Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 September

22.09.2014 08:30

Söngskemmtun í Eyrarbakkakirkju í tilefni aldarafmælis Jóns frá Ljárskógum

 

alt

Jón frá Ljárskógum.

Söngskemmtun í Eyrarbakkakirkju

í tilefni aldarafmælis Jóns frá Ljárskógum

 

Á þessu ári eru 100 ár liðin frá fæðingu skáldsins og söngvarans þjóðkunna Jóns frá Ljárskógum. Í tilefni þess verður flutt vegleg söngdagskrá í Eyrarbakkakirkju í kvöld,  mánudaginn 22. september kl. 20:00.

Að tónleikunum sem bera yfirskriftina Syngdu mig heim stendur einvala lið tónlistarmanna sem flytur mörg þekktustu söngljóð skáldsins, þar á meðal nokkur lög sem M.A.-kvartettinn gerði fræg og heyrast nú í upprunalegri útsetningu þeirra í fyrsta skipti í 70 ár. Atriðin eru af ýmsum toga, einsöngur, dúettar, kvartett og kór en meðal flytjenda má nefna nýstofnaðan söngkvartett í anda M.A.-kvartettsins.

Söngdagskráin var fyrst flutt á hátíðartónleikum í Vídalínskirkju í Garðabæ síðastliðið vor fyrir fullu húsi en áætlað að tæplega þúsund manns hafi þar verið samankomin, og urðu þó margir frá að hverfa sökum plássleysis. Tónleikarnir hafa síðan verið endurteknir nokkrum sinnum víðs vegar um landið og hafa hvarvetna vakið mikla athygli og hlotið einróma lof viðstaddra. 

Jón frá Ljárskógum var á sinni tíð einn vinsælasti tónlistarmaður landsins. Kornungur söng hann sig inn í hug og hjörtu þjóðarinnar ásamt félögum sínum í M.A.-kvartettinum sem telja má fyrstu dægurstjörnur Íslands, en þeir störfuðu á árunum 1932-1942. Auk þess að syngja með kvartettinum gerði Jón marga söngtexta sem slógu í gegn meðal landsmanna, en meðal þekktra söngljóða hans eru Sestu hérna hjá mér, Húmar að kveldi, Ó, Súsanna og Blærinn í laufi, svo aðeins fáeinir textar séu nefndir.

Flytjendur á tónleikunum eru: Unnur Birna Björnsdóttir, Una Dóra Þorbjörnsdóttir, Unnur Helga Möller, Guðmundur Davíðsson, Magnús Pétursson, Reynir Bergmann Pálsson, Björn Bjarnsteinsson og Sigurður Helgi Oddsson.

Aðgangseyrir er 2000 kr. en engin posi verður á staðnum.

Allir eru hjartanlega velkomnir.

Skráð af Menningar-Staður

20.09.2014 07:29

Morgunstund með -Kríu- Sigurjóns Ólafssonar

 

.

 

 

           Morgunstund með  -Kríu-  Sigurjóns Ólafssonar

 

.


 

Skráð af Menningar-Staður

20.09.2014 06:50

Merkir Íslendingar - Vilhjálmur Hjálmarsson

 

Vilhjálmur Hjálmarsson.

 

Merkir Íslendingar - Vilhjálmur Hjálmarsson

 

Vilhjálmur Hjálmarsson fæddist á Brekku í Mjóafirði 20. september 1914 - fyrir einni öld.

 Sonur Hjálmars Vilhjálmssonar, útvegsbónda á Brekku, og k.h., Stefaníu Sigurðardóttur húsfreyju.

Hjálmar var sonur Vilhjálms Hjálmarssonar, b. á Brekku, af Pamfílsætt, bróður Maríu, móður Gísla Kristjánssonar útgerðarmanns. Stefanía var systir Bjargar, ömmu Tómasar, fyrrv. ráðherra og Margrétar, móður Valgeirs Guðjónssonar tónlistarmanns. Stefanía var dóttir Sigurðar Stefánssonar, b. á Hánefsstöðum, og Sigríðar Vilhjálmsdóttir frá Brekku.

Eiginkona Vilhjálms var Anna Margrét Þorkelsdóttir frá Galtastöðum í Hróarstungu sem lést 2008 og eignuðust þau fimm börn, Hjálmar fiskifræðing sem lést 2011; Pál sjómann; Sigfús Mar, bónda á Brekku; Stefán matvælafræðing og Önnu kennara.

Vilhjálmur lauk prófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni. Hann var bóndi á Brekku til 1967, kennari og síðar skólastjóri Barnaskóla Mjóafjarðar, alþm. Framsóknarflokksins 1949-56, 1959 og 1967-79 og menntamálaráðherra 1974-78.

Vilhjálmur var bókavörður Lestrarfélags Mjófirðinga í 70 ár, framkvæmdastjóri Ræktunarfélags Mjóafjarðar, oddviti Mjóafjarðarhrepps, fulltrúi á fundum Stéttarsambands bænda og sat í stjórn þess og í Framleiðsluráði landbúnaðarins, var formaður skólanefndar Húsmæðraskólans á Hallormsstað, sat í sýslunefnd Suður-Múlasýslu, var formaður Kjördæmissambands framsóknarmanna á Austurlandi, fulltrúi hjá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og formaður þess í tvö ár. Þá sat hann í kirkjuráði 1976-82 og var formaður Útvarpsráðs.

Vilhjálmur sendi frá sér á efri árum 23 bækur um þjóðfræði, mannlífsþætti og sögu síns byggðarlags. Hann var virtur og dáður af öllum sem til hans þekktu, fyrir einstaka geðprýði, hógværð, vinsemd og einlægni, fróðleik sinn, ríka frásagnargáfu og skemmtilegan húmor.

Vilhjálmur lést 14. júlí 2014.


Morgunblaðið laugardagurinn 20. september 2014 - Merkir Íslendingar.

 

Skráð af Menningar-Staður

20.09.2014 06:46

Merkir Íslendingar - Þórarinn Þórarinsson

 

Þórarinn Þórarinsson.

 

Merkir Íslendingar - Þórarinn Þórarinsson

 

Þórarinn Þórarinsson ritstjóri fæddist í Ólafsvík þann 19. sepember 1914 -  fyrir einni öld.

Hann var sonur Þórarins Þórarinssonar, bátsformanns í Ólafsvík, sem fórst í aftakaveðri í febrúar, áður en Þórarinn sonur hans fæddist, og k.h., Kristjönu Magnúsdóttur húsfreyju.

Eftirlifandi eiginkona Þórarins er Ragnheiður Vigfúsdóttir Þormar húsfreyja og eru börn þeirra Helga, sem er látin, sagnfræðingur og þýðandi; Þórarinn, sem lengi hefur starfað hjá N-1, og Ragnheiður Hrefna þroskaþjálfi.

Þórarinn stundaði nám við Samvinnuskólann 1931-33. Hann var blaðamaður, ritstjóri Nýja dagblaðsins 1936-38 og ritstjóri Tímans lengur en nokkur annar, 1938-84. Hann var alþm. fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík 1959-1978 og var um árabil einn af helstu áhrifamönnum Framsóknarflokksins.

Þórarinn var dæmigerður stjórnmálaritstjóri þess tíma er dagblöðin voru flokksblöð og leiðarar þeirra kölluðust á frá degi til dags. Hann var skilmerkilegur penni og hafði afar góða yfirsýn yfir stjórnmálasögu síns tíma, bæði innlenda og erlenda. Auk leiðara skrifaði hann lengst af daglegt yfirlit í Tímann um erlend málefni sem voru honum hugleikin.

Þórarinn var formaður FUJ í Reykjavík 1936-38, formaður SUF 1938-44, sat í miðstjórn Framsóknarflokksins um árabil frá 1944, sat í útvarpsráði í átján ár og í utanríkismálanefnd samfellt í nítján ár og formaður hennar 1971-78, var fulltrúi á hafréttarráðstefnu Sþ 1973-82 og í undirbúningsnefnd hennar og sat Allsherjarþing Sþ 1954-58, 1960, 1967, 1968-69 og 1973-74. Þá átti hann sæti í sendinefndum þingmanna vegna samninga um landhelgismál við Þjóðverja og Breta og sat í stjórnarskrárnefnd.

Þórarinn var hægur maður og ljúfur í viðmóti, vel liðinn yfirmaður en fylgdist vel með sinni ritsjórn. Hann ritaði sögu Framsóknarflokksins: Sókn og sigrar, í þremur bindum. Greinasafn hans, Svo varstu búinn til bardaga, kom út 1992.

Þórarinn lést 13. maí 1996.

Morgunblaðið föstudagurinn 19. september 2014 - Merkir Íslendingar.

 

Skráð af Menningar-Staður

20.09.2014 06:36

Prjónadagar í Kaupmannahöfn

 

Norðurbryggja í Kaupmannahöfn.

 

Prjónadagar í Kaupmannahöfn

 

Íslenskir prjónadagar verða í menningarhúsi Íslendinga í Kaupmannahöfn, Norðurbryggju. Þar gefst gestum kostur á að læra um íslenskar prjónahefðir, mynstur, ull og íslensku lopapeysuna, eins og sjá má á Facebooksíðu.

Dagskráin er frá 12-17 bæði í dag og á morgun, sunnudaginn 21. september 2014 og tekur fjöldi Íslendinga þátt í fjölbreyttri dagskrá Prjónadaga sem skipulagðir voru af Höllu Benediktsdóttur. Fyrirlestrar verða fluttir um Norrænar prjónahefðir – Færeyjar vs. Ísland,

prjónaferðamennsku á Íslandi, hraðnámskeið í prjónamynstri og litun á ull með náttúrulitum.Vinnustofur standa gestum opnar og má þar til dæmis læra hvernig á að splæsa saman enda og setja rennilás í prjónaða peysu. Allt um Prjónadagana er að finna á Facebooksíðunni NordatlantensBrygge.

www.facebook.com/NordatlantensBrygge

Morgunblaðið laugardagurinn 20. september 2014.

 

Starfsmenni Norðurbryggju í Kauphannahöfn komu í heimsókn á Eyrarbakka í júní 2013.

 

Skráð af Menningar-Staður

19.09.2014 07:10

Gullbrúðkaup

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Agnes Karlsdóttir og Hörður Jóhannsson.

 

Gullbrúðkaup

 

Hörður Jóhannsson og Agnes Karlsdóttir á Eyrarbakka eiga 50 ára brúðkaupsafmæli í dag, föstudaginn 19. september 2014

 

Skráð af Menningar-Staður

19.09.2014 07:03

Afmælisstund í Alþýðuhúsinu á Eyrarbakka

 

 

 

Afmælisstund í Alþýðuhúsinu á Eyrarbakka

 

Afmælisdagur Siggeirs Ingólfssonar, staðarhaldara í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka var þann 17. september 2014.

Vinir alþýðunnar komu í Alþýðuhúsið á afmæliskaffi til Siggeirs í tvo daga; 17. og 18. sept.


 

Kristján Runólfsson skáld í Hvaragerði sendi þessa vísu.

 

Afmælisvísa 17. sept 2014

 

Óskin mín sú er í dag

elsku vinur kæri,

að þér gangi allt í hag,

öll við tækifæri.

Kristján Runólfsson

 


.

.

.

.
 

Skráð af Menningar-Staður

 

18.09.2014 06:56

Raufarhafnarferðin á "Hrútadaginn mikla."

 

 

 

Raufarhafnarferðin á "Hrútadaginn mikla."

 

Um þessar mundir er Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi fimmtán ára  gamalt.

Félagið var stofnað um einn glæsilegan hrút að Tóftum í Stokkseyrarhreppi hinum forna á Skeiðaréttadaginn,og er það skipað hinum vöskustu konum og körlum og hefur víða komið að framfaramálum lands og þjóðar. Hinar fornu verstöðvar að Eyrarbakka og Stokkseyri hafa risið til nýrrar menningar og áhrifa undir merkjum félagsins.

Félagið eignaðist fyrir nokkrum árum uppstoppaðan forystusauð til varðveislu sem Gorbi heitir í höfuðið á Gorbachew forseta Sovétríkjanna sem var einn mesti friðarleiðtogi heimsins og átti fund á Íslandi í Höfða með Ronald Reagan forseta Bandaríkjanna,og í framhaldinu féll járntjaldið. Í tilefni af afmælinu hefur félagið ákveðið að færa safninu  um Íslensku forystukindina á Svalbarði í Þistilfirði Gorba til varðveislu og eilífðar frægðar um nafn hans og afrek. Bróðir Gorba,Jeltsín brann inni í Eden í Hveragerði en þar hafði hann tekið á móti milljónum manna,ódrukkinn.

 

Ferðin norður er öllu góðu og göldróttu fólki opin og frjáls en langferðarbíll frá Allrahanda verður lestin sem brunar norður með Gorba og fylgdarlið.

Lagt verður  upp frá Eyrarbakka að morgni fimmtudagsins 2. október n.k. er áætlað að koma við í Höfða í Reykjavík og hitta þar höfðingja bæði innlenda og erlenda. Haldið verður síðan norður með viðkomu á höfuðstöðum landsbyggðarinnar í Borgarnesi, Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík.

Blásið verður til héraðshátíða og rætt um vitsmuni forystukindarinnar og Hrútadagurinn mikli á Raufarhöfn kynntur en hann verður haldinn laugardaginn 4. október n.k. með hrútasýningum, sauðfjárdómum, gamanmálum og kvæðamannakvöldi. Öll dagskrá ferðalaginu norður,verður auglýst nánar síðar.

Allir þeir sem vilja vera með í ferðinni sjálfum sér og öðrum til skemmt-unar eru velkomnir en verða að tilkynna nafn sitt til forseta félagsins Björns Inga Bjarnasonar. Eina sem ferðafélagar þurfa at taka með sér er sæng og koddi eða svefnpoki  og góða skapið.

 

Gjört á heilögum Eyrarbakka 9, september 2014.

Björn Ingi Bjarnason

forseti Hrútavinafélagsins netfang: bibari@simnet.is     S: 8970542

Guðni Ágústsson

fyrrverandi Landbúnaðarráðherra og heiðursforseti netfang: gudni.ag@simnet.is S:8919049

 

 

.

.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

17.09.2014 21:19

Tengdadóttir Flóans í forystu í Ísafjarðarbæ

 


Ísfirðingurinn Arna Lára Jónsdóttir og maður hennar -Flóamaðurinn- Ingi Björn Guðnason.
Arna Lára er því tengdadóttir Flóans samkvæmt vitrustu manna yfirsýn.Tengdadóttir Flóans er í forystu í Ísafjarðarbæ

Forréttindi að vinna í þágu fólksins

 

„Sveitarstjórnarmál hafa breyst mikið á fáum árum. Í stað harða pakkans snúa verkefnin nú fremur að því að bæta almenn lífsgæði. Þetta er í samræmi við viðhorfsbreytingu, fólk vill góða þjónustu í nærsamfélaginu sem er sannarlega verkefni sveitarfélaga,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Ísafjarðarlistinn er ráðandi í Ísafjarðarbæ. Í kosningum í vor fékk framboðið 42,5% atkvæða og fimm fulltrúa í bæjarstjórn, það er hreinan meirihluta. Arna Lára skipaði efsta sætið, en hún tók fyrst sæti í bæjarstjórn 2006.

„Ég er yngsti bæjarfulltrúinn en hef samt setið lengst allra í bæjarstjórn. Það sem rak mig út í þetta á sínum tíma var vilji til þess að hafa áhrif á samfélagið þar sem ég á mínar rætur og vil búa. Og það eru forréttindi að vinna í þágu fólksins. Sannarlega er þetta tímafrekt en þarna gefast líka tækifæri til þess að kynnast fjölbreyttum hlutum. Skólamál, byggðakvóti, frárennsli og framfærslubætur og svo miklu fleira eru verkefni sveitarfélagsins,“ segir Arna Lára.

Íbúalýðræði og opnari stjórnsýsla voru meðal kosningamála

Í-listans. Það segir Arna Lára samtóna almennum viðhorfum í dag. Ungt fólk vilji hafa áhrif og fá aðgang að upplýsingum. „Fyrir 15-20 árum voru stóru málin hér til dæmis jarðgangagerð, barátta þegar kvóti var seldur af svæðinu og svo snjóflóðin og eftirstöðvar þeirra. Fyrstu árin mín í sveitarstjórn var tekist á um fiskiveiðistjórnun á löngum fundum. Við yngra fólkið, sem höfum annan bakgrunn en þeir sem á undan fóru, erum kannski ekki eins upptekin af áðurnefndum málum. Önnur mál eru orðin tímafrekari og skipta íbúana miklu, þó að til dæmis samgöngumál hljóti allaf að vera í deiglunni.“

Árangur nemenda við grunnskólanna í Ísafjarðarbæ, hefur ekki þótt viðunandi. Arna Lára segir því mikilvægt að styrkja skólastarfið. Velgengni nemenda skipti miklu fyrir svæðið og í raun sé velferð krakkanna í húfi.

„Að börnin hér séu fyrir neðan landsmeðaltal á samræmdu prófunum gengur ekki upp,“ segir Arna Lára. Fræðsluyfirvöld í bænum segir hún horfa til þess árangurs sem náðst hefur í Reykjanesbæ. Þar voru nemendur ekki að pluma sig eins og vænst var, en því tókst að breyta eins og fræðslustjóri Reyknesinga kynnti vestra á dögunum. „Athugun eða skimun á styrk krakkanna frá því þau eru tveggja ára hefur gefið góða raun í Reykjanesbæ. Árangur í lestri og stærðfræði hefur batnað og svona þurfum við að gera hér.“

 

Íbúarnir taka til hendi

Arna Lára segir að það sé ekki bara í grunnskólamálum sem taka þurfi til hendi. Að undanförnu hafi verið unnið að gatnagerð og gera þurfi gangskör í umhverfismálum og öðru slíku í Ísafjarðarbæ. Þá sé krafa um uppbyggingu í íþróttamannvirkjum, svo sem að komið verði upp yfirbyggðu knattspyrnuhúsi og sundlaug.

„Þetta er á könnu sveitarfélagsins, en einnig má halda á lofti góðum verkefnum þar sem íbúarnir hafa tekið málin í sínar hendur,“ segir Arna Lára. Hún nefnir þar að á samfélagsmiðlum séu síðurnar Betri Ísafjörður og Betri Hnífsdalur þar sem íbúar skiptast á skoðunum um það sem betur megi fara. Á Þingeyri hafi íbúar tekið svæði í fóstur og við Fjarðarstræti á Ísafirði séu íbúarnir að útbúa leikvöll. Þetta frumkvæði sé til fyrirmyndar og leggi bæjaryfirvöld þessu lið eftir megni.

Morgunblaðið þriðjudagurinn 16. september 2014 - Sigurður Bogi Sævarsson frá Selfossi.

 

Arna Lára Jónsdóttir.

Skráð af Menningar-Staður 

17.09.2014 06:39

Fjöruferð og gróðursetning á Stokkseyri

 


Siggeir Ingólfsson.

Fjöruferð og gróðursetning á Stokkseyri

 

Í tilefni af Degi íslenskrar náttúru bauð Sveitarfélagið Árborg upp á gönguferð í Stokkseyrarfjöru og gróðursetningu í Þuríðargarði á Stokkseyri sl. sunnudag, 14. september 2014. 

Siggeir Ingólfsson gróðursetti reynivið í garðinum, en Siggeir hafði frumkvæði að því að byrjað var að planta á svæðinu fyrir fáum árum.

Gönguna leiddu þeir Elfar Guðni Þórðarson og Þórður Guðmundsson og greindu þeir frá örnefnum í fjörunni, náttúrufari og bentu á ýmis listaverk náttúrunnar sem leynast víða.

Í lok göngunnar voru síðan teknar nokkrar léttar leikfimiæfingar og boðið upp á kaffi og kleinur í Gallery Gimli og heimsókn í Svartaklett, vinnustofu og sýningarsal Elfars Guðna.

Frétt af arborg.is

 

.


 

Skráð af Menningar-Staður