Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2015 Júní

22.06.2015 21:38

Merkir Íslendingar - Steingrímur Hermannsson

 

Björn Ingi Bjarnason og Steingrímur Hermannsson, f.v. forsætisráðherra, á tröppum Ráðherrabústaðarins við Tjarnargötu 32 í Reykjavík þar sem Steingrímur ólst upp. Húsið stóð áður á Sólbakka við Flateyri sem íbúðarhús hvalfangarans Hans Ellefsen.

 

Merkir Íslendingar - Steingrímur Hermannsson

 

Steingrímur fæddist í Reykjavík 22. júní 1928, sonur Hermanns Jónassonar, alþingismanns og ráðherra og eiginkonu hans, Vigdísar Oddnýjar Steingrímsdóttur.

Steingrímur Hermannsson ólst upp í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu 32 í Reykjavík sem sonur forætisráðherra, Hermanns Jónassonar.

 

Steingrímur lauk stúdentsprófi frá MR 1948 og prófi í rafmarksverkfræði frá tækniháskólanum í Chicago árið 1951. Þá lauk hann  M.Sc.-próf frá California Institute of Technology í Pasadena árið 1952.
 

Eftir nám starfaði Steingrímur sem verkfræðingur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1952—1953 og hjá Áburðarverksmiðjunni  1953—1954. Hann starfaði einnig sem  verkfræðingur við Southern California Edison Company í Los Angeles 1955—1956. Hann var framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins 1957—1978.
 

Steingrímur var kjörinn á Alþingi 1971 fyrir Framsóknarflokkinn og sat þar til ársins 1994, fyrst fyrir Vestfjarðakjördæmi en frá 1987 fyrir Reykjaneskjördæmi. Hann var dóms- og kirkjumála- og landbúnaðarráðherra frá 1978 til 1979 og sjávarútvegs- og samgönguráðherra frá 1980 til 1983 þegar hann var skipaður forsætisráðherra. Hann tók árið 1987 við embætti utanríkisráðherra en var árið eftir forsætisráðherra á ný til 1991.
 

Steingrímur var formaður Framsóknarflokksins á árunum 1979 til 1994 og gegndi að auki fjölda trúnaðarstarfa og embætta. 
 

Steingrímur  var seðlabankastjóri frá 1994 til 1998.
 

Steingrímur var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Sara Jane Donovan og þau eignuðust þrjú börn: Jón Bryan, Ellen Herdísi og S. Neil. Síðari kona Steingríms var Guðlaug Edda Guðmundsdóttir. Þau eignuðust þrjú börn:  Hermann Ölvir,  Hlíf og Guðmund.

 

Hér má sjá Steingrím Hermannsson og fleiri frambjóðendur í Vestfjarðakjördæmi á framboðsfundi á Þingeyri árið 1979.
Sjá  þessa slóð: 
https://www.youtube.com/watch?v=lI1gCMxbLHo

 

 

Ráðherrabústaðurinn að Tjarnargötu 32 í Reykjavík.
 

Skráð af Menningar-Staður

 

21.06.2015 11:50

21. júní 2015 - Sumarsólstöður

 

 

21. júní 2015 – Sumarsólstöður

 

Í dag, sunnudaginn 21. júní 2015, eru sólstöður að sumri, en þá er dagurinn lengstur hjá okkur. Nánar tiltekið eru sólstöður kl. 16:38 í dag en á því augnabliki snýr norðurpóll jarðar næst sólu.


Upp úr þessu fara dagarnir að styttast en þrátt fyrir það mun þó líklega hlýna enn um sinn því að meðaltali er hvað hlýjast í lok júlí.

 

Stokks-Eyrarbakka-Selfoss

 
Veður 21.06.15 kl 11:41: 
Hiti: 16.2°C 
Vest suð vestan 0.9 m/s 
Úrkoma dagsins 0.0 mm 
Sólarupprás 2:58
Sólsetur 23:54
________________________

 

Veður 21.06.15 kl 12:31: 
Hiti: 16.7°C 
Suð suð vestan 0.4 m/s 
Úrkoma dagsins 0.0 mm 
Sólarupprás 2:58
Sólsetur 23:54

 


 

Skráð af Menningar-Staður

 

21.06.2015 07:55

Birgitta Spur veitir leiðsögn um sýninguna Samspil - Sigurjón Ólafsson & Finn Juhl

 

 

Listasafn Eyrbekkingsins Sgurjóns Ólafssonar

sem er í Laugarnesi í Reykjavík.

 

Birgitta Spur veitir leiðsögn um sýninguna

Samspil - Sigurjón Ólafsson & Finn Juhl


Birgitta Spur veitir leiðsögn um sýninguna Samspil - Sigurjón Ólafsson & Finn Juhl – Hugarflug milli höggmyndar og hönnunar í dag, sunnudaginn 21. júní 2015, kl. 15 í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar.

Á báðum hæðum safnsins hefur verið stillt saman verkum eftir Sigurjón og húsgögnum Juhls, frá þeim tíma í Danmörku þegar þeir voru samstiga og Juhl valdi fyrir heimili sitt og teiknistofu verk Sigurjóns.

Eyrbekkingurinn Sigurjón Ólafsson.

 

Skráð af Menningra-Staður
 

20.06.2015 10:43

Fjölmenni við Stað í morgun

 

 

Þjóðverjarnir við rútuna frá Bændaferðum.

 

Fjölmenni við Stað í morgun

 

Fjöldi ferðamanna var við Félagsheimilið Stað á Eyrarbakka í morgun - 20. júní 2015
 

Meðal gesta var hópur Þjóðverja á ferð um Ísland í 11 daga ferð með Bændaferðum.


Þau fengu sér morgunkaffi á Stað og mynduðu síðan mikið; hús, fjörur og fleira. Sérlega Hjallastefnuna sem er mjög vinsælt myndefni.

 

Skráð af Menningar-Staður.
 

20.06.2015 08:16

JÓNSMESSUHÁTÍÐIN Á EYRARBAKKA 20. JÚNÍ 2015

 

 

JÓNSMESSUHÁTÍÐIN Á EYRARBAKKA 20. JÚNÍ 2015

 

09:00 Fánar dregnir að húni við upphaf 16. Jónsmessuhátíðarinnar á Bakkanum
Eyrbekkingar flagga íslenska fánanum eða Bakkafánanum og ganga frá skreytingum í hverfalitunum.


09:00-22:00 Bakkinn
Verslunin verður opin allan daginn og langt fram á kvöld – kíkið við í spjall og börnin fá skrímslaís um miðbik dagsins.


10:30-17:00 Laugabúð í Sjónarhóli
Sagan er allt umlykjandi í þessu sögufræga húsi, þar sem Guðlaugur Pálsson rak verslun í 74 ár frá 1919 til 1993, þegar hann féll frá tæplega 98 ára gamall. Nýjar vörur og gestakaupmenn frá höfuðborginni í aðalhlutverki.


11:00-18:00 Byggðasafn Árnesinga í Húsinu og Sjóminjasafnið á Eyrarbakka
Ókeypis aðgangur á hátíðinni.
Fjölbreyttar sýningar og sagan við hvert fótmál. Ávallt heitt á könnunni. Í borðstofu Hússins er sýningin Konur, skúr og karl sem fjallar um 19. aldar ljósmyndara á Stokkseyri og í Assistentahúsinu er sýningin Vesturfarar. Þar segir frá upphafi þeirra merku fólksflutninga Íslendingasögunnar sem hófust á Eyrarbakka. Sjóminjasafnið er opið uppá gátt.


11:00 Unga kynslóðin skemmtir sér
Hinn sívinsæli Brúðubíll kemur í heimsókn að Sjóminjasafninu. Og nú er aldeilis ys og þys í Brúðubílnum. Söngur, sögur og leikrit. Björgunarsveitin verður svo með eitthvað frábært til afþreyingar og kannski verður eitthvað gott í gogginn.


11:00 Bakkastofa og Húsið

Sýnishorn af Eyrarbakkabrúnni sem er samstarfsverkefni Hússins á Eyrarbakka og Bakkastofu við Eyrargötu.

11:30-22:00 Rauða húsið á Eyrarbakka
Þriggja rétta Jónsmessutilboð allan daginn – sumarsalat, hrossalund og súkkulaðikaka.

Tilboð á pizzu og bjór eða kaffi og kökum niðri á Rauða kaffihúsinu í kjallaranum.


12:00-14:00 Heimboð í Garðshorn
Elínbjörg Ingólfsdóttir og Vigfús Markússon bjóða í Jónsmessusúpu. Kl. 12:30 má búast við óvæntri uppákomu.
Ása Magnea, nýútskrifaður ljósmyndari, verður með ljósmyndasýninguna Sjómenn frá Eyrarbakka og önnur verk tengd Eyrarbakka á pallinum. Það gerist alltaf eitthvað spennandi í Garðshorni.


13:00-17:00 Sjávarfang á Sölvabakka
Í vesturenda Frystihússins er húsnæði sem nefnist Sölvabakki og þar er margt braukað, sem forvitnilegt er að heyra og sjá. Boðið verður upp á sjávarfang og sagðar sannar veiðisögur af Geira og áhöfninni á Sölva ÁR150.


13:30-15:00 Bakki Hostel
Nýlega var opnað glæsilegt farfuglaheimili í Frystihúsinu. Öllum boðið að skoða.


14:00-16:00 Heimboð að Hvoli við Eyrargötu og í Konubókastofu í Blátúni við Túngötu

Hulda Ólafsdóttir á Hvoli býður gestum í heimsókn til sín í gamla sýslumanns- og prestssetrið, sem byggt var 1914.
Í Konubókastofu í Blátúni verður opið og tekið á móti gestum, eins og sögupersónum í Dalalífi Guðrúnar frá Lundi.


15:00 Sumartónleikar í Bakkastofu
Aðgangseyrir 1.500 kr. – miðasala við innganginn.
Valgeir Guðjónsson, sannkallaður stuðmaður, heldur sumartónleika í Bakkastofu við Eyrargötu.


15:30 Konur, skúr og karl – Ljósmyndarar á Stokkseyri 1896-1899
Leiðsögn um sumarsýningu byggðasafnsins í Húsinu, sem veitir innsýn í stöðu kvenna í heimi ljósmyndunar.


16:00 Heimsókn frá vinabænum Þorlákshöfn í Eyrarbakkakirkju
Aðgangur ókeypis, en frjáls framlög.
Tónar og Trix er tónlistarhópur eldri borgara í Ölfusinu, sem hefur mikla ánægju af því að syngja saman og spila á hljóðfæri. Þau hafa slegið í gegn að undanförnu með nýju plötunni sinni og ætla að leyfa okkur að heyra brot af því besta undir stjórn Ásu Berglindar Hjálmarsdóttur.


17:00 Íslandsmeistaramótið í koddaslag
Björgunarsveitin stendur fyrir þriðja Íslandsmeistaramótinu í koddaslag á bryggjunni á Eyrarbakka. Skráning hefst á staðnum kl. 16:45 – aldurstakmark, en allir velkomnir til þess að fylgjast með.


17:00 Bakkastofa og Húsið
Sýnishorn af Eyrarbakkabrúnni sem er samstarfsverkefni Hússins á Eyrarbakka og Bakkastofu við Eyragötu.


20:15 Raddbandakórinn ræskir sig í Húsinu
Heimir Guðmundsson, sem fæddur er í Húsinu árið 1944, leiðir fjöldasöng í stássstofunni og spilar á elsta píanó á Suðurlandi. Skólasöngvarnir og fleiri kvæðakver dregin fram og hver syngur með sínu nefi.


22:00 Jónsmessubrenna
Jónsmessubrenna í fjörunni vestan við Eyrarbakkaþorp. Ingibjörg Vigfúsdóttir, Flóamaður og fyrrum Eyrbekkingur, flytur stutt ávarp. Hið frábæra Bakkaband heldur svo uppi fjörinu meðan menn endast.


23:00 Jónsmessugaman á Hótel Bakka í Frystihúsinu
Aðgangseyrir 1.000 kr. – miðasala við innganginn
Þeir sem enn hafa kraftinn hittast og skemmta sér. Tilboð á barnum. Aldurstakmark er 18 ár.

 

Tjaldsvæðið vestan þorpsins, sem Björgunarsveitin Björg rekur, hefur verið stækkað
ÖLL ÞÆGINDI OG NÓG PLÁSS.

Upplýsingamiðstöð ferðamanna á Stað er opin frá kl. 7:30 til 18:00.

Af www.eyrarbakki.is

 

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

19.06.2015 08:16

19. júní 1915 - Kvenréttindadagurinn

 

 

Á Austurvelli við Alþingishúsið 19. júní 1919.

 

19. júní 1915 - Kvenréttindadagurinn

 

Kristján konungur X staðfesti breytingar á stjórnarskránni. 


Konur fengu þá kosningarétt og kjörgengi til Alþingis, en fyrst í stað var miðað við 40 ára og eldri. 


Réttindunum var fagnað á Austurvelli 7. júlí, við setningu Alþingis.

 

 

Morgunblaðið föstudagurinn 19. júní 2015 - Dagar Íslands - Jónas Ragnarsson.Skráð af menningar-Staður

18.06.2015 22:35

Auglýsing frá Sveitarfélaginu Árborg

 

Efri röð: Solveig Thorgrímsen, Anna Lefoli, Sigríður Þórðardóttir Guðmundsson og Silvía Lingje. Neðri röð f.v.: Eugenía Nielsen og Ásta Júlía Thorgrímsen.
Mynd: Héraðsskjalasafn Árnesinga

Efri röð: Solveig Thorgrímsen, Anna Lefoli, Sigríður Þórðardóttir Guðmundsson og Silvía Lingje.

Neðri röð f.v.: Eugenía Nielsen og Ásta Júlía Thorgrímsen. Mynd: Héraðsskjalasafn Árnesinga

 

Auglýsing frá Sveitarfélaginu Árborg

 

 

Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna verða eftirfarandi stofnanir Sveitarfélagsins Árborgar lokaðar frá kl. 12:00 á morgun, föstudaginn föstudaginn 19. júní 2015.

 

Leikskólinn Álfheimar
Leikskólinn Árbær
Leikskólinn Brimver/Æskukot
Leikskólinn Hulduheimar
Leikskólinn Jötunheimar
Sunnulækjarskóli og Hólar skólavistun
Vallaskóli og Bifröst skólavistun

Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri og skólavistun

Bókasafn Árborgar

Ráðhús Árborgar, fjármálasvið, félagsþjónusta og fræðslusvið Félagsleg heimaþjónusta – þjónusta í heimahús og skrifstofumenn

Framkvæmda- og veitusvið

Skipulags- og byggingardeild

Selfossveitur

Eftirfarandi stofnanir Sveitarfélagsins Árborgar verða lokaðar frá kl. 12:00 – 16:00
Íþróttahús Vallaskóla
Íþróttahús Sunnulækjarskóla
Sundhöll Selfoss
Sundlaug  Stokkseyrar

Gámasvæði Víkurheiði.

Af www.arborg.is

Skráð af Menningar-Staður  

 
 

18.06.2015 21:28

Íslenski fáninn 100 ára

 

 

 

Íslenski fáninn 100 ára

 

Íslenski fáninn er 100 ára gamall á á morgun, föstudaginn 19. júní 2015. 
Sama dag og konungur staðfesti stjórnarskrárbreytingu sem leiddi í lög kosningarétt kvenna, var staðfest með konungsúrskurði að Íslendingar fengu sinn eigin þjóðfána, til nota innanlands og innan landhelgi við strendur landsins, sem þá var aðeins ein sjómíla. Íslenskur þjóðfáni varð alþjóðlegur siglingafáni og fullgildur þjóðfáni með fullveldi landsins 1. desember 1918. Þríliti fáninn með hvítum krossi á bláum grunni og rauðum krossi innan í þeim hvíta, varð niðurstaðan eftir miklar og heitar umræður í landinu. Margir vildu halda í tvílita bláa fánann með hvítum krossi, en þessi varð niðurstaðan. Rauði liturinn á að tákna eld, blái liturinn hafið og himininn og hvíti liturinn jökla. Rautt og hvítt táknar þannig eld og ís. Litirnir eru hinir sömu og í franska þjóðfánanum, þar sem lititnir tákna slagorð Frönsku byltingarinnar: Frelsi, jafnrétti, bræðralag.


Rauði liturinn kom frá Dönum

Rauði liturinn var settur í íslenska fánann að beiðni danskra stjórnvalda en Íslendingar höfðu fyrst valið sér bláhvítan fána. Meginröksemd Dana var sú að bláhvíti fáninn væri allt of líkur gríska fánanum og raunar alveg eins og grískur sérfáni, konungsfáninn. Málið var Danakonungi nokkuð skylt þar sem Georg I, konungur Grikklands 1863-1913, var sonur Kristáns IX Danakonungs (1863-1906) og albróðir Friðriks VIII Danakonungs (1906-1912). Margir íslenskir þjóðernissinnar kunnu hins vegar rauða litnum illa vegna þess að tillagan um hann var upphaflega dönsk. Því var haldið fram að tillagan ætti rætur að rekja til þess að minna ætti á tengsl Íslands og Danmerkur en eins og er kunnugt er rautt grunnlitur danska fánans. Þetta er miklu langsóttari skýring en sú staðreynd að bláhvítur krossfáni var þegar í gildi í Grikklandi. Þetta má lesa á Vísindavefnum og nánar um sögu íslenska fánans má lesa 
á vef stjórnarráðsins.

 


 

Skráð af Menningar-Staður

 

18.06.2015 20:29

Auglýst eftir presti til að sinna afleysingaþjónustu í Eyrarbakkaprestakalli

 

 

Auglýst eftir presti til að sinna afleysingaþjónustu

í Eyrarbakkaprestakalli

 

Biskup Íslands auglýsir eftir presti til að sinna afleysingaþjónustu í Eyrarbakkaprestakalli, Suðurprófastsdæmi. Um tímabundna setningu í embættið er að ræða, frá og með 1. júlí 2015 til 30. júní 2016.

Eyrarbakkaprestakall er á samstarfssvæði með Hveragerðisprestakalli, Selfossprestakalli og Þorlákshafnarprestakalli. Íbúar prestakallsins eru rúmlega eitt þúsund.

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir persónulegum upplýsingum, menntun, starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Staðfest afrit af prófskírteini skal fylgja umsókn svo og upplýsingar um starfsþjálfun.

Umsækjendum ber að fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að sakaskrá viðkomandi umsækjanda. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Eyðublaðið er að finna á vef kirkjunnar: https://innri.kirkjan.is/pdf/samthykki-fyrir-oflun-upplysinga-ur-sakaskra.pdf

Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs.

Nánari upplýsingar um prestakallið eru veittar hjá prófasti Suðurprófastsdæmis og á Biskupsstofu.

Umsóknarfrestur rennur út 19. júní 2015.

Umsóknir sendist biskupi Íslands, Biskupsstofu, Laugavegi 31, 101 Reykjavík.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

 

F.h. biskups Íslands

Sveinbjörg Pálsdóttir


Skráða f Menningar-Staður

18.06.2015 15:10

Þjóðhátíðarmynd Hjallastefnunnar

  

17. júní 2015


Þjóðhátíðarmynd Hjallastefnunnar á Eyrarbakka
 

 

Skráð af Menningar-Staður