Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2015 Maí

04.05.2015 11:47

Hornstrandir og Jökulfirðir - Ýmsar frásagnir af horfnu mannlífi

 

 
 

 

Hornstrandir og Jökulfirðir - Ýmsar frásagnir af horfnu mannlífi

 

Ný bók að vestan:

Hornstrandir og Jökulfirðir

Ýmsar frásagnir af horfnu mannlífi

4. bók

 

Fjölbreyttar, áhugaverðar og spennuþrungnar frásagnir

 

 

Út er komin hjá Vestfirska forlaginu 4. bókin í bókaflokknum Hornstrandir og Jökulfirðir. Í Hornstrandabókum forlagsins er svo til eingöngu gamalt vín á nýjum belgjum. Yfirleitt eru þetta frásagnir sem flestir eru búnir að gleyma, en geta nú gengið að á einum stað. Ýmislegt í þeim kemur á óvart, einkum þeim sem yngri eru. Fjölbreyttar, áhugaverðar og spennuþrungnar frásagnir sem jafnast á sinn hátt fyllilega við glæpasögur nútímans. 

Bókin er 132 bls. og skal hér stiklað á stóru um efni hennar:

 

Guðrún Guðvarðardóttir skrifar um hvaða stað henni þótti vænst um. Þá er viðtal við hana úr Þjóðviljanum sem  Sigurdór Sigurdórsson skrifaði: Hef sett mér það mark að ganga alla Vestfirði. Kjartan Ólafsson minnist Guðrúnar, sem hann kallaði Vestfjarðakonuna.


Fjallað er um byggingu Hornbjargsvita, en hann var reistur 1930 við erfið skilyrði. Skrá er yfir alla vitaverði sem þar störfuðu.


Birt er hugljúf frásögn eftir Ragnheiði Jónsdóttur í Kjós í Jökulfjörðum sem hún skrifaði um hann Bleik sinn.


Viðtal við Jóhann Pétursson vitavörð er eftir Vilborgu Harðardóttur:

Hef aldrei þekkt að vera einmana á Horni. Svo eru frásagnir Gunnars Friðrikssonar og Vilmundar Jónssonar af Guðmundi Pálmasyni „vitaverði við erfiðasta vita landsins.“

 

Birtur er 4. og síðasti hluti frásagnar Gísla Konráðssonar af þeim félögum Halli á Horni, Snorra presti og Hallvarði Hallssyni. 

Þá er Ferðasaga frá Vestfjörðum 1886-1887: Hornstrandir seinni hluti eftir Þorvald Thoroddsen, sem mun vera ein merkilegasta frásögn sem skrifuð hefur verið um Hornstrandir. Örlygur Hálfdanarson bókaútgefandi minnist Þórleifs Bjarnasonar, námsstjóra og rithöfundar.

   
Kjartan T. Ólafsson, sem er einn allra elsti núlifandi Hornstrendingur og ern vel, skrifar viðamikla frásögn sem hann nefnir Æskuminningar og atvinnusögu úr Aðalvík.

  
Loks skal nefna frásögn Alexanders Einarssonar sem hann skrifar um æviferil föður síns, Einars Bæringssonar, hreppstjóra á Dynjanda í Grunnavíkurhreppi í Jökulfjörðum.

Vestfirska forlagið 

 

 


 

 

Skráð af Menningar-Staður

03.05.2015 07:24

Draumatíminn eftir sjötugt

 

 

 

Draumatíminn eftir sjötugt

 

 Tónlistarferill Hauks Guðlaugssonar söngmálastjóra spannar um 70 ár  

 

Eyrbekkingurinn Haukur Guðlaugsson, fyrrverandi söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, er 84 ára og elsti starfandi konsertorganisti í sögu landsins. Hann gerir lítið úr því og undirbýr næsta verkefni af kostgæfni sem fyrr.

 

„Ég hugsa að faðir minn hefði sagt: „Það er nú meira hvað er dekrað við þetta gamla fólk.“ Hann var í búðinni á Eyrarbakka til 97 ára aldurs og fór þá upp og dó.“

Athygli vakti að Haukur var með hádegistónleika í Hafnarfjarðarkirkju í vikubyrjun, en hann spilaði einnig á tónleikum um miðjan mars og lék þá á píanó.

Hann segir að tónleikum sínum hafi að vísu fækkað en hann æfi sig heima á orgelið og pí- anóið á hverjum degi. Næsta verkefni eru tónleikar með Gunnari Kvaran í kirkjunni á Einarsstöðumskammt frá Húsavík um verslunarmannahelgina í sumar.

 

Tilviljun

 

Í fyrstu vildi Haukur verða listmálari en Guðlaugur Pálsson, faðir hans og kaupmaður, taldi það óráð. „„Þá verður þú fátækur maður allt þitt líf,“ sagði hann við mig,“ segir Haukur. „Ég held að ég hafi lifað dá- lítið í eigin heimi,“ heldur hann áfram og bætir við að tilviljun hafi ráðið för hvað tónlistina varðar. „Ég var því miður orðinn dálítið gamall, orðinn 13 ára, þegar ég byrjaði að læra píanóleik,“ rifjar hann upp. „Ég kom inn heima þar sem Ingibjörg Jónasdóttir, móðir mín, og Kristinn Jónasson, móðurbróðir minn og orgelleikari á Eyrarbakka, voru að ræða um tónlist. Þá valt upp úr mér að mig hefði alltaf langað til þess að læra á píanó. Síðan sneri ég mér að öðru og daginn eftir gekk égfram á Kristin þar sem hann stóð fyrir utan Garðhús og kallaði á mig: „Var þér alvara með það sem þú sagðir í gær?“ spurði hann og ég svaraði já, já. Í kjölfarið byrjaði hann að kenna mér og eitt leiddi af öðru.“ Þegar

 

Haukur fór sjötugur á eftirlaun sneri hann sér að fullu að tónlistinni. „Ég hafði þráð það alla ævi,“ segir hann og leggur áherslu á að það sé ánægjulegt að geta miðlað öðrum þeim fögru verkum sem til eru fyrir orgelið. „En tónleikum fylgir viss kvíði og þá hvarflar oft að mér að gera þetta aldrei aftur opinberlega.“ Ferillinn spannar um 70 ár. Haukur segir að elskuleg kynni af fólki standi upp úr og hann sé þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að nema tónlistina og stunda hana.

 

Helstu hápunktarnir hafi verið tónleikarnir á áttræðisafmælinu, fyrstu tónleikarnir í Eyrarbakkakirkju og nemendatónleikar í Hamborg. „Eitt það stórkostlegasta var að læra hjá Fernando Germani í Róm, en draumatíminn byrjaði eftir sjötugt.“ 

Morgunblaðið föstudagurinn 1. maí 2015Skráð af Menningar-Staður

 

02.05.2015 22:19

1. maí 2015 - metfjöldi í kröfugöngu

 

.
Árni Stefán Jónsson að flytja ræðu sína í gær - 1. maí 2015

 

 

1. maí 2015 - metfjöldi í kröfugöngu

 

Metfjöldi var í göngu verkalýðsfélganna í Reykjavík í gær - 1. maí 2015

 

Þar hélt Árni Stefán Jónsson formaður SFR þrumandi ræðu og mikið fjölmenni var viðstatt ræðuhöldin á Ingólfstorgi sem vart rúmaði mannfjöldann.

 

Ræða Árna Stefáns Jónssonar formanns  -SFR stéttarfélags í almannaþjónustu-


Ágæta fundarfólk.

 

Við berum rauðan fána hér í dag. Fána verkalýðshreyfingarinnar sem táknar uppreisn gegn ranglæti - kröfu um breytingar.

 

Réttlátara þjóðfélag!

Fáninn merkir að nú sé nóg komið!

Er tákn dagrenningar – nýrra tíma!

Við boðum slíka tíma í dag:

Tíma samstöðu,

tíma uppbyggingar,

tíma heiðarleika,

tíma jafnréttis,

tíma skynsemi,

tíma réttlætis!

 

En það eru blikur á lofti. Óveðursskýin hrannast upp við sjóndeildarhringinn. Íslensk verkalýðshreyfing og íslenskt launafólk verður því að beita afli og mætti sínum, til að ná til sín réttlátari sneið af kökunni.

Krafan er að fólk fái borgað mannsæmandi laun fyrir vinnu sína.

En hverju svara atvinnurekendur?

Svarið er: Nei! Við höfum ekki efni á þessu. Það er ekki til peningur fyrir alla, bara suma. Þeir hafa holan hljóm. Þegar hlustað er á forráðamenn ríkisstjórnarinnar ræða um efnahags- og kjaramál, er bjart framundan. Annar stjórnarflokkurinn stærir sig meira að segja af því að það sé ekki nema eðlilegt að almenningur geri kröfur um hækkun launa, því svigrúmið sé fyrir hendi.

En þegar til kastanna kemur er svarið Nei.

Með atvinnurekendur í broddi fylkingar er fólki með laun á bilinu 200-400 þúsund kr. boðið 3,5% launahækkun og íspinna í kaupbæti!

Það á að vera nóg. En ekki fyrir þá sem eru með þrjár til sex miljónir á mánuði - það er allt annar Óli. Þeir eru atvinnulífinu svo mikilvægir.

Það verður að halda þeim við efnið, Þeir eiga skilið háa kaupauka því annars fer þjóðfélagið þráðbeint á hausinn. Eigum við að sleppa þessum snillingunum lausum aftur og taka svo við næsta hruni eins og ekkert sé?

 

Er þetta rugl eitthvert náttúrulögmál?

Nei, að sjálfsögðu ekki!

 

Það er tími til kominn að almenningur á Íslandi fari að taka í taumanna! Ísland er ekki fátækt land. Við erum ekki þjáð að hori og beinkröm.

Við erum rík þjóð!

Náttúruauðæfi landsins eru gríðarleg og leitun er að öðru landi sem er þjóð sinni svo gjöfult. Svo ég tali nú ekki um ef við miðum við fólksfjölda. Við eigum gjöful fiskimið. Við búum að miklum möguleikum á raforkuframleiðslu svo ekki sé minnst á nýju auðlindina; ferðamennskuna sem byggir á náttúru okkar og víðerni. Öll þessi miklu auðæfi ættu að veita okkur, þessari 300 þúsund manna þjóð, fáheyrð lífsskilyrði og velmegun. En það er öðru nær.

 

- Það eru maðkar í mysunni!

- Það eru skemmd epli í tunnunni!

- Það eru samfélagsdólgar á ferðinni!

 

Stórtækar breytingar á skattkerfinu leiða til þess að almenningur þarf að taka á sig þyngri byrðar, en auðkonum og auðmönnum skal boðið í dans. Arðurinn og rentan af sjávarútveginum lendir í vösum fárra aðila, sem varðir eru af leiguþýi við Austurvöll. Arðurinn af stóriðjunni lendir meira og minna í höndum erlendra eigenda með hókus-pókus gjörningum. Ráðherrar íslensku þjóðarinnar er skósveinar viðskiptajöfra í sendiferðum erlendis.

 

- Þeir lækka veiðigjöldin svo stóreignamenn megi græða meira.

- Þeir hækka matarskattinn svo barnafjölskyldur fái að greiða meira.

- Þeir þrengja að lánasjóðnum svo fátæku námsmennirnir geti haft það verra.

- Þeir hækka komugjöldin þannig að sjúkir fái að blæða.

 

Dreifing auðs með jöfnuði að leiðarljósi er hugmyndafræði sem við virðumst vera að fjarlægjast. Þróun samfélags á að snúast um samvinnu – samtal – virðingu og velferð. Það sem einkennir hið svokallaða Norræna velferðarmódel er meðal annars sterk velferðarkerfi. Velferðarkerfi sem byggir á samtryggingahugsjón, þar sem við hjálpumst að. Þeir sem þurfa á aðstoð að halda, fái hana, án tillits til efnahags. Menntun sé boðleg fyrir alla, óháð efnahag. Heilbrigðisþjónusta sé fyrir alla, óháð efnahag. Samfélagslegt uppeldi barna okkar sé vel útfært, fyrir alla, óháð efnahag. Þessi samtryggingarhugsjón á Norðurlöndum hefur skilað sér í sterkari og stöðugri samfélögum. Þvert á allar spár frjálshyggju postulanna og viðskiptaráðs, þá eru það samfélög þar sem jöfnuður og félagshyggja er í fyrirrúmi, sem gefa bestu lífsgæðin.

 

Við verðum að vera á varðbergi nú þegar einkavæðingarjarlarnir eru aftur komnir af stað. Þróunin undanfarin ár ógnar samtryggingarhugsjóninni og nú eru úlfarnir farnir að heimta sitt:

 

- Einkavæðingu íslenskrar náttúru

- Einkavæðingu- og einkarekstur í heilbrigðis- og velferðarþjónustu

- Einkavæðingu- og einkarekstur menntastofnana

- Einkavæðingu orkugeirans

- Einkavæðingu bankageirans

 

Góðir félagar

Við stöndum nú á tímamótum þar sem teknar verða afdrifaríkar ákvarðanir um afdrif þjóðarinnar. Nú standa yfir einhver mestu og illvígustu átök á vinnumarkaði sem sést hafa í áratugi. Fullkomið vantraust og trúnaðarbrestur er á milli aðila. Við höfum séð hvernig atvinnurekendur koma fram. Á almenna markaðnum greiða fyrirtækin milljarða arð til eigenda sinna og segja launafólki að éta það sem úti frýs. Ríkisvaldið gerir hina ríku ríkari og rekur samningastefnu þar sem beinlínis er hvatt til átaka. Það er tími til kominn að launafólk sýni mátt sinn og megin.

 

Félögum okkar í verkfallsbaráttunni óska ég velfarnaðar. Hjarta okkar slær með ykkar í dag.

 

Stöndum saman! 

 

Tryggjum að dólgarnir steli EKKI undan okkur sameiginlegum auðæfum, verjum velferðarsamfélagið og gleymum því ekki að á ævikvöldi okkar viljum við gjarnan geta horft í augu barnabarnanna og sagt með reisn; „Kútur litli, ég barðist fyrir þig og landið okkar allra“.

 

Til hamingju með daginn félagar.

 

 

 

Við upphaf göngunnar 1. maí 2015

F.v.: Einar Andrésson, f.v. formaður Fangavarðafélags Íslands og Árni Stefán Jónsson, formaður SFR

Af www.sfr.is

 

Skráð af Menningar-Staður
 

 

02.05.2015 21:55

Staðan á vinnumarkaði á ábyrgð stjórnvalda

 

 

Elín Björg Jónsdóttir í Þorlákshöfn, formaður BSRB, er hér að flytja hátíðarræðu á Akureyri í gær.

 

Staðan á vinnumarkaði á ábyrgð stjórnvalda

 

Í stað þessa að nýta einstakt tækifæri eftir gerð kjarasamninga í fyrra og leggjast á eitt með launafólki, og vinna sameiginlega að bættum hag almennings, héldu stjórnvöld inn á braut sérhagsmuna og ójafnaðar. Þetta sagði Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB í ræðu í tilefni verkalýðsdagsins.
 

Elín sagði laun afmarkaðra hópa hafa hækkað langt umfram það sem fjölmennustu og lægst launuðu hóparnir höfðu samið um. Ríkisstjórnin hafi gefið eftir tekjustofna á þá efnamestu, áfram hafi verið skorið niður á flestum sviðum opinberrar þjónustu og skattar á matvæli hækkaðir. Greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu haldi áfram að aukast. Réttur atvinnulausra til áunninna bóta hafi verið skertur og fátækt fari vaxandi. Með aðgerðum sínum í þágu hinna fáu efnameiri hafi stjórnvöld og atvinnurekendur hafnað því að vinna sameiginlega á grunni stöðugleika og samstöðu. Þetta sé ástæða þess að staðan á vinnumarkaðnum er eins og hún er.

„Þeir hæst launuðu skammta sér enn hærri laun, bónusa og milljarða í arðgreiðslur. Á meðan eru kröfur um hækkun lægstu launa sagðar ógna efnahagslífinu í heild. Er það skrítið að fólk upplifi mikla misskiptingu, óréttlæti og ósanngirni þegar svona er farið að?“ spurði Elín.

„Megin markmið baráttunnar var og hefur alltaf verið að þau nái til allra,“ sagði Elín. „Því miður er upplifunin sú að þessi hugsjón jafnaðar og samhjálp sé á útleið og að aukin einstaklingshyggja, ójöfnuður og um leið óréttlæti séu að taka yfir.“

Af www.ruv.is

Skráð af Menningar-Staður

01.05.2015 07:38

Í dag er 1. maí um land allt

 

 

 

Í dag er 1. maí um land allt


Skráð af Menningar-Staður