Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Nóvember

27.11.2014 15:07

Fyrirlestur um áfallastjórnun í Fjölheimum á Selfossi

 

 

Ásthildur Bernharðsdóttir.

 

Fyrirlestur um áfallastjórnun í Fjölheimum á Selfossi

 

Frábær hádegisfyrirlestur Ásthildar Bernharðsdóttur um áfallastjórnun var  í Fjölheimum á Selfossi í dag, fimmtudaginn 27. nóvember 2014.

Ræddi hún um snjóflóð og sérstaklega í Súðavík og Flateyri árið 1995, jarðskjálfta og aðrar hamfarir, og þann lærdómi sem má draga af þeim miklu rannsóknum sem unnar hafa verið í þessum efnum.

Góð mæting og fróðlegar umræður.

 

Vestfirðingurinn (Önfirðingurinn) Ásthildur Bernharðsdóttir hefur starfað s.l. þrjú ár við Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði  á Selfossi .

Síðustu 15 ár hefur Ásthildur komið að rannsóknum og kennslu á sviði áfallastjórnunar. Hún hefur sinnt rannsóknum í Svíþjóð og í Bandaríkjunum og leitt hóp íslenskra fræðimanna sem rannsökuðu viðbúnað og viðbrögð vegna íslenskra áfalla.

Ásthildur hefur kennt áfallastjórnun fyrir meistaranema í opinberri stjórnsýslu og í alþjóðasamskiptum við háskólann í Syracuse, Bandaríkjunum. Þar kom hún að uppbyggingu áfallabanka sem nær til áfalla sem snerta starfsemi fyrirtækja, stofnana, samtaka og/eða samfélaga.

 


Frá fyrirlestrinum í Fjölheimum í dag. Ljósm.: Hrafnkell Guðnason. 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

27.11.2014 09:00

Upplestur í Sunnlenska bókakaffinu í kvöld. 27. nóv. 2014

 

Finnbogi Hermannsson mun lesa um sauðaþjófa sem segir frá í bókinni -Illur fengur-.

 

Upplestur í Sunnlenska bókakaffinu í kvöld. 27. nóv. 2014

 

Annað upplestrarkvöld haustsins í Bókakaffinu við Austurveg á Selfossi verður fimmtudagskvöldið 27. nóvember  2014.

Húsið verður opnað klukkan 20, en lestur hefst hálftíma síðar og verður lokið stundvíslega klukkan hálf tíu en þá gefst tækifæri til skrafs við rithöfunda og þeir sem þess óska geta fengið áritaðar bækur. 


Fimmtudagskvöldið 27. nóvember mæta eftirtaldir:

Kristín Steinsdóttir sem les úr nýrri bók sinni Vonarlandið

Guðrún Guðlaugsdóttir les úr spennusögunni Beinahúsið

Jóhanna S. Hannesdóttir kynnir bók sína 100 heilsuráð til langlífis

Ófeigur Sigurðsson les úr bók sinni Öræfi

Bjarni Harðarson kynnir bók sína Króníka úr Biskupstungum

Finnbogi Hermannsson les um sauðaþjófa sem segir frá í bókinni Illur fengur.

Margrét Þ. Jóelsdóttir les úr bókinni Ódáinsepli. 


 

Stuttir og snarpir leskaflar og góð stund á eftir til skrafs og kakódrykkju.

 

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

 

.

 Skráð af Menningar-Staður
 

27.11.2014 07:42

Merkir Íslendingar - Friðrik Bjarnason

 

Friðrik Bjarnason

 

Merkir Íslendingar - Friðrik Bjarnason

 

Friðrik fæddist í Götu í Stokkseyrarhreppi 27. nóvember 1880.

Faðir hans, Bjarni Pálsson, var forsöngvari og fyrsti organleikari í Stokkseyrarkirkju, en hann drukknaði 29 ára.

Kona Friðriks var Guðlaug Pétursdóttir kennari sem lést 1966. Þau eignuðust eina dóttur sem lést ung. Guðlaug var skáldmælt og samdi Friðrik lög við ýmis ljóða hennar, s.s. héraðssöng Hafnfirðinga: Þú hýri Hafnarfjörður.

Friðrik ólst upp við mikið söng- og tónlistarlíf á Stokkseyri, fékk sína fyrstu tilsögn í orgelspili hjá frændum sínum á Stokkseyri, stundaði tónlistarnám í Reykjavík frá 1899, lauk kennaraprófi frá Flensborg 1904, og lærði orgelleik hjá frænda sínum, Sigfúsi Einarssyni tónskáldi frá Eyrarbakka. Þá stundaði hann nám við kennaraháskólann í Kaupmannahöfn 1913 og kynnti hann sér söngkennslu í Noregi og Svíþjóð.

Friðrik kenndi fyrir austan fjall í fjögur ár eftir útskrift, var alhliða kennari og síðar söngkennari og kórstjóri við barnaskóla Hafnarfjarðar 1908-45, kenndi einnig söng við Flensborgarskóla 1908-21 og stýrði þar skólakór. Hann stofnaði ýmsa kóra, s.s. Karlakórinn Þresti 1912, sem er elsti karlakór á Íslandi, og kvennakórinn Erlur, 1918, var orgelleikari við Garðakirkju 1914 en á jólaföstu það ár var Hafnarfjarðarkirkja vígð og tók hann þá við organleikarastarfi þar og stjórnaði kirkjukórnum til 1950 er hann sagði starfinu lausu.

Friðrik var þó þekktastur sem tónskáld. Árið 1918 komu út tvö fyrstu og einhver þau þekktustu af lögum hans: Fyrr var oft í koti kátt, og Hafið, bláa hafið, sem urðu landfleyg. Af tónsmíðum hans hafa komið út nokkur sönglagahefti og 10 orgellög. Auk þess gaf hann út, einn eða með öðrum, sjö hefti af skólasöngvum og handbók söngkennara. Loks tók hann og Páll Halldórsson saman Nýtt söngvasafn handa skólum og heimilum, 1949.

Friðrik og Guðlaug áttu mörg spor um óbyggðir Reykjanesskagans og þekktu þar vel örnefni og náttúru. Friðrik lést 28. maí 1962.

Morgunblaðið fimmtudagurinn 27. nóvember 2014.

Árið 2012 var a­hjúpaður minn­is­varði til­einkaður Friðriki Bjarna­syni tón­skáldi þegar liðin voru 50 ára frá and­láti Friðriks. Það eru for­svars­menn Karla­kórs­ins Þrasta sem eiga heiður­inn af minn­is­varðanum en hann var sett­ur upp við Hafn­ar­fjarðar­kirkju í sam­ráði við Hafn­ar­fjarðarbæ.

 

Skráð af Menningar-Staður

26.11.2014 22:02

Húsfylli í jólabingói Kvenfélags Eyrarbakka

 

.

 

Húsfylli í jólabingói Kvenfélags Eyrarbakka

 

 Árlegt jólabingó Kvenfélags Eyrarbakka var haldið í kvöld, miðvikudaginn 26. nóvember 2014 í Samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka við húsfylli.

 

Bingóið hefur lengi verið ein helsta fjáröflun kvenfélagsins og afar vel sótt enda um hina bestu skemmtun að ræða.

 Mörg fyrirtæki hafa að venju stutt félagið með góðum gjöfum.  Ágóðanum verður varið til stuðnings við stofnanir og einstaklinga í sveitarfélaginu.

 

Menningar-Staður færði til myndar og eru komnar 43 myndir í myndaalbúm á Menninga-Stað.

Smella á þessa slóð:
http://menningarstadur.123.is/photoalbums/267065/

 

Nokkrar myndir hér:

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

26.11.2014 10:27

Tilnefningar til Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2014

 

Siggeir Ingólfsson.

 

Tilnefningar til Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2014

Alls bárust 122 tilnefningar um 75 aðila

 

Á alþjóðadegi fatlaðra þann 3. desember 2014 veitir Öryrkjabandalag Íslands Hvatningarverðlaun sín, í áttunda sinn. Verðlaunin eru veitt þeim sem hafa stuðlaða að einu samfélagi fyrir alla. Verndari verðlaunanna er Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson. Hönnuður verðlauna er Þórunn Árnadóttir, vöruhönnuður.

Meðal þeirra 75 aðila sem voru tilnefndir var Siggeir Ingólfsson, staðarhaldari að Stað á Eyrarbakka fyrir aðgengið á útsýnispallinn á sjóvarnargarðinum við Stað.

Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum, flokki einstaklinga, flokki fyrirtækja/stofnana og flokki umfjöllunar/kynningar.

 

Eftirtaldir hlutu tilnefningu til verðlauna:
 

Í flokki einstaklinga:

Ólafur Helgi Móberg, fyrir að láta ekki fordóma hindra sig í lífi og starfi.  
Ólafur Ólafsson, fyrir að helga líf sitt íþróttum fatlaðs fólks.
Snorri Már Snorrason, fyrir verkefnið „Þín hreyfing - þinn styrkur".

 

Í flokki fyrirtækis/stofnunar:

Greiningar- og ráðgjafarstöðin, fyrir ritun bókarinnar „Litróf Einhverfunnar“.
Háskóli Íslands, fyrir starfstengt diplómanám fólks með þroskahömlun.
Vin athvarf, fyrir rekstur athvarfs fyrir fólk með geðraskanir.

 

Í flokki umfjöllunar/kynningar:

Arnar Helgi Lárusson, fyrir frumkvæði að átakinu „Aðgengi skiptir máli“.
Borgarleikhúsið, fyrir að opna heim leikhússins fyrir fötluðu fólki.
Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Guðrún Hjartardóttir, fyrir erindi sitt „Af hverju er barnið mitt ekki úti að éta sand“.

Dómnefnd hefur hafið störf og Hvatningarverðlaun ÖBÍ 2014 verða afhent við hátíðlega athöfn í Silfurbergi, Hörpu á alþjóðadegi fatlaðra 3. desember.

Tengill á verðlaunahafa síðastliðinna 7 ára.

 

.

Skráð af Menningar-Staður

26.11.2014 07:38

Jólabingó Kvenfélags Eyrarbakka 26. nóvember 2014

 

 

Jólabingó Kvenfélags Eyrarbakka 26. nóvember 2014

 

Árlegt bingó Kvenfélags Eyrarbakka verður haldið miðvikudaginn 26. nóvember 2014 kl. 20:00 í Samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka.

Bingóið hefur lengi verið ein helsta fjáröflun kvenfélagsins og afar vel sótt enda um hina bestu skemmtun að ræða.

Spjaldið kostar 500 krónur. Mörg fyrirtæki hafa að venju stutt félagið með góðum gjöfum.

Ágóðanum verður varið til stuðnings við stofnanir og einstaklinga í sveitarfélaginu.

Kvenfélagskonur vona að sem flestir sjái sér fært að mæta og skemmti sér og sínum á hollan máta þetta miðvikudagskvöld.

Afraksturinn fer á góða staði.

 

Skráð af Menningar-Staður

25.11.2014 07:13

Samvinnuferðin - landsferð. Afmælisferð Hrútavinafélagsins á INN - 3. þáttur kominn á Netið

 

 

Samvinnuferðin - landsferð. Afmælisferð Hrútavinafélagsins á INN  

3. þáttur  kominn á Netið

 

 

Smella á slóðina:

http://www.inntv.is/Horfa_a_thaetti/Stormad_um_Hafnarfjord/?play=112705435

 

- Samvinnuferðin  landsferð-  Þátttakendur

 

Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi fór hreint magnaða ferð hringinn um Ísland á fyrstu helginni í október,  ( 2. – 5. október 2014) -Samvinnuferðin – landsferð-

Tilgangur ferðarinnar var að koma Gorbachev, uppstoppuðum verðlaunahrút - forystusauð frá Brúnastöðum í Flóa norður í Þistilfjörð þar sem hann mun gleðja safngesti á Fræðasetri um forystufé að Svalbaði í Þistilfirði.

Helstu driffjaðrir þessa voru þeir Guðni Ágústsson, heiðursforseti Hrútavinafélagsins Örvars  og fyrrum landbúnaðarráðherra, Björn Ingi Bjarnason forseti Hrútavinafélagsins Örvars á Eyrarbakka og Níels Árni Lund í Landbúnaðrráðuneytinu,  frá Miðtúni rétt norðan Kópaskers.

 

Farið var í rútu frá Allrahanda í boði eigenda; Sigurdórs Sigurðssonar og Þóris Garðarssonar frá Flateyri.

 

Þátttakendur í ferðinnu voru:

 
  1. Guðni  Ágústsson – Reykjavík

  2. Margrét Hauksdóttir – Reykjavík

  3. Níels Árni Lund – Reykjavík  

  4. Björn Ingi Bjarnason - Eyrarbakka

  5. Guðmundur Jón Sigurðsson – Reykjavík - bílstjóri

  6. Jón Hermannsson - Flúðum

  7. Kristján Runólfsson - Hveragerði

  8. Þórður Guðmundsson – Hólmi, Stokkseyri

  9.  Hendrik Tausen - Garði

10. Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson - Stokkseyri

11. Guðbergur Guðnason – Reykjavík -  bílstjóri

12.  Gunnar Haraldsson  Kistuholti 5 - Blásksógabyggð  

13. Óskar Halldórsson-  Krossi – Lundarreykjadal – Borgarfirði

14. Ólafur Pétursson -  Hveragerði

15.  Sigurður Sigurðarson - Selfossi 

16.  Ólöf Erla Halldórsdóttir – Selfossi

17. Magnús Ólafsson – Sveinsstöðum í Húnavatnssýslu

18. Ari Björn Thorarensen – Selfossi

19. Ingvar Sigurðsson – Selfossi

20. Jóhannes Kristjánsson – Reykjavík -  eftirherma

21. Sigurður Þ. Ragnarsson - Hafnarfirði  frá INN og sýnt í nóv. 2014
22. Hólmfríður Þórisdóttir – Hafnarfirði frá INN og sýnt í nóv. 2014

 

Einnig komu af Suðurlandi  á eigin vegum:

23. Tryggvi Ágústsson – Selfossi

24. Helgi S. Haraldsson – Selfossi
25. Haraldur Sveinsson – Hrafnkelsstöðum við Flúðir
26. Gunnar Einarsson Selfossi

 

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

24.11.2014 07:06

Samvinnuferðin - landsferð. Afmælisferð Hrútavinafélagsins á INN - Lokaþáttur

 
 

Hólmfríður Þórisdóttir og Sigurður Þ. Ragnarsson taka upp fyrir INN í Hrútavinaferðinni um Ísland.

 

Samvinnuferðin - landsferð. Afmælisferð Hrútavinafélagsins á INN  

- Lokaþáttur

Samvinnuferðin - landsferð. Afmælisferð Hrútavinafélagsins á INN

4. þáttur af 4

 

Frumsýning 4. þáttar: Í kvöld mánudag 24. nóv. 2014 kl. 21:30 á ÍNN - endursýndur sama kvöld 23:30.

 

Þá er þátturinn sýndur allan þriðjudaginn 25. nóv. á tveggja tíma fresti kl. 7:30, 9:30, 11:30, 13:30, 15:30, 17:30 og 19:30.

 

Síðan sunnudaginn 30. nóv. 2014 kl. 15:30. 

 

 

.

.

.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

24.11.2014 07:00

Merkir Íslendingar - Halldóra Eldjárn

 

Halldóra Eldjárn

 

Merkir Íslendingar - Halldóra Eldjárn

 

Halldóra Kristín Ingólfsdóttir Eldjárn forsetafrú fæddist á Ísafirði 24.nóvember 1923.

Hún ólst þar upp, elst fjögurra systkina. Foreldrar hennar voru hjónin Ólöf Sigríður Jónasdóttir húsfreyja og Ingólfur Árnason, verslunarmaður og framkvæmdastjóri.

Ingólfur var sonur Árna Árnasonar, verslunarmanns á Ísafirði, og Halldóru Ólafsdóttur frá Ósi í Bolungarvík. Ólöf Sigríður var fædd á Fossá á Barðaströnd, dóttir Jónasar Guðmundssonar og Petrínu Helgu Einarsdóttur.

Halldóra lauk gagnfræðanámi á Ísafirði, hóf nám við Verslunarskóla Íslands og lauk þaðan verslunarprófi 1942. Hún stundaði síðan skrifstofustörf í Reykjavík uns hún giftist Kristjáni Eldjárn þjóðminjaverði árið 1947. Þau hófu búskap í Reykjavík og urðu börn þeirra fjögur. Ólöf Eldjárn, ritstjóri og þýðandi, Þórarinn Eldjárn, skáld og rithöfundur, Sigrún Eldjárn, rithöfundur og myndlistarmaður, og Ingólfur Árni Eldjárn tannlæknir.

Halldóra varð forsetafrú er eiginmaður hennar, Kristján Eldjárn, var kjörinn þriðji forseti Íslands 30.6. 1968. Kristján var endurkjörinn forseti án atkvæðagreiðslu 1972 og 1976. Hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs 1980 og lést 14.9. 1982. Eftir það starfaði Halldóra í nokkur ár hjá Orðabók Háskólans.

Sem forsetafrú ávann Halldóra sér almenna virðingu og vinsældir með hógværð sinni, alþýðlegu viðmóti og alúðlegri framkomu. Við fráfall hennar sendi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, samúðarskeyti til fjölskyldunnar. Þar segir m.a.: „Halldóra Eldjárn naut ætíð mikillar virðingar meðal þjóðarinnar og Íslendingar sameinast um að heiðra minningu hennar. Hún stóð við hlið eiginmanns síns, Kristjáns Eldjárn forseta Íslands, af ábyrgð og skyldurækni, mótaði heimilisbrag á Bessastöðum, heimsótti byggðir landsins og var ásamt Kristjáni virtur fulltrúi þjóðarinnar. Með hógværð sinni og alúð markaði hún djúp spor í sögu hins unga lýðveldis.“

Halldóra lést 21.desember 2008.

Morgunblaðið mánudagurinn 24. nóvember 2014 - Merkir Íslendingar

 

Kristján Eldjárn og Halldóra Eldjárn fyrir utan Alþingishúsið daginn sem Kristján lét af embætti.

 

Skráð af Menningar-Staður

24.11.2014 06:51

Eyþór Arnalds framkvæmdastjóri Strokks Energy - 50 ára

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Eyþór og Dagmar Una

 

Viðburðarík hálf öld

Eyþór Arnalds framkvæmdastjóri Strokks Energy – 50 ára

 

Eyþór fæddist í Reykjavík 24.11. 1964 og ólst þar upp, í Árbæjarhverfi til 1976 og síðan í Vesturbænum. Hann var í Árbæjarskóla og Hagaskóla, stundaði nám við MH og lauk þaðan stúdentsprófi 1984.

Eyþór byrjaði að læra á blokkflautu fimm ára hjá einkakennara, lærði á fiðlu við Tónskóla Sigursveins frá sex ára aldri, lærði á trompet frá níu ára aldri, lærði síðan á selló hjá Gunnari Kvaran frá 16 ára aldri og lauk burtfararprófi í sellóleik 1988 og lokaprófi í tónsmíðum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1988 en lokaverkefni hans var flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Eyþór var í lögfræði við HÍ um skeið, lauk MBA-prófi frá HR og hefur stundað nám við stjórnendaskóla Harvard Business School.

Frumlegur tónlistarmaður

Eyþór söng með hljómsveitinni Tappa Tíkarass 1978-81 ásamt með Björk Guðmundsdóttur, Eyjólfi Jóhannssyni og Jakobi Smára Magnússyni meðal annars í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík, lék með hljómsveitinni Todmobile 1989-93 ásamt Þorvaldi B. Þorvaldssyni og Andreu Gylfadóttur. Hljómsveitin kom með nýjan tón í innlendri popptónlist þess tíma, var afar vinsæl, kom fram víða um land og sendi frá sér fjórar hljómplötur. Hún kom aftur saman árið 2003, ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Eyþór samdi mörg lög á þessum árum og stjórnaði upptökum á hljómplötum ýmissa listamanna.

Eyþór starfaði hjá OZ á árunum 1993-98, var forstjóri Íslandssíma (nú Vodafone) 1998-2002, var framkvæmdastjóri hjá Enpocket hér á landi og í Bretlandi 2002-2006 en félagið var svo selt til Nokia. Hann hefur verið framkvæmdastjóri Strokk Energy frá stofnun þess, 2007. Fyrirtækið hefur staðið að ýmsum stórum iðnaðarverkefnum, s.s. Becromal á Akureyri og stendur að uppbyggingu kísilmálverksmiðjunnar ThorSil í Helguvík.

Sigursæll stjórnmálamaður

Eyþór var varaborgarfulltrúi í Reykjavík 1998-2002 og sat m.a. í hafnarstjórn Reykjavíkur, menningarmálanefnd, fræðsluráði og atvinnumálanefnd. Hann sat í bæjarstjórn Árborgar 2006-2014, var formaður bæjarráðs 2010-2014, formaður skipulags-, umhverfis- og bygginganefndar. Hann var oddviti sjálfstæðismanna í Árborg frá 2006 er flokkurinn jók fylgi sitt úr 24% í 40,1% og síðan í 50,1% árið 2010. Þá var hann kosningastjóri listans og sat í heiðurssæti hans á þessu ári er flokkurinn komst í 51 % fylgi.

Áhugamálin snúast að sjálfsögðu um tónlist og stjórnmál. En einhver önnur áhugamál hjá Eyþóri?

„Ég hreyfi mig reglulega, annaðhvort í ræktinni eða fer í göngutúra. Ég lít hins vegar ekki á hreyfinguna sem brennandi áhugamál. Hún er frekar hluti af þess að viðhalda heilbrigði og vellíðan.

Ég var sílesandi vísindanörd á æskuárunum, gleypti í mig ævisögur, skáldsögur, Tom Swift-bækurnar og bækur um stjarneðlisfræði.

Ég er enn við sama heygarðshornið og les t.d. það sem ég kemst yfir um gervigreind. Ég er hins vegar hættur í vísindaskáldsögunum. Vísindin sjálf eru svo spennandi í dag að þau jafnast á við skáldsögur.“

Fjölskylda

Eiginkona Eyþórs er Dagmar Una Ólafsdóttir, f. 1.6. 1981, jógakennari. Foreldrar hennar eru Ólafur Gústafsson, f. 12.1. 1942, rafeindavirki í Reykjavík, og Ólína Klara Jóhannsdóttir, f. 26.2. 1947, fyrrverandi starfsmaður hjá Flugleiðum.

Börn Eyþórs og Dagmarar eru Jón Starkaður Laxdal Arnalds, f. 26.12. 2007; Þjóðrekur Hrafn Laxdal Arnalds, f. 13.7. 2009.

Börn Eyþórs frá því áður eru Ari Elías Arnalds, f. 20.1. 2001, og Guðrún Sigríður Arnalds, f. 15.10. 2003.

Systir Eyþórs er Bergljót Arnalds, f. 15.10. 1968, rithöfundur.

Foreldrar Eyþórs: Jón Laxdal Arnalds, f. 28.1. 1935, d. 2.1. 2011, ráðuneytisstjóri og borgardómari, og Sigríður Eyþórsdóttir, f. 21.8. 1940, kennari og leikstjóri.

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Morgunblaðið mánudagurinn 24. nóvember 2014.


 

Skráð af Menningar-Staður