Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2016 Mars

08.03.2016 15:18

Eng­ar stór­hvala­veiðar sumarið 2016

 

 

Langreyð dreg­in inn í hval­stöðina í Hval­f­irði. Ljósm.: mbl.is/?Golli

 

Eng­ar stór­hvala­veiðar sumarið 2016

 

Eng­ar hval­veiðar verða á veg­um Hvals hf. næsta sum­ar (2016). Kristján Lofts­son, fram­kvæmda­stjóri Hvals, staðfest­ir þetta í sam­tali í Morg­un­blaðinu í dag (25. feb.2016). Hann seg­ir fyr­ir­tækið hafa mætt enda­laus­um hindr­un­um við að koma hvala­af­urðum á markað í Jap­an.

 

Hann seg­ir hindr­an­irn­ar meðal ann­ars fel­ast í sí­end­ur­tekn­um efna­grein­ing­um þar sem Jap­an­ir beiti yfir 40 ára göml­um aðferðum sem hvergi séu notaðar ann­ars staðar í heim­in­um. Þetta geri þeir þrátt fyr­ir að efna­grein­ing­ar­vott­orð fylgi afurðunum.

 

„Ef Jap­an­ir taka ekki upp nú­tíma­leg­ar rann­sókn­araðferðir eins og notaðar eru hér á landi, þannig að sam­bæri­leg­um aðferðum sé beitt í báðum lönd­um, mun Hval­ur ekki leng­ur geta stundað hval­veiðar fyr­ir Jap­ans­markað. Jap­an er okk­ar aðal­markaður og þess vegna er þessu sjálf­hætt,“ seg­ir Kristján í Morgunblaðinu.

 

 


F.v.: Sigurður Ingi Jóhannsson, Smári Geirsson, Kristján Loftsson og

Björn Ingi Bjarnason glugga í bók Smára -Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915-

Ljósm.: Júlía B. Björnsdóttir.

 Skráð af Menningar-Staður
 

 

08.03.2016 08:35

Hvalkaupaferð frá Búðardal til Flateyrar fyrir réttri öld síðan

 

 

Kápumynd bókarinnar er tekin á hvalstöðinni á Höfðarodda í Dýrafirði - Framnesi.

 

Hvalkaupaferð frá Búðardal til Flateyrar fyrir réttri öld síðan

 

Bókin „Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915“ eftir Smára Geirsson er afar merk heimild um norska hvalveiðitímabilið 1883 – 1915

Smári Geirsson fyrrum bæjarfulltrúi á Neskaupstað og skólameistari Verkmennaskóla Austurlands hefur skrifað bókina „Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915“ sem kom út í árslok 2015 en árið 1915, réttum 100 árum áður voru stórhvalaveiðar við Ísland bannaðar með lögum. Enn má sjá á nokkrum stöðum leifar hvalstöðva hérlendis, þó aðallega á Vestfjörðum og Austfjörðum, en engar fyrir norðan land og engar á Suðurlandi eða Vesturlandi.

 

Flestar voru stöðvarnar reistar á síðari hluta 19. aldar eða í byrjun 20. aldar en á Vestfjörðum má finna leifar stöðva frá 17. öld en allt bendir til þess að Arnfirðingar hafi lagt stund á hvalveiðar frá byrjun 17. aldar og fram undir lok 19. aldar, eða allt þar til hvalir hættu að koma í fjörðinn.
 

Smári leitaði m.a. fanga í Noregi við efnisöflun og skrif bókarinnar, ekki síst við Hvalasafnið í Sandefjord, og í samtölum við fólk í norsku sveitarfélögunum Stokke, Mads Ramstad, Haugasundi og Túnsbergi auk þess að ræða við eldra fólk hérlendis sem mundi hvalstöðvatímann hér á landi.

 

Fyrsta ítarlega rannsóknin á hvalveiðum

 

Í þessu mikla verki  Smára Geirssonar birtist í fyrsta sinn ítarleg rannsókn á hvalveiðum við Ísland síðan land byggðist. Á síðari hluta 19. Aldar urðu Norðmenn forystuþjóð á sviði hvalveiða og þá urðu veiðarnar umfangsmestar við landið. Einnig er fjallað um daglegt líf fólks á hvalstöðvunum sem og afstöðu Íslendinga til þeirra.
 

Í hafinu umhverfis Ísland hefur löngum verið gnótt hvala en frá því greina ýmsar fornar heimildir. Víða í þessum heimildum er getið um hvalreka en þeir voru álitnir vera meðal helstu hlunninda. Sannast sagna virðast hvalrekar oft hafa verið ein helsta lífsbjörg Íslendinga þegar hart var í ári og sultur svarf að. Sjórekinn hvalur getur mettað marga munna og kveikt vonir brjósti þeirra landsmanna sem nutu hans. Því er ekki að undra að orðið hvalreki hafi í íslensku máli einnig fengið merkinguna óvænt happ.
 

Engar hvalveiðistöðvar voru á Vesturlandi á norska hvalveiðitímabilinu 1883 til 1915 en fjölmargar á Vestfjörðum, þeirra einna þekktust hvalstöðin á Sólbakka í Önundarfirði, rétt innan Flateyrar. Aðrar voru á Langeyri í Álftafirði, á Höfðarodda í Dýrafirði, á Suðureyri í Tálknafirði, á Stekkeyri í Hesteyrarfirði, á Dvergasteinseyri í Álftafirði, á Meleyri í Veiðileysufirði og á Uppsalaeyri í Seyðisfirði. Á Austfjörðum voru 6 hvalveiðistöðvar.

Hvalstöðin á Sólbakka í Önundarfirði hóf starfsemi árið 1889 undir stjórn Hans Ellefsens. Hann gaf allt þvestið af fyrstu hvölunum sem komu til vinnslu og um tíma einnig undanfláttu. Í fyrstu gátu
heimamenn komið í hvalstöðina og sótt hval fyrir sitt heimafólk og skepnur, en þurftu að skera hvalinn sjálfir. Þetta var álitið mikið happ fyrir næstu nágranna hvalstöðvana. Fljótlega lögðu margir leið sína til Önundarfjarðar til að verða sér út um hval, jafnvel um langan veg. Það kann að vefjast fyrir mörgum hvað undanflátta, rengi og þvesta er. Undanflátta er fitumikið kjöt og rengislag á hval, rengi fituríkur sinavefur á kvið hvala og þvesti magurt hvalkjöt.

 

Hvalkaupaferð Dalamanna

 

Athyglisverð frásögn er í bókinni „Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915“ af hvalkaupaferð úr Dalasýslu til Önundarfjarðar.

Árið 1898 réðst Guðjón Ásgeirsson frá Kýrunnarstöðum í Dalasýslu til starfa á hvalstöð Elefsen á Sólbakka en að loknum tveimur vertíðum snéri hann heim. Þegar heim var komið spurðu sveitungar hans hvernig tiltækilegast væri að ná í hval til Vestfjarða, og þá helst fyrir alla sýsluna. Benti Guðjón á tvær leiðir. Önnur var sú að taka skip á leigu og þá þyrfti engin ílát undir hvalinn en þá leið töldu Dalamenn of áhættusama. Hin leiðin fólst í því að senda menn ásamt ílátum með strandferðaskipinu vestur og þegar ílátin væru orðin full kæmu þeir með þau til baka með skipinu.
 

Á fundi á Hvammi í Dölum var ákveðið að nota síðari aðferðina en fólk átti að leggja inn pöntun um það hversu mikinn hval það vildi. Alls reyndist þurfa 80 tunnur og olíuföt til ferðarinnar auk poka undir sporði en allar tunnurnar áttu að vera laggaheilar með botni í báðum endum en nokkur misbrestur var á því.
 

Um mánaðarmótin maí-júní 1901 lagði Guðjón af stað með strandferðaskipinu Skálholti frá Búðardal og með honum Ólafur Magnússon bóndi á Hafursstöðum sem var vanur beykir. Rengið kostaði 12 aura kílóið, sporður 8 aura og undanfáttan 2 aura. Gistingu fengu þeir á bænum Hvilft í næsta nágrenni hjá Sigríði Sveinbjarnardóttur og Sveini Rósinkranssyni.
 

Útskipun á Flateyri og uppskipun í Búðardal gekk ekki átakalaust þar sem Godfredsen skipstjóri reyndist stirður og erfiðir viðureignar. En hvalnum var skilað til kaupenda í allgóðu ásigkomulagi og hlutu þeir Guðjón og Ólafur lof Dalamanna fyrir. Lagt var að þeim félögum næsta vetur að fara aðra ferð en það aftóku þeir með öllu, töldu sig hafa fengið nóg af þessari einu ferð. Einnig var reynt að fá einhverja fyrir vestan til að koma með hval á báti eða skútu. En það tókst ekki og þar með dóu þessi bjargráð alveg út.

 

Blaðið Vesturland 18. febrúar 2016.

 

 

 

Úr bókinni.

Hvalstöðin á Sólbakka. Strandferðaskipið Skálholt, sem nefnt er í greininni, liggur við bryggju.

 Skráð af Menningar-Staður
 

 

07.03.2016 17:18

Aðalfundur Afréttamálafélags Flóa og Skeiða 10. mars 2016

 

Séð heim að Þingborg.

 

Aðalfundur Afréttamálafélags Flóa og Skeiða 10. mars 2016

 

Verður haldinn í Þingborg fimmtudagskvöldið 10. mars kl. 20:30.

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf.

Afréttamálafélagið hefur unnið að landbótaáætlun fyrir afréttinn og er hún nú tilbúin.

Áætlunin verður kynnt á fundinum og er ætlast til að sauðfjárbændur mæti til fundarins og skrifi undir.

Þeir sem vilja kynna sér landbótaáætlunina fyrir fundinn geta haft samband við Ara Thorarensen gegnum netfangið arith@simnet.is og fengið hana senda í tölvupósti, einnig verður hægt að nálgast hana á skrifstofu Flóahrepps fram að fundi.

 

Stjórnin

af: www.floahreppur.is

 

Ari Björn Thorarensen. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason

 


Skráð af Menningar-Staður

 

07.03.2016 07:52

Fermingarbörn á Eyrarbakka 2016

 

Eyrarbakkakirkja.

 

Fermingarbörn á Eyrarbakka 2016

 

Sunnudagur 24. apríl kl. 13:00 

Prestur Kristján Björnsson.

Andrea Karen Magnúsdóttir, Eyrargötu 38, 820 Eyrarbakka.

Bríet Bragadóttir, Hjalladæl 13, 820 Eyrarbakka.

Finnur Þór Finnsson, Túngötu 7, 820 Eyrarbakka.

Gísli Rúnar Gíslason, Háeyrarvöllum 16, 820 Eyrarbakka.

Margrét H. Werner Ragnarsd., Túngötu 43, 820 Eyrarbakka.

Sigurbjörg Guðmundsdóttir, Túngötu 26, 820 Eyrarbakka.

Vildís Harpa Sævarsdóttir, Túngötu 50, 820 Eyrarbakka.

 

Föstudagur 17. júní kl. 11:00 

Prestur Kristján Björnsson.

Victoría Kolbrún Öfjörð, Skógarbr. 1112-1-2a, 235 Reykjan.bæ.

 

 

Séra Kristján Björnsson.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

05.03.2016 21:36

Ekki í neinni vinsældakeppni

 


Halldór Valur Pálsson. Ljósm.: Fréttablaðið/Stefán
 

 

Ekki í neinni vinsældakeppni

 

Við sem erum að að vinna í kerfinu erum held ég öll sammála um að við viljum vera starfsmenn í betrunarkerfi,“ segir Halldór Valur Pálsson, nýr fangelsisstjóri á Litla-Hrauni og Sogni. Hann tók við um miðjan janúar af Margréti Frímannsdóttur sem hafði verið fangelsisstjóri í átta ár þar á undan. Halldór er 35 ára fjölskyldufaðir með BA-gráðu í stjórnmálafræði en hann er enginn nýgræðingur í fangelsismálum.

„Ég er búinn að vinna í þessu kerfi síðan sumarið 2000. Þá vann ég fyrst sem fangavörður á Litla-Hrauni með hléum til haustsins 2004. Síðan þá er ég búinn að vera í ýmsum verkefnum hjá Fangelsismálastofnun.“ Titill Halldórs, áður en hann varð forstöðumaður fangelsanna, var öryggisstjóri Fangelsismálastofnunar. Þá hefur hann séð um að innleiða ökklabönd á fanga sem ekki afplána lengur í lokuðum fangelsum og þróað samfélagsþjónustuúrræði.

„Ég hef ekki haft neitt plan. Ég ætlaði mér ekki endilega að vera kominn hingað núna en þegar Margrét ákvað að fara þurfti ég að ákveða hvort ég kærði mig um að prófa þetta líka.“

Halldór segir að starfsaldur innan Fangelsismálastofnunar sé nokkuð hár. „Ég er ekki sá eini ungi í kerfinu. Forstjóri Fangelsismálastofnunar [Páll Winkel] er 42 ára og staðgengill hans er 39 ára. En við erum öll búin að vinna mjög lengi í kerfinu og starfsaldur er mjög hár. Það eru margir sem starfa hjá okkur með áratugareynslu og þeir elstu hafa jafnvel byrjað að vinna á áttunda áratugnum. Það eru þá menn sem eru komnir með allt að 40 ára starfsreynslu.“

 

Ekki í vinsældakeppni

Í mars á síðasta ári fylgdist Ísland í dag með degi í lífi Margrétar Frímannsdóttur á Hrauninu. Þá lýstu fangarnir henni sem mömmu og einn sagði: „Maður vill standa sig fyrir hana. Maður vill ekki að þetta góða starf sem hún er að vinna hérna verði að engu.“

Halldór óttast ekki samanburðinn. „Hvort sem við erum að tala um Margréti eða aðra fangelsisstjóra þá held ég að við séum allir meðvitaðir um að starfið snýst ekki um eiginlegar vinsældir. Margar ákvarðanir sem við þurfum að taka eru ekki líklegar til vinsælda. Við þurfum bara að meta það hvað eru góðar ákvarðanir og hvað eru slæmar ákvarðanir, hvað kemur sér vel fyrir fangann og hvað ekki. Alveg óháð vinsældunum.

Ég hef ekki mætt neinu nema þægilegu og eðlilegu viðmóti gagnvart föngum, en ég hef svo sem ekki verið að ræða þetta neitt sérstaklega við þá. Það vinna 65 manns hérna og forstöðumaður á fyrst og fremst að vera bakhjarl þeirra og sífellt hafa í huga hvernig við getum eflt þá í störfum. Við þurfum að hafa fókusinn á því.“

 

Fangar meðvitaðir um rétt sinn

Halldór segir að höfuðmáli skipti að fangar viti að hverju þeir gangi í fangelsinu. „Við reynum að gera okkar besta í að upplýsa þá um réttindi sín. Ef okkur tekst vel að upplýsa fangana um hvað má og hvað má ekki og hvernig lögin virka þá verður samvinna okkar við fangana miklu betri. Við viljum hjálpa þeim með allt sem við megum hjálpa með en við getum ekki gert það sem við megum ekki.“

Hann segir að stundum komi fyrir að fangar biðji um eitthvað sem er ekki innan ramma húsreglnanna á Litla-Hrauni. „Það geta til dæmis verið einföldustu hlutir eins og að sveigja heimsóknarreglurnar. En það er ekki hægt. Þetta er bara sá strúktúr sem við vinnum eftir.“

 

Agaviðurlög við refsingum

Húsreglurnar á Litla-Hrauni eru margar og þeim mun jafnvel fjölga enn frekar. Á þingi liggur fyrir breytingartillaga frá allsherjar- og menntamálanefnd við nýtt frumvarp um fullnustu refsinga sem kveður á um að föngum verði bannað að fara inn í klefa hver annars. Í frétt á Vísi kemur fram að Páll Winkel fangelsismálastjóri sé ánægður með þessa afstöðu. Hann segir tillöguna vera komna frá stofnuninni.

Halldór segir að hluti af því að fangar viti að hverju þeir ganga sé að standa við þær afleiðingar sem verða við brot á húsreglum fangelsisins. „Ef menn eru að brjóta húsreglur og við erum búin að segja þeim hverjar afleiðingarnar verða ef þeir gera það þá þurfum við líka að standa við það. Þá vita þeir að hverju þeir ganga. Mín reynsla er að ef menn vita að hverju þeir ganga þá líður mönnum betur með það.“

Hann segir brot á reglum vera misalvarleg og afleiðingarnar séu í samræmi við brotin. „Við alvarlegustu brotunum höfum við heimild til að úrskurða um agaviðurlög. Það þýðir takmarkanir á heimsóknum og þess háttar. Í alvarlegustu tilvikunum einangrun. Það er í raun og veru skýrt kveðið á um það í fullnustu refsinga hvað á við og hvenær.“

 

Fleira starfsfólk og aukið fé

„Litla-Hraun þarf fyrst og fremst að efla með öðrum hætti en að fjölga fangaplássum. Því fleira starfsfólk á hvern fanga, því betra. Þá getum við gert meira,“ segir Halldór um hvað er brýnasta verkefnið ef nægt fjármagn býðst.

„Við erum með ágætis framboð af bóknámi fyrir fanga, hvort sem það er staðnám eða fjarnám og jafnvel háskólanám. En við vildum gjarnan sjá möguleika á að koma á meira verknámi fyrir fanga. Margir þeirra hafa bakgrunn í því og hafa unnið slíka vinnu sem ætti að hjálpa þeim áfram með námið. Verknámið er í mjög takmörkuðu magni.“

Í sumar efndu fangar á Litla-Hrauni til undirskriftasöfnunar vegna þess að Barnakoti hafði verið lokað um helgar. Barnakot er heimsóknarherbergi sem er hugsað sérstaklega svo börn fanga geti hitt feður sína í sem eðlilegustum aðstæðum. Opnunartíminn á virkum dögum skarast við skóla barnanna og vinnu foreldris sem fylgir því í fangelsið. „Barnakot var opnað í fyrra og ekki til neitt Barnakot fyrr en þá. Það voru gerðar tilraunir með það að átta okkur á hvernig við gætum haft þessa heimsóknaraðstöðu. Síðan kemur í ljós að það fyrirkomulag, að hafa opið um helgar, gekk ekki upp varðandi það hvernig við sinnum eftirliti og vöktum. Þegar það komu fréttir um að það væri verið að skerða þjónustu í Barnakoti þá er skerðingin sú að það var ekki til neitt Barnakot örfáum mánuðum áður.

Auðvitað viljum við hafa þetta opið sem mest en við erum bundin af þeim fjármunum og mannskap sem við höfum á hverjum tíma. Við þurfum bara ákveðinn tíma til að skipuleggja okkur með þetta verkefni og við erum að vinna að því.“

 

Ný lög breyta miklu

Fangelsið á Hólmsheiði er nú í smíðum sem mun breyta heilmiklu fyrir Litla-Hraun. Vistun gæsluvarðhaldsfanga færist þá á Hólmsheiði sem gefur möguleika á endurskipulagningu á Hrauninu.

Þá liggur fyrir frumvarp um breytingu á lögum um fullnustu refsinga fyrir Alþingi og búist við að það verði samþykkt sem lög á vormánuðum.

„Ef frumvarpið gengur í gegn þá eru í raun fleiri sem eiga kost á samfélagsþjónustu. Öll framþróun síðustu ár hefur í raun miðað að því að betra. En á meðan ber okkur líka að tryggja öryggi almennings og öryggi fanganna sjálfra. Frá 2007 hefur opnum fangelsisrýmum fjölgað úr 11 í 44. Nú er það þannig að menn með 9 mánaða óskilorðsbundinn dóm þurfa kannski aldrei að stíga inn í fangelsi heldur geta farið í samfélagsþjónustu. Ef lögin ganga í gegn eins og frumvarpið er núna geta menn með allt að tólf mánaða dóm aldrei þurft að stíga inn í fangelsi. Auk þess geta menn tekið lokasprettinn í afplánun heima hjá sér með rafrænu eftirliti.“Fréttablaðið helgin 5. og 6. mars 2016


Skráð af Menningar-Staður

05.03.2016 07:10

Dagskrá afmælisviku í Selfosskirkju

 

 

Dagskrá afmælisviku í Selfosskirkju

 

Sunnudagur 13. mars

Fjölskylduguðsþjónusta kl. 11:00 í Selfosskirkju.  Barna- og unglingakórar Selfosskirkju syngja, fram kemur einnig rythmiskur samspilshópur úr Tónlistarskóla Árnesinga, kennari þeirra er Vignir Ólafsson

Eftir messuna verður opnuð sýning á munum í eigu kirkjunnar og tengjast sögu hennar.

 

Kvöldmessa kl. 20:00.  Um tónlistina sjá feðgar ættaðir frá Selfossi, það eru þeir Arngrímur Fannar Haraldsson og Haraldur Fannar Arngrímsson og verður þetta í fyrsta sinn sem þeir leika opinberlega saman.

 

Mánudagur 14. mars

Söguganga um kirkjugarðinn og kirkjuna.  Leiðsögumenn eru Sigurjón Erlingsson og Valdimar Bragason.  Mæting við kirkjuna kl. 17:00.  Kaffisopi í safnaðarheimilinu á eftir.

 

Þriðjudagur 15. mars

Skemmtikvöld Æskulýðsfélagsins, Kærleiksbjarnanna.  Skemmtileg samvera þar sem fram koma:  Hámenningin, Hrafnhildur Hanna handboltakona, Björgvin Karl Cross-Fit kappi og Sælan með Draumlandið o.fl.  Nýbakaðar vöfflur og kakó í boði sem prestarnir sjá um að baka.

Samveran hefst kl. 19:30.

 

Miðvikudagur 16. mars

Samvera og málþing í Selfosskirkju um prestshjónin Sigurð Pálsson og Stefaníu Gissurardóttur kl. 20:00.

Framsögu hafa:

Gissur Sigurðsson

Gunnlaugur A. Jónsson

Óli Þ. Guðbjartsson

Gissur Páll Gissurarson syngur.

Kaffisopi í safnaðarheimilinu í hléi.

 

Fimmtudagur 17. mars

Kvenfélag Selfosskirkju heldur upp á 50 ára afmæli sitt og býður öllum eldri borgurum í Árborg til kaffisamsætis í Hótel Selfoss.  Þar koma fram Systurnar frá Byggðarhorni og Unglinga- og barnakór Selfosskirkju.  Samveran hefst kl. 14:00.

 

Föstudagur 18. mars

Föstuhádegi kl. 12:00 í Selfosskirkju.  Einsöng syngur Halla Marinósdóttir.  Fiskur í safnaðarheimilinu á eftir.

 

,,Þessi kór er alin upp við Ölfusá.“  Endurfundir fyrrum og núverandi félaga í Unglingakór Selfosskirkju.  Endurfundirnir hefjast kl. 20:00 í Selfosskirkju þar sem fyrrum kórfélagar syngja.  Kaffisopi í safnaðarheimilinu á eftir.

 

Laugardagur 19. mars

Kirkjukórinn heldur upp á 70 ára afmæli sitt.  Tónleikar í Selfosskirkju kl. 16:00.  Með þeim koma einnig fram Kirkjukór Hveragerðiskirkju og Þorlákshafnar, Kirkjukór Villingaholts- og Hraungerðiskirkju og Unglingakór Selfosskirkju.  Einsöngvari Halla Dröfn Jónsdóttir

 

Sunnudagur 20. mars

Hátíðarmessa kl. 14:00.  Biskup Íslands Agnes M. Sigurðardóttir prédikar og prestar kirkjunnar þjóna fyrir altari á samt Halldóru J. Þorvarðardóttur prófasti.  Kirkjukórinn og Unglinakórinn syngja, organisti Edit A. Molnár

Kirkjukaffi í Hótel Selfoss eftir messuna.


Af: www.selfosskirkja.is

 
Skráð af Menningar-Staður

04.03.2016 06:08

Embætti sóknarprests í Eyrarbakkaprestakalli auglýst laust til umsóknar

 

 

Eyrarbakkakirkja. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Embætti sóknarprests í Eyrarbakkaprestakalli

auglýst laust til umsóknar

 

Biskup Íslands auglýsir laust til umsóknar embætti sóknarprests í Eyrarbakkaprestakalli, Suðurprófastsdæmi frá 1. júlí 2016.

 • Biskup Íslands skipar í embætti sóknarpresta til fimm ára.
 • Í Eyrarbakkaprestakalli eru þrjár sóknir, þær eru: Eyrarbakkasókn, Gaulverjarbæjarsókn og Stokkseyrarsókn. Íbúar í prestakallinu eru rúmlega tólf hundruð.
 • Eyrarbakkaprestakall er á samstarfssvæði með sóknum í Selfossprestakalli, Hveragerðisprestakalli og Þorlákshafnarprestakalli. Í Suðurprófastsdæmi eru þrettán prestaköll með 53 sóknir.
 • Um þjónustuskyldur í Eyrarbakkaprestakalli fer eftir samþykktum kirkjuþings um innri málefni kirkjunnar.
 • Umsækjendur geri skriflega grein fyrir persónulegum upplýsingum, menntun sinni, starfsferli og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Staðfest afrit af prófskírteini skal fylgja umsókn svo og upplýsingar um starfsþjálfun.
 • Valnefnd velur sóknarprest samkvæmt starfsreglum um val og veitingu prestsembætta nr. 1109/2011 og er stuðst við ráðgjafa í öllu umsóknarferlinu.
 • Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 15. gr. starfsreglna nr. 1109/2011.
 • Um embættið gilda lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 og starfsreglur er kirkjuþing setur. Einkum er vísað til starfsreglna um presta nr. 1110/2011.
 • Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs.
 • Upplýsingar um embættið og helstu lög og reglur sem um starfið gilda eru veittar á Biskupsstofu svo og hjá settum sóknarpresti Eyrarbakkaprestakalls og prófasti Suðurprófastsdæmis.
 • Umsóknarfrestur rennur út 22. mars 2016.
 • Umsóknir sendist Biskupi Íslands, Biskupsstofu, Laugavegi 31, 105 Reykjavík.

Vísað er til laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Virðingarfyllst,

F.h. biskups Íslands

Sveinbjörg PálsdóttirAf www.kirkjan.is

 

Í Eyrarbakkakirkju. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.


Skráð af Menningar-Staður.

03.03.2016 13:17

Merki stórra og smárra íþróttafélaga á sýningu í Þorlákshöfn

 


Rafn Gíslason.

 

Merki stórra og smárra íþróttafélaga á sýningu í Þorlákshöfn

 

Í kvöld kl. 18:00 opnar ný sýning í Gallerí undir stiganum, sýningarrými Bæjarbókasafns Ölfuss í Þorlákshöfn. Það er Þorlákshafnarbúinn Rafn Gíslason sem ætlar að sýna merki eða lógó á sýningunni, sem hann hefur hannað.

Rafn hefur haft áhuga á merkjum frá því hann var unglingur og hafa merki íþróttafélaga átt hug hans að mestu. „Ég var mjög virkur í íþróttum þegar ég var yngri og hafði mikinn áhuga á félagsmerkjum og búningum,“ segir Rafn sem er lærður húsasmiður en hefur ekki getað starfað við iðn sína síðastliðin sjö ár af heilsufarsástæðum. Þegar Rafn gat ekki unnið lengur fór hann að kynna sér gerð merkja í tölvunni. Hann er að mestu sjálfmenntaður í grafískri hönnun en fór á eitt námskeið hjá NTV í Kópavoginum. „Mest hef ég lært af sjálfum mér og notast við kennslubók um notkun teikniforritsins sem ég nota við mína hönnun. Teikningu lærði ég svo rétt eins og hver annar nemi í grunnskóla og einnig í iðnnámi mínu“.

Fyrsta merkið sem Rafn hannað og fór í notkun var merki fyrir íþróttafélagið Draupni á Akrueyri og fljótlega á eftir komu svo merki fyrir Stál Úlf og UMFG í Grundarfirði. Aðspurður að fjölda teikninga sem hann hefur unnið er Rafn ekki viss. „Ég hef teiknað eitthvað á milli 25 til 30 merki sem eru í notkun núna hjá fyrirtækjum og félögum og verða þau flest með á sýningunni. Einnig hef ég gert fjöldann allan af merkjum sem eru endurhönnun á núverandi merkjum félaga bæði erlendum og íslenskum. Ég hef enga tölu á hversu mörg þau eru orðin en ég teikna þetta um fjögur til fimm merki á viku“.

Á myndinni hér að ofan má sjá Rafn með hönnun sína á merki handknattleiksfélagsins Zemaitijos Dragunas í boginni Klaipeda í Litháen. Félagið hefur orðið litháískur meistari í handbolta síðustu fimm árin í röð og hefur einnig keppt í Evrópukeppninni síðustu árin. „Hönnun þessa merkis er trúlega stærsta verkefnið sem ég hef gert fyrir einstakt félag á ferli mínum sem áhugamaður um hönnun lógóa, sagði Rafn“.

 

Sýning Rafns opnar klukkan 18:00 í kvöld, fimmtudaginn 3. mars 2016.

Sýningin mun standa yfir út marsmánuð og verður opin á opnunartíma bókasafnsins.Af www.dfs.is

Rafn Gislason setur upp sýningu

 

.
 

Rafn Gíslason hannaði merki Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi.
 


Skráð af Menningar-Straður

 

03.03.2016 13:06

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 3. mars 2016

 

 

F.v.: Siggeir Ingólfsson, Haukur Jónsson, Rúnar Eiríksson, Gísli Friðriksson
og Ingólfur Hjálmarsson. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 3. mars 2016

 

.


F.v.: Gísli Friðriksson, Ingólfur Hjálmarsson og Jón Friðrik Matthíasson. 

 

.

.

Gísli Friðriksson.

.

.

Jóhann Jóhannsson.

.


 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

03.03.2016 10:35

Suðureyri: - Ferðamennirnir heillaðir af slorinu

 


Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman á Suðuireyri. Ljósm.: Mbl.

 

 

Suðureyri: - Ferðamennirnir heillaðir af slorinu

 

Á Suðureyri hefur orðið til fyrirtæki sem tengir saman sjávarútveg og ferðaþjónustu. Lesendum kann að þykja það undarlegt en fyrir mörgum erlendum ferðamanninum er það hápunktur heimsóknar til Íslands að upplifa allt ferli fisks í litlu sjávarþorpi, frá hafi og ofan í maga.

„Þetta er nákvæmlega það sama og Íslendingar eru að sækjast eftir þegar þeir ferðast til Frakklands til að skoða vínbúgarða, eða þekkta matvælaframleiðslu annarra þjóða. Erlendir gestir vilja upplifa atvinnumenningu Íslendinga. Við erum fiskveiðiþjóð en ekki bankaþjóð,“ segir Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman (www.fisherman.is).

 

Fjölskyldan gerði upp lítið hús
 

Saga fyrirtækisins hófst fyrir fimmtán árum þegar fjölskylda Elíasar eignaðist lítið hús í þorpinu. Átti að rífa húsið, svo ekki þurfti að borga mikið fyrir bygginguna. „Þetta byrjaði sem lítið áhugamál hjá okkur. Fyrir húsið greiddum við 50.000 kr. og endurbyggðum hvenær sem laus stund gafst. Vorið 2001 gátum við leigt þar út fjögur herbergi til ferðamanna. Á þessum tíma var ekkert sem hét ferðaþjónusta á þessum slóðum og var hótelreksturinn í raun algjört aukatriði og snerist þessi iðja okkar fyrst og fremst um að gera eitthvað uppbyggilegt við dauðar stundir.“

Smám saman hefur starfsemi Fisherman vaxið og dreifist nú yfir nokkur hús í bænum. Frá og með næsta vori verða 19 herbergi í útleigu og stefnt á 26 herbergi með nýrri viðbyggingu sem er verið að undirbúa fyrir framkvæmdir. Samhliða hótelrekstrinum rekur Fisherman veitingastað og kaffihús og tvinnast öll starsfemin saman við sjávarútvegs- og matartengdar ferðir um svæðið.

„Í ferðunum blöndum við saman þremur áhersluþáttum í ólíkum hlutföllum: sögu svæðisins, matarmenningunni og nátúrunni,“ segir Elías. „Í náttúruferðinni liggur leiðin meðal annars að Dynjanda, með stoppi á Þingeyri og Suðureyri á bakaleiðinni, og komið við á völdum stöðum þar sem má smakka fiskrétti heimamanna. Söguferðin sýnir ferðalöngunum elstu verstöð landsins í Bolungarvík, sjóminjasafnið á Ísafirði, fræðir um hvernig Ísland byggðist upp í kringum sjómennskuna og endað á fiskismakki á Suðureyri.“

 

Steinbítur undir berum himni
 

Loks er í boði sjávarréttaferð. „Þetta köllum við gúrme-ferð og m.a. er komið við í fiskhjalli þar sem má smakka hjallþurrkaðan harðfisk, barinn á steini. Við heimsækjum fiskvinnslu og skoðum hvað er um að vera niðri við bryggju. Einn af hápunktunum er þegar við bjóðum fólki að smakka þorskhnakka matreidda í tapas-stíl og leyfum gestunum að gæða sér á steinbít undir berum himni. Endar ferðin í því sem við köllum Fiskiskólann, í rými á bak við kaffihúsið. Þar læra ferðalangarnir að elda suður-amerískan skyndirétt, ceviche, sem er gerður án allrar utanaðkomandi orku, og gæða sér á kræsingunum.“

Suðuramerísku áherslurnar í matnum í sjávarréttaferðunum eru komnar til vegna þess að Fisherman vill sýna erlendu ferðalöngunum breiddina sem hráefnið býður upp á og sýna nýstárlega eldun á fiski. „Við erum vistvænt veiðisamfélag og við þurfum, sem dæmi, ekki orku til að elda fiskinn,“ segir Elías. „Á veitingastaðnum og kaffihúsinu gerum við sjávarafurðunum hins vegar skil á hefðbundnari nótum, að hætti heimamanna.“

Aldrei er neitt sett á svið og frekar reynt að haga ferðunum þannig að eitthvað sé um að vera á þeim stöðum sem hópurinn heimsækir. „En ef svo ber til að ekkert er að gerast í fiskvinnslunni lýsum við því einfaldlega fyrir fólki hvað þar er gert.“

 

Sýna vinnu sína með stolti
 

Segir Elías að útlendingunum þyki mikil upplifun að sjá vönduð handtökin og fullkomna tæknina í veiðum og vinnslu sjávarafurða, og vitaskuld eru allir klæddir í viðeigandi hlífðarfatnað til að tryggja öryggi og fullnægja ströngum gæðakröfum matvælafyrirtækjanna. Virðist það ekki trufla fólkið sem starfar við sjávarútveginn þó fylgst sé með því við störfin, og raunar sýna sjómennirnir og fiskvinnslufólkið vinnu sína með glöðu geði. „Íbúarnir á svæðinu eru mjög stoltir af því sem þeir eru að gera, enda atvinnugrein sem ber af í samanburði við önnur lönd og hátækniframleiðsla eins og best þekkist.“

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 3. mars 2016.

 

 

 

Fjallið Göltur og séð inn Súgandafjörð til Suðureyrar.

Ljósm.: Mats Wibe Lund.

 

 

Á Suðureyri við Súgandafjörð. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 


 

Skráð af Menningar-Staður.