Matur á Norðurljósum kl. 17-21. A.T.H. Borðapantanir í síma: 465-1233.
Í Félagsheimilinu Hnitbjörgum verður
Hagyrðingarkvöld
kl. 21:00

Meðal gesta verða Guðni Ágústsson, ásamt Hrútavinafélaginu.

Ball kl. 23:00-03:00

 

Séð yfir svæði það í Faxahöllinni á Raufarhöfn þar sem kaupendur þukla hrúta.

 Ljósm.: Guðmunur J. Sigurðsson.

Mynd: Þessar flottu könnur verða til sölu á hrútadaginn ??

 


Skráð af Menningar-Staður

27.09.2014 19:19

Karlakór Selfoss að hefja vetrarstarfið

 

 

 

Karlakór Selfoss að hefja vetrarstarfið

 

Vetrarstarf Karlakórs Selfoss hefst formlega mánudagskvöldið 29. september nk. kl. 20:00. Þá verður fyrsta æfing haldin í sal Karlakórsins að Eyravegi 67.

Komandi starfsár verður viðamikið því Karlakór Selfoss mun fagna 50 ára afmæli í mars 2015. Á þessari fyrstu æfingu vetrarins verður söngskrá afmælisársins kynnt, en lagavalsnefnd kórsins hefur sett saman metnaðarfulla dagskrá, þar sem mörg af stórverkum íslenskrar karlakóratónlistar verða tekin til flutnings, í bland við léttara efni.

Karlakórinn hefur starfað af miklum þrótti mörg undanfarin ár og rúmlega 70 söngmenn hafa stundað æfingar. Á hverju starfsári kemur kórinn víða fram, viðamestir eru vortónleikarnir ár hvert og jólatónleikar á aðventu, og mjög færist í vöxt að kórinn sé pantaður á hvers kyns mannamót, afmæli og við jarðafarasöng. Fastur æfingatími er á mánudagskvöldum kl. 20:00 til 22:30 og æft er í sal kórsins að Eyravegi 67.

Nýliðar eru að sjálfsögðu velkomnir og verður vel tekið á móti þeim. Þeir sem hyggjast ganga til liðs við kórinn eru beðnir að mæta klukkustund fyrr á mánudagskvöldið, eða kl. 19:00, en þá fara fram raddprufur, þ.e. hvort menn eru tenórar eða bassar. 

Stjórnandi Karlakórs Selfoss er Loftur Erlingsson og undirleik annast Jón Bjarnason. Formaður kórsins er Gísli Á. Jónsson.

Af www.dfs.is  - VBr.

Skráð af Menningar-Staður

 

27.09.2014 07:12

Regína Guðjónsdóttir - Fædd 21. maí 1949 - Dáin 22. september 2014 - Minning

 

Regína Guðjónsdóttir.

 

Regína Guðjónsdóttir - Fædd 21. maí 1949 -

Dáin 22. september 2014 - Minning

 Regína Guðjónsdóttir frá Steinsbæ fæddist 21. maí 1949. Hún lést á Sjúkrahúsi Suðurlands mánudaginn 22. september 2014.

Foreldrar hennar eru Gyðríður Sigurðardóttir, fædd 22. september 1929, lést 28. maí 2012. Faðir hennar er Halldór Guðjón Pálsson, fæddur 9. maí 1924. Regína átti 3 systkini; Dreng Guðjónsson sem fæddist andvana 1951, Ingileif, fædda 1952 og Margréti, fædda 1956. Regína byrjaði snemma í sambúð með Jóni Baldvini Sveinssyni, fæddum 1945, Eignuðust þau soninn Halldór Jónsson, fæddan 1967, á hann 2 börn og 2 barnabörn. Eftir að slitnaði upp úr sambandi þeirra kynntist hún Þorsteini Jóni Björgólfssyni, fæddum 1950, frá Vopnafirði, lést hann í sjóslysi 1981, þau áttu saman 3 börn: Höllu Björgu, fædda 1972, hún á 3 börn, Hlöðver fæddan, 1973, giftan Þóru Ósk Guðjónsdóttur, eiga þau saman 3 börn og Gyðu Steinu, fædda 1981, sambýlismaður hennar er Ottó Rafn Halldórsson og eiga þau 2 börn. Árið 1988 kynntist hún eftirlifandi eiginmanni sínum, Siggeiri Ingólfssyni frá Stokkseyri. Giftu þau sig 26. júlí 1994. Hann átti fyrir 2 dætur, Sigurlaugu, fædda 1971 og á hún 1 barn, og Önnu Rögnu, fædda 1975 og á hún 3 börn og 1 barnabarn.

Regína Guðjónsdóttir var alla sína tíð verkakona, vann við ýmis störf. Félagsstörfum hafði hún mikinn áhuga á og var hún formaður Félags eldri borgara á Eyrarbakka og meðlimur í Soroptimistafélaginu á Íslandi. Síðustu 10 árin helgaði hún sig handverki og var með Gallerí Regínu á Eyrarbakka.

Útför Regínu fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, laugardaginn 27. september 2014, kl. 11.
 

_________________________________________________________________

Minningarorð Ingunnar Óskarsdóttur

Heiðurskonan Regína Guðjónsdóttir er látin eftir erfiða sjúkdómslegu. Hún kvaddi þetta líf á afmælisdegi móður sinnar hennar Gyðu Sigurðardóttur sem fædd var 22. september 1929 og andaðist 28. maí árið 2012.

Að ógleymdri ástinni

er hugrekki stærsta gjöfin.

Við höfum öll tapað

margoft – en

ef við kunnum að tapa

lærum af því

og reynum aðra leið

þá verður okkur

vel ágengt.

(Rosanne Ambrose Brown)

Þetta fallega kvæði minnir mig á Regínu. Henni var gefinn stór skammtur af hugrekki og æðruleysi sem best kom fram í banalegu hennar. Eins og Halldór sonur hennar sagði: „Eins og ég hef sagt áður þá lærði ég meira af þér á þínu veikindatímabili en öll árin þar á undan og þegar við heimsóttum þig á sjúkrahúsið og áttum að vera þín stoð og stytta þá snérist það einhvernveginn við og þú hughreystir okkur.“

Regína tók erfiðustu fréttum, sem nokkur manneskja getur fengið – fréttinni um að sjúkdómurinn hefði haft vinninginn og hún hefði tapað, með ótrúlegri reisn. Hún stóð sig eins og hetja fram á síðasta dag. Nú er hún komin á leiðarenda – allt of snemma að sjálfsögðu – en henni er ætlað annað hlutverk héðan í frá. Efast ekki um að elsku Gyða móðir hennar hafi tekið hana í faðminn um leið og hún fór yfir.

Elsku Geiri, Halldór, Halla Björg, Hlöðver og Gyða Steina. Ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur. Veit vel að það er erfiður tími framundan hjá ykkur öllum. En minningin um yndislega eiginkonu, frábæra móður og ömmu mun alltaf ylja ykkur um hjartarætur og hjálpa ykkur í framtíðinni. Guð geymi Regínu fyrir okkur öll. Hennar verður sárt saknað.

Ingunn Óskarsdóttir.
_____________________________________________________________________

Minningarorð:  Sigríður Ísafold, Elín og Ingibjörg Kristín.

Fallin er nú frá fyrir aldur fram ástkær mágkona okkar. Um tíma héldum við að hún hefði betur, vegna þess hversu mikil baráttukona hún var. Hún var ekki á því að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Það var lærdómsríkt að sjá hvernig hún tók á málum því lífið hafði ekki alltaf farið um hana mjúkum höndum.

Það lék allt í höndunum á henni og stundum fengum við hjá henni fallegar flíkur. Ein okkar minnist þess þegar hún pantaði vesti fyrir barnaafmæli, þá átti hún ekki stærðina, en kom með vestið tilbúið nokkrum dögum síðar. Þetta er dæmi um það hversu fljótt og vel hún afgreiddi hlutina.

Það var fallegt að sjá samband hennar og bróður okkar og hvernig þau hjálpuðust að í gleði og sorgum. Við þökkum samfylgdina og vottum aðstandendum dýpstu samúð.

Sigríður Ísafold, Elín

og Ingibjörg Kristín.Morgunblaðið laugardagurinn 27. september 2014

 

27.09.2014 07:07

Menningarmánuðurinn október 2014

 

Borði


    Menningarmánuðurinn október 2014