Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2016 Júlí

06.07.2016 22:38

Trésmiðafélag Reykjavíkur í heimsókn á Eyrarbakka

 

 

 

Trésmiðafélag Reykjavíkur í heimsókn á Eyrarbakka

 

Stór hópur eldri félagar í Trésmiðafélagi Reykjavíkur komu á Eyrarbakka í morgun á ferð sinni um Suðurland.

Fararstjóri var Guðni Ágústsson og meðal þátttakenda voru Eyrbekkingarnir; Ingi Guðmundsson, Sigurður Emil Ólafsson og Bjarnfinnur Hjaltason.

Hópurinn kom fyrst í Félagsheimilið Stað þar sem tekið var á móti gestunum með kaffi og léttu spjalli.
Staðarins menn þar voru; Rúnar Eiríksson, Jóhann Jóhannsson, Haukur Jónsson og Björn Ingi Bjarnason.

Síðan var farið upp á útsýnispallinn við Stað og um Eyrarbakkaþorp. M.a. var komið við í Laugabúð hjá Magnúsi Karel Hannessyni.

Menningar-Staður færði til myndar.
Myndaalbúm er komið hér á Menningar-Stað.
Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/279325/Nokkrar myndir:

 

.

.

.

.

.

.

.

.
Skráð af Menningar-Staður
 
 

06.07.2016 19:53

Jón Daði er "kominn heim"

 

image

Stór mynd af Jóni Daða prýðir norðurenda stúkunnar á JÁVERK-vellinum.

Ljósm.: sunnlenska.is/Jóhanna SH
 

 

Jón Daði er „kominn heim“

 

Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson átti frábært mót í Frakklandi með íslenska landsliðinu í knattspyrnu. Landsliðið er komið heim, og það sem meira er, risastór mynd af Jóni Daða í landsliðsbúningnum prýðir nú stúkuna á JÁVERK-vellinum á Selfossi.

Myndin er hluti af styrktarsamningi knattspyrnudeildarinnar og Vífilfells en minnir um leið unga iðkendur á að leyfa sér að dreyma stóra drauma. Með miklum aga og aukaæfingum fór Jón Daði í gegnum yngri flokkana á Selfossi, upp í meistaraflokk og þaðan út í atvinnumennsku. Eftirleikinn þekkja nú allir en Jón Daði var ein af hetjum íslenska liðsins á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi.

„Það var æðislegt. Þetta hefur verið þvílíkt ferðalag að spila fyrir framan svona marga Íslendinga sem syngja og tralla. Þetta var tilfinningaþrungið í lokin. Þegar maður horfir til baka þá er stutt síðan maður var að spila á Selfossi. Maður er núna að byrja sem framherji með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu og búinn skora mark. Það er gaman að upplifa svona," sagði Jón Daði í viðtali við fjölmiðla eftir að þátttöku Íslands lauk.

Myndin á norðurenda stúkunnar hefur vakið mikla athygli, en gangandi og hjólandi vegfarendur hafa margir gert sér leið í gegnum vallarsvæðið til þess eins að skoða hana.

Af www.sunnlenska .is

 


Stór mynd af Jóni Daða prýðir norðurenda stúkunnar á JÁVERK-vellinum.
Ljósm.: sunnlenska.is/Jóhanna SHSkráð af Menningar-Staður

06.07.2016 08:04

6. júlí 2016 - Birna Gylfadóttir er 30 ára

 

 

Birna Gylfadóttir.

 

6. júlí 2016 - Birna Gylfadóttir er 30 ára

 

Birna ólst upp á Stokkseyri, býr á Eyrarbakka og starfar við dvalarheimilið Sólvelli á Eyrarbakka.

Maki: Ívar Björgvinsson, f. 1987, starfsmaður á Vélaverkstæði Þóris.

Synir: Hlynur Fannar, f. 2005; Daníel Örn, f. 2010, og Ívan Gauti, f. 2012.

Foreldrar: Dagbjört Gísladóttir frá Eyrarbakka, f. 1950, og Gylfi Jónsson frá Stokkseyri, f. 1950. Þau búa á Stokkseyri.


Morgunblaðið miðvikudagurinn 6. júlí 2016Skráð af Menningar-Staður

06.07.2016 07:39

Merkir Íslendingar - Jens Sigurðsson

 

 

Jens Sigurðsson frá Hrafnseyri við Arnarfjörð.

 

Merkir Íslendingar - Jens Sigurðsson
 

Jens fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð 6. júlí  1813. Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson, prestur á Hrafnseyri, og k.h., Þórdís Jónsdóttir húsfreyja.

Foreldrar Sigurðar voru Jón Sigurðsson, prestur á Hrafnseyri, og Ingibjörg Ólafsdóttir, lögsagnara á Eyri og ættföður Eyrarættar Jónssonar. Foreldrar Þórdísar voru Jón Ásgeirsson, prestur í Holti í Önundarfirði, og Þorkatla Magnúsdóttir.
 

Bróðir Jens var Jón Sigurðsson forseti, alþingismaður og skjalavörður. Systir Jens var Margrét, húsfreyja í Steinanesi, móðir Sigurðar Jónssonar, alþingismanns og sýslumanns.
 

Eiginkona Jens var Ólöf, dóttir Björns Gunnlaugssonar, stjörnufræðings og yfirkennara, og Ragnheiðar Bjarnadóttur og eignuðust þau níu börn. Meðal þeirra voru Sigurður Jensson, prestur og alþingismaður í Flatey; Jón Jensson, dómstjóri og alþingismaður, faðir Bergs Jónssonar alþingismanns, Björn Jensson, tengdafaðir Péturs Halldórssonar, borgarstjóra og alþingismanns, og Þórdís Jensdóttir, tengdamóðir Sigurjóns Jónssonar alþingismanns.
 

Jens lauk stúdentsprófi á Bessastöðum 1837 og embættisprófi í guðfræði frá Hafnarháskóla 1845.
 

Jens var barnakennari á Eyrarbakka veturinn 1845-46, kennari við Lærða skólann í Reykjavík 1846-69 og rektor Lærða skólans frá 1869 og til æviloka. Hann var auk þess ritstjóri „Tíðinda frá þjóðfundi Íslendinga“ sem haldinn var á Alþingi, í Lærða skólanum (á sal MR) árið 1851.
 

Jens var reyndar sjálfur þjóðfundarmaður fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu á þessum fræga þjóðfundi, árið 1851, þegar Jón, bróðir hans, mælti hin frægu orð er Trampe greifi sleit fundinum: „Og ég mótmæli í nafni konungs og þjóðarinnar þessari aðferð, og ég áskil þinginu rétt til þess að klaga til konungs vors yfir lögleysu þeirri, sem hér er höfð í frammi.“
 

Jens lést 2. nóvember 1872.

 

Morgunblaðið 6. júlí 2016 - Merkir Íslendingar

 

.
Hrafnseyri við Arnarfjörð.                                                            Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
,

 

Hrafnseyri við Arnarfjörð.                                                              Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.


Skráð af Menningar-Staður

 

05.07.2016 06:44

Bryggjuhátíðinni aflýst - söfnunarreikningur stofnaður

 

Stokkseyri. Ljósmynd / Mats Wibe Lund

 

Bryggjuhátíðinni aflýst - söfnunarreikningur stofnaður

 

Af virðingu við aðstandendur og minningu Hjalta Jakobs Ingasonar, sem lést í bruna á Stokkseyri síðastliðinn föstudag, hefur verið tekin ákvörðun um að aflýsa Bryggjuhátíð 2016, sem stóð til að halda á Stokkseyri um næstu helgi.

 

„Orð eru máttvana og fá ekki lýst þeirri sorg og þeim söknuði sem hvílir á foreldrum, systkinum og aðstandendum Hjalta Jakobs. Við vottum foreldrum, systkinum og aðstandendum Hjalta Jakobs okkar dýpstu samúð og hluttekningu. Megi allt hið góða styrkja ykkur í sorginni og megi hlý minningin um ungan, fallegan, ljóshærðan dreng vaka í huga ykkar og hjörtum um ókomna framtíð,“ segir í tilkynningu frá hátíðarhöldurum.

 

Stofnaður hefur verið reikningur til styrktar fjölskyldu Hjalta Jakobs, en hann lætur eftir sig foreldra og tvær yngri systur. Reikningurinn er í nafni móður Hjalta Jakobs, Gunnhildar Ránar Hjaltadóttur. Reikningsnr. 0586-14-400054, kt. 210686-4449. Margt smátt gerir eitt stórt.

 

Bænastund verður haldin í Stokkseyrarkirkju í kvöld, þriðjudagskvöld 5. júlí,  kl. 20:00 vegna andláts Hjalta Jakobs.

Af ww.sunnlenska.is

 


Skráð af Menningar-Staður