Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2015 Mars

18.03.2015 18:10

Valgeir Guðjónsson verður heiðursgestur Aldrei fór ég suður

 Geirarnir á Bakkanum. Siggeir Ingólfsson og Valgeir Guðjónsson.

 

Valgeir Guðjónsson verður heiðursgestur -Aldrei fór ég suður-

 

Tónlistarmaðurinn Valgeir Guðjónsson, sem nú býr á Eyrarbakka, verður heiðursgestur á -Aldrei fór ég suður- á Ísafirði um páskana og treður þar upp með úrvali hljóðfæraleikara af hátíðinni.

Valgeir hefur verið í framvarðasveit íslenskra tónlistarmanna frá því um miðjan áttunda áratuginn. Til að undirstrika mikilvægi Valgeirs í íslenskri tónlistarsögu nægir að nefna tvær hljómsveitir; Spilverk þjóðanna og Stuðmenn. Þá er ótalinn farsæll sólóferill Valgeirs sem hefur gefið af sér lög eins og Popplag í G-dúr, Ástin vex á trjánum, og mörg fleiri. Skráð tónverk Valgeir eru á fimmta hundrað og komið út á hljómplötum, í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum og í leikhúsi. Góð textagerð hefur oft þótt aðalmerki Valgeirs, en í textum hans má skynja léttleika þar sem oft glittir í háð og lævísar skírskotanir. 

Hér fyrir neðan er upptalning á tónleikum og öðrum viðburðum um páskana. Birna Jónasdóttir rokkstjóri er ánægð með að sjá hátíðina víkka út. „Við í innsta kjarna Aldrei fór ég suður vildum breyta til og breiða úr hátíðinni. Við erum því sérstaklega ánægð að sjá útkomuna, það eru viðburðir út um allan bæ og hátíðin stendur frá miðvikudegi til sunnudags. Aldrei fór ég suður hefur alla tíð verið samfélagsverkefni og mér finnst dagskráin í ár undirstrika það enn frekar. Við hvetjum alla bæjarbúa að taka höndum saman og búa til hátíðarbrag um alla byggð,“ segir Birna. 

Eftirtaldir tónlistarmenn eru bókaðir á Aldrei fór ég suður: 

• Rythmatík 
• Prins Póló 
• Hemúllinn 
• Mugison 
• Valgeir Guðjónsson 
• Pink Street Boys 
• Emmsé Gauti 
• Amaba Dama 
• Boogie Trouble 
• Sigurvegarar Músíktilrauna (úrslit koma í ljós 28. mars) 

Á órafmögnuðum kirkjutónleikum Aldrei fór ég suður á föstudaginn langa koma fram: 

• Guðríð Hansdóttir 
• Himbrimi 
• Valdimar Guðmundsson 
• Júníus Meyvant 

Á grínbræðingi Aldrei fór ég suður í Ísafjarðarbíói að loknum kirkjutónleikum koma fram grínistarnir Saga Garðarsdóttir og Hugleikur Dagsson. Í bíóinu verður einnig dans- og söngfyrirbærið Kæsti safírinn. 

Auk dagskrár Aldrei fór ég suður verða uppákomur um allan bæ. Má þar nefna: 

Spilakvöld á Bræðraborg á miðvikudag. 

Tónlistarveisla verður á Hótel Ísafirði á skírdag með Valdimar Guðmunds, Snorra Helga, Bjarteyju og Gígju úr Ylju og Sigríði Thorlacius. 

Biggi Olgeirs heldur uppi stuðinu á Húsinu að kvöldi skírdags og sama kvöld verður Aldrei fór ég suður upphitun á Krúsinni með Himbrima og fleiri góðum gestum og á Bræðraborg verður skíðakvöld. 

Páll Óskar ætlar að gleðja Ísfirðinga með nærveru sinni og að vanda verður hann með barnaball í Edinborg á föstudaginn langa. 

Útitónleikar verða við Húsið á föstudaginn langa, tónleikar á Edinborg Bistro, aprés ski á Bræðraborg. Á laugardag verða súputónleikar á Krúsinni. 

Dagskrá fyrir djammþyrsta er ekkert slor. DJ Óli Dóri og DJ Matti verða á Húsinu. Boozin' á Krúsin með DJ JB á miðvikudag, Helgi Björns spilar á balli í Krúsinni á föstudagskvöld og President Bongo þeytir skífum á laugardagskvöld og Amaba Dama verða í Krúsinni á páskadag. Páll Óskar verður með ball í Edinborg á föstudaginn langa og Sniglabandið spilar í Edinborg á laugardagskvöld og á páskadag. 

Hafa ber í huga að þetta er ekki tæmandi listi en ætti að gefa góða mynd af fjölbreyttu menningarúrvali á Ísafirði um páskana. 

Af www.bb.isGaltarviti í Keflavík.

Valgeir Guðjónmsson var sem ungur maður í fimm sumur á Galtarvita rétt norð/austan við Súgandafjörð.
Mikill Vestfirðingur er því í Valgeiri.Suðureyri við Súgandafjörð.

 

Skráð af Menningar-Staður
 

18.03.2015 07:54

Fundur um ferðaþjónustu á Eyrarbakka

 

 

Fundur um ferðaþjónustu haldinn á Eyrarbakka

 

Sveitarfélagið Árborg stendur fyrir íbúafundum um ferðaþjónustu í sveitarfélaginu og samstarfi á þeim vettvangi.

Fundur var á Eyrarbakka í gærkvöldi  þriðjudaginn 17. mars 2015 í Félagsheimilinu Stað.
Fundinum stýrðu Heiðar Guðnason og Helga Gísladóttir frá Upplýsingamiðstöð Árborgar á Selfossi.

 

Fundurinn var ágætlega sóttur - innihaldsríkar - líflegar umræður og ábendingar.
Fundargerð verður birt síðar.

Menningar-Staður færði til myndar.
Myndaalbúm er komið hér á Menningar-Stað
Smella á þessa slóð:

 http://menningarstadur.123.is/photoalbums/270606/
 

Fundur í sam dúr verður í kvöld á Stokkseyri – miðvikudaginn 18. mars 2015 kl. 20:00 í Hólmarastarsalnum.

Nokkrar myndir frá Eyrarbakkafundinum:


.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

18.03.2015 07:16

Andlát - Konráð Guðmundsson

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Konráð Guðmundsson

 

Andlát - Konráð Guðmundsson

 

Konráð Guðmundsson, fyrrverandi hótelstjóri Hótels Sögu, lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 12. mars síðastliðinn.

Konráð fæddist í Merkigarði á Stokkseyri 28. apríl 1930. Foreldrar hans voru Guðmundur Einarsson íshússtjóri og Þorbjörg Ásgeirsdóttir húsfreyja. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum í hópi bræðra sinna, þeirra Sveinbjörns, Ásgeirs og Björgvins.

Konráð steig sín fyrstu spor sem starfsmaður hótels innan við fermingu á Hótel Stokkseyri. Hann lauk námi frá Hótel- og veitingaskólanum árið 1949. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri Lídó, sem þá var vinsæll skemmtistaður í Skaftahlíð, um árabil. Konráð starfaði lengst af sem hótelstjóri á Hótel Sögu eða frá árinu 1964 til 1990 en þá tók hann við starfi framkvæmdastjóra Bændahallarinnar og gegndi því til ársins 2000. Konráð setti mark sitt á hótel- og veitingarekstur á Íslandi. Hann lagði sérstaka alúð við nýársdansleiki sem haldnir voru í Súlnasal Hótels Sögu og voru árum saman fastur liður í samkvæmislífi Reykvíkinga.

Konráð gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í félagsmálum svo sem í stjórn Félags bryta 1956-1960 og í stjórn Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda frá 1965-1973. Hann var formaður sambandsins frá 1968. Konráð sat einnig í skólanefnd Hótel- og veitingaskólans frá 1972 til 1980 og var formaður hennar í fjögur ár. Þá sat hann einnig í Ferðamálaráði og framkvæmdastjórn VSÍ.

Konráð var kvæntur Eddu Lövdal, f. 14. ágúst 1929, d. 7. nóvember 2014. Börn þeirra eru: Þór hagfræðingur, kvæntur Karen Þórsteinsdóttur, Bryndís hjúkrunarfræðingur og Konráð dýralæknir, kvæntur Ólafíu Sigríði Hjartardóttur. Barnabörnin eru tíu talsins og barnabarnabörnin átta.

Morgunblaðið miðvikudagurinn 18. mars 2015


*

Bændahöllin - Hótel Saga og listaverk Sigurjóns Ólafssonar frá Eyrarbakka.

Skráð af Menningar-Staður

17.03.2015 23:16

SAGA FEST í Stokkseyrarseli 23. og 24. maí 2015

 

 

 

SAGA FEST í Stokkseyrarseli 23. og 24. maí 2015

 

LIST GETUR VIRKAÐ SEM INNBLÁSTUR FYRIR MIKLAR BREYTINGAR.

Eina helgi í maí 2015 mun lítið samfélag byggjast upp á landi Stokkseyrarsels og svara eftirfarandi spurningu: Hver er saga okkar?
 
Saga Fest er listahátíð byggð á Íslendingasögunum og með því meginmarkmiði að tengja fólk við hvort annað sem og við jörðina alla. Saman munum við byggja upp samfélag sem stuðlar að opnum samskiptum, skapandi hugsun, breytingum í samfélaginu og okkur sjálfum.Við viljum að þú mætir eins og þú ert og yfirgefir hátíðina sem breytt manneskja til hins betra. Þetta er hátíð umbreytinga.
 
Þetta er ekki hin hefðbundna listahátíð: Saga Fest er samfélagsmiðuð og hvetur alla gesti til að leggja sitt af mörkum og hafa sem mest áhrif á andrúmsloft hátíðarinnar.
 
Hvað mun eiga sér stað á Saga Fest?
•Tónlistaratriði verða flutt af íslenskum og erlendum listamönnum á sviði sem byggt verður úr endurnýttum efniviði úr umhverfinu.
•Plötusnúðar munu sjá til þess að þú dansir alla nóttina undir hvelfdum þökum byggðum frá grunni.
•Upplifðu og taktu þátt í einstökum listaviðburðum.
•Á miðnætti munu sögumenn segja okkur frá hinum miklu Íslendingasögum við varðeld.
•Gróðursettu aðgangsmiðann þinn þegar þú mætir á svæðið. Miðinn er gerður úr sérstökum pappír sem hægt er að gróðursetja. 
•“BYOI”(Bring Your Own Instruments). Gestir eru hvattir til að taka með hljóðfærin sín og spila hvar sem er, hvenær sem er.
•Stóru tónlistaratriðin verða flutt á aðalsviði hátíðarinnar en við verðum með annað minna svið þar sem öllum er boðið að koma fram og segja það sem því liggur á hjarta, í leik, dansi eða hvernig sem er.
•Skapaðu eitthvað einstakt í tónlistar „jam sessionum“ þar sem spuni og samspil ráða ríkjum.
•Kveikt verður á varðeldum sem tengja okkur saman.
•Spennandi listamenn munu leiða fjölbreyttar vinnustofur. Þar getur þú meðal annars lært umhverfisvæna hjólabrettasmíði,  dansa í frjálsu formi, nútíma hugleiðslu og orgelsmíði úr endurnýttum efnivið. Íslenskur shamanismi, fæðuleit, pestogerð, spunagrín og aldagömul íslensk handavinna koma einnig við sögu.
•Matarmarkaðir með úrvali af mat sem gerður hefur verið með hollustu og sjálfbærni að leiðarljósi.

Af www. midi.is
 
Skráð af Menningar-Staður

17.03.2015 07:23

Fundur um ferðaþjónustu í Sveitarfélaginu Árborg - íbúafundir

 

Fundur um ferðaþjónustu í Sveitarfélaginu Árborg - íbúafundir

 

Fundur um ferðaþjónustu í Sveitarfélaginu Árborg – íbúafundir

 

Sveitarfélagið Árborg stendur fyrir íbúafundum um ferðaþjónustu í sveitarfélaginu og samstarfi á þeim vettvangi.

 

Ráðgert er að halda fundi í öllum þéttbýliskjörnunum og verða fyrstu fundirnir sem hér segir:

Eyrarbakka – þriðjudaginn 17. mars 2015 kl. 20:00 í Félagsheimilinu Stað

og á Stokkseyri – miðvikudaginn 18. mars 2015 kl. 20:00 í Hólmarastarsalnum.

 

Allir velkomnir, heitt á könnunni.

 

Sveitarfélagið Árborg

Skráð af Menningar-Staður 

16.03.2015 07:05

Gvendardagur er 16. mars

 

 
 

Gyllir ÍS 261 við bryggju á Flateyri. 
Í fjörunni stendur Flateyringurinn/Eyrbekkingurinn Júlía B. Björnsdóttir.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Gvendardagur er 16. mars

 

Gvendardagur er 16. mars. Þá lést Guðmundur góði Arason Hólabiskup árið 1237. Guðmundar- eða Gvendardagur varð messudagur í Hólabiskupsdæmi ári 1315 þegar bein hans voru tekin upp.

Mikil helgi var á Guðmundi meðan katólska entist þótt hann væri aldrei lýstur helgur maður opinberlega, og eimdi lengi eftir af dýrkun hans, einkum á norðanverðum Vestfjörðum þar sem heimildir eru um nokkurt tilhald á messudegi Guðmundar allt fram á 20. öld.
Sunnanlands var gert ráð fyrir veðrabrigðum til hins verra þennan dag eða Geirþrúðardag daginn eftir, og jafnvel talið ills viti ef það brást.

Á síðasta fjórðungi 20. aldar var á Flateyri horft til Gvendardags sem mikils happadags í Önundarfirði eftir að skuttogarinn Gyllir ÍS 261 kom í fyrsta sinn til Flateyrar á Gvendardegi 16. mars 1976. Það var Útgerðarfélag Flateyrar hf. sem átti Gylli en það félag var dótturfélag Hjálms hf. á Flateyri sem var stofnaður þann 22. september 1968.
Gyllir heitir nú Stefnir ÍS- 28 og er gerður út frá Ísafirði.

Nafnið Hjálmur var samþykkt á stofnfundi Hjálms hf. eftir tillögu Eysteins G. Gíslasonar fyrrum kennara á Flateyri. Í greinargerð með tillögu sinni benti Eysteinn á að “Hjálmur” væri vörn mikilvægasta líkamshlutarins og fyrirtæki sem þetta væri slíkt hið sama fyrir byggðarlag eins og Flateyri og Önundarfjörð. Fyrir væru nöfn félaga á Flateyri í sama dúr svo sem “Verkalýðsfélagið Skjöldur” og “Kvenfélagið Brynja.” Þessi tillaga var samþykkt með lófaklappi þó ágæt tillaga að öðru nafn hafi legið fyrir stofnfundinum í upphafi frá fundarboðendum.

 

Skráð af Menningar-Staður

 

15.03.2015 21:54

Fundargerð - Opinn safnaðarfundur sóknarnefndar Eyrarbakkakirkju - 3. mars 2015

 

F.v.: Magnús Karel Hannesson, Íris Böðvarsdóttir, sr. Kristján Valur Ingólfsson og

sr. Halldóra Þorvarðardóttir.  Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.- Fundargerð

- Opinn safnaðarfundur sóknarnefndar Eyrarbakkakirkju.

- Fundurinn var haldinn í Eyrarbakkakirkju 3. mars 2015 

 

Opinn safnaðarfundur sóknarnefndar Eyrarbakkakirkju. Fundurinn er haldinn í Eyrarbakkakirkju 03.03.2015 kl. 20 og voru um 60 manns mættir til fundarins.

Þórunn Gunnarsdóttir formaður sóknarnefndar setti fundinn og bauð fundargesti  velkomna. Hún lagði til Magnús Karel Hannesson sem fundarstjóra og Írisi Böðvarsdóttur sem fundarritara. Fundurinn samþykkti tillöguna samhljóða.

 

Magnús tók við fundarstjórn og kynnti sérstaka gesti fundarins sem voru sr. Halldóra Þorvarðardóttir prófastur í Suðurprófastdæmi og sr. Kristján Val Ingólfsson vígslubiskup í Skálholti. Magnús Karel kynnti síðan tilefni fundarins þ.e. bréf biskups um sameiningu Eyrarbakka- og Þorlákshafnar prestakalla , bauð hann síðan Kristjáni Val að vera málshefjandi.

 

Kristján Valur tók til máls og nefndi að hann hefði að vissu leiti tvær skoðanir á málinu, sem embættismaður og sem leikmaður. Hann hefði talið að rétta leiðin væri að auglýsa prestakallið en eins og staðan sé nú geri aðstæður það erfitt. Segir að staðan snúist um fækkun prestsembætta fremur en prestakalla. Ástæðan er greiðsluvandi kirkjujarðasjóðs og því hefur kirkjan sjálf þurft að greiða laun presta. Kirkjan hafi reynt að selja eignir til að standa straum af þessu. Þetta sé háð fjárveitingum ríkisins. Prestum hafi fækkað mjög í héraðinu og tillaga hafi legið fyrir um sameiningu strandarinnar við Selfoss en honum hafi fundist betra í þessari stöðu að sameina frekar ströndina og fækka þá aðeins um einn prest í umdæminu. Hann benti á að þetta væri einungis tillaga sem lægi til umfjöllunar. Tillagan þurfi að fara fyrir aðalsafnaðarfund, héraðsfund og svo fyrir kirkjuþing. Mikilvægast sé að tryggja þurfi þjónustu í héraðinu. Búið sé að veikja þjónustuna með sölu prestsetra. Þá vanti starfsstöð fyrir prestinn en samt sé það skýr krafa að presturinn sé hluti af samfélaginu í hinum dreifðu byggðum. Kristján Valur opnaði einnig fyrir aðrar hugmyndir; vilja menn fremur tengjast Selfossi eða eitthvað annað. Einnig þyrfti að greina þjónustuna þ.e. hvaða þjónustu vilja heimamenn. Benti einnig á að við skerðingu á þjónustu kirkjunnar þá greiði sóknirnar sjálfar fyrir ýmsa þjónustu.

 

Fundarstjóri sagði frá sameiginlegum fundi allra sóknarnefnda í Eyrarbakkaprestakalli og Þorlákshafnarprestakalli og vitnaði í fundargerð frá þeim fundi í svar biskups til sóknarnefndarmanna um að heimamenn ættu að láta í sér heyra og sjónarmið fólks yrðu tekin til greina. Í ljósi þessa hvatti fundarstjóri fundarmenn til að láta skoðanir sínar í ljós og láta í sér heyra. Fundarstjóri taldi orð Kristjáns Vals vera skýr um að ekki yrði ráðinn prestur í prestakallið að óbreyttu.

 

Orðið var gefið laust.

 

Siggeir Ingólfsson tók til máls, hann sagðist mikið hafa hugsað um málið eftir að hann fékk fundarboð og nefndi að hann hefði notað þjónustu kirkjunnar töluvert að undanförnu. Taldi að sálgæsla væri mjög lítil eftir að sr. Sveinn lét að störfum. Spyr hvort við séum að missa þjónustu kirkjunnar.

 

Hafþór Gestsson tók til máls. Hann þakkaði fyrir fundinn og sagði starf kirkjunnar vera sitt hjartans mál og starfið í kirkjunni væri mikils virði fyrir samfélagið allt. Honum finnst að Kristján Valur hafi talað gegn sannfæringu sinni og vill meina að embættismenn í Reykjavík séu að ákveða þetta. Honum finnst þetta sárt á 125 ára afmæli kirkjunnar. Einnig sagðist hann ekki átta  hann sig á forsendum tillögunnar, hér hefði verið sama höfðatala í áratugi. Taldi ömurlegt á upplýsingaöld að dingla eins og vingull frá því að ákvörðun hafi veri tekin um mitt sumar, nema enn lengri aðdragandi sé að þessu frá því að sr. Sveinn Valgeirsson var ráðinn hingað, að ráðamenn kirkjunnar hafi vitað að sr. Sveinn hafi ekki ætlað sér að vera lengi í þessu prestakalli og þetta væri einungis  starf þar til hann fengi álitlegra brauð á höfuðborgarsvæðinu. Taldi að prestsembættið skipti miklu máli fyrir samfélagið, presturinn væri sýnilegur og aðgengilegur allan sólarhringinn. Taldi kirkjuna vera að éta útsæðið undan sjálfri sér og tilgangurinn með því að leggja niður embættið væri einungis til að fjölga prestum á höfuðborgarsvæðiu á kostnað starfa á landsbyggðinni.

 

Guðrún Jónína Ragnarsdóttir tók til máls. Henni fannst vera að fjara undan allri þjónustu á Eyrarbakka. Hún taldi að málsmeðferðin hefði dólað á biskupsstofu og vildi meina að þjónustan yrði bútasaumur þar til að eitthvað verði ákveðið á kirkjuþingi 2016.

 

Guðjón Guðmundsson tók til máls. Hann kynnti störf sín á Eyrarbakka og m.a. stjórnarsetu við dvalarheimilið Sólvelli og sagði frá prestaþjónustu við dvalarheimilið sem var mjög regluleg, einu sinni í viku og mikils virði fyrir íbúa og hefði verið til staðar alla tíð fram að síðasta hausti. Hann nefndi að sr. Jón Dalbú hefði einu sinni heimsótt dvalarheimilið frá síðasta hausti og þakkaði það. Hann spurði einnig um sjómannadagsmessu sem hefur ætíð verið og hvort hún væri fyrirhuguð.

 

Sr. Jón Ragnarsson sóknarprestur í Hveragerði tók til máls. Hann sagði að sl. 2 ár hefði hann þjónað ströndinni að nokkru leiti meðfram sínu prestakalli. Hann hefði m.a. sinnt Þorlákshöfn í veikindum prests og það væri afmarkað en hann hefði fundið vel fyrir óróleika í Eyrarbakkaprestakalli vegna óvissu um framtíðarskipulag. Taldi hann að mikilvægt að presturinn hefði sitt starf í prestakallinu burtséð frá búsetu. Sem formaður í prestafélagi Suðurlands fannst honum mjög slæmt hversu mikið prestum fækkar í umdæminu og talaði um mikla fækkun í Árnessýslu. Jón taldi stöðuna mjög vonda. Á Eyrarbakka væri gamalgróið kirkjustarf. Hann taldi það ágætan kost að prestur hér þjónaði Þorlákshöfn, sá það fyrir sér að það gæti gengið upp. Taldi það skipta höfuðmáli að presturinn hefði starfið að sínu aðalstarfi.

 

Sr. Halldóra Þorvarðardóttir prófastur tók til máls. Hún sagðist skilja tilfinningar gesta og sagði frá sameiningu í Rangárvallasýslu sem hefði verið erfið. Einnig nefndi hún sameiningu prófastsdæma sem væru sársaukafullar aðgerðir. Hún sagði frá því að hún hefði beðið yfirstjórn kirkjunnar að hlífa Suðurprófastumdæmi, margar sameiningar væru að baki og mikil fækkun presta. Hún fór yfir fjárhag kirkjunnar sem væri mjög slæmur og ef það héldi áfram sem horfði yrði þjóðkirkjan gjaldþrota sem við yrðum að koma í veg fyrir. Staðan væri einfaldlega þannig að þegar prestakall losnaði væri velt við hverjum steini. Hún nefndi einnig að ekki væri verið að flytja stöður til Reykjavíkur, það væri einfaldlega verið að leggja stöðuna niður. Hún talaði um að við yrðum að eiga sýn yfir annars konar þjónustu. Það sé eðlilegt að harma hlutina en mikilvægt að leggja ekki upp laupana heldur eygja aðra möguleika. Hún vill að söfnuðurinn noti tímann til að skoða möguleika í stöðunni. Halldóra tiltók að henni þætti vænt um fjölda fundarmanna sem var mættur og þeim tilfinningum sem kæmu fram til verndar stöðu kirkjunnar.

 

Guðmundur Brynjólfsson tók til máls. Henn nefndi að söfnuðurinn hefði haft nokkurt tíma til umhugsunar og þyrfti ekki langan tíma til viðbótar. Taldi að ófremdarástand ríkti og ekki væri boðlegt að búa við slíkt ástand á prestþjónustu í prestakallinu. Taldi þetta dapurlegt að kirkjan láti slugsa um embætti sem hún fjálgi um að sé hornsteinn og sameiningartákn og láti síðan reka á reiðanum. Eins og þetta sé batterí sem hægt sé að reka með afgangsþjónustu. Hann sagðist aldrei hafa verið kallaður til þrátt fyrir kragann. Sagði biskupinn ekki hafa séð sóknarfæri í því en vígslubiskupinn hefði gert það. Minnti fundarmenn á að vígslubiskupinn væri allur að vilja gerður að berjast fyrir stöðu prests í prestakallinu.

 

Víglundur Guðmundsson tók til máls. Hann taldi mikið talað um sparnað en það vantaði tölur, hann spurði t.d. um prósentutölu þeirra sem hefðu sagt sig úr þjóðkirkjunni hér  miðað við Vallasókn í Hafnarfirði.

 

Kristján Valur vígslubiskup tók til máls. Hann talaði um aðstæður kirkjunnar og það væri erfitt að vera í vondri stöðu. Sagðist gleðjast yfir því hversu mikið fólk vildi halda í prestinn. Hann sagði stöðu prestakallsins ekki vera ástæðu sameiningar eða það lægi vel við höggi. Spurningin væri um forgangsröðun og erfitt að vera ekki sammála. Það væri ekkert nema óvirðing við söfnuð og kirkju að tryggja ekki prestsþjónustu. Sagði að einungis væri um 50 prósent þjónustu um að ræða hér en ekki 100 prósent. Hann nefndi að ekki væri búið að auglýsa stöðu í Selfosskirkju og það væri sparnaður. Hann væri því miður fulltrúi þeirra sem standa sig verst, þeirra sem halda utan um budduna og geta ekki tryggt prestsþjónustu. Segir að þetta hafi tekið langan tíma því menn hafi ekki verið sammála um stefnu og tekist hafi verið á. Hann tilgreindi að hann hefði áhyggjur af aðstöðuleysi í prestakallinu t.d. hvað varðar starfsaðstöðu fyrir prestinn og við yrðum að sjá aðrar leiðir og finna út úr þessu. Aðalatriði væri að tryggja prestþjónustu í héraðinu. Þetta væri mjög erfitt mál en við þyrftum að vinna saman að lendingu.

 

Hafþór Gestsson tók til máls. Hann nefndi orð prófasts um þrengingar og heimili. Aðeins ein leið væri fær og það væri að afla meiri tekna. Það væri ekki möguleiki hér. Taldi verkefni hljóti að vera að ráðast ekki á sóknarbörnin heldur sækja að pólitískum ráðamönnum og sækja sóknargjöldin. Hann talaði einnig um stöðugildin á biskupsstofu. Þar væru menn á stólum á fullum launum sem ekki væri hægt að nota annars staðar. Hann nefndi Guðmund Brynjólfsson og vildi að kirkjan myndi nýta sér þjónustu hans. Nefndi einnig hvort fangelsið að Litla-Hrauni gæti ekki verið hluti af brauðinu, þar væri 70 manns. Honum fannst vont að sóknarnefndin hefði þurft að verja embættið fyrir 6 árum og væri aftur komin í sömu stöðu.

 

Fundarstjóri tók til máls og ræddi um framhaldið, er búið að stilla sókninni upp við vegg eða verður hlustað á óskir sóknarbarna?

 

Kristján Valur tók til máls og var því sammála að auðvitað ætti að hamra á fjárveitingarvaldinu og það væri stöðugt gert. En þar væri óvissa og oft breytingar á fjármagni. Hlutum lofað sem ekki skiluðu sér.

 

Fundarstjóri tók til máls og fór yfir að lítið hefði verið rætt um sjálfa tillöguna sem lægi fyrir sóknarnefnd. Hann varpaði til fundarmanna, hvað þeim fyndist um tillöguna. Hann nefndi m.a. hvort það lægi fyrir hvort Eyrarbakkaprestakall færi undir Þorlákshöfn eða öfugt. Hvernig því yrði hagað. Hann fór einnig yfir það að það væri á hreinu að það lægi brýnast á fundarmönnum hvernig þjónustan við kirkjuna hefði verið og óvissan um framhaldið. Þetta væru skýr skilaboð frá fundarmönnum sem  Kristján Valur vígslubiskup bæri yfirstjórn kirkjunnar.  Fundarstjóri lauk fundinum með samantekt um framhaldið, að sóknarnefndirnar í prestakallinu myndu hittast og í framhaldinu ræða við sitt safnaðarfólk um niðurstöðuna.

 

Fundi slitið kl. 21:30

Fundargerð ritaði Íris Böðvarsdóttir.

 

Hér má sjá myndir frá fundinum sem Björn Ingi Bjarnason tók

Smella á þessa slóð:

http://menningarstadur.123.is/photoalbums/270207/

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

14.03.2015 18:57

Messa í Eyrarbakkakirkju 15. mars 2015 kl. 11:00

 

 

 

Eyrarbakkakirkja.  Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Messa í Eyrarbakkakirkju 15. mars 2015 kl. 11:00

 

Messa verður í Eyrarbakkakirkju sunnudaginn, 15. mars 2015 kl. 11:00

Séra Jón Dalbú Hróbjartsson  prédikar og þjónar fyrir altari.
Organisti er Haukur Arnarr Gíslason.

Gideonmenn af Suðurlandi taka virkan þátt messunni.

Fermingarbörn og aðstandendur þeirra hvött til að mæta.

Sóknarprestur.

 

 

Í Eyrarbakkakirkju 1. desember 2008. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 Skráð af Menningar-Staður

14.03.2015 15:02

Merkir Íslendingar - Eysteinn Ásgrímsson

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

 

Merkir Íslendingar - Eysteinn Ásgrímsson

 

Eysteinn Ásgrímsson var íslenskur munkur og skáld á 14. öld. Hann tilheyrði Ágústínusarreglu og var fyrst í Þykkvabæjarklaustri. Um ætt hans og uppruna er ekki vitað. Hann virðist hafa verið breyskur og uppivöðslusamur framan af og er talið að hann hafi verið einn þeirra þriggja munka sem Jón Sigurðsson Skálholtsbiskup lét handtaka og setja í járn í klaustrinu haustið 1343. Þeir höfðu barið Þorlák til ábóta og hrakið hann burt, orðið berir að saurlífi og jafnvel barneignum.

Nokkru síðar virðist Eysteinn hafa gert yfirbót og sátt við biskup því hann var gerður að officialis í Helgafellsklaustri á Snæfellsnesi árið 1349. Hann var seinna handgenginn Gyrði biskupi Ívarssyni og ferðaðist með honum í vísitasíuferðum 1353-1354. Árið 1355 fóru þeir saman til Noregs og kom biskup heim árið eftir en Eysteinn var tekinn í klaustrið í Helgisetri við Niðarós. Hann kom þó heim 1357 og þá í fylgd Eyjólfs Brandssonar kórbróður. Þeir voru eins konar eftirlitsfulltrúar erkibiskupsins í Niðarósi. Þeir létu ýmis mál til sín taka og kom fljótt til árekstra á milli þeirra og Gyrðis biskups. Sagt er að Eysteinn hafi ort níð um biskup, sem bannfærði hann 1359.

Gyrðir ætlaði til Noregs sama ár að kæra þá fyrir erkibiskupi en áður en af því yrði sættust þeir. Virðist hafa farið vel á með þeim eftir það en báðir áttu skammt eftir. Þeir sigldu til Noregs hvor með sínu skipi; skipið sem biskup var á fórst í hafi en skipið sem Eysteinn var á kom að landi á Hálogalandi mjög seint um haustið eftir mikla hrakninga og voru allir um borð að þrotum komnir. Eysteinn komst loks í klaustrið í Helgisetri snemma árs 1361 og dó þar skömmu síðar.

Eysteinn er talinn hafa ort helgikvæðið Lilju og hefur þess verið getið til að það hafi annaðhvort verið ort þegar hann sat í járnum í Þykkvabæjarklaustri eða eftir að hann sættist við Gyrði biskup en ekkert er vitað um það með vissu.

Eysteinn lést 14. mars 1361.

Morgunblaðið laugardagurinn 14. mars 2015 - Merkir Íslendingar


 

Skráð af Menningar-Staður

14.03.2015 14:10

Fundargerð aðalfundar Félags eldriborgara Selfossi 19. febrúar 2015

 

 

Formaður félagsins  Sigríður J. Guðmundsdóttir .

 

Fundargerð aðalfundar Félags eldriborgara Selfossi 19. febrúar 2015

 

Formaður félagsins  Sigríður J. Guðmundsdóttir setti fundinn og tilnefndi Óla Þ. Guðbjartsson sem fundarstjóra og Helga Helgason sem fundarritara.

 

Óli Þ. Guðbjartsson tók við fundarstjórn og minntist þeirra félaga sem látist hafa á liðnu starfsári en þeir eru 7 talsins.  Vottuðu fundarmenn þeim virðingu með því að rísa úr sætum en síðan hófst dagskrá fundarins .

 

  1.     Fundargerð síðasta aðalfundar.    Helgi Helgason las fundargerð aðalfundarins  sem haldinn var 27. febrúar 2014.

 

2.                  Skýrsla stjórnar. 

 Í skýrslunni, sem Sigríður formaður flutti , kom fram að átta stjórnarfundir hafa verið haldnir á starfsárinu.  Þar hefur borið hæst væntanlega byggingu að Austurvegi 51 þar sem félagið fær tvo stóra sali ásamt öðru rými sem tengjast  mun núverandi aðstöðu í Græmumörk 5.  Þetta er því veruleg viðbót við það sem sveitarstjórn leggur félaginu til auk þess beina  fjárframlags sem félagið nýtur frá Sveitarfélginu.  Vænst er að framkvæmdir hefjist næsta haust. 

  Mjög góð þátttaka hefur verið í félagsstarfinu, t.d.  hafa að meðaltali 70 mans sótt opið hús og 220 tóku þátt í aðventuhátíð. 

Öll hefðbundin starfsemi byrjaði strax eftir áramótin.- Gönguferðir, handverk , bókmenntir, líkamsrækt, íþróttir, dans.  Margir góðir gestir hafa komið í opið hús , sem hafa frætt og skemmt þátttakendum á margvíslegan hátt . 

Aðrir viðburðir sem formaður nefndi voru m.a.  fyrsta formlega keppni í boccia í Iðu á Selfossi og fyrirhugað Suðurlandsmót á sama stað í mars n.k., þátttaka í landsmóti eldriborgara á Húsavík,  Góugleði á Eyrabakka, handverkssýning í apríl, kirkjuferð á uppstigningardag,  þátttaka Hörpukórsins í 6 kóramótum. Fjórar leikhúsferðir, í Litlaleikhúsið, undir Eyjafjöll og tvær í Þjóðleikhúsið.  Fornsöguhópurinn fór á slóðir Grettissögu. Þrjár dagsferðir farnar um Rangárþing, Borgarfjörð og Ölfus- Flóa.  Haustferð í boði Guðmundar Tyrfingssonar um Hvalfjörð á Akranes.  Árshátíð var haldin í nóvember, jólahugvekja í Selfosskirkju og jólahlaðborð á Hótel Örk.  Fréttabréf er gefið út vor og haust með ársyfirliti og stundaskrá fyrir veturinn,  sem einnig er að finna á heimasíðu félagsins.

   Sigríður þakkaði öllu því góða fólki sem hér hefur lagt hönd á plóginn.  Sérstakar þakkir til þeirra sem lokið hafa störfum í Dagskrárnefnd og Árshátíðarnefnd og einnig þeirra kvenna sem eru hættar í kaffiteimunum.

  Erfitt hefur verið að manna kaffiveitingarnar í vetur en til að halda þessu áfram þarf mannskap og er óskað eftir að þeir sem hafa getu og treysta sér til gefi sig fram við stjórnina, karlar jafnt sem konur.  Umbun er miði á Árshátíðina.

  Að lokum flutti Sigríður þakkir til Guðmundar Tyrfingssonar og Sigríðar konu hans, fyrir þeirra velvilja öllum stundum í garð félagsins, einnig þakkaði hún starfsmönnum hjá Tónlistar-skólanum  aðstoð við fjölföldun gagna.

 

Fundarstjóri gaf orðið  laust um skýrslu stjórnar  -  Ólafur Ólafsson benti á að þakka bæri Inga Heiðmari  fyrir stjórn hans á nónsöng.  Sigríður tók undir þetta og þakkaði Ólafi ábendinguna.

Skýrslan samþykkt samhljóða með framkominni athugusemd. 

 

3.                  Ársreikningar fyrir árið 2014.  

Guðmundur Guðmundsson gjaldkeri félagsins lagði fram og skýrði reikningana og voru niðurstöðutölur eftirfarandi:

Rekstrarreikingur                              kr. 3.359,660

Þar af tekju umfram gjöld                             kr.    174.428

 

Efnahags reikningur               kr.  3.198.857

Sem er hrein eign þar sem skuldir eru engar.

Með reikningunum fylgdu ýmsar sundurliðanir og skýringar ásamt reikningum Hörpukórsins fyrir síðasta starfsár.

Fundarstjóri gaf orðið laust um reikningana.  Gunnar Kristmundsson óskaði frekari skýringa á kostnaði við árshátíð og haustferð.  Gjaldkeri og formaður upplýstu að halli hafi verið á árshátíð og að þurft hafi að greiða fyrir leiðsögn um Hvalfjörð í haustferð.

Reikningarnir borinn upp og samþykktir samhljóða.

 

4.                  Árgjald félgsins fyrir árið 2015. 

 Fundarstjóri kynnti tillögu um að árgjald verði óbreytt

kr. 2500 og var það samþykkt samhljóða.

 

5.                  Kosning í aðalstjórn, varastjórn og skoðunarmanna.  

a.                  Kosning formanns,  Sigríður J. Guðmundsdóttir gaf kost á sér til endurkjórs og var kosning hennar  sem formanns samþykkt einróma.

b.                  Kosning í aðalstjórn,  Jósefína Friðriksdóttir og Heiðdís Gunnarsdóttir, varaformaður  gáfu kost á sér til endurkjörs  og var kosning þeirra samþykkt samhljóða.

c.                  Kosning í varastjórn, Óli Þ. Guðbjartsson gaf kost á endurkjöri og var kosning hans samþykkt samhljóða.

d.                  Kosning skoðunarmanna,  Helgi Helgason og Einar Jónsson endukjörnir samhljóða.

 

6.                  Kosning fulltrúa á landsþing LEB.   

Sigríður J. Guðmundsdóttir, formaður er sjálfkjörin og  tillaga um Guðmund Guðmundsson, gjaldkera og Heiðdísi Gunnarsdóttur, varformann sem aðalfulltrúa samþykkt samhljóða.

Tillaga um Arnheiði Jónsdóttur, ritara og Jósefínu Friðriksdóttur, meðstjórnanda og Óla Þ. Guðbjartsson eða Gunnþór Gíslason, varastjórnarmenn sem varafulltrúa samþykkt samhljóða.

 

7.                  Önnur mál. 

Jósefína Friðriksdóttir kvaddi sér hljóðs og bar fram tillögu að svohjóðandi ályktun:          „ Aðalfundur Félags eldri borgara á Selfossi, haldinn 19. febrúar 2015 að Grænumörk 5, skorar á stjórnvöld að fjölga hjúkrunarrýmum fyrir aldraða í Árborg þar sem mikið ófremdarástand ríkir í þessum efnum.“

Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.

Sigríður formaður þakkaði það traust sem sér og öðrum stjórnarmönnum væri sýnt með endurkjöri til stjóarnarstarfa.

Gísli Magnússon sagði frá fyrirhugaðri Orkneyjaferð söguhópsins í vor og benti á að enn væru nokkur sæti laus ef einhver hefði áhuga.

Arndís Erlingsdóttir sagði frá starfi Hörpukórsins sem nú hefur starfað í 25 ár.  Núverandi stjórnandi, Jörg Sondermann hefur stjórnað kórnum í 15 ár.  Kóaramót eldriborgarakóra verður haldið á Selfossi 16. maí n.k.   Arndís taldi slík mót mikilvæg fyrir kynningu á sveitarfélaginu og hvatti fólk til að mæta á tónleikana.

 

Kristján Jóhannesson bað um orðið en hann er nýlega genginn í félagið og finnst nokkuð vanta á að upplýsingar um starfið berist til félagsmanna. Bendi á að bæta mætti úr þessu með nýtingu á tölvupósti.

Formaður þakkaði ábendinguna en taldi að allar upplýsingar um starfið væri að finna á heimasíðu félagsins og í fréttabréfum.

Ólafur Ólafsson tók undir að bæta þurfi upplýsingastreymið.

 

Að svo búnu sleit Óli Þ. Guðbjartsson fundarstjóri  fundinum um kl 16:20.

 

Helgi Helgson, fundarritari

 

 

Stjórn Félags eldri borgara á Selfossi.

 

Stjórn félagsins 2015

Sigríður J.Guðmundsdóttir formaður, s. 863 7133

Guðmundur Guðmundsson gjaldkeri, s. 899 3292

Jósefína Friðríksdóttir ritari,                s. 866 9269

Heiðdís Gunnarsdóttir varaformaður, s. 862 3389

Arnheiður Jónsdóttir meðstjórnandi,   s. 848 1901

Óli Þ.Guðbjartsson varamaður            s. 892 4478

Gunnþór Gíslason varamaður             s. 482 2203
Skráð af Menningar-Staður