Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Desember

15.12.2014 07:44

Af vettvangi Byggðasafns Árnesinga

 

Húsið á Eyrarbakka.  Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Af vettvangi Byggðasafns Árnesinga

 

Uppbygging í Kirkjubæ, útgáfa nýrrar bókar um Húsið á Eyrarbakka og ný sýning um sunnlenska vesturfara er það sem efst er á baugi hjá Byggðasafni Árnesinga um þessar mundir. Einnig er Húsið á Eyrarbakka að verða 250 ára og verður haldið upp á það næsta sumar.

 

Ritstjóri Dagskrárinnar fór á leit við mig að ég gerði lesendum grein fyrir starfsemi Byggðasafns Árnesinga um þessar mundir. Það geri ég hér með þessu greinarkorni og vona að lesendur verði einhvers  vísari um starf safnsins.

Grunnsýning og aðalaðsetur safnsins er í Húsinu á Eyrarbakka, gömlu faktorsetri sem er í hópi elstu húsa landsins, byggt fyrir danska kaupmenn á 18. öld. Í Húsinu á Eyrarbakka er hægt að fræðast um merka sögu Hússins, sem í raun var höfðingjasetur sérstaklega á tímum Lefolii-feðga, danskra kaupmanna sem áttu verslunina á tímum gamla íslenska bændasamfélagsins.  Lefolii hafði vinsæla faktora fyrir sig árið um kring, fyrst Guðmund Thorgrímsen og síðar Peter Nielsen. Í Húsinu á Eyrarbakka bjó verslunarstjóri stærstu verslunar landsins á þeim tímum þegar dönsk áhrif voru ríkjandi á íslenskt mannlíf. Í Húsinu mættust því tveir menningarheimar, annarsvegar dönsk borgarmenning og hinsvegar íslensk bændamenning. Húsið var landsfrægt fyrir íbúa þess og áhrifa þeirra á mannlífið en á sviði tónlistar reis reisn Hússins hæst og fjölmargar frásagnir og sögur til um tónlistarleg áhrif frá Húsinu.  Hnignun var í verslun á 3. áratug síðustu aldar, húsið hætti að hýsa kaupmenn og fjölskyldur þeirra. Hjónin Ragnhildur Pétursdóttir og Halldór Kr. Þorsteinsson frá Háteigi í Reykjavík björguðu þá Húsinu frá niðurrifi árið 1932. Það var síðan í eigu þeirra um margra áratuga skeið. Viðbygginguna til hliðar við Húsið, Assistentahúsið leigðu þau gjarnan út og þar bjó um skeið Guðmundur Daníelsson rithöfundur og skólastóri. Eftir lát Háteigshjónanna erfði dóttirin Ragnhildur Sceoch Húsið. Hún seldi hjónunum Auðbjörgu Guðmundsdóttur og Pétri Sveinbjarnarsyni Húsið árið 1979. Ríkissjóður eignaðist Húsið árið 1992 og frá 1995 hefur Byggðasafn Árnesinga verði með starfsemi sína þar. 

Sjóminjasafnið á Eyrarbakka
Byggðasafn Árnesinga sér um rekstur Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka fyrir Sveitarfélagið Árborg. Það var stofnað af Sigurði Guðjónssyni frá Litlu-Háeyri og í hans einkaeigu til 1987 að hann gaf það Eyrarbakkahreppi.  Í Sjóminjasafninu á Eyrarbakka er sögð saga atvinnuvega við Ströndina með áherslu á Eyrarbakka en sjóminjar eru þar í öndvegi með áraskipið Farsæl sem aðal sýningargrip.  Beitingaskúrinn við Óðinshús tilheyrir einnig starfi safnsins og er hafður til sýnis. Sjóminjasafninu tilheyrir jafnframt Mundakotsskemma sem nýtt er sem geymsla fyrir safnið – en skemman þarfnast viðhalds. 
Jafnframt er Byggðasafn Árnesinga aðili að rekstri Rjómabúsins á Baugsstöðum og varðveitir muni Þuríðarbúðar á Stokkseyri. 

Bók um Húsið 
Í sumar kom út bókin Húsið á Eyrarbakka sem samin var af undirrituðum.  Bókin segir sögu íbúanna í  Kaupmannshúsinu á Eyrarbakka frá árinu 1765 til dagsins í dag og tengir við sögu samfélagsins í heild. Bókin er afrakstur rannsókna yfir langt tímabil og inn í fróðlega sagnfræði er flétt skemmtilegum frásögnum og viðburðum úr sögu Hússins. Bókinni hefur verið tekið fagnandi enda margir beðið eftir slíku riti. Bókin er í stóru broti, prýdd fjölda ljósmynda, litprentuð og á 80 síðum. Sylvía Kristjánsdóttir sá um hönnun og umbrot en Oddi prentaði. Byggðasafn Árnesinga gefur bókina út. Safnið naut styrkja frá Safnasjóði og Kaupmannasamtökum Íslands. 

Vesturfarasýning
Í haust var opnuð sýning um Sunnlenska vesturfara.  Þar er greint frá Vesturheimsferðum allt frá Bjarna Herjólfssyni til Halldórs Einarssonar frá Brandshúsum. Upphaf Vesturheimsferða má rekja til Hússins á Eyrarbakka en danskur verslunarþjónn fór um 1865 vestur um haf og skrifaði gamla vinnuveitandannum sínum á Eyrarbakka bréf þar sem hann lýsti dásemdum þess að flytja til Vesturheims. Fór það svo að tveir hópar fóru frá Eyrarbakka árin 1870 og 1872 og voru það fyrstu skipulögðu ferðir vestur um haf.  Hildur Hákonardóttir hefur haft umsjón með uppsetning sýningarinnar ásamt starfsfólki safnsins. Sýningin byggir á heimildum, ljósmyndum og munum sem tileyrðu nokkrum velvöldum vesturförum og greint er frá aðstæðum og lífi vesturfaranna.  Á sýningunni er einn af öndvegisgripum safnsins sem er líkkistuklæði Ingibjargar Jónsdóttur Guðmundsson frá Gaulverjabæ  fædd 1874, dáin Í Kaliforníu árið 1964. Þegar leið að leiðarlokum Ingibjargar fór hún að vinna líkkistuklæði  sem hún gerði ásamt börnum sínum og skreyttu það með þurrkuðum jurtum frá Stóra-Núpi sem sr. Valdimar Briem hafði sent henni. 

Kirkjubær
Stærsta verkefnið framundan hjá safninu er uppbygging sýningar í húsinu Kirkjubæ sem stendur skammt austan Hússins á Eyrarbakka.  Kirkjubær var byggður  1920 og er dæmigert alþýðuhús  byggt af vanefnum af fátæku verkafólki. Í Kirkjubæ verður sýning sem sýnir inní heim alþýðufólks um 1930 og verður gott mótvægi við höfðingjaheimilið Húsið sem er aðalsýningarhúsnæði og næsti nágranni við Kirkjubæ. Sýningin verður samtvinningur af hefðbundinni uppsetningu á heimili og sýningu með vísun á veröldina utan veggja heimilis. Þannig gefst safninu gott færi til að varpa fram áhugaverðum gripum í breiðu samhengi  og ákveðið frelsi við framsetningu. Sýning hefur fengið vinnuheitið „Hús draumanna“ sem er vísun í það mikla umrót sem var í samfélaginu í kringum 1930. Stefnt er að opnun Kirkjubæjar vorið 2015.  Safnið hefur notið arfs Helga Ívarssonar frá Hólum við uppbyggingu Kirkjubæjar.  

250 ára afmæli Hússins
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Húsið á Eyrarbakka var byggt.  Það gerðist árið 1765 að til Eyrarbakkahafnar kom skip hlaðið viðum í hús sem reisa átti handa kaupmanni svo að hann gæti haft vetursetu á verslunarstaðnum.  Fram að því var viðvera kaupmanna í samræmi við komu fuglana, þeir komu á vorin og fóru á haustin. Með því átti að efla verslunarstaðina og koma upp vísi að borgarmenningu.  Jens Lassen hét fyrsti kaupmaðurinn í Húsinu en hann var mikill bóndi en síður kaupmaður og sagður hafa selt bændum maðkað mjöl 1768 eins og aðrir kaupmenn það árið.  Í tilefni 250 ára afmælis Hússins verður boðað til afmælishátíðar á komandi sumri þar sem sögunni og menningunni verða gerð góð skil í tali og tónum. 

Að lokum
Að lokum langar mig til að greina í stuttu máli frá því sem gerist innan veggja safnsins og er ekki sýnilegt almenningi.  Við safnið fer fram stöðug söfnun á munum sem vert er að varðveita.  Er það í samræmi við hlutverk safnsins samkvæmt stofnskrá en þar segir:„Hlutverk Byggðasafns Árnesinga er að safna, skrá, varðveita, forverja og rannsaka minjar um byggða-, menningar- og atvinnusögu Árnessýslu og kynna þær almenningi.“ Safnað er eftir söfnunarstefnu. Skráð er í gagnagrunninn Sarp sem sýnilegur er á www.sarpur.is. Þannig er að safnið tekur stöðug á móti gripum sem vert er að varðveita.  Þá gripi sem við höfum ekki á sýningum hverju sinni varðveitum við í við framúrskarandi skilyrði í þjónustuhúsi safnsins. Safnið hefur miðlað á sýningar í Héraðinu og er að finna gripi frá safninu í Geysisstofu, Þjórsárstofu og fleiri stöðum en jafnframt eru langtímamarkmið safnsins að koma upp nýrri sýningaraðstöðu á Eyrarbakka.

Eyrarbakka 1. desember 2014
Lýður Pálsson, safnstjóri

Af www.dfs.is

 

.

.

Skráð af Menningar-Staður

14.12.2014 22:49

Flutti ræðuna sofandi á Eyrarbakka

 


Jón Baldvin Hannibalsson f.v. formaður Alþýðuflokksins.

 

Flutti ræðuna sofandi á Eyrarbakka

 

Jón Baldvin Hannibalsson hélt alls um 100 fundi vítt og breytt um landið eftir að hann var kjörinn formaður Alþýðuflokksins, til að kynna stefnuskrá sína. Bryndís Schram eiginkona hans var oft með í för.

 

Daginn fyrir fundinn á Eyrarbakka höfðu nokkrir ungkratar komið í heimsókn til þeirra á Vesturgötuna í Reykjavík og setið þar að þjarki fram undir morgun. Voru þau hjón því lítt sofin er þau héldu austur fyrir fjall. Bryndís gætti þess að setjast aftast í fundarsalnum og steinsofnaði undir orðum Jóns Baldvins. Ekki hafði hún dvalist lengi í draumheimum er hún heyrir það gegnum svefninn að ekki er allt með felldu. Hún opnar því augunog sér að maður hennar stendur sofandi bak við ræðupúltið. En hann þagnaði ekki, þótt hann svæfi, heldur flutti ræðuna yfir fullum sal og enginn virtist verða nokkurs áskynja, segir Bryndís Schram í ævisögu sinni um þetta atvik.

Úr bókinnni  -Vestfirskir stjórnmálamenn í blíðu og stríðu-
Vestfirska forlagið á Þingeyri gefur út.

 

 

Hjónin Bryndís Schram og Jón Baldbin Hannibalsson á góðri stund árið 1990.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Skráð af Menningar-Staður

 

14.12.2014 06:49

Vestfirskir stjórnmálamenn í blíðu og stríðu

 

 

 

Vestfirskir stjórnmálamenn í blíðu og stríðu
Leyninúmer desembermánaðar hjá Vestfirska forlaginu

í tilefni 20 ára afmælis forlagsins

 

Er hér um að ræða sama tóbak og er í bókinni Vestfirskir sjómenn í blíðu og stríðu: Kímilegar og auðvitað meira og minna sannar alþýðusögur af Vestfirðingum.

Þessi bók er að sjálfsögðu gefin út til heiðurs vestfirskum stjórnmálamönnum eins og sjómannabókin er gefin út til heiðurs blessuðum sjómönnunum okkar. Þessar umræddu bækur eru einkum ætlaðar þeim sem hafa gaman af að brosa, hlæja eða jafnvel reka upp rokur einstaka sinnum.

 

Hláturinn lengir lífið segja sérfræðingarnir!

 

Vestfirska forlagið 20 ára.

http://vestfirska.is/index.php/is/

Skráð af Menningar-Staður

14.12.2014 06:39

Jólamarkaður í Orgelsmiðjunni við bryggjuna á Stokkseyri

 

 

Jólamarkaður í Orgelsmiðjunni við bryggjuna á Stokkseyri

 

Um síðustu helgi var opnaður jólamarkaður í Orgelsmiðjunni á Stokkseyri. Markaðurinn tókst ljómandi vel og verður hann opinn aftur um komandi helgi þ.e. laugardaginn 13. desember og sunnudaginn 14. desember 2014.

Góð jólastemning var og kunnu gestir vel að meta það sem á boðstólum var. Unglingakór Selfosskirkju kom í heimsókn og söng nokkur lög.
 

Um þessa helgi verður boðið upp á jólatónlist í flutningi ýmissa tónlistarmanna báðar daga kl. 15:00. Stefnt er að notalegri stemmningu. Vöruúrvalið verður vandað handverk úr verkstæði Orgelsmiðjunnar, vörur úr nágrenninu, frá Þýskalandi, Pakistan og að hluta til með áherslu á tónlist.


.

.

.

Skráð af Menningar-Staður
 

13.12.2014 20:59

Inga Lára með ljósmyndaleiðsögn í Þjóðminjasafninu 14. des. 2014

 

Inga Lára Baldvinsdóttir.
 

Inga Lára með ljósmyndaleiðsögn í Þjóðminjasafninu 14. des. 2014

 

Á morgun, sunnudaginn 14. desember 2014 klukkan 14 verður Inga Lára Baldvinsdóttir með lokaleiðsögn um sýninguna „Svipmyndir eins augnabliks –  Ljósmyndir Þorsteins Jósepssonar“  í Myndasal Þjóðminjasafnsins. 

Sýningunni lýkur um áramót.

Safn Þorsteins (1907-1967) er eitt heildstæðasta einkasafn sem varðveitt er í Þjóðminjasafninu. 
 

Þjóðminjasafn Íslands við Suðurgötu í Reykjavík.


Skráð af Menningar-Staður

 

13.12.2014 07:20

13. desember 1992 - Orgel Hallgrímskirkju í Reykjavík var vígt

 

Í Hallgrímskirkju í Reykjavík sem Eyrbekkingurinn Guðjón Samúelsson teiknaði.

 

13. desember 1992 - Orgel Hallgrímskirkju í Reykjavík var vígt

 

Orgel Hallgrímskirkju í Reykjavík var vígt þann 13. desember 1993.

Það er stærsta hljóðfæri á Íslandi, 17 metrar á hæð, vegur 25 tonn og í því eru 5.200 pípur.

Kostnaður við smíðina nam tæpum 100 milljónum króna.

 

Morgunblaðið laugardagurinn 13. desember 2014 - Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson

 Hallgrímskirkja Eyrbekkingsins Guðjóns Samúelssonar.

Guðjón Samúelsson.


Skráð af Menningar-Staður 

13.12.2014 07:11

13. desember 1922 - Hannes Hafstein lést, 61 árs

 

.


Hannes Hafstein - fæddur 4. desember 1861 - dáinn 13. desember 1922

 

13. desember 1922 - Hannes Hafstein lést, 61 árs

 

Hannes Hafstein lést, 61 árs þann 13..  desember 1022.

Hann var ráðherra frá 1904 til 1909 og aftur frá 1912 til 1914. Meðal ljóða hans eru Sprettur (Ég berst á fáki fráum) og Stormur.

Útförin var gerð með mikilli viðhöfn.

Minnisvarði um Hannes var afhjúpaður við Stjórnarráðshúsið 1. desember 1931.

 

Morgunblaðið laugardagurinn 13. desember 2014 - dagar Íslands - Jónas Ragnarsson


Skráð af Menningar-Staður

 

 

12.12.2014 22:23

Í Rauða-Húsið á Eyrarbakka á Sjónvarpsstöðinni N4

 

 

Í Rauða-Húsið á Eyrarbakka á Sjónvarpsstöðinni N4

 1. hluti - Smella á þessa slóð:
http://www.n4.is/is/thaettir/file/rauda-husid-eyrarbakka
 

2. hluti - Smella á þessa slóð:

http://www.n4.is/is/thaettir/file/jol-i-arborg/1

 

3. hluti - Smella á þessa slóð:

http://www.n4.is/is/thaettir/file/bokautgafa/1

 

4. hluti - Smella á þessa slóð:
http://www.n4.is/is/thaettir/file/jol-a-eyrarbakka

 

.

 

Skráð af Menningar-Staður.

11.12.2014 16:29

Fokfréttir á Bakkanum

 

.

Hjallastefnan við Stað fauk til hálfs. Siggeir Ingólfsson setti upp húfu því hatturinn fauk.

.

 

 

Fokfréttir á Bakkanum

 

Bakkamenn eru nokkuð sammála um að óveðrið  sem lék um Eyrarbakka nú  eftir helgina væri mun verra en  óveðrið sem var hér á dögunum.

Merki þessa er m.a. að Hjallastefnan við Félagsheimilið Stað fauk um koll að hálfu en hafði nokkuð verið styrkt frá því sem var.

Þá tapaði Siggeir Ingólfsson hatti sínum er hann kom út úr Ásheimum og virtist hatturinn taka flugið til hafs.

Við leit í dag fannst hatturinn síðan við Beitingaskúrinn við sjóvarnargarðinn og hafði skorðast á einhvern hátt við –glóðarhausinn- sem þar stendur.


 

.

Siggeir Ingólfsson og hið ótrúlega að finna hattinn aftur eftir fokið.

.

 

 

Skráð af Menningar-Staður 

11.12.2014 10:19

Afslöppun í sveitabúðinni Sóley

 

 

Sveitabúðin Vöruúrvalið er fjölbreytt og Sóley Andrésdóttir vill að gestum líði vel.

 — Morgunblaðið/Árni Sæberg

 

Afslöppun í sveitabúðinni Sóley

   • Viðskiptavinir í bústörfin, lesa, borða og kaupa

 

Sveitabúðin Sóley á bænum Tungu í Flóahreppi er öðruvísi en aðrar verslanir. „Það er alltaf opið þegar ég er heima,“ útskýrir Sóley Andrésdóttir, kaupmaður og bóndi.

Verslunin er 10 ára um þessar mundir en hjónin Sóley og Björgvin Njáll Ingólfsson hafa búið á jörðinni, sem er um sjö km fyrir austan Stokkseyri og um 16 km fyrir sunnan Selfoss, í 12 ár. Björgvin starfar á höfuðborgarsvæðinu og Sóley segist hafa viljað skapa sér vinnu á staðnum. Við íbúðarhúsið hafi verið byggður bílskúr sem hafi alltaf verið notaður sem kartöflugeymsla. Þar hafi hún átt sér þann draum að vera með textílverkstæði en síðan hafi kviknað sú hugmynd að opna sveitaverslun og hún byrjað að flytja inn gjafavörur frá Danmörku. „Það var engin sveitabúð eins og þessi á Íslandi og hugmyndin varð að veruleika.“

Slakað á í sveitinni

Sóley og Björgvin hafa gert ýmislegt á bænum. Fyrstu árin tóku hjónin börn í sveit, þau hafa boðið hópum upp á súpu og brauð og eru nú með um 30 ær, nokkur hross og hænur. Í búðinni er fjölbreytt úrval af erlendri og innlendri gjafavöru, krem, sælgæti og fleira. „Það er mikilvægt að vera með mikið vöruval. Búðin er í jólabúningi núna en ég klæði hana í búning eftir árstíðum,“ segir Sóley og bætir við að búðin sé ekki síst vinsæl á vorin. Þá kíki fólk í sauðburðinn og líti svo í búðina á eftir. „Þetta er pínulítið sveitalúðalegt en ég vil að umhverfið sé afslappað og mér er sagt að það sé mjög slakandi að koma hingað. Þá er markmiðinu náð því aðalatriðið er að fólk vindi aðeins ofan af sér.“

 

Sóley segir að búðin hafi alla tíð gengið vel. „Ég á tryggan hóp yndislegra viðskiptavina og fólk veit að hverju það gengur. Ég hef aldrei fengið ákúrur fyrir að vera ekki heima,“ segir hún og bætir við að fólk hringi gjarnan á undan sér og líka ef það komi að læstum dyrum. Þá hinkri það bara á hlaðinu þar til hún komi og opni. „Margir koma hérna og dunda sér í rólegheitum, fá sér jólaglögg og piparkökur og jafnvel bita af sauðalæri, kíkja í blöð í sólstofunni og gera síðan góðu kaupin.“

Morgunblaðið fimmtudagurinn 11. desember 2014

 

 

Fyrir nokkrum árum í Tungu.

F.v.: Hannes Sigurðsson á Hrauni í Ölfusi og Tunguhjónin Sóley Andrésdóttur og Björgvin Njáll Ingólfsson. 
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 


Skráð af Menningar-Staður