Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 September

08.09.2014 13:02

123 ár frá vígslu Ölfusárbrúar


 


Tryggvaskáli við Ölfusárbrú sumarið 2014.  Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 


123 ár frá vígslu Ölfusárbrúar

Ölfusárbrú við Selfoss var vígð þann

8. september 1891 að viðstöddu fjölmenni.

 

Gísli Sigurðsson skrifaði í Morgunblaðið 19. september 1998


ÁGRIP AF SÖGU VERZLUNARSTAÐAR VIÐ ÖLFUSÁRBRÚ

 

Með Ölfusárbrúnni sem vígð var 1891 var mörgum leiðum úr öllum áttum stefnt að einum punkti og þar með mynduð skilyrði fyrir margskonar þjónustu, atvinnustarfsemi og verzlun. Fyrir þéttbýlismyndun við Ölfusárbrú skipti þó fyrst og fremst sköpum að þar reis Mjólkurbú Flóamanna og Kaupfélag Árnesinga. Við syðri brúarsporðinn var land jarðarinnar Selfoss; bæirnir stóðu skammt vestan við kirkjuna sem seinna reis við ána, en langur tími leið unz farið var að kalla þorpið Selfoss. Í sveitunum í nánd var lengi vel talað um að fara "niður að Ölfusá", eða "niður að Skála". Þá var átt við Tryggvaskála, fyrsta og elzta húsið á staðnum. Skálinn sá var kenndur við Tryggva Gunnarsson sem stjórnaði smíði Ölfusárbrúar. Hann lét smíða hinn upphaflega skála, lítið timburhús, ætlað til efnisgeymslu og til að hýsa smiði, en menn hugsuðu sér að síðar meir yrði þar gistiaðstaða fyrir ferðafólk.

Sýslan og landssjóður eignuðust Tryggvaskála "til fundarhalda" 1899, en vorið 1901 fluttist þangað fyrsti gestgjafinn, Þorfinnur Jónsson ásamt konu sinni, Guðlaugu Einarsdóttur. Þau settu upp gistingu og greiðasölu fyrir ferðamenn, en ekki var þessi upphaflegi Tryggvaskáli nema um 50 fermetrar. Á næstu árum stækkaði Þorfinnur skálann og fékk landssíminn þar inni 1909.

Ekki gekk veitinga- og greiðasalan sem bezt þó að stór hluti umferðar af Suðurlandsundirlendi, til og frá Reykjavík, lægi þar um hlaðið. Menn voru því óvanir að nota sér þjónustu sem þurfti að borga fyrir og hafa frekar nestað sig til ferðarinnar. Þorfinnur gestgjafi sótti um styrk til sýslunnar 1917, en fékk neitun. Tíð eigendaskipti urðu á Tryggvaskála á næstu árum, en á ljósmynd frá 1923 má sjá að húsið er orðið tveggja hæða; gistiherbergi á efri hæðinni í álmunni sem enn stendur og snýr að brúnni.

Sigtún var næsta hús sem reis við Ölfusárbrú. Kristján Ólafsson smiður hafði kvænst heimasætunni úr Norðurbænum á Selfossjörðinni. Skammt austan við brúarsporðinn byggði Kristján timburhús sumarið 1907 og hafði verkstæði í kjallaranum. Auk þess voru þau hjón, Kristjana og Kristján með 3-4 kýr og nokkrar kindur í Sigtúnum.

Brautryðjandi í verzlun við Ölfusárbrú er Símon Jónsson á Selfossi, sem fékk inni í Tryggvaskála fyrir litla búðarholu. Hann færði síðan út kvíarnar og í félagi við Kristján í Sigtúnum setti hann upp stærri verzlun þar í kjallaranum 1914. Verzlunin var kennd við Símon, enda hafði hann verzlunarleyfið, sem heimilaði alla verzlun nema með áfenga drykki. Kristján sá um aðdrætti og sótti vörurnar á hestvögnum til Reykjavíkur. Ferðamenn sem komu með póstvögnunum gistu stundum í Sigtúnum, en verzlunin lagðist niður 1917 þegar Kristján sneri sér alfarið að búskap og flutti að Bár, þar sem hann bjó eftir það. Hann þótti í alla staði frábær mannkostamaður.

Á ljósmynd frá 1910 má sjá að Sigtún hefur verið reisulegt hús og fallegt á sama hátt og mörg hinna bárujárnsklæddu timburhúsa sem risu á þessum tíma. Því miður varð það að víkja fyrir nýrri uppbyggingu.

Daníel Daníelsson, mágur Sigfúsar Eymundssonar ljósmyndara og aðstoðarmaður hans við að flytja Íslendinga til Vesturheims, varð næstur til að taka við verzlun í Sigtúnum og í árslok 1917 keypti hann húsið og lét ekki þar við sitja, heldur keypti hann einnig Tryggvaskála 1918 og jók við hann svo Landsbankinn gat sett þar upp útibú. Kona Daníels var Níelsína Ólafsdóttir úr Hafnarfirði.


Egill kemur til sögunnar

Nú víkur sögunni að Agli Gr. Thorarensen frá Kirkjubæ á Rangárvöllum, sem gerðist svo umsvifamikill að hann hefur verið nefndur faðir Sellfossbæjar og á þá nafnbót líklega betur skilið en nokkur annar maður.

Egill fór ungur til verzlunarnáms í Danmörku, stundaði síðan verzlunarstörf í Reykjavík í skamman tíma en fór þá til sjós og stefndi að því að verða skipstjóri. Berklaveikin kom í veg fyrir að sá draumur hans rættist og fullri heilsu náði Egill í rauninni aldrei. Það skipti hinsvegar sköpum, bæði fyrir hann og framtíð verzlunarstaðarins við Ölfusárbrú, þegar hann kvæntist Kristínu dóttur Daníels og Níelsínu í Sigtúnum.

Egill keypti Sigtún og Tryggvaskála af tengdaforeldrum sínum í haustið 1918 og hóf þar verzlun. Hún var smá í sniðum, en af auglýsingu sem birtist í bundnu máli í jólablaði Þjóðólfs 1919 má sjá að vöruúrvalið hefur verið talsvert: " sitróndropar, sveskjur, spil/ og sirsin hvergi betri til." Orð fór af því að kaupmaðurinn í Sigtúnum ætti fleira í fljótandi formi en sítrónudropa, en brjóstbirtan væri höfð á bak við búðardiskinn. Fljótlega byggði Egill sérstaka sölubúð, sem áföst var við Sigtún og 1924 hóf hann innflutning á timbri með skipum til Eyrarbakka, enda var mikil spurn eftir timbri vegna Flóaáveitunnar sem þá var unnið að.

Það hefur löngum verið nokkur ráðgáta hversvegna Egill bauð bændum í Árnessýslu að yfirtaka verzlunina og stofna kaupfélag, og þá með því skilyrði að hann stýrði því sjálfur. Að þessu var gengið 1930 og Kaupfélag Árnesinga stofnað. Mjólkurbú Flóamanna tók til starfa í nóvember 1929, en lenti í gífurlegum erfiðleikum við að koma mjólkinni til neytenda í Reykjavík vegna ófærðar. Varð stundum að draga hana á sleðum. Egill Thorarensen var kjörinn í stjórn mjólkurbúsins 1931 og fyrsta verk hans var að láta kaupfélagið yfirtaka alla flutninga Mjólkurbús Flóamanna. Lengst af var Egill stjórnarformaður í Mjólkurbúi Flóamanna og stýrði því og Kaupfélagi Árnesinga eins og einni heild.

Jónas Jónsson frá Hriflu, sem var vinur Egils og aðdáandi, taldi að hann hefði séð í hendi sér að öflugt kaupfélag hlyti að rísa í þessu héraði eins og öðrum og að í þeirri samkeppni yrði hann undir. Egill var í hjarta sínu einkaframtaksmaður og umfram allt var hann athafnaskáld. Honum var í mun að hafa völd og geta stýrt uppbyggingu og þróun á Selfossi. Hinsvegar rakst hann alltaf illa með Framsóknarflokknum og samvinnuforkólfunum.

Svo farið sé fljótt yfir sögu lét Egill byggja glæsilegt verzlunarhús fyrir KÁ 1945, sem enn stendur og hefur alltaf verið staðarprýði. Síðan í desember á síðasta ári er það ráðhús bæjarins, en að auki er Héraðsskjalasafn Árnesinga til húsa þar, svo og Bæjar-og héraðsbókasafnið. Mjólkurbúið hafði Guðjón Samúelsson upphaflega teiknað, en síðar var það hús brotið niður og nýtt byggt sem enn stendur í góðu gildi. Byggt var yfir smiðjur og verkstæði KÁ á svæðinu þar sem nýja verzlunarhúsið er nú, en þær voru réttilega færðar síðar meir austast í bæinn. Með hitaveitunni frá Laugardælum þótti Egill taka mikla áhættu, en allt heppnaðist það. Egill hefur verið nefndur "Faðir Þorlákshafnar" og uppbygging þar var honum hjartans mál. Þá varð kapp hans full mikið og er óskiljanlegt að þessi gáfaði og menningarlega sinnaði maður skyldi standa fyrir því, að verzlunarhús Lefolii á Eyrarbakka voru rifin og efnið úr þeim notað í Þorlákshöfn.

Verzlunin Höfn og húsið frá Búðardal

Kaupfélag Árnesinga var ekki alveg eitt um hituna á Selfossi. Samkeppni var frá nokkrum smærri kaupmönnum eins og Hildiþór Loftssyni sem var ógleymanlegur karakter, en umfram allt frá Verzluninni Höfn, sem var í rauninni hinn póllinn í samkeppni milli kaupfélags- og einkarekinnar verzlunar á Selfossi. Raunar hafði Höfn eitt umfram kaupfélagið í þjónustu við bændur: Þar var rekið sláturhús. Egill gat aftur á móti ekki farið í samkeppni við Sláturfélag Suðurlands, annað samvinnufélag sem auk þess var á staðnum. Höfn var beint á móti syðri brúarsporðinum, þar sem nú er verzlunin Kjarval og er ömurleg lágkúra að snúa útúr nafni þessa ástsæla listamanns og nota það með þessum hætti.

Lefolii-verzlun á Eyrarbakka hafði í langan tíma setið ein að allri verzlun á Suðurlandi, en mjög tók að halla undan fæti hjá henni á fyrstu tveim áratugum aldarinnar og svo fór að hún hrundi. Upp reis kaupfélag með bækistöð á Eyrarbakka, kennt við Árnesinga og Rangæinga, en ekki varð það langlíft og sama var að segja um Kaupfélagið Heklu, sem keypti eignir Eyrarbakkaverzlunar og náði rífandi uppgangi um tíma. Með Ölfusárbrúnni var kippt grundvellinum undan Eyrarbakka sem verzlunarstað. Rætt var um að flytja starfsemi Heklu að Ölfusárbrú 1925, en úr því varð ekki og svo fór að félaginu var slitið. Stjórnarmenn í Heklu ákváðu þvínæst að stofna verzlun við Ölfusárbrú og hús á Eyrarbakka, sem hét Höfn, var flutt og sett niður á landspildu sem keypt var af Selfossbændum, beint á móti Ölfusárbrúnni. Guðmundur Guðmundsson frá Eyrarbakka, fæddur 1876, hafði stýrt Heklu, en varð sú máttarstoð sem verzlunin Höfn byggði á. Guðmundur fluttist með fjölskyldu sína frá Eyrarbakka að Selfossi vorið 1927. Tengdasonur Guðmundar, Sigurður Óli Ólafsson, síðar alþingismaður, fluttist þá einnig að Selfossi og tók síðar við stjórn í verzluninni sem eftir það var nefnd Verzlun S. Ó. Ólafssonar & Co.

Útibú frá Landsbanka Íslands starfaði fyrst í Tryggvaskála, en útibússtjóri var Eiríkur Einarsson skáld og síðar alþingsmaður frá Hæli. Tryggvaskáli var ekki vel einangrað hús og þótti vistin þar köld frostaveturinn 1918. Um það orti Eiríkur:

Þetta hús er þrotlaus göng

þytgátt norðanbála.

Koma munu köld og löng

kvöld í Tryggvaskála.


Húsnæðismál bankans voru leyst með sérkennilegum hætti. Bankinn hafði eignast stórt verzlunarhús vestur í Búðardal og hafði húsið komið tilhöggið frá Noregi 1899. Sumarið 1919 var ákveðið að rífa húsið og flytja það austur að Selfossi og reisa það að nýju fyrir útibúið. Einar Einarsson smiður, sem byggði mörg stórhýsi í Reykjavík, þar á meðal Hótel Borg, var fenginn til verksins. Flutti hann timbrið úr húsinu á mótorbáti suður til Eyrarbakka, en þaðan var það flutt landleiðina á Selfoss. Um haustið var húsið komið upp, talsvert austar við Austurveginn en önnur hús á þeim tíma og í kjallara þess fékk prentsmiðja Þjóðólfs aðstöðu.


Gamla bankahúsið stendur enn í góðu gildi, beint á móti Landsbankahúsinu sem tók við hlutverkinu vorið 1953. Á þeim tíma starfaði greinarhöfundurinn í bankanum, nýsloppinn úr skóla, og var eftirminnilegt að kynnast vinnuaðferðum í gamla húsinu, þar sem menn stóðu við púlt og skrifuðu innlagnir og úttektir með penna í þykka doðranta.

Gísli Sigurðsson.


.


.

 

.
Skráð af Menningar-Staður

 

08.09.2014 11:34

Bræla á Bakkaskerjum

 

 

Siggeir ingólfsson að gefa Emil Hólm Frímannssyni söl af Bakkaskerjum í morgun. 
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Bræla á Bakkaskerjum

 

Þessa dagana viðrar ekki til sölvatekju við Eyrarbakka því brim er á Bakkaskerjum.

Annars er sjávarstaða hagstæð þessa dagana því stórstreymt er en bíða þar betra sjólags til þess að halda til sölvatekju á Sölva ÁR 150 á hin gjöfulu Bakkasker.

Vegna þessa var Emil Hólm Frímannsson, veðurathugar- áhrifamaðurmaður, sérstakur morgungestur í Alþýðuhúsinu að Stað á Eyrarbakka kl.  9 - 10.

 

 

F.v.: Ingólfur Hjálmarsson, Siggeir Ingólfsson og Emil Hólm Frímannsson.

Skráð af Menningar-Staður 

08.09.2014 08:54

Bókasafnsdagurinn 8. september 2014

 

 

Bókasafnsdagurinn 8. september 2014

 

Bókasafnsdagurinn á Bókasafni Árborgar Selfossi 8. september 2014

Í tilefni af Bókasafnsdeginum  hefur Bókasafnið sett upp sögusýningu í Listagjánni, þar má finna sögubrot ýmiss konar frá fyrstu tíð safnsins og fram á daginn í dag. Í boði er að prófa gömlu útlánavélina og skoða hvernig bækur voru rukkaðar inn árið 1984.

Hver lánþegi getur valið sér eina ókeypis bók með sér og auðvitað fylgir bókamerki með. Kaffi verður á könnunni og jafnvel eitthvað með því. Komið í safnið og njótið návist bókanna og sögunnar allt um lykjandi.

Opið frá kl. 10 – 19 alla virka daga og 11 – 14 á laugardögum.

Af www.arborg.is

Skráða f Menningar-Staður

08.09.2014 08:43

Úttekt á ásýnd þorpsins

 

Eyrarbakki. Ljósm.: Mats Wibe Lund.

 

Úttekt á ásýnd þorpsins

 

Við höfum samþykkt að óska eftir því við bæjaryfirvöld í Sveitarfélaginu Árborg að fenginn verði utanaðkomandi aðili til að gera úttekt á ásýnd þorpsins og því sem betur mætti fara í almennri umgengni þar.

Þá er ætlunin að hafa samband við önnur hverfisráð um samvinnu milli ráðanna í þessum efnum,“ segir Siggeir Ingólfsson, formaður hverfisráðs Eyrarbakka þegar hann var spurður um úttektina.

Þá má geta þess að ráðið fagnaði á síðasta fundi sínum gróðursetningu trjaá og rósa í þorpinu og hvetur til frekari gróðursetningar.

Af www.sunnlenska.is

Siggeir Ingólfsson.

Skráð af Menningar-Staður

08.09.2014 07:37

Séra Sveinn Valgeirsson kvaddur í gær

 


.

 

Séra Sveinn Valgeirsson í Gaulverjabæjarkirkju í gær.
Ljósm.: Vilbergur Prebensson.

 

 Séra Sveinn Valgeirsson kvaddur í gær

 

Síðustu messur sr. Sveins Valgeirssonar í Eyrarbakkaprestakalli voru í gær sunnudaginn 7. september 2014.

Í Stokkseyrarkirkju  kl. 11:00 og í Gaulverjabæjarkirkju  kl. 14:00.

Á eftir messunni í Gaulverjabæjarkirkju stóðu söfnuðirnir í prestakallinu standa fyrir sameiginlegu kveðjuhófi í Félagslundi  til heiðurs sr. Sveini og frú.

Vilbergur Prebensson á Eyrarbakka færði til myndar.

 


.


.
Skráð af Menningar-Staður

 

07.09.2014 06:28

Síðustu messur séra Sveins Valgeirssonar

 

Gaulverjabæjarkirkja: Sumar

Gaulverjabæjarkirkja.  Ljósm.: Kirkjukort.net.

 

Síðustu messur séra Sveins Valgeirssonar

 

Síðustu messur sr. Sveins Valgeirssonar í Eyrarbakkaprestakalli verða í Stokkseyrarkirkju, í dag sunnudaginn 7. september kl. 11:00 og í Gaulverjabæjarkirkju, í dag sunnudaginn 7. september kl. 14:00.

Á eftir messunni í Gaulverjabæjarkirkju munu allir söfnuðirnir í prestakallinu standa fyrir sameiginlegu kveðjuhófi í Félagslundi  til heiðurs sr. Sveini og frú.

Allir er hjartanlega velkomnir.

 

 


Skráð af Menningar-Staður

06.09.2014 21:01

70 ár frá falli Ölfusárbrúar


 

Ölfusárbrú þann 6. september 1944.
Ljósm.: Morgunblaðið


70 ár frá falli Ölfusárbrúar

6. september 1944

Annar burðarstrengur Ölfusárbrúar slitnaði.

Tveir bílar féllu í ána en bílstjórarnir björguðust, annar eftir að hafa borist tólf hundruð metra með straumþunganum.

Morgunblaðið laugardagurinn 6. september 2014 - Dagar Íslands - Jónas Ragnarsson.

Skráða f Menningar-Staður

05.09.2014 21:11

Fundur í Menningar-Sellunni

 

 

Siggeir Ingólfsson hefur orðið.

 

Fundur í Menningar-Sellunni


Nú stendur yfir kvöldfundur í Menningar-Sellunni að Ránargrund á Eyrarbakka.


Meðal Sellugesta er Siggeir Ingólfsson yfirstrandvörður Hrútavinafélagsins Örvars.

 

 

.

Skráð af Menningar-Staður

 

 

 

05.09.2014 07:02

Morgunkaffi í Alþýðuhúsinu á Eyrarbakka

 

 

 

Morgunkaffi í Alþýðuhúsinu á Eyrarbakka

 

Vinir alþýðunnar á Eyrarbakka gjöra kunnugt

að frá og með nú í septemberbyrjun 2014 eru kaffistundir í Alþýðuhúsinu í forsalnum í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka kl. 9:00 – 10:00 nær alla daga.

Allir hjartanlega velkomnir í morgunkaffi og í mannlífs- og menningarspjall.


Siggeir Ingólfsson staðarhaldari að Stað.

 


.

.


.
Skráð af Menningar-Staður

04.09.2014 13:05

Hjallastefnan hin nýja á Eyrarbakka 4. september 2014

 

 

Hjallastefnan hin nýja á Eyrarbakka 4. september 2014

Myndaalbúm er komið hér inná Menningar-Stað.

Smella á þessa slóð:

http://menningarstadur.123.is/photoalbums/265056/

N
okkrar myndir hér:

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður