Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2015 Janúar

23.01.2015 22:36

Þorri hefst 23. janúar 2015 - Bóndadagur

 

Frá Önundarfirði. Ljósm.: Þorir Ingvarsson, Berlín.

Þorri hefst 23. janúar 2015 - Bóndadagur

Mánuðurinn þorri hefst í 13. viku vetrar, nú 19. til 25. janúar, en 9. til 15. janúar í gamla stíl fyrir 1700. Mánaðarnafnið er kunnugt frá 12. öld en uppruni þess er óviss.


Þorri er persónugerður sem vetrarvættur í sögnum frá miðöldum. Þar er einnig getið um þorrablót, en þeim ekki lýst. Vetraröldungurinn Þorri er algengt yrkisefni á 17. – 19. öld og um fagnað eða sérstaka siðvenju við upphaf þorra eru heimildir frá öndverðri 18. öld. Líklegt er að slíkar venjur séu allmiklu eldri.

Upphaflega virðist húsfreyja hafa boðið þorra velkomin enda er ljóst að fyrsti dagur þorra hefur verið tileinkaður húsbóndanum. Er hvorttveggja til að honum hafi verið veitt sérstaklega í mat og að hann hafi þá átt að gera vel við sitt fólk. Bóndadagsheitið er þó ekki kunnugt fyrr en í þjóðsögum Jóns Árnasonar frá miðbiki 19. aldar. Þar er einnig minnst á hlaup bónda kringum bæ sinn, en óljóst er hversu almennur slíkur siður hefur verið og hver er uppruni hans. Vera kann að þar sé um að ræða leifar af eldra þorrafagnaði.

Á síðarihluta 19. aldar fóru mennta- og embættismenn að tíðka samkomur sem þeir kölluðu “Þorrablót” að fornum hætti, matar- og drykkjarveislur þar sem sungin voru ný og gömul kvæði og drukkin minni Þorra og heiðinna goða. Einkum var Þór tengdur þorranum. Þessar veislur lögðust af eftir aldamótin 1900 í kaupstöðum en þá hafði þorrablótssiðurinn borist í sveitirnar, fyrst á Austurlandi og í Eyjafirði, og hélt þar áfram.

Um miðja 20. öld hófu átthagasamtök á höfuðborgarsvæðinu síðan þorrablótin aftur til vegs og virðingar í þéttbýli, og buðu þá “íslenskan” mat sem nú var orðinn sjaldséður í kaupstöðum.

Veitingamaður í Naustinu í Reykjavík (Halldór Gröndal sem á ættir til Hvilftar í Önundarfirði) hafði síðan sérstakan þorramat á boðstólum frá þorranum 1958. 

Síðan hafa þorrablót ýmissa samtaka með íslenskan mat verið fastur liður í skemmtanalífi um allt land.

Um 1980 hófust blómagjafir eiginkvenna til eiginmanna undir áhrifum frá konudegi.

 

Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson. 

Skráð af Menningar-Staður

22.01.2015 13:29

Vegna styrkja til menningar-og nýsköpunarverkefna 2015

 

 

Vegna styrkja til menningar-og nýsköpunarverkefna 2015

 

Samningur Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og ríkisins um menningarmál hefur ekki verið gerður fyrir árið 2015. Verið er að vinna að nýjum samningum milli ríkis og sambanda sveitarfélaga á landsvísu.

Talsverðar breytingar eru fyrirhugaðar en ætlunin er að sameina í einn samning menningarsamninga, vaxtarsamninga og samninga um sóknaráætlun. Þar með verður væntanlega til nýr sjóður sem úthlutað verður úr bæði til menningarverkefna og nýsköpunar.

Unnið er með ríkinu að gerð nýs samnings og ætla má að hægt verði að auglýsa á fyrstu mánuðum þessa árs.

Nánari upplýsingar veitir Dorothee Lubecki, menningarfulltrúi Suðurlands í síma 480-8207 eða menning@sudurland.is

Af www.sass.is

 

Skráð af Menningar-Staður

21.01.2015 11:30

Merkir Íslendingar - Einar Benediktsson

 

 
 

Einar Benediktsson - skáld og athafnamaður.

Einar Benediktsson.

Merkir Íslendingar - Einar Benediktsson

21. janúar 1940 - Þennan dag fyrir 75 árum lést skáldið Einar Benediktsson á heimili sínu í Herdísarvík, þá 75 ára að aldri.

 

Faðir Einars var Benedikt Sveinsson, alþingismaður og sýslumaður, og móðir hans hét Katrín Einarsdóttir og var húsmóðir. Einar gekk í Lærða skólann í Reykjavík þar sem hann útskrifaðist árið 1884. Því næst nam hann lögfræði og útskrifaðist úr Hafnarháskóla 1892.

 

Einar var athafnasamur maður alla tíð. Stofnaði fyrsta dagblað Íslands, Dagskrá, árið 1896, sem studdi Heimastjórnarflokkinn. Hann átti þátt í að koma á laggirnar fyrstu loftskeytastöð landsins árið 1906 og stofnaði ásamt öðrum Fossafélagið Títan 1914 til athugunar á því hvort arðbært væri að byggja virkjanir við Þjórsá. Ekkert varð úr þeim fyrirætlunum fyrr en um hálfri öld seinna þegar Búrfellsvirkjun var byggð.

 

Á árunum 1907-21 ferðaðist Einar mikið erlendis, meðal annars til Noregs, Skotlands og Danmerkur auk þess að eyða sjö árum í London. Hann sneri endanlega aftur heim til Íslands árið 1921 og bjó í Reykjavík næstu árin, þó svo að hann hafi oft verið langdvölum erlendis, meðal annars í Þýskalandi, á Spáni og í Norður-Afríku. Þá lét hann fara fram rannsóknir á námum í Miðdal, til þess að skoða möguleikana á málmvinnslu og sementsframleiðslu. Síðustu átta árum ævi sinnar eyddi Einar í Herdísarvík í Selvogi í Árnessýslu. Hann dó þar 1940, og var grafinn í heiðursgrafreit á Þingvöllum.

 

Fréttablaðið miðvikudagurinn 21. janúar 2016Í Herdísarvík í Selvogi.

 


Skráð af Menningar-Staður

 

20.01.2015 23:17

Binda þurfi enda á láglaunastefnu

 

Halldóra Sveinsdóttir formaður Bárunnar.

 
Binda þurfi enda á láglaunastefnu
 

Samninganefnd Bárunnar stéttarfélags lýsir í ályktun ánægju með að sýnilegur vilji sé til að bæta kaup og kjör almenns launafólks og hvetur atvinnurekendur „til að leggjast á árarnar með launþegasamtökum og ríki að binda enda á þá dæmalausu láglaunastefnu sem rekin er".

Sú stefna hafi runnið sitt skeið á enda með kjarasamningum sem gengið hafi verið frá að undanförnu. Þá þykir samninganefndinni til fyrirmyndar að formaður Samtaka atvinnulífsins hafi gengið fram fyrir skjöldu og gert ásættanlega kjarasamninga við flugmenn Icelandair.  

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar stéttarfélags, segir að samninganefnd félagsins fagni orðum Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra í Síðdegisútvarpinu fyrir helgi. Þar sagði hún að verkalýðshreyfingin hljóti að sækja um meira en þau þrjú prósent sem atvinnurekendur hafi talað um í tengslum við gerð nýs kjarasamnings almenns launafólks. Eygló benti í viðtalinu meðal annars á lækkun skatta og góða afkomu útflutningsgreinanna. 

„Í ályktun samninganefndarinnar er lýst yfir ánægju með að kveðinn skuli nýr tónn í þeim  samningum sem gengið hefur verið frá að undanförnu. Starfsgreinasambandið er að leggja lokahönd á kröfugerð aldildarfélaga sambandsins. Samninganefndinni þótti þess vegna nauðsynlegt að undirstrika sérstaklega orð félagsmálaráðherra,“ segir Halldóra Sigríður Sveinsdóttir. 

Báran Stéttarfélag er félag ófaglærðs starfsfólks í Árnessýslu utan Ölfuss. Félagsmenn eru um 1.800.


Af www.ruv.is

 

Skráð af Menningar-Staður

19.01.2015 08:45

Framhald á lagningu stígs á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar

 

alt

Ásta Stefánsdóttir.

 

Framhald á lagningu stígs á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar

 

Að sögn Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Sveitarfélagsins Árborgar verður framhald á lagningu göngustígs á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar á árinu.

Aðalskipulagsbreytingu á svæðinu er lokið, en breyta þurfti aðalskipulagi þar sem ákveðið var að fara ekki með stíginn meðfram sjóvarnagarðinum eins og eldra skipulag kvað á um. Nú er verið að leggja lokahönd á hönnun stígsins, þ.e. hæðarsetningu, staðsetningu ræsa og fleira. Að því loknu verður leitað verðtilboða í lagningu stígsins og er gert ráð fyrir því að lokið verði við lagningu malarstígs á milli þorpanna á þessu ári.

Sá hluti sem þegar hefur verið lagður, frá Stokkseyri með göngubrú á Hraunsá, er nú þegar talsvert nýttur af göngufólki til útivistar. 

 

Af www.dfs.is

 

Skráða f Menningar-Staður

18.01.2015 10:15

Endurvekja menntaandann í Gunnarshúsi

 

Valgeir Guðjónsson og Ásta Kristrún Ragnarsdóttir í Bakkastofu á Eyrarbakka.

Ljósm.: Fréttablaðið 14. jan. 2015.

 

Endurvekja menntaandann í Gunnarshúsi

 

Bjóða upp á námshvetjandi fræðslu um helgar fyrir grunn- og framhaldsskólanemendur í Gunnarshúsi á Eyrarbakka sem hýsti fyrsta grunnskólann á Íslandi.

 

Nú á nýju ári verður hinn forni menntaandi endurvakinn í Gunnarshúsi á Eyrarbakka, eins og Ásta Kristrún Ragnarsdóttir, námsráðgjafi og forstöðumaður Bakkastofu, orðar það.

"Mínar ær og kýr hafa allar götur verið mannrækt. Ég hef viljað styðja við bakið á fólki til að það öðlist sterkari stöðu í lífinu og ástríða mín og eiganda Gunnarshúss, Bergljótar Kjartansdóttur myndlistarkonu og listþerapista, skarast. Bergljót er orðin sjötug og sér ekki fram á að geta gert Gunnarshús að miðstöð fyrir ungt fólk eins og hún hefði viljað. Hún bauð mér afnot af húsinu þar til það verður selt en fyrir dyrum stendur að kynna húsið til sölu aðilum sem sjá tækifæri í að nýta það á þessum forsendum," greinir Ásta frá.

 

Í Gunnarshúsi, sem hýsti fyrsta barnaskólann á Íslandi, býðst grunn- og framhaldsskólanemum í upphafi nýs árs að njóta í senn fræðslu í nútímanámsaðferðum, sögustunda og náttúrunnar um kring. "Mér hefur alltaf sárnað hversu margt fólk hefur ekki náð að blómstra í námi þótt það hafi getu til. Við Bergljót ræddum hvaða leiðir væru færar en margir hafa áhyggjur af stöðu íslenskra nemenda, meðal annars vegna dvínandi lesskilnings og einbeitingar. Upp frá því vaknaði hugmyndin um að bjóða upp á tveggja daga námshvetjandi fræðslu um helgar."

Að sögn Ástu Kristrúnar tekur námshelgin til markvissra náms- og lestraraðferða. "Nemendur fá í hendur nýtt vefforrit sem nefnist Nemanet. Það styður við skilvirkar náms- og lestraraðferðir og tendrar áhuga notandans við heimanám eða sjálfsnám en forritið er byggt á aðferð sem ég hef þróað á yfir þrjátíu ára tímabili í leiðsögn minni við nemendur um bættan árangur í námi."

 

Fræðslan verður einnig í Bakkastofu, fræðslu- og menningarsetri Ástu Kristrúnar og Valgeirs Guðjónssonar tónlistarmanns. Fyrirhugað er að fræðsluhelgarnar verði til marsloka.

Fréttablaðið miðvikudagurinn 14. janúar 2015.

 
 

Gunnarshús á Eyrarbakka á þeim tíma að það var veitingahúsið Rauða-Húsið.
Ljósm.: Júlía B. Björnsdóttir.

 

Skráð af Menningar-Staður

 

17.01.2015 11:08

Bókabæjarfundur í dag - 17. jan. 2015

 

 

 

Bókabæjarfundur í dag - 17. jan.  2015 - kl. 13:00
 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

16.01.2015 10:04

Tuttugu ár frá snjóflóðinu mannskæða í Súðavík

 

 

Súðavík við Álftafjörð í vetrarfeldi áður.

Ljósm. © Mats Wibe Lund (1. mars 1989).
 

Tuttugu ár frá snjóflóðinu mannskæða í Súðavík

Þegar árrisult fólk kveikti á útvarpi að morgni 16. janúar 1995 hljómaði þar sorgartónlist og mátti ljóst vera að eitthvað skelfilegt hefði gerst. Og síðan komu fréttir, fremur óljósar í fyrstu: Snjóflóð hefði fallið á Súðavík, lagt hluta þorpsins í rúst og margir væru látnir. Þegar björgunarstarfi við mjög erfiðar aðstæður lauk var niðurstaðan þessi: Fjórtán manns fórust, þar af átta börn, og tólf slösuðust. Flóðið lenti á tuttugu húsum, en allmargir björguðust ómeiddir. 


Björgunaraðgerðir stóðu yfir dögum saman og barst liðsauki víða að. Þáttur leitarhunda reyndist ómetanlegur. Tíu ára drengur fannst á lífi eftir að hafa verið fastur í rústum undir flóðinu í sólarhring. Síðasta líkið fannst ekki fyrr en 37 klukkutímum eftir að flóðið féll. Þetta var mikil blóðtaka fyrir þorpið litla við Álftafjörð í Djúpi, þar sem á þessum tíma bjuggu um 230 manns. 

Snjóflóðið féll úr Súðavíkurhlíð og niður í gegnum byggðina um stundarfjórðung yfir klukkan sex. Sextán einbýlishús urðu fyrir flóðinu, sum eyðilögðust gersamlega en önnur skemmdust meira eða minna. Auk þess lenti flóðið á leikskólanum, skrifstofum Súðavíkurhrepps og sambyggðum verkstæðum, húsi Pósts og síma og íbúðablokk, en ekki varð tjón á henni. Seinna þennan dag féll einnig snjóflóð úr Traðargili litlu innar og eyðilagði þrjú hús, sem búið var að rýma. 

Í kjölfar snjóflóðsins mannskæða í Súðavík var byggðin flutt um set í land Eyrardals nokkru innar. Núna er „gamla Súðavík“ sumarbyggð. 

36 manns fórust í snjóflóðum


Árin 1994 og 1995 varð manntjón í fjórum snjóflóðum á Vestfjörðum og fórust þar alls 36 manns. Í snjóflóði sem féll á sumarhúsasvæðið í Tungudal í Skutulsfirði að morgni 5. apríl 1994 fórst maður og eiginkona hans slasaðist. Hjón sem voru í öðrum bústað sluppu lítt meidd. Um 40 sumarbústaðir eyðilögðust í flóðinu, sem og flest mannvirki á skíðasvæði Ísfirðinga á Seljalandsdal. 

Tveimur dögum eftir snjóflóðið í Súðavík eða að kvöldi 20. janúar 1995 féll snjóflóð við bæinn Grund í Reykhólasveit. Þar fórst einn maður en sonur hans fannst á lífi eftir tólf tíma leit. Íbúðarhúsið á Grund slapp við flóðið en útihús hurfu að mestu. 

Síðasta lotan í þessari hrinu mannskæðra snjóflóða á Vestfjörðum var þó hörðust, í mannslífum talið. Tuttugu manns á ýmsum aldri létu lífið í snjóflóðinu á Flateyri aðfaranótt 26. október 1995. Nokkrir voru grafnir á lífi upp úr flóðinu. Eignatjón var gríðarlegt.


 

 

Súðavík eftir flutning byggðarinnar lítið eitt innar með firðinum. Langeyri fremst á myndinni.

Ljósm. © Mats Wibe Lund (10. september 1997).


Af www.bb.is

 

Skráð af Menningar-Staður

 

16.01.2015 09:26

Bókabæjafundur 17. janúar 2015 kl. 13:00 í gamla Gónhól á Eyrarbakka

 
 

bokabaerinn

 

Bókabæjafundur 17. janúar 2015 kl. 13:00 í gamla Gónhól á Eyrarbakka

 

Laugardaginn 17. janúar 2015 kl. 13:00 verður haldinn opinn fundur fyrir alla áhugasama um starfsemi Bókabæjanna austanfjalls í Frystihúsinu á Eyrarbakka (Áður Gónhóll)

Dagskrá:

  • Kynning á stöðu verkefnisins.
  • Kynning á hugmynd um prentsögusetur.
  • Stofnun væntanlegra vinnuhópa.
  • Leshópur sjálfboðaliða sem vilja lesa fyrir aðra.
  • Skrásetning og kortlagning á bókmenningu í Bókabæjunum.
  • Menningardagskrá á vegum bókabæjanna (barnabókahátíð, bókamarkaður ofl.).
  • Bókabæjarferð – Þýskaland í haust?

Kaffi og kleinur og allir velkomnir.

www.bokabaeir.is

 

 


 

Skráð af Menningar-Staður

 

16.01.2015 06:30

FERÐAMENN TIL ÍSLANDS NÆRRI MILLJÓN ÁRIÐ 2014

 

 

FERÐAMENN TIL ÍSLANDS NÆRRI MILLJÓN ÁRIÐ 2014

 

Fjöldi ferðamanna um Keflavíkurflugvöll, Seyðisfjörð og aðra flugvelli var um 997 þúsund árið 2014 en um er að ræða 190 þúsund fleiri ferðamenn en árið 2013. Aukningin milli ára nemur 23,6%. Ferðamenn á ársgrunni nálgast því eina milljón en gera þarf ráð fyrir vissum frávikum vegna aðferðafræðinnar sem beitt er.

Breyting milli ára

Fjöldi ferðamanna 2013 og 2014

Þar fyrir utan eru farþegar með skemmtiferðaskipum en 104.516 farþegar komu til Reykjavíkur með 90 skipum árið 2014, 13,4% fleiri en á árinu 2013 þegar þeir voru um 92 þúsund talsins. Um 96% skemmtiferðaskipa til landsins hafa viðkomu í Reykjavík. 

Tíu fjölmennustu þjóðernin um Keflavík og Seyðisfjörð

Keflavíkurflugvöllur fjöldiTæplega þrír fjórðu (73,3%) ferðamanna árið 2014 voru af tíu þjóðernum. Bretar og Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða um þriðjungur allra ferðamanna en þar á eftir komu ferðamenn frá Þýskalandi, Frakklandi, Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Kanada, Hollandi og Kína. Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum, Bandaríkjamönnum, Kanadamönnum og Þjóðverjum mest árið 2014. Þannig komu 43.400 fleiri Bretar árið 2014 en árið 2013, 32.400 fleiri Bandaríkjamenn, 14.800 fleiri Kanadamenn og 10.100 fleiri Þjóðverjar.

Norræna farþegafjöldiSölutölur frá Austfari gefa til kynna hver þjóðernasam- setning farþega með Norrænu til Íslands er eins og sjá má af grafi. Níu af hverjum tíu erlendum ferðamönnum með Norrænu árið 2014 voru af tíu þjóðernum. Þjóðverjar voru langfjölmennastir eða 42,5% af heild en þar á eftir komu Færeyingar (12,2%) og Danir (11,7%). 
Ekki eru tiltækar upplýsingar um þjóðerna-samsetningu farþega um aðra flugvelli.

FERÐAMENN UM KEFLAVÍKURFLUGVÖLL

Fjölgun alla mánuði ársins

Þróun milli áraFjöldamet voru slegin í öllum mánuðum ársins 2014 á Keflavíkurflugvelli, þar sem talningar á vegum Ferðamálastofu hafa verið frá árinu 2002. Aukning milli ára fór yfir 25% sjö mánuði ársins en hlutfallslega var hún mest milli ára í janúar (40,1%), mars (35,3%), febrúar (31,2%) og nóvember (31,0%). 

Fjölmargir þættir hafa haft áhrif á þessa miklu aukningu. Ljóst er að ferðaþjónustan er að uppskera árangur af umfangsmiklu markaðsstarfi auk þess sem mikil fjölmiðlaumfjöllun um landið, hagstætt gengi og aukið framboð á flugsætum hafa haft jákvæð áhrif.

Ártíðasveiflan minnkar enn

Sé litið til dreifingar ferðamanna eftir árstíðum síðastliðin þrjú ár má sjá að hlutfall ferðamanna utan háannar, þ.e. sumarmánuðanna þriggja, fer hækkandi og var komið í 57,6% árið 2014. Hlutfallsleg aukning utan háannar hefur hins vegar verið mest að vetri til en um 28,9% ferðamanna komu að vetri til árið 2014 en voru 26,9% árið 2013 og 23,6% árið 2012.

Fjöldi / aukning á milli ára

Skipting eftir markaðssvæðum 2014

MarkaðssvæðiFerðamenn frá einstökum markaðssvæðum dreifðust nokkuð ólíkt yfir árið. Bretar skera sig úr en ríflega helmingur þeirra kom að vetri til. Mið- og S- Evrópubúar voru hins vegar áberandi yfir sumarmánuðina en 58,8% þeirra komu að sumri. Norðurlandabúar, Norður Ameríkanar og ferðamenn frá löndum sem flokkast undir annað dreifðust hins vegar jafnar yfir árið eins og sýnt er á myndinni hér til hliðar.


Tíu fjölmennustu þjóðernin eftir árstíðum

Vetur (jan.-mars/nóv.-des.)

10 fjölmennustu þjóðernin veturUm 29% erlendra ferðamanna árið 2014 komu að vetrarlagi eða um 278 þúsund talsins. Um er að ræða tæplega 69.500 fleiri ferðamenn en yfir vetrarmánuðina árið 2013. Aukningin nemur 33,1% milli ára. Af einstaka þjóðum voru flestir vetrarferðamenn frá Bretlandi (34,9%) og Bandaríkjunum (15,1%). Ferðamenn frá Noregi (4,6%), Þýskalandi (4,6%), Frakklandi (4,2%), Danmörku (4,1%), Svíþjóð (3,1%), Kanada (3,0%), Kína (2,6%) og Japan (2,5%) fylgdu þar á eftir en samanlagt voru framangreindar tíu þjóðir um 78,7% ferðamanna að vetrarlagi. Bretar báru að miklu leyti uppi aukningu vetrarins en um 27 þúsund fleiri ferðamenn komu frá Bretlandi yfir vetrarmánuðina 2014 en að vetri til 2013. Um er að ræða 38,3% aukningu Breta milli ára. Bandaríkjamönnum fjölgaði jafnframt verulega eða um 37,8%.

Vor/haust (apríl-maí/sept.-okt.)

10 fjölmennustu þjóðernin vor og haust29% erlendra ferðamanna árið 2014 komu að vori eða hausti til eða um 280 þúsund talsins, 55.200 fleiri ferðamenn en á sama tímabili árið 2013. Aukningin nemur 24,5% milli ára. Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn að vori og hausti frá Bretlandi (17,7%) og Bandaríkjunum (15,3%). Þar á eftir komu ferðamenn frá Noregi (7,8%), Þýskalandi (7,7%), Danmörku (6,2%), Svíþjóð (5,2%), Kanada (5,0%), Frakklandi (4,8%), Hollandi (2,5%) og Finnlandi (2,3%) en samanlagt voru þessar tíu þjóðir 74,5% ferðamanna að vori og hausti.
Næstum helmingsaukning að vori og sumri var borin uppi af Bretum sem fjölgaði um 10.200, Bandaríkjamönnum sem fjölgaði um 9.500 manns og Kanadamönnum sem fjölgaði um 5.300.

Sumar (júní-ágúst)

10 fjölmennustu þjóðernin sumarUm 42% ferðamanna komu yfir sumarmánuðina þrjá eða um 408 þúsund. Um var að ræða 63.400 fleiri ferðamenn en sumarið 2013 og nemur aukningin 18,4% milli ára. Af einstaka þjóðum voru flestir ferðamenn að sumri árið 2014 frá Bandaríkjunum (16,3%) og Þýskalandi (12,6%). Þar á eftir fylgdu ferðamenn frá Bretlandi (8,1%), Frakklandi (8,1%), Danmörku (4,7%), Noregi (4,6%), Svíþjóð (4,3%), Kanada (4,0%), Ítalíu (3,3%) og Spáni (3,1%) en samanlagt voru þessar tíu þjóðir 69,1% ferðamanna sumarið 2014.

Af einstaka þjóðum fjölgaði Bandaríkjamönnum mest eða um 11.300, Bretum um 6.100, Þjóðverjum um 5.800 og Kanadamönnum um 5.700 manns en þessar fjórar þjóðir báru uppi næstum helmingsaukningu að sumri til.

Nánari upplýsingar

Gera þarf ráð fyrir frávikum í tölunum, sem fyrr segir. Talningar Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríksson ná þannig til allra brottfara, meðal annars erlendra ríkisborgara með fasta búsetu á Íslandi. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

tafla með fjölda ferðamanna

 

Af: www.ferdamalastofa.is

 

 

Skráð af Menningar-Staður