Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2016 Október

09.10.2016 11:33

FRAMKVÆMDASJÓÐUR FERÐAMANNASTAÐA - OPNAÐ FYRIR UMSÓKNIR

 

 

 

FRAMKVÆMDASJÓÐUR FERÐAMANNASTAÐA

- OPNAÐ FYRIR UMSÓKNIR
 

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða fyrir árið 2017. Umsóknafrestur er til miðnættis 25. október.

 

Framkvæmdasjóðurinn styrkir verkefni sem uppfylla a.m.k. eitt af eftirfarandi skilyrðum:

  1. Verkefnið er til uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum í eigu opinberra aðila eða á náttúruverndarsvæðum.
  2. Verkefnið er til framkvæmda sem varða öryggi ferðamanna og verndun náttúru á ferðamannastöðum í eigu opinberra aðila jafnt sem einkaaðila.
  3. Verkefnið er til undirbúnings- og hönnunarvinnu sem er nauðsynleg vegna framkvæmda á ferðamannastöðum eða á náttúruverndarsvæðum.

Nánar á umsóknasíðu

Á upplýsingasíðu um umsóknir er að finna allar nánari upplýsingar, m.a.:

  • Hvaða verkefni sjóðurinn styrkir ekki
  • Kröfur um mótframlag
  • Hvaða gögnum þarf að skila með umsókn
  • Áherslur og ábendingar til umsækjenda
  • o.fl.

Auglýsing sem PDF


Af www.ferdamalastofa.is

 


Skráð af Menningar-Staður

07.10.2016 11:20

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 7. október 2016

 

 

 

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 7. október 2016

 

.

.

.

.

.
Skráð af Menningar-Staður

 

07.10.2016 07:52

Bókakaffið á Selfossi er andleg orkustöð á flatlendinu

 

Image result for sunnlenska bókakaffið

 

Bókakaffið á Selfossi er andleg orkustöð á flatlendinu

 

Þær eru margskonar lýsingarnar sem fólk hefur látið falla um Bókakaffið á Selfossi, en það reka þau og eiga heiðurshjónin Elín Gunnlaugsdóttir tónskáld og Bjarni Harðarson, bóksali og rithöfundur. Sumir segja það besta bókakaffi í heimi, aðrir segja það vera andlega orkustöð á flatlendinu.

 

Bókakaffið lætur ekki mikið yfir sér en þar er afar mikla andlega næringu að finna sem og vöfflur, kökur og kaffi fyrir kroppinn. Þar er boðið upp á hina ýmsu menningarviðburði, sem eðli málsins samkvæmt eru oft tengdir bókaútgáfu, enda er bókaútgáfan Sæmundur til húsa á sama stað. Bókakaffið byrjaði fornbókasölu 2009 og nú eru um 24 þúsund titlar gamalla bóka á skrá í netbókabúð.

 

Bókakaffið fagnar tíu ára afmæli í dag, föstudag, og eru gestir velkomnir af því tilefni. „Á afmælisdaginn verður formlega settur á laggirnar bókaklúbbur sem heitir einfaldlega Sæmundur á sparifötunum og af því tilefni verður fólki boðið upp á þetta sögulega og menningarlega kex, Sæmund á sparifötunum, sem bragðast mjög bókmenntalega og sögulega þó að Kexverksmiðjan Esja sé ekki lengur við lýði. Einn höfundanna sem lesa hjá okkur á afmælinu þekkti Sæmund persónulega og mun aðeins segja frá honum,“ segir Bjarni og bætir við að slegið verði upp afmælisveislu frá kl. 15-18 í Bókakaffinu og klukkan 20 í kvöld sé menningardagskrá í boði Bókakaffisins og Uppbyggingarsjóðs Suðurlands.

 

„Í afmælisveislunni klukkan þrjú verður að sjálfsögðu afmæliskaffi í boði hússins. Auk þess mæta rithöfundar víðs vegar að og lesa upp, bóksalar bjóða upp kostagripi og sérstök afsláttarkjör verða á bæði nýjum og gömlum bókum. Rithöfundarnir sem mæta eru Ásdís Thoroddsen, Óskar Árni Óskarsson, Hallgrímur Helgason, Pjetur Hafstein Lárusson, Guðmundur Brynjólfsson, Halldóra Thoroddsen, Guðrún Eva Mínervudóttir og Hermann Stefánsson. Þá les Heiðrún Ólafsdóttir, rithöfundur og þýðandi, upp úr nýútkomnu verki grænlenska höfundarins Sørine Steenholdt.

 

Í kvöld er einnig dagskráin Ljóðfæri, en þar koma fram feðgarnir Þórarinn Eldjárn, ljóðskáld og rithöfundur, og Halldór Eldjárn, tónlistarmaður og tölvufræðingur. Þeir gramsa í ljóða- og hljóðasörpum sínum, spinna og tvinna, með hjálp ritvéla-, hljómborða og lyklaborða. Einnig koma við sögu segulbönd, hljóðgervlar, bækur, fetlar, blöð, hristur, burstar, snerill og blýantur.“

 

Allir eru velkomnir í afmælið og aðgangur er ókeypis.Skráð af Menningar-Staður

 

 

06.10.2016 06:51

Menningarmánuðurinn október í Árborg

 

 

 

Menningarmánuðurinn október í Árborg

 

Menningarmánuðurinn október hefst formlega föstudaginn 7. október nk. kl. 17:00 við Sundhöll Selfoss þegar ný söguskilti um Sundhöllina og mannlífið í lauginni verða afhjúpuð. Í framhaldinu hefst röð viðburða sem standa út mánuðinn. Margt fjölbreytilegt er á dagskrá svo flestir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

 

Dagskrána má sjá hér að neðan:

Menningarmánuðurinn október 2016

 

7. október: Söguskilti við Sundhöll Selfoss kl. 17:0=
Formleg opnun menningarmánaðarins október 2016 og afhjúpun söguskilta við Sundhöll Selfoss. Söguskiltin sýna myndir af byggingarsögu Sundhallar Selfoss ásamt myndum úr leik og starfi í Sundhöllinni.

8. október: Valgeir Guðjónsson – Saga Music Hall á Eyrarbakka kl. 16:00
Notalegir eftirmiðdagstónleikar í gamla frystihúsinu. Valgeir spjallar við gesti og spilar mörg af sínum þekkstu lögum í bland við ný. Frítt inn.

13. október: Opnun göngu- og hjólastígsins milli Eyrarbakka og Stokkseyrar kl. 10:30
Nemendur í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri afhjúpa nafnið á stígnum að lokinni nafnasamkeppni. Viðburðurinn fer fram á miðjum stígnum nálægt brúnni yfir Hraunsá kl. 10:30.

16. október: „Danskt kvöld í Tryggvaskála“ kl. 15:00–17:00
Norræna félagið á Selfossi og nágrenni býður í menningarveislu í Tryggvaskála sunnudaginn 16. október kl. 15-17. Húsið opnar klukkan 14.30 með kaffi og tilheyrandi. Í boði verður blönduð dagskrá með ljóðalestri, tónlist og vídeólist, flutta á dönsku, ensku og íslensku. Frítt inn.

22.–23. október: Póstkortasýning í Húsinu á Eyrarbakka kl. 12:00-16:00
Byggðasafn Árnesinga með póstkortasýningu í Húsinu. Aðgangseyrir 500 kr. og póstkort og frímerki innifalið. Frítt fyrir börn í fylgd fullorðinna.

23. október: Súputónleikar í Barnaskólanum á Stokkseyri kl. 12:00
Súputónleikar þar sem nemendur skólans ásamt einstaka starfsmanni og foreldri spila og syngja til styrktar tónmenntakennslu við skólann. Tekið er við frjálsum framlögum í verkefnið. Súpa og brauð gegn vægu gjaldi. Frítt inn.

27. október: „Stokkseyrardísa og sögur af Stokkseyringum“ – Menningarverstöðin á Stokkseyri kl. 19:30
Menningarkvöld í samvinnu við 825 Þorparar. Sögð saga Stokkseyradísu ásamt öðrum skemmtilegum sögum af Stokkseyringum. Margrét Frímannsdóttir stýrir kvöldinu. Skemmtilegar sögur, tónlist og fleira. Frítt inn.

28. október „Söngvarar í fortíð og nútíð“ – Hvíta Húsið á Selfossi kl. 21:00
Söngvarar ættaðir, búandi eða tengdir Sveitarfélaginu Árborg munu stíga á stokk með hljómsveit hússins. Einstakt kvöld með sögum og myndum af poppurum fyrri tíma og nútíðar og mun léttleikinn ráða ríkjum. Húsið opnar kl. 20:30. Frítt inn.

 

Íþrótta- og menningarnefnd Sveitafélagsins Árborgar.

 

.

Valgeir Guðjónsson.

.
Skráð af Menningar-Staður.

04.10.2016 07:34

Haustfagnaður í Hallskoti 1. október 2016

 

 

 

Haustfagnaður í Hallskoti 1. október 2016

 

Haustfagnaður var haldinn hjá Skógræktarfèlagi Eyrarbakka við Hallskot laugardaginn 1. október 2016.

 Tekið var vel á móti gestum og þeim boðið í grillmat með öllu tilheyrandi.

Við grillidð stóð Ingólfur Hjálmarsson.

Snilldar framtak hjá skógræktinni.
 


Takk fyrir okkur.

Halldór Páll Kjartansson.

 

.

.

 
 


Skráð af Menningar-Staður

04.10.2016 06:57

Bókin Forystufé er komin út

 

 

 

Bókin Forystufé er komin út

 

Bókin Forystufé eftir Ásgeir frá Gottorp er nú komin út í annarri útgáfu, með margskonar ítarefni og bókarauka. Bókin er í sama broti og frumútgáfan en 468 síður og prentuð í fjórlit. Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi gefur út.

 

Allmargir pöntuðu bókina á sérstöku tilboðsverði í forsölu og geta þeir vitjað um eintök sín í Bókakaffinu á Selfossi en þar er opið mán.-lau. kl. 12-18.

 

Bókin Forystufé eftir Ásgeir frá Gottorp er leiðarsteinn innan íslenskra búvísinda og þjóðfræði. Höfundur safnaði saman sögum af þessum merku skepnum alls staðar að af landinu. Elstu sögurnar eru yfir aldargamlar þegar þær eru skráðar en aðrar samtímafrásagnir höfundar. Hér er fylgt almennri reglu íslenskra sagnamenningar við skrásetningu og jafnan leitast við að leyfa sagnalistinni að njóta sín samhliða því að halda ætíð því fram sem sannast reynist. Sögur Ásgeirs eru hetjusögur af sauðfé og draga fram ótrúlega vitsmuni og náttúrugreind þessarar dularfullu skepnu.

 

Bókin er nú öll prentuð í lit og hana prýðir mikill fjöldi ljósmynda, þar á meðal heilsíðumyndir úr verkinu Forystufé eftir Ólöfu Nordal myndlistarmann. Þá hefur verið leitað í smiðju Ragnars Þorsteinssonar í Sýrnesi, Sigurðar heitins Sigmundssonar í Syðra-Langholti og fleiri valinkunnra ljósmyndara.

Af www.dfs.is


Skráð af Menningar-Staður

01.10.2016 06:59

Gunnar Ingi Olsen - Fæddur 4. nóvember 1930 Dáinn 23. september 2016 - Minning

 

 

Gunnar Ingi Olsen.

 

Gunnar Ingi Olsen - Fæddur  4. nóvember 1930

Dáinn  23. september 2016 - Minning

 

Gunnar Ingi Olsen fæddist í Reykjavík 4. nóvember 1930. Hann lést á heilbrigðisstofnun Suðurlands 23. september 2016.

 

Foreldrar hans voru Pétur Rögnvald Olsen, f. 1901, frá Vidnes í Noregi, d. 1977, og Ingibjörg Gunnarsdóttir, f. 1894, frá Eyrarbakka, d. 1957. Bræður Gunnars voru Tryggvi Endal, f. 1928, d. 1998, og Óli Karló, f. 1935.

 

Gunnar var á öðru ári er hann flutti með foreldrum sínum á Eyrarbakka. Ungur fór hann að vinna ýmis störf til sjós og lands, vann margar vertíðir á vertíðarbátum og togurum frá Hafnarfirði og Reykjavík.

 

Þann 4. september 1957 kvæntist Gunnar eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingu Kristínu Guðjónsdóttur frá Eyrarbakka, f. 19. apríl 1938. Þau eignuðust fimm börn: Ingibjörg, f. 1958, M. Heimir Hjaltason, f. 1955, þau eiga fimm börn og tíu barnabörn. Þuríður, f. 1960, M. Friðrik Sigurjónsson, f. 1958, þau eiga þrjú börn og fjögur barnabörn. Þórunn, f. 1962, M. Finnur Kristjánsson, f. 1960, þau eiga fimm syni og þrjú barnabörn. Guðjón, f. 1963, M. Kristjana Garðarsdóttir, f. 1967, þau eiga þrjár dætur og eitt barnabarn. Pétur Rögnvaldur, f. 1965, M. Rut Björnsdóttir, f. 1965, þau eiga þrjú börn og fimm barnabörn.

 

Gunnar og Inga hafa búið öll sín hjúskaparár á Eyrarbakka. Afkomendur þeirra eru 43 talsins. Á sjöunda áratugnum var Gunnar vörubílstjóri í sandflutningum til Reykjavíkur. Hann hóf störf hjá Vegagerð ríkisins á Selfossi árið 1969, starfaði þar sem verkstjóri og síðast sem rekstrarstjóri. Gunnar vann hjá Vegagerðinni í rúm 30 ár eða þar til starfsævi hans lauk. Gunnar var mikið fyrir dýr og hélt bæði kindur og hross meðan heilsan leyfði.

 

Útför Gunnars fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, 1. október 2016, klukkan 14.

_________________________________________________________________


Minningarorð
 

„Ég kem og sæki þig milli klukkan fimm og sjö á mánudagsmorgun – þú verður tilbúinn!“ Þannig hófust samskipti okkar Gunnars Olsen vorið 1976, þegar hann hafði ráðið mig til að gegna starfi tippara í vegavinnuflokki sínum.

Sumrin fjögur sem ég naut þess að hafa Gunnar að yfirmanni eru eftirminnileg fyrir margra hluta sakir. Verkefnin voru um alla Árnessýslu frá fjöru til fjalla, bæði viðhald vega og nýframkvæmdir.

Gunnar var óþreytandi í því að hressa upp á landafræðiþekkinguna hjá vankunnandi tipparanum.

Hann kunni heiti á öllum fjöllum og helstu kennileitum sýslunnar. Hann þekkti líka flesta karla og kerlingar til sveita og stundum fékk maður að fara heim á bæi með honum.

Það komu margir að vegagerðinni og oft var þröngt setinn bekkurinn í matarskúrnum. Þá skipti máli að hafa gleðina í fyrirrúmi. Gunnar hafði gott geðslag og gæddi samfélagið í skúrunum með léttleika sínum. Hann ýtti heldur undir hvers konar sprell, sem fundið var upp á, og hló svo sínum dillandi hlátri á eldhúsbekknum þegar fjörið stóð sem hæst.

Gunnar hafði gott verksvit og gerði kröfur til sín og annarra um að skilað væri góðu verki. Hann var sanngjarn yfirmaður og ekki síður góður félagi.

Eftir að samstarfi okkar við vegagerð í Árnessýslu lauk hélst vinátta okkar alla tíð. Hann var traustur vinur og ómetanlegur er stuðningurinn sem hann veitti mér síðar, þegar ég var kominn til annarra starfa.

Það var ákveðin vinsemd og hlýleiki sem streymdi frá Gunnari þegar fundum okkar bar saman og spjallið við hann um landsins gagn og nauðsynjar var upplífgandi.

Nú þegar Gunnar Olsen hefur runnið æviskeið sitt á enda þakka ég fyrir gott samneyti við hann fyrr og síðar.

 

Magnús Karel Hannesson.Morgunblaðið laugardagurinn 1. október 2016

 

 
Skráð af Menningar-Staður