Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Október

29.10.2014 08:01

Safnahelgin 30. október til 2. nóvember 2014

 

 

Safnahelgin 30. október til 2. nóvember 2014

 

Fyrstu helgina í nóvember stendur sunnlendingum og gestum þeirra margt til boða á svæðinu frá Selvogi í vestri til Hornafjarðar í austri, upp til sveita, niður að sjó og í Vestmannaeyjum en þá verður í sjöunda skipti efnt til Safnahelgar á Suðurlandi. Ýmislegt forvitnilegt verður í gangi í hinum fjölbreyttu söfnum (bókasöfn, listasöfn, minjasöfn og skjalasöfn), setrum og á sýningum. Það eru Samtök safna á Suðurlandi sem standa fyrir viðburðinum en hvatinn að stofnun þeirra var löngun til þess að efla og styrkja safnastarf á Suðurlandi, gera það sýnilegt, setja í samhengi og efna til víðtæks samstarfs.

Með málþinginu Safnið mitt – safnið þitt á opnunarhátíð safnahelgarinnar verður leitast við að draga fram hversu fjölbreytt starfsemi safna getur verið en söfnin og sýningar þeirra mætti nýta mun meira bæði í fræðslustarfi og sem spennandi valkost þegar kemur að því að velja afþreyingu hjá upptekinni þjóð, þar sem tíminn er eitt það dýrmætasta sem hver á. Safnaheimsókn býður upp á óformlegan námsvettvang þar sem safngesturinn ræður för og með því að ganga inn í heim sýninga gefst tækifæri til þess að spyrja sig spurninga og finna svör en skynjunin er einstaklingsbundin og fjölþætt.

Opnunarhátíðin verður fimmtudaginn 30. október í Versölum, Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn og á stutta málþinginu munu þau Sigurjón Baldur Hafsteinsson dósent í safnafræði við Háskóla Íslands, Þorsteinn Hjartarson fræðslufulltrúi Árborgar og Alma Dís Kristinsdóttir safnafræðingur flytja erindi um safna- og samfélagsmál. Einnig verða í hraðfréttastíl kynnt áhugaverð verkefni í barna- og fræðslustarfi nokkurra safna.

Allir eru velkomnir á opnunarhátíðina sem hefst klukkan 16:00. Í boði verða spennandi erindi, léttar veitingar og tónlistarflutningur. Í kjölfarið verða viðburðir um allt Suðurland fram til sunnudagsins 2. nóvember.

Hægt verður að skoða dagskrána á  www.sudurland.is og á www.facebook.com eða fá upplýsingar í næsta safni eða setri.
 

Samtök safna á Suðurlandi vona að sem flestir njóti þess sem er í boði.

 

Safnahelgi 2014 plakat

Af www.sass.is

 

Skráð af Menningar-Staður

29.10.2014 07:57

Sjötugsafmælistónleikar

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Þorvaldur Halldórsson bassasöngvari

með eiginkonu sinni, Margréti Scheving, á góðri stund.

 

Sjötugsafmælistónleikar

 

Söngvarinn Þorvaldur Halldórsson, sem býr á Selfossi, heldur upp á sjötugsafmæli sitt í kvöld, miðvikudaginn 29. október 2014, með afmælistónleikum í Grafarvogskirkju sem hefjast kl. 20.30.

Þorvaldur mun á þeim rifja upp helstu lögin af ferli sínum, allt frá fyrsta laginu sem hann söng opinberlega, lögin með hljómsveit Ingimars Eydal og til laga sem hann hefur samið og sungið allt til dagsins í dag, að því er fram kemur í tlkynningu. Má þar m.a. nefna lagið „Á sjó“ sem líklega er það þekktasta með Þorvaldi og aðeins á færi hyldjúpra bassa að ná neðstu tónunum í því.

Þorvaldur fæddist 29. október 1944 og á ættir sínar að rekja til Siglufjarðar. Árið 1965 söng hann sitt fyrsta lag inn á plötu, „Á sjó“, með hljómsveit Ingimars Eydal og sló í gegn. Platan seldist eins og heitar lummur og í kjölfarið fylgdu fleiri smellir, að því er fram kemur á vefnum Tónlist.is. Þorvaldur er enn virkur í tónlistarflutningi og þá einkum á kirkjulegum vettvangi.

Þorvaldur fær valinkunna söngvara og hljóðfæraleikara til liðs við sig í kvöld. Helena Eyjólfsdóttir mun taka lagið með honum og munu þau m.a. rifja upp nokkra dúetta. Sonur Þorvalds og nafni mun syngja á tónleikunum og eiginkona afmælisbarnsins, Margrét Scheving, Kristjana Stefánsdóttir, Gísli Magnason, Alla Þorsteins og Páll Magnússon. Á tónleikunum leikur hljómsveit og hana skipa Gunnar Gunnarsson á píanó og hljómborð, Jón Rafnsson á bassa, Sigurður Flosason á saxófón og klarinett, Jón Elvar Hafsteinsson á gítar og Hannes Friðbjarnarson á trommur.

Morgunblaðið miðvikudagurinn 29. október 2014

Skráð af Menningar-Staður

27.10.2014 22:50

Hús, tónlist, Vesturfarar og söguganga

 

Húsið á Eyrarbakka. Póstkort frá 1908. Ljósmynd/Byggðasafn Árnesinga

 

Hús, tónlist, Vesturfarar og söguganga

 

Útgáfuhátíð, vegleg tónlistardagskrá, sýningaropnun og söguganga verður á dagskrá safnanna á Eyrarbakka um Safnahelgina um næstu helgi, 30. október til 2. nóvember 2014.

Í Húsinu, Byggðasafni Árnesinga, verður vegleg tónlistardagskrá á laugardag kl. 15.00 þar sem Elín Gunnlaugsdóttir tónskáld færir gestum ljúfa tónlist um hús og fugla. Fyrri hluti dagskrár er í flutningi Hildigunnar Halldórsdóttur á fiðlu, Sigurðar Halldórssonar á selló og Arnar Magnússonar á píanó en eftir hlé syngur Gissur Páll Gissurarson við undirleik Arnar.

Fyrr um daginn fer Siggeir Ingólfsson í göngu með gesti og segir frá sjómannslífinu við ströndina. Gangan hefst við Sjóminjasafnið kl. 12.00.

Á sunnudag hefst dagurinn í Húsinu kl. 14.00 með kynningu á nýrri sýningu í safninu. Sagt verður frá fyrstu ferðum Vesturfara frá Suðurlandi og fólkinu sem skildi eftir sig fallega muni sem eru í vörslu safnsins.

Í dagslok verður boðið til samsætis kl. 16.00 vegna útgáfu bókarinnar Húsið á Eyrarbakka sem kom út í sumar. Lýður Pálsson safnstjóri og höfundur bókar mun kynna og lesa upp.

Enginn aðgangseyrir er á dagskráliði, heitt er á könnunni og kartöflukökur og útsæði verður í boði Hússins á sunnudag.

Tónlistardagskrá Elínar og Vesturfarasýning eru styrkt af Menningarráði Suðurlands.

 Siggeir Ingólfsson fer í göngu með gesti og segir frá sjómannslífinu við ströndina.
Gangan hefst við Sjóminjasafnið kl. 12.00 laugardaginn 1. nóvember 2014. 


Skráð af Menningar-Staður

27.10.2014 07:34

Merkir Íslendingar - Hallgrímur Pétursson

 

Hallgrímur Pétursson

Hallgrímur Pétursson

 

Merkir Íslendingar - Hallgrímur Pétursson

 

Hallgrímur Pétursson fæddist í Gröf á Höfðaströnd eða á Hólum í Hjaltadal árið 1614. Ekki er vitað um fæðingardag hans en hann lést á þessum degi, 27.10. 1674. Foreldrar hans voru Pétur Guðmundsson, umboðsmaður kirkjujarða Hólastóls í Fljótum og hringjari á Hólum, föðurbróðir Guðbrands Þorlákssonar biskups, og Sólveig Jónsdóttir.

Hallgrímur ólst upp á Hólum, lærði járnsmíði í Danmörku og kynntist Brynjólfi Sveinssyni, síðar biskupi, sem kom honum til náms í Frúarskóla.

Er Hallgrímur var í efsta bekk var hann fenginn til að uppfræða hóp Íslendinga sem voru á heimleið eftir að hafa lent í Tyrkjaráninu tæpum áratug fyrr. Þá tókust ástir með honum og Guðríði Símonardóttur, sem hann fór með heim til Íslands 1637 án þess að ljúka prófum. Þau bjuggu fyrst í litlu koti við Ytri-Njarðvík þar sem Hallgrímur vann hjá dönskum kaupmönnum. En Brynjólfur Sveinsson vígði hann til prests á Hvalnesi 1644. Hann fékk veitingu fyrir Saurbæ á Hvalfjarðarströnd 1651 og bjó þar lengst af, í nokkur ár á Kalastöðum og loks á Ferstiklu þar sem hann lést úr holdsveiki. Hallgrímur var höfuðskáld þjóðarinnar á 17du öld og er almennt talinn mesta trúarskáld Íslendinga. Frægasta verk hans eru Passíusálmarnir, 50 að tölu, ortir á árunum 1656-59, heimsfrægt bókmenntaverk, sem þýtt hefur verið á fleiri tungumál en önnur íslensk rit. Passíusálmarnir hafa verið lesnir í kirkjum landsins á lönguföstu um alda skeið.

Þeir hafa verið lesnir í Ríkisútvarpið í heild á föstunni frá 1944 og hafa margir þjóðþekktir Íslendingar komið þar við sögu. Sálmurinn sem Hallgrímur orti eftir Steinunni dóttur sína, Um dauðans óvissa tíma (Allt eins og blómstrið eina) hefur verið sunginn yfir nánast öllum Íslendingum fram á þennan dag.

Margt hefur verið ritað um Hallgrím og Passíusálmana á síðustu öld og Hallgrímskirkja í Saurbæ og sú á Skólavörðuholti bera nafn hans.

Morgunblaðið mánudagurinn 27. október 2014 - Merkir Íslendingar

 

Hallgrímskirkja í Saurbæ í Hvalfirði.

Hallgrímskirkja í Reykjavík sem teiknuð er af Eyrbekkingnum Guðjóni Samúelssyni.


Skráð af menningar-Staður

 

26.10.2014 21:32

Flottir tónleikar í Selfosskirkju 26. okt. 2014

 

Loftur Erlingsson, lengst til vinstri - stjórnandi Karlakórs Selfoss, setti tónleikastundina í Selfosskirkju.

 

Flottir tónleikar í Selfosskirkju 26. okt. 2014

 

Þýski sönghópurinn Camerata Musica Limburg var með frábæra og vel sótta tónleika í Selfosskirkju í kvöld, sunnudagskvöldið 26. október 2014.

Karlakórinn Camerata Musica Limburg var stofnaður árið 1999. Kórinn er skipaður 15 söngvurum og hefur starfað undir stjórn Jan Schumacher frá upphafi. Hópurinn var stofnaður af fyrrum félögum í drengjakór Dómkirkjunnar í Limburg þar sem lengi hefur ríkt sú hefð að fyrrum félagar taki höndum saman og stofni kammerkóra sem hafa oftar en ekki notið mikillar velgengni.

Menningar-Staður var einn menningarmiðla af svæðinu á tónleikunum og færði til myndar.

Myndaalbúm er komið hér á Menningar-Stað
Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/266466/

Nokkrar myndir hér:

.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

26.10.2014 16:06

Kaffihús eldri borgara í Hólmaröst á Stokkseyri

 

 

Mynd frá árinu 2005.

 

Kaffihús eldri borgara í Hólmaröst á Stokkseyri

 

Fiskvinnslan Hólmaröst að Hafnargötu 9 á Stokkseyri hélt opnu kaffihúsi fyrir eldri borgara af svæðinu á hverjum morgni í um hálfan áratug í byrjun þessarar aldar.

Nokkrar myndir eru til frá slíkum samkomum.

 

F.v.: Hörður Sigurgrímsson, Anna Guðrún Bjarnardóttir, Henning Fredriksen, Gyða Guðmundsdóttir, Guðrún Kristmannsdóttir, ???  ????, og Ingibjörg Magnúsdóttir.


Skráð af Menningar-Staður

26.10.2014 10:56

Menningardagur í íþróttahúsinu á Stokkseyri

 

alt

 

Menningardagur í íþróttahúsinu á Stokkseyri

 

Íþrótta- og menningarnefnd Árborgar ásamt Ungmennafélagi Stokkseyrar stendur fyrir menningardegi í íþróttahúsinu á Stokkseyri í dag sunnudaginn 26. október 2014 og hefst dagskráin kl. 15:00. 

Dagurinn verður tileinkaður Ungmennafélaginu og mun Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson leiða skemmtunina af sinni alkunnu snilld. Farið verður yfir sögu félagsins frá upphafi til dagsins í dag.

Ýmis atriði verða á dagskrá og munu börn og unglingar á ströndinni vera þar fremst í flokki í fimleikum, söng og leik.

Hulda Kristín Kolbrúnardóttir og Tómas Smári Guðmundsson verða með tónlistaratriði og margt skemmtilegt verður að sjá og heyra.

Kvenfélag Stokkseyrar verður með veitingasölu.

Enginn aðgangseyrir.
 

Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson.

Skráð af Menningar-Staður

26.10.2014 10:44

Lokadagur "Spor í sandi" í Listassafni Íslands

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Birgitta Spur,

ekkja Sigurjóns Ólafssonar frá Eyrarbakka.
 

Lokadagur "Spor í sandi" í Listasafni Íslands

 

Um helgina lýkur í Listasafni Íslands og Listasafni Sigurjóns Ólafssonar yfirlitssýningunni „Spor í sandi“ með verkum myndhöggvarans frá Einarshöfn á Eyrarbakka -Sigurjóns Ólafssonar- frá árunum 1936-1982.

 

Sýningarstjórinn Birgitta Spur verður með leiðsögn um sýninguna í dag, sunnudaginn 26. október 2014,  kl. 14.

 

Listasafn Íslands við Fríkirkjuveg í Reykjavík.

Skráð af Menningar-Staður
 

26.10.2014 09:19

Þýskur sönghópur í Selfosskirkju 26. okt. 2014 kl. 20

 

Camerata3postur

Þýskur sönghópur í Selfosskirkju sunnudaginn  26. okt. 2014 kl. 20

 

Þýski sönghópurinn Camerata Musica Limburg syngur í Selfosskirkju sunnudagskvöldið 26. október 204 kl. 20.

Þýski karlakórinn Camerata Musica Limburg var stofnaður árið 1999. Kórinn er skipaður 13 söngvurum og hefur starfað undir stjórn Jan Schumacher frá upphafi. Hópurinn var stofnaður af fyrrum félögum í drengjakór Dómkirkjunnar í Limburg þar sem lengi hefur ríkt sú hefð að fyrrum félagar taki höndum saman og stofni kammerkóra sem hafa oftar en ekki notið mikillar velgengni.

Á efnisskrá Camerata Musica Limburg má finna mikið af nýrri kórtónlist í bland við eldra og þekktara efni. Þar leynast því bæði klassískar perlur frá merkustu tímum tónlistarsögunnar og nýstárleg verk eftir suma af bestu tónskáldum heimsinns í dag auk fjölda skemmtilegra útsetninga af þekktri popp- og jazztónlist.

Kórinn hefur tekið þátt í í fjölda keppna og hátíða víða um Evrópu og hefur vægast sagt sópað að sér verðlaunum og viðurkenningum bæði í Þýskalandi og utan þess. Þar má meðal annars nefna fyrstu verðlaun í frönsku kórakeppninni Tours Vocal Competition Florilège Vocal árið 2006 og einnig í alþjóðlegri kórakeppni í Vlaanderen Maasmechelen í Belgíu árið 2007. Einnig sigraði kórinn í tveimur flokkum í kórakeppni í Bremen árið 2008 og síðast en ekki síst vann hann til verðlauna í keppni þýskra kóra sem fram fór í Dartmund árið 2010.

Vegna mikillar velgengni og góðs orðspors býðst kórnum oft tækifæri til að taka þátt í virtum hátíðum og keppnum um allan heim og hefur hann reglulega komið fram á stórum viðburðum sem sérstakur gestakór.

(frjáls framlög við kirkjudyr).
Skráð af Menningar-Staður

26.10.2014 07:40

Nítján ár liðin frá snjóflóðinu á Flateyri

 

Frá björgunaraðgerðum á Flateyri þann 26. október 1995.

.

Minningarsteinn við Flateyrarkirkju með nöfnum þeirra 20 sem fórust í snjóflóðinu 26. okt. 1995.

 

Vegna slyssins á Flateyri 

Við andvörpum hljóðlát en hugleiðum þó
hve höggið var mikið er byggðina sló.
Hún magnar sín áhrif svo orðlaus og skýr
sú allsherjar sorg er á Flateyri býr.


Og létt er að tárast á líðandi stund
og leita sem vinir á syrgjenda fund;
í harmanna tíbrá þau titra svo glöggt
þau tuttugu hjörtu sem brustu svo snöggt.


Við barnshjartað syrgjum er sviplega brast
og sjómannsins handtakið, öruggt og fast
og alla þá kosti sem fóru svo fljótt
í framhlaupi dauðans á skelfingarnótt.


Svo biðjum við Guð að hann gefi þann frið
sem græðir og líknar og una má við
Og alþjóðar samúð sé sýnileg gjörð
í sorginni miklu við Önundarfjörð.

 

Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld á Kirkjubóli, Bjarnardal í Önundarfirði

Nítján ár liðin frá snjóflóðinu á Flateyri

Nítján ár eru liðin frá snjóflóðinu á Flateyri þar sem tuttugu manns fórust aðfaranótt 26. október 1995. 

Meðal þeirra sem fórust var heil fjölskylda en tíu komust lífs af. Í janúar sama ár féll snjóflóð á miðja byggðina í Súðavík og tók með sér 15 íbúðarhús. Fórust 14 manns í því flóði.

Efnt var til söfnunar fyrir þá sem áttu um sárt að binda vegna flóðanna og var í kjölfarið reistur mikill snjóflóðavarnargarður fyrir ofan Flateyri.

Í frétt BB.is um flóðið segir að mikil fólksfækkun hafi orðið á Flateyri undanfarin ár en þó verði ekki séð að það sé tengt afleiðingum flóðsins. Rannsóknir sem hafi verið gerðar meðal þeirra sem lifðu flóðið af bendi til þess að nokkuð sé um áfallastreituröskun í hópnum en hún virðist meiri hjá þeim sem fluttu á brott eftir flóðið.

.

Flateyri við Önundarfjörð og varnargarðarnir ofan byggðarinnar.

 

Flateyri rúmum áratug fyrir snjóflóðóðið 26. október 1995.

Skráð af Menningar-Staður