Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2016 Febrúar

23.02.2016 09:03

Ferðamálastofa býður til funda á Suðurlandi

 

 

 

Ferðamálastofa býður til funda á Suðurlandi
 

Ferðamálastofa býður til funda á Suðurlandi vegna þróunarverkefnis um endurskoðun upplýsingaveitu til ferðamanna (sjá dagskrá neðst). Verkefnið er á forræði Ferðamálastofu og verkefnisstjóri þess er Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, verkefnastjóri svæðisbundinnar þróunar. Verkefnið er unnið samkvæmt nýjum vegvísi og eru markmið þess að:

 • Tryggja að bestu og nákvæmustu upplýsingar hvað varðar öryggi ferðamanna séu þeim alltaf aðgengilegar allt árið um kring um allt land.
 • Tryggja gæðastarf upplýsingaveitu á landsvísu.
 • Finna nýjar tæknilausnir sem nýta má utan eiginlegra upplýsingamiðstöðva.
 • Nýta og styðja við það stoðkerfi gestastofa, safna og annarra opinberra eininga sem fyrir er um allt land.
 • Nýta það fjármagn sem málaflokkurinn fær á sem hagkvæmastan en jafnframt árangurríkastan hátt.

Fundir verða haldnir á eftirfarandi stöðum:

 • Selfossi miðvikudaginn 2. mars kl. 09:30 (Fjölheimar, stofa 205)
 • Vík miðvikudagin 2. mars kl. 14:00 (Icelandair Hótel Vík)
 • Höfn í Hornafirði miðvikudaginn 9. mars kl. 14:00 (Gamlabúð)

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á tölvupóstfangið hrafnhildur@ferdamalastofa.is fyrir kl. 13:00 næsta virka dag fyrir viðkomandi fund.  

Dagskrá fundanna er eftirfarandi:

 • Kynning á Þróunarverkefni um endurskoðun upplýsingaveitu.
 • Kynning á niðurstöðum fyrsta fundar sem haldinn var með forsvarsmönnum landshlutamiðstöðva, Umhverfisstofnunar og þjóðgarða í byrjun desember.
 • Kynning á niðurstöðum kostnaðargreiningar á upplýsingaveitu opinberra aðila á landsvísu og eftir landshlutum.
 • Hópavinna og umræður – framtíðarskipan upplýsingaveitu í landshlutanum.
 • Vinnuhópur skipaður sem skila skal tillögum til Ferðamálastofu.

  Af www.sass.is


  Skráð af Menningar-Staður

22.02.2016 13:10

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 22. feb. 2016

 

 

 

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 22. feb. 2016

 

.


 

Skráð af Menningar-Staður

22.02.2016 08:17

Kynning á nýju skipulagi SASS

 

 

Stjórnarformaður SASS Gunnar Þorgeirsson.

 

Kynning á nýju skipulagi SASS

 

Miðvikudaginn 10. febrúar sl. var haldin kynning á Hvolsvelli, fyrir sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi,  á nýju skipulagi SASS.

Stjórnarformaður SASS Gunnar Þorgeirsson,  fór yfir tilgang skipulagsbreytinganna, skipurit, markmið, leiðarljós og framtíðarsýn 2015 – 2019, hlutverk samstarfsaðila og leiðir að árangri.

Tilgangur skipulagsbreytinganna er m.a. að laga starfsemi SASS betur að þörfum íbúa, fyrirtækja, sveitarfélaga og félagasamtaka á Suðurlandi. Auk þess að bregðast við breyttum áherslum í samningum við hið opinbera.

Hér  má sjá kynninguna í heild sinni

 

 

 

Stjórnarformaður SASS Gunnar Þorgeirsson.

 

Af www.sass.is


Skráð af Menningar-Staður

22.02.2016 08:04

Verksmiðjan á Hjalteyri er handhafi Eyrarrósarinnar 2016

 

 

Mynd f.v: Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, Herdís Sæmundardóttir, stjórnarformaður Byggðastofnunar, Kristín Jóhannsdóttir, forstöðukona Eldheima, Mireya Samper, stjórnandi Ferskra vinda, Gústav Geir Bollason, einn af stofnendum Verksmiðjunnar, Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, menningarfulltrúi Eyþings og Þórunn Sigurðardóttir, stjórnarformaður Listahátíðar í Reykjavík. 

 

Verksmiðjan á Hjalteyri er handhafi Eyrarrósarinnar 2016

 

Verksmiðjan á Hjalteyri er handhafi Eyrarrósarinnar 2016 en hún er árlega veitt framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Aðstandendur Verksmiðjunnar veittu viðurkenningunni móttöku við athöfn í Frystiklefanum á Rifi á dögunum.

Verksmiðjan á Hjalteyri er listamiðstöð með sýningarsali og gestavinnustofur í gamalli síldarverksmiðju Kveldúlfs við Eyjafjörð. Frá því að nokkrir frumkvöðlar og listamenn tóku sig saman og stofnuðu Verksmiðjuna árið 2008 hefur þar verið haldið úti framsæknu myndlistar- og menningarstarfi. Aðstandendur Verksmiðjunnar þykja vel að verðlaununum komnir, ekki síst fyrir þrautseigju, hugmyndaauðgi og útsjónarsemi við flókin rekstrarskilyrði, en starf Verksmiðjunnar hefur eflst mjög frá stofnun og tekið á sig óvæntar myndir. Í Verksmiðjunni þykir hafa tekist vel til með þá grundvallarhugmynd að listin sé ekki einungis til sýnis í Verksmiðjunni, heldur verði hún þar til og sé því mótuð af aðstæðum.

Verðlaunin sem Verksmiðjan hlýtur er fjárstyrkur að upphæð 1.650.000 auk flugmiða frá Flugfélagi Íslands. Forsvarsmenn alþjóðlegu listahátíðarinnar Ferskra vinda í Garði og Eldheima í Vestmannaeyjum, sem einnig voru tilnefnd, tóku hvort um sig við 300 þúsund króna fjárstyrk, auk flugmiða.

Til stóð að Dorrit Moussaieff forsetafrú afhenti verðlaunin, en hún hefur verið verndari Eyrarrósarinnar frá upphafi, eða í tólf ár. Hún forfallaðist vegna veikinda og því afhenti Þórunn Sigurðardóttir, stjórnarformaður Listahátíðar í Reykjavík, verðlaunin fyrir hönd forsetafrúarinnar. Bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Kristinn Jónasson, ávarpaði samkomuna og það gerði einnig Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík. Einnig voru viðstaddir fulltrúar Byggðastofnunar, Flugfélags Íslands og Listahátíðar í Reykjavík, sem standa sameiginlega að viðurkenningunni, auk annarra góðra gesta.

Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, vakti í ávarpi sínu athygli á að þau menningarverkefni sem hlotið hafa Eyrarrósina í gegnum tíðina spanni öll svið lista. Hún hafi farið til tónlistarhátíða, bæði klassískra og rokkhátíða. Hún hafi farið til tímabundinna verkefna á borð við myndlistarhátíða en einnig til myndlistar- og sögusafna sem starfa allt árið um kring. Eins ólík og verkefnin sem hlotið hafa Eyrarrósina, eða tilnefningu til hennar, séu eigi þau margt sameiginlegt. Sum þeirra varðveiti ákveðna þætti sögu okkar og varpi ljósi á áhrif tiltekinna viðburða eða aðstæðna á líf okkar og lífssýn. Önnur geri okkur kleift að kynnast öðrum og ólíkum menningarheimum og viðfangsefnum í listum samtímans og hafi þannig ómetanleg áhrif á sjálfsmynd okkar og tengsl við umheiminn. Enn önnur verkefni taki leifar horfinna tíma og færi þeim nýtt hlutverk. Verkefnin þrjú, sem tilnefnd voru til Eyrarrósarinnar 2016, Verksmiðjan á Hjalteyri, Eldheimar í Vestmannaeyjum og listahátíðin Ferskir vindar í Garði, séu öll dæmi um einhvern þessara þátta.

Það var Gústav Geir Bollason, umsjónarmaður Verksmiðjunnar á Hjalteyri, sem veitti verðlaununum viðtöku. Hann tók við viðurkenningunni fyrir hönd stofnenda Verksmiðjunnar og sagðist hlakka til komandi starfsárs. Hann sagðist vonast til að verðlaunin ættu eftir að verða starfsemi Verskmiðjunnar til heilla.  

Eyrarrósin var fyrst afhent árið 2005 og féll þá í hlut Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði. Líkt og gildir með Þjóðlagahátíðina hafa mörg þeirra menningarverkefna sem hlotið hafa Eyrarrósina vakið verðskuldaða athygli á undanförnum árum. Þeirra á meðal eru LungA, listahátíð ungs fólks á Austurlandi, Rokkhátíð alþýðunnar – Aldrei fór ég suður og Bræðslan á Borgarfirði eystra. Sú hefð hefur skapast á undanförnum árum að verðlaunaafhendingin fari fram í höfuðstöðvum verðlaunahafa síðasta árs. Sami háttur var hafður á nú og því voru verðlaunin veitt í Frystiklefanum á Rifi.

Frekari upplýsingar um Verksmiðjuna á Hjalteyri veitir Gústav Geir Bollason í síma 461 1450 og 692 7450.

Af: www.
byggdastofnun.is

Skráð af Menningar-Staður

21.02.2016 09:15

21. febrúar "konudagur" góa byrjar

 

 

Í Eyrarbakkafjöru. Ljósm.: Víðir Björnsson.

 

21. febrúar “konudagur” góa byrjar

 

Mánuðurinn góa hefst nú sunnudag frá 18. til 24. febrúar, en 8. til 14. febrúar í gamla stíl fyrir 1700.

 

Nafnið, góa eða gói, er þekkt úr elstu heimildum og afbrigði þess í öðrum norrænum tungum. Gói er persónugerð sem vetrarvættur í gömlum sögnum, dóttir Þorra.

 

Orðið góiblót bendir til mannfagnaðar seint að vetri að fornu en um hann er ekkert vitað með vissu. Ljóst er hinsvegar af heimildum frá öndverðri 18. öld að fagna átti góu á svipaðan hátt og þorra. Skyldi það fremur vera húsbóndinn en húsfreyjan, en víst er að dagurinn var eignaður húsfreyjunni. Heimildir geta um tilhald í mat á síðari öldum en hvergi á við þorrakomu. Kann þar að ráða nokkru að góukoma lendir oftast á langaföstu.

 

Nokkuð var ort um Góu á 17. – 19. öld sem dóttur Þorra eða eiginkonu. Var þá stundum reynt í gamni að skjalla hana til að bæta veður. Svipaður kann að vera tilgangur þess góukomusiðar á norðaustanverðu landinu að Góu var færður rauður ullarlagður.

 

 Heitið konudagur er kunnugt frá miðri 19. öld og er nú útbreitt. Sá siður að eiginmenn gefi konum sínum blóm á konudaginn hófst á sjötta áratug 20. aldar.

 

 Í almennri þjóðtrú skipti góuveðrið máli. Átti sumarið að verða gott ef góa væri stormasöm og veður vont fyrstu góudaga.

 

 

Þessi vísa var húsgangur í Önundarfirði fram á 20. öld.

 

 Góa kemur með gæðin sín

 gefst þá nógur hitinn.

 Fáir sakna þorri þín

 þú hefur verið skitinn.

 

 

 Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson.
 

 

Skráð af Menningar-Staður

20.02.2016 20:25

Mánuðurinn þorri og þorraþræll

 

Í hugum margra er þorrinn nátengdur ákveðnum mat.

 

Mánuðurinn þorri og þorraþræll

 

Þorri er nafnið á fjórða mánuði vetrar að gömlu íslensku misseratali.

Hann hefst á föstudegi á bilinu 19.–26. janúar og lýkur á laugardegi áður en góa tekur við.

Sá laugardagur er nefndur þorraþræll og er hann í dag á árinu 2016, laugardaginn 20. febrúar.

Af Vísindavefnum.Frá þorrablóti Hrútavinafélagsins Örvars fyrir nokkrum árum.

Skráð af Menningar-Staður
 

20.02.2016 14:33

120 ár frá fæðingu Guðlaugs Pálssonar, kaupmanns á Eyrarbakka

 

 

120 ár frá fæðingu Guðlaugs Pálssonar,

kaupmanns á Eyrarbakka

 

Í dag, laugardaginn 20. febrúar 2016, eru 120 ár frá fæðingu Guðlaugs Pálssonar, kaupmanns á Eyrarbakka. Hann var fæddur á Blönduósi 20. febrúar 1896, sonur Jóhönnu Ingólfsdóttur og Páls Halldórssonar, sem ættaður var úr Fljótshlíðinni. Guðlaugur ólst upp á Eyrarbakka frá þriggja ára aldri.
 

Þegar Guðlaugur var 21 árs hóf hann sjálfstæðan verslunarrekstur árið 1917 í Kirkjuhúsi á Eyrarbakka, en tveimur árum síðar keypti hann íbúðarhúsið Sjónarhól og innréttaði fyrir verslunarbúð árið 1919.
 

Guðlaugur rak eigin verslun í 76 ár og þar af í 74 ár í Sjónarhóli og stóð vaktina fram í desember árið 1993 þegar hann lést 16. þess mánaðar, þá rétt tæplega 98 ára gamall.
 

Guðmundur Daníelsson, rithöfundur og skólastjóri á Eyrarbakka, tók viðtal við Guðlaug þegar hann var sextugur árið 1956, sem birtist í blaðinu Suðurlandi í mars það ár. Guðmundur endar viðtalið á þessum orðum:
„En um Guðlaug vildi ég enn segja þetta: Það er án efa mjög vandasamt hlutverk að vera góður kaupmaður. Hann þarf að sjá sínum eigin hag vel borgið og ávinna sér um leið traust og vinsældir fólksins, sem auðvitað gerir þær kröfur að fá sem vandaðastar vörur fyrir hagstæðast verð. Þessum vanda hefur Guðlaugur Pálsson reynzt vaxinn. Hann hefur alla tíð skilið að hagsmunir hans sjálfs og viðskiptavinanna fara saman. Hann er kaupmaður af lífi og sál. Það er gaman að verzla við hann. Ég þakka honum kærlega fyrir viðskiptin.“ (Guðmundur Daníelsson: Verkamenn í víngarði, bls. 50. Reykjavík 1962.)
 

Ljósm.: Inga Lára Baldvinsdóttir.

Af: Laugabúð - Magnús Karel Hannesson
.
.
.
.
.
 
.
 
.
 


Skráð Menningar-Staður

 

 

19.02.2016 15:56

Vefurinn Menningar-Staður þriggja ára

 

 

 

Vefurinn Menningar-Staður þriggja ára

 

Vefurinn fór í loftið þann 19. febrúar 2013.Frá þeim tíma hafa komið alls 2.875 fréttir á vefinn sem eru 80 fréttir að meðaltali á mánuði.Gestafjöldi á vefinn er samtals  um 165.900 gestir en það eru um 150 gestir að meðaltali á degi hverjum.Flettingar eru orðnar um 1.439.000 og eru það 1.300 flettingar á dag.

 
 


Myndasöfnin eru mörg og telja myndirnar í mörgum þúsundum.Aðstandendur Menningar-Staðar þakka þessar góðu og sífellt vaxandi vinsældir. 

 

F.v.: Vefstjórarnir Siggeir Ingólfsson og Björn Ingi Bjarnason.

 

Skráð af Menningar-Staður

19.02.2016 07:43

Ásta Þórunn Vilbergsdóttir - Fædd 9. júlí 1932 - Dáin 9. febrúar 2016 - Minning

 

 

Ásta Þórunnn Vilbergsdóttir.
 

 

Ásta Þórunn Vilbergsdóttir

- Fædd 9. júlí 1932 - Dáin 9. febrúar 2016 - Minning

 

Ásta Þórunn Vilbergsdóttir fæddist á Helgafelli á Eyrarbakka 9. júlí 1932. Hún lést 9. febrúar 2016.

Hún var dóttir hjónanna Vilbergs Jóhannssonar, f. 1898, d. 1939, og Ragnheiðar Ólafsdóttur, f. 1906, d. 1998. Systkini hennar eru Karen, f. 1926, Ólafur, f. 1929, Jóhann, f. 1931, og Sigríður Vilborg, f. 1939, hálfbróðir Sveinn Vilbergsson, f. 1920. Látin eru Karen, Ólafur og Sveinn.

Þórunn giftist 23. maí 1953 Óskari Magnússyni, f. 1931. Börn þeirra eru 1) Lillian, f. 1952, gift Júlíusi Ólafssyni, þeirra börn eru: a) Sigrún Ásta, maki Elías Kári Guðmundsson, þeirra sonur er Júlíus Kári, b) Ómar, c) Barði Páll. 2) drengur, f. andvana 1953. 3) Ragnheiður, f. 1955, gift Birgi Edwald, þeirra dætur eru: a) Þórunn, dóttir hennar og Matthíasar Más Magnússonar er Stella Elínborg, b) Ágústa, maki Stuart Maxwell, sonur þeirra er Harris Birgir, c) Hildur, maki hennar er Einar Mar Þórðarson, dóttir þeirra er Melkorka, börn Einars eru Sólveig og Steingrímur, d) dóttir Birgis er Harpa, maki hennar er Gunnar Már Hannesson og börn þeirra eru Dagmar Björk, Valtýr Hrafn og Júlíana Hrefna. 4) Sigríður, f. 1957, gift Þór Hagalín (látinn) börn þeirra eru a) Unnur Huld, gift Elíasi Ívarssyni, synir þeirra eru Ívar Þór, Rúnar Orri, unnusta Alexía Sól Kristjónsdóttir, og Ari Hrafn, b) Þórhildur Ósk, gift Tobiasi Fuchs, dætur þeirra eru Karítas og Kamilla Þóra, c) Guðmundur Gísli. 5) Vilbergur Magni, f. 1959, kvæntur Brynju Björgvinsdóttur, börn þeirra eru: a) Óskar Örn, maki Elísabet Ómarsdóttir, börn þeirra eru Emilía Rún og Alexander Magni, b) Björgvin, unnusta Shelby Morgan, c) Kristín d) Ásta Þórunn. 6) Eyrún, f. 1964, var gift Gísla B. Bogasyni, börn þeirra eru: a) Guðni Baldur, b) Jóhann, c) Daníel, unnusta hans er Rósa Margrét Óladóttir, dóttir Daníels og Söru Hrannar Rúnarsdóttur er Hanna Kristel, og stjúpdóttir Jana Mist, d) Gígja Rún, maki Gunnlaugur Skarphéðinsson, sonur þeirra er Jóhann Örn. 7) Edda, f. 1968, gift Ólafi Andra Ragnarssyni, dætur þeirra eru: a) Lilja Rut, maki Heimir Jón Heimisson, b) Kaðlín Sara, c) Ragnheiður Íris, d) dóttir Ólafs Andra er Kristín, maki hennar er Aðalsteinn Guðmundsson og börn þeirra Guðmundur Kári og Guðrún Bára. 8) Hallgrímur, f. 1970, kvæntur Þórunni Jónu Hauksdóttur, börn þeirra eru: a) Hrafnhildur b) Haukur Páll. 9) Barði Páll, f. 1972, lést af slysförum 19 ára gamall.

Þórunn ólst upp á Eyrarbakka og bjó þar alla tíð. Hún vann ýmis störf sem ung kona en eftir að hún giftist og stofnaði fjölskyldu var hennar vettvangur fyrst og fremst að sinna stóru heimili. Þegar yngstu börnin voru komin á legg fór hún aftur út á vinnumarkaðinn og vann meðal annars í Hraðfrystihúsinu og síðar í Alpan.

Útför Þórunnar fer frá fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, 19. febrúar 2016, og hefst klukkan 14.
____________________________________________________________________________

Minningarorð Guðrúnar Thorarensen

Ég man eftir okkur 4-5 ára hlaupandi á milli Þorvaldseyrar og Helgafells til að hitta hvor aðra og leika okkur saman. Líf okkar hefur verið samtvinnað alla tíð.

Við lékum saman sem börn og tókum saman þátt í gleði og störfum unglingsáranna. Skömmu eftir að ég stofnaði heimili kom Tóta í heimsókn með ungan mann og kynnti fyrir okkur Herði.

Það var Óskar Magnússon sem varð hennar lífsförunautur. Óskar hefur minnst á það að heimili okkar Harðar var það fyrsta sem hann kom á á Eyrarbakka.

Þau Tóta og Óskar byggðu sér hús við Túngötuna á Eyrarbakka og við Hörður við hlið þeirra og vorum við því nágrannar í 47 ár. Við Túngötuna ólum við upp börnin okkar og studdum hvor aðra eftir þörfum og getu og aldrei bar skugga á vináttu okkar Tótu né fjölskyldna okkar.

Tóta var lengi heimavinnandi húsmóðir því börnin voru mörg og stórt heimili að annast, en þegar börnin uxu úr grasi fór hún að vinna utan heimilisins og urðum við þá einnig vinnufélagar í mörg ár, bæði í frystihúsinu á Eyrarbakka og síðan í pönnuverksmiðjunni Alpan.

Tóta vinkona mín var dul í skapi og lét tilfinningar sínar lítið í ljós þrátt fyrir áföll í lífinu. Hún var samt sem áður glaðvær og lifandi og hún var mjög gestrisin og var maður ávallt velkominn til þeirra hjóna.

Þau Tóta og Óskar komu upp stórum barnahópi sem hefur vegnað vel í lífinu og helst vináttan einnig við þau og þeirra fólk.

Ég vil þakka fyrir áratuga vináttu öll árin sem við fengum að eiga saman.

Ég og börnin mín, Ólöf og Ari, og þeirra fjölskyldur sendum Óskari og öllum afkomendum þeirra Tótu innilegustu samúðarkveðjur og óskum þeim öllum blessunar.

Guðrún Thorarensen.

 

Morgunblaðið föstudagurinn 19. febrúar 2016.

___________________________________________________
 

.

.


 

Eyrarbakkakirkja. Ljósm.: Halldór Páll Kjartansson.

Skráð af Menningar-Staður