Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Desember

08.12.2014 23:37

8. desember 1980 - John Lennon var skotinn til bana

 

 

 8. desember 1980 -  John Lennon var skotinn til bana

 

Hinn vinsæli tónlistarmaður og friðarsinni John Lennon féll í valinn þennan dag árið 1980. Það var geðsjúkur aðdáandi, Mark David Chapman að nafni, sem skaut hann fjórum skotum í bakið fyrir utan Dakota-bygginguna í New York, þar sem Lennon og Yoko Ono kona hans bjuggu. Þau voru að koma úr hljóðveri þar sem þau höfðu varið nokkrum klukkutímum í upptökur á nýju lagi Ono. Lennon hafði gefið Chapman eiginhandaráritun sama dag.

Eftir árásina lagði Chapman frá sér byssuna og settist á gangstéttina þar sem lögregla handtók hann. Lennon var fluttur á Roosevelt-sjúkrahúsið, en sökum mikils blóðmissis lést hann á leiðinni þangað. Strax og fréttinni af láti hans var útvarpað safnaðist fólk saman fyrir utan heimili hans, baðst fyrir, söng lög hans og kveikti á kertum.

Fréttablaðið mánudagurinn 8. desember 2014

Skráða f Menningar-Staður
 

08.12.2014 23:00

Merkir Íslendingar - Rafn Jónsson

 

Rafn Jónsson.

 

Merkir Íslendingar - Rafn Jónsson

 

Rafn Jónsson tónlistarmaður fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 8. desember 1954. Foreldrar hans voru Ragna Sólberg, lengi starfsmaður Pósts og síma á Ísafirði, og Jón Snorri Jónsson, sjómaður og harmónikkuleikari.

Stjúpfaðir og vinur Rabba var Guðmundur H. Gíslason skipstjóri.

Eftirlifandi eiginkona Rabba er Friðgerður Guðmundsdóttir, sérkennari og vöruhönnuður, og eru synir þeirra Egill Örn tónlistarmaður, Ragnar Sólberg tónlistarmaður og Rafn Ingi nemi, en dóttir Rabba og Halldóru Gunnlaugsdóttur frá Hvilft í Önundarfirði, og stjúpdóttir Friðgerðar, er Helga Rakel kvikmyndagerðarkona.

Rabbi ólst upp á Suðureyri til fimm ára aldurs og síðan á Ísafirði, lauk gagnfræðaprófi á Ísafirði, stundaði kjötiðnaðarnám við Iðnskólann þar, lærði á ásláttarhljóðfæri hjá Pétri Östlund í Stokkhólmi 1980-81 og stundaði nám við KHÍ 1990-92.

Rabbi stundaði lengst af verslunarstörf með tónlistarstarfinu en frá 1985 varð tónlistin hans aðalstarf. Hann stofnaði hljómsveitina Perluna 1967, lék með hljómsveitunum Náð og Ýr, var síðan trommari í fjölmörgum vinsælum hljómsveitum, m.a. Haukum, og stofnandi hljómsveitanna Danshljómsveit Vestfjarða, Grafík, Bítlavinafélagið, Sálin hans Jóns míns og Galíleó.

Eftir Rabba liggur fjöldi platna með þeim hljómsveitum sem hann lék með, þrjár sólóplötur og upptökur með fjölda tónlistarmanna.

Í ársbyrjun 1988 greindist Rabbi með MND-hreyfitaugahrörnun sem yfirleitt dregur sjúklinga til dauða á fáum árum. Rabbi barðist við sjúkdóminn af miklu æðruleysi í átján ár og hætti aldrei sinni tónlistarsköpun.

Eftir greininguna sneri hann sér í auknum mæli að upptökustjórnun, átti og rak upptökustúdíóið Hljóðhamar 1991-94 og R&R; músík frá 1994. Hann stofnaði MND-félagið árið 1993, var formaður þess frá upphafi til dánardags og vann mikið að réttindamálum tónlistarmanna..

Rabbi lést 27. júní 2004.

Morgunblaðið mánudagurinn 8. janúar 2014 - Merkir ÍslendingarGrafík

Skráð af Menningar-Staður

07.12.2014 21:05

Opinn fundur áhugafólks um eldsmíði 7. des. 2014

 

 

Ragnar Gestsson á Eyrarbakka fer fyrirr áhugamannahópnum og er hér með framsögu á fundinum.

 

 

Opinn fundur áhugafólks um eldsmíði 7. des. 2014

haldinn í Rauða-Húsinu á Eyrarbakka                                

 

Eldsmíði er í hugum margra horfin iðn – ein margra – sem fengu náðarhöggið í kringum iðnbyltinguna og dóu síðan Drottni sínum með aukinni fjöldaframleiðslu allra hluta.

Engu að síður hefur hópur fólks tekið sig saman og ætlar að stofna samtök áhugafólks um eldsmíði.

Stofnfundurinn átti að vera sl. sunnudag en var frestað vegna veðurs.

Fyrir iðngrein sem hefur legið svona lengi í dvala munar engu um viku til eða frá.

 

Stofnfundurinn er því haldinn á Rauða-Húsinu á Eyrarbakka í kvöld,  sunnudaginn 7. desember 2014 og hófst  kl. 20:00.

Menningar-Staður var við upphaf fundarins og færði til mynar:

 

.

.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

 

07.12.2014 20:51

Húsfylli í Húsinu á Eyrarbakka 6. des. 2014

 

 

 

Húsfylli í Húsinu á Eyrarbakka 6. des. 2014

 

Húsfylli var þegar lesið var úr jólabókum í stofunni í Húsinu á Eyrarbakka í dag, laugardaginn 6. desember 2014.
 

Rithöfundarnir:
Guðrún Guðlaugsdóttir las úr skáldsögu sinni Beinahúsið og
Eggert Þór Bernharðsson kynnti búskap í Reykjavík á 20. öld með bókinni Sveitin í sálinni. 

Gestir fengu að heyra meira frá Reykjavík í samtímasögu Ingibjargar Reynisdóttur - Rogastans og
lesið var úr uppvaxtarsögu Jóhönnu Kristjónsdóttur - Svarthvítir dagar.

Gömlu jólatrén skörtuðu sínu fegursta og kaffi- og kökuilmurinn fyllti eldhúsið í kaffíhléi.
 

Menningar-Staður var í Húsinu og færði til myndar.40 myndirir eru komnar í myndaalbúm hér á Menningar-Stað.

Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/267236/


Nokkrar myndir hér:

 

 

.


.

 

.

.

.

.

 

.

 

.

.

 

.

 

.

.

Skráð af Menningar-Staður

 

06.12.2014 07:17

Merkir Íslendingar - Kristján Eldjárn

 

Kristján Eldjárn.

 

Merkir Íslendingar - Kristján Eldjárn

 

Kristján Eldjárn fæddist á Tjörn í Svarfaðardal 6. desember 1916.

Foreldrar hans voru Þórarinn Kristjánsson Eldjárn, bóndi og kennari á Tjörn, og k.h., Sigrún Sigurhjartardóttir húsfreyja.

Eiginkona Kristjáns var Halldóra Eldjárn, f. 24.11. 1923, d. 21.12. 2008, húsfreyja og forsetafrú, en börn þeirra eru Ólöf Eldjárn, ritstjóri og þýðandi, Þórarinn Eldjárn, skáld og rithöfundur, Sigrún Eldjárn, rithöfundur og myndlistarmaður, og Ingólfur Árni Eldjárn, tannlæknir.

Kristján lauk stúdentsprófi frá MA 1936, stundaði nám í fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla 1936-39, lauk meistaraprófi í íslenskum fræðum frá HÍ 1944 og doktorspróf þaðan 1957 en doktorsritgerð hans fjallaði um kuml og haugfé í fornum sið á Íslandi.

Kristján var afkastamikill höfundur um fornleifar og fornleifarannsóknir á Íslandi. Meðal rita hans eru Gengið á reka, 1948; Stakir steinar, 1959; Hundrað ár í Þjóðminjasafni, 1962, og Hagleiksverk Hjálmars í Bólu, 1975. Auk þess hafði hann umsjón með vinsælum sjónvarpsþáttum, Munir og minjar, á upphafsárum ríkissjónvarpsins.

Kristján var kennari við MA og Stýrimannaskólann um skeið, varð safnvörður við Þjóðminjasafn Íslands 1945, var skipaður þjóðminjavörður 1947 og gegndi því embætti þar til hann var kjörinn þriðji forseti íslenska lýðveldisins 30. júní 1968. Hann var endurkjörinn án atkvæðagreiðslu 1972 og 1976 en lét af embætti árið 1980.

Kristján var merkur fræðimaður, virtur og vinsæll forseti, alþýðlegur í fasi og einstakt prúðmenni. Hann sýndi festu og stillingu á erfiðum stjórnarkrepputímum sem mæddu mjög á embætti hans um skeið, var skemmtilegur í viðkynningu og prýðilega hagmæltur eins og sonur hans og þeir frændur ýmsir úr Svarfaðardalnum. Hann var heiðursdoktor við háskólana í Aberdeen, Lundi, Odense, Bergen, Leningrad og Leeds.

Kristján Eldjárn lést 14. september 1982.

Morgunblaðið laugardagurinn 6. desember 2014 - Merkir Ísledingar


 

Skráð af Menningar-Staður

06.12.2014 06:19

Bókaupplestur og jólasýning í Húsinu 6. des. 2014

 

Mynd: Bókaupplestur og jólasýning í Húsinu

Ljúf jólastemning verður í Byggðasafni Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn  6. desember. Lesið verður úr jólabókum í stofunni, gömlu jólatrén skarta sínu fegursta og kaffi- og kökuilmurinn fyllir eldhúsið. Fjórir rithöfundar koma og lesa úr verkum sínum kl. 16.00.  Guðrún Guðlaugsdóttir les úr skáldsögu sinni Beinahúsið og Eggert Þór Bernharðsson kynnir búskap í Reykjavík á 20. öld með bókinni Sveitin í sálinni. Gestir fá að heyra meira frá Reykjavík í samtímasögu Ingibjargar Reynisdóttur  Rogastans og í uppvaxtarsögu  Jóhönnu Kristjónsdóttur Svarthvítir dagar.
Jólasýning verður opin frá kl 14.00, skáldin byrja að lesa kl. 16.00 og kaffihlé verður í miðri dagskrá. Allir velkomir og enginn aðgangeyrir.

.

 

Bókaupplestur og jólasýning í Húsinu á Eyrarbakka 6. des. 2014

 

Ljúf jólastemning verður í Byggðasafni Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka í dag, laugardaginn 6. desember 2014.

Lesið verður úr jólabókum í stofunni, gömlu jólatrén skarta sínu fegursta og kaffi- og kökuilmurinn fyllir eldhúsið.

Fjórir rithöfundar koma og lesa úr verkum sínum kl. 16.00:

Guðrún Guðlaugsdóttir les úr skáldsögu sinni Beinahúsið og

Eggert Þór Bernharðsson kynnir búskap í Reykjavík á 20. öld með bókinni Sveitin í sálinni.

Gestir fá að heyra meira frá Reykjavík í samtímasögu Ingibjargar Reynisdóttur Rogastans og

í uppvaxtarsögu Jóhönnu Kristjónsdóttur Svarthvítir dagar.


Jólasýning verður opin frá kl 14.00, skáldin byrja að lesa kl. 16.00 og kaffihlé verður í miðri dagskrá.

 

Allir velkomir og enginn aðgangeyrir.

 

. 

Skráð af Menningar-Staður
 

06.12.2014 05:58

Stokkseyringurinn Alexandra Eir kylfingur ársins hjá GOS

 


Alexandra Eir Grétarsdóttir á Stokkseyri var valin kylfingur ársins hjá Golfklúbbi Selfoss.

 

Stokkseyringurinn Alexandra Eir kylfingur ársins hjá GOS

 

Stokkseyringurinn Alexandra Eir Grétarsdóttir var valin kylfingur ársins á aðalfundi GOS sem fram fór fyrir skömmu. Alexandra er frábær íþróttamaður sem hefur náð góðum árangri og sýnt miklar framfarir á þessu ári enda gríðarlega duglega við æfingar. Alexandra er fyrst kvenna í GOS til að vera valin kylfingur ársins. Hún fékk einnig Háttvísibikar GSÍ.

Á aðalfundinum voru einnig veittar viðurkenningar fyrir framfarir og ástundun. Eftirtaldir kylfingar hafa verið duglegir að mæta á æfingar og náðu miklum framförum í sumar: Heiðrún Anna Hlynsdóttir, Þóranna Ýr Guðgeirsdóttir, Petra Grétarsdóttir, Sverrir Óli Bergsson og Heiðar Snær Bjarnason.

Aron Emil Gunnarsson var valinn efnilegasti unglingurinn þetta árið en Aron á framtíðina fuyrir sér eins og margir aðrir í hans flokki. Heiðrún Anna Hlynsdóttir fékk síðan viðurkenningu fyrir mesta lækkun á forgjöf hjá GOS 2014, en Heiðrún lækkaði úr 35,9 í 18,3 og geri aðrir betur.

Af www.dfs.is

 

Skráð af Menningar-Staður

05.12.2014 18:25

Þjóðlagasveitin Korka í Orgelsmiðjunni í kvöld - 5. des. 2014

 

Þjóðlagasveitni Korka.

 

Þjóðlagasveitin Korka í Orgelsmiðjunni í kvöld - 5. des. 2014

 

Í ár verður í fyrsta skipti haldinn jólamarkaður í Orgelsmiðjunni, Hafnargötu 9, við bryggjuna á Stokkseyri. Stefnt er að notalegri stemningu og verður nokkrum sinnum tónlistaflutningur. Vöruúrvalið verður vandað handverk úr verkstæði Orgelsmiðjunnar, vörur úr nágrenninu, frá Þýskalandi, Pakistan og að hluta til með áherslu á tónlist. Margt mun koma á óvart og eru allir hjartanlega velkomnir.

Jólamarkaður opnar formlega föstudaginn 5. desember 2014 kl. 20:00 þegar þjóðlagasveitin Korka stígur á stokk. Miðaverð er kr. 1500.-. Þjóðlagasveitin er klædd í anda víkingatímans og er öllum sem mæta í víkingafatnaði boðið aðgengi á 700 kr. Frítt er fyrir börn yngri en 14 ára. Tónleikagestum býðst að kaupa geisladisk Korku (Bak við fjöllin) á 1.000 kr.

Þjóðlagasveitin KORKA er skipuð tónlistarfólki af Suðurlandi. Sveitin leitar aftur um aldir í lagavali, búningum og nafngift. Uppistaðan í efnisskránni eru íslensk þjóðlög, en sveitin ferðast að auki um slóðir víkinga og leikur m.a. þjóðlög frá Noregi, Írlandi og Mið-Evrópu. Birgit Myschi útsetur flest laganna, önnur eru flutt eins og hefðin býður og erlend þjóðlög hafa fengið íslenska texta. Með nafni KORKU er vísað í Laxdælasögu, en þar er hin þunna lína milli alþýðu og aðals persónugerð í írsku ambáttinni og konungsdótturinni Melkorku Mýrkjartansdóttur.

Jólamarkaðurinn verður opinn laugardag og sunnudag 6.–7. og 13.–14. desember kl. 14:00–18:00. Jólatónlist í flutningi ýmissa tónlistarmanna verður alla dagana kl. 15:00

 

Sikráð af Menningar-Staður 

05.12.2014 16:47

Kosta jákvæða þætti um eigið sveitarfélag

 

Selfoss við Ölfusá er í Sveitarfélaginu Árborg.  Ljósm.: Mats Wibe Lund.

18. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2014-2018, haldinn fimmtudaginn 4. desember 2014 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10. 

 4. 1412006 – Samstarf Árborgar og N4 sjónvarps um þátttöku í þáttaröðinni Að sunnan
Bæjarráð samþykkir að taka þátt í verkefninu, en kostnaður við það er 500.000 kr. Alls verða gerðir 24 hálftímalangir þættir fyrir sveitarfélögin á Suðurlandi sem verða þátttakendur í verkefninu.

 

Kosta jákvæða þætti um eigið sveitarfélag

 

Sjónvarpsstöðin N4 býður sunnlenskum sveitarfélögum að fá umfjöllun í þáttaröð þar sem mannlíf og atvinnulíf staðanna verður sýnt í jákvæðu ljósi svo framarlega sem sveitarfélögin borgi hálfa milljón króna og verði verktökum N4 innanhandar.

Sveitarfélögum á Suðurlandi stendur nú til boða að kaupa sig inn í þáttaröð þar sem sjónvarpsstöðin N4 ætlar að fjalla um sveitarfélögin á jákvæðan hátt.

"N4 leggur áherslu á dagskrárgerð fremur en beinskeyttar fréttir. Við teljum að með því að fjalla heiðarlega um samfélagið, þá bætum við ímynd og sjálfsmynd svæðanna sem fjallað er um," segir í bréfi sem María Björk Ingvadóttir sendi fyrir hönd N4 til bæjaryfirvalda í Ölfusi.

Þáttaröðin hefur fengið heitið "Að sunnan". N4 stefnir að því að öll fimmtán sveitarfélögin á Suðurlandi verði með og að gerðir verði 24 hálftíma þættir. N4 er nú þegar með svipaða þætti frá Norðurlandi og Austurlandi. Það er þættirnir "Að norðan" og "Glettur".

Markmið þáttanna segir María Björk í bréfinu meðal annars vera að "stuðla að aukinni og jákvæðri umfjöllun um atvinnulíf og mannlíf á svæðinu" og "styðja við aukin umsvif hjá þeim sem bjóða vöru og þjónustu á svæðinu ".  Sömuleiðis að "stuðla að jákvæðri ímyndarsköpun og sjálfsmynd íbúa gagnvart Suðurlandi".

Fram kemur hjá Maríu Björk að Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi ætli að tryggja aðstöðu fyrir þáttargerðarfólk í Frumkvöðlasetri samtakanna. Fjögur sveitarfélög í uppsveitum Árnessýslu hafi þegar ákveðið að vera með og ætli að leggja að lágmarki hálfa milljón króna hvert í þættina "og tryggja þannig umfjöllun um uppsveitirnar í þáttunum".

Bæjarstjórn Ölfuss samþykkti samhljóða á síðasta fundi sínum að semja við N4. Auk þess að greiða sjónvarpsstöðinni hálfa milljón króna skuldbindur sveitarfélagið sig til þess að "vera verktökum á vegum N4 sem annast þáttagerðina innanhandar með upplýsingaöflun og tillögur að efni og tilnefnir tvo til þrjá bakhjarla til þess", eins og segir í bréf N4. "Þá er ekkert því til fyrirstöðu að einstaka sveitarfélög geti gert viðbótarsamning um enn frekari umfjöllun."


Fréttablaðið föstudagurinn 5. desember 2014

Skráð af Menningar-Staður

05.12.2014 07:45

Stormurinn í þáttagerð

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Sigurður er skemmtilegur maður og nær að skila þeim skemmtilegheitum heim í stofu fólks.

Hann hefur dregið fjölskylduna með sér í þáttagerð á ÍNN.

Frúin er framleiðandi og sonurinn klippir þættina.

 

Stormurinn í þáttagerð

• Sigurður Þ. Ragnarsson í miðju stormsins á ÍNN

 

Sigurður Þ. Ragnarsson, betur þekktur sem Siggi Stormur, og kona hans Hólmfríður Þórisdóttir, eru fólkið á bak við þættina Stormað um sem vakið hefur athygli á ÍNN. Þátturinn er á mánudagskvöldum en Sigurður er nýbúinn að ljúka sýningum á fjögurra þátta seríu um Hrútavinafélagið Örvar þar sem hann ferðaðist um landið með þeim Guðna Ágústssyni og Jóhannesi Kristjánssyni eftirhermu og fleirum. „Þeir þorðu ekki annað en að hafa veðurfræðing með sér því þeir voru svo hræddir við veðrið á Holtavörðuheiðinni,“ segir Sigurður sem festi á filmu meðal annars hinstu för forustuhrútsins Gorbatsjovs og hrútadaga á Raufarhöfn. „Fyrir mig var þetta ferðalag háskóli og ég skil landsbyggðina miklu betur. Ég víkkaði sjóndeildarhringinn og þetta segir manni að maður á ekki að þykjast hafa vit á einhverju sem maður hefur ekkert vit á. Ég er vitrari maður – það er betra,“ segir hann og hermir eftir Guðna Ágústssyni. Það er ekki leiðinlegt að tala við Sigurð.

„Ég hafði migið í saltan sjó en ekki í flórinn,“ segir hann og hlær.

 

Stormurinn á Spáni

Næstu skref þeirra hjóna verða þáttaröð um Íslendinga sem staddir eru á Spáni en Sigurður hefur lengi haft annan fótinn þar í landi. „Ég skildi hinn fótinn meira að segja eftir síðast. Ég er eins mikið á Spáni og ég get og þættirnir voru klipptir á spænskri ströndu.

Ég fer um Íslendingabyggðir á austurströndinni og þarna ætla ég að reyna að varpa fram myndum af fólki sem hefur verið að fjárfesta á Spáni. Þó að það hafi áður verið fjallað um Spánverja hefur ekki verið fjallað um Íslendinga á Spáni.“

Hólmfríður er framleiðandi þáttanna og segir Sigurður að hann hlýði í einu og öllu. „Við erum búin að vera með kvikmyndabúnað í svolítinn tíma og mitt hlutverk í þessum þáttum er að finna sniðugt mannlíf. Mér finnst voðalega gaman að gera það sem er gaman – og þetta er gaman. Þessi hrútaferð til dæmis fannst mér alveg æðisleg.

Ég var 18 ár á stóru stöðvunum, RÚV og Stöð2 og þar lærði maður smá undirstöðutökin enda vann ég með miklum meisturum. Þegar öllu var á botninn hvolft þá kunni ég merkilega mikið. ÍNN er búið að klófesta mig ef svo má segja og ég er með fjölda verkefna þar. Það er mikil gróska á ÍNN og mér finnst þessi hugmyndavinna og annað í kring skemmtilegt umhverfi – í miðjum storminum.“

Morgunblaðið föstudagurinn 5. desember 2014

 

 

Hjónin Hólmfríður Þórisdóttir og Sigurður Þ. Ragnarsson.

 

Sameinast í áhugamáli

Sigurður og Hólmfríður hafa verið gift í 24 ár og segir Sigurður að það sé ekkert minna en stórkostlegt að vinna með konunni sinni. „Ég er búinn að fá mjög jákvæð viðbrögð frá þjóðinni um þættina. Á meðan svo er fær maður góða næringu. Það er fátt skemmtilegra en að sitja með afurð sem maður er sáttur við.

Hólmfríður passar að allt sé í lagi og er gríðarlega góður verkstjóri. Lykillinn að góðu hjónabandi að mínu mati er að gera eitthvað þar sem maður finnur vináttuna í makanum. Reyna að sameinast í áhugamálunum. Ég hef orðið vitni að því á Spáni, þegar pör fara saman í frí að fólk kann ekkert að vera saman – kannski eftir vikudvöl.

Ef pör gera eitthvað saman þá halda þau sambandinu í lagi. Ekki spurning,“ segir Sigurður.

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður