Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2016 Janúar

06.01.2016 15:40

Árborg mætir Reykjanesbæ í Útsvari föstudaginn 8. janúar 2016

 

Lið Árborgar. F.v.: Gísli Kristjánsson, Gísli Þór Axelsson og Herborg Pálsdóttir.

 

Árborg mætir Reykjanesbæ í Útsvari föstudaginn 8. janúar 2016

 

Lið Árborgar í Útsvarinu mætir liði Reykjanesbæjar föstudaginn 8. janúar nk. í beinni útsendingu úr sjónvarpssal.

Þátturinn hefst kl. 20:00 og geta áhugasamir farið í sjónvarpssal og hvatt sitt lið áfram en í Árborgarliðinu eru Herborg Pálsdóttir, Gísli Stefánsson og Gísli Axelsson. 

 

Þeir sem vilja mæta í sjónvarpssal þurfa að mæta upp í Efstaleiti 1, kl. 19:30 og bíða við svokallað „Markhúsartorg“.

Af www.arborg.is


Skráð af Menningar-Staður

 

06.01.2016 13:49

Merkir Íslendingar - Skúli Thoroddsen

 

 

Merkir Íslendingar - Skúli Thoroddsen

 

Skúli Thoroddsen sýslumaður og alþm.fæddist á Haga á Barðaströnd 6. janúar 1859, sonur Jóns Thoroddsen, skálds og sýslumanns, og k.h., Kristínar Ólínu Þorvaldsdóttur húsfreyju.

 

Skúli var einn af fjórum Thoroddsenbræðrum sem misstu föður sinn ungir frá skuldugu búi hans en komust þó allir til mennta vegna seiglu móður sinnar og með góðri hjálp frá mági hennar, Jón Árnasyni þjóðsagnasafnara. Hinir bræðurnir sem allir urðu þjóðþekktir, hver á sínu sviði og komust í góðar álnir, voru Þorvaldur, dr.phil. náttúrufræðingur í Reykjavík og Kaupmannahöfn; Þórður, læknir og alþm. í Keflavík og Reykjavík, faðir Emils tónskálds, og Sigurður, landsverkfræðingur og yfirkennari Menntaskólans, faðir Gunnars Thoroddsen forsætisráðherra.

 

Eiginkona Skúla var Theodóra Thoroddsen skáldkona og er frá þeim kominn fjöldi alþm. og annarra þjóðþekktra einstaklinga.

 

Skúli lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1879 og embættisprófi í lögfræði frá Hafnarháskóla 1884. Hann varð bæjarfógeti og sýslumaður á Ísafirði 1884, var vikið frá um stundarsakir vegna Skúlamálsins svo kallaða 1892 sem að upphafi var vegna mannsláts á Klofningsheiði milli Önundarfjarðar og Súgandafjarðar. Skúli fékk lausn frá störfum á eftirlaunum þremur árum síðar.

 

Skúli rak verslun á Ísafirði 1895-1915, var kaupfélagsstjóri Kaupfélags Ísfirðinga 1888-1901, stofnaði og var ritstjóri Þjóðviljans frá 1886, var sjálfseignarbóndi og starfrækti prentsmiðju á Bessastöðum á Álftanesi 1901-1908 en var búsettur í Reykjavík frá 1908.

Skúli var alþm. Eyfirðinga 1890-92, Ísafjarðarkaupstaðar 1892-1903 og Norður-Ísafjarðarsýslu 1903-1916 og forseti Sameinaðs Alþingis 1909-11. Hann var í hópi áhrifamestu stjórnmálamanna Heimastjórnartímabilsins, eindreginn málsvari Landvarnarmanna og sjálfstæðismanna eldri og sá fulltrúi Sambandslaganefndarinnar 1907 sem hafnaði Uppkastinu sem þjóðin síðan hafnaði í sögulegum kosningum 1908.
 

Skúli lést 21.maí 1916.

Morgunblaðið - Merkir ÍslendingarSkráð af Menningar-Staður

06.01.2016 11:08

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 6. janúar 2016

 

 

F.v.: Haukur Jónsson, Ragnar Emilsson, Siggeir Ingólfsson, Reynir Jóhannsson

og Halldór Páll Kjartansson. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 6. janúar 2016

 

Þrettándaspjall

Stefnumótun í Hjallastefnu.

 


F.v.: Nær - Ingólfur Hjálmarsson og Siggeir Ingólfsson.

 


F.v.: Reynir Jóhannsson og Halldór Páll Kjartansson.

 

 

Hjallastefnan og Halldór Páll Kjartansson.

 


Skráð af Menningar-Staður

 

06.01.2016 10:44

Hrútavinafélagið Örvar fékk 10 milljóna króna styrk frá Allrahanda menningarsjóði

 

Stjórnarfundur í Allrahanda menningarsjóðnum: Björn Ingi Bjarnason, Guðmundur Sigurðsson,

Reynir Traustason, Sigurdór Sigurðsson og Þórir Garðarsson.
 

 

Hrútavinafélagið Örvar fékk 10 milljóna króna styrk

frá Allrahanda menningarsjóði

 

„Allrahanda menningarsjóður“ veitti nýlega Hrútavinafélaginu Örvari á Suðurlandi 10 milljónir króna í styrk til mannlífs- og menningarstarfs. Styrkurinn dreifist á næstu fimm ár. Áður hafði sami sjóður stutt sama félag um 5 milljónir króna á árunum 2010-2015. Hrútavinafélagið Örvar er félags-, mannlífs- og menningarlegt samafl brottfluttra Vestfirðinga og heimamanna á Suðurlandi og hefur lagt gjörva hönd að ýmsum málum mannlífinu til heilla, segir í tilkynningu frá forráðamönnum félagsins.


Allrahanda er ferðaþjónustufyrirtæki, sem stofnað var af Flateyringunum Þóri Garðarssyni og Sigurdóri Sigurðssyni fyrir meira en tveim áratugum. Fyrirtækið sem nú nefnist Iceland Excursions Allrahanda ehf. er eitt stærsta rútufyrirtæki á landinu og stendur að baki þekktra vörumerkja á því sviði, svo sem Gray line Iceland og Iceland Excursions.

Allrahanda menningarsjóður er stofnaður af fyrirtækinu. Í stjórn sjóðsins eru Björn Ingi Bjarnason, Guðmundur Sigurðsson, Reynir Traustason, Sigurdór Sigurðsson og Þórir Garðarsson. Þeir eru allir Önfirðingar.

 

 

Af www.skutull.is

 

 

Skráð af Menningar-Staður

05.01.2016 21:33

Bakkablótið að Stað 30. janúar 2016

 

 

 

  Bakkablótið að Stað 30. janúar 2016

 


Skráð af Menningar-Staður
 

04.01.2016 20:28

Sjö sækja um forstjórastöðuna á Litla-Hrauni

 

Litla-Hraun á Eyrarbakka . Ljósm.: BIB

 

Sjö sækja um forstjórastöðuna á Litla-Hrauni

Sjö umsækjendur eru um stöðu forstöðumanns fangelsisins á Litla Hrauni og Sogni sem var nýlega auglýst laus til umsóknar eftir að Margrét Frímannsdóttir sagði upp störfum.

Umsækjendurnir eru;
Ari Björn Thorarensen,

Arnar Þór Arnarsson,

Arndís Soffía Sigurðardóttir,

Bergdís Hólm Davíðsdóttir,

Halldór Valur Pálsson,

Haukur Örn Jónsson

og Sigurjón Halldór Birgisson. 

Ráðið verður í stöðuna frá 1. febrúar 2016. Tryggvi Ágústsson fangavörður gegnir stöðunni fram að þeim tíma.

Af www.visir.is

 Skráð af Menningar-Staður

03.01.2016 12:56

Þorrablótið á Eyrarbakka verður 30. janúar 2016

 

 

 

Þorrablótið á Eyrarbakka verður 30. janúar 2016

 

Jæja gott fólk.

 

Það er ekki seinna vænna en að fara að huga að dressi fyrir Þorrablót og taka laugardaginn 30. janúar 2016 frá, því þá verður heljarinnar partý með öllu tilheyrandi og þorranum blótað eins og Eyrbekkingar gera best að Stað á Eyrarbakka. 

Eins og áður er það Slysavarnardeildin Björg sem heldur blótið, en í ár er það þó með breyttu sniði þar sem sérstök Þorrablótsnefnd mun halda utan um blótið sjálft.

Ágóði rennur því eins og áður til Slysavarnafélagsins.


Allar nánari upplýsingar munu koma inn með tíð og tíma, en það er klárt mál að þetta er eitthvað sem enginn vil missa af!


Þorrablótsnefndin


 


Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka. Ljósm.: Halldór Páll Kjartansson.
Skráð af Menningar-Staður

03.01.2016 10:30

Telur margt gagnrýnivert við uppsagnir hjá SASS

 

 

Dorothee Lubecki.

 

Telur margt gagnrýnivert við uppsagnir hjá SASS

 

Komið þið sæl ágætu Sunnlendingar, vinir og samstarfsfólk til margra ára.

 

Í ljósi stöðunnar sem upp er komin á vinnustaðnum okkar, SASS, langar mig að deila nokkrum hugleiðingum og vangaveltum með ykkur. Fimm ráðgjöfum af sex hjá Sass var tilkynnt um uppsögn fimmtudaginn 17. des. Þegar þessi pistill er skrifaður hafa tvær uppsagnir þegar verið staðfestar þ.e. uppsagnarbréf hefur borist viðkomandi. Hin málin eru í vinnslu, en stefnan virðist vera áfram sú að hreinsa okkur öll í burtu. Allt kallast þetta skipulagsbreytingar en það undarlega í þessu öllu saman er að ekkert var rætt um að þörf væri á skipulagsbreytingum á árssþingi SASS sem haldið var í lok október.

 

Fjárhagsáætlun SASS fyrir árið 2016 gerir ráð fyrir óbreyttum rekstri með tilheyrandi starfsmannakostnaði. Það vekur líka undrun að það skuli vera ráðinn nýr starfsmaður í starfsstöðina á Höfn í Hornafirði, bara til að segja honum upp eftir u.þ.b. 6 vikur í starfi. Þá var viðkomandi búinn að leggja á sig flutning með 5 manna fjölskyldu frá Barcelona til Hafnar. Er þetta eðlileg framkoma?


Það er ekkert sem mælir gegn breytingum á skipulagi starfsumhverfis SASS, en það er mjög margt gagnrýnivert í aðferðarfræði og framkomu við okkur starfsmennina. Það má velta því fyrir sér hver beri ábyrgð á þessu. Er það framkvæmdastjórinn, Bjarni Guðmundsson, eða stjórn SASS? Eftir reynslu  mína af samskiptum, eða betur sagt samskiptaleysi, þetta árið við Bjarna Guðmundsson, sem tók við stöðu framkvæmdastjóra SASS um sl. áramót, tel ég að stjórn SASS hafi látið blekkjast verulega við þessa ráðningu. Bjarni hefur því miður ekki sýnt það í verki og ekki heldur í samskiptum við starfsfólkið að hann ráði við starfið sem hann var ráðinn í. Mér finnst ekki eðlilegt að tvö starfsmannamál skuli vera rekin með aðstoð lögfræðinga og trúnaðarmanna stéttarfélaganna á einu ári. Ekki er heldur eðlilegt að uppsagnir 5 starfsmanna beri að án þess að samráð sé haft eða fundur haldinn með starfsmönnum um málefnið. Hefði ekki verið eðlilegt að hafa starfsmenn, sem hafa staðið sig vel í starfi, eru með góða þekkingu á málefnum og eru með gott tengslanet innan og utan svæðisins, með í ráðum og bjóða þeim þátttöku í fyrirhuguðum breytingum?Að mínu mati hefur Bjarni Guðmundsson lagt starfsemi SASS í rúst eftir eitt ár í starfi. Spá fyrrverandi samstarfsmanna Bjarna hjá RÚV um hæfileika hans hefur þar með ræst. Það er með ólíkindum hvernig forsaga hans á gamla vinnustaðnum, RÚV, gat farið gjörsamlega fram hjá stjórn SASS, nema um pólitíska spillingu sé að ræða. Það er því miður margt sem bendir til þess ef marka má ummæli ónefnds sveitarstjórnarmanns eftir SASS þing árið 2014, þegar Þorvarður Hjaltason var kvaddur sem framkvæmdastjóri SASS. Þá lét viðkomandi þau orð falla að næsti framkvæmdastjóri SASS skuli koma úr röðum  sjálfsstæðismanna.Miðað við stöðuna í dag geri ég ráð fyrir því að starf menningarfulltrúa Suðurlands leggist af. Mig langar að biðja ykkur sem hafa verið í samskiptum við mig og langar að vera það áfram að beina tölvupósti framvegis á netfangið dorolu@snerpa.is.

 

Ég þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf og vinskap á liðnum árum.

 

Með hátíðarkveðju,
Dorothee Lubecki


Af www.dfs.is


Skráð af Menningar-Staður

03.01.2016 10:12

EYRARBAKKAKIRKJA 125 ÁRA

 

T.v.: Magnús Karel Hannesson í Eyrarbakkakirkju fyrir nokkrum árum.

 

EYRARBAKKAKIRKJA 125 ÁRA

 

 

Góðir kirkjugestir – gleðilega hátíð!

 

Árið 1889 voru íbúar á Eyrarbakka 583 talsins og hafði þeim fjölgað ört frá 1850, þó mest á níunda áratug 19. aldar. T.d. var fjölgunin um 100 manns á aðeins fjórum árum frá 1885. Eyrarbakki var þá fimmti fjölmennasti þéttbýlisstaður landsins – á eftir Akureyri, Hafnarfirði, Ísafirði og svo Reykjavík með sína 3.750 íbúa.

 

Eyrarbakki var á þessu tíma höfuðstaður Suðurlands. Hér hafði verið aðalhöfn Sunnlendinga um aldir og verslunin hafði blómstrað. Þéttbýli, eins og við þekkjum það, var að byrja að myndast, en enn bjuggu flestir íbúar á Eyrarbakka í torfbæjum, sem sumir voru reisulegir með timburþilum, en aðrir lágreistari og fátæklegri. Bæirnir mynduðu þyrpingar eða raðir, með heitum sem haldist hafa fram á þennan dag.

 

Götumyndin, eins og við þekkjum hana í dag, var að taka á sig mynd – flest timburhúsin húsin voru byggð frá 1880 til 1915. Elst voru verslunarhús danska kaupmannsins, sem reist voru á löngum tíma, elsti hlutinn frá 1755 – Vesturbúðin svokallaða. Glæsilegast var þó íbúðarhús faktorsins – Húsið, sem reist var árið 1765.

 

Eyrbekkingar höfðu átt kirkjusókn að Stokkseyri, en þar hafði verið kirkustaður frá 11. öld. Ný kirkja var byggð þar árið 1886.

 

Vegna þeirrar miklu og öru fjölgunar íbúa á Eyrarbakka var farið að ræða það fljótlega upp úr 1880, að skipta Stokkseyrarsókn í tvennt og var einn helsti stuðningsmaður þess séra Jón Björnsson sóknarprestur í Stokkseyrasókn. Hann bjó hér á Eyrarbakka – í Presthúsinu í Einarshafnarhverfi.

 

Árið 1885 var samþykkt á héraðsfundi Árnesprófastsdæmis „að byggja megi nýja kirkju á Eyrarbakka“. Er þessi samþykkt það fyrsta, sem vitað er um kirkjubygginguna hér á Bakkanum.

 

Og þá taka menn til við fjársöfnun til kirkjubyggingarinnar og í apríl 1887 er auglýst í landsmálablöðunum „að landshöfðinginn leyfi sóknarnefnd Stokkseyrarsóknar að halda Lukkuspil (Lotteri), til ágóða hinni fyrirhuguðu Eyrarbakkakirkju, á rauðum reiðhesti 6 vetra, viljugum og vökrum, sem herra hreppstjóri og kaupmaður Guðmundur Ísleifsson á Stóru-Háeyri hefur gefið í því skyni“. Gert er ráð fyrir því að dráttur í lotteríinu fari fram seinni part septembermánaðar. Númerin fást keypt fyrir eina krónu hjá kaupmönnum í Reykjavík, Hafnarfirði, á Eyrarbakka og Akureyri, á Útskálum og í Stafholti og austur í Rangárvallasýslu. Ekki voru menn á eitt sáttir hve seint átti að draga hestinn og því auglýsir Stefán Bjarnarson sýslumaður í Gerðiskoti í maí 1887 að drætti verði flýtt og fari hann fram „að Eyrarbakka laugardaginn hinn 9. júlí næstkomandi um hádegisbil“. Ekki fer frekari sögum af því, hverjum rauði hesturinn vakri var dreginn.

 

Í maí er einnig auglýst í Ísafold: „Stór Concert (50-60 manns, karlar og konur) í Good-templarahúsinu [í Reykjavík] laugardag 4. maí kl. 8½ e.m. undir forustu Stgr. Johnsens, til ágóða fyrir kirkjubyggingu á Eyrarbakka. …“ Og bílætin kosta eina krónu.

Víða eru menn að leggja kirkjubyggingunni lið. Meira að segja var prentað keðjubréf á erlendum tungumálum undir fyrirsögninni „Látum snjóboltann rúlla fyrir Eyrarbakkakirkju“ og var þessu bréfi dreift erlendis. Áheit og gjafir komu m.a. frá Eyrbekkingum í Íslendinganýlendunni á Washington-eyju vestur í Michigan-vatni í Norður-Ameríku.

 

Þann 22. nóvember 1889 birtist frétt frá Eyrarbakka í Þjóðólfi þar sem segir: „Hið mikla áhugamál vort Eyrbekkinga, kirkjumálið, er nú komið það áleiðis, að fyrir skömmu er byrjað að hlaða grunninn undir kirkjuna, mest fyrir ötula framgöngu merkisprestsins Jóns Björnssonar á Eyrarbakka, sem með því, að lofa sjálfur mest allra og með því að gangast fyrir samskotum í söfnuðinum, mun á vikutíma hafa fengið loforð fyrir 1.600 kr., mest á sjálfum Eyrarbakka og hjer í grennd; …“.

 

Af þessu má ljóst vera að bygging Eyrarbakkakirkju hefst haustið 1889 og stendur svo allt næsta ár 1890.

 

Jóhann Fr. Jónsson húsasmiður á Eyrarbakka teiknar kirkjuna, en honum entist ekki aldur til þess að stýra kirkjubyggingunni, hann deyr í mars 1890 tæplega fertugur að aldri. En talið er að yfirsmiðir kirkjunnar hafi að langmestu leyti farið eftir teikningum Jóhanns Fr. Jónssonar.

 

Og í ágústlok birtist í Þjóðólfi stuttur pistill: „Kirkja er reist á Eyrarbakka … og vonast eptir, að hún verði jafnvel messufær í vetur; hún er byggð fyrir tóm samskot og gjafir og hefur það ekki gengið stríðlaust af fyrir helsta forgöngumanninum, sjera Jóni Björnssyni, er þó hefur verið veill á heilsu; mikið mun þó enn vanta til að kirkjan verði byggð skuldlaust.“

 

Og víkur nú sögunni til Reykjavíkur fimmtudaginn 11. desember 1890. Þá heldur af stað ríðandi úr borginni einn af heldri mönnum bæjarins, ásamt fylgdarmönnum. Þeir ná fyrir kvöld austur að Kolviðarhóli og gista þar um nóttina. Næsta dag ríða þeir áfram um Lágaskarðsveg og niður í Ölfus, fara um hlaðið á Hrauni og ríða austur Óseyrartanga. Þeir eru ferjaðir yfir Ölfusá við Óseyrarnes og ná til Eyrarbakka síðdegis föstudaginn 12. desember. Sama dag birtist frétt í Þjóðólfi: „Eyrarbakkakirkja er nú fullgjörð. Biskup Hallgrímur Sveinsson fór austur þangað í gær, til að vígja hana næsta sunnudag.“

 

Biskupinn yfir Íslandi var sjálfur kominn hingað austur á Eyrarbakka til þess að vígja nýju kirkjuna. Í 400 ár hafði það ekki tíðkast að biskupinn vígði nýjar kirkjur, utan einu sinni þegar dómkirkjan í Reykjavík var vígð árið 1848. Þetta segir okkur töluvert um stöðu Eyrarbakka á þessum tíma á landsvísu. Nokkuð víst er, að biskupinn hefur notið gestrisni húsráðenda í Húsinu – þeirra Peters Nielsens faktors og konu hans, Eugeníu Nielsen Thorgrímsen, en fólkið í Húsinu var, ásamt svo mörgum öðrum, miklir stuðningsmenn kirkju-byggingarinnar.

Daginn fyrir vígsluna, laugardaginn 13. desember, var klukkum kirkjunnar hringt í klukkustund.

Þriðji sunnudagur í aðventu árið 1890 rann upp fagur og bjartur, sólskin var með hægu frosti. Á hádegi var kirkjuklukkunum samhringt og á meðan gekk biskup, ásamt fimm prestvígðum mönnum, sóknarnefndarmönnum, faktor Nielsen, settum sýslumanni og einum til, „alls 12 manns, hátíðargöngu, tveir og tveir saman úr Húsinu. Þegar flokkurinn kom að kirkjudyrum hætti hringingin, en á meðan gengið var inn eftir kirkjugólfi og inn í kórinn var leikið á harmoníum án orða og söngs – præludium. Biskupinn gekk þegar fyrir altarið og tók við Biblíunni, kaleik og patínu og handbókinni, sem prófastur og prestarnir báru, og setti þessa hluti á altarið, og gjörði því næst bæn sína fyrir altarinu, en hátíðargönguflokkurinn skipaði sér til sæta í kórnum báðum megin“.

 

Þessi frásögn af upphafi kirkjuvígslunnar er samkvæmt skrifum sjónarvotts, sem birtust í blaðinu Ísafold 20. desember. Þar er einnig mjög nákvæm lýsing á allri athöfninni, hvaða ritningarlestrar voru lesnir og hverjir lásu, hvaða sálmar voru sungnir og síðan nákvæm lýsing á kirkjunni sjálfri.

 

„Söngurinn fór prýðilega fram undir stjórn organistans Jóns Pálssonar [sem bjó á Hofi eftir að hann flutti frá Stokkseyri] og sungu þar tveir allstórir (38 manna) og velæfðir blandaðir söngflokkar, annar frá Eyrarbakka og hinn Stokkseyri.“ Það er ánægjulegt að horfa upp á söngloftið og sjá að sagan endurtekur sig nú 125 árum seinna – hér stendur söngfólk bæði frá Eyrarbakka og Stokkseyri, eins og var 14. desember 1890, og leyfir okkur að njóta sameinaðra söngkrafta sinna.

 

„Kirkjan var svo full uppi og niðri sem frekast mátti verða, enda reyndist að hún hefði rúmað 600 manns, en nokkrir höfðu orðið frá að hverfa sakir rúmleysis og fáeinir stóðu úti fyrir. Auk fjölmenns safnaðar af Eyrarbakka og Stokkseyri voru margir aðkomnir úr Kaldaðarnes-, Gaulverjabæjar- og Arnarbælissóknum og enn nokkrir lengra að.“

 

Þessi lýsing sjónarvottsins í Ísafold er mjög nákvæm og einstök lýsing á kirkjuvígslu frá þessum tíma. Enda var það svo, að vígsla Eyrarbakkakirkju varð fyrirmynd að kirkjuvígsluathöfnum víða um land á næstu árum og áratugum, svo glæsileg og hátíðleg þótti hún.

 

Í ársritinu Fréttir frá Íslandi fyrir árið 1890 segir: „Ein kirkja var vígð af biskupi 14. desember, Eyrarbakkakirkja, er reist hafði verið af samskotum tómum og gjöfum, veglegt hús og vandað að öllu; var vígsluathöfnin öll með meiri dýrð en títt hefir verið hjer á landi um langan aldur.“

 

Það eina sem skyggði á hátíðina var ,að séra Jón Björnsson gat ekki verið sökum sjúkleika „við vígslu þessarar kirkju, sem hann með áhuga sínum og kappsamlegu fylgi hefir átt drjúgastan þátt í að reisa á þeim stað, þar sem ekkert guðshús áður var til, en þörfin á því mikil“.

 

Það er ekki fyllilega vitað hver byggingarkostnaður kirkjunnar var, en við vígsluna er talið að byggingarskuldin hafi verið um 2.000 gamlar krónur, eða um 1,9 milljónir nýkróna á verðlagi dagsins í dag, og sú skuld var ekki að fullu greidd fyrr en nær tuttugu árum seinna eða árið 1918.

 

Kirkjan var öll ómáluð, en hafði verið skreytt með laufsveigum og blómum á ýmsum stöðum og á annan hátt. Messuklæði, áhöld og hlutir innan kirkju voru ókomnir, en fengnir að láni við vígsluna. Og enga altaristöflu átti kirkjan, en úr því rættist árið eftir.

 

Í blaðinu Ísafold birtist 22. júlí 1891 eftirfarandi auglýsing:

„Hennar hátign drottning Danakonungs hefir nýlega sent ljómandi fallega altaristöflu er hún hefir sjálf málað og gefið hinni nýju kirkju á Eyrarbakka. Myndin sýnir frelsarann, þar sem hann talar við samversku konuna við Jakobsbrunninn í Samaríu.

 

Til þess að gefa mönnum færi á, að sjá þessa fögru og veglegu gjöf, verður myndin sýnd í barnaskólahúsinu [í Reykjavík] (3. bekk) fyrst um sinn vikutíma og byrjar sýningin á fimmtudaginn 23. þ.m. og stendur frá kl. 5 til 7, og kostar 25 aura fyrir hvern mann – ágóðinn rennur í sjóð Eyrarbakkakirkju.“

Undir þetta ritar Þorlákur O. Johnson kaupmaður í Reykjavík.

 

Altaristaflan hefur sem sagt komið með skipi til Reykjavíkur og er síðan send hingað austur og sett upp í kirkjunni síðla sumars 1891 og hér hefur þessi ómetanlegi kirkjugripur skrýtt kirkjuna síðan.

 

En hvernig á því stendur, að Louise drottning Kristjáns konungs níunda gefur kirkjunni altaristöfluna er enn óleyst gáta, sem gaman væri að leysa.

 

Ágætu kirkjugestir!

 

Ég sé að presturinn og organistinn eru báðir farnir að líta á úrin sín. Þeir báðu mig að rekja 125 ára sögu Eyrarbakkakirkju í stuttu máli. Ég hef nú farið yfir um það bil eitt og hálft ár í sögu kirkjunnar – tími minn er þrotinn – það sem eftir er af sögu kirkjunnar verður að bíða betri tíma.

 

Megi Eyrarbakkakirkja þjóna þörfum Eybekkinga frá vöggu til grafar um ókomna tíð, eins og hún hefur gert síðastliðin 125 ár.

 

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári.

 

Magnús Karel Hannesson                                            

Flutt á aðventuhátíð í Eyrarbakkakirkju 13. desember 2015.

 

Heimildir:

Guðmundur Gísli Hagalín: Á fallanda fæti. Saga byggðar á Eyrarbakka 1889-1939. Júní 2013.

Magnús Guðjónsson: Eyrarbakkakirkja 100 ára. Desember 1990.

Tímarit.is

 

Af www.eyrarbakki.is

 


Eyrarbakkakirkja. Ljósm.: Halldór Páll Kjartansson.


Skráð af Menningar-Staður

 

03.01.2016 08:22

3. janúar 2016 - Karlakór Reykjavíkur 90 ára

 

 

Karlakór Reykjavíkur.

 

3. janúar 2016 - Karlakór Reykjavíkur 90 ára

 

Karlakór Reykjavíkur heldur í dag upp á 90 ára afmæli sitt. „Saga Karlakórsins er samofin íslenskri tónlistarsögu á 20. og 21. öldinni,“ segir Vigfús M. Vigfússon, félagi í kórnum, í samtali við Fréttablaðið. Meðlimir kórsins eru um 80 talsins og telst Sigfúsi til, reyndar með óvísindalegum aðferðum, að alls hafi í kringum 500 manns verið meðlimir í kórnum frá stofnun.

 

Hátíðartónleikar

 

Í tilefni tímamótanna verða tónleikar haldnir í dag. Kórinn kemur þar fram við hátíðarmessu í Háteigskirkju, ásamt Kór eldri félaga Karlakórs Reykjavíkur. Verður þeim útvarpað beint á Rás 1.

Stutt athöfn í Fossvogskirkjugarði verður einnig haldin.

Þar munu kórmenn safnast saman, bæði eldri og yngri, ásamt mökum, við leiði Sigurðar Þórðarsonar frá Gerðhömrum í Dýrafirði (f. 8. apríl 1895 - d. 27. október 1968), stofnanda kórsins, og konu hans, Áslaugar Sveinsdóttur frá Hvilft í Önundarfirði (f. 22. júní 1905 - d. 23. mars 2000).

Kórinn syngur þar lagið Ísland, Ísland, ég vil syngja, sem er einkennislag kórsins. Sigurður samdi einmitt lagið, við ljóð Huldu. Að því loknu syngur kórinn Lofsöng þeirra Sveinbjörns Sveinbjörnssonar og Matthíasar Jochumssonar.

 

 

Sigurður Þórðarson frá Gerðhömrum í Dýrafirði.

.

 

Áslaug Sveinsdóttir

frá Hvilft í Önundarfirði

 

 

Fjórar heimsálfur

 

„Kórinn hefur farið alveg ótrúlega víða,“ segir Vigfús þegar hann rifjar sögu kórsins upp fyrir blaðamann. „Hann hefur heimsótt fjórar heimsálfur og flestar sýslur landsins.“ Vigfús nefnir sérstaklega tvö ferðalög þegar hann skoðar söguna í baksýnisspeglinum. „Kórinn fór til Kína 1979 sem var afar merkileg ferð, hann var fyrsti kórinn frá Vesturlöndum sem heimsótti landið eftir menningarbyltinguna. Ferðin til Ameríku, árið 1946 er líka merkileg. Það hefur verið heljarinnar fyrirtæki að ferja um 50 meðlimi kórsins á milli staða. Kórinn dvaldi úti í tvo mánuði. Meðlimir hans ferðuðust frá New York, til Flórída, til Texas og alla leið norður til Kanada aftur,“ útskýrir hann. Í ferðinni voru sungnir 56 konsertar.

 

Inntökuskilyrði

 

„Það er mjög ánægjulegt hvað aldursbilið er stórt hjá okkur. Yngsti meðlimurinn er 19 ára og sá elsti yfir áttrætt. Það er mikil endurnýjun hjá okkur, menn sækjast eftir að komast í kórinn,“ útskýrir Vigfús og segir frá því að á hverju ári eru haldin inntökupróf í kórinn. „Við gerum kröfur til okkar, sem og aðrir. Við viljum halda ákveðnum klassa. Þannig þurfa þeir sem sækjast eftir inngöngu í kórinn að þreyta raddpróf.“

Kórinn æfir tvisvar í viku, að sögn Vigfúsar. „Já, við erum með aðstöðu í safnaðarheimilinu í Háteigskirkju. Helstu álagspunktarnir eru vortónleikar sem eru haldnir í apríl eða í maí. Síðan höfum við haldið stóra aðventutónleika, núna í 23 ár í röð. Í síðasta mánuði vorum við með ferna tónleika sem voru þétt setnir áhorfendum. Það hefur myndast gríðarlega sterk hefð fyrir þessum tónleikum,“ útskýrir Vigfús.

Fréttablaðið.


 


Háteigskirkja í Reykjavík sem Halldór H. Jónsson teiknaði, tengdapabbi Flateyrar.

 


Skráð af Menningar-Staður