Skáldsagan Líkvaka kom út fyrir jólin, áhugaverð en afar sérstök og ber sannarlega nafn með rentu þótt með óhefðbundnum hætti sé. Ekki verður farið nánar út í það hér.
„Ég hef lengi gengið með þá hugmynd að skrifa sögu um einhvern sem fremur svakalegt ódæði en er samt ekki slæmur maður; að láta einhvern gera eitthvað viðbjóðslegt en að lesandinn finni samt frekar til með honum en hitt,“ segir Guðmundur í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.
Hrotti vegna uppeldis
Rithöfundurinn segir borðleggjandi að Engilbert þessi, aðalpersónan, hafi skemmst í uppeldinu, og lesandinn getur vart annað en komist að sömu niðurstöðu. „Ég hugsa að ef þessi náungi hefði ekki alist upp við þær aðstæður sem raun ber vitni hafði hann jafnvel plummað sig. Þótt einhver veila hafi verið fyrir hendi hefði hann aldrei verið svona hrottalegur nema af því hann ólst upp við mikinn viðbjóð.“Guðmundur segir söguna að mestu leyti hreinan skáldskap.
„Ég hef reyndar hitt marga sem hafa sagt mér eitt og annað, og sjálfur lent í ýmsu í gegnum lífið þannig að þetta er samtíningur héðan og þaðan. Sagan er í raun samfélagsádeila, Engilbert segir ýmislegt í sínu brjálæði sem margir eru að tala um úti í samfélaginu en enginn ber samt kannski almennilega á borð.
Gagnrýnin er þó ekki beint á meðferðargeirann, frekar á úrræðaleysi samfélagsins gagnvart fólki eins og honum; á félagsmálapakkann þar sem allt virðist reka á reiðanum, einhver teymi eru alltaf til staðar en kerfið áorkar þó í raun engu. Engilbert er að vísu óforskammaður og örugglega ekki gott við hann að eiga.“
Guðmundur segist í raun ekki hafa lagt upp með að skrifa ádeilusögu. „Þetta er skáldskapur sem tekur bara þessa stefnu og kemur víða við.“
Hann nefnir að fyrir jólin var mikið í umræðunni að menn væru að segja eigin sögu í ýmsum búningum, „en ég hef sem betur aldrei lent í þeim aðstæðum sem ég lýsi í bókinni og aldrei kynnst neinu af því tagi!“
Guðmundur skrifaði Líkvöku á síðustu tveimur árum en í hittifyrra sendi hann sér sér skáldsöguna Gosbrunninn. „Það er líka saga manns í krísu, sögð í fyrstu persónu, en á allt öðrum nótum en Líkvaka. Þessi bók er því alveg einstæð.“
Áður hafði hann sent frá sér tvær barnabækur og skrifað leikrit en þau verk voru á allt öðrum nótum. „Ég er alltaf með eitthvað á prjónunum og reyndar alltaf með margt í gangi í einu. Ég er ekki alveg ákveðinn í hvað ég fer í af mestum krafti næst, en hugsa að ekkert komi út fyrr en á næsta ári.“
Guðmundur segist hafa fengið mjög góð viðbrögð við Líkvöku.
„Mörgum finnst sagan rosaleg og segja það hikstalaust við mig; að sagan sé óskaplega ógeðsleg, en líka að hún sé góð og mér sýnist það sem ég ætlaði mér hafi heppnast mjög vel því margir tala um að þeir finni til með aðal persónunni.“
Af hermangi
Guðmundur hefur fengist við margvísleg skrif eins og áður greinir. Snemma árs í fyrra kom til að mynda út ljósmyndabók hjá Crymogeu með myndum Braga Þórs Jósefssonar af yfirgefnum mannvirkjum á Miðnesheiði; bókin Iceland Defence Force. Guðmundur skrifaði textann, sem er bæði á íslensku og ensku í bókinni.„Ég vann í hermanginu í gamla daga og þótti vel til þess fallinn að skrifa þetta. Mér fannst það dálítið fyndið að ein af ástæðunum sem gefnar voru upp var að margir rithöfundar hefðu unnið á Vellinum en vildu helst ekki tala um það. Skömmuðust sín fyrir það! Ég skammast mín hins vegar ekki neitt. Ég var þarna í mörg ár og líkaði vel. Þetta var ekki verri vinnustaður en hver annar,“ segir Guðmundur S. Brynjólfsson.
Morgunblaðið sunnudagurinn 21. febrúar 2016.
Skráð af Menningar-Staður