Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2015 Ágúst

05.08.2015 22:19

Húsið á Eyrarbakka 250 ára - hátíðarsamkoma 9. ágúst 2015

 

.

 

Húsið á Eyrarbakka 250 ára -

hátíðarsamkoma sunnudaginn 9. ágúst 2015

 

Í sumar eru 250 ár liðin síðan Húsið á Eyrarbakka var byggt. Af því tilefni boðar Byggðasafn Árnesinga til hátíðarsamkomu í Húsinu á Eyrarbakka þann 9. ágúst næstkomandi og hefst kl. 14.

Á samkomunni verða flutt erindi og ávörp auk þess sem tónlist tengd Húsinu verður flutt. Þau sem koma fram á samkomunni eru m.a. Ásta Kristrún Ragnarsdóttir, Valgeir Guðjónsson, Halldór Blöndal, Guðmundur Ármann Pétursson og Hlín Pétursdóttir.

Léttar veitingar verða í boði.

Allir velkomnir.

 

Húsið var byggt af Almenna verslunarfélaginu í Kaupmannahöfn árið 1765 sem árið áður hafði fengið einkarétt á verslun á landinu. Enn erum við á tímum einokunarverslunar. Á vegum Almenna verslunarfélagsins var danskur reynslumikill kaupmaður, Jens Lassen að nafni, ráðinn forstöðumaður verslunarinnar á Eyrarbakka. Jafnframt var gefin út heimild til að setja niður á verslunarstaðina íbúðarhús fyrir kaupmennina í þeirri viðleitni yfirvalda í Danmörku að efla verslunarlíf og bæta hag Íslendinga.

 

Ekki er vitað hverjir byggðu Húsið. Talið er víst að það hafi verið danskir smiðir, en Þorgrímur Þorláksson múrari á Bessastöðum hlóð upp reykháfinn, eldstæði og bakaraofn. Þorgrímur var kominn aftur til Bessastaða þann 23. ágúst og var þá verki hans á Eyrarbakka lokið. Munnmælasögur segja að ekkert timbur hafi verið selt úr Eyrarbakkaverslun þetta sumarið því það hafi allt farið í nýbygginguna.

 

Húsið er svonefnt bolhús,12,7x9 metrar að grunnfleti, með rennisúð á þaki. Stokkarnir voru fluttir tilsniðnir til landsins frá Noregi. Tjargaðir og þéttir bjálkarnir voru ysta klæðning fyrst um sinn og e.t.v. í heila öld.

 

Að skipulagi bar Húsið í upphafi mörg einkenni danskrar húsagerðar, inngangur að sunnanverðu og norðanverðu, stofur og herbergi til beggja enda, rishæð og hanabjálkaloft.

 

Byggt var við Húsið árið 1766 en sú viðbygging vék síðar fyrir nýrri viðbyggingu, Assistentahúsinu árið 1881.

 

Húsið var kaupmannssetur til 1927. Veldi þeirra sem þar bjuggu var ótvírætt, húsbændurnir þjónuðu stærstu verslun landsins en kaupsvæði Eyrarbakkaverslunar náði yfir þrjár sýslur á Suðurlandi. Var ekki laust við að bændur litu með lotningu á Húsið þegar riðið var framhjá því á leið til verslunarhúsanna sem illu heilli voru rifin árið 1950.

 

Blómatími Hússins á Eyrarbakka var þegar Lefolii stórkaupmaður í Kaupmannahöfn átti verslunina. Var verslunin kennd við kaupmanninn og nefndist Lefolii-verzlun á Eyrarbakka. Þetta er á tímabilinu 1847 til 1918. Lefolii kaupmaður kom gjarnan á vorin og fór að hausti. Allt árið var svo búsettur í Húsinu verslunarstjóri hans ásamt fjölskyldu. Þekktastir þeirra voru Guðmundur Thorgrímsen og síðar Peter Nielsen sem nutu mikilla vinsælda meðal almennings. Mikil umsvif voru við verslunina sem þjónaði þremur sýslum en innan dyra Hússins blómstraði menningin. Í hnotskurn má segja að í Húsinu hafi mæst dönsk borgarmenning og íslensk bændamenning. Fyrir það varð Húsið á Eyrarbakka landsfrægt.

 

Hjónin Halldór Kr. Þorsteinsson og Ragnhildur Pétursdóttir sem kennd hafa verið við býlið Háteig í Reykjavík, keyptu Húsið árið 1932 og létu gera það upp enda þá komið í niðurníslu. Er talið að það sé í fyrsta sinn sem einstaklingar kaupa hús vegna sögu sinnar og því fyrsta merki um húsavernd á Íslandi. Þau Auðbjörg Guðmundsdóttir og þáverandi eiginmaður hennar Pétur Sveinbjarnarson keyptu Húsið árið 1979 og létu gera upp í upprunalega mynd. Bjó Auðbjörg í Húsinu til ársins 1994. Þá hafði hún selt ríkissjóði Húsið og var Þjóðminjasafni Íslands falin umsjón þess og viðgerðir. Er byggingin nú hluti af húsasafni þess.

Frá árinu 1995 hefur Byggðasafn Árnesinga séð um daglegan rekstur Hússins á Eyrarbakka og er með grunnsýningu sína í því.

 

Húsið á Eyrarbakka er á meðal merkustu menningarverðmæta sem varðveitt er á landsvísu. Þess vegna er vel við hæfi að Húsið sé umgjörð um Byggðasafn Árnesinga. Það eru ekki allir sem geta boðið upp á sýningu í 18. aldar húsi og þar liggur styrkleiki safnsins. Umhverfis Húsið er svo þétt byggð timburhúsa sem byggð voru á tímabilinu 1880 til 1930 og markar þorpinu Eyrarbakka sunnlenska sérstöðu.

 

Nú sem fyrr er gestkvæmt í Húsinu á Eyrarbakka. Það stendur enn á sínum upprunalega stað og mynda húsin tvö, Húsið og Assistentahúsið, einstakt sjónarhorn þegar horft er til Hússins frá Eyrargötu. Það er margt forvitnilegt í kringum þetta gamla stílhreina hús og merka sögu þess. Það bíður þess að gestir líti það augum. Það er almenningseign og öllum velkomið að drepa þar inn fæti.

 

Lýður Pálsson

safnstjóri Byggðasafns Árnesinga
 

 


Skráð af Menningar-Staður 

05.08.2015 10:34

Glímt við gátuna

 

Hér glíma við gátuna á Rakarastofu Björns og Kjartans á Selfossi. 

F.v.: Krsitján Runólfsson í Hvaeragerði og Hróbjartur Vigfússon í Vík í Mýrdal.

 

Glímt við gátuna

 

Síðasti dagur til þess að skila verðlaunakrossgátu vegna 80 ára minningar Hafliða Magnússonar er í dag, miðvikudaginn 5. ágúst 2015.

 

Krossgátan var í Sunnlenska fréttablaðinu þann 16. júlí s.l.  á 80 ára afmælisdegi Hafliða en hann lést þann 25. júní 2011.
 

Skila skal krossgátunni á skrifstofu Sunnlenska fréttablaðsins að Austurvegi 6 á Selfoss.

 

Verðlaun eru til fimm þátttakenda og gefin af Vestfirska forlaginu á Þingeyri og eru tvær af bókum Hafliða Magnússonar.
 

Hér er verðlaunakrossgátan - gjörið svo vel !

 

 

Skráð af Menningar-Staður

05.08.2015 06:39

Kaupmannahöfn fór fram úr London í júlí

 

Frá Kaupmannahöfn.

 

Kaupmannahöfn fór fram úr London í júlí 2015

Höfuðborg Bretlands er alla jafna sú borg sem oftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli en sú danska nær toppsætinu yfir hásumarið. 

 

Yfir vetrarmánuðina setur um fimmta hver flugvél sem tekur á loft frá Keflavíkurflugvelli stefnuna á London og um tíunda hver fer til Kaupmannahafnar. Á sumrin fjölgar flugleiðunum frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar töluvert og vægi höfuðborga Bretlands og Danmerkur minnkar en þær eru þó áfram þeir tveir áfangastaðir sem oftast er flogið til. Í júlí eykst umferðin til Kaupmannahafnar vanalega meira en til Lundúna og þannig var það einnig í síðastliðnum mánuði. Þá voru farnar 162 áætlunarferðir héðan til Kaupmannahafnar eða ríflega fimm á dag á meðan ferðirnar á flugvellina í nágrenni við London voru 151 talsins samkvæmt talningu Túrista. Vægi annarra áfangastaða, í umferðinni um Keflavíkurflugvöll, er nokkru minni eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan en samtals var boðið upp á áætlunarflug til 56 borga í júlí.

Þær borgir sem oftast var flogið til í júlí

 1. Kaupmannahöfn: 8,1% allra brottfara
 2. London: 7,5% allra brottfara
 3. París: 6,7% allra brottfara
 4. New York: 6,2% allra brottfara
 5. Boston: 6% allra brottfara
 6. Ósló: 5,7% allra brottfara
 7. Amsterdam: 4,6% allra brottfara
 8. Stokkhólmur: 3,3% allra brottfara
 9. Washington: 3,3% allra brottfara
 10. Berlín: 3,2% allra brottfara

  kaupmannahofn yfir

04.08.2015 08:10

"Pönnuveiði" í Þorlákshöfn

 

 

"Pönnuveiði" í Þorlákshöfn

 

Eyrbekkingar voru við pönnuveiðar á Þorlákshafnarbryggju í gær, 3. ágúst 2015 - frídegi verslunarmanna.Ólafur Bragason.

 

F.v.: Ólafur Bragason, Björn Ingi Bragsson og Jóna Guðrún Haraldsdóttir.

 

Skráð af Menningar-Staður

 

04.08.2015 07:42

Hjarta mitt slær alltaf vinstra megin

 

 

Kristinn Hermannsson.

 

Hjarta mitt slær alltaf vinstra megin

Kristinn Hermannsson er sjötugur í dag

 

Fyrir nokkrum árum greindist ég með hjartaflökt. Þakka þó fyrir að þetta hafi ekki verið pólitískt flökt. Þar er allt með kyrrum kjörum og mannslíkaminn, að minnsta kosti í mínu tilviki, er þannig gerður að hjartað slær alltaf vinstra megin,“ segir Kristinn Hermannsson, rafvirki á Selfossi, sem er sjötugur í dag. Þau Margrét Kristjánsdóttir, eiginkona hans, ætla að halda upp á daginn með ferð til Árósa í Danmörku, en ein þriggja uppkominna dætra þeirra hjóna er nú að flytja með fjölskyldu sinni til Árósa.

Kristinn er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum, en á rætur að rekja austur undir Eyjafjöll eins og svo margir Eyjamenn. „Sem strákur var ég í sveit á sumrin hjá ömmu minni og afa á Raufarfelli og átti þar góða daga. Og tengslin við þessar slóðir hafa alltaf haldist. Við erum nokkrir félagarnir sem förum austur undir Eyjafjöll og í Mýrdal í skemmtireisur tvisvar á ári; í kótelettuferð að vori og annan leiðangur að hausti þegar fýll er á borðum,“ segir Kristinn sem 1979 flutti með sínu fólki til Selfoss. Hefur síðustu 20 árin starfað hjá Árvirkjanum og þar helst sinnt rafmagnsvinnu innanbæjar á Selfossi.

„Í starfinu er ég svo heppinn að eiga þess kost að fara víða um og hitta fólk sem gaman er að rabba við. En nú styttist í að ég hætti að vinna og því kvíði ég ekki, enda er ég félagsvera og áhugamálin eru mörg. Félagi minn í Eyjum sagði að eftir starfslok kæmi einn samfelldur sunnudagur og inntak þeirra orða hyggst ég tileinka mér.“ 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 4. ágúst 2015Skráð af Menningar-Staður

03.08.2015 14:50

Aldamótahátíð á Eyrarbakka 8. ágúst 2015

Aldamótahátíð á Eyrarbakka 8. ágúst 2015

 

 

 
 
 
Skráð af Menningar-Staður

03.08.2015 07:24

10 ára gamla fréttin

 

 

 

10 ára gamla fréttin
 

3. maí 2005

Fimm ára afmælishátið

Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi

 

Föstudaginn 13. maí n.k. fagna Hrútavinir og gestir þeirra fimm ára afmæli félagsins í Lista- og menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri kl. 21:00 á sérstakri vorhátíð:

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og heiðursforseti Hrútavinafélagsins, flytur hátíðarávarp og fer yfir hlutverk og árangur félagsins á liðnum árum. Guðmundur Búason, síðasti framkvæmdastjóri Kaupfélags Árnesinga og stjórn félagsins, munu afhenda Hrútavinafélaginu uppstoppaðan hrút sem var um árabil á skrifstofu Kaupfélags Árnesinga á Selfossi. Jón Hákon Magnússon, framkvæmdastjóri KOM, Kynning og markaður, mun gera grein fyrir útrás Hrútavinafélagsins og tengsla félagsins við alþjóðasamtök og hnattvæðingu.

Félagar frá “Hinu konunglega danska Hrútavinafélagi” verða sérstakir gestir á hátíðinni og mun hljómsveit félagsins og Siggi Björns koma fram. Margir muna heimsókn hljómsveitarinnar árið 2001. Boðið upp á brenndar möndlur að hætti Dana á Strikinu. 

Gifsarnir, gítarsveit Tónlistarskóla Árnesinga, flytur gullaldarpopp með sérstakri áherslu á The Beatles og The Kinks. Ólafur Helgi Kjartansson, lögsögumaður Hrútavinafélagsins, fylgir þeirra dagskrá úr hlaði. Fjöldasöngur og fleira að hætti Hrútavina.

Elfar Guðni Þórðarson, listmálari á Stokkseyri og Hrútavinur, verður með forkynningu á málverkasýningu sem hann opnar svo formlega laugardaginn 14. maí kl. 14:00. 

Allir velkomnir og er aðgangseyrir aðeins kr. 1.000. Veitingar seldar á hátíðinni. Búist er við mikilli þátttöku og eru teknar pantanir hjá eftirtöldum: Siggeir s: 863-1182 / Björn Ingi s: 897-0542. 


Úr fréttaveitu Hrútavinafélagsins Örvars.

Skráð af Menningar-Staður

 

02.08.2015 06:21

Tónlistarhátíðin Englar og menn í Strandarkirkju í Selvogi

 

 

Tónlistarhátíðin Englar og menn

í Strandarkirkju í Selvogi

 

Þriðju tónleikar Tónlistarhátíð arinnar Englar og menn í Strandarkirkju verða í dag, sunnudag, 2. ágúst, kl. 14.

 

Á tónleikanum koma fram þrjár klassískar söngkonur, þær Ísabella Leifsdóttir sópran, Margrét Einarsdóttir sópran og Þóra Passauer kontra-alt ásamt organistanum Magnúsi Ragnarssyni. 

Yfirskrift tónleikanna er ,, Þér ég þakka " en söngkonurnar munu tileinka tónleikana Maríu Guðsmóður og móðurhluterkinu. Þær munu flytja íslensk og erlend ljóð, bænir, þjóðlög og aríur sem fjalla um Maríu mey, móðurhlutverkið og vernd eftir tónskáldin Gounod, Caccini, Schubert, Sigvalda Kaldalóns, Egil Gunnarsson, Eyþór Stefánsson, Atla Heimi Sveinsson, Pál Ísólfsson, Alexöndru Chernishovu og Önnu Þorvalds.

Tónleikarnir hefjast kl. 14 og eru um klukkustundar langir.

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sem er styrkt af Menningarráði Suðurlands, Tónlistarsjóði og Strandarkirkjunefnd. Aðgangseyrir að tónleikunum er 1.500 kr. Ekki er tekið við greiðslukortum.
 
Strandarkirkja er þekkt áheitakirkja og þykir þar vera sérstakur kraftur til hjálpar og bænheyrslu. Yfirskrift hátíðarinnar vísar til helgisagnarinnar um fyrstu kirkjuna þar, um ljósengilinn sem birtist sæförum í sjávarháska og þeir hétu á í örvæntingu sinni. Hann vísaði þeim að landi og þeir reistu þar kirkju í þakklætisskyni. Í Selvogi var fyrr á öldum blómleg byggð með útgerð og landbúnaði en nú er þar orðið strjálbýlt. Fjölmargir ferðamenn heimsækja Selvoginn og þar má njóta útivistar á fallegum gönguleiðum. Með tilkomu nýja Suðurstrandarvegarins hafa samgöngur stórbatnað og ferðamöguleikar orðið fjölbreyttari. Að tónleikum loknum er svo upplagt að fá sér
kaffi og kræsingar  hjá heimamönnum í kaffihúsinu T-bæ eða í Pylsuvagninum.

Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna á vef Strandarkirkju; http://kirkjan.is/strandarkirkja/, og á Facebooksíðu hátíðarinnar.

 


 

Skráð af Menningar-Staður
 

01.08.2015 07:27

Franskt fínerí og íslenskt glens og gaman

 

 

Franskt fínerí og íslenskt glens og gaman

Menningarveisla Sólheima
Tónleikar í Sólheimakirkju laugardaginn 1. ágúst klukkan 14:00


Hlín Pétursdóttir Behrens sópran, Pamela de Sensi flautuleikari og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari flytja draumkennda og töfrandi franska tónlist, tónlist Jóhanns G. Jóhannssonar og Tryggva M. Baldvinssonar við ljóð eftir Þórarin Eldjárn og Halldór Laxness og þjóðlög úr ýmsum áttum.


 

Skráð af Menningar-Staður